Hæstiréttur íslands

Mál nr. 212/2017

P153 ehf. (Reimar Pétursson hrl.)
gegn
Seðlabanka Íslands (Ástríður Gísladóttir hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

P ehf. höfðaði mál á hendur SÍ og gerði þá kröfu að ógilt yrði ákvörðun SÍ um að tiltekinn lánssamningur á milli P ehf. og N AS teldist til aflandskrónueigna í skilningi laga nr. 37/2016 um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Fólst m.a. í samningnum að N AS framseldi P ehf. kröfu sína á hendur K ehf. samkvæmt nauðasamningi síðastgreinds félags. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem fyrir lægi að gjalddagi umrædds lánssamnings væri ekki fyrr en í janúar 2025, en óvíst væri hvort, og þá að hvaða marki, gjaldeyristakmarkanir myndu gilda um umrædd réttindi þá. Hugsanlegir hagsmunir P ehf. af úrlausn um afstöðu SÍ væru því svo fjarlægir og háðir svo mikilli óvissu að kröfugerð hans í málinu yrði í reynd jafnað til beiðni um lögfræðilegt álit. Í dómi Hæstaréttar var bent á að P ehf. hefði einnig höfðað mál á hendur SÍ til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun SÍ um stjórnvaldssekt sem reist hefði verið á því að umrætt framsal N AS á kröfum sínum í K ehf. til P ehf. hafi farið í bága við ákvæði laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Fæli sú málshöfðun í sér að freistað væri að hnekkja þeim lagagrundvelli sem ákvörðunin væri reist á. Hins vegar hefði P ehf. ekki gert viðhlítandi grein fyrir því að hann hefði, þrátt fyrir fyrri málshöfðun sem ekki væri til lykta leidd, einnig lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt þeim lagaskilningi SÍ sem lægi til grundvallar þeirri afstöðu hans að telja bæri lánssamninginn til aflandskrónueigna. Var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins samkvæmt því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. mars 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 6. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2017 þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Til vara er þess krafist að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Klakki ehf., sem áður mun hafa borið heitið Exista ehf., gerði nauðasamning við kröfuhafa sína sem staðfestur var í héraðsdómi 10. október 2010. Norska félagið Nornes AS átti kröfur á hendur Klakka ehf., en þær hafði Nornes AS fengið framseldar eftir 28. nóvember 2008. Samkvæmt nauðasamningnum skyldu kröfuhafar fá 10% krafna sinna greidd með hlutum í Klakka ehf. en afganginn skyldi greiða í íslenskum krónum samkvæmt sérstöku skuldaskjali, sem út var gefið 17. október 2010. Í því skjali munu hafa verið sérstök ákvæði sem skylduðu Klakka ehf. til að greiða kröfuhöfum eftir því sem laust fé félagsins hrykki til og í tengslum við sölu einstakra eigna. Þá mun þar hafa komið fram að ef reglur nr. 370/2010 um gjaldeyrismál, eða aðrar reglur sem kæmu í þeirra stað, bönnuðu Klakka ehf. að greiða kröfuhafa, bæri félaginu í staðinn að greiða þær fjárhæðir, sem um ræddi, inn á sérstakan vörslufjárreikning. Þegar skuldaskjalið var gefið út gilti sú regla samkvæmt 4. tölulið 3. mgr. 2. gr. reglna nr. 370/2010 að þrátt fyrir meginregluna um að allar fjármagnshreyfingar, sem lýst var í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, á milli landa í innlendum gjaldeyri væru óheimilar var samt heimilt að greiða samningskröfur samkvæmt nauðasamningi, sem gerður var á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., færi greiðsla fram með úttektum af reikningi í eigu greiðanda hjá fjármálafyrirtæki á Íslandi. Með lögum nr. 17/2012 og nr. 67/2014 voru gerðar þær breytingar á lögum nr. 87/1992 að Klakka ehf. var eftir það óheimilt að inna af hendi greiðslur til erlendra kröfuhafa sinna og runnu þær greiðslur, sem til þeirra áttu að fara samkvæmt nauðasamningnum, því inn á vörslufjárreikning.

