Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sönnunargögn
  • Framlagning skjals


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. mars 2005. 

Nr. 55/2005.

Gott fólk ehf.

(Reimar Pétursson hrl.)

gegn

Degi Hilmarssyni og

Ennemm ehf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Sönnunargögn. Framlagning skjala.

D höfðaði mál gegn G til greiðslu launauppbótar, launa og tengdra greiðslna, en hann hafði unnið hjá G á árunum 1996-2004. G höfðaði gagnsök um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar vegna ætlaðra brota D á ráðningasamningi við G frá 1996. Vegna þeirrar kröfu krafðist G þess að E, sem D hóf störf hjá er hann hætti hjá G, yrði gert að afhenda ráðningarsamning við D, launaseðla hans og verkskýrslur. Talið var að ráðningarkjör D hjá E og laun hans þar, gætu engu skipt við úrlausn málsins eins og það lá nú fyrir dómi. Vegna fyrrnefndrar kröfu G í gagnsök í héraði, var það talið skipta G máli að sannað yrði hvort D hefði í starfi hjá N sinnt verkum fyrir viðskiptavini G, vegna hugsanlegs brots á ráðningarsamningnum frá 1996. Heimildir G til slíkrar gagnaöflunar yrði á hinn bóginn að skýra með tilliti til þess að þriðja manni verði að meginreglu ekki gert að þola afskipti af einkamálefnum sínum vegna ágreinings annarra að einkarétti. Var G ekki talinn hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að vitnaskylda, sem hvíldi á starfsmönnum E samkvæmt lögum nr. 91/1991, þjónaði ekki nægilega hagsmunum hans. Var kröfu G um afhendingu gagnanna hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðilanum Ennemm ehf. yrði gert að láta af hendi nánar tiltekin gögn til framlagningar í máli, sem rekið er milli sóknaraðila og varnaraðilans Dags Hilmarssonar. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilanum Ennemm ehf. verði gert að leggja fram ráðningarsamning sinn við varnaraðilann Dag, launaseðla síðarnefnda varnaraðilans eftir að hann hóf störf hjá þeim fyrrnefnda og tímaskýrslur eða verkskýrslur hans frá sama tíma. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gerðist varnaraðilinn Dagur starfsmaður hjá sóknaraðila, sem rekur auglýsingastofu, með samningi 30. nóvember 1996. Breytingar voru gerðar á ráðningarkjörum varnaraðilans eftir þann tíma, en þær varða ekki svo séð verði ágreiningsefnið, sem hér er til úrlausnar. Varnaraðilinn tilkynnti sóknaraðila með símskeyti 28. febrúar 2004 að hann segði upp störfum með umsömdum þriggja mánaða fresti. Með símskeyti 5. mars sama ár vék sóknaraðili varnaraðilanum fyrirvaralaust úr starfi vegna ætlaðra trúnaðarbrota og lét sá síðarnefndi af störfum í beinu framhaldi af því.

Mál þetta, sem varnaraðilinn Dagur höfðaði gegn sóknaraðila, var þingfest í héraðsdómi 13. apríl 2004. Krafðist varnaraðilinn greiðslu launauppbótar frá árinu 2000 til og með ársins 2003, samtals 1.000.000 krónur, svo og launa og tengdra greiðslna annars vegar vegna febrúar 2004 að fjárhæð 593.963 krónur og hins vegar vegna uppsagnarfrests næstu þrjá mánuði, alls 1.855.890 krónur. Stefnukrafa varnaraðilans nam þannig samtals 3.449.853 krónum. Sóknaraðili krafðist sýknu í greinargerð fyrir héraðsdómi. Bar hann því við að heimilt hafi verið að rifta ráðningarsamningi við varnaraðilann vegna brota hans í starfi. Var í því sambandi haldið fram að hann hafi ásamt tveimur öðrum starfsmönnum sóknaraðila, sem sögðu upp störfum á sama tíma og varnaraðilinn, sýnilega lagt á ráðin um að stofna nýja auglýsingastofu meðan þeir voru enn í þjónustu sóknaraðila, en með þessu hafi þeir meðal annars ætlað að hafa viðskiptavini af honum. Sóknaraðili vísaði einnig til þess að varnaraðilinn hefði í framhaldi af riftun ráðningarsamningsins tekið til starfa hjá annarri auglýsingastofu, varnaraðilanum Ennemm ehf., en ekki hafi laun hans frá þessum nýja vinnuveitanda komið til frádráttar kröfu um laun í uppsagnarfresti. Þá bar sóknaraðili því og við að búið væri að standa varnaraðilanum Degi skil á launauppbót vegna áranna 2000 til 2003.

