Hæstiréttur íslands
Mál nr. 372/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Kyrrsetning
- Lögskýring
|
|
Mánudaginn 21. júní 2010. |
|
Nr. 372/2010. |
Tollstjórinn í Reykjavík (Óskar Thorarensen hrl.) gegn X (Þórður Bogason hrl.) |
Kærumál. Kyrrsetning. Lögskýring.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumanns um að krafa T um kyrrsetningu á eignum X næði fram að ganga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2010 þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík í málinu nr. K-28/2010, um að krafa sóknaraðila um kyrrsetningu á eignum varnaraðila næði fram að ganga. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um að fella ákvörðun sýslumanns úr gildi verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík í málinu nr. K-28/2010 verði breytt á þann veg að framkvæmd verði kyrrsetning fyrir samtals 22.000.000 krónum á eignarhlutum hans (50%) í fasteignunum [...], Reykjavík og [...], [...] og ekki verði fallist á kröfu sóknaraðila um að gerðin sé árangurslaus að hluta. Að því frágengnu krefst hann þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík verði breytt á þann veg að kyrrsetning á eignum hans sem ákveðin var í máli K-28/2010 verði staðfest að öðru leyti en því að ekki verði fallist á kröfu sóknaraðila þess efnis að gerðin sé árangurslaus að hluta. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Með lögum nr. 23/2010 var bætt við 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt heimild til „að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim er rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að ... “. Í tilvitnaðri 109. gr. laga nr. 90/2003 er að finna heimild til refsingar sé brotið gegn ákvæðum þeirra laga. Samsvarandi ákvæði um refsingar er, að því er virðisaukaskatt varðar, að finna í 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Til þess ákvæðis er ekki vísað í nefndu nýmæli um heimild til kyrrsetningar. Með hliðsjón af þeim lögskýringarsjónarmiðum sem vísað er til í hinum kærða úrskurði verður ekki fallist á með sóknaraðila að almenn tilvísun í 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988 til laga nr. 90/2003 dugi til að veita lagaheimild til kyrrsetningar vegna ætlaðra brota gegn lögum nr. 50/1988. Leiðir þetta þegar til þess að hinn kærði úrskurður verður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Tollstjórinn í Reykjavík, greiði varnaraðila, X, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2010.
Með beiðni, dags. 4. maí 2010, krefst sóknaraðili, sem er A, kt. [...], [...], Reykjavík, þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík í málinu nr. K-28/2010 um að krafa varnaraðila um kyrrsetningu á eignum sóknaraðila nái fram að ganga.
Til vara gerir hann þá kröfu að ákvörðun sýslumannsins verði breytt á þann veg að framkvæmd verði kyrrsetning fyrir samtals 22.000.000 króna í eignarhlutum sóknaraðila (50%) í fasteignunum [...], [...], Reykjavík og [...], [...], [...] og ekki sé fallist á kröfu varnaraðila þess efnis að gerðin sé árangurslaus að hluta.
Við fyrirtöku máls þessa hinn 19. maí sl. var af hálfu sóknaraðila lögð fram eftirfarandi þrautavarakrafa í máli þessu: Að ákvörðun sýslumannsins verði breytt á þann veg að kyrrsetning á eignum sóknaraðila, sem ákveðin var í málinu K-28/2010, verði staðfest að öðru leyti en því að ekki sé fallist á kröfu varnaraðila þess efnis að gerðin sé árangurslaus að hluta.
Loks er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Varnaraðili, Tollstjórinn í Reykjavík, krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati réttarins. Þá mótmælir hann því sérstaklega að þrautavarakrafa sóknaraðila fái að komast að í málinu.
Málavextir
Með bréfi Skattrannsóknarstjóra ríkisins til tollstjóra, dags. 15. apríl 2010, var farið fram á að tollstjóri hlutaðist til um að eignir sóknaraðila að fjárhæð 90.000.000 króna yrðu kyrrsettar til tryggingar greiðslu væntanlegrar fésektar vegna rökstudds gruns um að sóknaraðili hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi skv. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Um grundvöll beiðninnar var vísað til 6. og 7. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Af hálfu sóknaraðila var beiðni þessari mótmælt með rökstuddu bréfi til skattrannsóknarstjóra, dags. 25. apríl 2010, og þess óskað að hún yrði afturkölluð.
Með kyrrsetningarbeiðni, dags. 27. apríl 2010, var þess farið á leit við Sýslumanninn í Reykjavík að hann kyrrsetti svo mikið af eignum sóknaraðila að nægði til tryggingar fullnustu framangreindrar kröfu. Áður, eða með bréfi dags. 25. apríl 2010, hafði sóknaraðili og krafist þess gagnvart sýslumanni að væntanlegri kyrrsetningarbeiðni yrði hafnað.
Krafa tollstjóra um kyrrsetningu eigna sóknaraðila var tekin fyrir hjá sýslumanni hinn 30. apríl sl. Þar mætti lögmaður sóknaraðila fyrir hans hönd og lagði fram greinargerð ásamt öðrum gögnum. Vísaði hann í meginatriðum til sömu sjónarmiða og hann byggir á í máli þessu. Gegn mótmælum féllst sýslumaður á að gerðin skyldi ná fram að ganga. Eftir ábendingu sóknaraðila voru kyrrsettar eftirfarandi eignir: 50% eignarhluti í fasteigninni [...], sem samkomulag var um að metin skyldi á 20.000.000 króna, 50% eignarhlutur í fasteigninni [...], [...], sem samkomulag var um að meta á 2.000.000 króna, og bifreið af gerðinni Range Rover Sport supercharger, árg. 2006, sem samkomulag var um að meta á 6.000.000 króna. Þá var af hálfu varnaraðila bent á innistæðu á bankareikningi að upphæð 5.053.343 krónur, en sóknaraðili mótmælti að sú eign yrði kyrrsett þar sem fjárhagsstaða hans væri mjög slæm, meðal annars með vísan til þess að hann væri án atvinnu og með miklar veðskuldir. Var af hálfu varnaraðila fallist á, með vísan til sjónarmiða varðandi framfærslu sóknaraðila og fjölskyldu hans, að kyrrsetningin skyldi ná til 3.000.000 króna af framangreindri fjárhæð og að sóknaraðila væri heimilt að færa mismuninn á sérreikning. Var framangreind bankainnistæða þá einnig kyrrsett og því samtals kyrrsettar eignir að fjárhæð 31.000.000 króna. Þar sem sóknaraðila tókst ekki að benda á eignir til að tryggja kröfuna að fullu krafðist varnaraðili þess að gerðin teldist árangurslaus að hluta og er tekið fram í gerðarbókun að lögmaður sóknaraðila hafi samþykkt það.
Málsástæður, málsatvik og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi verið stjórnarformaður [...], nú [...], frá því síðla árs 2005 til 8. júní 2007, en hann hafi gengið úr stjórn félagsins í desember 2007. Á þeim tíma sem sóknaraðili hafi verið stjórnarformaður félagsins hafi það verið stórfyrirtæki sem velti tugum milljarða króna á ári. Hann hafi á því tímabili ekki komið að daglegum rekstri félagsins og t.d. ekki verið starfandi stjórnarformaður þess. Hafi hann hvorki setið í stjórn félagsins á grundvelli persónulegrar hlutafjáreignar sinnar né haft hagnað af afkomu þess. Hafi hann eingöngu þegið laun fyrir stjórnarsetu í samræmi við ákvörðun hluthafafunda félagsins. Engin rök séu til að ætla annað en hann hafi fullkomlega sinnt rannsóknar- og eftirlitsskyldu í þessum störfum sínum. Félagið hafi haft í þjónustu sinni færustu sérfræðinga á sviði fjármála, uppgjörs og skattaskila og ráðið KPMG endurskoðunarfyrirtækið til að annast endurskoðun.
Í fyrirliggjandi yfirlýsingu [...] til skattrannsóknarstjóra komi fram sú skoðun núverandi stjórnar [...] að afstaða embættisins varðandi rekstrarkostnað erlendra dótturfélaga [...] og virðisaukaskattsskil vegna þeirra sé byggð á röngum forsendum. Hafi starfsmenn félagsins talið skattskil félagsins vera í samræmi við lög og reglur og að stjórnendur hafi verið í góðri trú. Hafi þetta verið stutt áliti bókhalds- og skattasérfræðinga. Bókhald og skattskil félagsins hafi verið í skoðun hjá skattyfirvöldum í meira en tvö ár en félagið hafi engar fréttir fengið af niðurstöðum rannsóknarinnar. Ágreiningurinn sé þess eðlis að dómstólar muni að öllum líkindum kveða upp úr um þessi tæknilegu álita- og túlkunaratriði.
