Hæstiréttur íslands

Mál nr. 801/2016

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Arnari Þórarni Barðdal (Haukur Örn Birgisson hrl.)

Lykilorð

  • Skilasvik
  • Málsmeðferð
  • Skilorð

Reifun

A var sakfelldur fyrir skilasvik, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa sem eigandi, framkvæmdastjóri og prókúruhafi V ehf. millifært í fjögur skipti af bankareikningum félagsins samtals 25.787.998 krónur á eigin reikninga, þar af tvisvar eftir að eignir félagsins höfðu verið kyrrsettar. Voru millifærslurnar ætlaðar greiðslur arðs og krafna sem tilkomnar væru vegna lána sem A veitti V ehf. en með greiðslunum skerti A rétt annarra lánadrottna til að öðlast fullnægju af eignum þrotabús V ehf. Þá var hann sakfelldur fyrir skilasvik, sbr. 2. og 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa með tveimur kaupsamningum selt fyrir óhæfilega lágt verð vara- og aukahluti V ehf. til F ehf. en A var einnig eigandi, framkvæmdastjóri og prókúruhafi þess félags. Voru munirnir veðsettir L hf. Kaupverð munanna var 3.350.000 krónur en samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna var verðmæti þeirra 12.306.492 krónur. Með sölunni, sem fram fór sama dag og farið var fram á gjaldþrotaskipti V ehf., skerti A rétt L hf. og annarra kröfuhafa til að öðlast fullnægju í eignum þrotabúsins. Við ákvörðun refsingar A var litið til þess að hann hafði ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Á hinn bóginn var horft til þess að brotin höfðu tekið til umtalsverðra fjárhæða. Var refsing A ákveðin fangelsi í 12 mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í 2 ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. nóvember 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 9. maí 2016. Það var síðan endurflutt tæplega fimm mánuðum síðar 6. október 2016 og dómur kveðinn upp 3. nóvember sama ár. Hafa engar skýringar verið gefnar á þessari málsmeðferð, sem er ekki í samræmi við 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Arnar Þórarinn Barðdal, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 807.276 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 3. nóvember 2016

Mál þetta, sem tekið var til dóms 6. október síðastliðinn, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 13. október 2015, á hendur Arnari Þórarni Barðdal, kennitala [...], Greniási 1, Garðabæ, ,,fyrir skilasvik með því að hafa á tímabilinu 4. ágúst til og með 30. desember 2009 sem eigandi, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Víkurverks ehf., kt. 631173-0559, (síðar LB09 ehf.) framið eftirfarandi brot í rekstri Víkurverks ehf. í aðdraganda þess að félagið var lýst gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 17. mars 2010:

I

Með því að hafa á tímabilinu 4. ágúst til 26. október 2009 millifært af bankareikningum Víkurverks ehf. á eigin bankareikninga, í eftirgreind fjögur skipti, þar af tvisvar eftir að kyrrsetning á eignum félagsins hafði farið fram þann 1. október 2009, samtals kr. 25.787.998. Millifærslurnar voru greiðslur tiltölulega hárra krafna sem voru tilkomnar vegna lána sem ákærði veitti til Víkurverks ehf. í kjölfar þess að hann keypti félagið í lok árs 2004 en með því skerti ákærði rétt annarra lánadrottna til að öðlast fullnægju af eignum þrotabúsins. Fjármunina nýtti ákærði í eigin þágu og sundurliðast færslurnar sem hér greinir:

Tilvik

   Dagsetning

Af bankareikning

Á bankareikning

Fjárhæð

1

     4. ágúst 2009

0116-26-000559

0117-05-061855

  2.790.000

2

      6. ágúst 2009

0116-26-000560

0117-05-061855

  1.800.000

3

26. október 2009

0515-04-253559

0701-15-630207

13.987.998

4

27. október 2009

0515-04-253559

0701-15-630207

  7.210.000

                                                                                                                                   Samtals kr. 25.787.998

II

         Með því að hafa þann 30. desember 2009 með tveimur kaupsamningum selt fyrir óhæfilega lágt verð varahluti og aukahluti Víkurverks ehf. til Ferðavals ehf., kt. [...], (síðar Vikurverks ehf.) en ákærði var framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eigandi Ferðavals ehf. Hlutirnir voru veðsettir [...] hf. (síðar A hf., hér eftir A), kt. [...], samkvæmt viðbótarveðsetningu, dags. 18. desember 2008, við tryggingarbréf, sem upphaflega var útgefið til A hf., kt. [...], nr. [...], dags. 25. ágúst 2008, en með viðaukanum var A veitt veð í heildarvörubirgðum Víkurverks ehf. Samanlagt kaupverð munanna var kr. 3.350.000 en samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna var verðmæti munanna samtals kr. 12.306.492. Með sölunni, sem fór fram samdægurs og krafist var gjaldþrotaskipta á félaginu, skerti ákærði rétt A og annarra kröfuhafa til að öðlast fullnægju í eignum þrotabúsins og dró taum félags ákærða, Ferðavals ehf., lánadrottnun Víkurverks ehf. til tjóns að samtals fjárhæð kr. 8.956.492. Sundurliðun seldra muna er sem hér segir:

Tilvik

Munir

Greitt

Verðmæti

Kaupverð

1

      Aukahlutir

1. júl. 2010

10.890.552

3.000.000

2

    Varahlutir

8. jan. 2010

1.415.940

   350.000

                                                                               Samtals                  12.306.492                  3.350.000 

                Telst háttsemin samkvæmt I. kafla ákæru varða við 4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og samkvæmt II. kafla við 2. og 4. tl. 1. mgr. 250. gr. sömu laga. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

                Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins 29. október 2015, en þá var Haukur Örn Birgisson hæstaréttarlögmaður skipaður verjandi ákærða að hans ósk. Fékk verjandinn frest til 4. nóvember 2015 til að kynna sér gögn málsins. Í þinghaldi þann dag neitaði ákærði sök. Fékk ákærði frest til 9. desember 2015 til að skila greinargerð af sinni hálfu, sbr. heimild 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í þinghaldi 9. desember 2015 lagði verjandi ákærða fram ársreikninga Víkurverks ehf., kröfulýsingar í þrotabú LB09 ehf. og fleiri gögn. Þá upplýsti verjandi ákærða að hann myndi ekki skila greinargerð í málinu. Fékk verjandinn viðbótarfrest til gagnaöflunar til 15. janúar 2016. Þá var bókað að aðalmeðferð í málinu væri fyrirhuguð 5. febrúar 2016. Fyrirhuguðum aðalmeðferðum 5. febrúar og 4. mars 2016 var frestað að ósk verjanda ákærða. Aðalmeðferð málsins fór fram 25. apríl 2016 og framhald aðalmeðferðar 9. maí sama ár. Frestun aðalmeðferðar var að ósk sækjanda sem óskaði eftir því að leggja fram viðbótargögn um stöðu Víkurverks ehf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins og leiða fyrir dóm til skýrslugjafar sem vitni starfsmenn A. Málið var dómtekið 9. maí 2016, en þar sem dómur var ekki lagður á málið innan tilgreinds frests samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 var málið endurflutt og dómtekið á ný 6. október síðastliðinn. 

                Ákærði neitar sök. Kröfur hans í málinu eru aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjandi ákærða krefst þóknunar sér til handa sem greidd verði úr ríkissjóði.

