Hæstiréttur íslands
Mál nr. 412/2016
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. maí 2016. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 23. maí 2016.
Mál þetta, sem sætir flýtimeðferð, er höfðað með útgáfu réttarstefndu samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002, þann 17. febrúar sl., birtri sama dag. Stefnandi er Sveitarfélagið Árborg, kt. 650598-2029, Austurvegi 2, [...]i, en stefnda er A, kt. [...], til heimils að [...], [...].
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar, B, kt. [...], til frambúðar.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Einnig krefst stefnda málskostnaðar auk virðisaukaskatts úr hendi stefnanda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Málið var þingfest þann 22. febrúar sl. Í þinghaldi 29. sama mánaðar var matsmaður dómkvaddur og málinu frestað. Matsgerð var lögð fram í þinghaldi 22. apríl sl., og málinu frestað til 29. sama mánaðar, en þann dag skilaði stefnda greinargerð. Aðalmeðferð málsins fór fram 2. maí sl. Við upphaf aðalmeðferðar tóku sérfróðir meðdómendur sæti í dómnum. Að lokinni aðalmeðferð var málið dómtekið.
Málsatvik
Samkvæmt stefnu og gögnum málsins eru málsatvik þessi helst. Stefnda er móðir B, sem varð 5 ára þann [...] sl., og fer stefnda ein með forsjá barnsins. Faðir barnsins er C, fæddur 1990, og voru hann og stefnda í sambandi af og til þar til barnið var um eins árs gamalt. Stefnda hefur búið á [...] frá fæðingu barnsins en áður bjó hún á höfuðborgarsvæðinu. Foreldrar stefndu skildu þegar stefnda var ung og býr móðir hennar á höfuðborgarsvæðinu en faðir á Akureyri. Stefnda mun leita mikið til fjölskyldu vinar síns, D, sem býr á [...]. Barnið er nú vistað hjá föðurforeldrum sínum á [...] og nýtur stefnda umgengni við barnið aðra hvora helgi auk þess sem stefnda sækir barnið í leikskóla einu sinni í viku og fer með það í fimleikatíma. Þá mun barnið vera eina helgi í mánuði í umgengni hjá föður.
Afskipti barnaverndar á tímabilinu frá júlí 2011 til janúar 2014
Samkvæmt málavaxtalýsingu í stefnu og gögnum málsins hófust afskipti félagsmálanefndar stefnanda af málefnum stefndu og barns hennar í júlímánuði árið 2011, þegar barnið var um fjögurra mánaða gamalt, þ.e. í kjölfar tilkynningar til barnaverndar samkvæmt IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002, um vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit barnsins. Nánar segir að tilkynnandi hafi miklar áhyggjur af barninu, telur stefndu ekki hafa getu til að hugsa um það og sé barnið vannært. Faðir þess hafi flutt út af heimilinu og tekið allt innbú með sér að undaskildum munum barnsins og sé stefnda peningalaus. Í greinargerð E, félagsráðgjafa og starfsmanns barnaverndar stefnanda, dagsett 6. febrúar 2015, sem unnin var fyrir félagsmálanefnd stefnanda vegna fundar nefndarinnar í febrúar 2015, kemur fram að í framhaldi tilkynningarinnar hafi verið farið inn á heimili stefndu. Starfsmaður barnaverndar hafi ekki verið viss um að stefnda hafi skilið það sem starfsmaðurinn ræddi við hana um, en stefnda hafi verið opin fyrir aðstoð og stuðningi. Í áðurnefndri greinargerð E segir að í samantekt sem þáverandi starfsmaður barnaverndar, F, félagsráðgjafi, hafi ritað í júní 2012 komi fram að ítrekað hafi verið reynt að ná í stefndu og hún margoft boðuð í viðtöl en hún aðeins mætt í eitt viðtal, þ.e. um haustið 2011. Þá segi í samantekt F að frá áramótum 2011/2012 hafi ekkert unnist í málinu þrátt fyrr allmörg símtöl þar sem stefnda hafi verið boðuð í viðtöl. Áðurnefnd F lét af störfum hjá stefnanda stuttu eftir að hún ritaði áðurnefnda samantekt, en þar kom fram að halda þurfi áfram að fá stefndu til að mæta í viðtöl þar sem hún þurfi aðstoð og grunur sé um að ekki sé allt með felldu varðandi umönnun barnsins. Mun G, starfsmaður stefnanda, hafa tekið við málinu þegar F hætti störfum hjá stefnanda. Engin gögn liggja frammi í málinu frá ung- og smábarnavernd eða heilbrigðiskerfinu vegna barnsins á framangreindum tíma.
Þann 16. júlí 2012 barst barnavernd á ný tilkynning um vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit barnsins. Lýst er áhyggjum af mataræði barnsins, sem sé lítið og létt miðað við aldur. Þá sé óregla á svefni barnsins og aðbúnaður slæmur. Barnið sé oft með bleyjubruna og kaupi móðir of litlar bleyjur þar sem þær séu ódýrari. Þá hafi tilkynnandi greint frá því að stefnda nenni ekki að sjá um barnið og hunsi jafnvel grát þess. Þann 19. sama mánaðar barst barnavernd tilkynning frá ung- og smábarnavernd Heilbrigðisstofnunar Suðurlands um líkamlega vanrækslu barnsins. Þar segir að hugsanlega sé barnið vannært. Barnið þyngist ekki sem skyldi, sé fölt í framan og stefnda mæti ekki í bókaða tíma í ungbarnaskoðun. Þá er einnig vikið að umhirðu og utanumhaldi.
Í áðurnefndri greinargerð E kemur fram að í kjölfar framangreindra tilkynninga hafi starfsmaður stefnanda farið inn á heimili stefndu þar sem hafi verið snyrtilegt en ekki allt hreint. Hafi stefnda verið aðstoðuð við að sækja um leikskólapláss fyrir barnið, sem stefnandi greiddi fyrir, og barnið byrjað á leikskóla í kjölfarið. Einnig hafi stefnda farið í starfsendurhæfingu hjá Birtu en afþakkað tilsjón inni á heimilið. Gerð hafi verið áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga, dagsett 28. ágúst 2012, með gildistíma til ársloka. Markmið hennar var eftirfylgni og stuðningur og úrræði í formi stuðnings og ráðgjafar. Fyrir liggur að stefnda undirritaði ekki þessa áætlun en í stefnu segir að unnið hafi verið eftir henni allt þar til barnavernd barst næst tilkynning.
Í greinargerð E segir að lítil vinnsla hafi verið í málinu á árinu 2013, en það hafi virst ganga betur á þessu tímabili. Í málinu liggja hvorki frammi gögn frá leikskóla né ung- og smábarnavernd eða öðrum heilbrigðisstofnunum varðandi líðan og stöðu barnsins á árinu 2013, en barnið mun hafa byrjað í leikskóla fyrri hluta þess árs. Verður ekki séð af málatilbúnaði stefnanda eða framlögðum gögnum málsins að mál stefndu hafi verið í markvissri vinnslu hjá barnavernd stefnanda framangreint ár.
Afskipti barnaverndar á tímabilinu frá janúar 2014 til 27. mars 2015
Af stefnu og gögnum málsins má ráða að markviss vinna við mál stefndu og barns hennar hjá barnavernd hafi byrjað í kjölfar tilkynningar frá Birtu endurhæfingu þann 3. janúar 2014, en tilkynningin laut að vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit barnsins og áhyggjur af stöðu og líðan stefndu. Aftur fór fram könnun máls af hálfu stefnanda og óskað var eftir gögnum frá leikskóla barnsins en þá hafði H, félagsráðgjafi og starfsmaður barnaverndar stefnanda, tekið við máli stefndu. Í greinargerð E frá 6. febrúar 2015, kemur fram að í viðtali H við stefndu, sem ráða má af gögnum málsins að hafi farið fram fljótlega eftir að tilkynning barst, hafi komið fram að stefnda vilji ekkert með barnavernd hafa, en brýnt hafi verið fyrir stefndu mikilvægi samvinnu og hafi stefnda samþykkt það.
Upplýsingar frá leikskóla, janúar 2014
Í framhaldi af viðtali starfsmanns stefnanda við stefndu í byrjun ársins 2014 var óskað eftir gögnum frá leikskóla. Í svari leikskólastjóra, dags. 20. janúar sama ár, komu fram áhyggjur af þroska barnsins, almennum þroska, málþroska og félagslegum þroska. Barnið tali lítið sem ekkert en babbli heilmikið. Segir að unnið sé markvisst með málörvun og að aðstoða barnið félagslega í leikskólanum. Fram kemur að líðan barnsins sé yfirleitt góð að frátölu hægðavandamáli, sem móðir hafi rætt um við lækni. Vistunartími barnsins sé frá klukkan 8-16 og mæting mjög góð. Barnið sé oftast klætt eftir veðri, með nægjanlegt magn útifatnaðar og aukafatnað. Samskipti séu nokkuð góð við móður, sumt sem rætt sé við hana vilji gleymast en alla jafna gangi samskipti vel. Barnið eigi þó eftir að fara í 2½ árs skoðun.
Í margnefndri greinargerð E segir að stefnda hafi ekki svarað ítrekuðum tilraunum stefnanda til að fá stefndu í viðtal og hafi stefnda ekki mætt til viðtals hjá ráðgjafa fyrr en í lok mars 2014 í kjölfar skriflegrar boðunar. Í framhaldinu hafi verið farið inn á heimili stefndu 22. apríl sama ár, en ekki náðst samband aftur við stefndu fyrr en í júní sama ár. Kom þá fram að hún væri hætt hjá Birtu starfsendurhæfingu.
