Hæstiréttur íslands
Mál nr. 483/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Res Judicata
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 4. janúar 2000. |
|
Nr. 483/1999.
|
Hilmar Ó. Sigurðsson (Hlöðver Kjartansson hdl.) gegn Öryggisþjónustunni hf. (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Res judicata. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
H höfðaði mál gegn hlutafélaginu Ö. Héraðsdómari féllst á kröfu Ö um frávísun málsins á grundvelli þess að áður hefði verið leyst efnislega úr ágreiningi um kröfu H í máli sem hann hafði áður höfðað gegn hlutafélaginu G. Ö hafði ekki að lögum komið í stað G og átti Ö ekki aðild að máli því, sem H höfðaði gegn G. Var því ekki talið að 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála stæði í vegi fyrir málsókninni og var lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 1999, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Eins og greinir í úrskurði héraðsdómara gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. apríl 1999 í máli, sem sóknaraðili höfðaði gegn Greiðabílum hf. til greiðslu skuldar samkvæmt reikningum fyrir bókhaldsþjónustu frá nóvember 1997 til maí 1998, samtals að fjárhæð 348.283 krónur. Félagið var sýknað af kröfu sóknaraðila, þar sem því var talið heimilt að hafa uppi til skuldajafnaðar gagnkröfu á hendur honum um leigu fyrir skrifstofuhúsnæði á tímabilinu frá ársbyrjun 1996 til ágúst 1998, að fjárhæð 384.000 krónur. Í máli þessu, sem sóknaraðili höfðaði með stefnu birtri 29. júní 1999, krefur hann varnaraðila um greiðslu 494.327 króna samkvæmt reikningi frá 15. apríl sama árs fyrir bókhaldsþjónustu á árunum 1995, 1996 og 1997. Fyrir héraðsdómi krafðist varnaraðili þess að málinu yrði vísað frá dómi, því leyst hafi verið efnislega úr ágreiningi um kröfu sóknaraðila í dóminum frá 8. apríl 1999. Féllst héraðsdómari á þá kröfu með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Í fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 1999 var leyst að efni til úr ágreiningi um kröfu, sem sóknaraðili gerði í því máli á hendur Greiðabílum hf. Varnaraðili hefur ekki komið að lögum í stað þess félags og átti ekki aðild að því máli. Þegar af þeirri ástæðu stendur ákvæði 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 ekki í vegi þessari málsókn. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili verður dæmur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Öryggisþjónustan hf., greiði sóknaraðila, Hilmari Ó. Sigurðssyni, 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 1999.
Ár 1999, miðvikudaginn 24. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg kveðinn upp úrskurður í máli nr. E-4035/1999: Hilmar Ó. Sigurðsson persónulega og fyrir hönd einkafirma síns Virkis, bókhalds- og tölvuþjónustu gegn Öryggisþjónustunni hf.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 2. nóvember s.l. um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað með stefnu út gefinni 28. júní s.l. og birtri daginn eftir.
Stefnandi er Hilmar Ó. Sigurðsson, kt. 261124-4089, Árskógum 8, Reykjavík, persónulega og fyrir hönd einkafirma hans, Virkis, bókhalds- og tölvuþjónustu.
Stefndi er Öryggisþjónustan hf., kt. 670193-2419, Malarhöfða 2, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða kr. 494.327 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga af kr. 112.050 frá 1. júlí 1996 til 31. desember sama ár, af kr. 176.292 frá þeim degi til 1. júlí 1997, af kr. 296.746 frá þeim degi til 31. desember sama ár, af kr. 365.479 frá þeim degi til 1. júlí 1998 og af kr. 494.327 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti frá upphafstíma þeirra. Þá er krafist málskostnaðar skv. 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málavextir eru þeir að stefnandi segir skuld þessa vera samkvæmt reikningi stefnanda nr. 852 frá 15. apríl s.l. að fjárhæð kr. 494.327. Stefnandi rekur bókhaldsfyrirtæki og segir reikninginn vera vegna þjónustu við stefnda við gerð ársreikninga og skattgagna fyrir árin 1995, 1996 og 1997 og ráðgjöf, sem veitt var Pétri Jóhannessyni, framkvæmdastjóra stefnda, um færslu bókhalds stefnda árin 1996 og 1997.
