Hæstiréttur íslands

Mál nr. 81/2009


Lykilorð

  • Bifreið
  • Ölvunarakstur
  • Svipting ökuréttar


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. apríl 2009.

Nr. 81/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

Haraldi Páli Guðmundssyni

(Benedikt Ólafsson hrl.)

 

Bifreiðir. Ölvunarakstur. Svipting ökuréttar.

H var ákærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Kvaðst hann hafa fundið til einhverra áfengisáhrifa við aksturinn, en hafa stöðvað bifreiðina og drukkið úr einni bjórdós áður en lögreglan kom. Ekkert var talið hafa komið fram til stuðnings þessari fullyrðingu ákærða. Talið var að niðurstaða úr blóðrannsókn réði mestu um úrslit málsins, en ekkert benti til þess að staðið hafi verið að töku blóðsýnis og rannsókn á því með einhverjum þeim hætti að efni væru til að vefengja ákvörðun á alkóhólinnihaldi í sýninu. Var því talið sannað að alkóhólmagn í blóði ákærða hafi verið slíkt sem í ákæru greindi er H ók bifreiðinni. Breyting á 102. gr. umferðarlaga var talin leiða til þess að dómvenju um sviptingu ökuréttar yrði vikið til hliðar, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 563/2008. Samkvæmt því var H gert að greiða sekt í ríkissjóð og sæta sviptingu ökuréttar í 18 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu af hálfu ákæruvaldsins til Hæstaréttar 6. febrúar 2009 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess að refsing ákærða verði staðfest, en honum gert að sæta lengri sviptingu ökuréttar.

Ákærði krefst þess aðallega að refsing hans verði milduð, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, refsingu og sakarkostnað.

Í dómi Hæstaréttar í máli réttarins nr. 563/2008 var komist að þeirri niðurstöðu að með þeirri breytingu sem gerð var á 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með 18. gr. laga nr. 66/2006, er öðlaðist gildi 23. júní 2006, hefði löggjafinn vikið til hliðar rótgróinni dómvenju um sviptingu ökuréttar svo sem nánar er rakið í dóminum. Samkvæmt því og að teknu tilliti til vínandamagns í blóði ákærða, 1.82‰, er ökuréttarsvipting hans hæfilega ákveðin 18 mánuðir frá birtingu héraðsdóms 18. nóvember 2008 að telja.

Með því að í dómi þessum er lagfærð viðurlagaákvörðun hins áfrýjaða dóms í samræmi við 102. gr. umferðarlaga, eins og henni var breytt með 18. gr. laga nr. 66/2006, er rétt að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Haraldur Páll Guðmundsson, greiði 160.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 12 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá 18. nóvember 2008 að telja.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Benedikts Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. nóvember 2008.

Mál þetta, sem var dómtekið 5. nóvember sl., höfðaði sýslumaðurinn á Húsavík hér fyrir dómi 2. júlí sl. gegn Haraldi Páli Guðmundssyni, kt. 140758-3299, Brekknakoti, Svalbarðshreppi;

„fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni DM-329, þriðjudaginn 22. janúar 2008, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,82‰), norðvestur þjóðveginn til móts við Flögu í Svalbarðshreppi uns lögregla hafði tal af ákærða skammt norðan við bæinn.

Þetta telst varða við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48, 1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga  nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006.“

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að verða gerð vægasta refsing sem lög frekast heimila.  Þá krefst skipaður verjandi hans málsvarnarlauna sér til handa.

I.

Þann 22. janúar 2008, klukkan 18:17, var lögreglunni á Þórshöfn tilkynnt um meintan ölvunarakstur ökumanns bifreiðarinnar DM-329, sem væri á leið inn Þistilfjörð.  Fór Jón Stefánsson lögregluvarðstjóri af stað frá Þórshöfn. Er hann kom upp á Sandárás, skammt suðaustan við Flögu, kveðst hann hafa séð bifreið ekið norðaustur þjóðveginn á móts við Flögu.  Kveðst Jón hafa dregið hana uppi og hún stöðvað skammt norðan við Flögu.  Ökumaður, ákærði í þessu máli, var einn í bifreiðinni.  Grunaði Jón hann um ölvun og flutti hann á lögreglustöðina á Þórshöfn þar sem tekið var úr honum blóðsýni.

Samkvæmt frumskýrslu Jóns og skýrslu hans hér fyrir dómi var óátekin bjórdós milli framsæta bifreiðarinnar, af nánar greindri tegund, gyllt á lit. Hálffullur plastpoki af samskonar bjórdósum var á gólfi bifreiðarinnar aftan við ökumannssætið.

