Hæstiréttur íslands

Mál nr. 171/1998


Lykilorð

  • Veiðar
  • Landamerki
  • Eignarréttur


Fimmtudaginn 21

Fimmtudaginn 21. janúar 1999.

Nr. 171/1998:

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Rúnari Eiríki Siggeirssyni

(Ólafur Sigurgeirsson hdl.)

Veiðar. Landamerki. Eignarréttur.

R var ákærður fyrir rjúpnaveiðar í landi jarðarinnar Gilsár í Jökuldalshreppi án heimildar landeiganda. Ekki var fallist á kröfur R um frávísun málsins eða ómerkingu héraðsdóms á grundvelli þess að rannsókn máls fyrir útgáfu ákæru eða gagnaöflun fyrir dómi hefði verið áfátt í tilteknum atriðum. Ákæra í málinu var byggð á því að allt land innan merkja Gilsár væri háð beinum eignarrétti jarðeigandans. Var R sýknaður með vísan til þess að vafi var talinn leika á um hvort stofnast hefði að lögum til beins eignarréttar eiganda jarðarinnar Gilsár yfir öllu því landsvæði þar sem R kann að hafa verið við veiðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. apríl 1998 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds. Krefst ákæruvaldið þess að refsing ákærða verði þyngd og að hann verði sviptur skotvopna- og veiðileyfi. Þá verði honum gert að þola upptöku á haglabyssu af gerðinni Benelli, caliber 12.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Að því frágengnu krefst hann sýknu af öllum kröfum ákæruvalds.

I.

Kröfur ákærða um frávísun málsins og ómerkingu héraðsdóms eru aðallega reistar á því að rannsókn málsins fyrir útgáfu ákæru hafi í tilteknum atriðum verið áfátt, svo og að annmarkar hafi verið á gagnaöflun við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Ágallar, sem ákærði vísar til þessu til stuðnings, gefa ekki tilefni til að verða við þessum kröfum hans.

II.

Með ákæru í málinu, sem gefin var út af sýslumanninum á Seyðisfirði 30. október 1997, er ákærða gefið að sök að hafa hinn 17. sama mánaðar skotið sjö rjúpur í landi jarðarinnar Gilsár í Jökuldalshreppi án heimildar landeiganda. Með því hafi hann brotið gegn 8. gr., sbr. 19. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, svo og tilgreindum ákvæðum í reglugerð nr. 456/1994. Eins og greinir í héraðdómi óskaði eigandi þessarar eyðijarðar áðurnefndan dag aðstoðar lögreglu vegna veiða ákærða, sem hann taldi ólöglegar. Komu lögreglumenn á vettvang skömmu eftir hádegi að því ráðið verður af gögnum málsins. Handtóku þeir ákærða og fluttu með sér til Egilsstaða, þar sem skýrsla var tekin af honum í beinu framhaldi.

Óumdeilt er, að þegar ákærði hélt til veiða um morguninn lagði hann bifreið sinni við þjóðveg nr. 1 nærri þeim stað, þar sem áður stóð heiðarbýlið Ármótasel norðvestan Jökuldals. Hins vegar ber eiganda Gilsár og ákærða ekki saman um hvaða leið hann hafi haldið frá bifreiðinni. Ber landeigandinn, að ráða hafi mátt af fótsporum ákærða að hann hafi gengið frá henni að á, samnefndri jörðinni, og vaðið yfir hana. Hafi fótspor ákærða frá bifreiðinni að ánni verið auðséð, en snjór hafi verið nýfallinn og spor því auðrakin. Ákærði hafi verið að veiðum í hlíð Skjöldólfsstaðahnjúks austan árinnar og þar með innan landamerkja jarðarinnar, en áin ráði þarna merkjum milli Gilsár og Arnórsstaða. Hafi hann séð frá þjóðveginum til ákærða, þar sem hann var að veiðum í fjallshlíðinni í 500 til 600 metra hæð. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa farið yfir ána, heldur hafi hann haldið í norðvestur frá bifreiðinni og verið að veiðum vestan ár.

Tveir lögreglumenn, sem komu á staðinn, hafa borið um þetta atriði. Þeir könnuðu ekki hvert fótspor ákærða lágu frá bifreiðinni. Hins vegar lýstu þeir því, að er þeir komu að henni hafi þeir séð til ferða ákærða. Stefndi hann þá í átt til þeirra og var í um hálfs til eins kílómetra fjarlægð að því er annar þeirra taldi. Hinn lögreglumaðurinn taldi víst að ákærði hafi þá verið austan árinnar.