Stefnandi mun hafa annast bókhald Greiðabíla hf. í um 14 ár þar til slitnaði upp úr samstarfinu á árinu 1998, en meirihluti hlutafjár í hinu stefnda félagi mun vera í eigu Greiðabíla hf., Sigurðar Ármanns Sigurjónssonar, stjórnarformanns stefnda og framkvæmdastjóra Greiðabíla hf. og Gissurar Sveins Ingólfssonar, meðstjórnanda í stefnda og stjórnarformanns Greiðabíla hf. Eftir að stefnandi seldi húsnæði sitt í ársbyrjun 1995 varð að samkomulagi með stefnanda og áðurgreindum Sigurði Ármanni að stefnandi flytti starfsemi sína í húsnæði að Malarhöfða 2 hér í borg sem er í eigu Greiðabíla hf. Stefnandi gerði Greiðabílum hf. áfram reikninga fyrir þjónustu sína með sama hætti og voru þeir greiddir allt þar til reikningar fyrir bókhaldsþjónustu frá nóvember 1997 til og með maí 1998 bárust. Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu út gefinni 23. október 1998 og krafði Greiðabíla hf. um greiðslu fyrir bókhaldsþjónustu fyrir umrætt tímabil samkvæmt sjö reikningum. Tveir þeir fyrstu voru að fjárhæð kr. 47.384, en hinir fimm voru allir að fjárhæð kr. 50.703 eða samtals kr. 348.283. Stefndi í því máli hafði uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda vegna afnota stefnanda af húsnæði stefnda Greiðabíla hf. að Malarhöfða 2 á tímabilinu frá mars 1995 til ágúst 1998, 20.000 krónur fyrir hvern mánuð, eða samtals 840.000 krónur, auk dráttarvaxta.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur upp kveðnum 8. apríl s.l. í ofangreindu máli nr. E-5289/1998 segir svo m.a.: „Viðurkennt er af hálfu stefnanda, að hann hafi í upphafi árs 1995 þegið boð áðurnefnds framkvæmdastjóra stefnda, sem á þeim tíma var jafnframt stjórnarformaður félagsins, um afnot umrædds skrifstofuhúsnæðis stefnda að Malarhöfða 2 gegn því að stefnandi tæki að sér bókhaldsþjónustu og gerð ársreikninga fyrir Öryggisþjónustuna hf., en samkvæmt gögnum málsins er það félag í meirihlutaeign stefnda og framkvæmdastjóra og stjórnarformanns þess. Segir í bréfi stefnanda til Öryggisþjónustunnar hf., dagsettu 12. desember 1998, að framkvæmdastjórinn hafi komið að máli við stefnanda skömmu eftir að stefnandi flutti í húsnæðið og talið rétt að reikningsfæra húsaleigu á móti bókhaldsþjónustu og talið, að 12.000 krónur á mánuði væri hæfilegt. Stefnandi flutti í húsnæðið í byrjun febrúar 1995.
Í bréfi stefnanda, dagsettu 1. mars 1996, segir svo:
“Ég undirritaður óska eftir að segja upp 01.01 (svo) 1996 samningi þeim (munnlegum), sem gerður var í byrjun s.l. árs við formann stjórnarinnar, þar sem hann óskaði, að ég tæki að mér bókhald fyrirtækisins, gegn því að ég fengi starfsaðstöðu í húsnæði Greiðabíla h/f að Malarhöfða 2.
Ástæða uppsagnarinnar er sú að ég og framkvæmdastjóri Öryggisþjónustunnar h/f höfðum ólíkar skoðanir um bókhald og bókhaldsskil.
Ég mun hins vegar gera ársreikning fyrir félagið fyrir árið 1995, ef þess er óskað, að því tilskyldu (svo) að ég fái þau bókhaldsgögn, sem til þess þarf.”