Er til Þórshafnar var komið kom Ragnar Skúlason héraðslögreglumaður Jóni til liðsauka. Eftir töku blóðsýnis og skýrslutöku á lögreglustöð óku þeir ákærða heim í Brekknakot.  Segir í frumskýrslu Jóns að þá hafi hann veitt því athygli að ákærði hefði líklega ekið utan í miðja brúna yfir Sandá með þeim afleiðingum að ónýtur var hjólbarði og felga brotin á hægra framhjóli.  Staðfesti Jón þetta í skýrslu sinni hér fyrir dómi. Kvað hann stykki hafa brotnað úr felgunni. Hann kvaðst hafa athugað steyptan kant undir brúarhandriðinu og séð á honum nýja ákomu. Ályktaði hann að þar hefði ákærði ekið á kantinn. Hann svipaðist um eftir felgubrotinu en fann það ekki. Ragnar Skúlason greindi frá því hér fyrir dómi að hann hefði reynt að setja varahjól undir bifreið ákærða, en ekki hefðu verið rétt áhöld í henni til að losa felgurærnar. Var bifreiðin skilin eftir á vettvangi.

Fram kemur í frumskýrslu Jóns og staðfestu báðir lögreglumennirnir það fyrir dómi að austan við afleggjarann að Svalbarði hafi verið merki um að bifreið hefði farið út af þjóðveginum sunnanverðum og samskonar ummerki hafi verið á þremur stöðum á afleggjaranum að Brekknakoti.  Hafi þessi för verið nýleg og virst vera eftir bifreiðina DM-329. Ályktuðu lögreglumennirnir af þessum ummerkjum að ákærði hefði á þessum stöðum farið út af vegi á leið sinni til Þórshafnar fyrr um daginn, en náð að komast á veginn aftur.

Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði ákvarðaði magn alkóhóls í blóð­sýninu, sem var tekið úr ákærða klukkan 19:15, 1,82‰ að reiknuðu fráviki frá meðaltali tveggja mælinga.

Samkvæmt skýrslu sem lögregla tók af ákærða 22. janúar 2008 kvaðst hann hafa drukkið hálfan lítra af bjór við akstur frá Þórshöfn en kvaðst ekki geta sagt að hann hefði fundið til áfengisáhrifa við akstur.  Spurningu um hvort hann hefði drukkið áfengi eftir að akstri lauk svaraði hann neitandi. 

Ákærði var næst yfirheyrður af lögreglu 21. apríl 2008. Þá skýrði hann svo frá að hann að hefði drukkið áfengan bjór um kvöldið og nóttina áður en meint brot átti sér stað. Daginn eftir hefði hann farið til Þórshafnar ýmissa erinda og m.a. keypt tvær kippur af áfengum bjór.  Þaðan hefði hann farið heim að Holti í Þistilfirði til að hitta þar Gunnar bónda Þóroddsson.  Þar hefði bifreið hans runnið út af vegi rétt við bæinn og stöðvast við heyvagn sem var aftan í dráttarvél.  Hefði hann talað við Gunnar og Sigurð, bændur í Holti.  Einnig hefðu Stefán og Eggert í Laxárdal verið þarna staddir.  Sigurður hefði aðstoðað hann við að draga bifreiðina upp á veginn.  Áður hefði Eggert fært vagninn frá bifreiðinni, en þá hefði vagninn lent utan í hana framanverða.  Eftir þetta hefði hann haldið för sinni áfram.  Á móts við Flögu hefði hjólbarði sprungið.  Hann hefði þá fengið sér bjór og verið að drekka hann er hann sá lögreglubifreiðina koma.  Hann hefði fundið til nokkurra áfengisáhrifa við aksturinn, bæði á leið að heiman til Þórshafnar og á bakaleið.  Hann myndi vel eftir öllu sínu ferðalagi þennan dag og hefði talið sig getað stjórnað bifreiðinni án þess að valda sér eða öðrum hættu eða tjóni.

Samkvæmt endurriti úr þingbók var tekin ítarleg skýrsla af ákærða er mál þetta var þingfest, en undirrituðum dómara var falin meðferð þess eftir þingfestinguna.  Kom þá m.a. fram að hann hefði keypt tvær kippur af nánar greindri bjórtegund í rauðum dósum.  Áfengiskaupin hefðu verið gerð milli klukkan 17:00 og 18:00 þennan dag. Síðan hefði hann ekið frá Þórshöfn í Holt og á leiðinni drukkið úr einni dós af bjórnum.  Við Holt hefði hann stöðvað í halla með þeim afleiðingum að bifreið hans rann á heyvagninn.  Sigurður í Holti, Eggert og Stefán í Laxárdal hefðu neitað honum um aðstoð en þeir hefðu tekið vagninn frá bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún skemmdist.  Hann hefði reiðst vegna þessa og síðan ekið áleiðis heim. Skammt frá Sandá hefði ísköggull rekist í framhjól bifreiðarinnar svo hann hefði þurft að stöðva för sína, en ekki getað skipt um hjól því hann hefði ekki  haft rétt verkfæri í bifreiðinni til þess.  Hann áætlaði að hafa dvalið þarna í um þrjátíu mínútur uns lögreglubifreiðin kom.  Hann hefði drukkið úr einni bjórdós meðan hann beið í bifreiðinni eftir að hafa gefist upp við að skipta um hjólið.

Í þessu sama þinghaldi kom fram athugasemd frá verjanda þess efnis að við töku blóðsýnis hefði verið notað spritt og óskaði hann eftir því að starfsreglur um blóðsýnatöku yrðu lagðar fram af hendi ákæruvaldsins. Af hálfu sækjanda var upplýst við aðalmeðferð málsins að slíkar starfsreglur hefðu ekki fundist skriflegar.    

II.

Ákærði skýrði í aðalatriðum frá á sama veg við aðalmeðferð málsins, þ.e. að hann hefði keypt sér bjór á Þórshöfn og drukkið einn þeirra, síðan  komið við í Holti þar sem bíll hans hefði runnið á heyvagn svo hann þurfti aðstoð við að koma bílnum á veginn.  Við Sandárbrúna hefðu verið stórir ískögglar og hann hefði lent illa á einum og brotið felgu.  Hann hefði ekið yfir Sandárbrúna, stöðvað á móts við Flögu, reynt að ná hjólinu undan án árangurs, sest inn í bifreiðina og drukkið úr einni bjórdós áður en lögreglan kom.  Við töku blóðsýnis hefði hjúkrunarfræðingur borið spritt á handlegg hans áður en sýnið var tekið.  Hann kveður það rangt hjá lögreglumanni að hann hafi stöðvað bifreið sína í sömu mund og lögregla kom að, því hann hefði verið búinn að eiga við það að reyna að ná hjólinu undan er lögregla kom.  Hann kvaðst hafa fundið til einhverra áfengisáhrifa á leiðinni frá Þórshöfn í Holt.  Hann kvað rangt eftir sér haft í lögregluskýrslu að hann hefði fundið til áfengisáhrifa við aksturinn frá Brekknakoti til Þórshafnar og kvaðst líklega ekki hafa tekið eftir þessari setningu í skýrslunni áður en hann undirritaði hana.

Fyrir dóminn kom til skýrslugjafar Sif Bjarklind Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur sem tók blóðsýnið úr ákærða.  Kvað hún öll áhöld til slíks vera í kassa sem geymdur sé á lögreglustöðinni og hefði hún notað þau.  Aðspurð kvað hún enga sótthreinsun fara fram áður en sýni sé tekið, hvorki með spritti né öðrum sótthreinsunarvökva. Spurð um ástand ákærða kvaðst hún hafa metið það svo að hann væri ölvaður.

Nefndir bændur í Holti og Laxárdal, Gunnar Þóroddsson, Sigurður Þór Guðmundsson, Eggert Stefánsson og Stefán Eggertsson, voru kallaðir fyrir dóminn til skýrslugjafar.  Kom fram í skýrslu Gunnars að hann gæti ekkert sagt um hugsanlegt ölvunarástand ákærða því að hann hefði ekki verið nema í kallfæri við hann, en staðfesti að bifreið hans og vagninn hefðu rekist eitthvað saman.  Stefán, sem var yfirheyrður síðar en Gunnar, kveðst ekki hafa komið það nálægt ákærða að hann gæti lagt mat á það hvort hann hefði verið ölvaður en minntist þess að Gunnar hefði kallað til ákærða að ,,hætta þessari vitleysu því hann væri fullur og búinn að vera að drekka hér bjór.“ Í framhaldi af því hafi verið talað um hvar ákærði mætti leggja bílnum. Hafi það orðið vitninu vonbrigði að ákærði ákvað að aka á brott eftir að bíllinn hafði verið losaður.

Vitnið Eggert Stefánsson kveðst hafa orðið var við að ákærði væri í ölvunarástandi, þar sem hann hefði verið óstöðugur á fótum og vitnið hefði fundið áfengislykt af honum. 