Svo sem fyrr greinir átti Nornes AS samningskröfur á hendur Klakka ehf. samkvæmt nauðasamningnum. Sóknaraðili er íslenskt dótturfélag Nornes AS og var stofnað í júlí 2014. Sóknaraðili og Nornes AS gerðu með sér samning 5. janúar 2015 sem nefndur var lánssamningur. Samkvæmt 2. gr. hans skyldi Nornes AS lána sóknaraðila kröfu sína á hendur Klakka ehf. að fjárhæð 2.018.717.177 krónur. Í stefnu sóknaraðila til héraðsdóms kemur fram að auk þess hafi lánssamningurinn tekið til hluta í Klakka ehf. að fjárhæð 277.928.676 krónur og inneignar á vörslufjárreikningi að fjárhæð 380.250.360 krónur, en þessara fjárhæða er ekki getið í samningnum. Skyldi sóknaraðili fá þessi réttindi framseld og fara með öll réttindi og skyldur samkvæmt þeim. Sóknaraðili skyldi endurgreiða lánið 31. janúar 2025 eða fyrr ef um semdist. Endurgreiðslan skyldi fara fram með framsali fjármunaréttindanna aftur til Nornes AS og sambærilegum kröfum á hendur Klakka ehf. að því marki sem greiðslur hefðu borist. Í því felst að sögn sóknaraðila að í stað peninga ætti hann að kaupa kröfur á Klakka ehf., sambærilegar þeim sem hann fékk framseldar, til þess að geta efnt samninginn réttilega. Samkvæmt 12. gr. samningsins var hvorum samningsaðilanum heimilt að segja samningnum upp skriflega með 15 daga fyrirvara. Við uppsögn skyldi endurgreiðsla fara fram.

Sóknaraðili kveður ástæður þessa samnings hafa verið margvíslegar, meðal annars að legið hafi fyrir að lög nr. 87/1992 mæltu fyrir um að greiðslur Klakka ehf. á samningskröfum til erlendra aðila yrðu lagðar á vörslufjárreikning sem lotið hafi umsjá Klakka ehf. og erlendir eigendur samningskrafna hefðu engan ráðstöfunarrétt yfir hlutdeild sinni í innstæðunni. Unnt hefði verið að leysa þennan vanda með því að lána kröfuréttindin til íslensks dótturfélags Nornes AS. Þannig hefði verið mögulegt að fjárfesta til lengri tíma þeim greiðslum sem bærust frá Klakka ehf. Því hafi verið rökrétt að endurgreiðsla lánsins til Nornes AS færi ekki fram fyrr en 10 árum eftir gerð lánssamningsins.

Í málinu liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun varnaraðila 19. ágúst 2016. Þar kemur fram að varnaraðili hafi í upphafi ársins 2015 haft til rannsóknar mál um ætlað brot sóknaraðila gegn lögum nr. 87/1992. Niðurstaða rannsóknarinnar hafi verið sú, að framsal samningskrafna Nornes AS á hendur Klakka ehf. samkvæmt nauðasamningi þess félags til varnaraðila með framangreindum lánssamningi, samtals að fjárhæð 2.018.717.177 krónur, færi í bága við 3. tölulið 1. mgr., sbr. 3. mgr., 13. gr. b. og 1. mgr. 13. gr. g. laga nr. 87/1992. Um hafi verið að ræða fjármagnshreyfingu milli landa í innlendum gjaldeyri sem ekki hafi verið heimil samkvæmt tilvitnuðum lögum. Var felld stjórnvaldssekt að fjárhæð 24.200.000 krónur á sóknaraðila vegna brotsins.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili höfðað mál til ógildingar þessarar stjórnvaldsákvörðunar en ella til lækkunar á sektarfjárhæð.