Óumdeilt er, að stefnandi færði bókhald fyrir Öryggisþjónustuna hf. frá febrúar 1995 og út árið og gerði ársreikning fyrir það ár. Þá er fram komið í málinu, að stefnandi gerði ársreikning félagsins árin 1996 og 1997, þrátt fyrir ofangreinda uppsögn á samningi þar um.
Samkvæmt framanröktu liggur fyrir afdráttarlaus viðurkenning af hálfu stefnanda um, að gagnkvæmur samningur hafi komist á milli aðila um, að stefnandi ynni umrædda bókhaldsvinnu fyrir Öryggisþjónustuna hf. gegn því að fá til afnota skrifstofuhúsnæði stefnda að Malarási (svo) 2. Svo sem áður greinir, er um að ræða 25 fermetra skrifstofuherbergi, ásamt hita, rafmagni og kostnaði af rekstri sameignar, auk reiknaðra 5 fermetra vegna afnota af sameign. Svo sem áður greinir kemur fram í áðurnefndu bréfi stefnanda frá 12. desember 1998, að umræddur framkvæmdastjóri stefnda hafi rætt um það við stefnanda að reikningsfæra húsaleigu á móti bókhaldsþjónustu og talið, að 12.000 krónur á mánuði væri hæfilegt. Ekki verður séð af gögnum málsins, að stefnandi hafi hreyft neinum andmælum við þeirri tillögu. Samkvæmt því þykir mega við það miða, að komist hafi á samningur milli aðila um, að leiga stefnanda fyrir skrifstofuhúsnæðið yrði eigi lægri, en þeirri fjárhæð næmi, enda verður engan veginn talið, að sú fjárhæð sé ósanngjörn í garð stefnanda.
Eftir að stefnandi hætti færslu bókhalds fyrir Öryggisþjónustuna hf. í árslok 1995 var hann í umræddu húsnæði stefnanda allt til ágústloka árið 1998, eða samtals 2 ár og 8 mánuði. Verður því að telja, að krafa stefnda á hendur stefnanda fyrir afnot húsnæðisins fyrir það tímabil nemi samkvæmt framansögðu 384.000 krónum að höfuðstól til.
Fallist er á með stefnda, að uppfyllt séu skilyrði til skuldajafnaðar kröfu stefnda við kröfu stefnanda og þá verður ekki talið, að krafa stefnda sé niður fallin fyrir tómlætis sakir.
Með því að gagnkrafa stefnda er hærri, en krafa stefnanda, ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, en eftir atvikum er rétt, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu."
Stefnandi segir kröfu sinni um greiðslu fyrir vinnuframlag í þágu stefnda stillt í hóf. Stefnandi hafi gengið út frá því að hann hefði afnot húsnæðisins gegn þjónustu sinni við stefnda. Hafi svo verið í framkvæmd allt frá því í febrúar 1995 og verið virt bæði af Greiðabílum hf. og stefnda allt þar til stefnanda barst kröfubréf Greiðabíla hf. í október 1998. Af hálfu stefnda og Greiðabíla hf. hafi verið skellt skollaeyrum við því að stefnandi hafi veitt stefnda framangreinda þjónustu frá árslokum 1995 og eigi rétt til endurgjalds fyrir hana. Með bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda og Greiðabíla hf. dagsettu 20. nóvember 1998 hafi verið tekið fram að fengi sá síðarnefndi dóm fyrir húsaleigukröfu sinni yrði stefnandi knúinn til að krefja stefnda um greiðslu fyrir bókhaldsþjónustu við hann. Framkvæmdastjóri stefnda hafi viðurkennt fyrir dómi við meðferð áðurgreinds dómsmáls að stefnandi hefði annast gerð ársreikninga stefnda fyrir rekstrarárin 1995, 1996 og 1997 og veitt sér aðstoð við færslu bókhaldsins seinni tvö árin. Hann hafi gert ráð fyrir að greiðsla ætti að koma á móti húsaleigu og gæti fallið undir Greiðabíla hf. sem ætti stóran eignarhluta í stefnda. Gissur Sveinn Ingólfsson hafi viðurkennt í skýrslu sinni fyrir dómi að stefnandi hefði aðstoðað við samningu nefndra ársreikninga stefnda. Aðspurður hvort hann hafi gert ráð fyrir að sú vinna stefnanda gæti komið í stað húsaleigu að einhverju eða öllu leyti, sagðist hann aldrei hafa hugleitt það neitt sértaklega. Stefnandi hefði sagt upp þessari þjónustu og væri um einhverja aðra þjónustu að ræða væri hún greidd samkvæmt einhverjum reikningi.
