Hæstiréttur íslands
Mál nr. 605/2016
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Ábyrgðartrygging
- Vinnuveitendaábyrgð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 30. ágúst 2016. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi slasaðist stefndi alvarlega við vinnu sína hjá áfrýjanda Toppfiski ehf. 2. október 2012 er hann festi svokallaðan söðul á færibandi fiskflökunarvélar í fatnaði sínum með þeim afleiðingum að hægri hönd hans dróst með færibandinu inn í hnífa vélarinnar. Missti stefndi tvo fingur hægri handar ásamt ölnarhluta hennar. Í umsögn Vinnueftirlitsins 21. maí 2013 kom fram að eftirlitsmaður hafi farið á vinnustað stefnda strax í kjölfar tilkynningar Neyðarlínunnar um slysið. Í niðurstöðukafla um rannsókn slyssins sagði að mat Vinnueftirlitsins væri að orsök slyssins mætti rekja til þess að klæðnaður stefnda festist í færslubúnaði vélarinnar, það að stefndi hafi ekki náð að virkja stöðvunarbúnað vélarinnar í tæka tíð og að mögulega hafi stöðvunarbúnaður hennar ekki virkað rétt þegar slysið varð.
Í gæðahandbók áfrýjanda Toppfisks ehf. frá júní 2011, sem gilti frá 16. janúar 2012, er kveðið á um hlífðarfatnað starfsmanna. Kemur þar meðal annars fram að hlífðarfatnaður sé nauðsynlegur í matvælavinnslu til þess að verja matvæli fyrir mengun af ýmsu tagi. Segir einnig í handbókinni að starfsmenn eigi að fara eftir þeim reglum sem fyrirtækið setji um hlífðarfatnað og aðeins hlífðarfatnaður sem fyrirtækið útvegi sé leyfður. Um hlífðarfatnað í vinnslusal segir meðal annars að ermahlífar skuli vera einnota, hvítar að lit, sem settar skuli utan yfir hanskana. Þá skuli hanskar vera einnota þar sem því verði við komið. Af öðrum fyrirmælum gæðahandbókarinnar um fatnað starfsmanna verður glögglega ráðið að þeim er fyrst og fremst ætlað að stuðla að því að starfsmenn gæti fyllsta hreinlætis við vinnu sína, enda starfar áfrýjandi, Toppfiskur ehf., í matvælaiðnaði.
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum segir að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Reglur nr. 497/1994 um notkun persónuhlífa eru settar með stoð í 38. gr. laganna. Í II. kafla reglnanna er fjallað um skyldur atvinnurekenda og segir í a. lið 1. mgr. 4. gr. að persónuhlífar verði að henta til varnar þeirri áhættu sem um er að ræða án þess að þær leiði sjálfar til aukinnar áhættu og í b. lið greinarinnar segir að þær verði að hæfa ríkjandi aðstæðum á vinnustað. Í 7. mgr. 4. gr. reglnanna segir að atvinnurekandi skuli upplýsa starfsmann fyrirfram um þá hættu sem persónuhlífunum sé ætlað að vernda hann gegn og skyldu hans til að nota slíkar hlífar. Þá segir í 10. mgr. 4. gr. að atvinnurekandi skuli með hliðsjón af þeirri vinnu sem fram fari og eftir því sem nauðsyn krefji setja upp eitt eða fleiri skilti sem gefi til kynna hvaða gerðir af persónuhlífum beri að nota á viðkomandi vinnustað.
Eins og rakið hefur verið bar slys stefnda að með þeim hætti að fatnaður hans flæktist í söðli færibands fiskflökunarvélarinnar sem hann vann við. Stefndi klæddist á slysdegi margnota hönskum og undir þeim bar hann örþunnar, einnota ermahlífar. Hann bar fyrir dómi að ermahlífarnar hafi einvörðungu verið til að vernda föt fyrir bleytu. Þá kvaðst hann hafa vitað að setja átti hlífarnar yfir hanskana. Spurður um hvaða hluti handar eða handleggs hans hafi fest í færibandinu kvað hann söðulinn eða krókinn hafa krækst í olnboga sinn. Þegar framangreint er virt verður orsök slyssins rakin til þess að hlífðarfatnaður stefnda á slysdegi veitti ekki fullnægjandi vörn gegn þeirri vá sem stafaði af vélinni og hefðu ermahlífar úr sterku efni þurft að ná upp fyrir olnboga til þess að vernda stefnda gegn þeirri hættu að fatnaður flæktist í söðli færibandsins. Breytir því engu hvort ermahlífarnar voru bornar undir hönskunum eða yfir þeim, eins og fyrirmæli áfrýjanda Toppfisks ehf. samkvæmt gæðahandbók kváðu á um. Áfrýjandi, Toppfiskur ehf., bar samkvæmt lögum nr. 46/1980 og áðurgreindum ákvæðum reglna nr. 497/1994 ábyrgð á því að stefndi klæddist viðeigandi persónuhlífum. Þar sem misbrestur varð á því ber áfrýjandi Toppfiskur ehf. ábyrgð eftir reglum skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð á tjóni stefnda vegna þeirrar saknæmu vanrækslu. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem rennur í ríkissjóð. Um þann kostnað og gjafsóknarkostnað stefnda fer eftir því sem segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Toppfiskur ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2016.
Mál þetta, sem var dómtekið 11. maí sl., var höfðað af A, […] með stefnu birtri 13. nóvember 2016, á hendur Toppfiski ehf., Fiskislóð 65, 101 Reykjavík og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, 103 Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi, Toppfiskur ehf., beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna líkamstjóns sem hann hlaut 2. október 2012 í vinnuslysi sem starfsmaður stefnda. Jafnframt krefst stefnandi viðurkenningar bótaréttar úr hendi stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., úr ábyrgðartryggingu stefnda, vegna sama tjóns. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað. Til vara krefjast stefndu þess að verða einungis dæmdir skaðabótaskyldir að hluta vegna tjóns stefnanda sem hlaust af slysi 2. október 2012 og að aðeins verði viðurkenndur að hluta réttur stefnanda til bóta úr hendi stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf. og að málskostnaður verði felldur niður.
I.