A

Aðdragandi máls þessa er sá að bú félagsins Víkurverks ehf., kennitala 631173-0559, (síðar LB09 ehf.) var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2010 og var Grímur Sigurðarson hdl. skipaður skiptastjóri í búinu. Ákærði í máli þessu var fyrirsvarsmaður hins gjaldþrota félags en fyrir gjaldþrotið starfrækti félagið verslun með fellihýsi, húsbíla, tjaldvagna, hjólhýsi og fleira því tengt. Þá annaðist félagið útleigu á ferðavögnum.

Þann 1. október 2009 var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Kópavogi beiðni [...] hf. um kyrrsetningu eigna Víkurverks ehf. vegna gjaldfallinna lánssamninga, samtals að fjárhæð 770.785.853 krónur, auk vaxta og kostnaðar. Var þar um að ræða þrjá lánssamninga, lán samkvæmt samningi dagsettum 3. október 2007, sem var í vanskilum frá 1. júlí 2009, lán samkvæmt samningi dagsettum 5. mars 2008, sem var í vanskilum frá 10. nóvember 2008 og lán samkvæmt samningi dagsettum 19. desember 2007, sem var í vanskilum frá 22. ágúst 2009. Í framlögðu endurriti úr gerðabók sýslumanns um fyrirtökuna segir að gerðarbeiðandi meti það svo að hann hefði veð í eignum gerðarþola fyrir 452.522.212 krónum og að gerðarbeiðandi krefðist kyrrsetningar fyrir mismuninum eða 318.538.631 krónu. Ákærði var viðstaddur kyrrsetninguna fyrir hönd Víkurverks ehf. og benti á bankareikning félagsins nr. [...] til kyrrsetningar en innistæða reikningsins var 24.545.058 krónur þann dag. Innistæða reikningsins var kyrrsett til tryggingar kröfunni en bókað að gerðin væri árangurslaus að öðru leyti. Kyrrsetningargerðin var grundvöllur að beiðni [...] ehf. um að bú Víkurverks ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Í málinu liggur fyrir minnisblað Víkurverks ehf., frá 20. nóvember 2009, um skuldastöðu og endurfjármögnun félagsins. Í minnisblaðinu er rakið að viðræður hafi átt sér stað á milli Víkurverks ehf. og [...] hf. um skuldastöðu þess fyrrnefnda og hvernig hægt verði að tryggja rekstrargrundvöll félagsins þannig að tjón bankans og eigenda verði lágmarkað. Í minnisblaðinu er gert ráð fyrir að skuldir bankans nemi 772.000.000 króna og að bankinn hafi veð fyrir 518.000.000 króna. Tillaga Víkurverks ehf. um lausn fólst samkvæmt minnisblaðinu í því að skuldir félagsins yrðu færðar niður um 203.000.000 króna, sem greiddar yrðu með hinum veðsettu eignum, lausafjármunum og nýjum lánum. Þá segir að félagið þurfi á allra næstu dögum að greiða aðrar gjaldfallnar skuldir, meðal annars vegna virðisaukaskatts.

Þann 30. desember 2009 voru undirritaðir tveir kaupsamningar á milli Víkurverks ehf. og Ferðavals ehf., en ákærði í málinu var hluthafi beggja félaga, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður þeirra beggja og ritaði undir samningana fyrir þeirra hönd. Annars vegar var um að ræða kaupsamning um „alla varahluti“ í verslun Víkurverks ehf. að Víkurhvarfi 6 sem seldir voru fyrir 350.000 krónur og hins vegar kaupsamning um „aukahluti“ í sömu verslun sem voru seldir fyrir 3.000.000 krónur. Vara- og aukahlutir Víkurverks ehf. voru því seldir á 3.350.000 krónur. Með matsgerð 4. apríl 2012 mat dómkvaddur matsmaður varahlutina á 1.415.940 krónur og aukahlutina á 10.890.552 krónur, eða samtals á 12.306.492 krónur.

Með bréfi 1. nóvember 2010 tilkynnti fulltrúi skiptastjóra þrotabúsins til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ýmis ætluð brot ákærða sem fyrirsvarsmanns hins gjaldþrota félags. Í bréfinu segir að við könnun skiptastjóra á reikningum félagsins hafi komið í ljós að millifærðir hafi verið töluverðir fjármunir af bankareikningum félagsins yfir á bankareikning ákærða stuttu fyrir kyrrsetninguna og töku félagsins til gjaldþrotaskipta með þar tilgreindum millifærslum auk þess sem varahlutir og aukahlutir hafi verið seldir fyrir óhæfilega lágt verð frá Víkurverki ehf. til Ferðavals ehf. með tveimur kaupsamningum 30. desember 2009. Málið var tekið til rannsóknar og lauk rannsókninni í október 2013. Svo sem fram er komið var ákæra gefin út 13. október 2015.

Skiptastjóri þrotabús LB09 ehf. höfðaði fyrir hönd búsins tvö einkamál vegna gerninga þeirra sem ákært er fyrir í máli þessu, en í báðum málum krafðist þrotabúið riftunar auk endurgreiðslu. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2012 í málinu númer E-929/2011: LB09 ehf. gegn Víkurverki ehf. var rift tveimur kaupsamningum á milli Víkurverks ehf. og Ferðavals ehf. frá 30. desember 2009 og Víkurverki ehf. gert að endurgreiða þrotabúinu 8.956.492 krónur auk dráttarvaxta. Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Með dómi Hæstaréttar Íslands 14. febrúar 2013 í málinu nr. 537/2012: Arnar Þórarinn Barðdal gegn Þrotabúi LB09 ehf. var rift fjórum greiðslum af bankareikningum LB09 ehf. til ákærða: 2.790.000 krónum sem inntar voru af hendi 4. ágúst 2009, 1.800.000 krónum sem inntar voru af hendi 6. ágúst 2009, 13.987.998 krónum sem inntar voru af hendi 26. október 2009 og 7.210.000 krónum sem inntar voru af hendi 27. október 2009. Var ákærði dæmdur til að greiða þrotabúi LB09 ehf. 25.787.998 krónur auk dráttarvaxta.

Svo sem fram er komið var ákærði framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eigandi Ferðavals ehf. Nafni þess félags var í desember 2009 breytt í Vikurverk ehf., kt. 500306-1650 með tilkynningu til fyrirtækjaskrár og tók síðarnefnda félagið við rekstri þrotabúsins og starfrækir sambærilega starfsemi og þrotabúið gerði áður og er ákærði framkvæmdastjóri og eigandi þess félags. 

B

                Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

         Ákærði gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa verið eigandi hins gjaldþrota félags frá upphafi, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður. Rekstur félagsins hafi alltaf gengið vel og hafi félagið borgað allar skuldir á gjalddaga. Ákærði kvað ástæðu þess að félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta vera að rekja til þriggja gengistryggðra erlendra lána sem félagið hafi tekið hjá A hf. Upphafleg lánsfjárhæð hafi verið um 320 milljónir en lánin hafi síðan hækkað í 770 milljónir. Hafi bankanum verið óheimilt að gengistryggja höfuðstól lánanna og því hafi útreikningur bankans á skuldum félagsins verið rangur. Félagið hafi verið gjaldfært til þess að greiða bæði vexti og afborganir fram á síðasta dag og því hafi það verið mistök að taka félagið til gjaldþrotaskipta.