Sóknaraðili höfðaði gagnsök í málinu 4. maí 2004. Þar krafðist hann þess annars vegar að varnaraðilanum Degi yrði gert að greiða sér 518.026 krónur vegna fyrirframgreiddra launa, sem ekki hefðu komið til uppgjörs, og hins vegar að viðurkennd yrði skylda varnaraðilans til að greiða sér 21.637.881 krónu 28. ágúst 2004, sömu fjárhæð 28. febrúar 2005 og enn sömu fjárhæð á sama degi á árinu 2006. Síðarnefndu kröfuna reisti sóknaraðili á ákvæði í 8. lið ráðningarsamningsins frá 30. nóvember 1996, en þar sagði meðal annars: „Hætti starfsmaður í þjónustu atvinnurekanda er honum óheimilt að takast á hendur störf fyrir alla viðskiptamenn atvinnurekanda næstu tvö ár frá þeim degi að hann hverfur úr þjónustu atvinnurekanda. Brjóti starfsmaður gegn framangreindu ákvæði, skal hann greiða atvinnurekanda fyrir missi viðskiptasambandsins. Skal fjárhæðin vera jöfn helmingi af síðustu ársgreiðslu viðskiptamannsins til félagsins. Greiðslur skulu fara þannig fram að 1/3 hluti greiðist eigi síðar en 6 mánuðum eftir að starfsmaður hættir í þjónustu atvinnurekanda, 1/3 hluti eftir eitt ár og 1/3 eftir tvö ár eftir að starfsmaður hætti.“ Í tengslum við þetta vísaði sóknaraðili til þess að varnaraðilinn Dagur hafi í þjónustu varnaraðilans Ennemm ehf. starfað fyrir viðskiptavini sóknaraðila í samkeppni við hann. Meðal þeirra væri Landssíminn, en samkvæmt framangreindu ákvæði ætti sóknaraðili kröfu af þeim sökum á hendur varnaraðilanum Degi að fjárhæð alls 64.913.643 krónur. Í greinargerð um gagnsök í héraði krafðist varnaraðilinn Dagur sýknu af þessum kröfum sóknaraðila. Kom þar meðal annars fram að varnaraðilinn hafi ráðið sig til starfa hjá varnaraðilanum Ennemm ehf. í lok mars 2004, en því var andmælt að hann hefði þar nokkuð með höndum, sem andstætt væri 8. lið ráðningarsamningsins frá 30. nóvember 1996. Á dómþingi 16. nóvember 2004 breytti síðan varnaraðilinn Dagur kröfugerð sinni í aðalsök þannig að hann féll frá kröfu um laun í uppsagnarfresti vegna apríl og maí 2004. Lækkaði heildarkrafa hans því um 1.237.260 krónur.

Sóknaraðili beindi kröfu til varnaraðilans Ennemm ehf. 13. janúar 2005 um að hann léti af hendi til framlagningar í málinu ráðningarsamning sinn við varnaraðilann Dag, launaseðla hans fyrir tímabilið eftir að hann hóf störf hjá varnaraðilanum Ennemm ehf. og verkskýrslur varnaraðilans Dags frá sama tímabili. Þessu hafnaði varnaraðilinn Ennemm ehf. með bréfi 18. sama mánaðar. Að þessu fram komnu krafðist sóknaraðili þess við fyrirtöku málsins í þinghaldi 21. janúar 2005 að varnaraðilanum Ennemm ehf., sem þar lét sækja þing, yrði gert að afhenda þessi gögn. Varnaraðilinn andmælti kröfu sóknaraðila og hafnaði héraðsdómari henni með hinum kærða úrskurði.

II.

Um rétt sóknaraðila til að krefjast framangreindra gagna úr hendi varnaraðilans Ennemm ehf. til afnota í máli sínu við varnaraðilann Dag fer eftir ákvæðum 3. mgr. og 4. mgr. 67. gr., 2. mgr. 68. gr. og eftir atvikum 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991. Eiga hér einnig við ákvæði 3. mgr. 46. gr. laganna, sem efnislega er vísað til í 2. málslið 2. mgr. 68. gr., svo og 52. gr. og 53. gr. þeirra.