II

Tildrög þess máls, sem hér er til úrlausnar, voru þau að sóknaraðili ritaði varnaraðila bréf 8. júní 2016 og spurðist fyrir um hvort varnaraðili liti svo á að fjármunaréttindi þau sem sóknaraðili ætti á hendur Klakka ehf. samkvæmt áðurnefndum lánssamningi teldust ,,aflandskrónueign“ í skilningi 2. gr. laga nr. 37/2016 um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Rökstuddi sóknaraðili í nefndu bréfi hvers vegna hann hefði hagsmuni af því að fá svar við þessari spurningu. Varnaraðili svaraði fyrirspurninni 15. júní 2016 og kom fram í svarinu ,,það mat Seðlabankans að framangreindur lánssamningur á milli P153 ehf. og Nornes AS teljist til aflandskrónueigna“ í skilningi e. liðar 1. töluliðar 2. gr. laga nr. 37/2016. Var jafnframt tekið fram að leggja bæri allar greiðslur ,,á grundvelli lánssamningsins á reikninga háða sérstökum takmörkunum í innlendum gjaldeyri.“

Sóknaraðili höfðaði mál þetta til ógildingar á ákvörðun sem hann kveður felast í þeirri afstöðu varnaraðila að telja beri lánssamninginn milli sóknaraðila og Nornes AS til aflandskrónueigna.

III

Eins og áður greinir hefur sóknaraðili höfðað mál til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun varnaraðila um að sóknaraðili skuli greiða 24.200.000 krónur í stjórnvaldssekt. Sú stjórnvaldsákvörðun var á því reist að framsal samningskrafna, sem Nornes AS átti á hendur Klakka ehf. á grundvelli nauðasamnings þess félags við kröfuhafa sína, til sóknaraðila hafi farið í bága við tilgreind ákvæði 13. gr. laga nr. 87/1992. Málshöfðun til ógildingar á þeirri stjórnvaldsákvörðun felur í sér að þess er freistað að hnekkja þeim lagagrundvelli sem ákvörðunin er reist á. Nái sóknaraðili engum árangri með þeirri málssókn stendur stjórnvaldsákvörðunin óhögguð og sá lagaskilningur, sem hún er reist á. Sóknaraðili höfðar þetta mál í því skyni að hnekkja þeim lagaskilningi varnaraðila að lánssamningur sóknaraðila og Klakka ehf. teljist til aflandskrónueigna.  Sóknaraðili hefur ekki gert viðhlítandi grein fyrir því að hann hafi, þrátt fyrir fyrri málshöfðun, sem ekki er leidd til lykta, einnig lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt þeim lagaskilningi varnaraðila sem liggur til grundvallar þeirri afstöðu hans að telja beri lánssamninginn til aflandskrónueigna. Hann hefur því ekki sýnt fram á að hann hafi við svo búið lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um stefnukröfu sína í málinu. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, P153 ehf., greiði varnaraðila, Seðlabanka Íslands, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2017

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 13. mars 2016 og tekið til úrskurðar 27. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi. Stefnandi er P153 ehf., Öldugötu 4, Reykjavík. Stefndi er Seðlabanki Íslands, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík.

                Í þessum þætti málsins gerir stefndi kröfu um að málinu verði vísað frá dómi. Stefnandi krefst þess að kröfu stefnda verði hafnað. Báðir aðilar krefjast málskostnaðar.