Áætlun um meðferð máls, skv. 23. gr. barnaverndarlaga, dags. 9. júlí 2014
Þann 9. júlí 2014 var gerð áætlun um meðferð máls, sú fyrsta sem stefnda undirritaði, en þá var barnið rúmlega þriggja ára gamalt. Skyldi áætlunin gilda til 15. ágúst sama ár. Markmið áætlunarinnar var að meta aðstæður og þroska barnsins, leiðbeina stefndu í uppeldishlutverkinu og styrkja til viðeigandi úrræða vegna heilsubrests stefndu. Í áætluninni var í fyrsta sinn hnykkt á því að stefnda sýndi öllum starfsmönnum barnaverndar samstarfsvilja, svaraði símtölum og mætti á boðaða fundi. Gert var ráð fyrir vikulegum heimsóknum á heimilið og stefndu veittur styrkur vegna fimm sérfræðiviðtala. Í framhaldinu var í júlímánuði farið í fjórar heimsóknir inn á heimilið. Höfðu starfsmenn barnaverndar áhyggjur af því að ekki væri nægileg regla á lífi barnsins meðan á sumarleyfi leikskóla stóð, íbúðin væri óhrein og fjárhagsleg staða stefndu erfið. Þá fylgdi starfsmaður barnaverndar stefndu í matarinnkaup sem stefnandi styrkti. Fyrir liggur að H félagsráðgjafi hætti störfum í ágúst 2014 og tók þá áðurnefnd E við máli stefndu.
Áætlun um meðferð máls, skv. 23. gr. barnaverndarlaga, dags. 7. ágúst 2014
Þann 7. ágúst 2014 ritaði stefnda aftur undir áætlun um meðferð málsins með gildistíma til 15. október sama ár. Til viðbótar fyrri stuðningi við stefndu var gert ráð fyrir heimsóknum tilsjónarmanns inn á heimilið í þeim tilgangi að veita stefndu ráðgjöf varðandi heimilishald og uppeldi. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir þremur heimsóknum á viku en þeim hafi síðan verið fjölgað í daglegar heimsóknir þar sem það var mat starfsmanna barnaverndar að stefnda hefði mikla þörf fyrir aðstoð við að sinna læknisheimsóknum og fundum. Þá átti með stuðningsúrræðum barnaverndar að veita stefndu leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi uppeldi barnsins. Starfi tilsjónarmanns sinnti I.
Skýrslur sálfræðings og talmeinafræðings frá ágúst 2014
Í ágústmánuði 2014 bárust greiningarskýrslur vegna barnsins frá sálfræðingi og talmeinafræðingi. Í skýrslu sálfræðings, dags. 19. ágúst sama ár, í kjölfar athugunar við þriggja ára og fimm mánaða aldur barnsins, kemur fram að verkleg greindartala barnsins sé undir meðallagi jafnaldra og munnleg greindartala verulega undir meðallagi jafnaldra. Í niðurstöðu skýrslunnar segir m.a. að niðurstöður gefi til kynna frávik í munnlegri greind og mælt með nánara mati á málþroska og ráðgjöf frá talmeinafræðingi. Barnið þurfi einstaklingsmiðað nám og stuðning við hæfi í leikskóla. Fylgjast þurfi áfram með vitsmunaþroska og endurmeta þroskastöðu fyrir upphaf grunnskóla ef almenn þroskaframvinda verði hæg.
Í skýrslu J talmeinafræðings, dags. 20. ágúst 2014, vegna framburðar- og málþroskamats sem fram fór áðurnefndan dag segir m.a. að málþroski barnsins sé langt fyrir neðan meðallag og barnið í brýnni þörf fyrir talþjálfun og vel skilgreinda málörvun í leikskóla, eitt sér eða í fámennum hóp. Þá er ítarlega gerð grein fyrir hvernig standa skuli að málörvun barnsins heima fyrir, þ.e. veittar skriflegar leiðbeiningar til forsjáraðila í fimm liðum. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum leikskólans skilji barnið illa einföld fyrirmæli og geti ekki tjáð tilfinningar með orðum. Það geti tjáð sig í tveggja orða setningum en geri það sjaldan, eigi erfitt með að sitja kyrrt og hlusta, þekki ekki líkamsheiti, litaheiti, magnhugtök eða lýsandi hugtök eins og stór, lítill, meira o.s.frv.
Skýrslur um tilsjón á heimilinu 11. september 2014 til 21. janúar 2015
Í skýrslu I, tilsjónarmanns, dags. 10. október 2014, um tímabilið frá 11. september 2014 til 9. október sama ár, er gerð grein fyrir markmiði með tilsjón á heimilinu og umfjöllun um aðstæður á heimilinu, meðal annars að aðstoða stefndu við að sinna þörfum barnsins. Að mati tilsjónarmanns þurfi barnið sérhæft mataræði vegna hægðatregðu og stöðugt eftirlit enda um að ræða orkumikið og uppátækjasamt barn sem hafi átt erfitt með svefn og pissi undir. Er það mat tilsjónarmanns að stefnda hafi ekki mætt þessum þörfum barnsins en augljóst sé að stefndu þyki mjög vænt um barnið. Samstarfsvilji stefndu hafi farið þverrandi, hún hafi oft afboðað komur tilsjónarmanns og orðið tvísaga um umönnun barnsins.
Í skýrslu I, dags 27. janúar 2015, um tilsjón með heimili stefndu á tímabilinu frá 10. október 2014 til 21. janúar 2015, kemur fram að til hafi staðið að heimsækja heimili stefndu 52 sinnum. Hins vegar hafi heimsóknir í 32 skipti fallið niður. Tvisvar vegna forfalla starfsmanns en 23 sinnum hafi ekki náðst í stefndu, hún hvorki svarað síma né dyrabjöllu. Í tvö skipti hafi stefnda sjálf afboðað heimsókn, en í fimm skipti hafi heimsókn fallið niður þar sem ekki hafi náðst í stefndu og því ekki hægt að bóka tíma fyrir næstu heimsóknir. Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að ljóst sé að stefndu þyki mjög vænt um barnið og hlýtt sé á milli þeirra mæðgna. Tilsjónarmaður nefnir litla innsýn stefndu í eigin vanda og að mati tilsjónarmanns sé stefnda óraunsæ hvað varðar framtíð þeirra mæðgna. Hún berjist á móti leiðsögn enda þurfi hún, að eigin sögn, enga aðstoð.
Skýrsla ung- og smábarnaverndar, dags. 21. október 2014
Í svari ung- og smábarnaverndar 21. október 2014 um líðan barnsins, þroskastöðu þess og samskipti ung- og smábarnaverndar við foreldra barnsins kemur m.a eftirfarandi fram. Barnið, sem sé mjög líflegt og glaðlegt, hafi síðan um 3ja mánaða aldur beygt hægt út af þyngdarkúrfu sinni. Við 2½ árs skoðun, sem ekki hafi farið fram fyrr en barnið var tæplega 3½ árs gamalt, hafi þroski þess mælst staðalfráviki fyrir neðan meðallag. Við skoðun lækna hafi ekkert fundist sem skýri þetta en barnið hafi átt við hægðatregðu að stríða frá sjö mánaða aldri. Þá hafi húð barnsins verið mjög þurr og exemkennd en betri við skoðun 11. september 2014. Varðandi þroskamat segir að barnið komi mjög slakt út í Brigance mati, fái 64,5 stig af 100 stigum þar sem lágmark er 76 stig fyrir aldur þess. Einbeiting og athygli sé mjög skert og skilningur lítill. Kemur fram að stefnda hafi áhyggjur af tjáningu, málskilningi, hegðun og félags- og tilfinningaþroska barnsins. Varðandi samskipti við stefndu kemur fram að stefnda hafi mætt með barnið í allar lykilskoðanir, en oft gleymt eða ekki mætt í bókaðan tíma. Þá hafi hún ekki sinnt að mæta í tvo tíma sem ætlaðir hafi verið fyrir 2½ árs skoðun. Segir í lok svars starfsmanns ung-og smábarnaverndar að svo virðist sem stefnda taki leiðbeiningum ætíð vel, en misræmis gæti í upplýsingum sem hún gefi starfsmönnum.
Áætlun, skv. 23. gr. barnaverndarlaga, dags. 21. október 2014
Þann 21. október 2014 var í fjórða sinn gerð áætlun um meðferð máls með gildistíma til 1. febrúar 2015. Ástæða íhlutunar hafi verið áhyggjur af almennum þroska barnsins og málþroska, sem og félags- og heilsufarslegum aðstæðum stefndu. Markmið áætlunar er tilgreint það sama og í fyrri áætlunum, að leiðbeina stefndu í uppeldishlutverkinu og veita henni stuðning í tengslum við heilsufar og fjármál. Því til viðbótar, að meta forsjárhæfni stefndu og mun stefnda hafa samþykkt að framangreint mat færi fram. Undir liðnum hlutverk forsjáraðila var ítrekað að stefnda myndi sýna samstarfsvilja, þar með talið að svara símtölum og mæta í boðuð viðtöl.
Forsjárhæfnismats, dagsett 20. janúar 2015
Í greinargerð E, dags. 6. febrúar 2015, segir að ljóst hafi verið eftir vinnu barnaverndar í formi reglulegra viðtala og niðurstöðu tilsjónarmanns með heimilinu, að vandi stefndu sé mikill. Niðurstaða tilsjónarmanns hafi verið að barnið þurfi mikla aðstoð og örvun heima og hafi stefnda, að mati tilsjónarmannsins, ekki mætt þessum þörfum barnsins. Fjórar áætlanir hafi verið gerðar og hafi áætlanir frá því í júlí ekki staðist, m. a. hafi stefnda ekki leitað sér aðstoðar sálfræðings, ekki tekið á móti tilsjónarmanni eins og lagt hafi verið upp með, ekki svarað símtölum eða mætt í boðuð viðtöl nema þegar henni hafi hentað og þá hafi stefnda ekki leitað eftir viðeigandi úrræðum vegna heilsubrests og til að komast í daglega virkni. Því hafi verið ákveðið að sækja um forsjárhæfnismat og hafi stefnda verið í samvinnu við gerð þess.
Í ódagsettri greinargerð E með umsókn um forsjárhæfnismat, sem ráða má af gögnum málsins að hafi verið skrifuð í lok október eða byrjun nóvember 2014, kemur fram að frá því E tók við máli stefndu hafi viðtöl verið nokkuð reglulega. Stefnda hafi verið aðstoðuð við að koma reiðu á fjármál sín, aðstoðuð við heimsóknir til lækna og á fundi. Þá segir í lokin. „Í þeim fjölmörgu viðtölum og heimsóknum á heimilið hefur verið ljóst að A á mjög erfitt með að meðtaka og fara eftir fyrirmælum. Virðist hún oft á tíðum illa áttuð og ekki skilja mikilvægi þess að sinna þörfum stúlkunnar. Töluverðar áhyggjur eru að [sic] velferð B“.
K sálfræðingur skilaði forsjárhæfnismati, dagsettu 20. janúar 2015, en fram kemur í álitsgerð hennar að beiðni um mat hafi borist frá stefnanda í byrjun nóvember 2014. Fyrir stefndu hafi verið lögð sálfræðipróf og gagna aflað með viðtölum við stefndu, fjölskyldu hennar, starfsmenn barnaverndar, auk heimsókna á heimili stefndu. Í álitsgerðinni kemur fram að heildargreind stefndu mælist á tornæmismörkum og niðurstaða persónuleikaprófs bendi til þess að áhyggjur stefndu af líkamlegum einkennum séu óvenjulegar og að hún sé gagntekin af líkamlegri virkni og heilsufarsvanda sem leiði til þess að dagleg virkni hennar sé skert. Þá sýni stefnda ýmis einkenni áfallastreitu en engar vísbendingar séu um áráttuhegðun eða þráhyggjuröskun. Niðurstöður prófa sýni að kvíði, erfiðleikar í félagslegum tengslum, athyglisbrestur/ofvirkni og andfélagsleg hegðun sé í meðallagi en niðurstöður bendi til þess að stefnda þurfi meðferð vegna depurðar og líkamlegra einkenna.
Í niðurstöðukafla matsins kemur meðal annars fram að um sé að ræða seinfæra móður sem búi yfir ýmsum styrkleikum í uppeldislegu tilliti. Hún hafi myndað góð tengsl við barnið, sýndi því hlýju og kærleik og beitti það aga. Veikleikar hvað foreldrahæfni stefndu varði tengist öryggi, líkamlegri umönnun og atlæti. Veikleikar í lífsstíl stefndu hafi áhrif á hana sem fyrirmynd barnsins, væntanlega til hins verra. Stefnda hafi verið greind á tornæmismörkum og til þess að valda foreldrahlutverkinu og sinna þörfum barnsins, örvað það og veita því öryggi og gott atlæti þurfi stefnda leiðsögn. Stefnda eigi hins vegar erfitt með að meðtaka og fara eftir fyrirmælum. Hún jánki og samþykki, en fari oftast sínar eigin leiðir og sé oft tvísaga um daglegt líf og umönnun barnsins. Í lok álitsgerðar sálfræðingsins sagði: „Forsjárhæfi A er verulega skert. Hún hefur fengið margvísleg tilboð um stuðning sem ekki hafa skilað þeim árangri sem til var ætlast. Reynslan sýnir að A hefur litla getu til að nýta sér þá þjónustu sem henni stendur til boða til að styrkja stöðu sína sem foreldri. Hún á erfitt með að sjá samband milli orsakar og afleiðingar og stendur ekki við skuldbindingar sínar. Hún hefur lítið innsæi í vanda sinn, er óraunsæ, á erfitt með að standa við það sem hún segist ætla að gera og telur sig hæfari en hún í raun er til að búa barninu góðar aðstæður, öryggi, atlæti og vera góð fyrirmynd fyrir hana. Tilboð sem henni eru gerð eru ekki líkleg til að skila frekari árangri það hefur sýnt sig. Mat á persónuleika og sagan sýnir að meðferðarheldni hennar er slök, hún hafi ekki úthald til að ljúka því sem hún byrjar á. Frekari tilboð um stuðning og eða meðferð eru því ekki líkleg til að skila árangri. Niðurstöður greindarmats, mats á persónuleika og klínískt mat matsmanns gefa matsmanni ekki tilefni til að álykta að þetta muni breytast.“
Upplýsingar leikskóla í febrúar 2015
Í bréfi leikskólastjóra, dags. 10. febrúar 2015, til barnaverndar kemur meðal annars fram að ekki sé annað að sjá en að barninu líði vel á leikskólanum, það sé glatt, jákvætt, samvinnuþýtt og áhugasamt varðandi verkefni við hæfi. Þá sé barnið glatt þegar stefnda sæki það í lok dags. Barnið sé alla jafnan rólegt og yfirleitt auðvelt að ræða við það. Varðandi aðbúnað, fatnað og mætingu kemur fram að barnið sé með algjöran lágmarksaðbúnað, það vanti stundum aukaföt, þykka peysu og vettlinga, en alltaf sé til staðar polla- og kuldagalli, húfa og viðeigandi skóbúnaður. Varðandi félagslega stöðu barnsins kemur fram að staða þess í barnahópnum sé góð og gangi því mun betur að taka þátt í leik eftir að það hafi byrjað að tala og allt sé á réttri leið. Orðaforði sé smá saman að aukast og framfarir við setningamyndun. Gerð er ítarlega grein fyrir mætingum barnsins í leikskólann. Dagana 22. desember til 30. desember 2014 hafi verið skráðar fjarvistir hjá barninu í 4 daga. Á tímabilinu 5. til 30. janúar 2016 hafi verið skráðar fjarvistir í 8 daga og tilkynnt hafi verið um veikindi barnsins alla vikuna 2.-6. febrúar 2015. Í lokin kemur fram að oft viti starfsmenn ekki hvort stefnda skilji þegar þeir ræða við hana þó hún svari játandi.
Upplýsingar talmeinafræðings í febrúar 2015
Í greinargerð L talmeinafræðings, dags. 17. febrúar 2015, kemur fram að í desember 2014 hafi verið sótt um talþjálfun fyrir barnið og óskað eftir forgangi. Í annarri viku janúar hafi nokkrum sinnum verið hringt í stefndu til að bjóða henni tíma fyrir barnið en stefnda ekki getað mætt. Í þriðju viku janúar hafi stefndu aftur verið boðinn tími sem hún hafi afboðað vegna veikinda hennar og barnsins. Enn hafi stefndu verið boðinn tími en hún ekki getað notfært sér hann. Loks hafi hún fengið tíma 11. febrúar en ekki mætt.
Fundur félagsmálanefndar stefnanda 24. febrúar 2015
og áætlun skv. 23. barnaverndarlaga, dags. sama dag
Fyrir liggur að þegar niðurstöður forsjárhæfnismatsins lágu fyrir hafi verið óskað eftir því við stefndu að hún samþykkti tímabundna vistun barnsins utan heimilis á meðan hún ynni að því að styrkja sig í uppeldishlutverkinu með aðstoð barnaverndar. Mun stefnda hafa tekið mjög illa í þessa tillögu og hafnaði í kjölfarið allri samvinnu við barnaverndaryfirvöld.
Þann 20. febrúar 2015 var stefnda boðuð á fund félagsmálanefndar stefnanda ásamt lögmanni sínum. Í boðunarbréfi kemur fram að stefnda hafi neitað að samþykkja stuðning og úrræði samkvæmt áætlun um meðferð máls. Stefnda mætti á fund félagsmálanefndar þann 24. sama mánaðar ásamt lögmanni sínum. Var stefndu kynnt að til skoðunar væri að grípa til þvingunarúrræða ef stefnda vildi ekki samþykkja nauðsynlegar ráðstafanir fyrir barnið. Fram kom hjá lögmanni stefndu að um heldur viðamikla áætlun væri að ræða, þ.e. annars vegar tilsjón með heimilinu fimm sinnum í viku og hins vegar óboðað eftirlit. Bókað er eftir stefndu að hún teldi ekki þörf á að barnið færi til talmeinafræðings þar sem vel gangi með málörvun í leikskóla. Eftir umræður á fundinum hafi stefnda ákveðið að skrifa undir áætlun um meðferð máls sem smávægilega breytingar munu hafa verið gerðar á samkvæmt áður kynntri áætlun.
Í áætluninni sem gilda skyldi frá 24. febrúar 2015 til 21. apríl sama ár, segir að meginmarkmiðið sé að fullreyna stuðning barnaverndar við stefndu þannig að hún nái að sinna forsjárskyldum sínum með fullnægjandi hætti. Í niðurlagi áætlunarinnar kom fram að standi stefnda ekki við hana sé það mat barnaverndar að grípa þurfi til aðgerða þannig að barnið fái þá þjálfun og örvun sem áætlunin gerði ráð fyrr. Skyldur stefnanda samkvæmt áætluninni voru meðal annars að útvega barninu þjónustu talmeinafræðings og stuðningsfjölskyldu og stefndu sálfræðitíma. Fjölmargar skyldur voru lagðar á stefndu samkvæmt áætluninni, meðal annars að taka á móti tilsjónarmanni og fara eftir leiðbeiningum hans, mæta með barnið í tíma hjá talmeinafræðingi einu sinni í viku, mæta í sálfræðitíma, tryggja dvöl barnsins á leikskóla alla virka daga, samþykkja veru barnsins aðra hverja helgi hjá stuðningsfjölskyldu, föðurömmu barnsins, sem búsett er á [...]i.
Fundur félagsmálanefndar stefnanda 26. mars 2015
Í gögnum málsins kemur fram að í byrjun mars hafi komið í ljós að stefndu hafi gengið illa að fara eftir áætluninni, þ.e. áætlun dags. 24. febrúar 2015. Í samantekt E um framkvæmd áætlunarinnar á tímabilinu frá 24. febrúar til 9. mars 2015 kemur m.a. fram að stefnda hafi ítrekað afboðað tilsjónarmann, ekki mætt í tíma til E, ekki farið með barnið til talmeinafræðings og ekki hent sorpi af svölum íbúðarinnar.
Með bréfi stefnanda til lögmanns stefndu, dags. 16. mars 2015, þegar þrjár vikur voru liðnar af gildistíma þeirra átta vikna áætlunar sem stefnda samþykkti á fundi félagsmálanefndar stefnanda þann 24. febrúar sama ár, var stefnda boðuð á fund nefndarinnar ásamt lögmanni sínum og greint frá því að nefndin væri með til athugunar hvort úrskurðað skyldi um töku barnsins af heimili í allt að tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndaralaga. Umræddur fundur fór fram þann 26. mars 2015. Þar upplýsti stefnda að hún væri mjög reið og upplifði sig niðurlægða. Mikið hafi gengið á í fjölskyldu hennar og hún því þurft að setja áætlunina til hliðar á meðan. Stefnda hafnaði því að barnið færi í tímabundið fóstur.
Daginn eftir, þann 27. mars, úrskurðaði félagsmálanefnd stefnanda að barninu skyldi ráðstafað í fóstur í allt að tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, og var lögmanni stefnanda falið að gera kröfu fyrir dómi um að ráðstöfun nefndarinnar stæði lengur, eða í allt að eitt ár, þannig að hægt væri að veita barninu fullnægjandi stuðning vegna þeirra þroskafrávika sem komin væru fram. Barnið var í framhaldinu vistað hjá föðurforeldrum sínum á [...]i.
Afskipti barnaverndar frá 27. mars 2015 til 2. febrúar 2016
Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 2. júní 2015 var úrskurður stefnanda frá 27. mars 2015 felldur úr gildi og kröfu stefnanda um að fósturráðstöfun yrði framlengd hafnað. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar og með dómi réttarins í málinu nr. 400/2015, sem kveðinn var upp 24. júní 2015, vísaði Hæstiréttur frá héraðsdómi þeirri kröfu stefndu að úrskurður félagsmálanefndar stefnanda frá 27. mars 2015 verði felldur út gildi. Þá heimilaði rétturinn stefnanda að vista barnið utan heimilis stefndu í allt að átta mánuði frá uppsögn dómsins að telja. Í framhaldinu var barnið aftur vistað hjá föðurforeldrum sínum.
Í tölvupóstsamskiptum milli starfsmanns barnaverndar og talmeinafræðings í aprílmánuði 2015, kemur fram að amma barnsins hafi reglulega komið með barnið í viðtöl til talmeinafræðings og taki barnið vikulegum framförum. Í upplýsingum frá leikskóla 24. sama mánaðar um líðan barnsins í leikskóla kemur fram að barnið mæti daglega í leikskóla, aðbúnaður eins og best verður á kosið, barnið sé rólegt og glatt, það líti betur út, sé í betra jafnvægi og greinilegt að komin sé rútína á svefn og matartíma. Þá merki starfsmenn framfarir í málþroska.
Meðal gagna málsins er áætlun um meðferð máls sem gildi átti frá 29. júní til 10. september 2015, þ.e. eftir að dómur Hæstarétt féll. Þar kemur fram að markmið áætlunar sé að stefnda bæti foreldrahæfni sína í þeim tilgangi að búa barninu sem best skilyrði til þroskavænlegrar uppeldisaðstæðna. Meðal annars eru tilgreindar eftirfarandi skyldur stefndu: Sýna samstarfsvilja í samskiptum við starfsmenn stefnanda, mæta í vikuleg viðtöl til félagsráðgjafa og leita sér aðstoðar vegna eigin heilsuvandamála. Undir þessa áætlun mun stefnda ekki hafa skrifað og tilkynnt að hún ætlaði að vinna að bættri heilsu og líðan með því að fara í batasetur Suðurlands sem ekki mun hafa orðið af.
Fundir félagsmálanefndar stefnanda 25. ágúst og 29. september 2015
Stefnda mætti á fund félagsmálanefndar stefnanda 25. ágúst 2015 ásamt móður sinni og D vini sínum. Stefnda greindi frá aðstæðum sínum og hvaða aðstoðar hún hafi leitað eftir að dómur Hæstarétt féll. Þá liggur frammi í málinu áætlun sem gilda átti frá 19. september 2015 til 24. febrúar 2016. Áætlun þessa undirritaði stefnda ekki. Þar kemur fram að á vistunartíma barnsins sé unnið að því að leggja grunn að frekari þroska barnsins, svo sem málþroska og almennum félagsþroska. Þá kemur fram að markmið vistunar sé einnig að stefnda vinni að aukinni foreldrahæfni og bættri heilsu meðan á vistun barnsins standi.
Á fundi félagsmálanefndar stefnanda þriðjudaginn 29. september 2015 var mál stefndu tekið fyrir. Þar kemur fram, eins og áður er rakið, að stefndu hafi verið boðið að skrifa undir áætlun um meðferð máls í júní 2015 eftir að dómur féll í máli hennar í Hæstarétti. Segir í fundargerð að stefnda hafi ekki talið sig geta skrifað undir áætlunina og hafi ekki viljað vinna að því að bæta forsjárhæfni sína í samvinnu við barnavernd. Í september 2015 hafi stefndu aftur verið boðið að undirrita áætlun, en stefnda hafnað því og hvorki viljað samþykkja að leita sér aðstoðar með andleg og líkamleg vandamál sín né að sækja uppeldisnámskeið. Framangreindar áætlanir liggja frammi í málinu og hefur markmið þeirra verið rakið hér að framan.
Fundur félagsmálanefndar stefnanda 2. febrúar 2016
Mál stefndu var aftur tekið fyrir á fundi félagsmálanefndar stefnanda 2. febrúar 2016. Í greinargerð M félagsráðgjafa til nefndarinnar kemur fram að frá því dómur Hæstaréttar gekk þann 24. júní 2015 hafi stefnda ekki verið í samstarfi við barnavernd. Var það mat félagsráðgjafans að stefnda hafi hvorki sýnt fram á bætta forsjárhæfni né hafi hún framkvæmt þá hluti sem hún hafi rætt um að gera. Í lokin kemur fram það mat félagsráðgjafans að ljóst sé að staða stefndu og afstaða sé sú sama og hún var þann 24. júní 2015.
Á framangreindum fundi félagsmálanefndar var stefndu og lögmanni hennar kynnt að til athugunar væri að grípa til forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga. Stefnda hafi greint frá því að hún væri komin á örorkustyrk, búin að hitta sjúkraþjálfara í eitt skipti og fengið tíma hjá sálfræðingi fyrir sig og barnið. Kvaðst stefnda reiðubúin til að mæta á öll námskeið sem talið væri að hún þyrfti á að halda. Þá segir í fundargerðinni að kynnt hafi verið fyrir stefndu það mat nefndarinnar að nauðsynlegt væri að barnið vistist lengur utan heimils til að meta hvernig stefndu gangi í þeim úrræðum sem hún sæki, en að mati nefndarinnar hafi lítil breyting orðið á högum stefndu. Lagði stefnda til að vistun barnsins yrði framlengd um einn mánuð en á þeim tíma gæti nefndin séð að hún væri að bæta sig. Niðurstaða fundarins varð hins vegar sú að fela lögmanni stefnanda að krefjast þess að stefnda yrði svipt forsjá barnsins með vísan til 29. gr. barnaverndarlaga. Eins og áður er rakið var stefna í máli þessu útgefin þann 17. febrúar 2016, viku áður en vistunartími barnsins samkvæmt dómi Hæstaréttar rann út.
Upplýsingar frá ung- og smábarnavernd í janúar 2016.
Samkvæmt ódagsettum upplýsingum frá ung- og smábarnavernd, sem ráða má af efni bréfsins og fylgiskjölum að hafi verið ritaðar eftir 28. janúar 2016, kemur fram að barnið hafi komið illa út í 4ja ára þroskaskimun 9. apríl 2015, fengið 32 stig af 100 á Brigance þroskaskimun, þar sem lágmark sé 58 stig miðað við aldur barnsins. Sérstaklega hafi barnið komið illa út varðandi málskilning, orðaforða og málnotkun. Einbeiting hafi verið lítil og engin þolinmæði. Í endurtekinni þroskaskimun 28. janúar 2016 hafi barnið fengið 78 stig af 100 á sama skala, þar sem lágmark fyrir aldur barnsins sé 80 stig. Við prófið hafi barnið talað í heilum setningum þó beyging orða hafi verið ábótavant, barnið hafi verið mun skýrmæltari og orðaforði aukist mikið. Þó vanti enn aðeins upp á málskilning og magnhugtök en í því sé unnið bæði heima fyrir og í leikskóla. Í lokin segir: „Miklar framfarir hafa orðið hjá henni síðan í apríl 2015, en mikilvægt er að halda áfram markvissri örvun þar sem B er enn aðeins undir viðmiðunarmörkum á vissum sviðum BRIGANCE.“
Upplýsingar frá leikaskóla í febrúar 2016
Í bréfi leikskóla, dagsettu 25. febrúar 2016, kemur fram að ekki sé annað að merkja en að barninu líði vel, það komi glatt í leikskólann og fari heim glatt að degi loknum. Breytingar síðustu tvo mánuði séu þær að barnið sé orðið lítið í sér, stundum óöruggt og reiðist fljótt ef á móti blási, t.d. í fataklefanum. Það sé eins og barnið sé ekki alltaf í jafnvægi, en auðvelt sé að tala það til. Fram kemur að barnið hafi tekið eðlilegum framförum í félags- og líkamlegum þroska og gangi t.d. mjög vel í hreyfingu í sal. Þá hafi barninu farið fram í málþroska, orðaforði hafi aukist jafnt og þétt, setningar lengst þó þær séu ekki rétt uppbyggðar. Engar útlitslegar breytingar sé að sjá, barnið sé hraust en oftar pirrað. Barnið fari eftir fyrirmælum og hegðun sé góð. Dagurinn gangi yfirleitt mjög vel, aðbúnaður varðandi fatnað í lagi og barnið standi vel félagslega í leikskólanum. Þá er gerð grein fyrir mætingum í leikskóla frá 1. september 2015 til 26. janúar 2016 og þar kemur fram að barnið hafi mætt alla daga í skólann.
Upplýsingar frá talmeinafræðingi og leikaskóla í mars 2016
Í greinargerð talmeinafræðings, dags. 15. mars 2016 kemur fram að barnið hafi komið í fyrsta tíma til sérfræðingsins þann 13. janúar 2015. Þá hafi málskilningur barnsins verið slakur, svo hafi virst sem það skyldi ekki að hlutir hefðu nafn. Hafi málskilningur mælst 56 (meðaltal 100) og máltjáning 68 (meðaltal 100). Nú ári síðar hafi framfarir verið stöðugar, hægt og bítandi fram á við. Frá síðustu jólum hafi bæst við mörg orð, barnið orðið öruggara að tala, muni eftir orðum og þá leiðrétti barnið málfar sitt. Þó sé tilfinning barnsins fyrir setningauppbyggingu enn sáralítil og því sé það afar illskiljanlegt, einnig vanti smáorð og hugtök. Málskilningur barnsins sé því enn bágborinn. Í lokin segir. „Núna erum við að vinna með hugtök – að nota þau í setningum, skilja þau og segja þau rétt. Ekki hefur verið gert endurmat á málþroska hennar en hún er ennþá afar slök og langt undir meðaltali jafnaldra–enda eru öll börn á fljúgandi ferð í málþroska á þessum árum og hún þyrfti að fara á ljóshraða til að ná þeim.“
Þá liggja frammi i málinu upplýsingar frá leikskóla, dagsettar 30. mars 2016, úr svokallaðri heilsubók barnsins. Þar er skráð heilsufar, hæð, þyngd, lífsleikni, hreyfigeta, næring, svefn og færni í listsköpun. Skráð sé í bókina tvisvar á ári, vor og haust. Fram kemur að skráningu vorið 2016 sé lokið. Barninu hafi farið mikið fram í næringu og sjálfshjálp og samsvari geta hennar aldri. Sama sé að segja um félags- og ímyndunarleik. Barnið eigi auðvelt með allar hreyfingar og samhæfing góð. Þá samsvari geta barnsins í listsköpun hennar aldri. Í framangreindum upplýsingum frá leikskólanum er einnig gerð grein fyrir svokallaðri TRAS skráningu, þ.e. skráningu málsþroska. Barnið uppfylli þroskaþætti samleiks og félagsfærni miðað við aldur. Sama gildi um athygli/einbeitingu. Þá sé barnið á góðri leið varðandi tjáskipti og samskipti. Barnið sé komið vel á veg miðað við aldur í málskilningi, málvitund, en framburður sé í samræmi við aldur sem og orðaforði. Loks kemur fram að barnið sé komið vel af stað með setningamyndun.
Matsgerð hins dómkvadda matsmanns, dags. 20. apríl 2016
Eins og áður er rakið var N sálfræðingur dómkvödd í máli þessu til að leggja mat á hæfi stefndu til að fara með forsjá dóttur sinnar. Í matsgerðinni er bakgrunnur stefndu rakin. Hafi stefnda lýst æsku sinni sem erfiðri og leiðinlegri eftir að stjúpfaðir hennar flutti inn á heimilið, en hann hafi verið drykkfelldur. Stefnda hafi lýst einelti í skóla frá 6. eða 7. bekk, sem hafi lýst sér í stríðni. Vegna vanlíðunar hafi hún leiðst út í óreglu, byrjað að drekka 13 ára, reykja 14 ára og neytt fíkniefna um nokkurra mánaða skeið þegar hún var 16 ára, en á þeim tíma hafi hún verið í sambandi við barnsföður sinn. Grunnskólanám hafi gengið erfiðlega sem og að mæta í skóla. Hún hafi lokið 10. bekk en gengið illa á samræmdum prófum, verið nokkra mánuði í framhaldsskóla en síðan flutt á [...]. Atvinnusaga stefndu er stutt og andlegt og líkamlegt heilsufar slæmt að hennar eigin sögn. Kemur fram að stefnda hafi ekki mætt vel í Birtu starfsendurhæfingu og hafi þriggja ára endurhæfing ekki skilað aukinni færni. Getið er um eina heimsókn stefndu á bráðamóttöku geðsviðs LSH í apríl 2015 í kjölfar hinnar tímabundnu forsjársviptingar.
Í matsgerð er gerð grein fyrir núverandi aðstæðum stefndu. Hún leigi 2ja herbergja íbúð á [...], sé í vinasambandi við D sem dveljist oft á heimili stefndu. Að mati hins dómkvadda matsmanns hafi stefnda sinnt barninu vel í umgengni sem matsmaður var viðstaddur á heimili stefndu. Tengsl mæðgnanna, sem séu ástrík, séu augljós. Nú sé stefnda á tímabundinni örorku og hafi fjárhagsstaða hennar batnað við það. Fram kemur að barnið er í umgengni hjá stefndu eina helgi í mánuði auk þess sem stefnda sæki barnið einu sinni í viku á leikskóla og fylgi í fimleika. Stefnda hafi greint matsmanni frá því að hún fari í sjúkraþjálfun einu sinni til tvisvar í viku og taki lyf við þunglyndi og kvíða, auk bakflæðislyfja. Hún stundi einnig sund og kveðst vera tilbúin til að sækja námskeið, t.d. í matreiðslu, framandi menningu og tungumálum. Hins vegar hafi hún ekki neinn áhuga á að þiggja aðstoð frá þeim sem hafi lagt líf hennar í rúst, þ.e. barnavernd. Hún hafi prófað að leita sér aðstoðar vegna sinna vandamála en kæri sig ekki um það lengur. Fram kemur að foreldrar hennar séu hennar helstu stuðningsaðilar, samband þeirra sé gott og þau ræði daglega saman í síma. Þá heimsæki hún fjölskyldu D reglulega. Fram hafi komið í viðtölum matsmanns við stefndu að hún ætli að fá tíma hjá barnasálfræðingi fyrir barnið þegar það komi aftur til hennar í maí til að barnið geti unnið úr þeirri reynslu að hafa verið tekið frá móður sinni. Þá hafi hún keypt ferð til Danmerkur í lok maí fyrir sig, barnið og D. Hún sé nú að undirbúa ferðalagið og barnið hlakki mikið til að fara í flugvél, dýragarð og leiktæki. Önnur framtíðaráform stefndu sé að flytja í stærri íbúð, jafnvel að flytja frá Árborg til að losna við barnavernd þar. Hún stefni að því að losna af örorku eftir tvö ár og fara þá í nám eða vinnu. Stefnda lýsti mjög neikvæðri upplifun sinni af barnavernd og starfsmönnum hennar. Taldi hún sig enga þörf hafa fyrir að mæta á námskeið um uppeldi, enda hafi henni ætíð gengið mjög vel að sjá um barnið.
Í matsgerð kemur fram að stefnda hafi á greindarprófi mælst á mörkum greindarskerðingar. Á sjálfsmatsmælikvarða lýsi stefnda verulegum þunglyndiseinkennum, alvarlegum kvíða og vægri streitu. Í greiningarviðtali vegna persónuleikaraskanir hafi komið fram mikil einkenni og uppfylli stefnda skilmerki fyrir forðunar-, passiv-, aggressive- og jaðarpersónuleikaraskanir. Það styðji saga hennar og samskipti við meðferðaraðila. Stefnda reyni að daga sig í hlé, hún bregst illa við gagnrýni eða neikvæðu áliti annarra, sýnir mótþróa gagnvart því sem henni er upp á lagt, þykist vera til samvinnu en sé það svo ekki. Hún eigi erfitt með að hafa stjórn á tilfinningum sínum sem sveiflist öfganna á milli og undir álagi verði stefnda tortryggin og mjög utan við sig. Þá segir orðrétt í matsgerðinni: „Slök greind torveldar skilning og innsæi A. Viðvarandi vanlíðan gerir henni einnig erfitt fyrir að höndla álag og kröfur. Í geðlægð dregur einnig úr virkni og frumkvæði og þunglyndir foreldrar svara síður þörfum barna sinna, hvort sem er líkamlegum, þroskatengdum eða tilfinningalegum. Saman kalla þessi þættir á að A njóti mikillar aðstoðar, stuðnings og leiðbeiningar við uppeldi, sérstaklega barns með sérþarfir. Persónugerð A hindrar hana hins vegar í að taka við ráðleggingum og stuðningi fagmanna.“
Í samantekt matsmanns um barnið segir. „Áhyggjur hafa lengi verið af þroska og aðbúnaði B hjá móður sinni og barst fyrsta tilkynning þar að lútandi þegar hún var fjögurra mánaða gömul. Var A leiðbeint meðal annars varðandi næringu, umönnun exems, örvun þroska, daglega rútínu og öryggisþátta á heimili en án nægjanlegs árangurs. Athuganir sem gerðar hafa verð á B af hjúkrunarfræðingum í ungbarnavernd, sálfræðingi leikskóla og talmeinafræðingum sýna að þroski B, sérstaklega málþroski, er slakur. Hún þarf á mikilli og markvissri þjálfun og örvun að halda. Eftir vistun stúlkunnar í fóstri hefur hún samkvæmt gögnum frá heilsugæslu, leikskóla og talmeinafræðingi tekið mjög miklum framförum í þroska þó svo að hún eigi enn langt í land með að ná viðmiðum fyrir sinn aldurshóp. Aðbúnaður B og mætingar í leikskóla bötnuðu mikið þegar hún fór í fóstur og stúlkan var sögð afslappaðri, hraustlegri og í betri rútínu og jafnvægi en áður. Hún hefur þó einnig verið viðkvæm, grátgjörn og pirruð í leikskólanum eftir að hún fór í fóstur.“
Fyrir matsmann voru lagðar fimm matsspurningar.