Ráðningarkjör varnaraðilans Dags hjá varnaraðilanum Ennemm ehf. og laun, sem hann hefur þegið þar í starfi, geta engu skipt við úrlausn málsins nema að því leyti, sem hann kann að hafa notið launa í nýja starfinu á sama tímabili og hann gerir kröfu á hendur sóknaraðila um laun í uppsagnarfresti. Varnaraðilinn Dagur hefur sem fyrr segir fallið frá slíkri kröfu vegna apríl og maí 2004, en áður hafði komið fram í greinargerð hans um gagnsök í héraði að hann hafi ráðið sig til varnaraðilans Ennemm ehf. í lok mars sama ár. Í greinargerð varnaraðilans Dags fyrir Hæstarétti er staðhæft að hann hafi byrjað að starfa þar 1. apríl 2004. Ekki er að sjá að sóknaraðili hafi borið brigður á þetta. Með vísan til 2. mgr. 68. gr., sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, eru því engin efni til að verða við kröfu sóknaraðila um að varnaraðilanum Ennemm ehf. verði gert að láta af hendi til afnota í málinu ráðningarsamning við varnaraðilann Dag eða launaseðla hans frá því að hann tók þar til starfa.

Vegna kröfu sóknaraðila í gagnsök fyrir héraðsdómi, sem hann reisir á ákvæði áðurgreinds 8. liðar ráðningarsamnings síns við varnaraðilann Dag frá 30. nóvember 1996, skiptir máli fyrir hann að sannað verði hvort varnaraðilinn hafi í starfi hjá nýjum vinnuveitanda sinnt verkum fyrir þá, sem hafa verið í viðskiptum hjá sóknaraðila. Heimildir hans til að krefjast sönnunargagna í þessu sambandi úr hendi þess, sem ekki á aðild að máli hans og varnaraðilans, verður á hinn bóginn eðli máls samkvæmt að skýra með tilliti til þess að þriðja manni verður að meginreglu ekki gert að þola afskipti af einkamálefnum sínum vegna ágreinings annarra að einkarétti, en þurfi til slíkra afskipta að koma verði honum ekki íþyngt meira en nauðsyn ber til að virtum hagsmunum málsaðila. Sóknaraðili hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að skylda, sem hvílir á starfsmönnum varnaraðilans Ennemm ehf. samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 til að bera vitni í málinu með þeim takmörkunum, sem leiðir af d. lið 2. mgr. 53. gr. laganna, þjóni ekki nægilega hagsmunum hans. Þegar af þeirri ástæðu ber að hafna kröfu sóknaraðila um að varnaraðilanum Ennemm ehf. verði gert að láta af hendi verkskýrslur eða tímaskýrslur vegna starfa varnaraðilans Dags.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði, en ekki er unnt að verða við kröfu þeirra um málskostnað í héraði, enda hafa þeir ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Gott fólk ehf., greiði hvorum varnaraðila, Degi Hilmarssyni og Ennemm ehf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2005.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar föstudaginn 21. janúar sl., um kröfu aðalstefnda á hendur vinnuveitanda aðalstefnanda, Ennemm ehf., um að félaginu verði gert skylt að leggja fram fyrir dóminn gögn, merkt nr. 1-3 á dskj. nr. 34, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Degi Hilmarssyni, kt. 110766-3949, Stekkjarhvammi 17, Hafnarfirði, með stefnu, birtri 5. apríl 2004, á hendur Góðu fólki ehf., kt. 450788-1209, Laugavegi 182, Reykjavík.

         Með gagnstefnu, birtri 4. maí 2004, höfðaði aðalstefndi gagnsök á hendur aðalstefnanda.

         Endanlegar dómkröfur aðalstefnanda eru þær, að aðalstefnda verði gert að greiða aðalstefnanda kr. 2.212.593 með dráttarvöxtum af kr. 250.000 frá 01.07. 2000 til 01.07. 2001, af kr. 500.000 frá þ.d. til 01.07. 2002, af kr. 750.000 frá þ.d. til 01.07. 2003, af kr. 1.000.000 frá þ.d. til 01.03. 2004, af kr. 1.593.963 frá þ.d. til 05.03. 2004, en af kr. 2.212.593 frá þ.d. til greiðsludags.