Þegar framburður áðurnefndra vitna er virtur verður talið sannað að ákærði hafi farið austur yfir umrædda á í veiðiferð sinni. Lögreglumennirnir sáu ákærða hins vegar ekki skjóta úr byssu sinni meðan þeir fylgdust með ferðum hans og ekkert liggur fyrir um það hversu víða hann fór um svæðið eða hve langt hann fór inn á heiði á yfirferð sinni. Var þó ríkt tilefni til að kanna það nánar, þar eð ákærði neitaði frá upphafi að hafa verið að veiðum þar sem kærandinn, eigandi Gilsár, hélt fram að hann hefði verið. Virðist jafnframt hafa verið góð aðstaða til að kanna þetta á vettvangi, svo sem ráðið verður af framburði kærandans um fótspor ákærða í nýfallinni mjöll, þar sem hann fór um þennan dag. Þá var ákærði ekki spurður um, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi, hvar hann hafi veitt fuglana, heldur aðeins um gönguleið á veiðiferð sinni.

III.

Með kaupsamningi 6. júlí 1941 var jörðinni Gilsá skipt út úr landi Skjöldólfsstaða í Jökuldal, en afsal var gefið út 1. nóvember sama árs. Í málinu liggur jafnframt fyrir leyfi menntamálaráðherra til kaupandans 28. október 1943 til að mega taka upp nafnið Gilsá á nýbýli því, sem hann hafi stofnað í landi jarðarinnar Skjöldólfsstaða. Seldi hann jörðina föður kærandans með kaupsamningi 16. október 1955. Engra annarra gagna nýtur við í málinu um búsetu fyrr eða síðar á þessum stað í Jökuldal. Af fyrrnefnda kaupsamningnum verður ekki ráðið að önnur mannvirki hafi fylgt við kaupin en fjárhús og hlaða, sem hafa þá áður verið nýtt frá Skjöldólfsstöðum.

   Lagt hefur verið fram í málinu landakort  þar sem eigandi Gilsár hefur fært inn merki jarðarinnar eins og hann telur þau vera samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi og landamerkjabréfum fyrir Skjöldólfsstaði, sem lesin voru á manntalsþingi 21. júní 1884 og 27. júlí 1922. Er lýsing landamerkja samkvæmt kaupsamningnum tekin upp í héraðsdómi. Samkvæmt henni nær land Gilsár frá Jökulsá alllangt inn á heiði og upp í hæsta tind Skjöldólfsstaðahnjúks, sem er í 792 metra hæð yfir sjó samkvæmt kortinu.

IV.

Ákæra í málinu er á því reist, að allt land innan hinna tilfærðu merkja Gilsár sé háð beinum eignarrétti jarðareigandans og sé þar með landareign hans, sbr. orðskýringu í 1. gr. laga nr. 64/1994. Gildi því einu hvar ákærði hafi náð bráð sinni, þar sem hann hafi við veiðarnar haldið sig innan merkja jarðarinnar.

Ákærði reisir sýknukröfu sína á því, að veiðilendur hans í umrætt sinn teljist vera afréttur utan landareigna lögbýla. Geti hvorki eigandi Gilsár né neinn annar sannað beinan eignarrétt sinn að þessu landi og hafi einhliða landamerkjabréf, sem samin hafi verið fyrir Skjöldólfsstaði, og kaupsamningur frá 1941 ekkert gildi að því er varðar merki jarðarinnar inn til heiðarinnar. Hafi því veiðarnar verið sér heimilar samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 64/1994. Ákvæði 2. mgr. sömu greinar, sem ákæruvaldið vísar til, eigi því ekki við hér.

V.