         Þá kom fram hjá ákærða að í byrjun árs 2008 hafi félagið fundað með starfsmönnum A hf. um lánin. Auk ákærða hafi B og útibússtjóri bankans og aðstoðarmaður hans, C, setið fundina. Spurður um það hvort lán félagsins hjá bankanum hafi verið fallin í gjalddaga á árinu 2008 kvað ákærði svo ekki vera. Ákærða var þá kynnt að samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 537/2012 hafi lánin þrjú verið í vanskilum frá 22. ágúst 2008, 10. nóvember 2008 og 1. júlí 2009. Ákærði kvað það vera rangt. Ákærði bar að árin 2007, 2008 og 2009 hafi allt verið í eðlilegum skorðum, bankinn hafi aldrei reynt neinar innheimtur. Bankinn hafi alltaf tekið greiðslur af láninu, bæði afborganir og vexti, og hafi alltaf haft heimild til að taka af veltureikningi félagsins fyrir lánunum. Á þessum fundum á árinu 2008 hafi verið ákveðið að breyta þessu þannig að bankinn tæki bara vexti af lánunum. Ekki hafi átt að borga inn á lánin því að aðilar hafi verið sammála um hvað lánin væru orðin óeðlilega há. Bankinn hafi viljað fá meira veð. Félagið hafi átt stóran lager af hjólhýsum og ferðavögnum sem ákærði hafi boðið fram. Þannig hafi bankinn fengið meira veð og hafi í staðinn ætlað að lækka lán félagsins. Ferðavagnana hafi átt að selja á árinu 2009. Þegar vagn væri seldur hafi greiðslan átt að fara inn á annan lokaðan reikning hjá félaginu og þar skyldi peningum safnað saman. Reikningurinn skyldi síðar notaður til þess að greiða inn á lán félagsins við bankann þegar það væri komið í eðlilega fjárhæð.

         Spurður kvaðst ákærði kannast við tvö tryggingarbréf og nafnritun sína á bréfin, þar sem Víkurverk ehf. veðsetur A hf. umrætt lausafé, dagsett 25. ágúst 2008 og 18. desember 2008. Þá kannaðist ákærði jafnframt við tilkynningar til ríkisskattstjóra um breytingar á nöfnum fyrirtækja, annars vegar frá Víkurverk ehf. í LB09 ehf. og hins vegar frá Ferðaval ehf. í Vikurverk ehf. Kannaðist ákærði við að hafa staðið að þessum nafnabreytingum. Þá kannaðist ákærði við kaupsamninga á milli Víkurverks ehf. og Ferðavals ehf. 30. desember 2009 um kaup á aukahlutum og varahlutum. Kvaðst ákærði kannast við undirritun sína á kaupsamningana tvo og kvaðst hann hafa undirritað báða kaupsamningana fyrir hönd Víkurverks ehf. og að hann hafi líklega skrifað undir samninga fyrir hönd Ferðavals ehf. þótt hann gæti ekki staðfest það.

         Aðspurður hvers vegna ákærði hefði ákveðið að selja varahlutina og aukahlutina milli félaganna tveggja sagði ákærði að umræddar vörur hefðu nánast verið verðlausar. Aukahlutir seldust einungis tvo mánuði á ári, í júní og júlí. Ef þeir seldust ekki þá seldust þeir ekki næstu tíu mánuði. Og ef þeir seldust ekki aftur eftir árið væru þeir nánast orðnir verðlausir. Þessir auka- og varahlutir hefðu verið allt að fimm ára gamlir og sumir þeirra ónothæfir. Ákærði kvaðst hafa fengið D til þess að verðmeta skrifborð, innréttingar og verkfæri og um leið spurt hann út í verðmæti aukahluta og varahluta miðað við sölu þeirra á uppboði. D hafi tjáð ákærða að hann teldi að ef hlutirnir færu á nauðungaruppboð myndi verð þeirra vera 10-30% af kostnaðarverði. Spurður um það hvort hann hefði fengið leyfi frá A hf. til þess að selja aukahluti og varahluti milli félaganna greindi ákærði frá því að hann hefði verið í rekstri í 25 ár og hefði aldrei þurft leyfi frá banka til þess að selja neinar vörur. Þá neitaði ákærði því að umræddir aukahlutir hafi verið veðsettir A hf. Ákærði bar að tryggingarbréfið sem hefði verið útbúið í upphafi hefði verið tryggingarbréf í ferðavögnum. Bankinn hafi viljað tryggja sig og þannig hafi viðbótarveðsetningin, þ.e. viðauki við tryggingarbréfið, komið til þar sem sérstaklega væri tekið fram að allir tjaldvagnar, fellihýsi, hjólhýsi og allir vara- og aukahlutir allra vagna væru veðsettir, þannig að ekki færi á milli mála að vagnarnir yrðu ekki tæmdir. Viðbótarveðsetningin ætti því bara við um aukahluti sem séu á ferðavögnunum og væru tilgreindir sérstaklega, en ekki aukahluti úr verslun félagsins. Spurður um það hvort ákærði hafi á þeim tíma sem kaupsamningarnir hafi verið gerðir gert sér grein fyrir því að félagið væri á leiðinni í þrot svaraði ákærði því til að ,,á þeim tíma var það, gæti verið“.

         Þá var ákærði inntur eftir afstöðu sinni til matsgerðar dómkvadds matsmanns í málinu númer E-929/2011, þar sem matsmaðurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að aukahlutirnir og varahlutirnir hefðu verið seldir langt undir raunvirði, sagði ákærði matið vera rangt, enda hefði matsmaðurinn ekki haft neina þekkingu á þeim verðmætum sem hann hafi tekið að sér að meta. Þá kom fram hjá ákærða að samskipti hans og bankans á árinu 2009 hafi „engan veginn“ tengst vanskilum eða stöðu lánanna við bankann. Ákærði kvaðst aðspurður aldrei hafa heyrt neitt um nein vanskil frá bankanum, ákærði hafi ekki fengið einn tölvupóst, ekki eitt bréf. Ákærði kvaðst þó aðspurður hafa vitað að staða lánsins hefði hækkað.

         Ákærði kvaðst hafa verið viðstaddur kyrrsetningu 1. október 2009. Kyrrsetningin hafi komið ákærða og öllu hans starfsfólki á óvart. Bankinn hafi gert mistök með  kyrrsetningunni og hafi viðurkennt það. Eftir kyrrsetninguna 1. október 2009 hafi samningsviðræður hafist við bankann. Þá kvaðst ákærði kannast við minnisblað frá 20. nóvember 2009 um skuldastöðu og endurfjármögnun Víkurverks ehf. Greindi ákærði frá því að lögfræðingur hans á þeim tíma og endurskoðandi hans hefðu verið að reyna að hjálpa ákærða í þessu máli. Þeir hefðu viljað fá utanaðkomandi aðila til þess að meta stöðuna og hafi fengið fyrirtæki til þess og annan endurskoðanda. Sá endurskoðandi hafi unnið minnisblaðið. Spurður um aðkomu sína að gerð minnisblaðsins bar ákærði að endurskoðandinn hefði beðið hann um mikið af gögnum. Þá staðfesti ákærði aðspurður um það hvort minnisblaðið hafi farið um hans hendur áður en það hafi farið til bankans að það hefði gert það: ,,örugglega, líklega, já“.

