Hæstiréttur íslands
Mál nr. 220/2017
Lykilorð
- Skjalafals
- Vegabréf
- Refsiákvörðun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. mars 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sathiyarupan Nagarja, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 382.440 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 17. mars 2017
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni í dag, á hendur Sathiyarupan Nagarja, fæddum 28. desember 1973, ríkisborgara í Sri Lanka, „fyrir skjalafals, með því að hafa, fimmtudaginn 9. mars 2017, er ákærði var í vegabréfaskoðun í flugstöð Leifs Eiríkssonar, framvísað við lögreglu í blekkingarskyni þýsku bráðabirgðavegabréfi nr. [...] sem reyndist breytifalsað, þ.e. falsað að hluta. Nánar tiltekið var vegabréfið ranglega ánafnað [...], f.d. [...], með gildistíma frá 20.02.2017 til 19.02.2018 og var embættisstimpill þýskra stjórnvalda jafnframt falsaður. Vegabréfið var svo límt í vegabréfabók annars þýsks vegabréfs nr. [...] en bæði vegabréfin höfðu verið tilkynnt stolin.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru.
Ákærði játaði brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákæru. Þykir með játningu ákærða, sem á sér stoð í gögnum málsins, sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni.
Fyrir liggur að tollayfirvöld höfðu afskipti af ákærða við vegabréfaskoðun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er ákærði var á leið til Toronto í Kanada. Þegar vegabréf hans var skannað kom í ljós að það hafði verið tilkynnt stolið og við frekari rannsókn kom í ljós að það var falsað að hluta. Í skýrslutöku hjá lögreglu 10. mars sl. kvaðst ákærði hafa komið frá Mílanó á Ítalíu með millilendingu í París, en þaðan hefði hann haldið til Íslands. Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði stöðu flóttamanns á Ítalíu og ætti skilríki hælisleitanda þar, en hann hefði dvalið á Ítalíu í fjóra mánuði. Þá kvaðst ákærði einnig hafa sótt um hæli í Sviss. Fyrir liggur að ákærði hefur ekki sótt um hæli sem flóttamaður hér á landi. Ákærði gaf sig ekki fram við stjórnvöld við komu sína til landsins og hefur ekki fært gildar ástæður fyrir því að hafa ekki gert það eða fyrir ólöglegri komu sinni hingað til lands.
Samkvæmt framangreindu hefur ákærði haft viðkomu í nokkrum löndum Evrópu á för sinni til Íslands og hafði hann dvalið á Ítalíu í fjóra mánuði og öðlast þar stöðu flóttamanns áður en hann kom hingað til lands. Ákærði var því ekki að koma til landsins beint frá landsvæði þar sem lífi hans, heilsu eða frelsi var ógnað, sbr. 32. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, þannig að leiða eigi til refsileysis. Hefur ákærði því unnið sér til refsingar.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur gengist við broti sínu og verið samvinnuþýður. Þá er litið til þess að ekkert liggur fyrir um það að ákærði hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Með hliðsjón af framangreindu og áralangri dómaframkvæmd þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Til frádráttar refsingunni komi með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 10. mars 2017.
Ákærði greiði í sakarkostnað þóknun skipaðs verjanda síns, Theódórs Kjartanssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri.
Dómsorð:
Ákærði, Sathiyarupan Nagarja, sæti fangelsi í 30 daga, en til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 10. mars 2017.
Ákærði greiði í sakarkostnað þóknun skipaðs verjanda síns, Theodórs Kjartanssonar hdl., 200.000 krónur.