Í fyrsta lagi, hvort stefnda sé hæf til að fara með forsjá barnsins. Sem svar við fyrstu matsspurningu rekur matsmaður sex atriði sem hann segir mikilvæg í fari foreldra við mat á hæfi þeirra. Í fyrsta lagi ást, þ.e. nauðsyn náinna og ástríkra tengsla foreldris við barn sem séu sýnileg, einlæg og tjáð með orðum. Í svari matsmanns kemur fram að augljóst sé að stefndu þykir mjög vænt um barnið og vilji vernda það og annast. Tengsl þeirra séu hlý og ástrík, barnið leiti til stefndu bæði eftir nánd og aðstoð og stefnda tali fallega til barnsins og sýni henni umhyggju. Í öðru lagi vernd og öryggi, þ.e. að foreldri sýni staðfestu, stöðugleika og ábyrgð á barninu í þeim tilgangi að verja það fyrir hættum og óþægindum. Foreldri þurfi að uppfræða barnið um afleiðingar tilteknar háttsemi sem og leiðbeina barninu um viðbrögð við hættum. Fram kemur að þrátt fyrir að stefndu sé öryggi barnsins hugleikið og hún ræði um ýmsar forvarnir sem hún ætli að kenna barninu, t.d. hættur í umferðinni, varðandi ókunnuga, áfengi og vímuefni, er það skoðun matsmanns að stefnda virðist ekki gera sér grein fyrir hvers konar aðgæslu barnið þurfi. Þannig hafi barnið oft verið eitt á fótum meðan stefnda svaf og athugasemdir hafi verið gerðar um að barnið gæti farið sér að voða á svölunum. Þegar barnið var fjögurra ára hafi það leikið sér eftirlitslaust úti fram á kvöld. Stefnda hafi ekki getað skapað sterka rútínu í lífi barnsins, mætingar í leikskóla hafi verið óreglulegar og þess ekki gætt að barnið fengi nægilegan svefn. Í þriðja lagi líkamleg umönnun og atlæti, þ.e. viðunandi húsnæði, mataræði, þrifnaður, fatnaður, heilsuvernd og efnahagur. Matsmaður kveður núverandi heimili stefndu vera sæmilega snyrtilegt og aðstaða barnsins góð. Þó megi sjá af gögnum málsins að svo hafi ekki alltaf verið, en gerð hafi verið athugasemd við fæðusamsetningu barnsins, misbrestur hafi verið á heilsuvernd barnsins og stefnda hafi, þrátt fyrir vísbendingar um þroskaseinkun og áminningar heilsugæslu, mætt of seint með barnið í 2½ árs skoðun. Í fjórða lagi örvun og hvatning, þ.e. að viðurkenna og þekkja barnið á ólíkum þroskastigum og mikilvægi hvatningar. Matsmaður segir stefndu skorta innsýn í þroska og þroskafrávik barnsins og afleiðingar þeirra, þ.e. sérþarfir barnsins. Þá hafi stefnda hafnað áliti og mati sérfræðinga á þörfum barnsins, neitað að leita aðstoðar fyrir barnið, ekki farið að ráðleggingum og æfingum sem lagðar hafi verið fyrir stefndu að nota heima fyrir. Þá hafi stefnda ekki mætt á greiningar- og skilafundi og ekki lagt áherslu á að barnið mæti á leikskóla þar sem það naut mikillar þjálfunar. Hafi stefnda í viðtali við matsmann greint frá því að hún fari eftir eigin innsæi við uppeldi og örvun barnsins og telji sig fullfæra til að ákveða hvaða þjónustu hún sæki fyrir barnið. Í fimmta lagi stuðningur, þ.e. að foreldri styðji barnið, efli sjálfstæði þess og aðstoði það ef það ræður ekki við verkefni eða samskipti. Foreldri þurfi því að setja sig í spor barnsins og skilja að það hugsar öðruvísi en foreldrið. Matsmaður kveður stefndu hafa miklar áhyggjur af líðan barnsins í fóstrinu. Hún styðji ekki við barnið með því að tala með jákvæðum hætti um fósturheimili og veru barnsins þar heldur virðist frekar ýta undir hugmyndir um að barninu líði illa hjá fósturforeldrum sínum, þ.e. föðurforeldrum. Óvarlegar umræður um fyrirhugaða Danmerkurferð fjölskyldunnar og um að barnið sé á leiðinni aftur heim til stefndu séu til þess fallnar að valda barninu vanlíðan og streitu að óþörfu fari mál þetta á annan veg en stefnda ætlar. Með þessu vilji stefnda vel, hún telji sig vera að hughreysta barnið en sýnir með þessu slakt innsæi í stöðu barnsins og skort á skilningi á aðstæðum þess. Í sjötta lagi fyrirmynd, þ.e. að kenna barni, bæði með leiðbeiningum og eigin hegðun, mannasiði, hegðun og samskipti. Matsmaður telur stefndu að mörgu leyti góða fyrirmynd. Hún sýni barninu hlýju, kærleik og athygli, sé reglusöm á vín og hafi ágæta framkomu. Hins vegar sé hún að öðru leyti slök fyrirmynd. Vísar matsmaður til þess að stefnda reyki, sé ekki í vinnu, eigi mjög erfitt með að taka á vandamálum sínum, skorti stöðugleika í daglegu lífi, úthald til að breyta hlutum, eigi í miklum erfiðleikum með samskipti og skorti innsæi til að þiggja aðstoð og leiðbeiningar sem hún þurfi á að halda. Með vísan til framangreindra þátta svarar matsmaður fyrstu spurningu í matsbeiðni, þ.e. hvort stefnda sé hæf til þess að fara með forsjá barnsins með eftirfarandi hætti: „Af ofantölu má vera ljóst að forsjárhæfi A er alvarlega skert.“
Í öðru lagi svaraði matsmaður því hvort ætla megi að daglegri umönnun og uppeldi eða samskiptum stefndu og barns hennar verði alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri barnsins og þroska fari það á ný í umsjá stefndu, sbr. a-lið 29. gr. barnaverndarlaga. Matsmaður segir stefndu að mörgu leyti hafa sinnt daglegri umönnun barnsins vel. Barnið hafi verið vel klætt og snyrtilegt og notið ástríkra tengsla. Hins vegar hafi annað gengið verr, þ.e. þættir er varða öryggi. Alvarlegast sé þó að stefnda hafi ekki sinnt þroskaþörfum barnsins. Þá segir: „Á þeim tíma sem liðinn er síðan B fór í fóstur hefur A ekki aukið foreldrahæfni sína markvisst á neinn hátt, en hún lýsir því staðfastlega yfir að hún muni ekki leita sér neinnar meðferðar, ráðgjafar eða leiðbeiningar varðandi uppeldi eða umönnun stúlkunnar.“
Í þriðja lagi hvort ætla megi að stefnda ráði við að veita barninu þann stuðning og aðhald sem það þarf, sérstaklega m.t.t. þroskafrávika sem barnið búi við, sbr. b-lið1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga í matsbeiðni. Í svari matsmanns kemur fram að í gögnum málsins komi fram að barnið sé með alvarleg frávik í þroska og þurfi mikla þjálfun og aðstoð. Þrátt fyrir miklar framfarir síðastliðið ár sé barnið enn eftirbátur jafnaldra sinna og hafi þörf fyrir mikla áframhaldandi örvun og þjálfun. Vísar matsmaður til þess að í heimsókn hennar til þeirra mæðgna hafi matsmaður ekki orðið var við neina markvissa örvun stefndu á máli barnsins. Þá liggi fyrir að þrátt fyrir mikinn stuðning þegar barnið bjó hjá stefndu hafi ekki tekist að fá stefndu til að sinna greiningum, málörvun heima, mætingum í sérkennslu í leikskóla né talkennslu. Þá segir: „Verður að draga það alvarlega í efa að A hafi síðan öðlast innsæi í vanda B eða mikilvægi þess að hún fái hámarksþjálfun til að minnka skerðingu hennar til framtíðar.“
Í fjórða lagi hvort líkamlegri og/eða andlegri heilsu barnsins eða þroska hennar sé hætta búin fari barnið á ný í umsjá stefndu, sbr. d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Í svari matsmanns segir: „Eins og fram hefur komið hefur A ekki sýnt innsæi í þroskavanda stúlkunnar né mikilvægi þess að hún fái þær greiningar, þjálfun fagmanna og örvun heima sem þarf. Matsmaður verður því að telja að þroska B sé hætta búin í umsjá hennar.“
Í fimmta lagi annað það sem matsmaður telur máli skipta vegna framtíðarskipan forsjár barns stefndu. Þar segir í svari matsmanns: „Matsmaður vill leggja áherslu á að tengsl mæðgnanna eru góð og samskipti þeirra kærleiksrík. Þó svo A hafi ekki valdið því að sinna daglegri umönnun og þroskaþörfum barnsins svo viðunandi væri telur matsmaður mikilvægt að tengslum þeirra verði vel við haldið.“
Stefnda telur að sú mynd sem dregin sé upp í máli þessu í málavaxtalýsingu í stefnu og gögnum málsins sem stafa frá barnavernd sé einhliða og hlutdræg. Vísar stefnda til þess að hún hafi m.a. glímt við kvíða, þunglyndi og félagsfælni um árabil, en náð betri tökum á líðan sinni í seinni tíð. Þá mótmælir stefnda því að orsakasamband sé milli framfara barnsins í þroska og þess að það hafi verið vistað utan heimilis. Varðandi fullyrðingar um að stefnda hafi ekki viljað samstarf við barnaverndaryfirvöld þá upplifi stefnda samskiptin öðruvísi og telur stefnda að ekki hafi verið hlustað á óskir hennar og tillögur um aðstoð. Þess í stað hafi hún annað hvort átt að samþykkja tiltekna aðstoða eða fá enga. Þá hafnar stefnda því að hún hafi hafnað samstarfi við barnaverndaryfirvöld á fundi þann 2. febrúar sl. Vísar stefnda til þess að þó hún telji sig ekki þurfa eins mikla aðstoð og leiðbeiningar og stefnandi telur, og hafi ekki áður nýtt sér að fullu slíka aðstoð, þýði ekki sjálfkrafa að hún geti ekki nýtt sér slík úrræði nú, og vísar stefnda í þessu sambandi til þess að stefnandi hafi boðið áframhaldandi vistun barnsins utan heimilis á fundinum 2. febrúar sl.
Meðal gagna máls þessa er bréf innanríkisráðuneytisins, dagsett 18. apríl 2016, en með því var stefndu veitt gjafsóknarleyfi fyrir héraðsdómi vegna máls þess.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína um að stefnda verði varanlega svipt forsjá barnsins á a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Telur stefnandi að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu og barnsins hafi verið verulega ábótavant meðan hún hafði barnið í daglegri umsjá sinni. Þá telur stefnandi fullvíst að líkamlegri, andlegri heilsu og þroska barnsins sé hætta búin sökum vanhæfni stefndu. Stefnda virðist ekki gera sér grein fyrir alvarleika þeirra þroskafrávika sem barn hennar glími við. Stefnda hafi hvorki tekið stuðningi eða leiðbeiningum um örvun barnsins heima fyrir né séð um að barnið fengi nauðsynlega meðferð hjá fagaðilum. Á meðan barnið hafi verið í umsjá stefndu hafi ítrekað verið reynt að fá hana til þess að sækja meðferð fyrir barnið hjá talmeinafræðingi og sinna góðri mætingu í leikskóla en þar hafi barnið fengið einnar klukkustundar sérkennslu hvern dag. Þá hafi stefndu verið leiðbeint um örvun barnsins heima fyrir sem stefnda hafi ekki virst ná að sinna.
