Hæstiréttur íslands
Mál nr. 493/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Sjálfræði
|
|
Þriðjudaginn 21. desember 1999. |
|
Nr. 493/1999. |
X (Arnar Sigfússon hdl.) gegn Akureyrarbæ (Baldur Dýrfjörð hdl) |
Kærumál. Sjálfræði.
Fallist var á kröfu um að X yrði svipt sjálfræði tímabundið, enda væri hún ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. desember 1999, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í sex mánuði frá 5. nóvember 1999. Kæruheimild er í 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Skilja verður kæruna svo að sóknaraðili krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Arnars Sigfússonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 20.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. desember 1999.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í gær að undangengnum munnlegum málflutningi er til komið vegna kröfu Akureyrarbæjar-fjölskyldudeildar, kt. 410169-6229, Glerárgötu 26, 600 Akureyri, en með bréfi, dagsettu á Akureyri 4. nóvember 1999, krefst Baldur Dýrfjörð bæjarlögmaður f.h. sóknaraðilja, Akureyrarbæjar-fjölskyldudeildar, að X [ ], þá dveljandi nauðungarvistuð á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, verði svipt sjálfræði þann lágmarkstíma sem getur í 1. tl. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þ.e.a.s. í 6 mánuði, vegna geðsjúkdóms, sbr. a lið 4. gr. sömu laga.
Skipaður verjandi varnaraðila, Arnar Sigfússon, hdl., gerir þá kröfu að kröfu sóknaraðila um sjálfræðissviptingu verði hafnað og honum dæmdur málskostnaður úr ríkissjóði að mati dómsins.
Mál þetta var þingfest 5. f.m. Í beiðni sóknaraðila á dskj. nr. 1 eru raktar forsendur fyrir beiðninni um takmarkaða lögræðissviptingu. Segir þar að varnaraðili, sem nú er vistuð nauðungarvistun á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, skv. úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 21. október 1999, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands þann 29. október s.l. Um forsendur fyrir beiðninni er vísað til þessara úrskurða og framlagðra gagna í þeim málum. Jafnframt er vísað til bréfs yfirlæknis geðdeildar FSA frá 2. nóvember s.l. Fram komi að forsendur séu fyrir áframhaldandi læknismeðferð varnaraðilja, en vonir hafi staðið til að læknismeðferð yrði lokið áður en nauðungarvistunin rynni út 5. nóvember s.l. Ljóst sé að svo verður ekki og sé því nauðsynlegt að óska eftir takmarkaðri lögræðissviptingu í samræmi við ákvæði 1. tl. 5. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997, en það sé forsenda þess að varnaraðilji hljóti viðeigandi læknismeðferð.
Varnaraðilji hefur þrívegis komið hér fyrir dóm, þ.e.a.s. 5., 11. og 18. f.m. og við þingfestingu málsins þann 5. f.m. var Arnar Sigfússon, hdl., skipaður réttargæslumaður hennar. Segir varnaraðilji sig vera alheilbrigðan og ekkert þurfa læknismeðferðar né sjúkrahússvistar við. Hefur hún dvalið áfram á geðdeild FSA, þ.e. frá 5. f.m. samkvæmt ákvörðun dómara.
Verða nú rakin helstu gögn málsins.