Lögð sé á það áhersla að rannsókn skattrannsóknarstjóra beinist ekki að persónulegum skattskilum sóknaraðila heldur eingöngu að skattskilum [...]. Sóknaraðili geti ekki unað því að vera sakaður um brot á skattalögum af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi og muni hann halda uppi vörnum í málinu. Hans hagir séu með þeim hætti nú að hann sé án vinnu og atvinnutekna. Hann hafi tapað miklum eignum í hruni íslenska bankakerfisins og framfleyti fjölskyldunni af sparnaði sínum. Hann geti því engan veginn talist til þeirra auðmanna eða útrásarvíkinga sem almenningur og stjórnmálamenn heimti að stjórnvöld grípi til aðgerða gegn. Þar sem umrædd kyrrsetning hafi verið árangurslaus að hluta muni hún að öllum líkindum kalla yfir hann gjaldþrot eða setja hann, í það minnsta um langt árabil, í efnahagslegt gæsluvarðhald án dóms og laga.
Kyrrsetningarbeiðni varnaraðila sé gerð með vísan til 6. og 7. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. lög nr. 23/2010 (tsl.). Reyni hér í fyrsta sinn á nýmæli í lögum sem gangi mjög nærri meginreglum réttarríkisins. Hafi viðkomandi yfirvöld, við setningu laganna, sérstaklega verið vöruð við því af löggjafanum að beita ákvæðinu af meðalhófi og skynsemi þar sem misbeiting þess hefði mjög alvarleg áhrif á hag þess sem kyrrsetningunni væri beint að auk annarra sem óbeint yrðu fyrir tjóni af henni.
Í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar Alþingis, sbr. þskj. 868 á 138. löggjafarþingi, sé hnykkt á því að tollstjórinn meti sjálfstætt hvort tilefni sé til að fara með kyrrsetningarbeiðni fyrir sýslumann. Hafi nefndin og lagt á það áherslu að kyrrsetning stæði ekki lengur yfir en brýna nauðsyn bæri til. Þá hafi nefndin tiltekið í nefndaráliti sínu eftirfarandi: „Innan nefndarinnar hafa að teknu tilliti til sjónarmiða um réttláta málsmeðferð sakborninga og friðhelgi eignarréttarins komið fram skiptar skoðanir um hversu víðtækar heimildir opinberir valdhafar eigi að hafa til að tryggja endurheimt verðmæta sem grunur leikur á að skattgreiðendur hafi tileinkað sér með ólögmætum hætti, sérstaklega gagnvart hinum smærri sem standa oft höllum fæti. Kyrrsetning eigna getur haft mjög alvarleg áhrif á rekstur þeirra. Viðmælendum nefndarinnar bar saman um að kyrrsetning eigna er íþyngjandi þvingunarúrræði sem beita ber af sérstakri varúð, ekki síst þegar hún beinist að aðila sem ber ábyrgð á skattgreiðslum en er sjálfur ekki til rannsóknar.“
Til að hnykkja enn frekar á þessum vilja sínum til að heimildinni yrði beitt af varúð, skynsemi og sanngirni, í garð þeirra sem henni yrði beitt gegn, hafi efnahags- og skattanefnd lagt til að gerðar yrðu breytingar á frumvarpinu sem allar hafi verið samþykktar. Hafi Alþingi þannig hnykkt á því að ekki væri nægilegt að fyrir hendi væri grunur um refsiverða háttasemi skv. 109. gr. laga um tekjuskatt heldur þyrfti sá grunur einnig að vera rökstuddur. Ekki sé að finna neinn slíkan rökstuðning í gögnum sem stafi frá varnaraðila og hin umdeilda kyrrsetningargerð hvíli á. Nefndin hafi lagt til fleiri breytingar sem miði að því að hvetja skattyfirvöld til að sýna meðalhóf og aga í beitingu heimildarinnar. Þó sé mest um vert að Alþingi hafi samþykkt þá breytingu á ákvæði frumvarpsins í sínum meðförum að bera megi ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðarinnar undir dómstóla og hafi þannig staðið vörð um grunngildi réttarríkisins.