                Í málinu hefur stefnandi uppi þá efnislegu kröfu að „ógilt verði sú ákvörðun stefnda 15. júní 2016 að lánasamningur á milli stefnanda og Nornes AS teljist til aflandskrónueigna“, en stefnandi er dótturfélag Nornes AS sem er skrásett í Noregi.          Tildrög málsins er að rekja til nauðasamnings Klakka ehf., áður Exista ehf., sem staðfestur var í héraðsdómi 10. október 2010. Samkvæmt samningnum skyldu kröfuhafar fá greiðslur í formi nýs hlutafjár í félaginu og einnig greiðslur í íslenskum krónum, eftir því sem laust fé hrykki til, samkvæmt skilmálum sérstaks skuldaskjals þar sem kröfum var skipt í nánar tiltekna flokka. Í skuldaskjalinu var vísað til reglna nr. 370/2010 um gjaldeyrismál, svo og reglna sem kynnu að koma í stað þeirra, og tekið fram að við þær aðstæður að Klakka ehf. væri óheimilt að greiða kröfuhafa samkvæmt reglunum bæri félaginu að inna greiðslu af hendi inn á sérstakan vörslureikning.

                Með lögum nr. 17/2012, um breytingu á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, var felld úr gildi undanþága sem verið hafði í gildi þess efnis að fjármagnshreyfingar á milli landa í krónum vegna greiðslu á kröfum úr þrotabúi og greiðslu samningskrafna samkvæmt nauðasamningi væru undanþegnar banni 3. mgr. 13. gr. b laganna. Klakka ehf. varð samkvæmt þessu óheimilt að inna greiðslur af hendi til erlendra kröfuhafa og fóru greiðslur til þeirra því inn á vörslureikning.

                Í stefnu segir að Nornes AS hafi keypt réttindi gegn Klakka ehf. og lánað þau stefnanda með „tegundarákveðnu láni“ 5. janúar 2015. Er meginefni lánssamningsins sagt fela í sér að 31. janúar 2025 eigi stefnandi að skila réttindum að sama nafnvirði til Nornes AS, þó þannig að ekki sé gerður greinarmunur á réttindum gegn Klakka ehf. eftir þeim flokkum sem miðað sé við áðurgreindu skuldaskjali. Samtals hafi Nornes AS lánað stefnanda kröfur að nafnvirði 2.018.717.177 krónur, hlutafé að nafnvirði 277.928.676 krónur og vörslufjárinneign að fjárhæð 380.250.360 krónur. Stefnandi muni, eftir því sem nafnverð krafna hans lækki við endurgreiðslur Klakka ehf., þurfa að kaupa á markaði réttindi gegn félaginu til þess að greiða lánið á gjalddaga. Kostnaður stefnanda af láninu sé því óviss.

                Í framhaldi af tilkynningu stefnanda um lánið og framsal krafna Nornes AS gegn Klakka ehf. til stefnanda hóf stefndi rannsókn vegna ætlaðra brota félagsins gegn ákvæðum laga nr. 87/1992. Lyktaði rannsókninni með stjórnvaldsákvörðun stefnda 19. ágúst 2016 þar sem því var slegið föstu að áðurlýst fjármagnshreyfing milli Nornes AS og stefnanda hefði ekki fullnægt skilyrðum 1. töluliðar 3. mgr. 13. gr. b laganna og félli því ekki undir undanþáguheimild 13. gr. g sömu laga. Hefði stefnandi því brotið gegn 3. tölulið 1. mgr., sbr. 3. mgr. 13. gr. b og 1. mgr. 13. gr. g laga nr. 87/1992. Var stefnanda samkvæmt þessu gert að greiða stjórnvaldssekt í ríkissjóð að fjárhæð 24.200.000 krónur. Stefnandi hefur höfðað sérstakt mál til ógildingar ákvörðunar stefnda, eða lækkunar á sektarfjárhæð, sem ekki er ástæða til að gera frekari grein fyrir með hliðsjón af úrlausn málsins.