Þann 2. október 2012 slasaðist stefnandi við störf sín hjá stefnda, Toppfiski ehf. Stefnandi var að vinna við fiskflökunarvél ásamt samstarfsmanni sínum B. Verklag var með þeim hætti að stefnandi og B unnu til skiptis við fiskflökunarvél og roðflettivél. Fiskflökunarvélin færir fiskinn að hnífum vélarinnar, sem sker hann í flök, sem halda svo áfram á færibandi út úr fiskflökunarvélinni og í roðflettivélina. Á færibandinu sem liggur að fiskflökunarvélinni er þar til gerður járnsleði með teinum eða göfflum, sem halda fiskinum í réttri stöðu og færa hann að hnífnum sem er inni í vélinni og flakar fiskinn. Starfsmenn við fiskflökunarvél gæta þess að fiskurinn sé rétt skorðaður á teinunum. Við flökunarvélina er trappa eða pallur sem staðið er á þegar unnið er við vélina. Hægt er að hækka og lækka tröppuna þannig að sá sem vinnur við vélina standi í réttri hæð miðað við hæð færibandsins og járnsleðans.
Stefnandi var að vinna við fiskflökunarvélina þegar slysið varð. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 12. apríl 2013 segir hann svo frá tildrögum slyssins: „Ég var við vinnu á flökunarvél en fiskurinn sem var í vélinni snerist við en hann á að fara með tilteknum hætti í vélina. Ég ætlaði að laga fiskinn í rennunni og gaffallinn fór í fötin mín með þeim afleiðingum að höndin á mér festist í gafflinum og ég náði ekki að losa mig. Þetta gerðist á örfáum sekúndum, þetta er oft að gerast að fiskurinn snúist við í vélinni og við þurfum að laga hann. Ég var klæddur í hanska, bæði gúmmívettlinga og þunna gúmmívettlinga undir.“ Þá segir stefnandi að hann hafi reynt að stöðva vélina með því að toga í neyðarhnappinn en hann hafi ekki virkað í þessu tilfelli. Hægri hönd stefnanda skarst mikið í slysinu og missti hann tvo fingur og hluta lófa hægri handar.
Á myndbandi öryggismyndavélar sem var í vinnslusalnum þar sem slysið varð sést illa hvað gerist enda skyggir sjálf fiskvinnsluvélin á sjónarhorn öryggismyndavélarinnar. Í þann mund sem stefnandi festist í vélinni fer hann í hvarf á bak við vélina og vélin stöðvast skömmu eftir það. Á myndbandinu sést samstarfsfélagi hans, B, aðstoða stefnanda, en ekki sést hvor þeirra það var sem virkjaði neyðarstöðvunarbúnaðinn.
Lögregla og starfsmenn Vinnueftirlitsins komu á vettvang skömmu eftir slysið. Í frumskýrslu lögreglu, sem er dagsett 8. október 2012, kemur fram að lögreglan hafi prófað neyðarstöðvunarbúnað fiskflökunarvélarinnar samdægurs. Segir í skýrslunni að neyðarrofinn hafi virkað vel, þ.e. vélin hafi stöðvast nær samstundis þegar þrýst var á hann. Neyðarrofinn er stöng sem staðsett er lóðrétt vinstra megin við opið þar sem fiskurinn færist inn í vélina. Neðarlega á stönginni er þríhyrningslaga járn sem gert er ráð fyrir að þrýst sé beint á til að stöðva vélina. Lögreglan tók framangreinda prófun á neyðarstöðvunarbúnaði upp á myndband. Á myndbandinu sést hvernig fiskvinnsluvélin stöðvast um leið og þrýst er á neyðarrofann. Þá er í skýrslunni haft eftir vitninu B að hann hafi verið að vinna með stefnanda þegar slysið átti sér stað en stefnandi hafi verið að vinna við flökunarvélina. Stefnandi hafi ætlað að snúa fiski sem hafi lent öfugur á teininum. Við það hafi ermin á vinnusloppi hans fest í teininum sem síðan togaði hann inn að hnífnum. Vitnið sagði að stefnandi hefði sjálfur ýtt á neyðarrofann og þá hefði vélin stöðvast. Í skriflegri yfirlýsingu sem vitnið undirritaði 18. mars 2014 kemur fram að ranglega hafi verið haft eftir honum í frumskýrslu lögreglu hver hafi ýtt á neyðarrofann og hvernig hann hafi virkað. Hið rétta sé að stefnandi hafi ýtt á neyðarrofann en hann hafi ekki virkað. Hann sjálfur hafi svo komið stefnanda til hjálpar, ýtt á neyðarrofann, og þá hafi vélin stöðvast. Um ástand neyðarrofans segir í yfirlýsingunni að rofinn hafi verið mjög laus en nokkrum dögum eftir slysið hafi vélin verið tekin til viðgerðar og rofinn stilltur og bætt við hann einhverju stykki. Í yfirlýsingunni kemur enn fremur fram að hann hafi verið í miklu uppnámi þegar lögreglan ræddi við hann á slysdegi auk þess sem samtal hans og lögreglu hafi farið fram í gegnum túlk sem túlkaði frásögn hans á pólsku yfir á ensku og C hafi síðan komið upplýsingunum til lögreglu á íslensku. Átt er við C, framleiðslustjóra hjá stefnda, sem í skýrslu fyrir dómi mundi ekki til þess að hafa túlkað umrætt samtal vitnisins við lögregluna.
