Hæstiréttur íslands

Mál nr. 232/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                              

Föstudaginn 27. apríl 2012.

Nr. 232/2012.

Kristján Þorsteinsson

(sjálfur)

gegn

Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar

(Sigurður A. Þóroddsson hrl.)

Kærumál. Nauðungarsala. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur B var vísað frá dómi á þeim grundvelli að K hefði ekki skotið til dómsins ákvörðun sýslumanns sem hefði þýðingu fyrir hann að lögum að fá endurskoðaða af dómstólum. Þar með væru ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu til þess að taka kröfu hans til með­ferðar. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Garðar Gíslason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að kærumálskostnaður falli niður.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Með hinum kærða úrskurði var máli þessu vísað frá héraðsdómi og var því ekki tekin efnisleg afstaða til dómkröfu sóknaraðila. Skilyrði fyrir kæruheimild í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um að hagsmunir í máli þurfi að svara til áfrýjunarfjárhæðar samkvæmt 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á því ekki við hér. Af þeim sökum verður hafnað aðalkröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kristján Þorsteinsson, greiði varnaraðila, Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2012.

I

Með tilkynningu móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. mars sl. krefst Kristján Þorsteinsson úrlausnar héraðsdóms um réttmæti þess að fram fari, gegn mót­mælum hans, vörslutaka og nauðungarsala á bifreið með fastanúmerið VX-132, af gerð­inni Subaru, árgerð 1999.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að með úrskurði héraðsdóms verði nauðungar­sala, nr. 011-2012- 00168 fyrir Sýslumanninum í Reykjavík, á bifreið hans, með fasta­númerið VX-132, af gerðinni Subaru, árgerð 1999, dæmd ólögmæt og að hún skuli felld niður og að í úrskurði verði jafnframt kveðið svo á að sóknaraðila beri ekki að greiða þær kröfur né þann áfallna og áfallandi kostnað og vexti er fram kemur í upp­boðs­beiðni gerðarbeiðanda, dags. 23. febrúar 2012.

Sóknaraðili krefst þess til vara að með úrskurði héraðsdóms verði nauðungar­salan, sem greinir í aðalkröfu stöðvuð, ásamt því að vörslutaka á bifreið sem ber fasta­númerið VX-132, af gerðinni Subaru, árgerð 1999, sem heimiluð var með stimplun sýslu­manns á uppboðs­beiðni, dags. 23. febrúar 2012, verði dæmd óheimil og að hvoru­tveggja gildi á meðan sóknaraðili reki dómsmál um réttmæti uppboðskrafna gerðar­beið­anda og sóknaraðili mun þá höfða gegn gerðarbeiðanda í framhaldi þess að hann fái slíkan úrskuð.

Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda, svo og úr hendi Sýslu­mannsins í Reykjavik að mati réttarins.

Komi til þess að úrskurður héraðsdóms verði kærður til Hæstaréttar krefst sóknaraðili þess að sú kæra fresti frekar framhaldi á nauðungarsölunni og um það vísað til heimildar í 3. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991.

II

Í XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu er fjallað um úrlausn ágrein­ings um hvort nauðungarsala fari fram o.fl. Þar segir í 73. gr. að leita megi úrlausnar héraðsdómara, samkvæmt fyrirmælum XIII. kafla, um ágreining sem rís við nauð­ungar­sölu. Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. skal sá, sem vill leita úrlausnar héraðsdómara, lýsa yfir því við fyrirtöku sýslumanns á nauðungarsölunni, þar sem sú ákvörðun kemur fram sem leita á úrlausnar um. Samkvæmt þessu verður að skjóta til héraðs­dóms til­tek­inni ákvörðun sýslumanns.

Sóknaraðili lagði kröfu sína til héraðsdóms 8. mars sl. Í málinu hefur ekki verið lagt fram endurrit úr gerða­bók sýslu­manns til sönnunar því að sýslumaður hafi tekið ákvörðun sem sóknaraðili getur mótmælt. Sóknaraðili krefst þess ekki heldur að tiltekinni ákvörðun sýslu­manns verði breytt eða hún ómerkt. Eftir því sem næst verður komist hafði sýslu­maður ekki tekið neina ákvörðun í nauðungarsölumáli nr. 011-2012- 00168 þegar sóknar­aðili skaut kröfu sinni til héraðsdóms.

Þar sem sóknaraðili hefur ekki skotið til dómsins ákvörðun sýslumanns sem hefur þýðingu fyrir sóknaraðila að lögum að fá dómstóla til að endurskoða eru ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu til þess að taka kröfu hans til með­ferðar. Af þeim sökum verður að vísa henni frá dómi án kröfu, það er án þess að varn­ar­aðili að slíku ágreiningsmáli krefjist þess og án þess að það sé formlega tekið fyrir á dómþingi, sbr. 1. mgr. 74. gr. laganna.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Þessu máli er vísað frá dómi án kröfu (ex officio).