Hæstiréttur íslands
Mál nr. 193/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Þriðjudaginn 17. maí 2005. |
|
Nr. 193/2005. |
X(Kristján Stefánsson hrl.) gegn B (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Fallist var á kröfu um að X yrði sviptur sjálfræði tímabundið, enda væri hann ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2005, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í 6 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess, að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst þess, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þóknun talsmanns hans greidd úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. apríl 2005.
Með beiðni, sem dagsett er 19. þ. m. hefur Helgi Bragason hdl. f. h. B, kt. [...], krafist þess að varnaraðili, X, kt. [...], faðir sóknaraðila, verði sviptur sjálfræði í sex mánuði vegna geðveiki. Var málið þingfest og tekið til úrskurðar í dag. Um aðild sóknaraðila vísast til a-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71,1997.
Fyrir liggur að varnaraðili er haldinn geðhvarfasjúkdómi, og hefur verið undir læknishendi um árabil og vistast á geðdeild nokkrum sinnum af þeim sökum. Meðal gagna málsins er vottorð Gísla Á. Þorsteinssonar geðlæknis, sem nú stundar varnaraðila. Kemur þar fram að hann sé í geðrofsástandi og mjög veikur. Hafi hann ekki innsæi í sjúkdóm sinn og hafi ekki verið til samvinnu um lyfjameðferð. Sé því nauðsynlegt að svipta hann sjálfræði til þess að vista hann á spítala til þess að tryggja það að hann fái viðeigandi meðferð. Læknirinn hefur komið fyrir dóm í dag og áréttað þessa skoðun. Varnaraðili mótmælir beiðninni. Hann hefur komið fyrir dóminn og reifað sjónarmið sín. Er tal hans allt fremur annarlegt.
Með vísan til þess sem rakið er hér að framan telur dómarinn að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðveiki. Ber því að verða við kröfu sóknaraðila og ákveða með heimild í a-lið 4. gr. lögræðislaga að varnaraðili skuli vera sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Allan kostnað við mál þetta, þar með talda þóknun til talsmanna aðilanna, Björgvins Þorsteinssonar og Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanna, 50.000 krónur til hvors um sig, skal greiða úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, X, kt. [...], [...], Reykjavík, er sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Málskostnaður, þar með talin þóknun til talsmanna aðilanna, Björgvins Þorsteinssonar og Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanna, 50.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.