                Með bréfi 8. júní 2016 hafði lögmaður stefnanda sent stefnda bréf þar sem fram kom að stefnandi hefði orðið þess áskynja að stefndi liti á fjárréttindi hans gegn Klakka ehf. sem aflandskrónueign í skilningi 2. gr. laga nr. 37/2016 um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, en lögin höfðu tekið gildi 23. maí þess árs. Gæti stefnandi samkvæmt þessu tekið þátt í gjaldeyrisútboði á vegum stefnda og fengið fjárréttindin greidd út í erlendum gjaldmiðli án takmarkana. Þótt stefnandi lýsti sig ósammála slíkum skilningi lýsti hann því í bréfinu að mikilvægt væri að kalla eftir formlegri afstöðu stefnda til málsins svo skjótt sem verða mætti.

                Í svari stefnda við áðurgreindu bréfi stefnanda 15. júní 2016 kemur fram að ljóst sé að stefnandi sé skráður til heimilis hér á landi teljist því innlendur aðili skilningi laga nr. 87/1992. Þá liggi fyrir að Nornes AS hafi framselt nauðasamningskröfur sínar í Klakka ehf. til stefnanda á grundvelli þess lánssamnings, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, og hafi stefndi haft til rannsóknar hvort stefnandi hafi með þessu framkvæmt fjármagnshreyfingar á milli landa í andstöðu lög nr. 37/1992. Kemur fram að stefndi líti svo á að Nornes AS hafi selt umræddar nauðasamningskröfur gegn Klakka ehf. með seljendaláni, sbr. 2. málslið e-liðar 1. töluliðar 2. gr. 37/12016. Þá segir eftirfarandi: „Að framansögðu er það mat Seðlabankans að framangreindir [sic!] lánssamningur á milli P153 ehf. og Nornes AS teljist til aflandskrónueigna í skilningi e-liðar 1. töluliðar 2. gr. laganna.“ Í stefnu segir að í bréfi stefnda sé hvergi vikið því að hvort fjárréttindi stefnanda gegn Klakka ehf. teljist aflandskrónueign. Verði bréfið því væntanlega að skoðast sem staðfesting um að svo sé ekki. Hins vegar telur stefnandi óviðunandi þá niðurstöðu að lánssamningurinn við Nornes teljist aflandskrónueign og sé hann því knúinn til að höfða mál þetta.

                Í stefnu kemur fram að téð ákvörðun hafi ekki verið birt Nornes AS og er meðal annars byggt á því í efnisþætti málsins að ákvörðunin hafi ranglega verið birt stefnanda sem hafi ekkert umboð frá Nornes AS til að taka við ákvörðun sem lúti að síðargreinda félaginu. Þá er á því byggt að ákvörðun stefnda grundvallist á rangri lagatúlkun.

                Frávísunarkrafa stefnda er annars vegar á því byggð að málatilbúnaður stefnanda sé svo vanreifaður og ruglingslegur að brjóti gegn áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einnig er á því byggt að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af kröfu sinni og sé hann í raun að afla sér lögfræðilegrar álitsgerðar í andstöðu við 25. gr. laganna. Til stuðnings þessari síðargreindu málsástæðu vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að sá hluti bréfs hans sem vísað sé til í kröfugerð feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun heldur afstöðu til túlkunar á almennu lagaatriði sem hafi ekki falið í sér úrlausn tiltekins stjórnsýslumáls. Er þá einnig vísað til þess að umræddur hluti bréfsins hafi ekki lotið að hugsanlegum aðila stjórnsýslumálsins, þ.e. stefnanda, heldur Nornes AS. Í annan stað tekur stefndi til þess að stefnandi byggi málatilbúnað sinn meðal annars á því að téðri ákvörðun stefnda hafi ranglega verið beint að honum og geti því ekki haft neitt gildi gagnvart honum. Sé þetta ósamrýmanlegt því að hann telji sér nauðsyn að höfða mál til ógildingar ákvörðunarinnar. Einnig er vísað til þessa síðastgreinda atriðis því til stuðnings að rökrétt samhengi skorti milli dómkröfu stefnanda og málsástæðna hans svo að varði við vanreifun.