         Þá er krafizt málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

         Þá er þess krafizt, að aðalstefnanda verði heimilað að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 01.07. 2001, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2002.

         Dómkröfur aðalstefnda eru þær, að félagið verði sýknað af öllum kröfum aðalstefnanda og því dæmdur málskostnaður úr hendi hans að skaðlausu.

         Dómkröfur gagnstefnanda eru þær, að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda kr. 518.026 með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. marz 2004 til greiðsludags.

         Þá gerir gagnstefnandi þær dómkröfur, að viðurkennt verði, að gagnstefndi beri skyldu til að greiða gagnstefnanda kr. 21.637.881 þann 28. ágúst 2004, aðrar kr. 21.637.881 þann 28. febrúar 2005 og loks kr. 21.637.881 þann 28. febrúar 2006.

         Auk þess krefst gagnstefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi gagnstefnda.

         Dómkröfur gagnstefnda eru þær, að hann verði með öllu sýknaður af kröfum gagnstefnanda og honum dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi gagnstefnda.

II

Krafa aðalstefnda í þessum þætti málsins

Í þinghaldi þann 11. janúar sl. lagði lögmaður aðalstefnda fram skjal, þar sem hann gerði kröfu um, að núverandi vinnuveitanda aðalstefnanda, Ennemm ehf., yrði gert skylt að leggja fram gögn, sem vörðuðu vinnuréttarsamband hans við aðalstefnanda.  Lögmaðurinn dró þessa kröfu síðan til baka að svo stöddu, þar sem formsatriðum var ekki fullnægt.

         Á dómþingi þann 21. janúar sl. lagði lögmaðurinn á ný fram afrit af bréfi til Ennemm ehf., þar sem þess var krafizt, með vísan til 4. mgr. 67. gr. l. nr. 91/1991, að fyrirtækið afhenti honum eftirgreind skjöl: 

         1.             Ráðningarsamning aðalstefnanda við Ennemm ehf.

         2.             Launaseðla aðalstefnanda frá Ennemm ehf., eftir að hann hóf störf þar.

         3.    Tímaskýrslur (verkskýrslur) aðalstefnanda, eftir að hann hóf störf hjá Ennemm ehf.

       Jafnframt lagði lögmaðurinn fram nr. 35, bréf fyrirtækisins, Ennemm ehf., þar sem kröfunni er hafnað með eftirfarandi rökum:

       1.    Dómsmál það, sem um ræðir, sé Ennemm ehf. algerlega óviðkomandi og því séu engin rök til þess, að fyrirtækið leggi fram nokkur gögn úr skjalasafni sínu.

2. Ráðningarsamningar Ennemm ehf. við starfsmenn sína og launakjör þeirra séu trúnaðarmál milli fyrirtækisins og viðkomandi starfsmanna.  Fyrirtækinu sé því þegar af þeirri ástæðu óheimilt að afhenda þessi gögn til þriðja aðila.

3.   Engin rök séu heldur til þess að krefjast umræddra gagna, þar sem Dagur Hilmarsson hafi aldrei unnið að verkefnum fyrir núverandi eða fyrrverandi viðskiptavini Góðs fólks ehf., síðan hann hóf störf hjá Ennemm ehf.

             Í þinghaldinu gerði lögmaður aðalstefnda þá kröfu, að dómari legði fyrir Ennemm ehf. að leggja fram fyrir dóminn gögn, sem talin eru upp í liðum 1-3 á dskj. nr. 35.

         Fyrirsvarsmaður Ennemm ehf., Hallur A. Baldursson, mætti í þinghaldið og lýsti því yfir, að hann hafnaði kröfunni með sömu rökum og fram koma í bréfinu. 

         Fór lögmaður aðalstefnda fram á, að dómari úrskurðaði um kröfuna og vísaði til 2. mgr. 68. gr. l. nr. 91/1991.

         Var málið flutt um ágreiningsatriðið og flutti lögmaður aðalstefnanda það af hálfu Ennemm ehf.

         Af hálfu aðalstefnda var m.a. vísað til dskj. nr. 34. og 68. gr. eml.

         Af hálfu Ennemm ehf. var vísað til dskj. nr. 35 til stuðnings synjuninni, hagsmuna fyrirtækisins sem og þess, að deilt sé um tímabil, áður en aðalstefnandi hóf störf hjá fyrirtækinu, og að gögnin varði ekki réttarsamband aðalstefnanda og aðalstefnda, meðan ráðningarsamningur milli þeirra var í gildi.

         Var krafan því næst tekin til úrskurðar.

III

Málavextir

Aðalsök máls þessa snýst um það, að aðalstefnandi varð starfsmaður aðalstefnda með samningi, dags. 30. nóvember 1996 og tengdist samningurinn samningi um kaup aðalstefnda á fyrirtæki, sem aðalstefnandi var eigandi að og sem starfaði á áþekku sviði og fyrirtæki aðalstefnda, en það fyrirtæki er auglýsingastofa.  Þann 28. febrúar 2004 sagði aðalstefnandi upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara með símskeyti, sem barst aðalstefnda sama dag.  Með símskeyti, dags. 5. marz 2004, sagði aðalstefndi aðalstefnanda síðan upp starfi hans, og var honum gert að láta af störfum þegar í stað og borið við trúnaðarbroti.  Í greinargerð aðalstefnda kemur fram, að tveir starfsmenn aðalstefnda hefðu sagt upp störfum sama dag og aðalstefnandi og hefði aðalstefndi talið tilefni til að ætla, að um sameiginlega ákvörðun starfsmannanna þriggja hefði verið að ræða og hafi hann af þeim sökum látið fara fram úttekt á tölvugögnum aðalstefnanda og hinna starfsmannanna tveggja.  Hafi við þá úttekt komið í ljós, að aðalstefnandi hefði sýnilega unnið að könnun á stofnsetningu nýrrar auglýsingastofu ásamt starfsmönnunum tveimur og hafi ætlun þeirra m.a. verið að hafa viðskiptavini af aðalstefnda.  Í þessu hafi falizt alvarleg trúnaðarbrot, sem hafi orðið til þess, að aðalstefndi rifti samningnum við aðalstefnanda.

         Aðalstefndi kveður aðalstefnanda hafa, eftir brottvikninguna, hafið störf fyrir samkeppnisaðila aðalstefnda, auglýsingastofuna Nonna og manna.  Hafi hann m.a. starfað þar í samkeppni við aðalstefnda og fyrir viðskiptavini hans.  Hafi aðalstefnandi unnið störf þessi á grundvelli hugmynda, sem voru í þróun hjá aðalstefnda, þegar aðalstefnandi hætti störfum.

         Krafa aðalstefnda á hendur aðalstefnanda í gagnsök lýtur annars vegar að endurgreiðslu  á meintri fyrirframgreiðslu launa, og hins vegar að viðurkenningu á samningsbundinni greiðsluskyldu aðalstefnanda vegna meintra samningsbrota.

III

Málsástæður í aðalsök og gagnsök

Aðalstefnandi byggir kröfur sínar í aðalsök á því, að aðalstefnda beri að greiða honum laun vegna febrúar 2004, sem og laun og hlunnindi í uppsagnarfresti vegna marzmánaðar, auk orlofs og lífeyrissjóðsframlags. 

         Þá hafnar aðalstefnandi staðhæfingum aðalstefnda um, að hann hafi verið í skuld á viðskiptareikningi sínum við aðalstefnda, sem og að hann hafi gerzt brotlegur í starfi sínu fyrir aðalstefnda. 

         Aðalstefndi byggir á því, að aðalstefnandi hafi framið alvarleg trúnaðarbrot í starfi, m.a. með því að taka að sér aukastörf, sem honum hafi verið óheimilt samkvæmt samningi aðila.  Þá megi ætla, að á grundvelli almennra reglna hafi aðalstefnanda verið óheimilt að vinna gegn hagsmunum aðalstefnda og borið skylda til að sýna honum trúnað.  Aðalstefndi telji sýnt, að aðalstefnandi hafi tekið þátt í að skipuleggja útgöngu starfsmannanna þriggja. Liður í þeirri skipulagningu hafi m.a. verið skoðun á þeim möguleika að stofna eigin auglýsingastofu og hafa viðskipti af aðalstefnda.  Þetta hafi brotið gegn trúnaðarskyldu aðalstefnanda gagnvart aðalstefnda.  Af þessum sökum hafi aðalstefnda verið heimilt að segja aðalstefnanda fyrirvaralaust upp störfum. 

         Þar fyrir utan hafi aðalstefnandi ekki reifað kröfu sína um vangreidd laun sem skaðabótakröfu eða gert grein fyrir þeim launagreiðslum og samningum, sem hann hafi gert við nýjan vinnuveitanda sinn, Nonna og manna, en það fái ekki staðizt, að hann hagnist vegna uppsagnarinnar og fái laun á tveimur stöðum, líkt og kröfugerð hans geri ráð fyrir.

         Kröfur aðalstefnda í gagnsök lúta annars vegar að endurgreiðslu launa, sem hafi verið greidd aðalstefnanda fyrirfram, og hins vegar að kröfu á hendur aðalstefnanda vegna starfa hans í þágu keppinauta fyrir viðskiptavini aðalstefnda.  M.a. hafi aðalstefndi heimildir fyrir því, að aðalstefnandi hafi starfað í þágu Landssímans, eftir að hann hóf störf hjá Nonna og manna.  Þetta hafi hann jafnvel gert á grundvelli hugmyndavinnu, sem þegar hafi verið unninn á vegum aðalstefnda.

         Landssíminn sé einn af viðskiptavinum aðalstefnda.  Af þeim sökum brjóti störf aðalstefnanda fyrir fyrirtækið í bága við skuldbindingu hans samkvæmt 8. gr. samnings aðila á dskj. nr. 3.

         Aðalstefnandi hafnar kröfum aðalstefnda í gagnsök og byggir m.a. á því, að hann hafi hvorki haft aðgang að trúnaðarupplýsingum hjá aðalstefnda né heldur unnið sjálfstætt að auglýsingagerð fyrir aðra en viðskipavini aðalstefnda í starfi sínu þar, nema í samráði við og með samþykki framkvæmdastjóra aðalstefnda.  Þá hafnar hann öðrum málsástæðum aðalstefnda í gagnsök sem röngum og ósönnuðum.

IV

Forsendur og niðurstaða

Krafa aðalstefnda í þessum þætti málsins er á því byggð, að í málinu þurfi m.a. að skera úr um eftirgreind atriði:  Annars vegar hvort aðalstefnandi hafi orðið fyrir tjóni við brottvikningu hans úr störfum hjá aðalstefnda og hins vegar, hvort aðalstefnandi hafi unnið fyrir einhvern viðskiptavin aðalstefnda, eftir að hann hvarf úr þjónustu aðalstefnda.  Byggir síðari liðurinn á því, að aðalstefndi geri kröfu til þess í gagnsök, að viðurkennd verði skylda aðalstefnanda til að inna af hendi greiðslur með vísan til 8. gr. ráðningarsamnings hans hjá aðalstefnda, þar sem segi, að aðalstefnanda sé óheimilt að takast á hendur störf fyrir alla viðskiptamenn atvinnurekanda næstu tvö ár frá þeim degi, að hann hverfur úr þjónustu atvinnurekanda.  Af þessum sökum beri nauðsyn til að fá afhent tilgreind gögn.

         Krafa aðalstefnda er að ýmsu leyti óljós og gögn, sem krafan lýtur að, illa skilgreind.  Þá hefur aðalstefndi ekki leitt að því rök, hverju það skipti hann að fá ráðningarsamning aðalstefnanda við Ennemm ehf. eða launaseðla aðalstefnanda frá umbeðnum tíma, sem óumdeilt er, að snerti ekki kröfugerð aðalstefnanda í máli þessu.  Þá hefur aðalstefndi ekki fært að því haldbær rök, hverja þýðingu hugsanlegar tímaskýrslur aðalstefnanda kunni að hafa.  Af hálfu Ennemm ehf. hefur framlagningu gagnanna verið mótmælt með vísan til hagsmuna fyrirtækisins, sem og að gögnin varði ekki réttarsamband aðalstefnanda og aðalstefnda.  Að framangreindu virtu og gegn andmælum fyrirtækisins, eins og þau eru fram sett á dskj. nr. 35, og að öðru leyti með vísan til þess, að aðalstefndi hefur ekki gætt ákvæða 4. tl. i.f. 67. gr. l. nr. 19/1991, er kröfu aðalstefnda hafnað. 

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu aðalstefnda um að Ennemm ehf., verði gert að leggja fram tilgreind gögn í tl. 1-3 á dskj. nr. 34 er hafnað.