Fyrir liggi að barnið hafi tekið miklum framförum eftir að það fór í fóstur. Þó sé það enn undir viðmiðum og því ljóst að mikilvægt sé að halda áfram vinnu með barnið. Þrátt fyrir að stefnda hafi í upphafi þessa árs farið að vinna í sínum málum sé ljóst að langt sé í land og óvíst að árangur verði af þeirri vinnu þannig að foreldrahæfni hennar batni, enda sé aðstaða hennar að þessu leyti óbreytt. Frá því afskipti hófust af málefnum barnsins hafi engin breyting orðið á forsjárhæfni stefndu þrátt fyrir að henni hafi verið boðin öll tiltæk úrræði til stuðnings.
Á grundvelli alls framangreinds og með hagsmuni barnsins að leiðarljósi er það mat stefnanda að nauðsynlegt sé að svipta stefndu forsjá barnsins, svo hægt verði að veita því áfram viðunandi aðstæður til uppeldis og þroska.
Um lagarök vísar stefnandi til barnaverndarlaga, barnalaga og laga um meðferð einkamála, eftir því sem við eigi.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda vísar til þess að þó talið yrði að forsjárhæfni stefndu væri alvarlega skert telji stefnda að forsjársvipting sé ekki nauðsynleg þar sem það samræmist betur hagsmunum barnsins að vera hjá stefndu með viðeigandi stuðningi. Um skilyrði forsjársviptingar segir að stefnda telji skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga ekki vera uppfyllt. Varðandi a-lið áðurnefndar greinar segir að ekki verði lagður sá mælikvarði á, að einhvers staðar séu uppeldisástæður betri en hjá stefndu. Þannig myndi það ekki ráða niðurstöðunni þótt talið yrði fullsannað að barnið hefði það jafnvel betra þar sem það er í fóstri en hjá stefndu. Til að svipta foreldri forsjá þurfi daglegri umönnun að vera verulega ábótavant. Ósannað sé að slíkt eigi við um stefndu. Í niðurstöðu matsmanns sé eingöngu byggt á eldri gögnum varðandi getu stefndu og ályktað svo að getan sé hin sama í dag. Ekkert tillit virðist tekið til þess að aðstæður og líðan stefndu sé mun betri í dag en fyrir um ári síðan, jafnvel þó hún hafi ekki farið á tiltekin námskeið eða annað slíkt. Að mati stefndu sé niðurstaða matsmanns harla lítið rökstudd hvað þetta varðar og ekki hægt að byggja forsjársviptingu á svo veikum grundvelli.
Varðandi d-lið 29. gr. barnaverndarlaga telur stefnda að skilyrði ákvæðisins sé ekki fullnægt. Eins og áður varðandi a-lið virðist sem hinn dómkvaddi matsmaður byggi á gömlum upplýsingum en framkvæmdi ekki nýtt mat. Ekkert tillit sé tekið til þess að stefnandi hafi að eigin frumkvæði óskað eftir að gera meðferðaráætlun sem stefnandi hafi lesið upp úr á fundi félagsmálanefndar 2. febrúar sl. Þessari áætlun hafi stefnda aldrei hafnað þó svo hún hafi gert ágreining um tímalengd vistunar utan heimilis. Matsmaður svari því ekki hvort hætta sé á ferðum fyrir þroska barnsins ef það færi til stefndu að lokinni meðferðaráætlun þeirri sem stefnandi hugðist bjóða henni ef niðurstaðan hefði orðið sú að barnið yrði vista í allt að eitt ár til viðbótar.
Þá vísar stefnda til 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, meðalhófsreglunnar, 2. málsliðar 1. mgr. 2. gr. og 5. mgr. 4. gr. laganna. Með vísan til þessara ákvæða skuli samkvæmt barnaverndarlögum aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum ef lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Stefnanda hafi því borið skylda til að fara ekki fram á forsjársviptingu nema það væri algerlega hafið yfir allan vafa að önnur úrræði væru gagnslaus. Vísar stefnda í þessu sambandi til þess að stefnandi hafi sjálfur á fundinum 2. febrúar sl., talið að það kynni að koma að gagni að stefnda gengist undir tiltekin stuðningsúrræði á meðan barn hennar væri áfram vistað utan heimilis í allt að eitt ár í viðbót. Því hafi stefnanda borið að velja fremur það úrræði að krefjast úrskurðar dómsstóls um vistun utan heimilis í allt að eitt ár á grundvelli 28. gr. barnaverndarlaga fremur en fara fram með mál þetta. Þar sem það hafi ekki verið gert er það mat stefndu að stefnandi hafi brotið gegn málsmeðferðarreglu barnaverndarlaga og slíkt eigi að leiða til sýknu. Loks vísar stefnda til þess að barnið sé ekki í hættu fái stefnda lokatækifæri til að nýta sér stuðning og bæta sig í uppeldishlutverkinu á meðan á vistun utan heimilis stefndur.
Um lagarök vísar stefnandi til barnaverndarlaga, barnalaga, einkum 2., 4. og 29. gr. laganna og 12. gr. stjórnsýslulaga. Krafa um málskostnað styðst aðallega við 60. gr. barnaverndarlaga.
Skýrslutöku fyrir dómi
Stefnda, A, kvaðst fyrir dómi ekki vera sammála því að forsjárhæfni hennar væri alvarlega skert og að hún hafi ekki innsæi í þroskavanda barnsins. Auðvitað gæti hún bætt sig að einhverju leyti en ekki sé um að ræða alvarlega hluti. Hún kvaðst ekki þurfa aðstoð eða hjálp frá barnavernd, enda ekkert væst um þær mæðgur í gegnum árin. Þá væri þægilegra að fá hjálp frá fjölskyldunni. Hún hafi hugsað vel um barnið og sé góð móðir. Þó hún hafi ekki alltaf staðið sig vel hafi hún alltaf gert sitt besta. Þá þætti henni óþægilegt þegar annað fólk segi henni hvernig hún ætti að gera hlutina. Barnavernd hafi ekki unnið með henni og hvers vegna ætti hún þá að vinna með barnavernd. Sérstaklega aðspurð hvort hún myndi þiggja aðstoð frá barnavernd kvaðst stefnda alveg geta gert það, en hún taldi sig ekki vera í þörf fyrir slíka aðstoð. Í dag sé hún búin að læra mikið, hún elski barnið sitt og vilji því eingöngu það besta. Fram kom að móðir stefndu væri helsti ráðgjafi stefndu við uppeldi barnsins.
Stefnda kvaðst hafa unnið að því að bæta líkamlega heilsu sína en taldi sig ekki þurfa aðstoð sálfræðings enda hafi slík þjónusta ekki mikið hjálpað sér. Hún kvaðst hafa leitað eftir aðstoð vegna barnsins og farið eftir leiðbeiningum lækna en þó hafi það komið fyrir að ávísað hafi verið á barnið lyfi sem hún hafi ekki viljað gefa því eftir að hún hafi kynnt sér leiðbeiningar með lyfinu. Stefnda kvaðst ekki hafa viljað fara með barnið til talmeinafræðings fyrr en eftir viðræður við sérkennara barnsins. Þá hafi hún ekki viljað ofgera barninu enda hafi það verið í góðum höndum hvað þetta varðar í leikskólanum. Stefnda lýsti því hvernig hún hafi örvað barnið heima fyrir og taldi hún sig fullfæra til þess að sinna því hlutverki.
Stefnda greindi frá því að barninu liði nú illa og gráti mikið þegar stefnda skili því eftir umgengni. Hún viti vel að hún eigi ekki að ræða við barnið um að vistunartíma sé að ljúka og um fyrirhugaða Danmerkurferð, en hvað geti hún annað gert þegar hún horfi upp á vanlíðan barnsins. Þá kvaðst hún merkja breytingar á barninu til hins verra, t.d. í leik. Hún ætli því að fara með barnið til sálfræðings til að vinna úr þessari reynslu. Aðspurð um þá fullyrðingu í matsgerð, að hún hafi á þeim tíma sem barnið hafi verið vistað hjá ömmu sinni ekki bætt forsjárhæfni sína, sagðist stefnda ekki geta bætt forsjárhæfni sína eins og staðan sé núna enda barnið ekki í hennar umsjá. Hún sjái ekki hvernig eigi hún að sýna fram á það. Hún fylgi allri dagskrá barnsins og aðstaða barnsins á heimilinu sé mjög góð. Margt hafi breyst og ítrekaði stefnda að henni líði betur en fyrir um ári síðan. Varðandi framtíðina kvaðst stefndu langa til að fara í nám, helst að verða leikskólakennari, en ef það gangi ekki þá að fara að vinna. Stefnda kvaðst vita að barnið sé eftir á í tali og þurfi aðstoð. Hún þekki sérþarfir barnsins og viti að það þurfi örvun á þessu sviði og því geti hún vel sinnt, en nú sýni barnið framfarir. Nánar aðspurð kvað hún vanda barnsins fyrst og fremst tengjast framburði, barnið geti sagt öll orð en beygingar séu stundum rangar og þá leiðrétti hún barnið. Miðað við jafnaldra sé dóttir hennar að þessu leyti líklega á pari við önnur börn. Þá sé það algengt í föðurætt barnsins að börn byrji ekki að tala fyrr en við 5 ára aldur og þetta sé allt að koma.