Í málinu liggja fyrir tvær umsagnir frá Vinnueftirlitinu. Í þeirri fyrri, sem er frá 3. október 2012, segir um tildrög slyssins að stefnandi hafi slasast þegar ermi hans flæktist í færslubúnaði vélarinnar þegar hann reyndi að lagfæra fisk á færslubúnaðinum. Hann hafi ýtt á neyðarrofa en búnaðurinn ekki stöðvast nægilega fljótt til að koma í veg fyrir slys. Vélin sem sé af gerðinni F-189, vél nr. 189-S-08 framleidd af Fiskvélum ehf., hafi ekki verið CE-merkt. Þá segir í umsögninni að við skoðun á vélinni hafi stöðvunartími við neyðarstöðvun vélarinnar virst vera of langur til að tryggja að neyðarstöðvunarrofinn komi að fullu gagni. Einnig virðist kröfur um varnir gegn snertingu við hættulega hreyfanlega hluti ekki vera uppfylltar. Segir að tæknideild Vinnueftirlitsins muni rannsaka hvort vélin uppfylli lágmarkskröfur um öryggi véla í samræmi við reglugerð nr. 1005/2009 um vélar og tæknilegan búnað. Í kafla um niðurstöðu rannsóknar vinnueftirlitsins segir að mat Vinnueftirlitsins sé að rekja megi orsök slyssins til eftirfarandi atriða;
· að klæðnaður stefnanda hafi fest í færslubúnaði vélarinnar,
· að ekki hafi verið gerðar nægilegar ráðstafanir, t.d. með hlífum, til að varna því að unnt væri að komast að hættulegum, hreyfanlegum hlutum og
· að stöðvunartími vélar, eftir virkjun neyðarrofa, virðist vera of langur.
Í lok umsagnarinnar gefur vinnueftirlitið út þau fyrirmæli til úrbóta að endurskoða skuli áhættumat fyrir vinnu við vélina og setja verklagsreglur um fatnað starfsmanna sem vinna við hana.
Í síðari umsögn vinnueftirlitsins, dags. 21. maí 2013, er gerð grein fyrir niðurstöðu tæknideildar eftirlitsins. Segir að rannsókn þessi hafi verið gerð þar sem vélin hafi ekki verið CE-merkt. Um niðurstöðu rannsóknar tæknideildar segir eftirfarandi: „Skoðuð var flökunarvél frá framleiðandanum Fiskvélar með nr. F-189-S-023 sem er af sömu gerð og kom við sögu í slysinu í Toppfiski. Tækið er endurbyggð útgáfa af flökunarvélinni Baader 189. Við endurbyggingu tækisins var bætt við tölvustýringum og ýmsu í vélbúnaði. Það er því skýrt að breytingarnar eru það miklar að tækið þarf að fara í gegnum nýtt samræmismat. Það skal CE-merkja tæki og gera þarf nýja samræmisyfirlýsingu, enda tækið merkt Fiskvélum sem „rebuilt“.“ Segir í umsögninni að þar sem tækið sé ekki CE-merkt og engin samræmisyfirlýsing til staðar, uppfylli það ekki ákvæði reglugerðar nr. 176/2000, um vélar og tæknilegan búnað, hvað þetta atriði varðar. Þá segir að tækið sem skoðað var uppfylli ákvæði framangreindrar reglugerðar hvað varðar stöðvun og neyðarstöðvun. Stöðvunartími sé mjög stuttur. Tækið uppfylli hins vegar hvorki ákvæði framangreindrar reglugerðar né reglugerðar nr. 367/2006, um notkun tækja, hvað varðar hlífar og varnir þar sem auðvelt sé að komast að skerandi búnaði á vélinni. Loks er gerð athugasemd við það að leiðbeiningar á íslensku hafi ekki verið til staðar.
Í framangreindri umsögn er getið um myndband sem Vinnueftirlitinu hafi borist frá lögmanni stefnanda þar sem sést hvernig neyðarstöðvunarbúnaður sambærilegrar vélar, virðist ekki virka á réttan hátt. Niðurstaða vinnueftirlitsins, með hliðsjón af ofangreindu, er sú að slysið megi rekja til eftirfarandi þátta:
· Klæðnaður stefnanda festist í færslubúnaði vélarinnar,
· stefnandi náði ekki að virkja neyðarstöðvunarbúnað í tæka tíð,
· mögulega hafi stöðvunarbúnaður vélarinnar ekki virkað rétt þegar slysið varð.
Myndbandið sem vitnað er til í framangreindri umsögn vinnueftirlitsins er tekið af D, syni stefnanda. Kveðst hann hafa tekið myndbandið upp daginn eftir slysið. Á myndbandinu sést hvernig vél stöðvast í fyrstu þegar ýtt er á neyðarstöðvunarbúnaðinn en við frekari tilraunir virðist stöngin ekki virka, jafnvel þótt ítrekað sé ýtt og togað í hann. Á myndbandinu sést hvernig hægt er að færa stöngina til beggja hliða en áður er getið um það að gert er ráð fyrir að þrýst sé beint á stöngina til að stöðva vélina.
Stefnandi hefur fengið bætur úr slysatryggingu launþega en samkvæmt matsgerð var tímabundið atvinnutjón hans og tímabil þjáningabóta eitt ár, þar af þrír dagar rúmliggjandi. Þá var varanlegur miski metinn til 40 stiga og varanleg örorka 100%. Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., höfnuðu hins vegar bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda Toppfisks ehf. og var sú afstaða kynnt stefnanda 3. febrúar 2014 og ítrekuð 29. apríl 2014, eftir að stefnandi óskaði endurskoðunar á ákvörðun tryggingafélagsins. Ágreiningur málsins snýst um bótarétt stefnanda úr frjálsu ábyrgðartryggingunni.
Aðalmeðferð málsins, sem fram fór 19. febrúar sl., hófst með því að gengið var á vettvang. Viðstaddir vettvangsgöngu voru, auk dómara, lögmenn aðila, stefnandi, túlkur og E. Fyrir dómi gaf stefnandi skýrslu ásamt eftirfarandi vitnum: B, samstarfsmanni stefnanda, D, syni stefnanda, F, fyrrverandi vinnslustjóra hjá stefnda, G, lögreglumanni hjá ríkislögreglustjóra nr. […], E, fyrrverandi starfsmanni hjá Fiskvélum, C, framleiðslustjóra hjá stefnda, auk H, fyrrverandi tæknistjóra hjá stefnda, sem gaf símaskýrslu. Þann 20. apríl sl. ákvað dómari, með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991, að taka málið upp á ný og beindi því til lögmanna aðila að afla nánar tilgreindra gagna varðandi ástand vélarinnar sem stefnandi slasaðist við. Málið var síðan endurflutt þann 11. maí sl. og dómtekið að nýju að því búnu.
II.