                Ákærði var inntur eftir skýringum á því hvers vegna hann hefði fært samtals 25.787.998 krónur af reikningum Víkurverks ehf. yfir á eigin reikninga með fjórum millifærslum á tímabilinu 4. ágúst 2009 til 27. október 2009. Um millifærslurnar 4. og 6. ágúst 2009, samtals að fjárhæð 4.590.000 krónur, bar ákærði að rekja mætti þær til vaxta og arðs. Aðalsalan í rekstrinum færi fram í júní og júlí en í ágúst væri farið yfir það hvernig sumarið hafi gengið. Sumarið 2009 hafi gengið vel og félagið hefði átt hátt í 200 milljónir inni á reikningum. Vextirnir væru af fjármunum ákærða sem ákærði hefði lagt inn í fyrirtækið frá upphafi. Ákærði kvaðst hafa átt tugmilljónir inni í félaginu í mörg ár en hafi aldrei greitt sér arð úr því. Aðspurður hvers vegna ákærði hafi greitt sér arð á þessum tímapunkti svaraði ákærði því til að sumarið 2009 hafi gengið vel og að ákærða hafi vantað smá pening. Þetta hafi ekki verið háar fjárhæðir miðað við það hvað félagið átti inni á reikningum sínum. Aðspurður bar ákærði að millifærslan 4. ágúst 2009 hafi verið arður og vextir. Aðspurður hvort millifærslan 6. ágúst 2009 hafi einnig verið arður eða vextir svaraði ákærði því til að hann minnti að önnur millifærslan hafi verið vextir og hin arður.

         Þá greindi ákærði frá því að millifærslurnar 26. og 27. október 2009, samtals að fjárhæð 21.197.998 krónur, ættu rætur sínar að rekja til skuldar félagsins við ákærða. Félagið hafi átt í samningsviðræðum við bankann í október, nóvember og desember árið 2009. Félagið hafi viljað hreinsa til hjá sér og greiða niður allar skuldir félagsins, þar með talið skuld félagsins við ákærða. Ákærði kvaðst hafa sent endurskoðanda sínum tölvupóst og beðið hann að athuga fyrir sig hvað félagið skuldaði ákærða. Endurskoðandinn hafi sent honum til baka tiltekna fjárhæð. Síðan hafi þeir reiknað vexti og verðbólgu á þá fjárhæð sem félagið skuldaði ákærða á öllum þessum árum og ákærði hafi síðan fært þá upphæð af reikningum félagsins yfir á sig. Þannig hafi félagið borgað allar skuldir sem ekki var ágreiningur um nema skuldina við A sem hafi átt veð fyrir sínum skuldum. Þá kvaðst ákærði ekki hafa vitað að félagið væri að fara í gjaldþrot þegar umræddar millifærslur voru inntar af hendi. Samningsviðræður hafi alltaf verið í gangi við bankann.

         Ákærða var bent á að áðurnefndar millifærslur í október 2009 hafi farið fram eftir kyrrsetninguna 1. október sama ár. Ákærði sagði að í kyrrsetningunni hefði samkvæmt hans skilningi falist að einn reikningur félagsins hjá bankanum hefði verið kyrrsettur. Ákærði bar að sér hafi, þrátt fyrir kyrrsetninguna, verið heimilt að selja eignir og halda áfram rekstri félagsins. Þá kvaðst ákærði aðspurður ekki hafa verið að mismuna kröfuhöfum eða ívilna sjálfum sér umfram aðra kröfuhafa félagsins með umræddum millifærslum enda hafi ákærði, eftir að dómar hafi fallið í málum sem þrotabú félagsins höfðaði gegn ákærða og Víkurverki ehf., leyst málið með skiptastjóra þannig að ákærði hafi samþykkt að endurgreiða þessar fjárhæðir.  

         Vitnið E gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að kaupsamningur á milli ákærða og vitnisins, dagsettur 1. desember 2009, væri tilkominn vegna sölu á 50% eignarhlut vitnisins í Ferðavali ehf. til ákærða. Vitnið kvaðst aðspurt kannast við kaupsamning dagsettan 30. desember 2009 þar sem Víkurverk ehf. selur Ferðavali ehf. þar tilgreinda aukahluti og varahluti. Vitnið kvaðst hafa verið beðið um að undirrita kaupsamninginn en ekki hafa gert það, enda hafi vitnið ekki haft umboð til þess.

         Vitnið D greindi frá því að árið 2009 hefði ákærði beðið vitnið um að leggja mat á verðmæti lausafjármuna í eigu félagsins. Kvaðst vitnið hafa reynslu við að meta verðmæti og hafa unnið matsgerðir í dánar- og þrotabúum. Vitnið bar að það sem þurfti að meta hafi annars vegar verið skrifstofubúnaður og hins vegar varahlutir eða einhverjir hlutir tengdir tjaldvögnum og slíku, svo sem ljósabúnaður. Við matið hafi legið frammi langur listi yfir ýmis konar smáhluti án þess að vitnið myndi hvaða hlutir það væru. Vitnið kvaðst aðspurt kannast við tvo kaupsamninga milli Víkurverks ehf. og Ferðavals ehf. dagsetta 30. desember 2009, annars vegar um aukahluti og hins vegar varahluti. Kvaðst vitnið hafa lagt mat á verðmæti hlutanna þannig að það hafi metið hvað fengist fyrir þá á uppboði hjá sýslumanni. Matsvirði af hlutum sem þessum væri um það bil 25% af kostnaðarverði væru hlutirnir seldir á uppboði. Vitnið tók fram að á þeim tíma sem vitnið vann matið, það er á árinu 2009, hafi verið sérstakt ástand í þjóðfélaginu og enginn hafi vitað hvað framtíðin bæri í skauti sér. Hlutir hafi því verið að seljast langt undir eðlilegu verði á eins konar brunaútsölu. Vitnið tók fram að mat þess á hlutunum hafi miðað við ástandið eins og það hefði verið þá.

         Vitnið F héraðsdómslögmaður gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að Grímur Sigurðarson hæstaréttarlögmaður hafi verið skipaður skiptastjóri í þrotabúi LB09 ehf., áður Víkurverks ehf., en að Erlendur Gunnarsson hæstaréttarlögmaður hafi síðan tekið við sem skiptastjóri í byrjun árs 2015. Vitnið kvaðst hafa unnið að skiptum á búi félagsins sem fulltrúi skiptastjóra. Vitnið kvaðst haustið 2010 hafa skoðað lánssamninga félagsins við A. Skiptastjóri og vitnið hafi komist að þeirri niðurstöðu að lægri tvö lánin væru ólögmæt en að hærra lánið, sem hefði verið fasteignakaupalán, teldist lögmætt. Í framhaldinu hafi verið boðað til skiptafundar þar sem fulltrúar A hafi samþykkt þá afstöðu að lægri tvö lánin teldust ólögmæt og að senda bæri endurreiknaða kröfulýsingu vegna tveggja lægri lánanna. Ákærði og aðrir fulltrúar Víkurverks ehf. hafi verið mjög ákveðnir með að stóra lánið, sem hafi haft mest áhrif á stöðu þrotabúsins og það hvort félagið teldist gjaldfært eða ekki, væri líka ólögmætt. Tekin hafi verið sú ákvörðun, meðal annars vegna beiðni ákærða, að kanna hvort það lán teldist líka ólögmætt, enda hafi það skipt máli við mat á því hvort félagið hefði talist greiðslufært eða ekki. Það mál hafi endað með úrskurði héraðsdóms um að skiptastjóra væri ekki heimilt að taka nýja afstöðu til krafna. Í því máli hafi ekki reynt á efnisréttinn, það er hvort þetta tiltekna lán teldist ólögmætt eða ekki. Vitnið sagði að þó að þar til bærir aðilar frá endurskoðendafyrirtækinu KPMG ehf. hafi verið fengnir til þess að endurreikna lánið líkt og ef það væri ólögmætt. Ef lánið hefði talist ólögmætt þá hefði það valdið því að félagið hefði á þessum tíma líklega talist gjaldfært. En eftir úrskurð héraðsdóms hafi ekkert annað verið í boði en að halda áfram að vinna að gjaldþrotaskiptum og ljúka skiptum á búi félagsins. Vitnið sagði að þótt umrætt lán hefði verið stærsta krafan á hendur búi félagsins hefði það ekki verið eina krafan, félagið hafi verið með þrjú lán. Aðspurt kvaðst vitnið standa við sína upphaflegu afstöðu að lánið teldist lögmætt erlent lán. Dómaframkvæmd sýndi að mati vitnisins að þetta hafi verið rétt niðurstaða. Þá greindi vitnið frá því að umræddir þrír lánssamningar hefðu allir farið í vanskil töluvert fyrir töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta. Vitnið kvað það jafnframt vera rétt sem fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 537/2012 að lánssamningarnir hafi farið í vanskil 22. ágúst 2008, 10. nóvember 2008 og 3. júlí 2009.