Í bréfi Sigmundar Sigfússonar, yfirlæknis, til deildarstjóra fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar, dagsettu 2. f.m. sbr. dskj. nr. 23, kemur fram að varnaraðilji hafi verið vistuð gegn vilja hennar á geðdeild FSA samkvæmt leyfi Dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 14. október 1999 og hafi Héraðsdómur Norðurlands eystra staðfest réttmæti vistunarinnar 21. október s.l. og Hæstiréttur Íslands 8 dögum síðar. Hafi varnaraðilji tekið nauðsynleg lyf að læknisráði eftir töluverðar fortölur og aðhald og sé hún mun auðveldari í samskiptum en í upphafi vistunar á deildinni. Hugsun hennar sé þó enn mjög óskipulögð, hún sé óðamála og fari úr einu í annað í samræðum, geti ekki einbeitt sér að aðalatriðum. Sjúkdómsinnsæi hennar hafi ekkert aukist og hyggist hún útskrifast af deildinni strax og nauðungarvistun ljúki 5. nóvember n.k. Síðan gerir yfirlæknirinn grein fyrir þeim lyfjum er varnaraðilji fái. Síðan segir að þar sem sjúkdómsinnsæi varnaraðilja sé ennþá ekkert þannig að hún muni hætta að taka þessi lyf þegar vistun hennar ljúki og allt fari í sama horf og áður. Vegna sjúkdómsins sé niðurstaða sálfræðiprófa á sama veg og hjá mjög greindarskertu fólki. Eðlisgreind varnaraðila hafi þó fyrir mörgum árum sennilega verið innan eðlilegra marka þar sem hún hafi lokið „High school“ í Bandaríkjunum. Ljóst sé að lögum samkvæmt sé ekki hægt að þvinga varnaraðilja til að hlíta meðferð, sem henni verði áfram nauðsynleg um langt skeið, nema lögð verði fram beiðni um sviptingu sjálfræðis hennar fyrir dómi.
Á dskj. nr. 26 liggur fyrir læknisvottorð Sigmundar Sigfússonar, yfirlæknis, dags. á Akureyri 11. nóvember 1999, um andlegt heilsufar varnaraðilja. Þar kemur fram að varnaraðilji sé nú mun auðveldari í samskiptum en í upphafi vistunar á geðdeildinni. Hafi hún tekið nauðsynleg lyf að læknisráði eftir töluverðar fortölur og aðhald. Hugsun hennar sé þó enn mjög óskipulögð, hún sé óðamála og eigi erfitt með að greina aðalatriði frá aukaatriðum, endurtaki í sífellu sömu atriðin, eigi erfitt með að hlusta á aðra og sé hvatvís í hegðun og hugsun. Sjúkdómsinnsæi hennar hafi ekkert aukist og hyggist hún útskrifa sig strax og nauðungarvistun lýkur. Vegna skorts á sjúkdómsinnsæi hennar sé fullljóst að hún muni hætta að taka lyf sem henni séu nauðsynleg eftir útskriftina og allt fari í sama horf og áður. Fyrir liggi niðurstöður sálfræðilegs mats Rúnars H. Andrasonar, klínísks sálfræðings, á varnaraðila, dags. 4. nóvember 1999. Hafi matið beinst einkum að vitsmunum og persónuleika. Á persónuleikaprófi komi fram einkenni sem benda til þess að varnaraðilji eigi erfitt með að takast á við vandamál daglegs lífs. Hún sé tortryggin og hafi tilhneigingu til að einangra sig félagslega. Þá sé samskipta- og félagshæfni hennar ábótavant. Í greindarprófum hafi komið fram nokkuð bágborin vitsmunastaða, sem var innan marka þess sem kallast jaðargreind. Frammistaða hennar bendi til þess að aðeins 4% einstaklinga á hennar aldri séu verr staddir en hún. Þetta komi nokkuð á óvart með tilliti til þess að eigin sögn hafi hún lokið prófi úr framhaldsskóla, þ.e.a.s. High school með ágætis einkunn. Sé það rétt hafi vitsmunastöðu hennar hrakað síðust árin. Ljóst sé þó að núverandi sjúkdómsmynd hennar hafi neikvæð áhrif á frammistöðu í sumum þáttum greindarprófa og væri því æskilegt að endurmeta vitsmuni hennar eftir að hún hafi hlotið sjáanlegan bata eða verulega hafi dregið úr sjúkdómseinkennum í kjölfar meðferðar. Það er mat yfirlæknisins að varnaraðilji þarfnist 1-2 mánaða sjúkrahúsvistar til að ná viðunandi bata og í kjölfar þeirrar vistar væri nauðsynlegt að hún hlítti læknisráði um lyfjatöku um margra ára skeið til þess að viðhalda árangri meðferðarinnar og halda sjúkdómseinkennum í skefjum. Þar sem að það kunni að vera áhorfsmál hvort vanheilsa og meðferðarþörf varnaraðilja séu næg rök til að svipta hana tímabundið sjálfræði bendir yfirlæknirinn á þann möguleika á að fá utanaðkomandi geðlækni til að meta geðhagi varnaraðilja.