Nokkrar upplýsingar um staðhætti liggja fyrir í málinu. Er þannig fram komið, að bærinn að Skjöldólfsstöðum sé í um 200 metra hæð yfir sjó og að mannvirki að Gilsá hafi staðið nokkru hærra. Landþrengsli séu í dalnum, þar sem land Gilsár liggur að Jökulsá. Ekkert hefur hins vegar verið upplýst um nýtingu landsins frá Gilsá upp til heiðarinnar meðan þar var stundaður búskapur, svo sem um slægjur þar eða vetrarbeit fyrir sauðfé. Hið sama á við um nýtingu þess áður frá Skjöldólfsstöðum. Ekki eru heldur haldbær gögn í málinu um gróðurfar á því svæði, sem ákærði fór um. Því er hins vegar ómótmælt haldið fram af hálfu ákæruvalds, að heiðarlönd þar séu víða vel gróin og jafnframt að gróður sé óvenju mikill í samanburði við önnur svæði í svipaðri hæð yfir sjó. Sé það jafnframt ástæða þess að nokkur heiðarbýli hafi verið reist á svæðinu um og eftir miðja síðustu öld, en þau hafi þó öll verið komin í eyði fyrir miðja þessa öld.

Fyrir héraðsdómi var leitast við að leiða í ljós hvernig fjallskilum hafi verið háttað á því svæði, sem hér um ræðir. Af framburði oddvita Jökuldalshrepps verður ekki annað ráðið en að fjallskil á heiðarlöndum hafi verið á hendi fjallskilastjórnar og að þau hafi öll verið smöluð frá hreppamörkum að bæjum í Jökuldal í samvinnu bænda.

VI.

Í Landnámu greinir frá því að Hákon hafi numið Jökuldal allan fyrir vestan Jökulsá og fyrir ofan Teigará og búið á Hákonarstöðum. Skjöldólfur Vémundarson hafi numið Jökuldal fyrir austan Jökulsá upp frá Hnefilsdalsá og búið að Skjöldólfsstöðum. Af þessari lýsingu verður ekki ráðið að heiðarlönd ofan dalsins hafi verið numin í öndverðu.

Ekki nýtur við eldri heimilda í málinu um landamerki Skjöldólfsstaða og síðar Gilsár en landamerkjabréfsins frá 1884, sem áður er getið.

Hluti þess lands, sem eigandi Gilsár telur sína landareign, liggur hátt yfir sjó og er fjarri bæjum, hvort heldur er litið til Gilsár eða Skjöldólfsstaða. Ekkert liggur fyrir í málinu um aðra nýtingu lands innan hinna lýstu marka Gilsár á heiðinni en til sumarbeitar fyrir búfénað, og ekki er í ljós leitt að farið hafi verið með land þar sem eignarland varðandi fjallskil. Að því gættu, sem að framan greinir, verður að telja verulegum vafa háð hvort land það ofan Jökuldals, sem hér um ræðir, hafi verið numið í öndverðu eða síðar. Er sá vafi eðli máls samkvæmt ríkastur að því er varðar þann hluta heiðarlandsins, sem liggur fjærst byggð. Þá er óvissu háð, hvar innan þessa svæðis ákærði fór við veiðarnar eða hvar hann náði bráð sinni.

Þegar allt framangreint er virt verður að telja, þrátt fyrir áðurnefnd landamerkjabréf, slíkan vafa leika á um að stofnast hafi að lögum til beins eignarréttar eiganda jarðarinnar Gilsár yfir öllu því landsvæði, sem ákærði kann að hafa verið við veiðar á, að sýkna verði hann af broti því, sem hann er ákærður fyrir, með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Allur sakarkostnaður verður eftir þessum úrslitum lagður á ríkissjóð, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem eru ákveðin í einu lagi vegna meðferðar málsins á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Rúnar Eiríkur Siggeirsson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar héraðsdómslögmanns, samtals 250.000 krónur.

           

Dómur Héraðsdóms Austurlands 30. janúar 1998.

Héraðsdómsmálið nr. S 495/1997 Ákæruvaldið gegn Rúnari Eiríki Siggeirssyni.

Ár 1998, föstudaginn 30. janúar er á dómþingi Héraðsdóms Austurlands, sem háð er í dómssalnum að Lyngási 15, Egilsstöðum, af Loga Guðbrandssyni, héraðsdómara, kveðinn upp í málinu nr. S 495/1997 svofelldur dómur:

Mál þetta, sem þingfest var hinn 14. nóvember 1997 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð hinn 7. janúar 1998, er höfðað af ákæruvaldsins hálfu gegn Rúnari Eiríki Siggeirssyni, Arnartanga 81, Mosfellsbæ, kt. 291147-3219, fyrir að skjóta án heimildar landeiganda, föstudaginn 17. október, í landi jarðarinnar Gilsár í Jökuldalshreppi, 7 rjúpur.