               Vitnið G matsmaður gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa unnið matsgerð um verðmæti aukahluta og varahluta, hafa skrifað undir matsgerðina og standa við hana. Vitnið kvaðst hafa víðtæka reynslu af því að verðmeta lausafjármuni. Vitnið kvaðst hafa starfað við tjónamat og mat á lausafjármunum, tækjum og tólum fyrir tryggingafélög í 25 ár. Aðspurt hvort vitnið hafi haft einhverja reynslu af því að meta aukahluti og varahluti í ferðavagna sérstaklega kvað vitnið það hafa komið fram á matsfundi að vitnið væri með aðstoðarmann við matið sem hefði reynslu af verslun með aukahluti og varahluti í ferðavagna. Aðstoðarmaður vitnisins hafi verið kynntur fyrir matsbeiðanda og matsþola og engar athugasemdir komið fram. Við matið kvaðst vitnið bæði hafa notað ráðleggingar frá aðstoðarmanni og sína eigin reynslu. Vitnið hafi unnið matið eftir því hvernig ástandið var í þjóðfélaginu á árinu 2009. Matið hafi verið unnið miðað við þær upplýsingar sem vitnið hafi fengið á listum sem ákærði hafi sagt honum að hafi verið uppfærðir í árslok 2009 á innkaupsvirði. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við þessa lista eða verðið á þeim. Vitnið hafi beitt hefðbundnum afskriftum líkt og notaðar séu við mat á lausamunum fyrirtækja hjá tryggingarfélögum. Vitnið bar um að það hafi tekið 22% af bókfærðu verði við mat á aukahlutunum. Það væru hæfileg og eðlileg afföll.

         Vitnið H, löggiltur endurskoðandi, gaf skýrslu fyrir dómi. Greindi kvaðst hafa fært bókhald fyrir hið gjaldþrota félag LB09 ehf., áður Víkurverk ehf., frá upphafi þátttöku ákærða í félaginu, eða frá árinu 2004. Rekstur félagsins fyrir gjaldþrot hafi gengið mjög vel. Lausafjárstaða félagsins hafi verið sterk þegar það fór í þrot. Félagið hafi átt um 30 milljónir inni á almennum bankareikningi og 150 eða 180 milljónir á sérstakri bók sem hafi verið bundin fyrir A til ráðstöfunar á greiðslu skulda gagnvart þeim. Vitnið bar að lán félagsins hjá bankanum hafi ekki verið í vanskilum á árinu 2008, enda liti vitnið svo á að félagið greiddi af lánum með því að sérstök bankabók væri bundin fyrir bankann til ráðstöfunar. Vitnið kvaðst hafa vitað til þess að ákærði hafi verið í stöðugu sambandi við bankann um greiðslu lána á þessum tíma. Vitnið kvaðst ekki vita hvort greiddar hafi verið fullar afborganir af lánunum, en kvaðst hafa vitað að lánin hafi farið hækkandi. Bæði lánin hafi verið ólögleg og því hafi ólögmæt hækkun átt sér stað að mati vitnisins.

         Spurt um það hvort vitnið hafi vitað hvernig millifærslurnar fjórar af reikningum félagsins til ákærða væru tilkomnar kvaðst vitnið ekki vita hvernig eða hvenær ákærði hafi greitt sjálfum sér til baka en vitnið kvaðst minna að ákærði hefði greitt stofngreiðslu inn í félagið, upphaflega að fjárhæð 25 milljónir króna. Ákærði og vitnið hafi rætt um það á einhverju stigi, oftar en einu sinni, hvort það ætti að reikna vexti á þá fjárhæð. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að það væri eðlileg ákvörðun og að það væri ákvörðun ákærða og félagsins.

         Vitnið B gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hann hefði starfað sem sérfræðingur í deildinni „sértæk útlán“ hjá A. Vitnið kvað starf sitt hjá umræddri deild hafa falist í því að greina tryggingarstöðu bankans, og vinna úr því ef tryggingarskortur eða eitthvað slíkt væri á ferðinni. Aðspurt kvaðst vitnið kannast við félagið Víkurverk ehf. og fyrirsvarsmann félagsins, ákærða þessa máls. Vitnið kvaðst hafa verið í samskiptum við ákærða. Þegar greiningu bankans á stöðu félagsins hafi verið lokið hafi tryggingarskortur virst vera til staðar. Eins hafi verið óljóst með þrjár stórar lánalínur, sem tryggðar hafi verið með veðum í tækjum, fellihýsum, tjaldvögnum og fleiru slíku. Málið hafi snúist um það að kanna hvort þessar tryggingar væru til staðar og leysa þá úr því ef það væri til staðar skortur á tryggingum og selja þá eftir atvikum hlutina því að félagið hafi stefnt í gjaldþrot, það hafi verið yfirskuldsett. Aðspurt um aðdraganda þess að A lét kyrrsetja eignir félagsins 1. október 2009 bar vitnið að bankinn hafi fengið vitneskju um að útsala á lager félagsins hafi verið auglýst í blöðum. Bankinn hafi verið með veð í lagernum og talið hættu á að verið væri að selja lager sem bankinn átti veð í og það myndi ekki skila sér. Því hafi bankinn farið í kyrrsetningu á eignum félagsins. Þá hafi tvö mjög stór hjólhýsi verið leyst úr tolli en síðan aldrei fundist. Þá hafi félagið selt eitt og annað sem ekki hafi verið búið að losa veð af og greiðslur hafi ekki skilað sér. Eftir kyrrsetninguna hafi verið farið í að reyna að greina stöðuna, fara yfir það sem unnt væri að gera, leysa úr þessum málum og semja. Vitnið bar að það og yfirmaður vitnisins, I, hafi unnið að þessum málum fyrir hönd bankans. Félagið hafi skuldað umtalsverðar fjárhæðir og bankinn hafi reynt að leysa til sín þær eignir sem hafi verið veðsettar þeim til tryggingar. Bankinn hafi verið með miklar tryggingar með veði í tjaldvögnum, hjólhýsum og ferðabílum og öllu mögulegu.   

