Hæstiréttur íslands

Mál nr. 139/2000


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Hlutdeild


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000.

Nr. 139/2000.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Kristjáni Guðmundi Snæbjörnssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

                                                   

Ávana- og fíkniefni. Hlutdeild.

K var dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar fyrir hlutdeild í fíkniefnabroti. Um var að ræða innflutning á 969 MDMA töflum og var brot K fólgið í því að hafa, að beiðni meðákærðu C, útvegað tiltekið heimilisfang í því skyni að þangað yrði sendur pakki með umræddum fíkniefnum. Niðurstaða  héraðsdóms um sakfellingu og refsingu var staðfest í Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing, sem honum var gerð í héraði, þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að héraðsdómur verði ómerktur, en til þrautavara að refsing verði milduð.

Fallist verður á með héraðsdómi að skilja verði ákæru í málinu þannig að ákærði sé borinn sökum um að hafa af ásetningi drýgt brotið, sem þar greinir nánar. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði í meginatriðum sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem honum var gefin að sök í ákæru. Var sú niðurstaða í verulegum atriðum reist á mati fjölskipaðs héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Ekki hafa verið færðar fram líkur fyrir því að það mat kunni að vera rangt svo að einhverju skipti, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og henni var breytt með 19. gr. laga nr. 37/1994. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða staðfest.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, sem verður þannig staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Kristján Guðmundur Snæbjörnsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2000.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, 4. janúar sl. gegn ákærðu, A [...], B [...], Kristjáni Guðmundi Snæbjörnssyni, kt. 180768-3789, Æsufelli 4, Reykjavík, og C [...], „fyrir eftirgreind brot gegn löggjöf um ávana- og fíkniefni framin í ágóðaskyni á árinu 1999, svo sem hér er rakið:

I.

Ákærðu A og B er gefið að sök að hafa á tímabilinu frá júní til júlí staðið saman að innflutningi á 976 töflum með fíkniefninu MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamíni), er barst hingað til lands með pósti þann 7. júlí.  Ákærði B átti frumkvæði að því að flytja fíkniefnið hingað til lands og fékk hann ákærðu A til þess að útvega það í Hollandi og láta senda hingað. Ákærða A sendi til Hollands kr. 100.000 í hollenskum gyllinum til kaupa á fíkniefninu sem hún lét senda á heimili feðganna D og E að [...], en heimilisfang þeirra hafði ákærði Kristján Guðmundur látið henni í té, sbr. lið II.  Fór ákærða A síðan að kvöldi fimmtudagsins 8. júlí ásamt ákærðu C að heimili feðganna, þar sem ákærða C fór inn og sótti pakka sem innhélt ofangreint fíkniefni og afhenti hann skömmu síðar ákærðu A.

II.

Ákærða Kristjáni Guðmundi er gefið að sök að hafa að beiðni ákærðu A látið henni í té heimilisfang feðganna D og E í því skyni að þangað yrði sendur pakki sem hann mátti vita að innihélt fíkniefni, sbr. lið I, en skömmu áður hafði ákærði fengið E til þess að samþykkja að pakkinn yrði sendur á heimili þeirra feðga og boðið honum greiðslu fyrir.  Fór ákærði þann 7. júlí með ákærðu A að [...] í þeim tilgangi að kynna henni aðstæður, en áður hafði ákærði afhent henni miða með heimilisfangi feðganna.  Daginn eftir að pakkinn barst E hafði hann símsamband við ákærða sem í beinu framhaldi tilkynnti ákærðu A að hún gæti sótt pakkann á heimili E.

III.

Ákærðu C er gefið að sök að hafa að kvöldi fimmtudagsins 8. júlí að beiðni ákærðu A farið á heimili feðganna D og E að [...] og sótt þangað framangreindan pakka sem hún mátti vita að innihélt fíkniefni og afhent hann skömmu síðar A, sbr. ákærulið I.

IV.

Teljast framangreind brot A, B og C varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974, en verknaður ákærða Kristjáns Guðmundar telst varða við sömu lagagreinar, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og að framangreindar 976 töflur með vímuefninu MDMA verði gerðar upptækar.“

I.

Málavextir eru þessir:

Miðvikudaginn 7. júlí 1999, kl. 09.45, fann Tollgæslan í Reykjavík 969 töflur af fíkniefninu MDMA sem faldar voru í pakka sem sendur hafði verið í hraðsendingu til Íslands á vegum fyrirtækisins Jóna hf., flutningsmiðlun Skútuvogi l E.  Umræddar töflur voru faldar í tuskubrúðu og höfðu verið saumaðar inn í maga brúðunnar.  Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík var annars vegar um að ræða 816 stk. af grábrúnum töflum, 9 mm í þvermál, en hins vegar 153 stk. af grábrúnum töflum með rauðum flekkjum.  Var sýni beggja tegunda taflanna sent Rannsóknastofu í lyfjafræði.  Kemur fram í matsgerð Þorkels Jóhannessonar 24. ágúst sl. að töflurnar innihéldu fíkniefnið methýlendíoxímetýlamfetamín (MDMA).  Skráður móttakandi pakkans var D, [...], og skráður sendandi pakkans var F [...].  Við athugun lögreglu kom í ljós að samkvæmt þjóðskrá voru í [...] skráðir þeir D [...] og E [...].

Ákveðið var að setja hættulaus gervifíkniefni í tuskubrúðuna og halda áfram eðlilegri afhendingu pakkans, undir stjórn og eftirliti lögreglu, í þeirri von að upplýsa  hver eða hverjir væru eigendur þeirra fikniefna sem verið væri að reyna að smygla inn til landsins.  Áður en afhending hófst heimilaði Héraðsdómur Reykjavíkur lögreglunni að koma fyrir búnaði sem næmi og tæki upp samtöl og annars konar hljóð eða merki í pakkanum.  Búnaðinum var komið fyrir í pakkanum áður en afhending fór fram.

Þann 7. júlí 1999, kl. 15.15, hófst eftirlit lögreglu með húsinu að [...].  Áður hafði verið haft samband við forsvarsmenn Jóna hf., flutningsmiðlunar, og þeir látnir vita um stöðu málsins.  Var ákveðið að starfsmaður og Þór Jónsson, tollvörður, myndu afhenda móttakanda pakkann, en Þór Jónsson, tollvörður, var klæddur samskonar fatnaði og starfsmenn Jóna hf., flutningsmiðlunar, nota við störf sín.

Klukkan 15.30 var pakkinn afhentur E [...], sem kvittaði á fylgiskjal pakkans fyrir hönd föður síns. Við hlustun mátti greina að pakkinn var lagður einhverstaðar niður í íbúðinni og ekki hreyfður meira. Ekki var unnt að greina orðaskil milli manna í íbúðinni.  Lögregla hafði eftirlit með stigahúsi og næsta nágrenni.

Klukkan 17.54 var bifreiðinni GI-631 ekið inn í Y. Bifreiðinni ók karlmaður, sem síðar kom í ljós að var ákærði, Kristján G. Snæbjörnsson, og í framsæti sat stúlka, sem síðar kom í ljós að var ákærða, A, kölluð S.  Bifreiðinni var ekið rólega inn í enda botnlangans og síðan út aftur.  Ekkert annað markvert gerðist næstu klukkustundir en þeir feðgar D og E fóru úr íbúðinni en komu fljótlega aftur heim. Þeim var veitt eftirför er þeir yfirgáfu íbúðina.  Við mátti greina að pakkinn var ekki hreyfður.

Þann 8. júlí 1999, kl. 11.30, fór lögregla að Y og handtók þar ofangreinda feðga vegna gruns um aðild þeirra að fikniefnainnflutningi.  Áður hafði héraðsdómur heimilað húsleit á heimili þeirra feðga með úrskurði.  Að svo búnu var eftirliti með íbúðinni hætt.  Í íbúðinni fannst tuskubrúðan uppi á hillu í fataskáp og lá kassinn utan af brúðunni á gólfi stofunnar við hliðina á símanum.

Að lokinni húsleit voru þeir D og E færðir í fangageymslu vegna frekari rannsóknar málsins. E greindi frá því í viðtali við rannsóknarlögreglumennina Sólberg Bjarnason og Kristinn Sigurðsson, sem fram fór í fangageymslu, að vinur hans, Kristján G. Snæbjörnsson, hefði boðið honum góða peningagreiðslu gegn því að E myndi taka á móti pakka frá útlöndum sem sendur yrði í Y.  Haft var samband við Helga Jóhannesson hrl., verjanda E, og samþykkti sá síðarnefndi að aðstoða lögreglu með því að afhenda gervifíkniefnapakka.  Ákveðið var að E myndi hafa símasamband við Kristján G. Snæbjörnsson og láta hann vita um komu pakkans.  Klukkan 17.48 hafði E síðan símasamband við Kristján og lét hann vita að pakkinn væri kominn.  E kvaðst sjálfur vera staddur í miðbæ Reykjavíkur og yrði kominn heim til sín um kl. 19.30.  Kristján sagðist þurfa „lát´ann aðilann vita“.  Símtalið var hljóðritað.  E var síðan látinn ganga heim frá verslunarmiðstöðinni í Mjódd og var kominn þangað kl. 19.41.  Áður hafði gervifíkniefnapakkanum verið komið fyrir í íbúð hans og lögregla hafði þar eftirlit.

Klukkan 22.10 var bifreiðinni [...] ekið inn Y.  Var henni lagt austanmegin á afleggjara, gegnt bifreiðaplani stigahúss nr. [...]. Farþegi bifreiðarinnar, C, gekk að Y, hringdi þar á bjöllu og gekk inn.  Ökumaður bifreiðarinnar var A.  Eftir stutta stund kom C gangandi út frá Y með gervifíkniefnapakkann og settist í bifreiðina [...] sem ekið var í burtu.  Veittu lögreglumenn þá bifreiðinni eftirför.

Bifreiðinni var síðan ekið sem leið lá að bifreiðarstæði við Bjargarstíg, rétt fyrir ofan gatnamót Grandarstígs og Bjargarstígs.  Þar yfirgáfu A og C bifreiðina og fóru inn að X.  Lögreglumenn, sem eins og áður segir, höfðu sett hljóðnema í tuskubrúðuna heyrðu að verið var að opna brúðuna sem töflurnar voru faldar í.  Ákváðu þeir því að fara inn að X og handtaka A og C í þágu rannsóknar málsins.

Er lögregla kom í íbúð A hafði hún hent brúðunni út um glugga á íbúðinni að baka til.  Þarna greindi A lögreglu frá því að erlendur karlmaður hefði haft símasamband við hana og boðið henni peningagreiðslu fyrir að ná í pakkann í Y og fara með hann á heimili sitt þar sem hann yrði seinna sóttur.  A kvaðst ekki vita hver þessi karlmaður væri né hver myndi sækja pakkann á heimili hennar eða hvenær. C greindi lögreglu frá því að hún hefði sótt umræddan pakka að Y að beiðni A, án þess að vita um hvað í pakkanum væri.  C var færð í fangageymslu lögreglunnar vegna frekari rannsóknar málsins.

A var reiðubúin að aðstoða lögreglu við frekari rannsókn málsins og afhenda gervifíkniefnapakkann á eðlilegan og fyrirfram ákveðinn hátt, undir stjórn og eftirliti lögreglu, með það að markmiði að upplýsa hver væri viðtakandi og hugsanlega eigandi fikniefnanna hér á landi.  Þann 8. júlí 1999, kl. 23.10, hófst eftirlit lögreglu með heimili A, X.

Eftir miðnætti aðfaranótt 9. júlí greindi A lögreglu frá því að hún ætti að sækja laun á vinnustað sinn, Þ rétt eftir kl. 01.00, en það hafi hún ákveðið  fyrirfram.  A sagði að fólk myndi gruna að ekki væri allt með felldu ef hún myndi ekki nálgast laun sín.  A greindi lögreglu einnig frá því að hún ætti pantað flugfar til Hollands um morguninn 9. júlí og að vinnuveitandi hennar, B, ætlaði sér að taka við íbúð hennar að X seinna um nóttina.  Við rannsókn málsins fannst flugmiði, sem staðfesti þessa fyrirhuguðu flugferð hennar.  A sagði eðlilegast að hún greindi B frá því að hún væri veik og hefði því frestað heimför sinni til Hollands.  Myndi B þá ekki óska eftir því að fá íbúð hennar strax.  Ítrekað aðspurð sagði A að enginn starfsmaður eða gestur Þ væri viðriðinn innflutning þennan á fikniefnum.  Í ljósi þessa var ákveðið að A færi á vinnustað sinn, Þ, til að ná í laun og láta vita um breytingu á heimför, undir eftirliti og stjórn lögreglu.  A kvaðst vera reiðbúin til að bera hlustunarbúnað á líkama sínum.  Klukkan 02.01 fór A akandi á vinnustað sinn, staldraði þar við innandyra í stutta stund og ók síðan aftur heim til sín kl. 02.21. Ekkert markvert gerðist eftir þetta.

Föstudaginn 9. júlí, kl. 05.15, hætti lögregla við eftirliti og  tilraun til afhendingar gervifíkniefnapakkans.  Húsleit var gerð á heimili A og hún síðan færð í fangageymslu og úrskurðuð í gæsluvarðhald um kvöldið.  Sama dag, kl. 07.27, var Kristján G. Snæbjörnsson handtekinn á heimili sínu, og úrskurðaður í gæsluvarðhald um kvöldið.  Síðar sama morgun var E úrskurðaður í gæsluvarðhald. 

D lést í umferðarslysi 17. september sl.

Þann 15. júlí 1999 heimilaði Héraðsdómur Reykjavíkur lögreglunni í Reykjavík húsleit í húsnæði tengdu ákærða B, þ.e. veitingastaðnum Þ, að [...], í kjallaraíbúð að X, í raðhúsi að V og í versluninni Z, [...].  Þann 16. júlí 1999 leit lögreglan á áðurnefndum stöðum og handtók B, en hann og unnasta hans  Við leit fundust engin gögn er ætla má að tengist rannsókn þessa máls. Við leitina  að X framvísaði B 0,47 grömm af hassefni og hálfreykt jóna, 1,27 grömm.

Við leit á heimili ákærðu A fannst meðal annars gulur miði á hollensku með verðútreikningi sem hún kannast við að hafa handritað.  Á honum stendur í þýðingu löggilts skjalaþýðanda.

„Samtals 1,500000

(p.k.) Kaupverð = 150.000

     þegar greitt =100.000

(p.h) Verð hjálparmanns =150.000

[...] (B?): 500.000 - 50.000 kaupverð =

450 - 50.000 ( p.h.verð hjálparmanns)

W: 500.000 - 50.000 (p.k. = kaupverð)

S: 500.000 - 50.000 (p.k. = kaupverð)”

Við handtöku ákærðu C fannst í fórum hennar miði með handrituðu heimilisfangi, Y, [...] og nafninu D. 

Rannsóknarlögreglumennirnir Sólberg Bjarnason og Kristinn Sigurðsson áttu hinn 8. júlí sl. samtal við E og verjanda hans, Helga Jóhannesson hrl., en ekki var unnt að yfirheyra E um málsatvik vegna veikinda og minnisleysis sem hann bar fyrir sig við upphaf máls.  E greindi frá því að Kristján G. Snæbjörnsson hafi boðið sér góða peningagreiðslu gegn því að E tæki við pakka frá útlöndum sem yrði sendur að Y.  E sagðist hafa átt þetta samtal fyrir um viku er þeir hafi verið staddir í eldhúsi á heimili Kristjáns.  E sagði að þetta hafi ekkert frekar verið rætt og ekkert verið ákveðið í þessum efnum.  Hafi hann ekki gefið Kristjáni svar um hvort hann væri tilbúinn til þessa eða ekki.  E sagði að hvorki hafi verið rætt um hversu há greiðslan yrði fyrir viðvikið né hafi hann spurt hvert innihald pakkans yrði.

Lögregla aflaði símgagna við rannsókn málsins að fengnum úrskurði héraðsdóms, meðal annars varðandi tiltekna síma er ákærðu höfðu aðgang að.  Kom í ljós að 10 símtöl/tilraunir voru skráð milli síma Kristjáns og E á tímabilinu 28. júní til 7. júlí.  Símtöl/tilraunir voru skráð 65 milli síma B og A á tímabilinu 16. júní til 9. júlí sl.  Þá voru 62 samtöl/tilraunir skráð milli síma Kristjáns og A frá 15. júní til 9. júlí og 130 símtöl/tilraunir á milli síma ákærðu Kristjáns og B.  Við könnun þessara símgagna mun ekkert hafa í ljós sem tengdist rannsókn málsins.  Við könnun tengsla milli síma A og W [...], sem síðar verður getið, kom í ljós að skráð eru talsvert mörg símtöl, fyrst 18. júní og síðast 8. júlí sl., meðal annars margsinnis 8. júlí sl., bæði örskömmu fyrir og eftir að pakkin var sóttur að Y.

II.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu og vitna við rannsókn og meðferð þess.

Ákærða A greindi frá því við fyrstu yfirheyrslu að karlmaður frá Hollandi hefði hringt í sig og beðið sig um að ná í pakka hjá karlmanni í fjölbýlishúsi að Y og fara með pakkann á heimili sitt þar sem hann yrði sóttur fyrir kl. 01.00 sama dag.  Hún kvaðst ekki hafa frekari upplýsingar um manninn sem hafi boðið henni 100.000 krónur fyrir viðvikið. A kvaðst hafa hent brúðunni út um glugga á svefnherbergi þegar hún hafi gert sér grein fyrir því að lögregla væri að koma á staðinn, hún hefði fengið fyrirmæli um að henda pakkanum ef eitthvað væri að.  Við húsleit hjá A var lagt hald á ýmis skjöl og pappíra auk gervifíkniefnapakkans og tuskubrúðunnar sem í honum hafði verið.

Þann 9. júlí 1999 var A yfirheyrð vegna rannsóknar málsins.  Þar hélt hún sig við þann framburð að hollenskur karlmaður sem hún vissi engin deili á hefði hringt í hana og boðið henni peningagreiðslu fyrir að ná í pakkann í Y og fara með hann heim til sín.

Ákærða kom til Íslands 29. maí og var það í annað sinn á árinu 1999.  Sagði hún tilgang komu sinnar hafa verið að kynnast betur unnusta sínum, R.  A kvaðst hafa farið að vinna sem nektardansmey í Þ. til að afla sér framfærslueyris.

A sagði að einum eða tveimur vikum eftir að hún kom til Íslands hafi ákærði B komið á tal við hana á vinnustað þeirra, Þ.  Hafi B spurt hana hvort hún vissi um einhvern aðila í Hollandi sem væri tilbúinn til að senda fikniefni til Íslands, en ekkert hafi verið rætt um hvaða efni eða hversu mikið magn.  Hafi hún sagt B að hún skyldi kanna þetta fyrir hann og láta hann vita.  Nokkrum dögum seinna hafi hún hringt í vin sinn í Hollandi, sem kallaður sé W, og greint honum frá erindi B.  A segir að W þessi hafi sagt að það væri ekkert mál að senda fikniefni til Íslands en hann hafi viljað komast í samband við B til að vita hversu mikið hann myndi fá greitt fyrir að senda efnin.

Nokkrum dögum seinna hafi hún verið stödd á heimili B, að V.  Hafi hún hringt í W úr farsíma sínum og síðan leyft þeim B að ræða sama í einrúmi í um 10 mínútur í farsíma hennar.  A kvaðst ekki vita hvort þeir ræddu allan tímann saman eða ekki, en W hafi verið enn á línunni þegar B rétti henni símann aftur.  Hafi W þá sagt henni að hún ætti að skipuleggja þennan innflutning ásamt B og vera tengiliður sinn.  Um kvöldið, er hún hafi verið stödd í Þ, hafi hún rætt um þetta við B sem hafi sagt henni að hún yrði milligöngumaður við W í Hollandi.  Kvaðst A hafa orðið svolítið undrandi á því er fram í sótti að hún ætti að gera allt sem gera þyrfti varðandi innflutninginn en B hafi sagt henni að hún myndi fá greitt um 300-400 þúsund krónur fyrir sinn hlut.

A kvaðst hafa hringt í W í Hollandi daginn eftir sem hafi sagt henni að hún ætti að senda peninga til vinar hans, L, í Hollandi og finna eitthvert heimilisfang á Íslandi sem senda mætti pakkann á.  Hafi hún spurt B hvort hann vissi um eitthvert heimilisfang en hann sagt að hún yrði að ákveða þetta alveg ein með W.  Hafi henni þá dottið í hug að spyrja ákærða Kristján G. Snæbjörnsson vegna þess að hún treysti honum best af því fólki sem vann í Þ.  Henni hafi einnig dottið í hug að Kristján vissi allt um málið sökum þess hversu góðir vinir þeir B og Kristján voru.  Þegar hún hafi spurt Kristján hvort hann gæti útvegað heimilisfang hafi hann spurt á móti fyrir hvern þetta væri og hafi hún þá sagt honum að þetta væri fyrir B.  Hafi Kristján sagt við sig að hann ætlaði sér að spyrjast fyrir um þetta og láta hana vita.  Kvaðst A hafa sagt við Kristján að hún myndi láta hann hafa peninga fyrir greiðann, en ekkert hafi þó verið rætt um fjárhæð eða greiðslutíma.  Hafi Kristján alls ekki viljað að B fengi vitneskju um að hann hefði útvegað A heimilisfangið.

A sagði að um kvöldið hafi hún sagt B að hún þyrfti peninga til að senda til W í Hollandi.  B hafi spurt hana hvort hún vildi fá peninga til að senda til Hollands eða fá útborgað.  Hafi hún sagt við B að hún vildi fá útborgað og hafi B greitt henni um 140.000 krónur í ýmis konar gjaldeyri.  B hafi síðan stungið upp á því að hún sendi þessa peninga til Hollands sem greiðslu fyrir fikniefnin.  Hafi B sagt að þau myndu síðan afgreiða þetta lán og því hafi hún ákveðið að ganga að þessu. Daginn eftir hafi hún farið í banka og skipt gjaldeyrinum, sem henni hafi verið sagt að væri um 3.500 gyllini, og fengið 3.000 gyllini og afganginn í íslenskum krónum, um 40.000 krónur.  Hún hafi síðan farið með gyllinin á næsta pósthús og sent í ábyrgðarpósti til L í Hollandi.  Þetta hafi hún gert samkvæmt fyrirmælum frá W, sem hafi ekki haft fast heimilisfang í Hollandi.

A sagði að nokkrum dögum seinna hafi hún verið við vinnu í Þ og hitt þar Kristján í svonefndu “VIP”-herbergi.  Kristján hafi þá sagt sér að hann hefði fundið mann sem hægt væri að senda pakka til og getið þess að sá væri ekki með öllum mjalla.  Hafi hún spurt Kristján hvort þessum manni væri treystandi og hafi hann þá sagt að  manninum væri treystandi þar sem hann myndi ekki gera sér grein fyrir því hvað væri að gerast, hann væri illa gefinn.  Kristján hafi síðan skrifað niður heimilisfang mannsins og nafn á miða og afhent henni.  Hafi Kristján sagt henni að maðurinn myndi hringja í hann og láta vita þegar hann væri búinn að fá pakkann.  Kristján hafi einhvern tímann spurt hana hvort maðurinn, hálfvitinn, fengi greiðslu fyrir að láta nota heimilisfangið ef hann spyrði eftir því.  Hafi hún sagt að hún vissi það ekki, hún hefði aldrei fengið nein svör um hvort greiða ætti þessum manni eða ekki.  Auk þess hafi legið fyrir að ekki ætti að ganga frá peningamálum fyrr en eftir að B væri búinn að fá pakkann í sínar hendur.

A sagði að daginn eftir hafi hún hringt í W og látið hann vita um heimilisfangið, Y.  Hafi W sagst ætla að senda þetta og hringja í hana þegar hann væri búinn að senda þetta af stað.

Tveimur dögum seinna hafi W hringt í A til að láta vita að pakkinn væri kominn í póst og hafi hún sama dag sagt B frá þessu í Þ.  Hafi B þá sagt við hana að það væri eins gott að þetta gengi eftir.  A hafi sagt við B að þetta væri ekki hennar áhyggjuefni, hann væri sjálfur að fá sendan pakka til Íslands og hún væri bara að aðstoða hann.  B hafi þá svarað henni á þann veg að færi eitthvað úrskeiðis væri það alfarið hennar mál og ef hún blandaði honum í málið myndi hún aldrei sjá Holland aftur.  Hún hafi brosað að þessu í fyrstu og haldið að hann væri að grínast en þá hafi B litið á hana og sagst meina hvert orð sem hann hefði sagt.

A skýrði svo frá að hún hafi nokkrum sinnum haft samband við W næstu daga til að spyrjast fyrir um hvenær pakkinn kæmi.  Hún hafi líka haft samband við Kristján vegna þessa en ekki fengið nein svör.  Kristján hafi komið í eitt skipti upp í V og þá hafi hún spurt hann hvort ekki væri skrýtið að E væri ekki búinn að hringja en Kristján hafi sagt að honum þætti þetta allt í lagi.  Þau hafi farið í bíltúr og ekið inn Y þar sem Kristján hafi sýnt henni hvar E byggi.  Kristján hafi sagt henni að hann vildi ekki fara til E fyrr en hann væri kominn með einhvers konar staðfestingu á að hann væri búinn að fá pakkann. Kristján hafi þó viljað hafa sem minnst afskipti af pakkanum og sagt eitthvað í þeim dúr að hann vildi ekki taka þátt í neinu slíku þar sem hann væri kominn með barn.

Rétt fyrir komu pakkans  hafi W hringt til hennar og sagt að pakkinn myndi berast sama dag.  Hún hafi farið í Þ um hádegið til að aðstoða við hitt og þetta.  Kristján hafi þar látið sig vita að pakkinn væri kominn heim til Þorsteins.  Hafi Kristján sagt að honum þætti eitthvað bogið við þetta allt saman vegna þess að E hefði skellt á í samtalinu en hún yrði að ráða þessu sjálf.  Hafi hún hringt í W og spurt hvort hún ætti að ná í pakkann eða ekki og hafi hann sagt að hún yrði að ráða þessu þótt hann mælti með því að hún næði í pakkann.

A kvaðst hafa látið B vita að pakkinn væri kominn og að hún myndi sækja hann seinna um kvöldið.  Hafi B sagt það vera fínt en ekkert meira.  B hafi síðar þennan dag greitt henni launin, en af þeim hafi hún samdægurs lánað Kristjáni 50.000 krónur vegna þess að hann hafi verið í peningavandræðum.  Við yfirheyrsluna 9. júlí sl. kvaðst ákærða hafa fengið 50.000 krónu tékka frá konu B, Svandísi, þar sem B hafi ekki átt peninga til að greiða laun hennar.  Fullyrti hún að lánið til Kristjáns tengdist ekki innflutningnum á fíkniefnunum.

Eftir þetta kvaðst A hafa farið til síns heima að X, en þar hafi verið fyrir H, I og C, sem allar hafi verið dansmeyjar í Þ.  Hafi hún beðið C að koma með sér út í verslun því hún þyrfti að tala við hana.  Hún hafi síðan spurt C hvort hún vildi vinna sér inn peninga sem C hafi viljað.  Hún hafi síðan sagt C að þetta hefði eitthvað með fikniefni að gera og C myndi fá helming, líklega 100.000 krónur, fyrir að ná í pakka, en hún (A) myndi aka bifreiðinni.  C hafi verið tilbúin til að gera þetta án umhugsunar eða frekari spurninga.  Eftir þetta hafi þær aftur farið heim og borðað ásamt H og I.  Hún hafi svo ekið C og I að V þar sem I hafi orðið eftir.  Því næst hafi hún og C farið sem leið liggur í Y.  A kvaðst hafa sagt C hvar þetta væri og auk þess látið hana hafa minnismiða með heimilisfanginu rituðu á.  Hafi hún stöðvað bifreiðina skammt frá stigahúsinu vegna þess að hún þorði ekki inn á bifreiðarplanið, en áður hafi hún fengið leiðbeiningar hjá J, samstarfsmanni sínum, um akstursleið að Y.  C hafi síðan farið inn í stigahúsið og komið aftur út með pakkann.  Þær hafi síðan ekið í burtu og á leiðinni heim hafi hún beðið C að taka tuskubrúðuna úr pakkanum og setja í töskuna sína því að W hafi beðið hana um það.  Þær hafi rætt á leiðinni heim hversu auðfengnir peningar þetta væru, en að öðru leyti ekki rætt þetta mál.

A sagði að þegar hún hafi verið að bíða eftir að C kæmi út úr Y hafi hún hringt í W til að láta hann vita að allt væri í lagi og svo hafi hún hringt aftur eftir að C var komin inn í bifreiðina með fikniefnapakkann.  Hafi hún síðan reynt að hringja í Kristján á leiðinni heim til sín en hann hafi ekki svarað símanum en hún hafi ætlað sér að spyrja Kristján hvort hann ætlaði ekki að greiða henni peningana til baka sem hún hafði lánað honum fyrr um daginn.