Vitnið Sigurður Þór Guðmundsson kveðst hafa metið það svo að ákærði væri ölvaður, því hann hefði átt erfitt með að standa í fæturna og áfengislykt hefði lagt frá honum.  Hefði sér ekki þótt hann ökuhæfur og hann  hefði óttast að slys hlytist af.  Þeir Gunnar hefðu beðið ákærða að skilja bifreiðina eftir, en ákærði hefði ekið brott og ökulagið verið skrykkjótt.

Ragnar Skúlason héraðslögreglumaður kom fyrir dóminn til skýrslugjafar og er nokkurra atriða úr skýrslu hans þegar getið. Ragnar kvaðst hafa séð einkenni ölvunar á ákærða.  Hann var viðstaddur töku blóðsýnis og kveður ekki neitt sótthreinsiefni hafa verið notað.

Jón Stefánsson lögreglumaður kom fyrir dóm til skýrslugjafar og hafa nokkur atriði úr framburði hans þegar verið rakin. Hann staðfesti að ákærði hefði verið á ferð þegar hann hefði séð fyrst til hans, rétt vestan við brúna yfir Sandá og síðan fært bifreið sína út í vegarkant og stöðvað.  Ákærði hefði viljað komast heim án tafar til að gefa fé sínu. Þá hefði hann beðist undan kæru, en vitnið tjáð honum að það gæti við hvorugri beiðninni orðið.  Jón kveðst ekki hafa séð neina tóma bjórdós á vettvangi og telur að ákærði hafi ekkert færi haft á að drekka áfengi frá því að hann stöðvaði bifreið sína til þess að Jón hafði afskipti af honum, enda hafi þeir stöðvað bifreiðirnar nánast samtímis.  Jón kvað engan sótthreinsunarvökva hafa verið notaðan við töku blóðsýnis.  Áhöld til blóðsýnatöku séu í kassa á lögreglustöð og sá búnaður sé ætíð notaður. 

Eftir að skýrslur höfðu verið teknar af vitnum sýndi sækjandi í réttinum kassa með áhöldum til blóðsýnatöku sem hann sótti á lögreglustöðina á Húsavík. Við athugun réttarins á innihaldi kassans fundust engir sótthreinsunarvökvar með spíritus­innihaldi.    

III.

Samkvæmt framansögðu bera tvö vitni, Eggert Stefánsson og Sigurður Þór Guðmundsson að hafa séð ölvunareinkenni á ákærða áður en hann ók frá Holti áleiðis heim til sín. Styður framburður vitnanna sakargiftir um ölvunarakstur, en lang mestu ræður um málsúrslit mat á sönnunargildi blóðsýnis sem tekið var úr ákærða og niðurstöðu rannsóknar á alkóhólinnihaldi þess. Þá kemur til álita hvort miða eigi við að ákærði hafi drukkið hálfan lítra af bjór eftir að akstri lauk.

Verulegur munur er á framburði ákærða og Jóns Stefánssonar lögreglumanns um það hvað ákærði var að aðhafast er lögreglumaðurinn kom að honum.  Kveður lögreglumaðurinn ákærða þá hafa verið enn á ferð, en ákærði kveðst hafa verið búinn að staldra við í allt að þrjátíu mínútur samkvæmt framburði hans við þingfestingu málsins, verið búinn að gera tilraun til að taka hjól undan bifreiðinni, setjast inn í hana aftur og drekka einn bjór sem hann hefði verið að ljúka við er hann sá til ferða lögreglu. Jón varð ekki var við tóma bjórdós.

Líta ber til þess að alkóhólmagn í blóðsýni bendir eindregið til þess að annað hvort greini ákærði rangt frá um áfengisneyslu sína þennan dag, þ.e. að hann hafi drukkið samtals einn lítra af bjór, eða að hann hafi neytt það mikils áfengis kvöldið og nóttina áður að alkóhólmagnið verði útskýrt með því. Ákærði var spurður um þá neyslu fyrir dómi og sagði hann að líklega hefði verið til ein ,,kippa“.

