Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-18
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skuldamál
- Fyrning
- Skipting sakarefnis
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 18. febrúar 2022 leitar Ólafur Ívan Wernersson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. janúar 2022 í máli nr. 563/2020: Ólafur Ívan Wernersson gegn Landsbankanum hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila sem rekja má til uppgjörs vegna skuldar hans við gagnaðila samkvæmt samkomulagi 26. febrúar 2014. Undir rekstri málsins í héraði var sakarefni þess skipt í samræmi við 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 þannig að fyrst yrði fjallað um hvort ætlaðar kröfur leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila væru fyrndar.
4. Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var aðal- og varakröfu leyfisbeiðanda vísað frá dómi þar sem ekki yrði fjallað efnislega um röksemdir sem áfrýjandi færði fram til grundvallar dómkröfum sínum í ljósi skiptingar sakarefnis í héraði. Um aðra varakröfu leyfisbeiðanda sem laut að því að niðurstöðu héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum hans vegna fyrningar yrði hnekkt staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um að krafan væri fyrnd. Vísaði Landsréttur til þess að leyfisbeiðandi hefði haft nauðsynlegar upplýsingar um ætlaðar kröfur sínar á hendur gagnaðila 23. maí 2012 svo að upphaf fyrningarfrests yrði miðað við þann dag en þá var leyfisbeiðandi upplýstur um innlausnarvirði hluta sinna í Lífsvali ehf. og tilgreint hver skuld leyfisbeiðanda við gagnaðila væri eftir innlausnina. Hafi kröfurnar því löngu verið fyrndar er leyfisbeiðandi höfðaði málið 11. desember 2019.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Þá byggir hann á því að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Ákvörðun um að skipta sakarefni málsins á grundvelli 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 hafi falið í sér galla á meðferð málsins. Vísar leyfisbeiðandi til þess að ágreiningur sé um stofntíma kröfu hans og jafnframt grundvöll hennar og að úrlausn um það sé grundvöllur þess að hægt sé að komast að niðurstöðu um fyrningu kröfunnar. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur hvað varðar niðurstöðu um fyrningu hennar. Telur hann útilokað að líta svo á að hann hafi haft allar nauðsynlegar upplýsingar um kröfuna 23. maí 2012 við innlausn hluta hans í Lífsvali ehf. og því sé ekki unnt að miða upphaf fyrningarfrests við þann dag.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.