Telst þetta varða við 8. gr. sbr. 19. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sbr. 2. mgr. 3. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 456/1994, um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er þess krafist að ákærði verði sviptur skotvopnaleyfi og veiðileyfi, og gert að sæta upptöku á 7 rjúpum og haglabyssu tegund Benelli, caliber 12, nr. M1066226, skv. 19. gr. 3. mgr. laga nr. 64/1994.

Ákærði krefst aðallega frávísunar málsins frá dómi, en til vara sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Þá krefst ákærði málsvarnarlauna.

II.

Málavextir eru þeir, að hinn 17. október 1997, kom ákærði á Jökuldalsheiði akandi að norðan um þjóðveg nr. 1. Hann mun hafa lagt bíl sínum utan vegar í landi Arnórsstaða. Gekk hann svo frá bíl sínum norður fyrir veginn og var ætlunin að skjóta rjúpur, enda hafði hann meðferðis haglabyssu. Hann fór til veiða um kl. 10 og gekk í um einn og hálfan tíma frá bifreiðinni, en sneri þá við og gekk svipaða leið til baka. Hann veiddi sjö rjúpur.

Samkvæmt lögregluskýrslu tilkynnti Eiríkur Skjaldarson, bóndi á Skjöldólfsstöðum II, kl. 10.50 þennan dag til lögreglunnar á Egilsstöðum, að maður væri á veiðum í landareign Gilsár án leyfis. Hann óskaði aðstoðar lögreglu og kvaðst vilja leggja fram kæru á hendur manninum fyrir ólöglegar veiðar í landareign sinni, en Eiríkur kvaðst vera þinglýstur eigandi að jörðunum Gilsá og Skjöldólfsstöðum II í Jökuldalshreppi. Er lögreglumenn komu á Jökuldalsheiði, óku þeir fram á sendibifreiðina G 27209, sem stóð þar utan vegar í landi Arnórsstaða. Á sama tíma sáu þeir hvar ákærði kom gangandi með byssu og bakpoka og gekk hann að áðurnefndri bifreið.

Aðspurður um tilskilin leyfi til veiða, framvísaði hann byssuleyfi og veiðikorti, sem hvorttveggja var í gildi, en kvaðst ekki þurfa leyfi landeiganda, þar sem hann teldi það land, þar sem hann var að veiðum, vera almenning. Þegar hann var krafinn um afhendingu afla og byssu, skilaði hann aflanum, en neitaði að afhenda byssuna. Var hann þá handtekinn og færður til yfirheyrslu til Egilsstaða.

Ákærði viðurkenndi fyrir lögreglu og fyrir dómi, að hann hefði á þeim tíma, sem í ákæru greinir verið við rjúpnaveiðar og hefði hann veitt sjö rjúpur.

Ákærði kvaðst hafa gengið frá bifreið sinn til norðvesturs, en kvaðst ekki vera kunnugur örnefnum og því ekki geta lýst því nánar með vísun til þeirra, hvar hann hefði verið að veiðum. Hann kvaðst ekki hafa litið á áttavita, en nefni þessa átt eftir tilfinningu sinni. Hann hafi gengið frá bílnum að austan eða norðanverðu við veginn. Fyrir lá, að bifreiðin var sunnan eða vestan við ána Gilsá. Ákærði kvaðst á göngu sinni ekki hafa farið yfir neina á.

Hann kvaðst ekki þekkja til landamerkja þarna. Hann sagðist telja sig hafa haft heimild til veiðanna þar sem um væri að ræða almenning eða afrétt. Aðspurður um það, af hverju hann teldi að um væri að ræða afrétt eða almenning, sagði hann ástæðuna vera að þetta væri heiðaland.