Stefnandi krefst viðurkenningar á því að stefndi, Toppfiskur ehf., beri skaðabótaábyrgð á tjóninu sem hann varð fyrir í vinnuslysi þann 2. október 2012 og viðurkenningar á rétti til bóta úr ábyrgðartryggingu hans hjá meðstefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Stefnandi byggir kröfu sínar í fyrsta lagi á því að neyðarstöðvunarbúnaður fiskflökunarvélarinnar hafi verið bilaður þegar slysið átti sér stað og sú bilun hafi valdið því að fiskflökunarvélin stöðvaðist of seint með þeim afleiðingum að hönd stefnanda fór í hnífinn og af hlaust mikið líkamstjón. Til stuðnings framangreindri staðhæfingu um bilun neyðarrofans vísar stefnandi til umsagnar Vinnueftirlitsins frá 3. október 2012 þar sem fram komi m.a. að stöðvunartími vélarinnar eftir að neyðarstöðvunarrofi vélarinnar var virkjaður, sé of langur og að ekki hafi verið gerðar nægilegar ráðstafanir, t.d. með hlífum, til að varna aðgengi að hættulegum, hreyfanlegum hlutum vélarinnar. Í síðari umsögn Vinnueftirlitsins 21. maí 2013 sé tiltekið sem orsök slyssins að neyðarstöðvunarbúnaðurinn hafi hugsanlega ekki virkað sem skyldi er slysið varð.
Þá sýni myndbandið, sem sonur stefnanda tók daginn eftir slysið, að ólag hafi verið á neyðarrofa vélarinnar. Stefnandi hafi bæði sent Vinnueftirlitinu og stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum umrætt myndskeið. Prófanir lögreglu á neyðarrofanum þann 8. október 2012 hafi ekki gefið rétta mynd af virkni vélarinnar þar sem vélin hafi þá verið stillt á lágmarkshraða við mötun á stórum fiskum. Þegar slysið hafi átt sér stað hafi fiskflökunarvélin hins vegar verið á hámarkshraða.
Í vottfestri yfirlýsingu vitnisins B frá 18. mars 2014 sé staðfest að neyðarrofinn hafi ekki virkað þegar stefnandi reyndi að stöðva vélina með því að ýta á hann og það hafi verið hann sjálfur sem tekist hafi að stöðva vélina skömmu síðar. Því hafi þurft að þrýsta á neyðarrofann tvívegis áður en vélin stöðvaðist. Í sömu yfirlýsingu gefi vitnið skýringar á því hvers vegna annað hafi ranglega verið haft eftir honum í frumskýrslu lögreglu.
Stefnandi byggir í öðru lagi á því að fiskflökunarvélin hafi hvorki uppfyllt skilyrði um hlífar og varnir skv. reglugerð nr. 367/2006, um notkun tækja, né uppfyllt áskilnað um CE-merkingu líkt og skylt sé skv. reglum nr. 761/2001, um vélar og tæknilegan búnað. Í umsögn Vinnueftirlitsins komi fram að vélin sé endurbyggð útgáfa af flökunarvélinni Baader 189 og að við endurbyggingu tækisins hafi verið bætt við tölvustýringum og ýmsum vélbúnaði. Breytingar hafi verið svo miklar að tækið hafi þurft að fara í gegnum nýtt samræmismat, CE-merkja hefði þurft tækið og gera nýja samræmisyfirlýsingu, enda tækið merkt sem endurbyggt (e. rebuilt). Vöntun CE-merkingar og samræmisskýringar sé ekki í samræmi við áskilnað reglna nr. 761/2001, um vélar og tæknilegan búnað.
Í þriðja lagi mótmælir stefnandi því að hann hafi sýnt af sér gáleysi þegar slysið varð. Hann hafi staðið á þar til gerðum upphækkuðum palli við flökunarvélina og að öðru leyti borið sig rétt að við störf sín. Jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi gæti það ekki talist hafa verið stórfellt gáleysi og hafi því ekki áhrif á bótarétt hans sbr. 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sérstaklega sé því mótmælt að ermahlífar hefðu mögulega getað komið í veg fyrir slysið. Hlífarnar, sem séu gerðar úr þunnu plastefni, séu svo efnisrýrar að þær geti ekki þjónað neinu öryggishlutverki enda einungis ætlað að hlífa ermum við bleytu.
Þá hafi þjálfun stefnanda verið ábótavant, hann hafi einungis hlotið óformlegar leiðbeiningar frá samstarfsmanni um verklag og fyrirliggjandi gæðahandbók og þjálfunarskrá breyti engu í því efni.
Síðari umbætur á öryggisbúnaði vélarinnar bendi til þess að eitthvað hafi verið að búnaðinum fyrir umbæturnar.
Um lagarök vísar stefnandi m.a. til almennu skaðabótareglunnar, sérstaklega til reglna um ábyrgð atvinnurekanda á saknæmum athöfnum eða athafnaleysi starfsmanna sinna, þ.e. reglna um húsbóndaábyrgð, hertra reglna skaðabótaréttar um ábyrgð vegna vanbúnaðar tækja og áhalda og vegna vinnu við hættuleg störf. Enn fremur vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglugerðar nr. 1005/2009, um vélar og tæknilegan búnað, og reglna nr. 367/2006, um notkun tækja. Viðurkenningarkröfu sína byggir stefnandi á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III.
Stefndu byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að ósannað sé að slys stefanda megi rekja til gáleysis, vanbúnaðar, vanrækslu eða ófullnægjandi vinnuaðstæðna. Orsök slyssins verði því ekki rakin til saknæmrar háttsemi stefnda Toppfisks eða starfsmanna hans og af því leiði að skilyrði bótaskyldu stefndu séu ekki fyrir hendi.
Stefndu mótmæla því að neyðarstöðvunarrofi á fiskflökunarvélinni hafi ekki virkað sem skyldi þegar slysið varð og jafnframt að umsögn Vinnueftirlitsins frá 3. október 2012 hafi þýðingu við sönnun um það atriði enda hafi sú umsögn ekki byggst á fullnægjandi rannsókn. Niðurstaða eftirlitsins hafi orðið önnur í síðari umsögn þess að undangenginni rannsókn tæknideildar á vélinni. Í umsögninni frá 21. maí 2013 komi fram að tækið hafi uppfyllt reglur nr. 761/2001 hvað varðar stöðvun og neyðarstöðvun og að stöðvunartími vélarinnar hafi verið mjög stuttur. Vinnueftirlitið falli þar frá fyrri niðurstöðu um orsakatengsl milli slyss og skorts á hlífum, enda hafi ábending tæknideildar snúist um skort á hlíf á hinum enda vélarinnar. Samkvæmt síðari umsögn Vinnueftirlitsins megi rekja orsakir slyssins til þess að klæðnaður stefnanda hafi fest í færslubúnaði vélarinnar og stefnandi hafi ekki náð að virkja neyðarstöðvunarbúnað í tæka tíð. Þá komi fram í umsögninni að mögulegt sé að stöðvunarbúnaður hafi ekki virkað rétt þegar slysið varð. Stefndu telja þá niðurstöðu byggja á myndbandi sonar stefnanda sem sérstaklega sé minnst á í umsögninni. Það myndband geti ekki haft sönnunargildi í málinu og sömuleiðis geti niðurstaða Vinnueftirlitsins sem byggi á því ekki haft neina þýðingu. Vinnueftirlitið hafi ekki gert sjálfstæða rannsókn á virkni neyðarstöðvunarbúnaðar vélarinnar með sama hætti og lögreglan gerði.
Stefndu mótmæla sönnunargildi framangreinds myndskeiðs frá syni stefnanda. Ekki komi fram hvar myndbandið hafi nákvæmlega verið tekið, hver hafi tekið það eða hvenær en það hafi fyrst verið sent Vinnueftirlitinu 28. nóvember 2012. Stefndu telja að átt hafi verið við tækjabúnaðinn eða tengingar áður en myndskeiðið var tekið enda sé ekki eðlilegt að sveifla neyðarstöðvunarrofanum (stönginni) til hliðar líkt og sjáist gert í myndbandi. Þá sé virkni neyðarstöðvunarrofans í myndbandinu í engu samræmi við virkni hans í dag og á slysdegi. Prófanir lögreglu á neyðarrofanum, sem gerðar voru nokkrum mínútum eftir slysið, sýni að neyðarrofinn hafi virkað mjög vel. Fyrir liggi myndband lögreglu sem staðfesti þetta. Því sé ljóst að ástand neyðarstöðvunarrofans hafi ekki verið eins og sýnt er á framangreindu myndbandi á slysdegi.
Stefndu mótmæla því að viðbótarneyðarrofi á flökunarvélina, sem komið hafi verið fyrir eftir slysið, sýni fram á að öryggisbúnaði hafi verið áfátt fyrir breytingar. Þvert á móti telja stefndu tæpast hægt að telja stefnda, Toppfiski ehf., það til lasta að hafa betrumbætt öryggisbúnað umfram skyldu.
Stefndu mótmæla því að tækið uppfylli ekki ákvæði reglna um hlífar og varnir þar sem auðvelt sé að komast að skerandi búnaði vélarinnar. Fiskflökunarvélin sé þannig búin að hún geti tekið á móti fiski, stundum stórum fiski. Til þess að koma fiski inn í vélina sé notaður færslubúnaður, tenntir tindar sem fiskurinn sé settur á og beri fiskinn inn í vélina. Þegar fiskurinn komi, áfastur á tindunum, að vélinni, opnist járnhlið og þannig komist fiskurinn af hnífnum. Ómögulegt sé að koma fyrir hlífum sem komi í veg fyrir að hönd komist að hnífnum enda séu fiskarnir iðulega stærri en mannshönd. Færslubúnaðurinn sem slíkur sé til þess að takmarka slysahættu og báðum megin við tindana sé málmur í hæð við þá sem ætlað er að koma í veg fyrir að menn reki sig í þá. Hvað varðar niðurstöðu rannsóknar tæknideildar Vinnueftirlitsins, þar sem sagt er að tækið uppfylli ekki ákvæði um hlífar og varnir þar sem auðvelt sé að komast að skerandi búnaði í vélinni, telur stefndi að Vinnueftirlitið hafi verið að vísa til þess að engin hlíf hafi verið við bakhlið vélarinnar, þ.e. þar sem flökin koma út, og því skorti orsakasamband milli meints skorts á hlíf og slyssins. Hafi nú verið ráðin bót á vöntun hlífa aftan á vélinni.
Stefndu mótmæla því sem röngu að fiskflökunarvélin hafi ekki verið CE-merkt, líkt og haldið sé fram í stefnu og í umsögn Vinnueftirlitsins, þótt merkingu hafi vantað á vélina. Þá séu engin orsakatengsl á milli slyssins og þess hvort vélin hafi verið CE-merkt enda liggi fyrir niðurstaða tæknideildar Vinnueftirlitsins um að tækið hafi uppfyllt reglur nr. 761/2001 hvað varðar stöðvun og neyðarstöðvun og að stöðvunartími vélarinnar hafi verið mjög stuttur.
Af hálfu stefndu er á því byggt að stefnandi hafi ekki farið eftir reglum stefnda hvað varðar ermahlífar utan yfir hanska. Í gæðahandbók stefnda, Toppfisks ehf., sé talað um einnota ermahlífar, en einnig hafi verið til hjá stefnda, Toppfiski ehf., margnota ermahlífar sem voru þykkari. Það hafi tíðkast að nota margnota ermahlífar en einnota ermahlífar voru þó heimilar. Skýrt hafi verið kveðið á um í reglum stefnda að nota bæri ermahlífar utan yfir hanska en ekki undir enda þjóni ermahlífarnar ekki tilgangi sínum nema þær séu hafðar utan yfir. Umræddar reglur um notkun ermahlífa séu bæði á íslensku og ensku. Þá séu hanskarnir úr þykku gúmmíi og þannig hannaðir að þeir séu nokkuð víðir um framhandlegginn. Því sé sérstaklega mikilvægt þegar unnið sé í hönskum af þessari gerð, að bera ermahlífar yfir hönskunum til að varna því að hanskarnir blotni að innan og ekki síður til að takmarka slysahættu. Óumdeilt sé að stefnandi hafi klæðst ermahlífum innan undir hönskunum og því ekki útbúið sig í samræmi við gildandi reglur. Auk þessa hafi stefnandi ekki borið sig rétt að verkinu þegar slysið átti sér stað. Af upptöku úr öryggismyndavél megi sjá að stefnandi hafi staðið mun lægra við vélina heldur en samstarfsmaður hans gerði skömmu fyrir slysið. Því hafi hann annað hvort ekki staðið á þar til gerðum palli við vélina eða ekki stillt hann í rétta hæð. Staða stefnanda jók því hættu á að fatnaður gæti flækst í færslubúnaði vélarinnar. Orsök slyssins sé því aðgæsluleysi stefnanda sjálfs, vinnustaða hans og röng notkun hanska og ermahlífa. Stefnandi sé vanur starfsmaður og hafði hlotið þjálfun í góðum framleiðsluháttum, þrifum og í vinnu við fiskflökunarvél.
Stefndu byggja varakröfu sína um bótaskyldu að hluta á því að ljóst sé að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann fylgdi ekki reglum stefnda, Toppfisks ehf., um hlífðarfatnað og vinnulag og því eigi hann að bera stóran hluta tjóns síns sjálfur. Vísast í þessu tilliti til framangreindrar umfjöllunar stefnda um notkun ermahlífa og stillingu vinnuaðstöðu. Að öðru leyti vísa stefndu til sömu málsástæðna fyrir varakröfu og gerðar eru varðandi aðalkröfu.
Stefndu vísa til meginreglna skaðabótaréttar um sönnunarbyrði, orsakatengsl, stórkostlegt gáleysi og skerðingu bótaréttar. Vísað er til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, og skaðabótalaga nr. 50/1993. Hvað varðar málskostnað vísa stefndu til XXI. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
IV.
Ágreiningur málsins lýtur að því hvort stefndi, Toppfiskur, beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda sem hann varð fyrir við störf sín hjá fyrirtækinu og þá jafnframt hvort stefnandi eigi kröfu til bóta úr ábyrgðartryggingu þess hjá meðstefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum.
Við úrlausn málsins reynir á almennu sakarreglu skaðabótaréttar og regluna um vinnuveitandaábyrgð. Í því felst að stefndi, Toppfiskur, ber þá aðeins bótaábyrgð á tjóni stefnanda að það megi rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanna þess fyrirtækis. Við mat á saknæmi verður jafnframt að taka mið af þeim reglum sem gilda um aðbúnað á vinnustöðum og reglna sem gerðar eru um öryggi við notkun hættulegra véla og notkun persónuhlífa.
Svo sem rakið er í atvikalýsingu dómsins var stefnandi að vinna við fiskflökunarvél þegar slysið varð en hann festi flík eða vinnuvettling á tenntum sleða sem flytur fisk að hnífum vélarinnar og skarst við það illa á hendi. Við slysið missti stefandi tvo fingur og hluta af lófa hægri handar. Samkvæmt matsgerð er varanlegur miski stefnanda 40 stig og varanleg örorka 100%.
Meðal þess sem deilt er um í málinu er hvort fiskflökunarvélin hafi fengið viðeigandi CE-vottun. Svo sem fram kemur í umsögn vinnueftirlitsins frá 21. maí 2013, og raunar er óumdeilt, var vélin sem stefnandi slasaðist í ekki með CE-merkingu. Í 1. mgr. 48. gr. laga nr. 46/1980, sbr. 13. gr. laga nr. 68/2003, segir m.a. að óheimilt sé að setja á markað eða taka í notkun tegund vélar sem uppyllir ekki reglur um öryggi og formskilyrði, svo sem um merkingar. Vél skal einkennd með CE-merkinu með greinilegum, læsilegum og óafmáanlegum hætti, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 1005/2009. Merking vélarinnar var ekki í samræmi við framangreindar kröfur. Í kjölfar slyssins rannsakaði tæknideild Vinnueftirlitsins vél sömu gerðar og stefnandi var að vinna við. Í niðurstöðu tæknideildar kemur fram að um sé að ræða breytta útgáfu af vélinni Baader 189. Breytingarnar sem gerðar hafi verið séu svo miklar að skylt hafi verið að fara í gegnum nýtt samræmismat og gera nýja samræmisyfirlýsingu. Í málinu hefur verið lögð fram samræmisyfirlýsing frá framleiðanda vélarinnar (EC – Declaration of conformity), frá nóvember 2006. Ekki hefur verið í ljós leitt hvort sú yfirlýsing er gefin út fyrir eða eftir þær breytingar á vélinni sem Vinnueftirlitið lýsir í umsögn sinni. Gegn staðhæfingum stefnda verður því að telja ósannað að vélin, í því ástandi sem hún var á slysdegi, uppfylli reglur 761/2001 hvað varðar samræmisyfirlýsingar.
Með reglugerð 1005/2009 voru reglur nr. 761/2001 felld úr gildi. Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar segir að vél sem merkt er með réttum hætti og með fylgir CE-samræmisyfirlýsing, í samræmi við fyrirmæli í II. viðauka reglugerðarinnar, skuli álitin fullnægja öllum ákvæðum hennar. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að sé vél framleidd í samræmi við staðal, sem hefur verið birtur í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, og slíkur staðall fjallar um eina eða fleiri af grunnkröfu um heilsuvernd og öryggi, skuli ganga út frá því að vélin uppfylli viðeigandi kröfur. Efnislega eru sams konar ákvæði í 5. gr. eldri reglna. Af því sem að framan er rakið um CE-merkingu vélarinnar sem kemur við sögu er ljóst að þessum sönnunarreglum verður ekki beitt í málinu.
Þau atriði varðandi öryggiskröfur vélarinnar sem um er deilt lúta annars vegar að neyðarstöðvunarbúnaðinum og hins vegar að vörnum við því að komast að skerandi hlutum vélarinnar. Í síðari umsögn Vinnueftirlitsins, frá 21. maí 2015, er fjallað um hvort tveggja en umsögnin byggist á skoðun á sams konar vél og stefnandi slasaðist við. Niðurstaða eftirlitsins er sú að vélin uppfylli reglur nr. 761/2001, um vélar og tæknilegan búnað, varðandi stöðvun og neyðarstöðvun en hins vegar sé hlífum og vörnum ábótavant, þar sem auðvelt sé að komast að skerandi búnaði vélarinnar. Í skriflegu svari Vinnueftirlitsins, dags. 11. maí 2016, er útskýrt nánar hvað átt er við með síðar greinda atriðinu. Segir að vísað sé til aðgengis að hnífum aftan á vélinni, þ.e. ekki þeim megin sem fiskurinn er mataður í vélina. Við vettvangsskoðun mátti sjá að búið var að bæta úr skorti á hlífum á þeirri hlið vélarinnar. Óumdeilt er að skortur á hlífum aftan á vélinni tengist ekki slysi stefnanda. Með hliðsjón af framangreindu eru ekki vísbendingar um að vélin hafi ekki uppfyllt öryggiskröfur samkvæmt reglum nr. 761/2001, varðandi þau atriði sem máli skipta við úrlausn þessa máls, þrátt fyrir skort á viðeigandi merkingum og samræmisyfirlýsingu.
Stefnandi byggir á því að jafnvel þótt vélin hafi veri hönnuð í samræmi við framangreindar kröfur þá hafi neyðarstöðvunarbúnaðurinn verið bilaður þegar slysið varð og það hafi m.a. orsakað slysið.
Í atvikalýsingu er nánar rakinn framburður stefnanda um neyðarstöðvunarbúnaðinn í skýrslutöku hjá lögreglu og efni skriflegrar yfirlýsingar vitnisins B um sama efni. Báðir komu fyrir dóm og báru á sama veg. Í fyrri umsögn Vinnueftirlitsins, sem gerð var degi eftir slysið, segir að við skoðun á vélinni hafi komið fram að stöðvunartími við neyðarstöðvun virðist of langur til þess að tryggja að neyðarstöðvunarrofi komi að fullu gagni. Þá er þess getið í síðari umsögninni að orsök slyssins megi mögulega rekja til þess að stöðvunarbúnaður vélarinnar hafi ekki virkað rétt þegar slysið varð. Er í þeirri umsögn vísað til myndbands sem lögmaður stefnanda hafði sent Vinnueftirlitinu. Er þar átt við myndbandið sem D, sonur stefnanda, tók upp. Hann kom fyrir dóm og bar að myndbandið hefði verið tekið upp snemma morguns daginn eftir slysið. Af framangreindum umsögnum Vinnueftirlitsins verður ekki ráðið hvernig staðið var að skoðun vélarinnar sem getið er um í fyrri umsögninni. Þá liggur fyrir að Vinnueftirlitið rannsakaði vélina sem stefnandi lenti í ekki frekar og engar nánari skýringar er að finna á óljósu orðalagi beggja umsagna hvað varðar virkni neyðarstöðvunarbúnaðarins. Í tölvuskeyti frá Vinnueftirlitinu til lögmanns stefndu, frá 29. apríl 2016, segir það eitt að eftirlitið afturkalli fyrri umsögn sína og yngri umsögn þess gildi. Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið um umsagnir Vinnueftirlitsins verður á grundvelli þeirra engu slegið föstu um ástand neyðarstöðvunarbúnaðarins á slysdegi. Fullnægjandi rannsókn á því hvort neyðarstöðvunarbúnaðurinn hafi verið í ólagi, fór hvorki fram af hálfu Vinnueftirlitsins né annarra aðila. Hins vegar eru vísbendingar um að búnaðurinn hafi ekki virkað eins og til er ætlast í framangreindum umsögnum eftirlitsins og jafnframt í myndbandsupptöku sonar stefnanda og skýrslu samstarfsmanns stefnanda, sem varð vitni að slysinu. Að mati dómsins verður, eins og atvikum er háttað, að leggja sönnunarbyrðina um þetta atriði á stefndu. Verður að telja að þeim hafi ekki tekist að sanna að búnaðurinn hafi verið í fullkomnu lagi og breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt fyrir liggi myndband frá lögreglu, sem tekið var á slysdegi, þar sem neyðarstöðvunarbúnaðurinn virðist vera í lagi.
Hvað sem líður óvissunni um það hvernig neyðarstöðvunarbúnaðurinn virkaði í raun á slysdegi þá liggur fyrir að vélin sem stefnandi starfaði við er afar hættuleg og er áhættustig vinnu við hana metið hátt í áhættumati stefnda, Toppfisks, frá 4. október 2012. Óumdeilt er að unnt er að komast með höndina að flökunarhnífnum, svo sem gerðist í tilviki stefnanda. Þá liggur fyrir að járnsleðinn, sem flytur fiskinn að hnífnum, er með beittum teinum/göfflum sem auðvelt er að krækja fatnaði í. Þegar vélin er stillt á mesta hraða tekur u.þ.b. 2 sekúndur að færa fiskinn frá vinnslusvæði vélarinnar að hnífnum en hraði vélarinnar er breytilegur eftir stærð fisksins sem verið er að vinna að. Festi einhver sig í teinum sleðans hefur hann því einungis örskamma stund til að bregðast við og stöðva vélina. Jafnvel þótt neyðarstöðvunarbúnaðurinn virki eins og til er ætlast, er ljóst að viðbragðsflýtir manna er minni en svo að örugglega sé hægt að koma í veg fyrir slys með því að virkja stöðvunarbúnað eftir að flík festist í vélinni. Á myndskeiði úr öryggismyndavél sést að þegar stefnandi slasaðist liðu u.þ.b. 2–4 sekúndur frá því hann festist í vélinni og þar til vélin stöðvaðist. Af þessu leiðir að eina raunhæfa slysavörnin felst í því að tryggja að starfsmenn noti persónuhlífar sem komi í veg fyrir að fatnaður flækist í vélinni.
Í reglugerð nr. 497/1994 er mælt fyrir um notkun persónuhlífa þegar ekki er hægt að komast hjá eða takmarka áhættu með tæknilegum ráðum eða með ráðstöfunum, aðferðum eða annarri tilhögun við skipulagningu vinnunnar, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Í a-lið 1. mgr. 4. gr. segir að persónuhlífarnar skuli henta til varnar þeirri áhættu sem um er að ræða án þess að þær leiði sjálfar til aukinnar áhættu. Þá segir í 3. mgr. að ákvarða skuli við hvaða skilyrði beri að nota persónuhlífar á grundvelli þess hve mikil áhættan er. Þá er atvinnurekanda skylt að upplýsa starfsmann fyrir fram um þá hættu sem persónuhlífunum er ætlað að vernda hann gegn, sbr. 7. mgr. 4. gr. Í 5. gr. reglugerðarinnar er ákvæði um að atvinnurekandi skuli, áður en persónuhlífar eru valdar, kanna hvort þær uppfylli framangreindar kröfur og m.a. mælt fyrir um að meta skuli hvaða eiginleika persónuhlífar þurfi að hafa svo þær komi að tilætluðu gagni, sbr. b-lið 1. mgr. 5. gr. Reglugerð nr. 497/1994 er sett á grundvelli laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og mælir nánar fyrir um skyldur atvinnurekanda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 46/1980, um að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis á vinnustað.
Samkvæmt reglum um hlífðarfatnað, sem voru í gildi hjá stefnda, Toppfiski, á slysdegi, átti stefnandi að vera í sloppi, með háa gúmmíhanska og einnota ermahlífar utan yfir gúmmíhanskana. Umræddar ermahlífar eru úr þunnu plasti sem rifnar auðveldlega við lítið átak. Með hliðsjón af því og því hve mikil hætta getur skapast á alvarlegu tjóni er fallist á það með stefnanda að þessar ermahlífar hafi ekki þá eiginleika sem persónuhlífar þurfa að hafa til að koma að gagni sem vörn gegn þeirri hættu sem þeim var ætlað að vernda stefnanda gegn svo sem áskilið er í tilvitnuðum ákvæðum reglugerðar nr. 497/1994. Þá veita reglur stefnda, Toppfisks, engar vísbendingar um að notkun þessara ermahlífa hafi verið sérstaklega ætlaðar til að stuðla að öryggi og að starfsmönnum hafi verið gerð grein fyrir að þær þjónuðu því hlutverki. Í skýrslu fyrir dómi bar stefnandi að hlífarnar hefðu fyrst og fremst verið notaðar til að koma í veg fyrir að bleyta kæmist inn í hanskana. Loks liggur ekkert fyrir um að mat á öryggisvernd ermahlífanna hafi farið fram, sbr. tilvitnuð ákvæði 5. gr. reglugerðarinnar. Svo sem áður er getið gaf Vinnueftirlitið fyrirmæli eftir slysið, um að settar skyldu reglur um fatnað starfmanna sem vinna við vélina. Í áðurnefndu áhættumati stefnda, Toppfisks, er reglum um fatnað starfsmanna við vélina breytt á þann veg að mælt er fyrir um notkun ermahlífa úr gúmmíi, sem ná frá hanska og upp fyrir olnboga og eiga að koma í veg fyrir að fatnaður eða hanskar geti flækst í sleðanum. Breytingar þessar eru gerðar 4. október 2012, tveimur dögum eftir slysið. Af því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að reglur um notkun hlífðarfatnaðar hafi verið ófullnægjandi á slysdegi, þær einnota ermahlífar sem stefnanda voru lagðar til hafi verið ófullnægjandi vörn gegn augljósri og mikill slysahættu. Jafnframt er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að rétt notkun þeirra þunnu ermahlífa sem starfsmönnum voru lagðar til hefðu nokkru breytt um slys stefnanda. Af þeirri ástæðu er ekki tilefni til að meta stefnanda það til eigin sakar að hafa ekki borið þær með réttum hætti. Þá er sú staðhæfing stefndu ósönnuð, að stefnandi hafi ekki stillt pallinn við vélina í rétta hæð, enda nýtur ekki við annarra gagna um það atriði en myndskeið úr vinnslusalnum þegar slysið varð, þar sem engin leið er að sjá hvernig pallurinn var stilltur.
Með vísan til framangreinds verður að telja að orsök slyss stefnanda sé að rekja til ófullnægjandi persónuhlífa. Auk þess sem að framan er rakið styðst sú niðurstaða við niðurstöðu Vinnueftirlitsins þar sem segir að orsök slyssins megi rekja til þess að fatnaður stefnanda hafi flækst í vélinni og gefin eru fyrirmæli um að setja skuli verklagsreglur um fatnað starfsmanna sem vinna við vélina með tilliti til slyssins. Svo sem rakið hefur verið ber stefndi, Toppfiskur, ábyrgð á því að fyrirmæli um notkun persónuhlífa voru ófullnægjandi. Þá verður engu slegið föstu um það hvort neyðarstöðvunarbúnaður vélarinnar hafi virkað eins og til er ætlast þegar slysið varð. Eins og rakið hefur verið að framan verða stefndu að bera hallann af skorti á sönnun um það atriði. Með vísan til þessara atriða er það niðurstaða dómsins að stefndi Toppfiskur ehf. beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Verður viðurkenningarkrafa stefnanda því tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði en ekki er ágreiningur um að stefnandi eigi bótarétt úr ábyrgðartryggingu fyrirtækisins hjá meðstefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., séu skilyrði skaðabótaábyrgðar á hendur Toppfiski fyrir hendi.
Stefnandi hefur lagt fram gjafsóknarleyfi vegna reksturs þessa máls fyrir héraðsdómi, útgefið 23. febrúar 2015. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði. Þar með er talin þóknun lögmanns hans, sem telst, miðað við umfang málsins og rekstur þess, hæfilega ákveðin 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verða stefndu dæmdir til að greiða sameiginlega 1.200.000 krónur í málskostnað er renni í ríkissjóð, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991.
Karl Ó. Karlsson hæstaréttarlögmaður flutti mál þetta fyrir hönd stefnanda og Dagmar Arnardóttir héraðsdómslögmaður fyrir hönd stefndu.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Viðurkennt er að stefndi, Toppfiskur ehf., beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda, A, vegna líkamstjóns sem hann hlaut í vinnuslysi þann 2. október 2012. Jafnframt er viðurkennt að stefnandi nýtur bótaréttar úr hendi stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., úr ábyrgðartryggingu meðstefnda, vegna sama tjóns.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Karls Ó. Karlssonar hæstaréttarlögmanns, 1.200.000 krónur. Stefndu greiði óskipt 1.200.000 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.