Ólíklegt er að ákærði greini rétt frá um það að hann hafi beðið við Flögu í um 30 mínútur eftir að akstri lauk uns Jón Stefánsson kom. Samkvæmt framburði ákærða hér fyrir dómi var áfengisútsalan á Þórshöfn opnuð klukkan 17:00. Hefur hann í fyrsta lagi farið frá Þórshöfn eftir að hafa keypt sér bjór þar. Má geta þess að ákærði kvaðst í fyrstu skýrslu sinni fyrir lögreglu hafa farið frá Þórshöfn klukkan 17:30. Þaðan ók hann í Holt, missti bifreið út af heimreið, átti tal við bændur og fékk hjálp þeirra til að koma henni upp á veg aftur. Verður að ætla töluverðan tíma til þessara athafna og gæta þess, sem dómari er nægilega kunnugur í Þistilfirði til að vita, að langur afleggjari, rúmir tveir kílómetrar, liggur að Holti frá þjóðveginum. Er afleggjarinn mun seinfarnari en þjóðvegurinn. Liggur hann frá þjóðveginum nokkru vestar en miðja vegu milli Þórshafnar og Flögu, en frá Þórshöfn að Flögu er innan við 20 mínútna akstur. Samkvæmt frumskýrslu Jóns barst honum tilkynning klukkan 18:17. Liggur beint við að miða við að sú tilkynning hafi borist er ákærði var nýfarinn frá Holti. Jón ók að Flögu, handtók ákærða og var kominn til baka til Þórshafnar klukkan 18:54, samkvæmt skráðri tímasetningu í frumskýrslu hans. Miðað við þessar tímasetningar er ósennilegt að ákærði hafi haft allt að hálfrar klukkustundar forskot.

Þegar komið er austan að sést ekki niður að Sandá fyrr en ofan af ásnum rétt austan hennar. Ber Jón að hafa séð þaðan til ferða ákærða, sem hafi verið á hægri ferð rétt vestan árinnar. Felga í framhjóli undir bifreið ákærða var brotin og hjólbarðinn sprunginn. Ákærði kvaðst hér fyrir dómi hafa orðið fyrir því óhappi austan við Sandá. Má nærri geta að hann hafi ekið á hægri ferð, svo sem fram kemur í framburði Jóns, um Sandárbrúna eftir að felgan brotnaði og spölinn þaðan uns komið er á móts við Flögu.

Með þetta í huga er ekki varhugavert að leggja til grundvallar framburð Jóns um að ákærði hafi þá fyrst stöðvað ökuferð sína er Jón kom að. Ekkert hefur komið fram sem styður framburð ákærða um að hafa drukkið einn bjór eftir að akstri lauk. Verður hann metinn ótrúverðugur og samkvæmt því miðað við að hann hafi greint rétt frá um þetta atriði er hann gaf skýrslu á lögreglustöðinni á Þórshöfn 22. janúar sl. og svaraði neitandi spurningu um það hvort hann hefði drukkið áfengi eftir að akstri lauk.

Samkvæmt framburði Sifjar Bjarklind Ólafsdóttur og framangreindra lög­reglu­manna var enginn sótthreinsivökvi notaður við að taka blóðsýni úr ákærða.  Bendir ekkert til að staðið hafi verið að töku blóðsýnis og rannsókn á því með einhverjum þeim hætti að efni séu til að vefengja fyrrnefnda ákvörðun rann­sóknastofu á alkóhólinnihaldi í sýninu.  Breytir þar engu um að svokallaður SD-2 mælir sýndi niðurstöðuna 1,30‰ eftir að ákærði blés í hann á lögreglustöð á Þórshöfn. 

Samkvæmt framansögðu er sannað að alkóhólmagn í blóði ákærða hafi verið slíkt sem í ákæru greinir, er hann ók bifreiðinni DM-329 eins og honum er gefið að sök.  Hefur ákærði því brotið gegn tilgreindum ákvæðum umferðarlaga í ákæru.

Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans í þessu máli, sem ákveðst 160.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi fangelsi í 12 daga í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja. Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 18. gr. laga nr. 66, 2006, ber að svipta ákærða ökurétti. Ekki þykir ástæða til að ákveða sviptingartíma umfram það lágmark sem lögboðið er í 3. mgr. sömu greinar. Verður ákærði samkvæmt því sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu dómsins að telja.

Dæma ber ákærða til greiðslu sakarkostnaðar sem á rannsóknarstigi nemur samtals 20.874 krónum og á dómstigi 33.522 krónum vegna kostnaðar af rækslu vitnaskyldu. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Örlygs Hnefils Jónssonar hdl., ákveðast eins og í dómsorði greinir að virðisaukaskatti meðtöldum.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

Dómsorð :

Ákærði, Haraldur Páll Guðmundsson, greiði 160.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 12 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði 203.796 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Örlygs Hnefils Jónssonar hdl., 149.400 krónur.