                Af hálfu stefnanda er sjónarmiðum stefnda um vanreifun mótmælt. Að því er varðar lögvarða hagsmuni stefnanda er meðal annars vísað til þess að ákvörðun stefnda hafi það í för með sér að stefnanda sé gert ókleift að efna lánssamning sinn við Nornes AS samkvæmt efni sínu og skipti hann það því miklu að fá ákvörðunina fellda úr gildi. Gildi þá einu þótt ákvörðunin lúti samkvæmt efni sínu að Nornes AS og hafi átt að birta fyrir því félagi.

Niðurstaða

                Á það verður fallist með stefnanda að eigandi íslenskra króna geti átt lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr afstöðu stefnda til þess hvort krónur hans teljist til aflandskrónueignar í skilningi laga nr. 37/2016 um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Slíkir hagsmunir eru þó háðir því að slík afstaða stefnda liggi til grundvallar ákvörðun hans um að synja viðkomandi krónueiganda um tiltekna ráðstöfun á grundvelli laganna eða að fyrir liggi að eiganda séu vegna þessarar afstöðu fyrirjsáanlega óheimilar ráðstafanir með krónur sem honum hefðu að öðrum kosti verið tækar.

                Í máli þessu krefst stefnandi ógildingar á þeirri afstöðu stefnda að lánssamningur hans og Nornes AS 15. júní 2015 teljist til aflandskrónueignar. Í umræddum samningi felast kröfuréttindi Nornes AS gegn stefnanda og er því ljóst að það er fyrst og fremst fyrrnefnda félagið, en ekki stefnandi, sem hefur hagsmuni af því að fá fellda úr gildi ákvörðun stefnda um að réttindin teljist aflandskrónueign með þeim takmörkunum á ráðstöfunarheimild sem af því leiðir. Er sú niðurstaða í reynd í samræmi við málatilbúnað stefnanda sem vísar til þess að ákvörðun um þetta efni hafi réttilega átt að beina að Nornes AS. Við aðalmeðferð málsins vísaði stefnandi hins vegar til þess að hann hefði engu að síður sjálfstæða hagsmuni af því að fá téða ákvörðun stefnda fellda úr gildi þar sem ljóst væri að honum væri ógerlegt að efna samning sinn við Nornes AS samkvæmt efni sínu ef ákvörðun stefnda stæði óhögguð.

                Eins og málið liggur fyrir hefur ekki verið gert líklegt að fyrrgreind afstaða stefnda leiði til þess að stefnandi muni ekki geta efnt umræddan lánssamning við Nornes AS af ástæðum sem hann ber ábyrgð á að lögum. Jafnvel þótt á þetta yrði fallist með stefnanda liggur fyrir að gjalddagi umrædds lánssamnings er ekki fyrr en 31. janúar 2025, en í 1. gr. laga nr. 37/2016 kemur fram að markmið laganna sé að stuðla að losun fjármagnshaft og skapa grundvöll fyrir frjáls milliríkjaviðskipti með íslenskar krónur. Í þessu ljósi, svo og með hliðsjón af eðli þess málaflokks sem hér um ræðir, verður því að telja óvíst hvort og þá að hvaða marki gjaldeyristakmarkanir muni muni gilda um þau réttindi sem hér um ræðir 31. janúar 2025. Að þessu virtu telur dómurinn að hugsanlegir hagsmunir stefnanda af úrlausn um fyrrgreinda afstöðu stefnda séu svo fjarlægir og háðir svo mikilli óvissu að kröfugerð hans í málinu verði í reynd jafnað til beiðni um lögfræðilegt álit, svo sem haldið er fram af stefnda. Með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 verður málinu því vísað frá dómi.

                Eftir úrslitum málsins og samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Af hálfu stefnda flutti málið Ástríður Gísladóttir hrl.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Reimar Pétursson hrl.

                Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, P153 ehf., greiði stefnda, Seðlabanka Íslands, 500.000 krónur í málskostnað.