Með bréfi dagsettu 15. f.m. óskaði dómari þess að Tómas Zoëga, yfirlæknir, léti dóminum í té sem sérfræðingur í geðlæknisfræði, skriflegt og rökstutt álit um hvort geðheilbrigði varnaraðilja væri svo komið að hún væri ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms. Dóminum barst vottorð ofangreinds geðlæknis í gær, en það er dagsett 3. þ.m., sbr. dskj. nr. 28. Í því kemur fram að hann hefur kynnt sér öll gögn þessa máls, auk þess lesið sjúkraskrá varnaraðilja á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og talað við og skoðað varnaraðilja á geðdeild FSA þann 3. desember 1999. Í vottorðinu rekur læknirinn málavexti og viðtal og skoðun. Kveðst hann hafa talað við varnaraðilja á geðdeild FSA að morgni 3. þ.m. Í byrjun viðtals hafi varnaraðilja verið gerð grein fyrir eðli viðtalsins og að læknirinn myndi gera dóminum grein fyrir niðurstöðu þess. Hafi varnaraðilji engar athugasemdir gert við það. [...] Síðan segir í vottorðinu:
„Álit: Við skoðun á X og samanburði við það sem hefur verið ritað um hana fyrir síðustu innlögn í byrjun innlagnar, er ljóst að meðferðin hér hefur bætt líðan hennar og róað hana. Enn eru þó engin merki um sjúkdómsinnsæi, hugsanir eru á köflum laustengdar og framtíðaráform óljós og virðast óraunhæf. Greind metin í klínísku viðtali sýnist vera neðan meðaltals.
Niðurstaða: Þrátt fyrir nokkurn bata er X enn haldin alvarlegum geðsjúkdómi, sem hefur augljóslega veruleg áhrif á getu hennar til sjálfstæðrar búsetu og á aðra persónulega hagi. Hún er enn ör, sem kemur fram í laustengdum hugsunum af og til. Mikil afneitun á núverandi og fyrri veikindum og nær alger skortur á sjúkdómsinnsæi veldur því að hún sér ekki nauðsyn á áframhaldandi lyfjameðferð. Útskrift nú hefur því að öllum líkindum þau áhrif að fljótlega mun sækja í sama farið og fyrir núverandi innlögn. Undirritaður styður því framkomna kröfu um takmarkaða lögræðissviptingu. Ofanritað er skrifað að lokinni skoðun í dag og eftir að undirritaður hefur kynnt sér gögn málsins.“
Álit dómsins:
Með vísan til þess sem að framan er rakið telur dómurinn sannað, að X sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms, sbr. staflið a, 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997 og með vísan til 1. tl. 5. gr. sömu laga fellst dómurinn á að hún verði svipt sjálfræði í 6 mánuði frá þingfestingu máls þessa 5. nóvember 1999. Málsvarnarlaun skipaðs réttargæslumanns hennar, Arnars Sigfússonar, hdl., kr. 40.000,- greiðist úr ríkissjóði, svo og annar málskostnaður.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
X, [...], er svipt sjálfræði í 6 mánuði frá 5. nóvember 1999 að telja.
Þóknun skipaðs verjanda hennar, Arnars Sigfússonar, hdl., kr. 40.000,- greiðist úr ríkissjóði.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði.