Hæstiréttur íslands

Mál nr. 199/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Flýtimeðferð


                                     

Miðvikudaginn 26. mars 2014.

Nr. 199/2014.

Hagar hf.

(Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(enginn)

Kærumál. Flýtimeðferð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu H hf. um að mál sem félagið hugðist höfða á hendur Í sætti flýtimeðferð.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2014 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð í máli hans á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út réttarstefnu til flýtimeðferðar á málinu.

Varnaraðili hefur ekki átt þess kost að láta málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fallist er á með héraðsdómi að ekki sé fyrir hendi brýn þörf á skjótri úrlausn fyrirhugaðs máls sóknaraðila á hendur varnaraðila, svo sem áskilið er í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2014.

I

Með bréfi, dagsettu 7. mars sl., fer Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl. þess á leit við dóminn að mál sem umbjóðandi hans, Hagar hf., Hagasmára 1, Kópavogi, hyggst höfða á hendur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, sæti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Með bréfinu fylgir stefna og bréf Atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðu­neytisins 18. febrúar 2014. Samkvæmt stefnu krefst stefnandi þess að „ógilt verði með dómi ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 18. febrúar 2014, þess efnis að hafna beiðni stefnanda um setningu opins tollkvóta, án allra gjalda, fyrir innflutning á buffala-, geita- og ærmjólkurostum.“ Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.

Í áðurnefndu bréfi lögmannsins kemur fram að umbjóðandi hans telji að ákvörðun ráðherra sé haldin göllum, bæði að formi og efni til, og því beri að ógilda hana. Þá sé ákvörðunin til þess fallin að valda honum tjóni og leiði að auki til viðamikillar takmörkunar á atvinnufrelsi hans. Ákvörðunin hafi jafnframt víðtæka almenna þýðingu, þá aðallega fyrir neytendur í formi vöruverðs og vöruframboðs. Telur lög­maðurinn að hagfelldur dómur yrði fordæmisgefandi fyrir aðrar matvörur sem gera megi ráð fyrir að neytendur séu við núverandi aðstæður að ofgreiða gjöld af. Slík niðurstaða myndi einnig hafa í för með sér lækkunaráhrif á vísitölu neysluverðs, og þar með lækkun verðtryggðra skulda heimilanna. Umrædd ákvörðun varði því bæði almenna hagsmuni og hagsmuni stefnanda. Í ljósi þessa telur lögmaðurinn að brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómsins og að uppfyllt séu öll skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 fyrir flýtimeðferð málsins. Þá telur lögmaðurinn að hliðstæð álitaefni hafi sætt flýtimeðferð fyrir dóminum.

Í lok bréfs síns óskar lögmaðurinn eftir úrskurði dómsins, verði ekki fallist á að mál þetta sæti flýtimeðferð, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991.

II

Í stefnu segir að stefnandi sé leiðandi verslunarfyrirtæki á íslenskum markaði og annist m.a. innflutning á ýmsum matvörum. Í starfsemi hans reyni því oft á ákvæði tollalaga nr. 88/2005, þ. á m. um úthlutun tollkvóta á tilteknar landbúnaðarafurðir. Stefnandi sé í hópi þeirra sem fái úthlutað tollkvóta og hafi hann flutt inn umræddar ostategundir, þ.e. buffala-, geita- og ærmjólkurosta. Segir hann eftirspurn vera mikla eftir þessum vörum, en framleiðsla hér á landi sé engin eða hverfandi. Há gjöld útiloki hins vegar innflutning á vörum þessum. Til að koma til móts við eftirspurn neytenda kveðst stefnandi hafa lagt fram beiðni til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis 3. febrúar 2014, þar sem óskað hafi verið eftir því að settur yrði á opinn tollkvóti, án gjalda, fyrir innflutning á umræddum vörutegundum. Telur stefnandi það vera í samræmi við heimildir ráðuneytisins og fyrri ákvarðanir þess vegna skorts á öðrum landbúnaðarvörum.

Með bréfi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 18. febrúar 2014 var beiðni stefnanda hafnað. Í bréfinu kemur fram að beiðni stefnanda hafi verið rædd í ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara. Benti ráðgjafarnefndin á að í desember sl. hafi 100 tonna tollkvóta verið úthlutað fyrir osta, þar af 20 tonnum af sérostum með landfræðilegum merkingum, sbr. reglugerð ráðsins (EB) nr. 1151/2012, um vernd landfræðilegra merkinga og uppruna landbúnaðarafurða og matvæla. Að auki sé árlega í júnímánuði úthlutað 119 tonna WTO tollkvóta fyrir osta. Þá segir þar einnig: „Báðar þessar úthlutanir eru fyrir vörulið en ekki tollskrárnúmer. Innflytjendur sem fá úthlutað tollkvóta ákveða sjálfir hvaða osta þeir flytja inn og geta vörurnar fallið undir mismunandi tollskrárnúmer. Hafa þeir þannig frjásar hendur um hvernig þeir ráðstafa tollkvóta sínum og gætu t.d. flutt inn ofangreindar ostategundir ef vilji stæði til.“ Í bréfinu er loks vísað til 3. mgr. 112. gr. tollalaga.

III

Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að aðili sem hyggst höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga, geti óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila.

Við mat á því hvenær brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni verður að líta til atvika hverju sinni. Þar sem umrætt ákvæði felur jafnframt í sér afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga verður að skýra  það þröngri lögskýringu.

Af málatilbúnaði stefnanda er ljóst að mál þetta er höfðað í því skyni að ráðherra úthluti stefnanda opnum tollkvóta, án allra gjalda, fyrir innflutning á þeim vörutegundum sem áður eru nefndar, en stefnandi fullyrðir að eftirspurn eftir þeim sé mun meiri en framboð. Þá telur hann að há gjöld útiloki innflutning varanna.

Dómurinn getur ekki fallist á að uppfyllt séu skilyrði tilvitnaðs ákvæðis einkamálalaga til að mál þetta sæti flýtimeðferð. Þannig verður ekki séð að brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómsins, né að hún hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila. Lítur dómurinn þá einkum til þess að fyrrgreind ákvörðun Atvinnu­vega- og nýsköpunarráðuneytisins felur ekki í sér breytingu á núverandi réttarstöðu stefnanda, og því síður þannig að hætt sé við að hagsmunir hans kunni að fara forgörðum verði málið rekið eftir almennum reglum einkamálalaga. Þótt há gjöld séu á innflutningi umræddra vara breytir það heldur engu um afstöðu dómsins, enda ráðast þau gjöld af ákvæðum tollalaga.

Með vísan til ofanritaðs og að virtum gögnum málsins er það mat dómsins að ekki sé fullnægt skilyrðum fyrir því að mál þetta sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu í málinu.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhugðu dómsmáli Haga hf. gegn íslenska ríkinu.