A sagði að eftir að hún lagði bifreiðinni við X hafi hún farið aftur í bifreiðina og sett kassann utan af tuskubrúðunni á gólfið ásamt pappírnum sem á pakkanum var.  Til hafi staðið að vera smá stund að X og fara síðan með tuskubrúðuna í Þ og afhenda hana B gegn greiðslu fyrir sig og C.  Er þær C voru komnar inn hafi hún farið með tuskubrúðuna inn í svefnherbergi og byrjað að þreifa á henni af forvitni.  Áður hafi hún litið út um eldhúsgluggann til að athuga hvort allt væri í lagi.  Þegar hún kom í svefnherbergið hafi hún heyrt mikil læti og þess vegna hent tuskubrúðunní út um gluggann þar.  Síðan hafi lögregla handtekið þær C.

A kvaðst ekki vita til þess að B og W hafi rætt frekar saman en í símtalinu er þau B voru stödd að V.  Hafi hún ekki gefið B upp símanúmer W heldur einungis sagt honum nafn hans. Hún kvaðst ekki hafa orðið vitni að samtali B og W og því gæti hún ekki upplýst hvað þeim fór á milli.  Kvaðst hún engin afskipti hafa haft af ákvörðun um magn eða tegund fikniefnanna og engar upplýsingar hafa fengið um hvernig greiðslum ætti að vera háttað, hún hafi einungis spurt W hvort hann gæti sent fikniefni tíl Íslands.

Í skýrslu sinni fyrir dómi játaði ákærða A sakargiftir að öðru leyti en því að hún kvaðst ekki hafa vitað um hvaða fíkniefni hafi verið um að ræða.  Hún skýrði frá í öllum megindráttum á sama veg og við rannsókn málsins.  Hún sagði að um tveimur vikum eftir að hún kom til Íslands hafi meðákærði B beðið hana um að athuga hvort hún vissi ekki um einhvern aðila í Hollandi sem gæti útvegað fíkniefni.  Tveim dögum síðar hafi hún hringt í vin sinn W og spurt hann hvort hann vissi um einhvern sem gæti annast þetta fyrir B.   Ákærða sagðist hafa verið í íbúð í V ásamt B og hafi þau verið ein í stofunni en hinar stúlkurnar sem þar bjuggu hafi verið í herbergjum sínum.  Lýsti hún símtali W og B á sama veg og við lögreglurannsókn.  W hafi sagt henni að hún ætti bara að hlusta á B og gera það sem hann segði.  Nokkru síðar hafi hún farið á skrifstofu B í Þ og spurt hann hver væri hugsunin með þessu og til hvers væri ætlast af henni.  Hafi hann sagt sem fyrr greinir að ákærða ætti að vera milligöngumaður á milli hans og W og hún ætti að sjá um að senda peninga á heimilisfang L í Hollandi, sem hún hafi gert.  B hafi gefið henni fyrirmæli um að útvega heimilisfang á Íslandi til að senda fíkniefnin á og greiða fyrir fíkniefnin með peningum sem hann myndi láta hana fá.  Þegar hún hafi látið hann vita að fíkniefnin væru komin hafi hún á sama tíma átt að fá greidd laun.  Hafi B sagt að hann ætti ekki meiri peninga og sagt henni að nota launin sín í þetta en hann myndi síðar greiða ákærðu til baka peningana sem senda þyrfti til Hollands til að greiða fyrir fíkniefnin.  Ákærða kvaðst ekki vita nákvæmlega um hversu mikla peninga hafi verið að ræða, en hún hafi sent 3.000 gyllini til Hollands.  Hafi B beðið hana um að senda þessa peninga út en hann hafi látið ákærðu hafa peningana í íslenskum krónum, þetta hafi þó eiginlega verið laun hennar.  Kvaðst ákærða svo hafa farið í banka, skipt peningunum og síðan farið í pósthús til þess að senda þá út.

Aðspurð um skýringuna á því hvers vegna hún hefði sagt við rannsókn málsins að B hafi látið hana hafa peningana í ýmsum gjaldmiðli, kvaðst ákærða telja það ekki hafa verið í þetta skipti.  Það hafi verið fyrr þegar hann borgaði ákærðu einhver laun þar sem hún hafi ekki átt peninga fyrir nauðþurftum.  Hafi hann látið hana fá peninga í mismunandi mynt.  Hún kvaðst hafa farið í banka og skipt þessum íslensku peningum í 3.000 hollensk gyllini og síðan fengið 40.000 krónur fyrir sjálfa sig.  Hún hafi tvisvar fengið peninga, einu sinni fyrir sjálfa sig og einu sinni til að borga fyrir fíkniefnin, en kvaðst ekki vera viss um í hvort skiptið hún fékk erlenda mynt með.  Um þann framburð sinn fyrir lögreglu að hún hafi fengið 140.000 krónur greiddar frá B og þar af hafi hún sent andvirði 100.000 króna út í hollenskum gyllinum, sagðist ákærða hafa kvittað fyrir móttöku þessarar greiðslu og kvaðst búast við að kvittunin væri á skrifstofu B. Hún sagðist hafa fengið tvær greiðslur, 40.000 og 100.000 krónur.  Muni hún fyrir víst að hafa fengið erlenda peninga, en kvaðst ekki muna nú hvort hún notaði erlenda eða íslenska peninga til þess að senda 3.000 gyllini til Hollands.  Hafi hún áður farið í banka, skipt peningunum og fengið 3.000 gyllini

Ákærða skýrði svo frá að B hafði sagt henni að hún ætti að skipuleggja þetta allt.  Hafi hún verið orðin hrædd við hann og gert allt sem hann sagði.  Hún skýrði frá á sama veg og fyrr um aðdraganda þess að hún leitaði til ákærða Kristjáns um heimilisfang sem mætti senda pakka á frá Hollandi.  Hann hafi spurt af hverju hún þyrfti á því að halda og hafi ákærða þá sagt „æ láttu ekki svona“ þú veist alveg fyrir hvern það er, en hann hafi þó ekki virst skilja það.  Síðan hafi Kristján gefið ákærðu heimilisfang hjá manni, sem hún muni ekki nafnið á.  Fyrst hafi Kristján sagst myndu athuga málið og eftir nokkra daga hafi hann látið ákærðu fá heimilisfangið.  Skýrði hún á sama veg og áður um viðræður þeirra Kristján um þann, sem senda ætti pakkann til.

Ákærða ítrekaði sem fyrr að eftir að pakkinn væri kominn á áfangastað hafi hugmyndin verið sú að maðurinn hringdi í Kristján, sem síðan hringdi í ákærðu til að láta hana vita um að pakkinn væri kominn. Hafi ákærða svo átt að sækja pakkann.  Ákærða sagði að Kristján hefði sýnt sér hvar þetta heimilisfang væri.  Kvöld eitt, þegar ákærða var í V, hafi hún hringt í Kristján til að spyrja hvort hann vissi, hvort eitthvað væri að gerast.  Hafi hann sagst ætla að koma og sýna ákærðu hvar þetta væri.  Þau hafi farið á bifreið R, kærasta ákærðu, af því að Kristján vildi ekki fara á sinni eigin bifreið.  Hana rámaði í að Kristján hafi ekið bifreiðinni þar sem hún vissi ekki hvar þetta var, en verið gæti þó að hún hafi ekið og Kristján sagt henni hvert ætti að fara. 

Ákærða sagði þau Kristján hafi einu sinni rætt sín í milli um það hver væri eigandi fíkniefnanna og hafi hún sagt við Kristján, „láttu ekki svona þú veist alveg fyrir hvern það er“.  Hafi Kristján sagst ekki vilja koma nálægt þessu vegna þess að hann ætti lítið barn og vildi ekki lenda í neinum vandræðum.  Kvaðst ákærða hafa nefnt það við Kristján þegar hún spurði hann hvort hann gæti útvegað heimilisfang, að þetta væri fyrir B.  Hún sagði ástæðu þess, að hún hefði sagt í gríni við Kristján að hann ætti ekki að láta svona, hann vissi alveg fyrir hvern þetta væri, vera þá að hana grunaði að ýmislegt meira væri að gerast í Þ heldur en venjulegri klúbbastarfsemi fylgir.

Hún hefði fengið heimilisfang óviðkomandi til að senda pakkann á til þess að unnusti hennar R vissi ekki af þessu vegna þess að málið var honum óviðkomandi.  Hún hafi viljað láta hann vera fyrir utan þetta.  Þau hafi leigt saman íbúð og hún hafi ekki viljað láta senda fíkniefnin þangað.  Ákærða kvaðst hafa talið að sá sem útvegaði heimilisfangið, myndi fá greitt fyrir það en ekki hafi hún vitað hvort Kristján myndi fá greitt fyrir að útvega heimilisfangið.  Hafi ákærða talið að Kristján myndi ræða það við B.

Ákærða kvaðst hafa verið mjög hrædd þegar hún þurfti að sækja pakkann og eiginlega ekki þorað að fara.  C hafi verið heima hjá ákærðu í íbúðinni ásamt fleiri stúlkum.   Hafi ákærða boðið C að gista hjá sér á þessum tíma vegna þess að C hafi farið í brjóstaaðgerð, en hún hafi legið fyrir mestan hluta tímans og horft á myndbandsspólur.  Kvaðst ákærða hafa boðið C að gista vegna þess að það var enginn í V sem sá um nektardansmeyjarnar í Þ.  Hún hafi boðið C að koma til sín svo hún gæti stjanað við hana eftir aðgerðina.  Síðan hafi ákærða spurt C hvort hún vildi ekki ganga með sér út í búð.  Það hafi þær gert og á leiðinni hafi hún spurt C hvort hún vildi peninga.  Hún hafi skýrt C frá því að hún (A) þyrfti að fara og sækja pakka sem hún héldi að hefði að geyma fíkniefni.  Hafi hún boðið C 100.000 króna greiðslu fyrir að sækja pakkann og C strax fallist á það.  Þessu næst hafi þær C farið aftur í íbúðina en þar hafi verið tvær stúlkur og önnur þeirra síðar farið heim.  Þær ákærða og C hafi svo ekið hinni stúlkunni, I, heim í V og farið þaðan að sækja pakkann. Ákærða sagði að það hefði verið vandræðalaust fyrir C að fara með og sækja pakkann þar sem hún hafi að nokkru verið búin að ná sér, þó hún hafi ekki mátt hreyfa sig mikið.  Kvaðst ákærða hafa sagt C hvar heimilisfangið væri og látið hana hafa miða með heimilisfanginu og húsnúmerinu, en ákærða hafi verið búin að fá þennan miða hjá Kristjáni sem hafi sýnt henni hvar þetta viðkomandi hús væri.  Ákærða sagði að hún hafi skrifaði á miðann „[...]”, „Island” og „[...]”, en Kristján hafi verið búinn að skrifa „Y” og „D”.  Kvað ákærða mögulegt að J hafi séð til þeirra þegar Kristján lét hana fá miðann með heimilisfanginu og kvaðst hún halda að hún hafi spurt J um póstnúmerið.  Ákærða kvaðst síðan hafa ekið bifreiðinni inn umrædda götu og nokkurn spöl frá húsinu í útskot þar sem hún beið eftir C.  Hún hafi sýnt C hvar ætti að fara inn í húsið.  Kvaðst ákærða ekki hafa viljað koma nálægt húsinu.  Síðan hafi C komið aftur og sett pakkann í bifreiðina og þær ekið af stað áleiðis að X. Ákærða sagði að hefði hún ekki verið að sækja fíkniefni hefði hún ekið með C alveg að stigaganginum.  Hún hafi verið hrædd um það sem gæti gerst, en C hafi ekki sýnt nein viðbrögð þegar ákærða stöðvaði bifreiðina þarna.  Ákærða kvaðst hafa verið taugaóstyrk, en ekki virst C vera það.

Ákærða sagðist ekki muna hvort hún hafði símasamband við W þegar hún var í bílnum með C á leiðinni til og frá Y, líklega hefði hún þó hringt tvisvar sinnum, en enginn hafi verið heima.  Hún kvaðst halda að hún hafi hringt í Kristján, en hann hafi ekki svarað. Hún hafi rætt við W þegar hún var í bílnum á meðan C var að sækja pakkann til að segja honum að C væri að sækja hann.  Eftir það hafi hún ekki talað við hann.  Ákærða sagðist vita að pakkann atti að senda til landsins með FedEx, en hún kvaðst ekki vita hvernig átti að búa um pakkann.

Ákærða kvaðst hafa sagt B að pakkinn væri kominn skömmu eftir að Kristján hefði greint henni frá því.  Hún og B hafi samið um að hún kæmi um kvöldið í Þ til þess að afhenda honum pakkann.  Ákærða kvaðst hafa hitt B þegar hún fór í Þ um kvöldið en þau hafi ekki talað mikið saman þar sem  hann var byggja pall, mikill hávaði hafi verið og erfitt að tala saman.  Ákærða kvaðst ekki hafa gefið B til kynna að eitthvað hefði farið úrskeiðis, hún hafi verið mjög taugaóstyrk og hrædd.

Ákærða var spurð um gulan miða, sem lýst er í niðurlagi I. kafla hér að framan.  Kvað hún þetta vera hugleiðingar sínar um skiptingu ágóða vegna sölu fíkniefnanna.  Hún hafi gert ráð fyrir að hún og B, sem hún kvaðst hafa kallað [...], fengju svipaða fjárhæð, um 500.000 krónur að frádregnum 50.000 króna kostnaði vegna aðstoðarmanna.  Hún kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir kostnaðarfrádrættinum á miðanum, þrisvar sinnum 50.000 krónur, hvort eða hvaða aðstoðarmenn hér væri átt við, en hélt þó fast við þann framburð að hún hafi boðið ákærðu C 100.000 krónur fyrir sinn sinn þátt í málinu og þau B hafi gert ráð fyrir því að hún fengi í sinn hlut 300-400.000 þúsund krónur. 

Ákærða ítrekaði að hún hafi engan þátt átt í ákvörðuninni um hvaða fíkniefni yrðu send til landsins.  Þeir W og B hljóti að hafa tekið þá ákvörðun.  Er gengið var á ákærðu kvaðst hún hafa haft grun um að um hafi verið að ræða E-töflur.  Kvaðst hún einhvern tímann hafa spurt einhvern um það hvað þessar töflur gætu kostað hér á Íslandi og hafi sér verið sagt að hægt væri að fá 1.500 til 2.000 krónur fyrir töfluna.  Aðspurð um þau ummæli hennar við rannsókn málsins að hana „grunaði einnig að þeir myndu ekki senda minna en 1000 stykki án þess að hafa neitt frekar fyrir mér í þessu“, svaraði hún því til að hún vissi að W „verslaði” oftast nær með um 1000 E-töflur, hann væri viðriðinn fíkniefni og sölu þeirra, enda hafi hún snúið sér til hans þegar B hefði beðið hana um að útvega fíkniefni.  Hún kvað þann framburð W hjá lögreglu í Hollandi rangan, að hún hafi hringt í hann og beðið hann um að útvega sér E-töflur.  Hið rétta væri að hún hafi beðið hann um fíkniefni án þess að tilgreina þau nánar.