Vitnið Eiríkur Skjaldarson, bóndi á Skjöldólfsstöðum II og eigandi jarðarinnar Gilsár, bar, að hann hefði farið upp á heiði umræddan dag um kl. 10-11, bæði til að líta eftir veiðimönnum og sinna fleiri erindum. Þegar hann hafi verið kominn vel upp á Múlann, hafi hann litið til hægri yfir í land sitt og til Skjöldólfsstaðahnúks. Þá hafi hann séð þar gangandi mann. Hann hafi stoppað og snúið bíl sínum í átt yfir ána og flautað. Maðurinn sinnti því ekkert. Vitnið hafi síðan haldið áfram og farið yfir svokallaða Víðidalsá. Þar sá hann bíl, sem hann kannaðist við frá undanförnum árum. Hann fylgdist með manninum í kíki, og taldi án nokkurs vafa að það hefði verið ákærði. Hann hafði símasamband við lögreglu og bað um aðstoð. Honum var svarað, að ekki væri víst, að þeir hefðu mannskap í þetta, en báðu hann að bíða og fylgjast með. Hann fylgdist fram yfir hádegi með manninum, sem hann sagði að hefði gengið nokkuð víða í hlíðum Skjöldólfsstaðahnúks og þá í landi Gilsár. Hann hafði séð hann munda byssu og hann heyrði skothvelli. Hann varð síðan að hverfa ofan af heiðinni til að sinna málum heima við. Hann mætti lögreglumönnunum, þegar hann kom niður, og vísaði þeim, hvert fara skyldi. Hann kom svo örlitlu seinna að nýju að bifreið ákærða. Voru þá lögreglumennirnir komnir þangað, sem og ákærði.

Vitnið sagði, að sporrækt hefði verið, þar sem nýfallinn snjór hefði verið, og hefði mátt rekja spor ákærða frá bílnum til norðurs, eða í sömu átt og Víðidalsá rennur og að Gilsá, örlítið niður með Gilsá, en síðan vaðið yfir Gilsá milli skara. Vitnið taldi 300 til 350 metrar væru frá veginum, þar sem bíll ákærða stóð, að Gilsá.

Vitnið gerði grein fyrir landamerkjum jarðarinnar Gilsár, þannig: Landamerkin markast af Gilsá, þar sem hún fellur í Jökulsárdal, síðan ræður Gilsá að sunnanverðu upp að níunda bug og þaðan liggja mörkin vestur í Skjaldklofahorn syðra, þaðan liggja mörkin í hánorður eftir Skjaldklofa í vörðu á Landaselsvegi, þaðan liggja þau í austur þar sem Stórilækur fellur í Gilsá svo fylgja mörkin Stóralæk upp í Hnjúksvatn og þaðan í Þríhyrningsvörðu og þaðan austur í hrygg og fylgir honum niður í Jökulsá. Innan þessara landamerkja segir vitnið að ákærði hafi verið að veiðum, þegar til hans sást. Vitnið tók fram, að hann ætti einnig næstu jörð utanvið, sem er Skjöldólfsstaðir II.

Aðspurður um fjallskil í landi Gilsár, kvaðst hann annast þau sjálfur.

Vitnið, Arnór Benediktsson, oddviti í Jökuldalshreppi, upplýsti, að jarðir norðan ár í Jökuldalshreppi væru allar eignarlönd allt frá Jökulsá að hreppamörkum annarra sveita, Vopnafjarðar, Öxarfjarðahreppur á móti Víðidal og Möðrudal. Fjallskilum kvað hann vera þannig háttað, að landeigendur leggja til menn í fjallskil hver frá sér og smala lönd að Miðheiði og sé það jafnt úr túnfæti og á miðheiði. Eignarlönd Jökuldalshrepps sjálfs inni í hluta af heiðinni. Það voru sjálfstæðar eignarjarðir, sem fóru í eyði um 1940 og hreppurinn keypti. Þar eru lagðir til menn eftir fjallskilareglum.

Vitnið taldi, að allir, sem um það hafi beðið, hafi fengið heimild til að veiða í landareignum hreppsins.

Vitnið Jón Þórarinsson, aðstoðarvarðstjóri lögreglunnar á Egilsstöðum, ók lögreglubifreiðinni þennan umrædda dag, en með honum í för var Davíð Gunnarsson, aðstoðarvarðstjóri á Seyðisfirði. Þeir óku norður í Jökuldalsheiði í svokölluð Ármót, þar sem bifreið sú var, sem lýst hafði verið. Um það leyti, sem þeir komu að bílnum, sáu þeir mann, sem kom gangandi úr norðri, sem þeir ætluðu að væri ökumaður þessarar bifreiðar. Hann kom svo að bílnum, þar sem þeir hittust. Vitnið sagði að þegar hann sá ákærða fyrst hafi hann verið í norðnorðaustur um fimmhundruð metra til kílómetra frá bílnum. Hann hafi þá gengið í suðvestur, hverfur þar í lægð, kemur síðan í ljós aftur og gengur þá eiginlega beint í suður að bílnum. Vitnið kvaðst ekki gera sér grein fyrir því, hvort ákærði var þá austan við Gilsá, þegar hann sá hann fyrst. Hann hafi verið það norðarlega, og vitnið sá ekki Gilsá, enda eru þarna ásar og hæðir. Vitnið kvaðst hafa séð spor eftir ákærða frá bílnum og hafi þau legið beint til norðurs.

