Hæstiréttur íslands
Mál nr. 496/2007
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2008. |
|
Nr. 496/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn Ragnari Má Sævarssyni (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
R var sakfelldur fyrir brot gegn 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa haft í vörslum sínum 4.048 ljósmyndir og 7 hreyfimyndir með barnaklámi. Þegar virt var hið mikla magn af ljósmyndum og grófleika margra þeirra og hreyfimyndanna, taldist brot hans stórfellt og varða fangelsisrefsingu. R átti að baki sakaferil sem laut að samkynja brotum. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. september 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu og staðfestingar á upptöku.
Ákærði krefst mildunar refsingar.
Ákærði hafði í vörslum sínum samtals 4.048 ljósmyndir og 7 hreyfimyndir með barnaklámi. Myndirnar sýna börn á ýmsum aldri á kynferðislegan og klámfenginn hátt og eru margar þeirra mjög grófar. Hafði hann aflað myndanna af netinu og vistað á tölvubúnaði sínum eins og nánar er lýst í ákæru. Brot hans varðar við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, en þar segir: „Hver sem flytur inn, aflar sér eða öðrum, eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stórfellt.“ Markmiðið með því að leggja refsingu við vörslu barnakláms er að styrkja vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun, meðal annars í tengslum við gerð slíks efnis. Þegar virt er hið mikla magn af ljósmyndum, sem ákærði hafði í fórum sínum, og grófleiki margra þeirra og hreyfimyndanna, telst brot hans stórfellt og varða fangelsisrefsingu. Honum er hvorki gefið að sök að hafa dreift efninu né að hafa haft það í hyggju.
Í sálfræðilegu mati frá nóvember 2007 kemur fram að ákærði er haldinn barnahneigð og að vandi hans er alvarlegur og fastmótaður. Hann hefur leitað sér aðstoðar, en ekki með fullnægjandi árangri. Ákærði gekkst árið 1998 undir greiðslu 100.000 krónu sektar vegna vörslu og dreifingar barnakláms. Á árinu 2001 var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveimur drengjum. Þá var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi árið 2003 fyrir vörslur barnakláms, jafnframt því sem honum var gert að greiða 350.000 krónur í sekt. Sakaferill hans lýtur því að samkynja brotum. Með vísan til alls þess sem hér að framan er rakið og 5. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans ákveðin fangelsi í 10 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest. Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ragnar Már Sævarsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 258.447 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. ágúst 2007.
Mál þetta, sem þingfest var í dag og dómtekið, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 25. júní sl., á hendur ákærða, Ragnari Má Sævarssyni, kt. 250668-2959, Burknavöllum 9, Hafnarfirði, fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft í vörslum sínum, í neðangreindum búnaði sem haldlagður var á heimili ákærða 9. október 2006, ljósmyndir og hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Myndanna aflaði ákærði sér af netinu og vistaði á neðangreindan búnað á tímabilinu frá nóvember 2005 fram í september 2006:
1) Í Toshiba fartölvu, sjö hreyfimyndir.
2) Í Sony Walkman ferðaspilara, 3814 ljósmyndir.
3) Í ACE special edition turntölvu, 234 ljósmyndir.
Telst þetta varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000, 2. gr. laga nr. 14/2002 og 2. gr. laga nr. 74/2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku samkvæmt 1. tl., 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, á Toshiba fartölvu, Sony Walkman ferðaspilara og ACE special edition turntölvu.
Málavextir
Ákærði hefur skýlaust játað það brot sem hann er saksóttur fyrir. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæðis. Ákærði hlaut sektarrefsingu árið 1998 fyrir sams konar brot og nú er ákært fyrir og árið 2001 hlaut hann 12 mánaða fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn ungum drengjum. Loks var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi árið 2003 fyrir sams konar brot og nú er ákært fyrir. Vegna þessa sakaferils telst refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Dæma ber ákærða til þess að greiða 150.000 krónur í málsvarnarlaun til Lúðvíks Kaaber hdl., að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn
DÓMSORÐ:
Ákærði, Ragnar Már Sævarsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði sæti upptöku á fartölvu, ferðaspilara og turntölvu.
Ákærði greiði verjanda sínum, Lúðvík Kaaber hdl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun.