Hæstiréttur íslands
Mál nr. 287/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæruvald
- Vanhæfi
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 2. júní 2008. |
|
Nr. 287/2008. |
Ákæruvaldið(Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður) gegn X (enginn) |
Kærumál. Ákæruvald. Vanhæfi. Frávísunarúrskurður staðfestur.
X var með dómi Hæstaréttar frá 22. febrúar 2007 dæmdur til refsingar fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að Ó sýslumanni. Síðar sama ár ákærði Ó sýslumaður X fyrir nánar tilgreind brot. X krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi vegna vanhæfis Ó til að fara með ákæruvald í málinu. Með vísan til 1. mgr., sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 19/1991, eins og þau ber að skýra með hliðsjón af 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, var fallist á kröfu X og málinu vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Lögreglustjórinn á Selfossi skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. maí 2008, þar sem máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili dæmdur í Hæstarétti 22. febrúar 2007 í máli nr. 356/2006 til refsingar fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að veitast 1. nóvember 2005 í húsakynnum Héraðsdóms Suðurlands að Ólafi Helga Kjartanssyni, sýslumanni á Selfossi, þar sem hann var við störf sem ákærandi, þrifið í öxl hans og brugðið fyrir hann fæti svo að hann hrasaði við. Málið, sem hér er til meðferðar, var höfðað gegn varnaraðila af sama sýslumanni með ákæru 17. desember 2007, en með henni er hann borinn sökum um að hafa brotið gegn 1. mgr. 217. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., og 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 7. desember 2006 ráðist að nafngreindum manni með hótunum um líkamsmeiðingar og velferðarmissi, svo og að hafa tekið manninn föstu kverkataki með annarri hendi. Við aðalmeðferð málsins 13. maí 2008 krafðist varnaraðili að því yrði vísað frá dómi vegna vanhæfis sýslumannsins til að fara þar með ákæruvald.
Samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 19/1991 ber þeim, sem ella færi með ákæruvald í máli, að víkja þar sæti ef hann er svo við efni þess eða aðila riðinn að hætta sé á að hann fái ekki við útgáfu ákæru eða önnur störf samkvæmt lögunum litið óhlutdrægt á málavöxtu. Lagaákvæði þessi verður að skýra með hliðsjón af 6. tölulið 1. mgr. 6. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í máli þessu háttar svo til að varnaraðili hlaut dóm 22. febrúar 2007 fyrir að hafa ráðist á áðurgreindan hátt að þeim manni, sem hér hefur gefið út ákæru. Þótt varnaraðili hafi með því bakað sér refsingu fyrir brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga, sem eftir efnisskipan þeirra laga telst meðal brota gegn valdstjórninni, verður ekki horft fram hjá því að það beindist jafnframt að persónu þess, sem fyrir því varð. Að þessu virtu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. maí 2008.
Mál þetta var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Selfossi, dagsettri 17. desember 2007, á hendur X, kt. [...], [...], Reykjavík. Var fyrirkall ásamt ákæru birt í Lögbirtingablaðinu [dags.]. Ákærði mætti í dóminn þann 2. apríl og neitaði að tjá sig um sakarefnið. Ákærði mætti aftur fyrir dóminn þann 13. maí sl. og kom þá fram krafa um að máli þessu yrði vísað frá dómi. Málið var tekið til úrskurðar þann sama dag.
Í ákæruskjali er ákærða gefið að sök að hafa fimmtudaginn 7. desember 2006 á vistheimilinu að Kumbaravogi á Stokkseyri ráðist að B, kt. [...], með hótunum um líkamsmeiðingar og velferðarmissi og fyrir að hafa umrætt sinn tekið B föstu kverkataki með annarri hendi. Var þessi háttsemi ákærða fallin til þess að vekja hjá B ótta um líf sitt og velferð.
Er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 217. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998, og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Ákærði krefst þess að málinu verði vísað frá dómi. Byggir ákærði kröfu sína á því að Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, er gaf út ofangreinda ákæru á hendur honum, hafi ekki getað tekið afstöðu til þess með hlutlausum hætti, hvort ákæra yrði gefin út í máli þessu eða ekki. Fyrir liggi í gögnum málsins að ákærði hafi verið, með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 356/2007 frá 22. febrúar 2007, dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var ákærða í því máli gert að sök að hafa, þriðjudaginn 1. nóvember 2005, í Héraðsdómi Suðurlands við Austurveg 4 á Selfossi, „veist að A, sýslumanni á Selfossi, sem þar var við störf sem ákærandi, er hann stöðvaði för A með því að þrífa í öxl hans, og brá fyrir hann fæti svo hann hrasaði við“. Telur ákærði að brot það sem hann er ákærður fyrir nú hafi ekki verið rannsakað af hálfu ákæruvalds af hlutleysi, allavega megi ákærði draga hlutleysi sýslumannsins í efa. Sækjandi mótmælti kröfu ákærða og kvaðst ekki hafa komið að umræddu máli á annan hátt en að hafa verið brotaþoli í því. Annar lögreglustjóri hefði strax verið skipaður til að gegna rannsókn þess máls og hefði sækjandinn ekki komið að öðru leyti að málinu utan að gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni. Kvað sækjandi að ef hann yrði talinn vanhæfur við þessar aðstæður þá mætti gera hann vanhæfan í öðrum málum með ýmsum hætti og væri það röng skilaboð út í samfélagið.
Í 1. mgr. 30. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 segir að þegar ríkissaksóknari sé svo við málsefni eða aðila riðinn að hætta sé á að hann fái ekki, við útgáfu ákæru eða önnur störf samkvæmt lögunum, litið óhlutdrægt á málavöxtu skuli hann víkja sæti. Í 2. mgr. segir að ef annar handhafi ákæruvalds sé vanhæfur til meðferðar einstaks máls skuli ríkissaksóknari fara sjálfur með ákæruvaldið í því eða fela það öðrum ákæranda. Verður að líta svo á í máli þessu að sýslumaðurinn á Selfossi sé svo við ákærða riðinn að draga megi hlutleysi hans með réttu í efa. Má þá einnig með lögjöfnun frá g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, telja að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni sýslumannsins á Selfossi með réttu í efa. Því ber að vísa máli þessu frá dómi, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Þóknun verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, er ákveðin 70.000 krónur og greiðist úr ríkissjóði.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sakarkostnaður, sem er þóknun verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.