Vitnið Davíð Gunnarsson, aðstoðarvarðstjóri, var með vitninu Jóni Þórarinssyni, sem ók lögreglubílnum. Vitnið sagði, að er þeir komu upp á Jökuldalsheiði, hafi þeir keyrt fram á bíl ákærða, en hann var þá mannlaus, en þeir höfðu séð mann koma gangandi nokkuð langt að, þegar þeir sáu hann fyrst. Þeir keyrðu að bílnum og stöldruðu við þar, þangað til maðurinn kom til þeirra. Þar áttu þeir tal við hann og hann framvísaði veiðileyfi og byssuleyfi og kvaðst hafa verið að veiðum. Vitnið kvaðst fyrst hafa séð ákærða gangandi upp í hlíð og hafi hann gengið heldur í vesturátt. Hann hafi gengið niður laut eða í árfarveginn. Kemur svo upp úr lautinni og gengur þá í suður í átt að bílnum. Hann sagði, að ákærði hefði staldrað við á milli árfarvegarins og bílsins og var þá eitthvað að meðhöndla byssuna. Hann var þá í fimmtíu til hundrað metra fjarlægð frá bílnum. Síðan kom hann til þeirra. Vitnið sagði, að ákærði hafi verið, frá þeim séð af veginum, handan við Gilsá.

Vitnið sá ekki til ákærða skjóta. Vitnið tók fram, að þeir hefðu fyrst keyrt nokkur hundruð metra norður fyrir bílinn. Á þeirri leið voru þeir, þegar þeir sáu ákærða fyrst. Vitnið kveðst síðan hafa fylgst með honum alveg þar til hann kom til þeirra, að undanskildu því, er hann hvarf ofan í árfarveginn.

III.

Sú vörn hefur verið upp höfð af ákærða, að land, þar sem hann var við veiðarnar sé almenningur eða afréttur.

Samkvæmt Landnámu eru Skjöldólfsstaðir landnámsjörð, en engar vísbendingar verða dregnar af Landnámu um mörk hennar eða hvort það land, sem nú heyrir þeirri jörð til hefur verið almenningur eða afréttur.

Elsta heimild, sem fram hefur komið í þessu máli, er dómur aukaréttar Norður-Múlasýslu 30. október 1856 í máli, sem eigandi Skjöldólfsstaða höfðaði gegn tveimur bændum, þeim Jóni Sölvasyni og Vigfúsi Péturssyni á Háreksstöðum, en Háreksstaðir eru langt inni á Jökuldalsheiði og eru nú í eyði. Var málið höfðað til heimtu landsskuldar og var krafan byggð á því, að þeir hefðu byggt innan landamerkja Skjöldólfsstaða. Í dóminum segir:

„Hinir stefndu hafa byggt réttarkröfur sínar einkum á því, að landsstykki það, sem nefnist Háreksstaðaland sé almenningur, sem einginn geti helgað sér sem eign sína og að Jón Sölvason því, eptir að hafa hlotið nýbýlismanna réttindi þar, eignist landið samkvæmt tilskip. 15. Apríl 1776.      

Þessa kröfu getur rétturinn ekki aðhylst, því það er með vitnum sannað, bæði undir þessu máli og því máli sem hófst 1844, að eigandi og ábúandi Skjöldólfsstaða hefir verið beðinn leyfis til að nota Háreksstaða land og hefir það því verið almennt álitið, að hann ætti ráð á því landi eins og vitnin líka hafa borið, að þau ekki hafi heyrt annað enn að Háreksstaðir heyrðu undir Skjöldólfsstaði, en alls ekki heyrt þess getið að landið væri almenningur; og hefur það ekki orðið sannað að fénaður hafi nokkru sinni verið rekinn í það land úr nærliggjandi sveitum (Jökuldal eða Vopnafirði) þó það sé upplýst að einkum fé Vopnfirðinga sem rekið var á Steinsvarartúngu (Hofskirkjueign) hafi opt ráfað í Háreksstaðaland, sem liggur móts við Hofskirkju land þeim megin, og verður, að réttarins áliti, eingin ályktun dregin af því......”

Niðurstaða í málinu var sú, að ábúandi Háreksstaða skyldi greiða eiganda Skjöldólfsstaða landskuld af nýbýlinu Háreksstöðum:

Fram hafa verið lögð í málinu gögn um eignarhald á jörðinni Gilsá og landamerki hennar.

Jörðinni var skipt úr Skjöldólfsstaðalandi með kaupsamningi dagsettum 6. júlí 1941. Selur þar Sigfús Eiríksson, bóndi á Skjöldólfsstöðum Gunnari Jónssyni, Arnórsstöðum, "svokallað Selstykki í Skjöldólfsstaðalandi, með mannvirkjum þeim, er þar standa - húsum fyrir 240 fjár og hlöðu fyrir 200 hesta heys. Er þá undanskilið kaupunum fjárhús vestan við Hnúk og vírgirðing upp með gili - og ennfremur hey og sauðatað, sem nú er á landinu.

Landamerki stykkisins eru þessi: Að vestan þegar þinglesin landamerki á milli Skjöldólfsstaða, Arnórsstaða og Ármótasels, norður til Skjaldklofa. Að austan lína úr Jökulsá um girðingu neðan akvegar, upp svokallaðan Hrygg, til dalbrúnar. þaðan sjónhending í landmælingavörðu á Hnúknum, þá í Hnúksvatn, þaðan með Stóralæk til Gilsár, þaðan í há - Fellahlíð á Lindarselsvegi.

Að norðan ræður há- Fellahlíð inn í áðurgreind landamerki að vestan."

Gunnar Jónsson fékk leyfi menntamálaráðuneytisins 28. október 1943 til þess "að taka upp nafnið Gilsá á nýbýli það, er hann hefur stofnað í landi jarðarinnar Skjöldólfsstaða í Jökuldal í Norður-Múlasýslu."

Í  ofangreindum kaupsamningi um "svokallað Selstykki" eru vesturmörk landsins sögð vera þegar þinglesin landamerki á milli Skjöldólfsstaða, Arnórsstaða og Ármótasels, norður til Skjaldklofa. Í lýsingu á landamerkjum Skjöldólfsstaða í Landamerkjabók Norður -Múlasýslu, dags. 24. október 1921, segir:"Að vestan úr Gilsárós í 9. Gilsárbug niður af fremra Skjaldklofahorni, þaðan í fremra Skjaldklofahorn, þaðan beint í Eyktagnýpu."

Í lýsingu á landamerkjum Arnórsstaða í Landamerkjabók Norður-Múlasýslu, sem dagsett er 24. október 1921, segir:"Að austan ræður Gilsá frá ós þar til Víðirdalsá fellur í hana."

Í lýsingu á landamerkjum Ármótasels í Landamerkjabók Norður-Múlasýslu dagsettri 24. október 1921, segir: "Að austan ræður Gilsá frá ármótum í níunda Gilsárbug, gegnt Skjaldklofahorni fremra, þaðan beint í Skjaldklofahorn fremra, þaðan beint í Eyktagnýpu."

Með kaupsamningi dags. 16. október 1955 selur Gunnar Jónsson Skildi Eiríkssyni "eignarjörð sína Gilsá í Jökuldal"

Með afsali, sem þinglýst er 29. janúar 1985 selur Skjöldur Eiríksson Eiríki Skjaldarsyni eignarjörð sína Gilsá í Jökuldalshreppi, Norður-Múlasýslu.

IV. Niðurstöður

Ákærði hefur rökstutt kröfu sína um frávísun málsins frá dómi í fyrsta lagi með því, að í ákæru sé um refsiheimild vísað til 8. gr. sbr. 19. gr. laga 64/1964, þar sem réttara hefði verið að vísa í 2. mgr. 8. gr. enda fjalli 8. gr. laganna um um fleira en einkarétt landeiganda til veiða.

Enda þótt nákvæmara hefði verið að vitna til einstakra málsgreina í lögunum, verður sú aðferð, sem höfð er í ákæru ekki látin sæta frávísun málsins frá dómi, enda er í ákæru einnig vísað til 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 456/1994, en það ákvæði er orðrétt samhljóða 2. mgr. 8. gr. laganna.