Í ljósi yfirheyrslu yfir sóknaraðila hinn 22. júní 2009 verði að krefjast þess, líkt og gert sé í 6. mgr. 113. gr. tsl., að sýnt sé fram á rökstuddan grun um refsiverða háttsemi en í tilkynningu Skattrannsóknarstjóra ríkisins til varnaraðila, dags. 15. apríl 2010, sé ekki unnt að greina milli þess hvort um sé að ræða ætluð brot skattaðila eða ætluð brot sóknaraðila. Sóknaraðili mótmæli því að skattrannsóknarstjóri hafi sýnt fram á rökstuddan grun um refsiverða háttsemi og í máli þessu verði ekki beitt öfugri sönnunarbyrði. Þegar af þeirri ástæðu sé skilyrðum kyrrsetningarbeiðninnar ekki fullnægt og beri því að fella hana úr gildi.
Þá séu í annan stað ekki lagaskilyrði fyrir því að krefjast þess að úrræði 6. mgr. 113. gr. tsl. sé beitt nema hin meinta refsiverða háttsemi sé talin brot á 109. gr. tsl. Um það sé ekki að ræða í þessu tilviki heldur sé vísað til 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. og 1. mgr. 262. gr. alm. hgl. Því beri þegar af þessari ástæðu að fella kyrrsetningargerðina úr gildi þar sem hún sé ólögmæt.
Einnig sé það skilyrði fyrir beitingu úrræðis 6. mgr. 113. gr. tsl. að hætta sé á því að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Hér sé vísað til meðalhófs- og rannsóknarreglu. Þrátt fyrir að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi ekki um kyrrsetningargerðir sé ljóst að um stjórnsýsluathöfn sé að ræða er lúti óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar. Í gögnum varnaraðila og skattrannsóknarstjóra sé enginn rökstuðningur fyrir því af hverju óttast megi undanskot eigna af hálfu sóknaraðila. Í stað þess að rannsaka málið og leggja fram rök byggð á athugunum sé í gerðarbeiðni einvörðungu að finna rakalausar fullyrðingar varnaraðila um að ágóði af meintum brotum hafi verið mikill. Ljóst sé að sóknaraðili hafi ekki haft neinn ávinning af hinum meintu brotum. Þá hafi því verið haldið fram af varnaraðila að ekki væri hægt að sjá hvert tekjur sóknaraðila hafi runnið, en það hafi glöggt mátt kanna með lítils háttar rannsókn á skattskilum sóknaraðila sem ávallt hafi verið í lagi. Sóknaraðili hafi mótmælt þessum málflutningi varnaraðila og telji hann óviðeigandi og meiðandi. Sóknaraðili hafi staðið skil á öllum sínum launatekjum alla tíð og ekkert dregið undan og upplýst við kyrrsetningargerðina ráðstöfun launatekna. Sóknaraðili hafni því að sýnt hafi verið fram á að óttast megi undanskot eigna hans en á því beri varnaraðili sönnunarbyrði. Sóknaraðili sé ekki á förum neitt og unnt sé að sanna svart á hvítu að hann hafi ekki hreyft neitt við eignum sínum frá hruninu. Sönnunarbyrði um þetta verði þó ekki snúið við. Þetta hafi varnaraðila átt að vera ljóst. Þegar af þessari ástæðu séu ekki skilyrði fyrir beitingu 6. mgr. 113. gr. tsl. og beri því að fella gerðina úr gildi.
Til viðbótar við skilyrði 6. og 7. mgr. 113. gr. tsl. gildi um gerðina almennar reglur um kyrrsetningu samkvæmt lögum nr. 31/1990, sbr. og aðfararlög, nr. 90/1989. Frumskilyrði kyrrsetningar komi fram í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990, en hún sé gerð til að tryggja fullnustu lögvarinnar kröfu. Í gerðarbeiðni sé engri slíkri kröfu til að dreifa en byggt á mati skattrannsóknarstjóra um lágmarkssekt að fjárhæð 90.000.000 króna. Hér sé því ekki um kröfu að ræða, hvað þá lögvarða, og því ekki skilyrði til kyrrsetningar. Í annan stað sé enginn efnislegur rökstuðningur með fjárhæðinni, t.d. hvernig hún sé fundin út.
Ljóst sé að varnaraðili, Skattrannsóknarstjóri ríkisins og Sýslumaðurinn í Reykjavík, hafi brotið svo gegn meginreglum stjórnsýsluréttar við ákvarðanatöku í málinu, gerð kyrrsetningarbeiðni og framkvæmd gerðarinnar, að kyrrsetningargerðina beri að ógilda vegna verulegs annmarka á henni. Eins og að framan sé getið teljist sóknaraðili ekki til hóps auðmanna og hann og eiginkona hans búi ásamt börnum sínum að [...] í Reykjavík. Hann hafi ekki fasta atvinnu. Varnaraðila hafi verið ljóst að kyrrsetning á eignum sóknaraðila ylli verulegri röskun á stöðu og högum allrar fjölskyldunnar, langt umfram það sem tilefni sé til og þegar sé orðið. Með hinni umdeildu kyrrsetningarbeiðni hafi ríkið ekki verið að tryggja neina hagsmuni í raun, einvörðungu að valda fjölskyldu búsifjum. Sé kyrrsetningargerðin því í engu samræmi við það meðalhóf sem stjórnvöldum beri að hafa í heiðri. Meðalhóf og jafnræði séu sjálfstæð skilyrði fyrir beitingu 6. og 7. mgr. 113. gr. tsl. en varnaraðili hafi ekki tekið tillit til þess né rannsakað málsatvik sjálfstætt eins og honum beri að gera áður en beiðni um svo íþyngjandi og óvenjulega bráðabirgðaaðgerð sé lögð fram. Hér þurfi og að hafa í huga ákvæði 1. mgr. 71. gr. og 1. mgr. 72. gr. stjskr. um friðhelgi einkalífs og friðhelgi eignarréttar. Þar sem hin umdeilda kyrrsetningargerð fari út fyrir þau takmörk sem henni séu sett samkvæmt 113. gr. tsl. sé hún ólögmæt og brjóti gegn stjórnarskrárvörðum réttindum sóknaraðila, en auk þess verði að telja að gerðin hafi áhrif á mun fleiri en sóknaraðila sjálfan og brjóti þannig einnig gegn 3. mgr. 76. gr. stjskr. sem tryggi börnum að lögum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist.
Að lokum verði að telja að óvissa um gildistíma kyrrsetningarinnar sé svo mikil að ekki samræmist skilyrðum 6. og 7. mgr. 113. gr. tsl., sbr. og 1. og 2. mgr. 70. gr. stjskr. Eftir sé að ljúka rannsókn skattrannsóknarstjóra, er hafi hafist í nóvember 2008, og allri meðferð skattayfirvalda. Forsenda áfellisdóms yfir sóknaraðila sé ákæra af hálfu ákæruvaldsins og meðferð fyrir dómstólum, því eins og áður sé getið séu nær engar líkur á því að máli þessu verði lokið innan skattkerfisins.
Varakrafa sóknaraðila sé á því byggð að varnaraðila sé, með vísan í 6. og 7. mgr. 113. gr. tsl., óheimilt að ganga svo hart fram gagnvart sóknaraðila sem raun beri vitni án þess að fyrir liggi annað tveggja, rökstuddur grunur um brot, sem sóknaraðili hafi sjálfur framið og notið ágóða af, eða fyrir hendi séu eignir sem kyrrsetja megi án þess að allir nákomnir sóknaraðila séu í raun gerðir gjaldþrota og þar með refsað í raun af ríkinu án þess þeir hafi nokkuð til saka unnið og hvað þá að dómur hafi gengið í máli þeirra. Í málinu hefði þurft að fara fram sjálfstætt mat á eðli þeirra ásakana sem bornar eru á sóknaraðila og stöðu hans að öllu leyti, ekki síst fjárhagslega. Það hafi ekki verið gert.
Sóknaraðili vísar og til þess, vegna varakröfunnar, að þær fasteignir sem kyrrsettar hafi verið séu annars vegar heimili sóknaraðila og hins vegar frístundahús fjölskyldu hans. Sóknaraðili eigi þær til jafns við eiginkonu sína og hafi getað boðið 22 milljón króna tryggingu með kyrrsetningu þeirra, að teknu tilliti til veðskulda sem á þeim hvíli. Með því væri íþyngjandi inngrip gert í fjármál sóknaraðila en það riði þeim ekki að fullu í fyrstu atrennu eins og kyrrsetningin muni að öllum líkindum gera. Þá verði að telja, með vísan til laga nr. 23/2010 og þeirra lögskýringargagna sem þau byggja á, að varnaraðila hefði í ljósi aðstæðna sóknaraðila átt, eða mátt vera það ljóst, að krafa um árangurslausa kyrrsetningu að hluta væri langt utan lagaheimilda hans, jafnvel þótt skattrannsóknarstjóri teldi hugsanlega sekt geta numið 90.000.000 króna. Það mat hafi verið órökstutt með öllu. Ef sóknaraðili missi forræði á búi sínu munu tryggingarréttindi ríkisins falla niður. Gerðin vinni því á móti þeim hagsmunum sem henni sé ætlað að tryggja.
Í ljósi aðstæðna sinna hafi sóknaraðili krafist þess að öll peningaeign á bankareikningum hans yrði undanþegin kyrrsetningu vegna framfærslu fjölskyldu hans, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 41. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, sbr. og 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, og 1. og 3. mgr. 76. gr. stjskr. Eins og fram hafi komið sé sóknaraðili án atvinnu og geti einvörðungu framfleytt sér og fjölskyldu sinni með því að taka af þeim sparnaði sem hann eigi og geymi á bankareikningum sínum. Kyrrsetning peningalegra eigna muni einfaldlega þýða greiðsluþrot og mikla röskun á stöðu og högum fjölskyldu sóknaraðila. Varnaraðili hafi fallist á þessa kröfu að hluta en sóknaraðili telji að í ljósi aðstæðna sinna og málsatvika hefði varnaraðila borið að fallast á hana án skilyrða. Hvað varði bifreið sóknaraðila þá hafi honum verið gert ókleift að selja hana eins og hann hafi ætlað að gera til að lækka rekstarkostnað sinn.
Kröfu sína um að varnaraðili verði dæmdur til að greiða honum málskostnað byggir sóknaraðili á meginreglum XXI. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sbr. og meginreglum XXXIV. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er til þess vísað að við ákvörðun þeirrar fjárhæðar sem legið hafi til grundvallar tilkynningu Skattrannsóknarstjóra ríkisins til tollstjóra hinn 15. apríl sl. hafi verið horft til þess hluta rannsóknarinnar sem varði virðisaukaskattsskil skattaðilans [...]. vegna aðkeyptrar erlendrar þjónustu. Bæði hafi verið gætt meðalhófs og varfærni við vinnslu málsins og við útreikning væntanlegrar sektarfjárhæðar. Áætluð sektarfjárhæð hafi einungis verið byggð á hluta þeirra fjárhæða sem skattrannsóknarstjóri telji að rannsókn hans muni leiða í ljós að hafi verið vanframtaldar eða vangoldnar í máli skattaðila. Grundvöllur þannig áætlaðrar sektarfjárhæðar vegna refsiábyrgðar sóknaraðila sé að hann hafi verið stjórnarmaður [...] frá 1. janúar 2006 til og með 8. júní 2007. Sem slíkur beri hann ábyrgð á skattskilum skattaðilans. Sé hann talinn bera ábyrgð, ásamt þáverandi forstjóra félagsins, vegna uppgjörstímabilanna janúar til febrúar rekstrarárið 2006 til og með mars til apríl rekstrarárið 2007, en eindagi uppgjörstímabilsins mars til apríl 2007 hafi verið 5. júní 2007. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar í máli [...] nemi heildarfjárhæð vangreidds virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabila rekstraráranna 2006 og 2007 samtals 504.231.768 krónum. Rannsóknin snúi þó einnig að fleiri rannsóknaratriðum, s.s. oftöldum rekstrargjöldum, sem nemi verulegum fjárhæðum.
Samkvæmt framangreindu sé mótmælt þeirri málsástæðu sóknaraðila að ekki hafi verið til staðar rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi hans. Hafi þetta komið fram í þeim málsgögnum sem kyrrsetningargerðin hafi verið byggð á. Hinn rökstuddi grunur lúti að því að sóknaraðili hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi, meðal annars skv. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Vísist hvað þetta varði til gagna málsins og umsagnar skattrannsóknarstjóra. Þá sé fráleitt að ekki hafi verið unnt að greina á milli þess í tilkynningu skattrannsóknarstjóra hinn 15. apríl sl. hvort um hafi verið að ræða ætluð brot skattaðila eða sóknaraðila. Hins vegar sé ljóst að ekki verði á þessu stigi fjallað um lögmæti skattsektarkröfunnar heldur einungis um lögmæti kyrrsetningargerðarinnar.
Samkvæmt 6. og 7. gr. 113. gr. laga um tekjuskatt sé heimilt að kyrrsetja eignir þegar í upphafi skattrannsóknar. Eðli málsins samkvæmt þýði þetta að kyrrsetning geti farið fram þótt ekki liggi fyrir með óyggjandi hætti hverjar verði endanlegar skatt- og refsikröfur. Heimildin sé að þessu leyti mjög rúm.
Varnaraðili vísi til þess að heimild til kyrrsetningar í 113. gr. laga um tekjuskatt sé almenn heimild sem ætluð sé til nota vegna brota á skattalögum, þar með talið lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Tekjuskattslögin hafi að geyma meginreglur á sviði skattaréttar og taki við þar sem sérskattalöggjöf sleppi. Lögin um virðisaukaskatt séu sérskattalög og vísi sérstaklega í tekjuskattslögin til fyllingar, sbr. 5. mgr. 49. gr. sömu laga. Vilji löggjafans hafi verið að skapa úrræði fyrir skatt- og innheimtuyfirvöld til að tryggja greiðslu skatta og sekta, án tillits til skattategunda. Þetta sé staðfest í lögskýringargögnum með lögum nr. 23/2010. Þá megi benda á að 113. tekjuskattslaganna sé í almennum kafla þeirra. Í þeim kafla séu ákvæði um innheimtu sem gildi almennt um alla skattaframkvæmd. Styðji þetta þá fullyrðingu að ákv. 113. gr. um kyrrsetningu eigna sé almennt ákvæði og sé því ekki bundið við brot gegn tekjuskattslögum. Megi í því efni einnig benda á að 109. gr. tekjuskattslaganna sé sama efnis og 40. gr. virðisaukaskattslaganna.
Á því sé byggt að varnaraðili hafi sýnt nægilega fram á að hætta á undanskoti eigna hafi verið til staðar. Að þessu hafi verið vikið í kyrrsetningarbeiðni til sýslumanns. Skattframtöl sóknaraðila og gögn um bankainnistæður hafi stutt þessa fullyrðingu um undanskotshættuna. Þannig hafi sóknaraðili á árunum 2004 til 2008 haft tæpar 300 milljónir króna í laun og á árunum 2007 og 2008 hafi hann hagnast um tæpar 500 milljónir króna í hlutabréfaviðskiptum. Eignastaða sóknaraðila samkvæmt framangreindum gögnum sé hins vegar ekki í samræmi við framangreindar tekjur og ekki verði af skattframtölum hans ráðið hvert tekjur hans hafi runnið. Þá hafi það og verið mat varnaraðila, með hliðsjón af þeim meintu brotum sem skattrannsóknarstjóri hafi til meðferðar og varði sóknaraðila sem stjórnarmann [...], að raunveruleg hætta væri á undanskoti eigna.
Varnaraðili mótmæli þeirri staðhæfingu sóknaraðila að ekki hafi verið gætt reglna stjórnsýsluréttarins um undirbúning og framkvæmd kyrrsetningarinnar og því sé jafnframt mótmælt að um hafi verið að ræða stjórnsýsluathöfn. Alls meðalhófs og vandaðra stjórnsýsluhátta hafi verið gætt við kyrrsetninguna, enda hafi tvær milljónir króna verið undanskildar kyrrsetningunni með tilliti til framfærslusjónarmiða sóknaraðila. Þá sé því einnig mótmælt að kyrrsetningarheimildin í 113. gr. tekjuskattslaganna brjóti með einhverjum hætti gegn stjórnarskrá. Heimild þessi sé sambærileg við heimild í 1. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála en sú heimild hafi af dómstólum ekki verið talin ganga gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Loks sé, varðandi aðalkröfu sóknaraðila, bent á að umrædd kyrrsetningarheimild sé sjálfstæð heimild til að kyrrsetja eignir til tryggingar væntanlegri skattkröfu, fésektar eða sakarkostnaðar í málum sem sæti rannsókn hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins og sambærileg heimild þeirri sem sé að finna í 1. mgr. 88. gr. sakamálalaga. Verði þær því ekki lagðar til jafns við skilyrði fyrir kyrrsetningu skv. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 73/2010.