Ákærða kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað hún átti inni fyrir vinnu hjá Þ en hélt að það væri um 100.000 - 150.000 krónur,  en þau B hafi ekki verið búin að ákveða nákvæmlega hvernig gera skyldi upp launamálin.  Hún hafi vonast til að fá greitt þegar hún kæmi með pakkann daginn áður en hún ætlaði til Hollands, en hafi að miklu leyti verið hætt að hafa trú á því þar sem að hún vissi að B ætti ekki peninga.  Sama dag, eða daginn áður, hafi hún fengið tékka að fjárhæð 50.000 krónur frá G, unnustu B.  Hafi ákærða sótt tékkann í verslun G, Z, en ákærða hélt að hún hefði ekki kvittað fyrir móttöku tékkans.

Ákærða kannaðist við að hún hafi tekið út drykki á eigin vegum á barnum í Þ, en B hafi alltaf skrifað meira heldur en það sem hún drakk og kvaðst hún því hafa verið fljót að hætta því og borgað sína drykki strax á barnum.  Hún neitaði því alfarið að skulda B fé, hið sanna væri að hann skuldaði henni laun. 

Ákærða kannaðist einnig við að hún hafi lánað meðákærða Kristjáni Guðmundi þær 50.000 krónur sem hún fékk greiddar frá G, unnustu B.  Hún hafi verið nýbúin að fá peningana en Kristján hafi þurft fé til þess að senda eitthvert. Henni hafi þótt allt í lagi að lána honum peninga þótt hún væri að fara af landi brott daginn eftir þar sem Kristján hafi lofað að greiða peningana til baka strax sama kvöldið.

Ákærða kvað ástæðu þess að hún greindi ekki lögreglu frá því að B ætti hlut að málinu strax og hún var handtekin vera þá að hann hafi hótað sér og hafi hún verið hrædd við að segja frá þessu.  Hún hafi einungis verið að hugsa um að finna einhverja sögu sem hún gæti sagt lögreglunni.  Hún sagði að það hafi heldur ekki hvarflað að sér að hætta við að sækja pakkann af ótta við B.  Sér hafi fundist B þvinga sig til þess að hjálpa honum við innflutninginn á fíkniefnunum.  Hann hafi alltaf verið að segja sögur af því hvernig hann hafi hótað fólki og hvað hann hafi gert.  Hafi henni staðið ógn af B.   Hann hafi hótað frá upphafi að neita að greiða henni laun sem hún átti inni ef hún aðstoðaði hann ekki við innflutninginn.

Ákærða staðhæfði að einu samskipti sín við W eftir að hún losnaði úr einangrun hafi verið í símtali.  Verjandi hennar hafi beðið hana um að hringja í W til að vita hvort hann vildi koma hingað til landsins að bera vitni.  Þau W hafi rætt saman á hollensku án viðurvistar rannsóknaraðila.

Ákærða sagði að þau W hafi ekki rætt um kaupverð á fíkniefnunum.  Varðandi þá fjárhæð sem hún sendi út kvað ákærða að B hafi látið hana fá peninga og sagt henni að senda þá út.  Hafi  B sagt henni að hún  þyrfti að nota sína eigin peninga til þess að senda út og ákærða mundi fá peningana endurgreidda þegar pakkinn væri kominn þar sem B ætti sjálfur í peningavandræðum.  Ákærða sagði að hún hafi reyndar alltaf gert ráð fyrir að hann myndi hvort sem er ekki borga sér launin né heldur fyrir þetta áður en hún færi til Hollands 9. júlí 1999.

Ákærða sagði að W væri eini aðilinn sem hún hafi haft samskipti við erlendis út af pakkanum með fíkniefnunum.   Hún hafi talað við hann í síma í þó nokkuð mörg skipti þar sem hún hafi ekki vitað hvernig átti að standa að sendingu peningana og hvert ætti að senda pakkann.  Um samskipti sín við W eftir samtalið þegar meðákærði B og ákærða voru í V kvaðst ákærða ekki muna nákvæmlega eftir öllum þessum símtölum.  Hún muni eftir því þegar W spurði ákærðu um heimilisfang til þess að senda pakkann á og þegar hann spurði hana hvort B væri traustur maður.  Einu sinni hafi ákærða hringt í W til þess að spyrja hvort hann væri búinn að senda pakkann.  Síðar hafi hann hringt aftur í ákærðu til þess að segja að hann væri búinn að senda pakkann.  Auk þess hafi þau hringt í nokkur skipti vegna peninganna.  Þegar peningarnir hafi ekki verið komnir til skila hafi þau hringt nokkrum sinnum sín á milli og hafi það komið í ljós að ákærða hafði sent þá á rangt heimilisfang.

Við handtöku greindi ákærða C frá því að hún hefði farið í Y með ákærðu A, til að ná í pakka.  C kvaðst hafa farið inn til að ná í pakkann að beiðni A og kvaðst ekki hafa vitað hvað í pakkanum var.  A hefði talað mikið í farsíma sinn meðan á þessu stóð, bæði áður en hún tók við pakkanum í Y og eftir að þær óku þaðan.  C kvaðst ekki vita meira um málið.

Þann 9. júlí sl. var C yfirheyrð vegna rannsóknar málsins.  Framburður hennar var í öllum meginatriðum á sama veg fyrir dómi.  Hún sagðist hafa verið allan daginn heima hjá A að X ásamt I.  Um kl. 19.00 hafi H komið til þeirra í heimsókn og dvalið í um klukkustund.  C sagði að þær hafði borðað saman og eftir það allar farið upp í V þar sem þær fóru inn.  C sagði að hún og A hafi dvalið þar í um tvær mínútur, en þá hafi A viljað kynna hana fyrir einhverjum sem þó ekki var þar.  A hafi ekki sagt nein frekari deili á þessum aðila.  Fyrir dómi var hún spurð nánar um þetta.  Sagði hún að þær A hafi við svo búið farið aftur niður í bæ þar sem A hafi sagt að hún vildi kynna hana fyrir einhverjum. Þetta hafi borist í tal áður en þær sóttu pakkann.  Þær hafi svo farið út í bifreiðina og ekið að Y.  Þar hafi A látið hana hafa heimilisfangið og hafi hún sagt við A að það væri ekkert vandamál fyrir hana að fara þangað.  Ákærða kvaðst ekki muna það með vissu hvenær A bað hana um að sækja pakkann, en minnti að það hafi verið í bílnum á leiðinni frá V.

C sagði að hún og A hafi síðan ekið frá V og um svæðið.  Stuttu eftir það hafi sími A hringt og hún talað hollensku í símann.  Eftir þetta hafi A spurt sig hvort það væri ekki í lagi að þær næðu í pakka en A hafi látið sig hafa miða með nafni og heimilisfangi á.  C sagði að þær hafi síðan ekið að Y þar sem hún hafi farið út úr bifreiðinni en A sagst ætla að snúa við á meðan.  Hafi C hringt bjöllu merktri D og til dyra hafi komið strákur.  C sagðist hafa spurt hvort hann væri D en hann spurt á móti hvort hún væri komin til að sækja pakkann.  Hafi C játað því og strákurinn þá farið inn í íbúðina og afhent henni pakkann.  Hann hafi spurt hana hversu mikið hann fengi fyrir þetta en hún hafi ekki vitað hvað hann væri að meina.  Hún hafi látið miðann, sem A afhenti henni, í vasa á buxum sínum.  Hún hafi svo farið með pakkann út í bifreiðina tiI A og þær ekið í burtu.  Fyrir dómi var hún innt nánar eftir því hvar A hefði stöðvað bifreiðina.  Kvaðst hún hafa þurft að ganga um 50 metra leið frá bifreiðinni og að stigaganginum þar sem ómögulegt hafi verið að fara upp að inngangnum vegna þess að það hafi ekki verið rými til að aka bílnum þangað. Minnti hana að bílastæðið hafi verið fullt.  Hún hafi séð númerið á stigaganginum er A stöðvaði bílinn. 

Þegar hún kom til baka að bílnum með pakkann í hendinni hafi þær ekið aftur að heimili A.  Þær hafi ekki rætt frekar um þann mann sem A ætlaði að  kynna fyrir henni.  Á leiðinni heim til A hafi einhver hringt í A og talað við hana hollensku.  A hafi einnig hringt í einhvern og talað á ensku en það eina sem A sagði var já og nei.  Kvaðst C hafa orðið vör við það á leiðinni að A var taugaóstyrk.  Hafi A beðið sig um að opna pakkann og setja tuskubrúðuna í handtösku hennar, hvað hún hafi gert.  Eftir að þær voru komnar að X hafi A tekið tuskubrúðuna með sér inn en skilið kassann eftir í bifreiðinni.  C kvaðst ekki hafa spurt um tuskubrúðuna, hún hafi hafa haldið að kærasti A væri að senda henni þetta frá Spáni þar sem hann dveldi.  A hafi fyrst sett tuskubrúðuna á borðið í stofunni og síðan litið út um eldhúsgluggann sem snýr að götunni.  Síðan hafi A tekið tuskubrúðuna og farið með hana inn í svefnherbergi.  Þá hafi hún orðið vör við mikinn hávaða og lögregla komið í íbúðina og handtekið þær.

C staðfesti að minnismiði sem fannst í fórum hennar væri sá sem A lét hana hafa.  Hún neitaði alfarið að A hafi minnst á það að fíkniefni væru með í spilinu og að hún ætti að fá peningagreiðslu fyrir sinn hlut.  Hún hafi enga hugmynd haft um það og ekki hafi verið minnst á fíkniefni í þessu sambandi.   Hún hafi haldið að hún væri að sækja venjulegan pakka.

Ákærða sagði fyrir dómi að þær A ynnu saman en væru ekki nánar vinkonur.  Þær hafi kynnst um miðjan júní sl.  Kvaðst hún hafa verið á heimili A að kvöldi 8. júlí sl. vegna þess að hún hafi gengist undir uppskurð og hafi A annast ákærðu og vinkonu hennar.  Hafi þær ekki hreyft sig mikið og legið mest fyrir í rúminu og horft á sjónvarp og hafi A eldað fyrir þær.  Aðspurð neitaði hún því að hún hafi farið út í búð með A og þar hafi A beðið hana um að ná í pakkann fyrir sig.

Ákærða kvaðst kvaðst hafa farið í umrædda brjóstastækkunaraðgerð í upphafi júlímánaðar.   Hún hafi fyrst farið upp í V eftir aðgerðina en A hafi þá boðið henni að vera hjá sér.  Það hafi ekki komið sér á óvart því A væri mjög góð stúlka.  Eftir aðgerðina kvaðst hún hafa þurft að taka inn verkjalyf, sem hún fékk hjá lækni. Daginn sem hún sótti pakkann hafi hún verið búin að taka inn mikið af verkjatöflunum.  

Þann 9. júlí sl. yfirheyrði lögregla ákærða Kristján G. Snæbjörnsson vegna rannsóknar málsins.  Kristján sagði að á tímabilinu 19.-24. júní sl.hafi A leitað til hans er þau voru stödd í Þ.  A hafi spurt sig hvort hann gæti útvegað heimilisfang fyrir hana til að senda pakka á sem hún myndi sjálf taka við.  Hafi hann svarað henni svo að hann myndi athuga málið.  Nokkrum dögum síðar hafi hún spurt hann á ný hvort hann væri búinn að útvega heimilisfang og hann svarað henni að hann væri að athuga málið.  A hafi sagt að hún væri reiðubúin að greiða þeim aðila sem ætti heimilisfangið peninga fyrir greiðann án þess þó að nefna neina upphæð.  A hafi jafnframt sagst ætla að vera sjálf í sambandi við aðilann sem tæki á móti pakkanum.  Kristján sagði að það hafi aldrei komið til greina að nota sitt eigið heimilisfang, hann hafi ekki vilja tengjast neinu sem hann vissi ekki hvað væri og fá greiðslu fyrir.  Hann sagði að hún hafi sagt sér að eigandi pakkans væri B.  Það hafi ekki komið honum á óvart því hann vissi að B hafi tengst innflutningi á fikniefnum fyrir nokkrum árum.  Hann kvaðst hafa orðið var við að strákar sem tengist fikniefnaheiminum hafi komið á skrifstofu B og dvalið þar í stuttan tíma og taldi hann að þessir strákar væru að eiga fíkniefnaviðskipti við B, þessar heimsóknir væru tíðar alla daga vikunnar.  B hafi þó aldrei rætt við sig um önnur fikniefnamál en sína eigin fíkniefnaneyslu. 

Aðspurður sagðist Kristján ekki vita það frá neinum öðrum en A að B væri eigandi þess pakka sem var sendur á heimili Þorsteins. Hann taldi að A væri á einhvern hátt eigandi pakkans eða hluta hans, án þess að geta útskýrt það frekar.

 Kristján sagði að þegar hann hitti E stuttu síðar á heimili sínu hafi þessi beiðni A rifjast upp fyrir honum.  Kristján sagði að hann hafi spurt Þorstein hvort erlendur aðili mætt senda pakka á heimili hans og viðkomandi aðili myndi síðan hafa samband við Þorstein áður en pakkinn yrði sendur.  Kristján sagði að E hafi samþykkt þetta strax án athugasemda, hann hafi spurt hvenær þetta myndi gerast en Kristján hafi ekki sagst vita það.  Hafi E verið sjáanlega ölvaður á þessum tíma.  Hafi Kristján síðan fengið upplýsingar hjá Þorsteini sem hann hafi skrifað á miða og afhent A á Þ nokkrum dögum seinna með þeim upplýsingum að þetta væri heimilisfangið sem hún gæti sent pakkann á.  A hafi svo hringt í sig og beðið sig um að aka sér að þeim stað þar sem E ætti heima.  Kvaðst Kristján því hafa náð í A og farið með henni í ökutúr að Y þar sem hann hafi sýnt henni hvar E byggi.

Kristján sagðist hafa verið staddur í Þ 8. júlí sl. er E hringdi í hann og lét hann vita að kominn væri pakki.  E hafi einnig sagt við sig að hann yrði kominn heim til sín kl. 19.30.  Kristján sagði að hann hafi sagt við Þorstein að hann myndi láta viðkomandi vita, hann hafi átt að láta A vita þegar pakkinn væri kominn.  Hafi Kristján hitt A á Þ ehf. og látið hana vita um þetta og hafi hún þakkað fyrir það.  Hann hafi sagt við hana að honum þætti eitthvað einkennilegt við að E hafi slitið símtalinu er hann hafi ætlað að leita eftir skýringum á því hvers vegna E hringdi í sig en ekki A.  Eftir þetta hafi Kristján beðið A um peningalán og hafi hún lánað honum 50.000 krónur rétt fyrir kl. 17.00.  Hann hafi fengið hringingu frá vini sínum á Spáni, P, sem hafi vantað peninga til greiðslu á húsaleigu þar ytra og beðið Kristján um að lána sér þá.  Hafi hann sent honum 60.000 krónur.  Kristján kvaðst hafa haft vitneskju um að A hafi fengið greitt frá B og því að beðið hana um að lána sér peninga, sem hann hafi síðan ætlað að endurgreiða henni næsta dag.  Hann hafi ætlað að biðja Einar Ólafsson um að senda þessa peninga en ekki komist í það og því sent þá sjálfur.  Kristján kvaðst ekki hafa leitað til B, yfirmanns síns, með peningalán vegna þess að hann taldi það ekki vænlegt, en frekar erfitt væri að fá peninga greidda frá B.  Hann hafi átt að fá launin sín greidd næsta dag og því hafi honum fundist það ágæt hugmynd að fá peninga að láni á meðan hjá A.  Eftir þetta kvaðst Kristján hafa verið við vinnu í Þ ehf. til kl. 06.00.

Kristján greindi frá því í framburði sínum, að hann vissi til þess að B hafi útvegað öðrum starfsmönnum sínum en dönsurum fíkniefni.  Hafi hann heyrt B rífast við þá aðila þegar kom að uppgjöri launa.  Hafi Kristján heyrt B tala við þá aðila um það að hann hafi látið þá hafa fíkniefni sem hluta af launum.   Kristján var leystur úr gæsluvarðhaldi þann 25. október sl.

Í skýrslu sinni  hjá lögreglu 12. júlí sl., kvaðst ákærði vilja taka það fram að hann átti sig nú á því að hann hafi gert mistök með því að útvega heimilisfangið.  Hann hefði átt að sjá að eitthvað var misjafnt á ferðinni en hann hafi verið undir miklu álagi í vinnunni og ekki hugsað skýrt.  Ítrekaði hann að hann hefði enga hugmynd haft um það hvað A hafði í hyggju með sendinguna og hann blandaðis á engan hátt inn í þennan fíkniefnainnflutning.

Ákærði sagði fyrir dómi að A hafi beðið sig um að útvega sér heimilisfang, sem hann hafi gert eftir að hún var búin að tala við hann þrisvar sinnum.  Hafi hann látið hana hafa miða með heimilisfangi og hafi hún hringt í hann og beðið um að hann sýndi sér hvar þetta heimilisfang væri sem hann og gerði.  Síðan hafi E, sá sem átti heima á því heimilisfangi sem pakkinn var sendur á, hringt í ákærða og sagt honum að kominn væri pakki heim til sín og gæti ákærði komið og náð í hann um hálf átta eða átta leytið.  Hafi ákærði látið A vita þetta.  Kvaðst ákærði vera hissa á því af hverju hún væri að hringja í sig vegna þess að A átti að tala sjálf við Þorstein.  Ákærða kvaðst hafa brugðið mikið þegar E hringdi í hann. 

Ákærði sagði að þau A hefðu verið í „VIP”-herberginu í Þ þegar hún bað hann að finna handa sér heimilisfang til að senda pakka á.  Hún hafi ekki nefnt af hverju hún þurfti þetta heimilisfang.  Kvaðst ákærði ekkert hafa hugsaði út í það á þessum tíma hvað senda ætti á þetta heimilisfang og ekki grunað hvað það væri.  Þá hafi ekkert verið rætt um það að ákærði fengi peningagreiðslu fyrir þennan greiða.  Ákærði kvaðst ekki hafa spurt A hver ætti sendinguna.

Aðspurður um það sem ákærði sagði í lögregluskýrslu að A hafi sagt honum að B hafi átt þessa sendingu, kvað ákærði hana hafa sagt sér það í „VIP”-herberginu í Þ, eftir að hann  lét hana fá miðann, að þetta væri líka fyrir B.

Ákærði sagði aðdraganda þess að hann útvegaði heimilisfangið að Y vera þann að frændi E hafi komið heim til ákærða og verið ölvaður og hafi ákærði hringt í E til þess að koma honum út.  Hafi E komið skömmu síðar og hjálpað ákærða að henda frænda E út.  Ákærði sagði að E hafi verið undir áhrifum áfengis en ekki mikið. Að því loknu hafi þeir E farið inn í eldhús og farið að ræða saman.  Hafi ákærða þá dottið í hug það sem A hafi minnst á við hann nokkru áður.  Ákærði hafi svo spurt E hvort ekki væri í lagi að erlend stúlka kæmi og talaði við hann í þeim tilgangi að fá að nota heimilisfangið hans til að senda pakka á.  Hafi E sagt að það væri ekkert vandamál.  Ákærði sagði að nú gerði hann sér grein fyrir því að A hafi örugglega ekki haft samband við E heldur einungis nýtt sér heimilisfangið.  Kvaðst ákærði ekki hafa boðið E neina greiðslu fyrir þetta en minnst á það að A myndi eflaust gera eitthvað upp við hann fyrir greiðann.  Ákærði sagði að þeir hafi ekki rætt neitt um það hvað í pakkanum væri.

Aðspurður um miða þann sem heimilsfang D og E var skrifað á kvaðst ákærði ekki muna hvort J skrifað þetta fyrir sig í „VIP”-herberginu í Þ.  Ákærði kvaðst ekki þora að fullyrða hvort þetta væri miðinn sem hann afhenti A.  Hann viðurkenndi þó hafa látið hana fá miða með heimilisfanginu og kynni þetta að vera sá miði.  Um ástæðu þess að ákærði lét ekki senda pakkann á eigið heimilisfang sagði hann að hann byggi í foreldrahúsum og væru foreldrar hans ekki jákvæðir gagnvart vinnustað hans.  Aðspurður um það sem ákærði sagði í fyrstu skýrslu sinni hjá lögreglu, að hann „vildi ekki hagnast á neinu sem ég veit ekki hvað er“ kvað ákærði að þetta væri einungis orðtúlkun.  Verjandi sinn hafi ekki verið við yfirheyrsluna og hann ekkert sofið nóttina áður.  Aðspurður um það sem eftir honum er haft hjá lögreglu, að A hafi sagt honum að eigandi pakkans væri B, sagði ákærði að hún hefði sagt honum að þetta væri fyrir B.  Kvaðst ákærði ekkert hafa hugsað frekar út í það.  Ákærði kvaðst vilja láta leiðrétta þann framburð sem hann gaf fyrir lögreglu, að ekki hafi komið honum á óvart að pakkinn væri einnig fyrir B þar sem hann vissi að B hafi tengst innflutningi á fíkniefnum.  Hann sagði að lögreglumenn hafi ekki túlkað rétt margt sem hann sagði við yfirheyrsluna.  Verjandinn hafi ekki verið viðstaddur yfirheyrsluna og hafi ákærða verið gefin svefntafla áður en yfirheyrslan fór fram.  Réttur skilningur sé sá að eftir á að hyggja hafi það ekki komið ákærða á óvart af því að hann viti að B hafi setið inni fyrir innflutning á fíkniefnum fyrir mörgum árum en ákærði viti ekki til þess að hann sé í neinu rugli núna.  Ákærði sagði um þau ummæli, sem höfð eru eftir honum við yfirheyrslu hjá lögreglu, að hann vissi „að B er tengdur fíkniefnum í dag og hefur verið það“ að hann væri að vísa til þess að B hafi sjálfur verið í neyslu.

Ákærði var spurður um eftirfarandi ummæli sín við yfirheyrslu hjá lögreglu: 

„Nei, ég hef ekki heyrt það, en ég veit þó til þess að hann hefur reddað öðrum starfsmönnum fíniefnum, en súlkum sem vinna hjá honum.  Ég hef heyrt hann rífast við þá aðila þegar uppgjör launa hefur átt sér stað hjá þeim við B.  Þá heyrði ég er B talaði um það við þá að hann hafi látið þá hafa fíkniefni og það væri hluti af launum þeirra.  Ég vil ekki nafngreina þessa aðila að svo komnu“.

Ákærði sagði að hér væri um að ræða stráka sem reykja hass.  Þetta væru ungir strákar sem hafi verið að vinna í Þ en voru hættir þá.  Hafi B öskrað þetta fyrir framan fullt af fólki í VIP-herberginu, en þeir hafi verið að biðja um laun og hafi B þá öskrað á þá að hann væri búinn að láta þá fá fíkniefni og þess vegna sé verið að tala um hass.  Viti ákærði til þess að þeir hafi fengð hass hjá B.

Aðspurður um þann framburð A fyrir dómi að ákærði hafi spurt hana um hvað væri í pakkanum og hún svarað „æ láttu ekki svona þú hlýtur að vita hvað það er“ kvað ákærði það rangt, hann hafi aldrei spurt hana hvað í pakkanum væri.  Aðspurður um þann framburð A fyrir dómi að sá sem átti að fá pakkann sendann væri svo ruglaður að hann mundi ekki átta sig á því hvað í pakkanum væri, kvað ákærði það vera mistúlkun.  Hafi ákærði verið að tala um D, föður E.  Hann hafi átt við geðræn vandamál að stríða, en E hafi átt við áfengisvandamál að stríða undanfarin ár.

Ákærði staðfesti þann framburð A að hún hafi hringt í hann og beðið sig um að fara að Y og sýna sér hvar heimilisfangið væri.  Hann kvaðst hafa talið að hún ætlaði að ræða við E.

Ákærði skýrði frá peningaláni A til sín 8. júlí sl. og og ástæðu lánsins á sama veg og áður. A hafi lánað honum peningana með því skilyrði að ákærði greiddi þá til baka um leið og hann fengi laun hjá B, en hann hafi ekki viljað láta B vita um þetta þar sem það hafi alltaf verið mikið vesen að fá peninga.  Kvaðst ákærði hafa ætlað að reyna að greiða henni peningana aftur um kvöldið en ákærði hafi þá ætlað að fá peninga hjá B.  Hann sagði að erfitt væri að fá greidda peninga hjá B en hann hafi þó alltaf greitt að lokum.  Ákærði kvaðst ekki geta fullyrt hvort hann vissi að ákærða ætlaði að fara úr landi daginn eftir, fyrst hafi hún ætlað að fara en svo ekki. 

Ákærði sagði að þeir E hafi átt stutt símtal eftir að pakkinn var kominn.  Hafi ákærði ætlað að reyna að tala við hann lengur, en E skellt á.  E hafi hringt í Þ og sagt ákærða að pakkinn væri kominn og að hann gæti sótt hann klukkan hálf átta eða átta og svo skellt á.  Ákærði viðurkenndi að hafa sagt það sem fram kom í afriti af símtali, að hann mundi „láta aðilann vita“, og hafi hann þá átt við A.  Hann kvaðst aðspurður ekki vita til þess að B hafi þvingað A til þess að hjálpa sér við innflutning á fíkniefnunum.

Ákærði kvaðst vera lesblindur og hafi hann ekki lesið yfir þær skýrslur sem hann gaf fyrir lögreglu og skýrslurnar hafi ekki verið lesnar upp fyrir ákærða.  Móðir sín og systir hafi lesið skýrslurnar eftir að hann fékk þær í hendur og sagt ákærða í megindráttum hvað í þeim stæði.  Þess skal getið að verjandi ákærða var ekki viðstaddur allar yfirheyrslur yfir ákærða við rannsókn málsins.

Þann 16. júlí var ákærði B fyrst yfirheyrður vegna rannsóknar málsins.  Hann neitaði alfarið sakargiftum í máli þessu, kvaðst enga aðild eiga að innflutningi fikniefnanna og því ekki hafa neina vitneskju um hann.  B kvaðst hvorki þekkja E né D.  Hann sagði ákærði Kristján  væri góður vinur sinn, þeir tali mikið saman en þó minna utan vinnu.  B kvaðst hvorki umgangast ákærðu A né C utan vinnutíma og ekki vera í sambandi við aðra aðila í Hollandi en umboðsmenn.  B kvaðst vera verslunarmaður, hann væri eigandi Þ. ásamt „óvirkum” rekstraraðila og meðeiganda, M.  B sagði ekkert tengja sig við innflutning þennan, hvorki símtöl né fjárgreiðslur. Hann kvaðst enga skýringu hafa á því hvers vegna hann væri borinn þeim sökum.

Ákærði sagði að þann 8. júlí sl. hafi A hringt í sig til að biðja um peninga.  Hann hafi rætt þessa peningagreiðslu við unnustu sína, G, því hann hafi verið peningalítill.  B sagði að úr hafi orðið að G hafi lánað Þ ehf. 50.000 krónur til að greiða A.  Hann hafi síðan verið við smíðar í Þ ehf. til kl. 21.00.  Hann hafi séð A um kvöldið í Þ; hún hafi komið um tvisvar sinnum til að tala um peningana.  Hafi hann sagt við A að hann hefði engan tíma fyrir hana, hann væri á miklum þeytingi.  Þegar hann var að koma inn í húsið um miðnætti hafi hann séð A.  Hann hafi verið farinn að forðast hana þar sem hún var farin að fara mikið í taugarnar á honum vegna peningavandræða hennar.  Hann hafi hvorki talað við A þarna né fylgst með henni eða séð A eftir þetta.  B kvað ákærða Kristján hafa verið í fríi þetta kvöld þar sem hann hafi ætlað að vera við smíðar um nóttina og því þurft hvíld. Hafi hann ekkert hugsað út í hvað Kristján var að gera þarna þetta kvöld og lítið rætt  við hann þar sem hann hafi lofað tveimur dögum áður að byrja á þessum smíðum en ekkert gert og því kvaðst ákærði hafa verið fúll út í Kristján.

B kvaðst aldrei hafa átt samskipti við A eða Kristján um innflutning á fíkniefnum.  Hann kannaðist ekki við aðila í Hollandi að nafni W og ekki heldur við aðila að nafni L.  Hann neitaði því að hafa rætt við mann að nafni W í síma.