Þá telur ákærði, að áfátt sé brotslýsingu í ákæru, þar sem ekki sé tiltekið, hvar í landi jarðarinnar Gilsár umræddur verknaður hafi átt sér stað.

Brot ákærða er talið fólgið í því, að hafa veitt rjúpu innan landamerkja lögbýlisins Gilsár og verður að telja, að þar sé um að ræða nægilega lýsingu á stað, til þess að taka afstöðu til þess í niðurstöðu málsins. Verður að taka afstöðu til þess í efnislegri dómsniðurstöðu, hvort ákærði hafi framið brot það, sem honum er að sök gefið, en ónákvæmni í þessu efni, ef um hana er að ræða, leiðir ekki til frávísunar.

Loks telur ákærði, að gallar á rannsókn málsins eigi að leiða til frávísunar þess. Tiltekur hann einkum, að ekki hafi verið rannsakað, hvar væru skil heimalands og afréttar á Gilsá.

Enda þótt rannsókn geti verið svo áfátt, að nægi til frávísunar sbr. Hrd. 1980:1225, verður ekki talið, að henni sé svo áfátt í þessu máli, að leiða eigi til frávísunar.

Með því að hér er um að ræða opinbert mál, þar sem öll sönnunarbyrði hvílir á ákæruvaldi, kemur skortur á sönnunum um sekt ákærða fram í efnislegri niðurstöðu, en leiðir ekki frávísunar máls frá dómi.

Verður krafa ákærða um frávísun máls þessa frá dómi því ekki tekin til greina.

Ákærði hefur viðurkennt, að hafa hinn 17. október 1997 verið að rjúpnaveiðum á Jökuldalsheiði og hafi hann skotið 7 rjúpur. Hann viðurkenndi jafnframt, að hafa ekki kannað landamerki, þar sem hann taldi allt land á þessu svæði vera almenning og honum því heimil veiði þar án þess að hafa þyrfti leyfi.

Með vætti þeirra Eiríks Skjaldarsonar og Davíðs Gunnarssonar, sem báðir hafa borið, að ákærði hafi verið, er þeir sáu hann, austan við Gilsá, er sannað, að ákærði hafi verið við veiðarnar á landareign jarðarinnar Gilsár.

Engin rök hafa verið færð fram fyrir því, að land það, sem samkvæmt landamerkjabók Norður Múlasýslu, er innan landamerkja jarðarinnar Gilsár, sé almenningur eða afréttur sbr. 1. mgr. 8. gr. l. 64/1994.

Telst fullsannað, með þinglýstu afsali, að allt land innan þessara landamerkja er háð beinum eignarrétti Eiríks Skjaldarsonar.

Voru ákærða því óheimilar fuglaveiðar á landinu án leyfis landeiganda.

Af framburði vitna, ákærða sjálfs og öðrum gögnum málsins telst því sannað, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem greind er í ákæru og þar réttilega færð til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann árin 1964, 1965,1969 og 1972 gengist undir sáttir fyrir ölvun. Árið 1965 var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár fyrir brot á 217. gr. alm. hgl.

V. Refsingar.

Ákærði hefur unnið til refsingar samkvæmt 1. mgr. 19. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994. Þykir refsing áærða hæfilega ákveðin krónur 30.000 í sekt, sem greiðist innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en sæti ella varðhaldi í átta daga.

Samkvæmt þeim lagaákvæðum, sem vísað er til í ákæru, er fallist á upptöku á veiðifangi, sjö rjúpum, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins.

Ekki þykja næg efni til að fallast á kröfu ákæruvaldsins um upptöku haglabyssu.

Þá þykja ekki næg efni til sviptingar skotvopnaleyfis og veiðileyfis.

Eftir úrslitum málsins ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóðs, kr. 60.000 og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar, héraðsdómslögmanns, kr. 80.000.

Mál þetta flutti af ákæruvaldsins hálfu Helgi Jensson, fulltrúi sýslumannsins á Seyðisfirði.

Dómsuppkvaðning hefur dregist lítillega umfram tilsettan tíma vegna anna dómarans.

Dóminn kvað upp Logi Guðbrandsson, héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærði, Rúnar Eiríkur Siggeirsson, greiði krónur 30.000 í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna, en sæti ella varðhaldi í átta daga.

Ákærði sæti upptöku á sjö rjúpum, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóð samtals kr. 60.000 og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar, héraðsdómslögmanns, kr. 80.000.

Logi Guðbrandsson