Frávísunarkrafa stefnda er á því byggð að þegar liggi fyrir dómur sem hafi að geyma bindandi úrlausn sakefnis þess sem stefnukrafan byggist á. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-5289/1998 hafi verið m.a. fjallað efnislega um ágreining aðila vegna greiðslu fyrir vinnu stefnanda við bókhaldsþjónustu fyrir stefnda á árinu 1995, svo og fyrir ráðgjöf og gerð ársreikninga fyrir árin 1995, 1996 og 1997. Í dómi Héraðsdóms sé tekið efnislega á þeirri málsástæðu stefnanda að hann hafi sinnt bókhaldsþjónustu fyrir stefnda og fengið í stað afnot af húsnæði að Malarhöfða 2 og af þeirri ástæðu eigi ekki að taka skuldajafnaðarkröfu Greiðabíla hf. til greina eins og hún var fram sett. Í dóminum sé komist að þeirri niðurstöðu að gagnkvæmur samningur hafi komist á milli aðila um að stefnandi ynni bókhaldsvinnu fyrir stefnda gegn því að fá skrifstofuhúsnæði í eigu Greiðabíla hf. á leigu. Jafnframt sé ljóst að stefnandi hafi fært bókhald fyrir stefnda árið 1995 og gert ársreikninga fyrir árin 1995, 1996 og 1997. Í dóminum sé öll þessi vinna stefnanda reiknuð á móti skuldajafnaðarkröfu Greiðabíla hf. vegna húsaleigu fyrir tímabilið febrúar-desember 1995. Liggi þannig fyrir dómsúrlausn um hvernig greiðsla til stefnanda fyrir þá vinnu sem krafa hans byggist á í máli þessu eigi að vera reiknuð og að hún hafi þegar átt sér stað. Kröfur stefnanda hafi þar af leiðandi verið dæmdar að efni til og verða ekki bornar upp aftur undir sama dómstól, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi mótmælir frávísunarkröfu stefnda og bendir á að stefndi í þessu máli hafi ekki verið aðili fyrra dómsmálsins og þá sé það rangur skilningur að um bindandi úrlausn sakarefnis þessa máls hafi verið að ræða í því máli.
Í dómi í framangreindu máli nr. E-5289/1998 var því slegið föstu að fyrir lægi afdráttarlaus viðurkenning af hálfu stefnanda um, að gagnkvæmur samningur hafi komist á milli aðila um, að stefnandi ynni umrædda bókhaldsvinnu fyrir stefnda Öryggisþjónustuna hf. á því árabili er stefna í máli þessu tekur til gegn því að fá til afnota skrifstofuhúsnæði Greiðabíla hf. að Malarhöfða 2. Þá var á það fallist með stefnda Greiðabílum hf., að uppfyllt væru skilyrði til skuldajafnaðar kröfu stefnda Greiðabíla hf. við kröfu stefnanda. Reikningur sá er stefnandi byggir málssókn sína á í þessu máli var gefinn út einni viku eftir dómsuppkvaðningu í máli nr. E-5289/1998. Ekki verður séð af gögnum málsins að um sé að ræða aðra vinnu stefnanda en fjallað var um í fyrrgreindum dómi. Verður því fallist á með stefnda að þegar hafi verið dæmt um kröfur stefnanda að efni til og verður sakarefnið því ekki borið aftur undir sama dómstól, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Verður málinu því vísað frá dómi. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.