Ákærði neitaði einnig sakargiftum fyrir dómi. Hann neitaði því alfarið að hann hefði beðið ákærðu A um að útvega fíkniefni frá Hollandi.  Hún hafi starfað hjá ákærða í maí og aðeins í júní en það hafi verið lítið.  Hann kvaðst ekki muna hvenær hún hætti störfum.  A hafi komið reglulega í Þ eftir það þar sem allar vinkonur hennar hér á landi voru að vinna þar.  Auk þess hafi hún  þvælst um með kærasta sínum, R.  Hún hafi ekki verið við vinnu og henni hafi verið vísað frá V sem var aðsetur stúlknanna.  Hafi hún verið búin að leigja sér íbúð þannig og tengsl hennar við Þ slitið.

Ákærði sagði að samskipti þeirra A hafi ekki verið sérstaklega góð þegar á leið.  Þau hafi verið mjög góð í upphafi en eftir að hún slasaði sig í tvígang hafi hún ítrekað ónáðað hann vegna peninga sem ákærði hafi verið búinn að segja henni að hún fengi greidda ákveðinn dag.  Hann hafi því verið farinn að forðast hana.

Ákærði kvaðst hafa skuldað A um 90.000 - 100.000 krónur er hún hætti störfum hjá honum.  Hún hafi hins vegar drukkið á barnum fyrir töluverðar upphæðir.   Kvaðst ákærði hafa beðið unnustu sína, G, um að láta hann hafa 50.000 krónur svo A myndi hætta að ónáða hann.  Hafi ákærði sagt við G að A gæti sjálf sótt tékkann, sem var að fjárhæð 50.000 krónur, sem hún og gerði.   Kvað ákærði A hafa kvittað fyrir tékkann.  Ákærði sagði að þau hafi að öðru leyti átt eftir að setjast niður og kanna uppgjör á barreikningi og annað en hann hafi ekki haft tíma til þess.  Hann hafi rætt þetta við A að kvöldi 7. júlí sl., en þeir N framkvæmdarstjóri, Kristján og fleiri hafi þá verið að vinna þarna dag og nótt þar sem stefnt var að því að opna næsta föstudag nýjan og breyttan skemmtistað.

Ákærði kvaðst ekki kannast við það sem fram kom í framburði A fyrir dómi að ákærði hafi beðið hana um að flytja inn þessi fíkniefni eða útvega þau. Hann neitaði því einni að hann hafa rætt við erlendan vin hennar í síma um þessi mál.Aðspurður um þann framburð A að ákærði hafi afhent henni laun sem næmu 3000 gyllinum, t.d. í gjaldeyri, sem hann hafi sagt henni að senda til þessa aðila erlendis kvaðst ákærði ekki hafa látið hana hafa neinn gjaldeyri.  Ákærði kannaðist ekki við að hafa sagt henni að senda peninga til útlanda Ákærði sagði að kærasti A, R, hafi verið viðstaddur greiðslu síðustu launanna sem hún fékk hjá ákærða og hafi hún kvittað fyrir.  Auk þess hafi hún fengið tékka hjá G.  Það hafi verið 80.000 krónur sem ákærði greiddi henni í íslenskum krónum.  Ákærði sagði að þarna hefði einnig verið O rafvirki sem hafi einnig verið að rukka hann og hafi hann komið upp með sér ásamt R.  Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa greitt upp undir 140.000 krónur í ýmsum erlendum gjaldeyri.  Kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa greitt henni 140.000 krónur.

Hann kannaðist heldur ekki við að A hafi látið hann vita að sendingin væri komin.  Ákærði kvað ástæðu framburðar A um þetta hljóta að vera þá að hvöss orð hafi fari milli þeirra þar sem hann var mjög pirraður á henni á þessum tíma.  Hann og kærastan hans hafi verið flutt úr V og búið á hóteli, þar sem A bjó enn að X.  Hún hafi komið í Þ og tilkynnt sér að hún ætlaði að vera lengur á Íslandi en ákærði og kærasta hans hafi verið að bíða eftir íbúðinni að X, sem A bjó í , og þau hafi verið búin að borga húsaleiguna.

Ákærði kvaðst muna eftir því að daginn áður en A átti að fara til Hollands, þ.e. 8. júlí 1999, hafi þeir N framkvæmdarstjóri verið að bogra yfir sviðinu í Þ þegar A kom gangandi til ákærða og sagði við hann að eitthvað hafi komið upp á og að hún ætlaði að lengja dvöl sína hér á landi.  Hafi ákærði sagt að sér kæmi það ekkert við en hún skyldi fara strax út úr íbúðinni auk þess sem hann hefði áður verið búinn að biðja hana um að vera ekki að þvælast inn í klúbbnum eftir lokun og hafi hann vísað henni út.  Hafi A ekki nefnt einu orði launaskuld sína. 

Ákærði kvaðst hafa rætt lítillega við móður ákærðu.  Hafi hún hafi hringt í hann eftir að A var handtekin en ákærði vísað símtalinu beint til G.  Kvað ákærði þetta vera eina skiptið sem hann hafi talað við móður ákærðu.

Ákærði sagði að fatafellurnar, þar á meðal ákærða, kölluðu hann [...].  Hafi ákærða vitað hvað hann hét og hvernig nafnið hans væri skrifað. 

Hann kvaðst ekki hafa neina aðstöðu í kjallara en hann hafi skrifstofu á þriðju hæð hússins.

Ákærði kvaðst geta sér til um að skýringin á þeim sakagiftum sem A bar á hann vera þær að hún hafi verið leidd til þess af lögreglu eða þá að hún hafi viljað hefna sín á honum á einhvern hátt.  Hann hafi þó enga skýringu á því og mundi gjarnan vilja fá hana.

E kvaðst við yfirheyrslur 9. og 12. júlí sl. ekki muna eftir neinum atvikum sem tengdust því máli sem væri til rannsóknar og bar í því efni fyrir sig minnisleysi vegna drykkju að undanförnu.  Hann framvísaði bréfi sem hann hafði ritað í gæsluvarðhaldinu, en bréfið lagði lögregla hald á.  Þar kemur fram ómarkviss framburður E um málsatvik sem hann síðar dró til baka.  Hinn 14. júlí sl. var E leystur úr gæsluvarðhaldi. 

Þann 3. desember sl. var E yfirheyrður á ný.  Var hann sem fyrr yfirheyrður sem sakborningur.  Kvað hann ástand sitt gott, enda hefði hann ekki drukkið undanfarna fjóra mánuði.  Vísaði hann til fyrri framburðar síns en sagði jafnframt að Kristján G. Snæbjörnsson hafi beðið hann um að taka á móti pakka frá útlöndum gegn vænni peningagreiðslu.  Minntist hann jafnframt símtalsins við Kristján, sem lögregla tók upp á segulband 8. júlí.  Hann kvaðst ekki hafa sett þessa pakkasendingu í samhengi við innflutning fikniefna og gleymt þessu stuttu eftir að Kristján bað hann um þetta.  E sagði að þegar pakkinn hafi komið á heimili hans hafi hann haldið að þetta væri „grínpakki” frá systur sinni sem búsett væri í útlöndum.  Sagðist hann hafa hent dúkkunni upp í hillu þar sem hún hafi legið þar til hann og faðir hans voru handteknir af lögreglu.  E sagði að hann hafi ekki vitað um innihald dúkkunnar.  Hann kvaðst ekki þekkja B, G, W eða L.

Fyrir dóminum var E yfirheyrður sem vitni.  Um aðdraganda þess að vitnið tók við pakka frá Amsterdam 7. júlí 1999 sem var sendur með hraðpósti og stílaður á föður hans D heitinn kvaðst vitnið ekki hafa áttað sig á því hvaða pakki þetta væri.  Þetta hafi verið brúða sem hann fleygði upp í hillu.  Hafi þeir feðgar ekkert frekar spáð í pakkann.  Þeir hafi haldið að þetta væri spaug og hafi pakkinn legið á glámbekk uppi í hillu.  Þegar lögreglan kom á heimili hans til að handtaka hann hafi hann minnst þess að hann hafi verið beðinn um að taka á móti sendingu sem hann fengi peningagreiðslu fyrir.  Ekki hafi verið minnst einu orði á það hvað væri í sendingunni.  Kvaðst vitnið minna að ákærði Kristján hafi beðið sig að taka á móti sendingu, en vitnið kvaðst hafa verið í mikilli áfengisdrykkju á þessum tíma.  Vitnið kvaðst ekki muna hvort einhver átti að koma til hans eða hvort hann hafi átt að hafa samband við einhvern.  Vitnið kvaðst ekki vita af hverju pakkinn var stílaður á föður hans, en faðir hans hafi verið mjög veikur og átt við geðræn vandamál að stríða.  Hafi vitnið ekki vitað fyrir hvern þessi pakki átti að vera.  Vitnið sagði að ekkert hafi verið talað um hvaða fjárhæð hann ætti að fá fyrir þetta.

Vitnið sagðist muna eftir símtali sem hann átti við Kristján undir eftirliti lögreglu en kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað hann sagði en það hafi verið eitthvað í sambandi við pakkann.  Hafi vitnið látið Kristján vita í þessu samtali af því að pakkinn væri kominn og Kristján hafi svarað því að það kæmi aðili að sækja pakkann.  Vitnið sagðist minnast þess að einhver kom og sótti pakkann, en hvort það var karl eða kona kvaðst hann ekki muna.

Vitnið W, sem er búsettur í Hollandi, var yfirheyrður við meðferð málsins í síma, en hann var þá staddur á lögreglustöð í Hollandi.  Vitnið fékkst ekki til að koma fyrir dóminn.  Vitnið sló úr og í og bar fyrir sig minnisleysi um það sem hann var um spurður.  Hann kannaðist við að fíkniefni hafi verið send til Íslands á heimilisfang, sem ákærða A gaf honum upp, öll samskipti hafi verið við hana.  Hann neitaði því hins vegar að í samtali við hana hafi hann nefnt fíkniefni, eins og fram kemur  í óstaðfestri lögregluskýrslu sem tekin var af honum í Hollandi í júlí sl., en þar er skráð að A hafi spurt hann hvort hann gæti útvegað 1000 töflur af fíkniefninu XTC og síðar hafi hann fundið mann sem útvegaði efnið og sendi á umrætt heimilisfang á Íslandi, sem A gaf vitninu upp.  Hann bar í símayfirheyrslunni að A hafa hringt í sig og beðið sig að gera vinnuveitanda hennar greiða.  Hann hafi þá rætt í örfáar mínútur við vinnuveitandann, sem hann frétti á lögreglustöðinni að héti B.  Hann hafi ekki viljað tala við hann heldur A. Hún hafi verið sú eina sem hann hafði samband við.  Aðspurður um það hvernig hann vissi að hann hefði rætt við vinnuveitenda A sagði hann að hún eða vinnuveitandinn hefðu sagt honum það.    Er hann var inntur eftir því hvernig hann vissi hve mikið magn og hvaða fíkniefni ætti að sjá um að send yrðu til landsins ef hann hefði hvorki rætt þetta við A né í umræddu símtali við vinnuveitandann sagði hann að hann hafi rætt magn fíkniefnanna og verðið í símtalinu við þann síðarnefnda, þetta hafi hann ekki rætt við A, en honum hafi skilist „að skipulagið hafi átt að vera þannig að fara í gegnum Sylvíu”.

Í ofangreindri skýrslu lögreglunnar í Hollandi segir um símtal vitnisins við svokallaðan vinnuveitanda: „Samtal mitt við vinnuveitanda S var mjög stutt.  Ég sagði honum bara að hann ætti að lofa mér að tala við S.  Hann fékk ekki tækifæri til að spyrja mig um neitt“.  Þegar vitninu var bent á misræmi um þetta ariði í vætti þess sagði vitnið: „að það hafi ekki verið alveg satt það sem hann sagði en það hafi verið smá sannleikskjarni í því”

Aðspurt um það sem skráð er eftir vitninu í lögregluskýrslunni, að A hafi hringt í hann að beiðni vinnuveitanda síns og spurt fyrir hans hönd hvort vitnið gæti útvegað töflurnar E-töflur, kvaðst vitnið ekki muna þetta.  Væri þetta í samræmi við framburð hennar hljóti það að vera svo.

Vitnið sagði að peningar þeir sem A sendi til Hollands hafi átt að fara til annars manns og þess vegna hafi þetta verið sent til vinar vitnisins svo að peningarnir kæmust til Hollands.  Hafi vitnið sagt henni hvað senda ætti mikla peninga.  Fyrst hafi það verið 4.000 gyllini en endað með 3.000 gyllinum.  Afganginn hafi hún átt að senda síðar.  Hafi peningarnir verið sendir með TNT en vitnið kvaðst ekki mun hvort þeir voru í seðlum eða tékka.  Hafi peningarnir verið sendir á heimilisfang vinar hans en vitnið hafi sótt þá á skrifstofu hjá TNT og hafi vinur hans verið með honum.  Vitnið kvaðst ekkert hafa átt að fá fyrir sinn hlut í málinu heldur hafi hann gert þetta vegna vináttu við A. 

Vitnið kvaðst ekki muna það hvernig senda átti fíkniefnin til landsins.  Aðspurður um það sem fram kom í vætti vitnisins hjá lögreglu í Hollandi, að A hafi spurt hann hvort hann gæti útvegað henni fyrir beiðni vinnuveitanda hennar 1.000 E-töflur, kvaðst hann ekki minnast þessa, en hafi hún sagt þetta hlyti það að vera svo. Vitnið kvaðst ekki halda að A hafi vitað um hvers konar fíkniefni var að ræða.  Hún hafi ekki talað beinlínis um E-töflur þannig að vitnið sagðist ekki vita hvort hún vissi það.  Það hlyti að hafa verið maðurinn sem sendi töflurnar sem tók ákvörðunina um að senda E-töflurnar.

Vitnið kvað lítil samskipti hafa verið milli þeirra A eftir að hann tók við peningum fyrir fíkniefnin.  Hafi hann afhent peningana öðrum manni og ekkert haft með málið að gera eftir það. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa haft einhver samskipti við A í síma þar sem þau ræddu um það hvort hún hafi fengið pakkann í hendur eða ekki.  Hafi vitnið reynt að hringja í hana en slökkt hafi verið á símanum og kvaðst hann ekki minnast þess að hún hafi tilkynnt sér að pakkinn væri kominn.

Aðspurður um það hvort A hafi verið þvinguð af B vinnuveitanda sínum til þess að hafa milligöngu um þessi fíkniefnaviðskipti kvaðst vitnið ekki muna það en það gæti vel verið.

Vitnið sagði að sér hefðu verið send 3.000 gyllini en þau 1.000 gyllini sem eftir voru hafi aldrei verið send.  Hann hafi opnað peningaumslagið frá Íslandi og séð að það voru 3.000 gyllini.  Kvaðst vitnið halda að A hafi átt að koma með þetta þegar hún kæmi til Hollands.

Vitnið J dyravörður kvaðst hafa verið að vinna á Þ sl. sumar.  Vitnið kvaðst hafa orðið vitni að því er ákærði Kristján lét ákærðu A hafa miða með nöfnum og heimilisföngum á.  Hann hafi verið uppi í „VIP”-herbergi þegar þau voru að tala saman og hafi Kristján tekið fram miða sem hann skrifaði á og rétti henni en vitnið hafi ekki séð á miðann.  Vitnið kvaðst ekki hafa átt neinn þátt í þessu samtali og ekki vita hvort A hafi lánað Kristjáni peninga.  Vitnið kvað Kristján hafi beðið sig um að senda fyrir sig peninga út til félaga síns á Spáni en Kristján hafi hætt við það og gert það sjálfur.  Hafi vitnið ekki vitað hvað þetta voru miklir peningar af því að hann fékk peningana aldrei í hendur.  Vitnið kannaðist við að hafa ekið ákærða Kristjáni 8. júlí 1999 að Y og minnti að hann hafi skilið hann þar eftir.

Vitnið R þjónn kvaðst muna eftir því að hafa farið með ákærðu A þegar hún fékk greidd laun í Þ en hann hafi einnig farið til að fá sín laun greidd.  Hafi þetta verið nokkrum dögum áður en hún var handtekin.  Vitnið kvaðst ekki muna hvað hún fékk mikið greitt.  Hann kvaðst ekki hafa séð hvort hún fékk greitt með ávísun, íslenskum gjaldmiðli eða einhverjum öðrum gjaldmiðli.

Vitnið N, fyrrum starfsmaður í Þórskaffi, kom fyrir dóminn. Vitnið sagði að hann hafi byrjað þar fyrst sem dyravörður en síðan starfað meira sem rekstrarstjóri með ákærða B.  Hann kvaðst muna eftir því þegar ákærða A kom að kvöld 8. júlí sl. í Þ.  Hafi þeir B verið að vinna að ýmsum breytingum í klúbbnum.  Vitnið sagði að A hafi komið og rætt við sig á meðan hún var að bíða eftir að geta talað við B og síðan hafi hún rætt við B um peninga sem hún átti inni fyrir vinnu.  Hafi hún verið í þeim erindagjörðum að fá borgað út vegna þess að hún var á leiðinni úr landi.  Vitnið sagði að í samtali þeirra B og A hefði aldrei verið minnst á neinn pakka né tuskubrúðu sem hún hafi verið að sækja.  Efni samtals B og A hafi í raun ekki varðað annað en það að sækja peninga sem hún var búin að vinna sér inn og hafi B ekkert verið ánægður með að hún var þarna inni og vildi helst að hún færi út sem fyrst.

Vitnið O rafvirki, kom fyrir dóminn.  Hann kvaðst hafa verið að vinna í Þ í lok júnímánaðar sl.  Hann sagðist muna eftir því að A og kærastinn hennar hafi komið að fá greidd laun, en vitnið hafi af tilviljun verið staddur á skrifstofu ákærða B.  Vitnið sagðist minnast þess að ákærða A hafi einungis fengið greitt í íslenskum peningum en kvaðst ekki minnast  þess að hún hafi fengið gjaldeyri.  Hann kvaðst ekki muna um hve háa fjárhæð var að ræða.  B hafi aldrei borgaði þannig út en vitnið hafi mjög oft verið statt þarna hjá honum.

Vitnið Sólberg Bjarnason rannsóknarlögreglumaður, kom fyrir dóminn og staðfesti frumgögn í málinu og að hafa unnið að rannsókn málsins.  Hann sagði að pakkinn með fíkniefnunum hafi verið afhentur á eðlilegan hátt og síðan hafi verið haft eftirlit með honum.  Hljóðnemi hafi verið í pakkanum, sem nema átti hvort hann væri hreyfður eða hvort hægt væri að greina mannamál eða önnur hljóð sem gefið gætu einhvers konar vísbendingu um hvað væri að gerast.  Síðan hafi lögregla vaktað fram- og afturhlið hússins og fylgst með mannaferðum.  Öll umferð hafi verið skráð.  Vitnið kvaðst hafa rætt við E eftir að hann var handtekinn.  Hafi framburður hans verið á þann veg að ákærði Kristján hafi beðið hann um eða spurt hann hvort hann væri til í að taka við pakka erlendis frá fyrir erlendan aðila.  Þegar hann hafi sagt lögreglumönnum þetta hafi þeir spurt hvort hann vildi lögmann og hvaða lögmann. Í framhaldi af því hafi verið haft samband við Helga Jóhannesson hrl.  Vitnið sagði að á þessum tíma hafi E borið með sér einkenni langvarandi drykkju.

Vitnið sagði að ákvörðun um símtalið sem E átti við ákærða Kristján og tekið var upp hafi verið tekin í samráði við verjanda E.  Hafi lögregla spurt Þorstein hvort hann væri reiðubúinn að aðstoða lögreglu við afhendingu eða áframhaldandi eðlilega afhendingu á pakkanum og hafi hann verið því samþykkur og því hafi þetta samtal verið gert með samþykki E og verjanda hans. Vitnið sagðist muna að ákærða A hafi talað við sig um að B hafi haft í hótunum við hana í tengslum við mál þetta.

Vitnið Kristinn Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa starfað að rannsókn málsins.  Vitnið tók skýrslur af ákærða Kristjáni og staðfesti fyrir dómi að efni þeirra væri rétt fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa fylgst með vettvangi að Y eftir að pakkinn fór í hús.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærðu A á vettvangi heldur þegar stúlkurnar voru komnar út að bensínstöð og þá hafi hann séð þær fara á bíl saman.  Sagði vitnið að bílastæði væri fyrir framan Y, þá væri gata og þar tækju við bílskúrar. Hann sagði að hægt væri að aka að innganginum að Y.

Vitnið Þorbjörn Valur Jóhannsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa fylgst með vettvangi að Y þegar beðið var eftir að fíkniefnapakkinn yrði sóttur.  Hafi þeir Hákon Sigurjónsson verið tveir í bíl og séð konu koma að Y.  Ekki hafi þeir tengt hana sérstaklega við málið fyrr en þeir heyrðu í pakkanum en í honum voru hlustunartæki.  Hafi þeir heyrt að dyrabjöllu íbúðarinnar, sem pakkinn var í, var hringt og veitt því athygli að þetta gæti verið stúlkan sem þeir hafi beðið eftir eða einhver sem væri að sækja pakkann.  Eftir að bjöllunni var hringt hafi þeir heyrt það við hlustun á pakkanum að verið var að afhenda eða róta með pakkann.  Innan mínútu hafi stúlka komið út úr Y með pakkann með sér.  Vitnið kvaðst hafa fylgt henni eftir og séð að hún gekk að bifreið sem lagt hafði verið skammt á móti Y.  Síðan hafi bifreiðinni verið ekið af stað og þeir fylgt henni eftir.  Þeir hafi ekki séð bifreiðina koma að staðnum upphaflega enda verið þannig staðsettir, en byrjað að fylgjast með stúlkunni eftir að þeir heyrðu hljóðið.

Vitnið sagði að þegar stúlkan kom út úr húsinu hafi hún gengið nokkuð rösklega í áttina að bílnum og hafi vitnið þá farið út úr þeim bíl sem hann var í, fylgt henni eftir og séð hana fara á brott í bifreið ásamt annarri stúlku sem ók.

Vitnið Hákon Birgir Sigurjónsson, lögreglufulltrúi tæknideildar, kannaðist við að  komið hafi verið fyrir hljóðnema og senditæki á A kvöldið 8. júlí 1999 sem fylgjast átti með samskiptum hennar við fólk inni í Þ. Hann hafi hlustað ásamt ásamt tollverði.  Vitnið kvaðst ekki muna hvað kom fram við hlustunina frá orði til orðs, hann hafi lýst því í megindráttum í skýrslu sinni.  Vitnið kvaðst hafa fylgst með Y í þeim tilgangi að fylgjast með því hvort pakkinn yrði sóttur.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar stúlkan fór út úr bílnum til þess að sækja pakkann.  Heyrst hafi bjölluhringing í tækjum þeirra og hafi hann séð þegar stúlkan fór til baka frá húsinu og hafi hún verið með pakka í höndunum sem virtist sá sami og verið var að fylgjast með.  Það næsta sem vitnið hafi séð var að stúlkan var komin inn í bíl með annarri stúlku.  Vitnið sagði að hægt væri að aka upp að stigaganginum við Y, en hann minnti að bifreiðin hafi ekki verið ekið þangað.

Vitnið Úlfhildur Ingólfsdóttir tollvörður staðfesti skýrslu sína frá 9. ágúst sl. um upptökuna.  Vitnið kvaðst hafa hlustað á segulband af samskiptum A við aðra í Þ ásamt Hákoni Sigurjónssyni.  Vitnið sagðist hafa hlustað á það sem fram fór en segulbandsupptakan hafi mistekist.  Hafi hún sjálf gert skýrslu um málið daginn eftir. Vitnið sagði að A hafi beðið um launin sín en henni hafi verið tjáð að gjaldkerinn væri farinn og hún yrði að koma daginn eftir til að ræða við hann.  Þá hafi A sagst ætla að fresta brottför sinni frá Íslandi um tvo til þrjá daga vegna veikinda vinkonu sinnar.

III.

Niðurstaða.

Eins og að framan greinir fann Tollgæslan í Reykjavík miðvikudaginn 7. júlí sl. 969 E-töflur, fíkniefnið MDMA, sem faldar voru í pakka er sendur var með hraðsendingu til Íslands.  Sú misritun er í ákæru að töflurnar hafi verið 976.  Fíkniefnunum var komið fyrir í tuskubrúðu.  Ákveðið var að setja hættulaus gervifíkniefni í tuskubrúðuna og halda áfram eðlilegri afhendingu pakkans undir stjórn og eftirliti lögreglu.  Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur fékk lögreglan í Reykjavík heimild til þess að koma fyrir búnaði til hljóðupptöku í pakkanum.  Pakkinn var afhentur á heimili skráðs móttakanda, D, Y hér í borg með venjulegum hætti.  E sonur hans tók við pakkanum.

Hinn 8. júlí sl. var ákveðið að handtaka þá D og E.  Greindi E lögreglu frá því að ákærði Kristján G. Snæbjörnsson hefði boðið honum peningagreiðslu gegn því að E veitti viðtöku pakka frá útlöndum sem sendur yrði á heimili hans að Y.  Í framhaldi af því fékk lögregla E til liðs við sig við afhendingu gervifíkniefnapakka.  Sama dag veittu lögreglumenn því eftirtekt að bifreið var ekið inn Y og lagt gegnt bifreiðarplani stigahúss nr. 5-7.  Ökumaður bifreiðarinnar var ákærða A  en farþegi var ákærða C.  Fór C út úr bifreiðinni og gekk að Y þar sem hún hringdi bjöllu og fór inn.  Stuttu síðar kom hún til baka með gervifíkniefnapakkann í hendinni og settist inn í bifreiðina sem ekið var í burtu.  Lögreglumenn veittu bifreiðinni eftirför að X, heimili ákærðu A, en þar yfirgáfu stúlkurnar bifreiðina og fóru inn í húsið.  Við hlustun greindu lögreglumenn að tuskubrúðan, sem töflurnar voru faldar í, var opnuð.  Í framhaldi af því ákváðu þeir að fara inn í íbúð ákærðu og handtaka hana og C.

Ákærða A greindi frá því við handtöku að karlmaður frá Hollandi hafi hringt og beðið sig um að ná í pakka hjá manni í fjölbýlishúsi að Y og fara með pakkann á heimili sitt þar sem hann yrði sóttur fyrir kl. 01.00 sama dag.  Hún kvaðst ekki hafa frekari upplýsingar um manninn sem bauð henni greiðslu fyrir viðvikið.  A breytti framburði sínum við yfirheyrslu hjá lögreglu 13. júlí sl. og sagði nú að einum eða tveimur vikum eftir komu sína til Íslands hafi ákærði B komið að máli við sig á vinnustað þeirra og spurt hvort hún vissi um einhvern í Hollandi sem væri reiðubúinn að senda fíkniefni til Íslands.  Nokkrum dögum seinna hafi hún hringt í vin sinn í Hollandi, W, og hafi hann séð um að fá einhvern til að senda fikniefni til Íslands en W hafi viljað komast í samband við B til að vita hversu mikið hann myndi fá greitt fyrir að senda efnin.  Nokkrum dögum seinna hafi hún verið stödd á heimili B, að V, og hún hringt í W og leyft þeim B að ræða saman í einrúmi í síma hennar.  Kvaðst A hafa hringt næsta dag í W sem hafi sagt henni að hún ætti að senda peninga á heimilisfang manns að nafni L í Hollandi og finna heimilisfang á Íslandi sem senda mætti pakkann á.  Hafi hún beðið ákærða Kristján G. Snæbjörnsson um að útvega heimilisfang og sagt honum að þetta væri fyrir B.  Hafi Kristján svo útvegað henni heimilisfangið að Y.  Þegar fíkniefnin bárust til landsins kvaðst A hafa fengið ákærðu C, sem stödd var á heimili hennar, til þess að koma með sér og ná í pakkann gegn greiðslu.  Þær hafi síðan farið að Y þar sem C fór inn og náði í pakkann.

Ákærða A  hefur játað við rannsókn málsins og fyrir dómi að hafa tekið þátt í innflutningi fíkniefnanna með þeim hætti sem lýst er í ákæru gegn 300-400.000 þúsund króna greiðslu.  Hún neitaði því hins vegar að henni hafi verið kunnugt um tegund og magn fíkniefnanna. Við yfirheyrslu hjá lögreglu í Hollandi í júlí sl. er haft eftir [...], sem kallaður er W, að A hafi haft samband við hann fyrir hönd vinnuveitanda síns og spurt hvort hann gæti útvegað 1000 töflur af fíkniefninu XTC, þ.e. MDMA.  Við símayfirheyrslu fyrir dómi kvaðst W telja að A hafi ekki vitað hvers konar fíkniefni var um að ræða, þar sem þau hafi ekki beinlínis rætt um E-töflur.  Þegar gengið var á ákærðu fyrir dómi viðurkenndi hún að hana hafi grunað að um E-töflur væri að ræða enda um það kunnugt að vinur hennar W „verslaði” oftast nær með E-töflur.  Sagði hún einnig að sig hafi grunað að ekki yrðu sendar færri töflur en 1000 stykki. 

Ákærða gat allt eins gert ráð fyrir að í pakkanum væri umrætt magn þessara hættulegu fíkniefna.  Allt að einu tók hún að sér að útvega fíkniefnin og lét senda þau hingað til lands.  Þykir fyllilega sannað með framburði ákærðu A og því sem að framan er rakið að hún útvegaði fíkniefnin frá Hollandi og lét senda þau hingað til lands á margumrætt heimilisfang, sem ákærði Kristján lét henni í té, fór síðan þangað að kvöldi 8. júlí sl. með ákærðu C, sem sótti pakkann með fíkniefnunum og afhenti þau ákærðu A.  Fíkniefnið MDMA er hættulegt heilsu manna, sbr. Hrd. 1997, bls. 1367-1369, en þar er meðal annars rakin álitsgerð Þorkels Jóhannessonar prófessors.  Varðar þessi verknaður ákærðu A við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, sbr. lög nr. 64/1974.

Ákærði B hefur við rannsókn málsins og fyrir dómi alfarið neitað því að hann hafa staðið að innflutningi fíkniefnanna. 

Eins og fyrr greinir er haft eftir W í yfirheyrslunni hjá lögreglu í Hollandi að A hafi haft samband við hann fyrir hönd vinnuveitanda síns og spurt hvort hann gæti útvegað 1000 töflur af fíkniefninu XTC. Hann hafi sagt við vinnuveitandann í umræddu símtali hvort hann gæti fengið að tala við A strax þar sem hann vildi ekki ræða um fíkniefnin við vinnuveitandann.  Í símayfirheyrslunni fyrir dómi bar W hins vegar að hann hafi ekki rætt við A um hvaða fíkniefni ætti að senda og hversu mikið magn heldur hafi hann rætt þetta við vinnuveitanda hennar.

Ákærða A hefur staðfastlega haldið því fram, bæði við rannsókn málsins og fyrir dómi, að ákærði B hafi komið að máli við sig og spurt hvort hún kannaðist ekki við einhvern í Hollandi sem gæti sent fíkniefni til Íslands.  Þykir framburður hennar í meginatriðum trúverðugur.  Hins vegar verður að skoða framburð W með hliðsjón af því að hann hefur verið reikull.  Fram kom einnig fyrir dómi að A ræddi einslega við W í síma eftir að hún losnaði úr einangrun.  Er ekki loku fyrir það skotið að þau hafi sammælst um framburð sinn fyrir dómi um þátt hennar og B.  Hinn breytta framburð W ber að skoða í ljósi þessa og líta til þess að hann kom ekki fyrir dóminn til skýrslugjafarinnar.  Að mati dómsins var framburður ákærða B ótrúverðugur.  Hins vegar liggur ekki fyrir í málinu staðfastur framburður annarra en A um þátt hans í innflutningi fíkniefnanna og ekki er heldur gögnum til að dreifa er styðja sakfellingu hans, að undanskildum miðanum með verðútreikningi er fannst í fórum A, en til þess ber þó að líta að miðann ritaði hún.  Gegn staðfastri neitun ákærða þykir því ekki komin fram lögfull sönnun þess að hann hafi gerst sekur um þann verknað sem hann er ákærður fyrir.  Verður því að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Ákærði Kristján Guðmundur Snæbjörnsson viðurkenndi við rannsókn málsins og fyrir dómi að hann hafi útvegað ákærðu A heimilisfang það sem pakkinn með fíkniefnunum var sendur á.  Hann heldur því hins vegar fram að hann hafi ekki grunað að í pakkanum væru fíkniefni.  Hann sagði fyrir dómi að hann hafi þá ekki hugsað út í það hvað senda ætti á þetta heimilisfang.  Ekkert hafi heldur verið rætt um að hann fengi peningagreiðslu fyrir þennan greiða.  Fram er komið í málinu að ákærði fékk 50.000 krónur að láni hjá ákærðu A að kvöldi 8. júlí, daginn fyrir fyrirhugaða brottför hennar.  Frásögn ákærða um það að hann hafi fengið þessa peninga að láni til þess að senda út til vinar síns á Spáni er studd vætti J og framburði ákærðu A.  Er ósannað að peningalán þetta tengist máli þessu.

Af hálfu ákærða er því haldið fram að broti ákærða sé í ákæru lýst sem gáleysisbroti, þar sem þar segi að hann „mátti vita”að pakkinn innihélt fíkniefni.  Sé þáttur ákærða Kristjáns því refsilaus, sbr. 18. gr. almennra hegningarlaga.  Þó heppilegra hefði verið að mati dómsins að orða ákæruna með þeim hætti að ákærði hafi hlotið að vita að pakkinn innihélt fíkniefni, þykir ekki vafa undirorpið, þegar litið er til verknaðarlýsingar í ákæru, að ákæran lýtur að ásetningsbroti. 

Svo sem rakið hefur verið í framburði ákærðu A og Kristjáns og vætti vitnisins E útvegaði ákærði Kristján A heimilsfang og nafn föður E í því skyni að á það heimilisfang og nafn yrði sendur pakki frá útlöndum.  Vissi ákærði að D gekk ekki heill til skógar og hafði það á orði við A.  Fékk hann til þessa samþykki vinar síns, E, sem einnig var illa á sig kominn, og gaf í skyn að A myndi umbuna Þorsteini með greiðslu.  Kvaðst ákærði Kristján ekki hafa viljað láta senda pakkann á heimili sitt og gaf á því þá skýringu fyrir dómi að hann byggi í foreldrahúsum og foreldrar hans hafi ekki verið jákvæðir gagnvart þeim vinnustað sem ákærði vann á.  Þrátt fyrir ofangreindar aðstæður samþykkti hann að útvega heimilisfangið og lét sér í léttu rúmi liggja hvað í pakkanum var.  Þá hafa bæði Kristján og A staðfest að þau hafi farið saman 7. júlí sl. í bifreið að Y í þeim tilgangi að kynna henni aðstæður, en áður hafði Kristján afhent A miða með heimilisfangi feðganna.  Fyrir liggur afrit hljóðupptöku 8. júlí sl. af símtali Kristjáns og E þar sem fram kemur að E hringir í Kristján og tilkynnir  komu pakkans og segir Kristján þá: „Hvað er þetta komið til þín”.  Síðar í símtalinu kvaðst hann þurfa að „lát´ann aðilann vita”. Er óumdeilt að í beinu framhaldi þessa tilkynnti hann ákærðu A að hún gæti sótt pakkann á heimili E.

Þegar allt framangreint er virt þykir fyllilega sannað að ákærði Kristján hlaut að gera sér grein fyrir því að í pakka þeim, sem senda skyldi á heimilisfangið að Y, voru fíkniefni.  Gat ákærði ekki treyst því að vægari fíkniefni eða minna magn kynni að vera í pakkanum en raun varð á.  Þykir samkvæmt þessu fyllilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þann verknað sem honum er að sök gefinn í ákæru, að því undanskildu að ósannað er gegn neitun hans að hann hafi sjálfur boðið E greiðslu, enda kom fram í framburði Kristjáns að hann hafi haft á orði við E, eins og að framan er lýst, að A myndi umbuna honum og samkvæmt framburði hennar innti Kristján hana eftir því hvort E ætti að fá eitthvað fyrir sinn snúð.  Verknaður ákærða varðar við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærða C hefur viðurkennt að hún hafi náð í pakkann með fíkniefnunum í Y.  Hún kvaðst hins vegar hvorki hafa vitað né rennt í grun að fíkniefni voru í pakkanum.  Ákærðu C og A ber saman um að þær hafi farið að Yrsufelli til þess að ná í pakkann.  Jafnframt ber þeim saman um að á leiðinni hafi ákærða A rætt í síma á hollensku sem C ekki skildi.  Í málinu liggur einungis fyrir framburður ákærðu A um það að C hafi vitað að fíkniefni voru í pakkanum, þar sem hún hefði sagt C það, og að C ætti að fá greiðslu fyrir að sækja pakkann.  Vitnið Hákon Birgir Sigurjónsson lögreglufulltrúi, sem fylgdist með stúlkunum er þær sóttu pakkann, bar fyrir dómi að ákærða C hafi verið með pakkann í höndunum er hún kom út úr Y.  Er ekkert sem bendir til þess að hún hafi reynt að leyna pakkanum á leið sinni þaðan að bílnum.  Gegn eindreginni neitun ákærðu Car, bæði við rannsókn málsins og fyrir dómi, þykir vera svo mikill vafi á því að ákærða hafi hlotið að vita að fíkniefni voru í pakkanum að sýkna ber hana af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Viðurlög.

Samkvæmt vottorði Utanríkisdeildar hollensku skilorðsstofnunarinnar hefur ákærða A ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi.  Við ákvörðun refsingar hennar verður litið til þess að hún útvegaði og lét senda hingað til lands í hagnaðarskyni mikið magn hættulegra fíkniefna og fékk í lið með sér meðákærðu Krisján og C, svo sem að framan er lýst, svo unnt yrði að senda efnin á tiltekið heimilisfang og sækja þau þangað.  Hins vegar verður höfð hliðsjón af því að hún hefur ekki áður sætt refsingu svo vitað sé og játaði verknað sinn strax í upphafi rannsóknar og að hún veitti lögreglu liðsinni sitt til að upplýsa málið, sbr. 8. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár og 6 mánuði.  Til frádráttar komi gæsluvarðhaldsvist hennar frá og með 9. júlí 1999.

Ákærði Kristján var dæmdur 14. september 1992 í 50 daga varðhald, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir líkamsárás.  Hann hefur ekki sætt frekari refsingu sem hér skiptir máli.  Refsing hans verður annars vegar ákveðin með hliðsjón af magni og hættueiginleikum fíkniefnanna, sem hér um ræðir, en hins vegar með hliðsjón af því að hann hefur að mestu gengist við verknaði sínum og langt er liðið síðan hann hlaut síðast refsidóm.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.  Til frádráttar komi gæsluvarðhaldsvist hans frá og með 9. júlí 1999 til 25. október sama ár.

Upptækar skulu gerðar til ríkissjóðs 969 töflur af MDMA (3.4 metýlendíoxímetamfetamín) með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16/1986.

Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður var skipaður verjandi ákærðu A 9. júlí sl.  Þann 6. september lét hann af verjandastarfinu og var Tómas Jónsson hæstaréttarlögmaður skipaður verjandi ákærðu í stað Brynjars og sinnti því til loka rannsóknar málsins og við meðferð þess.  Er ákærða dæmd til að greiða þóknun og málsvarnarlaun verjenda sinna, Brynjars 294.000 krónur og Tómasar samtals 350.000 krónur.

Ákærði Kristján er dæmur til að greiða þóknun og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns við rannsókn og meðferð málsins, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 450.000 krónur.

Greiða skal úr ríkissjóði kostnað vegna vottorðs og læknisskoðunar Lúðvíks Ólafssonar læknis vegna E, 14.000 krónur, og þóknun og málsvarnarlaun verjanda ákærða B við rannsókn málsins og meðferð þess, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 480.000 krónur.

Pétur Örn Sverrisson héraðsdómslögmaður var skipaður verjandi ákærðu C frá 9. júlí sl. og gegndi þeim starfa fram að 31. janúar sl., er hann var leystur frá honum að ósk ákærðu.   Með bréfi Gísla Gíslasonar héraðsdómslögmanns, er barst dóminum 17. janúar sl., fór hann þess á leit fyrir hönd ákærðu C að í stað Péturs Arnar yrði hann skipaður verjandi hennar í málinu.  Var þess óskað að lögmaðurinn sendi dóminum formlega ósk ákærðu í þessu efni.  Sú ósk barst með bréfi 20. janúar sl.  Beiðni hennar var hafnað með ákvörðun dómsins sama dag með vísan til þess að ljóst væri að aukinn kostnað myndi leiða af því að skipa ákærðu nýjan lögmann, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 9. gr. laga nr. 36/1999.  Var tekið fram í ákvörðun dómsins að gögn málsins væru umfangsmikil og verjandi ákærðu hafi mætt við þingfestingu málsins með henni og að sögn hans eytt talsverðum tíma í það að kynna sér gögnin.  Lögmaðurinn óskaði þess 24. sama mánaðar að dómurinn endurskoðaði þessa afstöðu sína, en kvæði ella upp úrskurð um málið yrði beiðninni hafnað og vísaði í því efni til 2. ml. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 19/1991.   Dómurinn hafnaði þessari beiðni lögmannsins 26. janúar með vísan til þess að kæruheimild framangreinds ákvæðis lyti að verjanda og ætti því ekki hér við.  Þann 27. janúar barst dóminum bréf lögmannsins þar sem dóminum er tilkynnt að ákærða C hafi ráðið lögmanninn á sinn kostnað til að gæta réttar hennar við aðalmeðferð málsins sem hófst 1. febrúar. 

Ákærða C hefur verið sýknuð af kröfum ákæruvalds í málinu.  Ber því að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda hennar, Péturs Arnars Sverrissonar héraðsdómslögmanns, vegna starfa hans við rannsókn málsins og vinnu við undirbúning aðalmeðferðar þess, samtals 320.000 krónur.  Þá þykir rétt með vísan til a- liðar 162. gr. laganr. 19/1991, sbr. 35. gr. laga nr. 36/1999 að greiða úr ríkissjóði kostnað hennar við það að halda uppi vörnum við aðalmeðferð málsins, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

Annan sakarkostnað greiði ákærðu A og Kristján óskipt.

Kolbrún Sævarsdóttir, settur saksóknari, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Ingibjörg Benediktsdóttir, Allan V. Magnússon og Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærða A  sæti fangelsi í 3 ár og sex mánuði. Gæsuvarðhaldsvist hennar frá og með 9. júlí 1999 komi til frádráttar refsingunni.

Ákærði Kristján Guðmundur Snæbjörnsson sæti fangelsi í 12 mánuði. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 9. júlí til 25. október 1999 komi til frádráttar refsingunni.

Ákærðu B Jóhannesson og C, skulu vera sýkn af öllum kröfum ákæruvalds í máli þessu.

Upptækar skulu gerðar til ríkissjóðs 969 töflur af MDMA (3.4 metýlendíoxímetamfetamín).

Ákærða A greiði þóknun og málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, hæstaréttarlögmannanna Brynjars Níelssonar 294.000 krónur og Tómasar Jónssonar samtals 350.000 krónur.

Ákærði Kristján greiði þóknun og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 450.000 krónur.

Greiða skal úr ríkissjóði kostnað vegna læknisvottorðs- og skoðunar, 14.000 krónur, og þóknun og málsvarnarlaun verjanda ákærða B, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 480.000 krónur.  Ennfremur skal greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda ákærðu C, Péturs Arnar Sverrissonar héraðsdómslögmanns, samtals 320.000 krónur og kostnað hennar við að halda uppi vörnum við aðalmeðferð málsins, 100.000 krónur.