         Vitnið I gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hann hefði starfað sem forstöðumaður í deildinni „sértæk útlán“ hjá A árið 2009. Aðspurt kvaðst vitnið kannast við Víkurverk ehf. og fyrirsvarsmann þess, ákærða þessa máls. Vitnið hafi verið í samskiptum við ákærða. Vitnið bar um að árið 2009 hafi félagið verið í miklum vanda og ekki verið greitt af lánum. Deildin „sértæk útlán“ hafi fengið það verkefni að leita lausna og athuga hvort unnt væri að koma félaginu til bjargar. Félagið hafi ekki haft bolmagn til þess að greiða af lánunum og deildin hafi reynt að finna einhvern flöt á því að félagið færi í endurskipulagningu á útlánum þess. Deildin hafi reynt að stilla upp plani sem bæði bankinn og félagið gætu sætt sig við. Vitnið bar um að samningsviðræður aðila hafi verið á lokametrunum þegar ákærði hafi slitið þeim og sagst ætla að fara aðrar leiðir. Ákærði hafi ekki lýst því fyrir vitninu hvaða leiðir það væru.

         Aðspurt um aðdraganda þess að A lét kyrrsetja eignir félagsins 1. október 2009 bar vitnið að bankinn hafi séð hvert virtist stefna í málinu. Ákærði hafi bara ætlað að keyra félagið í þrot og þá hafi bankinn farið í að kyrrsetja þær eignir sem hann taldi sig eiga rétt á. Aðspurt hvort það væri einhver sérstök ástæða fyrir því að bankinn lét kyrrsetja eignir félagsins, þegar bankinn átti þegar veð í eignum félagsins, kvaðst vitnið minna að bankinn hafi talið að skjalagerðin væri kannski ekki alveg nógu góð hjá bankanum. Óskað hafi verið eftir kyrrsetningunni til þess að tryggja að þetta væri í lagi. Ekki kvaðst vitnið muna eftir því að bankinn hafi kyrrsett eignir félagsins vegna þess að bankinn hafi fengið vitneskju um að lager félagsins hafi verið auglýstur til sölu. Eftir kyrrsetninguna 1. október 2009 kvaðst vitnið hafa setið nokkra af þeim fundum þar sem samningaviðræður hafi verið reyndar. Vitnið bar að B hafi stýrt verkefninu fyrir hönd bankans. Samningaviðræðurnar hafi gengið út á að reyna að finna einhverja lausn þar sem ákærði hafi átt að koma með peninga inn í félagið og bankinn hafi á móti ætlað að afskrifa hluta skulda félagsins í þeim tilgangi að félagið gæti haldið áfram rekstri. 

         Vitnið J gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið greindi frá því að hann hefði hafið störf hjá [...] árið 2008, en áður hafi hann starfað hjá tjónadeild [...]. Vitnið hafi starfað sem yfirmaður hjá [...], sem sölustjóri ferðavagna, þar til í janúar 2012. Sem sölustjóri hafi vitnið séð um ferðavagna og allt viðkomandi þeim, svo sem innkaup á aukahlutum, varahlutum og fleiru. Vitnið kvað G hafa leitað til sín um aðstoð við matsgerðina vegna þess að vitnið hefði þekkingu á munum sem þessum vegna fyrri starfa. Fram kom hjá vitninu að það og matsmaðurinn hafi fengið lista yfir þá varahluti og aukahluti sem þurfti að meta. Þeir hafi farið í gegnum listana og skipt þeim upp, annars vegar í aukahluti og hins vegar í varahluti, og hafi síðan reynt að meta munina út frá því.  

         Vitnið C gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið greindi frá því að hann hafi starfað sem viðskiptastjóri í A í [...] árið 2009 og hafi haft umsjón með fyrirtækjum í því útibúi. Aðspurt kvaðst vitnið kannast við félagið Víkurverk ehf. og fyrirsvarsmann þess. Bankinn hafi veitt félaginu alhliða þjónustu í bankamálum. Vitnið hafi átt í samskiptum við ákærða vegna þessa. Rekstur félagsins hafi ekki verið í góðu horfi eftir gengisfall krónunnar en félagið hafi verið með erlend lán. Reynt hafi verið að leita lausna við þessum vanda.

C

Svo sem fram kemur í kafla A var ákærði eigandi, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Víkurverks ehf. fram að gjaldþroti félagsins, en félagið var lýst gjaldþrota 17. mars 2010. Beiðni um gjaldþrotaskipti á félaginu barst héraðsdómi 30. desember 2009. Nafni félagsins Víkurverks var breytt í LB09 með tilkynningu til fyrirtækjaskrár 28. desember 2009. Tilkynningin var undirrituð af ákærða og móttekin 4. janúar 2010.

Þann 1. október 2009 var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Kópavogi beiðni [...] hf. um kyrrsetningu eigna Víkurverks ehf. vegna þriggja gjaldfallinna láns-samninga, samtals að fjárhæð 770.785.853 krónur. Taldi gerðarbeiðandi sig hafa veð í eignum gerðarþola fyrir 452.522.212 krónum og var krafist kyrrsetningar fyrir mismuninum, 318.538.641 krónu. Ákærði var viðstaddur gerðina og benti á bankareikning númer [...] til tryggingar kröfunni með innstæðu að fjárhæð 24.545.058 krónur. Var gerðin árangurslaus að öðru leyti og var grundvöllur að beiðni [...] hf. um að bú Víkurverks ehf. (síðar LB09 ehf.) yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Í minnisblaði, dagsettu 20. nóvember 2009, um skuldastöðu og endurfjármögnun Víkurverks ehf. segir að undanfarnar vikur hafi átt sér stað viðræður á milli [...] hf. og Víkurverks ehf. um skuldastöðu félagsins og hvernig hægt væri að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækisins þannig að tjón bankans og eigenda verði lágmarkað. Vísað er til fundar 18. nóvember 2009 þar sem rætt hafi verið um útfærslu hugmyndar sem muni tryggja áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins. Í minnisblaðinu er vikið að lykilatriðum í viðræðum að undanförnu og hvernig bestum árangri verði náð. Einnig að þáverandi stöðu félagsins, rekstri þess árið 2008 og fram að 1. október 2009. Þá eru nefndar áherslur við lausn á vanda félagsins og loks gerð tillaga um útfærslu sem sögð er að flestu leyti byggð á hugmyndum bankans sem fram komu á fyrrnefndum fundi 18. nóvember 2009. Tekið er fram í minnisblaðinu að skuldir Víkurverks ehf. við bankann samanstandi af þremur lánum, fasteignaláni, birgðaláni og rekstrarláni og nemi samtals 772.000.000 króna. Á móti skuldinni hafi bankinn veð í fasteign félagsins, í birgðum þess og handveð í bankareikningi, auk þess sem annar bankareikningur hafi verið kyrrsettur. Þá segir orðrétt: „Þann 1. október sl. var farið yfir birgðir félagsins í nýjum og notuðum vögnum, varahlutalager og aukahlutum og nam kostnaðarverð þeirra 84 m.kr.“

Þann 30. desember 2009 voru undirritaðir tveir kaupsamningar á milli Víkurverks ehf. og Ferðavals ehf., en ákærði í málinu var hluthafi beggja félaga og var auk þess framkvæmdastjóri og stjórnarmaður þeirra beggja og ritaði undir samningana fyrir þeirra hönd. Annars vegar var um að ræða kaupsamning um „alla varahluti“ í verslun Víkurverks ehf. sem seldir voru fyrir 350.000 krónur og hins vegar kaupsamning um „aukahluti“ í sömu verslun sem voru seldir fyrir 3.000.000 króna. Vara- og aukahlutir Víkurverks ehf. voru því seldir á 3.350.000 krónur. Samkvæmt matsgerð G, dómkvadds matsmanns, 4. apríl 2012 voru varahlutirnir metnir á 1.415.940 krónur og aukahlutirnir á 10.890.552 krónur, eða samtals á 12.306.492 krónur.

Með bréfi 1. nóvember 2010 kærði skiptastjóri þrotabús LB09 ehf. (áður Víkurverks ehf.) til rannsóknar hjá lögreglu ætlaða refsiverða háttsemi ákærða sem fyrirsvarsmanns hins gjaldþrota félags. Í bréfinu segir meðal annars að varahlutir og aukahlutir þrotabúsins hafi verið seldir Ferðavali ehf. á lægra verði en nam kostnaðarverð þeirra sem hafi verið 14.141.585 krónur á aukahlutum, en 2.831.399 krónur á varahlutum. Hafi hlutirnir verið veðsettir [...] hf. með tryggingarbréfi nr. [...] að fjárhæð 165.000.000 krónur. Ekki hafi borist greiðslur í kjölfar sölunnar þrátt fyrir að í minnisblaði 20. nóvember 2009 komi fram viðurkenning á því að [...] hf. eigi veð í birgðum og varahlutum. Hafi minnisblaðið verið afhent í viðræðum LB09 ehf. við [...] hf. fyrir gjaldþrotið. Þá liggi fyrir verðmætauppgjör vegna birgða sem hafi verið afhent [...] hf. í viðræðum við bankanna fyrir gjaldþrot þar sem kostnaðarverð bæði auka- og varahluta sé metið á 30.900.000 krónur.

Í sama bréfi skiptastjóra segir einnig að við skoðun skiptastjóra á færsluyfirlitum reikninga LB09 ehf. hafi komið í ljós margar færslur þar sem millifærðir hafi verið fjármunir til ákærða stuttu fyrir gjaldþrotið og stuttu áður en kyrrsetning [...] hf. á reikningum félagsins hafi verið gerð.

Ákæruliður I.

Ákærða er gefið að sök að hafa á tímabilinu 4. ágúst til 26. október 2009 millifært af bankareikningi Víkurverks ehf. á eigin reikninga í fjögur skipti, þar af í tvö skipti eftir 1. október 2009, þegar kyrrsetning á eignum félagsins hafi farið fram, samtals 25.787.998 krónur, sem eru sundurliðaðar með eftirfarandi hætti: 4. ágúst, 2.790.000 krónur; 6. ágúst, 1.800.000 krónur; 26. október, 13.987.998 krónur og 27. október, 7.210.000 krónur. Í ákæru segir að millifærslurnar hafi verið greiðslur á kröfum sem voru tilkomnar vegna lána sem ákærði veitti Víkurverki ehf. þegar hann keypti félagið í lok árs 2004. Hafi ákærði nýtt fjármunina í eigin þágu og með því skert rétt lánadrottna til að öðlast fullnægju af eignum þrotabús Víkurverks ehf.

Ákærði neitar sök. Fyrir dómi greindi hann frá því að millifærslur af reikningum Víkurverks ehf. sem gerðar hafi verið 4. og 6. ágúst 2009, samtals að fjárhæð 4.590.000 krónur, hafi verið vextir og arður til hans af fjármunum sem hann hefði lagt inn í fyrirtækið í upphafi. Kvaðst ákærði hafa átt tugmilljónir inni í félaginu í mörg ár, en aldrei greitt sér arð. Reksturinn sumarið 2009 hafi gengið vel og því hefði hann ákveðið að greiða sér arð þar sem hann hafi vantað fjármuni. Þá sagði ákærði að millifærslurnar 26. og 27. október, samtals að fjárhæð 21.197.998 krónur, ættu rætur að rekja til skuldar félagsins við hann. Hann hafi haft samráð við endurskoðanda félagsins um greiðslurnar, fengið hjá honum upplýsingar um það hvað félagið hafi skuldað ákærða og reiknað vexti og verðbólgu á þá fjárhæð og millifært fjárhæðirnar af reikningum félagsins á eigin reikning.

Sannað er með framburði ákærða og rannsóknargögnum málsins að ákærði tók í fjögur skipti fjármuni út af bankareikningum Víkurverks ehf. númer [...]; [...] og [...] og millifærði á eigin reikninga númer [...] og [...], samtals 25.787.998 krónur. Umræddum fjórum greiðslum sem millifærðar voru á reikninga ákærða var rift að kröfu þrotabús LB09 ehf. með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu númer 537/2012 og var ákærði dæmdur til að greiða þrotabúinu fyrrnefnda fjárhæð auk dráttarvaxta. A hf. átti veð í sérgreindu lausafé, það er skráningarskyldum ökutækjum, hjólhýsum og tjaldvögnum félagsins samkvæmt tryggingarbréfi númer [...], útgefnu 25. ágúst 2008. Þá veitti félagið bankanum viðbótarveð í ferðavögnum, varahlutum og öllum öðrum aukahlutum með tryggingarbréfi, útgefnu 18. desember 2008. Svo sem fyrr segir var gerð kyrrsetning hjá Víkurverki ehf. að kröfu [...] hf. þann 1. október 2009 sem var árangurslaus að hluta. Aðdragandi hennar voru vanskil Víkurverks ehf. á lánum bankans. Í forsendum dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 537/2012 segir að lánin þrjú í A hafi verið í vanskilum frá 22. ágúst 2008, 10. nóvember 2008 og 1. júlí 2009. Kom það einnig fram hjá fulltrúa skiptastjóra þrotabús LB09 ehf., F, í skýrslu hans fyrir dómi.

Krafa ákærða um sýknu af kröfu ákæruvaldsins er byggð á því að óumdeilt sé að ákærði hafi átt kröfu á félagið að fjárhæð 25.000.000 króna og að félagið hafi staðið mjög vel í ágúst 2009 þegar fyrstu tvær greiðslurnar voru lagðar inn á reikning ákærða og ekkert útlit fyrir gjaldþrot. Ásetningur hafi því ekki verið til staðar. Þá heldur ákærði því fram að félagið hafi raunverulega verið gjaldfært á þeim tíma þegar ætluð refsiverð háttsemi hafi átt sér stað. Á slíkar varnir verður ekki fallist, enda liggur ekkert fyrir um það í málinu að svo hafi verið. Fyrir liggur að ákærði var í viðræðum við starfsmenn A um rekstrarvanda félagsins og lausnir á honum á sama tíma og hann framdi brotin. Um það vitnar framburður þeirra starfsmanna bankans sem gáfu skýrslu fyrir dómi og samkvæmt framburði ákærða sjálfs var einnig fundað með starfsmönnum A í byrjun árs 2008 um skuldir félagsins. Margnefnd kyrrsetning 1. október 2009 á eign félagsins var að hluta árangurslaus. Í minnisblaði 20. nóvember 2009 er fjallað um bága stöðu félagsins og möguleg úrræði til að lágmarka tjón bankans og eiganda félagsins. Fram kom í skýrslu ákærða fyrir dómi að endurskoðandi hefði skrifað minnisblaðið fyrir félagið og hefði ákærði þekkt efni minnisblaðsins. Fyrir dómi sagði ákærði að minnisblaðið hefði „farið um hans hendur“ áður en það fór til bankans. Þá var félagið úrskurðað gjaldþrota 17. mars 2010 án þess að ákærði héldi uppi vörum. Samkvæmt frumvarpi skiptastjóra þrotabúsins að úthlutun úr búinu 19. febrúar 2015 greiddust einungis 15,59% upp í almennar kröfur sem lýst var, en í heild námu slíkar kröfur 327.691.915 krónum. Er ekkert það fram komið í málinu sem bendir til þess að félagið hafi staðið vel og verið gjaldfært þegar ákærði framdi þau brot sem lýst er í ákærunni. 