Varnaraðili hafni öllum málsástæðum og sjónarmiðum sóknaraðila vegna varakröfunnar og vísist í því sambandi til svipaðra sjónarmiða og áður hafi verið rakin. Þá mótmæli hann því að þrautavarakrafa sóknaraðila komist að í málinu þar sem hún sé of seint fram komin.
Niðurstaða
Mál þetta snýst um gildi kyrrsetningargerðar Sýslumannsins í Reykjavík er fram fór að beiðni varnaraðila í eignum sóknaraðila hinn 30. apríl 2010. Í kyrrsetningarbeiðninni, sem dagsett er 27. apríl sl., er vísað til ákv. 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi grundvöll hennar. Ákvæði þetta, sem kom inn í tekjuskattslögin með samþykkt laga nr. 23/2010 á Alþingi 25. mars sl., er svohljóðandi: „Til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum er sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim er rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Með sama hætti er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá aðilum sem bera ábyrgð á skattgreiðslum skv. 116. gr.“ Samkvæmt framangreindu er það skilyrði þess að slík kyrrsetning geti farið fram að hún beinist að skattaðila eða öðrum þeim sem rökstuddur grunur leikur á að gerst hafi sekur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. laga um tekjuskatt.
Í kyrrsetningarbeiðninni er vísað til þess að Skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi rökstuddan grun um að sóknaraðili hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi skv. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kemur fram að ætluð brot felist m.a. í því að sóknaraðili hafi staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd [...], með því að vanframtelja virðisaukaskatt af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Telji Skattrannsóknarstjóri ríkisins að refsing sóknaraðila verði að lágmarki sektir að fjárhæð 90.000.000 króna vegna framangreindra brota.
Eins og að framan segir er það skilyrði fyrir kyrrsetningu skv. tilvitnaðri 6. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt að rökstuddur grunur beinist að gerðarþolanum um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. sömu laga. Hvorki í nefndri 109. gr., sem er í átta málsgreinum, né í lögskýringargögnum með henni, er vitnað til laga um virðisaukaskatt né er að því vikið að refsiákvæðum greinarinnar verði með einhverjum hætti beitt vegna brota gegn öðrum lögum en lögum um tekjuskatt. Þannig segir í 1. mgr. 109. gr. „Skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn skal hann greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Skattur af álagi skv. 108. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.“ Samskonar refsiákvæði er að finna í lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Þá er í athugasemdum frumvarpsins vegna umrædds viðauka við 113. gr. tekjuskattslaganna einungis vikið að opinberum gjöldum en hvergi minnst á virðisaukaskatt. Segir þannig meðal annars: „ er talið nauðsynlegt að veita stjórnvöldum auknar heimildir til varnar því að þeir aðilar sem málið varðar geti komið sér undan greiðslum opinberra gjalda og mögulegra fésekta vegna skattalagabrota “ Einnig segir: „Vegna langs rannsóknartíma getur verið hætta á að eignum sé komið undan enda er skattaðilum oftast ljóst þegar við upphaf rannsóknar að til endurákvörðunar opinberra gjalda muni koma og lögbundnum fésektum verða beitt.“
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, og þegar einnig er höfð í huga viðurkennd lögskýringarsjónarmið um að íþyngjandi ákvæði skattalaga og refsiákvæði beri að jafnaði að túlka þröngt, verður ekki fallist á þá málsástæðu varnaraðila að kyrrsetningarheimildin í 6. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt sé almenn heimild sem ætluð sé til nota vegna brota á skattalögum almennt, þar með talið lögum um virðisaukaskatt. Samkvæmt því er það niðurstaða dómsins að í framangreindu lagaákvæði sé ekki að finna heimild til kyrrsetningar vegna meintrar refsiverðrar háttsemi sóknaraðila skv. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1987 um virðisaukaskatt og hafi því skort lagaskilyrði fyrir því að hin umdeilda gerð færi fram. Ber því, þegar af þeirri ástæðu, að fallast á kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi þá ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík í málinu nr. K-28/2010 að kyrrsetja eigur sóknaraðila.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.
Úrskurðinn kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, í málinu nr. K-28/2010, um að krafa varnaraðila, Tollstjórans í Reykjavík, um kyrrsetningu á eignum sóknaraðila, A, nái fram að ganga.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.