Með þeirri háttsemi ákærða að millifæra fyrrgreinda fjármuni af reikningum Víkurverks ehf., og leggja inn á eigin reikninga, skaut ákærði undan eignum félagsins og skerti með því rétt lánadrottna þess til að öðlast fullnægju af eignum félagsins. Það er enn fremur mat dómsins að ákærða hafi á þeim tíma sem greiðslurnar voru millifærðar af reikningum félagsins verið vel kunnugt um stöðu félagsins og því mátt vita í hvað stefndi. Það er því mat dómsins að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi framið það brot sem hann er saksóttur fyrir í I. kafla ákærunnar og verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem þar er lýst. Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal refsa fyrir skilasvik hverjum þeim sem gerist sekur um að skerða rétt einhvers lánadrottins til þess að öðlast fullnægju af eignum hans með undanskoti eigna. hefur ákærði með þeirri háttsemi sem lýst er í I. kafla ákærunnar gerst sekur um skilasvik samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er rétt heimfærð til refsiákvæða og gerð refsing fyrir brotið.

Ákæruliður II. 

                Samkvæmt þessum ákærulið er ákærði sakaður um skilasvik með því að hafa með tveimur kaupsamningum þann 30. desember 2009 selt varahluti og aukahluti Víkurverks ehf. til Ferðavals ehf. fyrir óhæfilega lágt verð. Var ákærði framkvæmda-stjóri, prókúruhafi og eigandi Ferðavals ehf. og ritaði undir samningana fyrir hönd beggja félaga. Voru hlutirnir veðsettir [...] hf. samkvæmt viðbótarveðsetningu 18. desember 2008 við tryggingarbréf, sem upphaflega var gefið út til A hf. 25. ágúst 2008. Kaupverð hlutanna var samanlagt 3.350.000 krónur, en samkvæmt mati dómkvadds matsmanns var verðmætið samtals 12.306.492 krónur. Fór salan fram sama dag og krafist var gjaldþrotaskipta á félaginu Víkurverki ehf.

Ákærði neitar sök. Fyrir dómi skýrði ákærði frá því að varahlutirnir og aukahlutirnir hefðu verið nánast verðlausir. Aukahlutir seldust aðeins í tvo mánuði á ári, það er í júní og júlí, og það sem þá væri eftir væri nánast verðlaust. Kvaðst ákærði hafa fengið D matsmann til að meta verðmæti hlutanna miðað við sölu þeirra á uppboði. Þá kvaðst ákærði ekki hafa þurft leyfi frá A til þess að selja hlutina milli félaganna og neitaði því að aukahlutirnir hefðu verið veðsettir bankanum. Loks sagði ákærði að mat hins dómkvadda matsmanns væri rangt og hefði matsmaðurinn ekki haft neina þekkingu á því sem hann var að meta. 

Með þeirri háttsemi ákærða að selja umrædda varahluti og aukahluti í eigu Víkurverks ehf., fyrir mun lægra verð en nam kostnaðarverði þeirra, til félags í hans eigu, sama dag og óskað var gjaldþrotaskipta á Víkurverki ehf., skaut ákærði undan eignum félagsins og skerti með því rétt lánadrottna þess til að öðlast fullnægju af eignum félagsins. Sem fyrr segir átti A hf. veð í tilgreindum eignum félagsins samkvæmt tryggingarbréfi númer 0116-63-160573, útgefnu 25. ágúst 2008 og fékk að auki viðbótarveð í ferðavögnum, öllum varahlutum og aukahlutum með tryggingarbréfi, útgefnu 18. desember 2008. Svo sem fyrr segir var gerð kyrrsetning hjá Víkurverki ehf. að kröfu [...] hf. þann 1. október 2009 sem var árangurslaus að hluta. Aðdragandi hennar voru vanskil Víkurverks ehf. á lánum bankans.

Ákærða gat með engu móti dulist raunveruleg fjárhagsstaða félagsins þegar hann seldi hann varahlutina og aukahlutina fyrir lágt verð og mun lægra endurgjald en nam kostnaðarverði þeirra sem hann þekkti. Þá var ákærða eða mátti vera kunnugt um þá staðreynd að hinir seldu hlutir voru veðsettir A hf. en fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa undirritað tryggingarbréfin og þekkja efni minnisblaðs, dagsett 20. nóvember 2009, sem hann lét útbúa vegna viðræða við starfsmenn A um skuldastöðu félagsins og fjárhagslega endurskipulagningu þess. Í minnisblaðinu er staðfest að varahlutalager og aukahlutir séu veðsettir bankanum. 

Þá liggur fyrir í málinu matsgerð dómkvadds matsmanna á verðmæti hlutanna sem gerir ráð fyrir tilteknum afföllum frá kostnaðarverði þeirra. Því mati hefur ákærði ekki hnekkt. Niðurstaða matsgerðarinnar verður lögð til grundvallar og telst samkvæmt henni sannað að söluverð varahluta og aukahluta til Ferðavals ehf. hafi verið lægra en nam raunvirði þeirra þegar kaupsamningarnir voru gerðir 30. desember 2009. Salan átti sér stað án samþykkis A hf. og sama dag og bankinn óskaði eftir gjaldþrotaskiptum á Víkurverki ehf. Með sölunni skerti ákærði rétt A hf. og annarra kröfuhafa félagsins til að öðlast fullnægju í eignum þrotabúsins, til hagsbóta fyrir eigin félag, Ferðaval ehf. Það er mat dómsins að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 að ákærði hafi framið það brot sem hann er saksóttur fyrir í II. kafla ákærunnar og verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem þar er lýst. Samkvæmt 2. og 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal refsa fyrir skilasvik hverjum þeim sem gerist sekur um að skerða rétt einhvers lánadrottins til þess að öðlast fullnægju af eignum hans með undanskoti eigna, þar með talið með sölu eigna fyrir óhæfilega lágt verð. Hefur ákærði með þeirri háttsemi sem lýst er í II. kafla ákærunnar gerst sekur um skilasvik samkvæmt greindum ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er rétt heimfærð til refsiákvæða og gerð refsing fyrir brotið.

D

Ákærði er fæddur 1972. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann ekki áður sætt refsingu. Ákærði verður gerð refsing fyrir skilasvik með því annars vegar að millifæra háar fjárhæðir af bankareikningum Víkurverks ehf. á eigin reikninga og hins vegar með því að selja aukahluti og varahluti í eigu Víkurverks ehf. til annars félags í eigu ákærða, Ferðavals ehf., sama dag og óskað var gjaldþrotaskipta á fyrrnefnda félaginu. Skýringar ákærða um að fjármunir þeir sem millifærðir voru á eigin reikning hans hafi verði arðgreiðslu og vextir vegna láns hans til félagsins eru í senn ótrúverðugar og haldlausar. Sama á við skýringar ákærða á verðmæti þeirra varahluta og aukahluta sem ákærði seldi félagi sínu, Ferðavali ehf. Brot ákærða þykja stórfelld og ásetningur hans einbeittur, en ákærða var eða mátti vera kunnugt um bága stöðu einkahlutafélagsins Víkurverks. Við ákvörðun refsingar verður litið til 6. og 7. töluliða 1. mgr. 70. gr. og 1. og 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Fært þykir að ákveða að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

E

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins. Verður ákærði dæmdur til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar hrl., vegna starfa hans á rannsóknarstigi og fyrir dómi, sem þykir hæfilega ákveðin 1.948.815 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan sakarkostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Arnar Þórarinn Barðdal, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar hrl., 1.948.815 krónur.