Vitnið H, félagsráðgjafi hjá barnavernd stefnanda, kvaðst hafa haft með málefni stefndu að gera í kjölfar tilkynningar í ársbyrjun 2014 fram í ágúst sama ár. Hún kvaðst hafa komið inn á heimili stefndu vikulega í rúman mánuð umrætt sumar og dvalið í 30-60 mínútur. Vitnið kvaðst eftir þann tíma hafa greint tengsl milli stefndu og barnsins, en fundist þau vera meira systkinatengsl en tengsl móður við barn. Nánar aðspurt kvað vitnið barnið hafa leitað jafnt til sín og móður í fyrstu heimsókn vitnisins. Stefnda sjálf hafi viljað ráðgjöf og stuðning með hægðavandamál barnsins en að öðru leyti hafi hún talið sig standa sig vel í uppeldishlutverkinu. Á þessum tíma hafi það verið mat vitnisins að stefnda þyrfti stuðning vegna eigin heilsu og við að sinna daglegum þáttum sem snéru að barninu.
Vitnið E, félagsráðgjafi hjá barnavernd stefnanda, kvaðst hafa haft með málefni stefndu að gera frá ágústmánuði 2014 fram í nóvember 2015. Fljótlega hafi komið í ljós að barnið hafi ekki búið við þroskavænlegar uppeldisaðstæður og verið á eftir í þroska. Stefnda sé góð við barnið og tengsl þeirra ágæt, en hún eigi erfitt með að setja mörk og fylgjast með öryggi barnsins og hún hafi veitt barninu nauðsynlega örvun. Komið hafi fyrir að stefnda hafi orðið tvísaga, t.d. sagst alltaf vakna með barninu en svo síðar greint frá því að barnið væri svo mikið krútt, hafi vaknað á undan henni og sett kakó upp um alla veggi eða farið niður að elta kisu. Þá hafi barnið verið eitt á trampólíni út í garði við heimili þeirra en stefnda réttlætt það og sagst hafa fylgst með barninu af svölum íbúðarinnar sem sé á þriðju hæð. Komið hafi í ljós að stefnda ætti erfitt með að skilja leiðbeiningar, t.d. mikilvægi þess að barnið færi í talþjálfun. Var það skoðun vitnisins að stefnda hafi hvorki viljað mæta með barnið í tímana né skilið mikilvægi þess að barnið mætti. Þá hafi stefnda ekki viljað þiggja ráð frá barnavernd, t.d. ekki talið sig hafa þörf fyrir að fara á uppeldisnámskeið eftir að barnið fór í vistun, og vísað til þess að hún færi sínar eigin leiðir í uppeldismálum. Vitnið kvaðst hafa reynt til þrautar að fá stefndu til samvinnu en án árangurs. Þetta hafi komið skýrt fram þegar gera hafi átt áætlun um meðferð máls í þeim tilgangi að efla foreldrahæfni stefndu eftir að barnið fór í vistun. Það eina sem stefnda hafi verið tilbúin að gangast undir hafi verið að fara í sjúkraþjálfun. Hún hafi ekki verið tilbúin til samstarfs nema á sínum eigin forsendum.
Vitnið ítrekaði þá skoðun sína að aðstoð og stuðningur við stefndu hafi verið fullreyndur. Þar hafi ráðið mestu að stefnda hafi ekki verið til samvinnu þó svo hún hafi samþykkt tilteknar aðgerðir, s.s. tilsjón á heimilinu. Þá hafi hún ekki sinnt því nægilega að styrkja sig og bæta andlega líðan og ekki verið til samvinnu um að efla foreldrahæfni sína og taka leiðsögn. Reynt hafi verið að mæta stefndu miðað við hennar forsendur, t.d. með því að einfalda einstaka þætti ráðgjafar og leiðbeininga þannig að stefnda ætti auðveldara með að skilja, en án árangurs. Aðspurt hvort sá háttur sem stefnda hafi viðhaft í uppeldi barnsins hafi skaðað barnið ítrekaði vitnið að stefnda hafi ekki gætt nægilega að öryggi barnsins og ekki áttað sig á mikilvægi talþjálfunar í leikskóla og hjá talmeinafræðingi. Af þessu kvaðst vitnið hafa haft áhyggjur. Að mati vitnisins hafi verið um að ræða vanrækslu, ekki hafi verið um einstök tilvik að ræða.
Vitnið I, BA í sálfræði og starfsmaður stefnanda, sinnti tilsjón á heimili stefndu á tímabilinu frá septembermánuði 2014 þar til barnið fór í vistun í febrúarlok 2015. Þá kvaðst vitnið hafa sinnt tilsjón frá því úrskurður Héraðsdóms Suðurlands féll þar til Hæstiréttur dæmdi í málinu og farið í óboðað eftirlit inn á heimili stefndu í janúar sl. Fram kom hjá vitninu að augljós tengsl séu milli stefndu og barnsins en vitninu fannst um að ræða systratengsl enda hafi stefnda að mati vitnisins ekki hæfni til að sinna grunnþörfum barnsins. Í því sambandi nefndi vitnið að barnið leitaði jafnt til stefndu og þeirra sem gestkomandi væri á heimilinu hverju sinni. Tilsjón með heimili stefndu hafi falist í um klukkustundar dvöl vitnisins á heimilinu alla virka daga og kvaðst vitnið hafa komið á öllum tímum dagsins. Hins vegar hafi ekki verið um að ræða samfelldan tíma þar sem stefnda hafi afboðað fjölda tíma eða u.þ.b. helming þeirra tíma sem til stóð að veita. Vitnið kvaðst fljótlega hafa áttað sig á því að stefnda ætti erfitt með að skilja leiðbeiningar, bæði leiðbeiningar vitnisins, lækna og annarra sérfræðinga. Þá hafi stefnda ítrekað orðið tvísaga varðandi uppeldi barnsins, t.d. varðandi svefntíma. Það sem reynst hafi erfiðast í vinnu með stefndu hafi verið afstaða stefndu sem taldi sig ekki þurfa aðstoð og verið ákveðin í að fara ekki eftir leiðbeiningum. Engu hafi skipt frá hverjum leiðbeiningar hafi komið, frá vitninu, leikskólanum, læknum eða hjúkrunarfræðingum. Stefnda hafi svarað öllu játandi en síðan farið sínar eigin leiðir. Vitnið kvaðst hafa haft áhyggjur af barninu sem hafi verið mikið á eftir í málþroska og taldi vitnið að málörvun heima fyrir hafi ekki verið sinnt og stefnda borið fyrir sig að barnið væri svo þreytt. Vitnið kvaðst hafa haft áhyggjur af heilsu barnsins og hafi stefnda ekki sinnt mataræði og exemi barnsins í samræmi við ráðleggingar lækna. Einnig kvaðst vitnið hafa haft áhyggjur af öryggi barnsins, t.d. hafi barnið verið eitt vakandi á heimilinu, haft aðgengi út á svalir og farið út úr íbúðinni meðan stefnda svaf. Þá hafi heimilið verið illa þrifið og mikið af rusli á svölum. Aðspurt kvaðst vitnið hvorki hafa merkt breytingar á forsjárhæfni stefndu eftir að dómur Héraðsdóms Suðulands féll þann 2. júní 2015 né þegar vitnið hafi komið inn á heimili stefndu í janúar sl. Að mati vitnisins hafi stefnda hvorki innsýn í eigin vanda né vanda barnsins. Hún telji sig ekki þurfa á aðstoð að halda og berjist í raun á móti. Kvaðst vitnið litlu hafa áorkað að því undanskildu að fylgja stefndu á skilafundi og til lækna og ung- og smábarnaverndar, sem að sjálfsögðu hafi verið mikilvægt.
Vitnið M, félagsráðgjafi hjá barnavernd stefnanda, kvaðst hafa tekið við máli stefndu í lok nóvember 2015, þ.e. eftir að barnið fór í vistun. Stefnda hafi komið í fyrsta viðtal 3. desember sama ár. Í því viðtali og viðtölum eftir áramót hafi stefnda ekki viljað undirgangast áætlun um meðferð máls og í raun hafnað samvinnu við barnavernd. Vitnið kvaðst hafa verið viðstödd lok umgengni og hafi skil á barninu gengið vel andstætt því sem stefnda hafi greint vitninu frá. Vitnið kvað lengda umgengni stefndu við barnið frá október/nóvember 2015 í þrjá mánuði, þ.e. í fimm daga aðra hvora helgi, ekki hafa reynst barninu, sem hafi orðið órólegt, vel. Þá hafi forsjárhæfni stefndu ekki aukist á þessum tíma. Í janúar 2016 hafi stefnda sent vitninu tölvupóst og óskað eftir að gera áætlun. Kvaðst vitnið hafa útskýrt fyrir stefndu að samhliða áætlun stæði til að framlengja vistun barnsins utan heimilis í þeim tilgangi að auka forsjárhæfni stefndu. Þetta hafi stefnda ekki viljað samþykkja og dregið til baka fyrri yfirlýsingu sína. Í framhaldinu hafi verið farið með málið fyrir félagsmálanefnd stefnanda þann 2. febrúar sl. Á fundinum hafi stefndu staðið til boða að samþykkja áframhaldandi árs dvöl barnsins utan heimilis, samning um umgengni og áætlun um meðferð máls. Um hafi verið að ræða lokatilraun til að fá stefndu til samstarfs. Þetta hafi verið nauðsynlegt þar sem stefnda hafi þá í átta mánuði sem barnið var í vistun ekki viljað skrifa undir áætlun. Stefnda hafi á fundinum lýst sig tilbúna til að samþykkja vistun í einn mánuð í viðbót en nefndin talið það ófullnægjandi. Vitnið taldi lítið hægt að gera fyrir stefndu meðan hún hafni aðstoð. Taldi vitnið fullreynt að stefnda geti ekki nýtt sér aðstoð barnaverndar þar sem skorti á allan samstarfsvilja stefndu. Einn mánuður til viðbótar, eins og stefnda vildi samþykkja, hefði engu breytt þar um.
Vitnið kvaðst nýlega hafa rætt við vistunarforeldra barnsins, þ.e. föðurforeldra þess. Þar hafi komið fram að barnið væri rólegra eftir að tímalengd umgengni hafi verið færð í upprunalegt horf, tengsl milli fósturforeldra og barnsins væru að styrkjast og þá borði barnið nú allan mat. Hins vegar gangi samstarf við stefndu ekki nægilega vel. Fram kom að vistunarforeldrarnir væru tilbúnir til að hafa barnið áfram.
Í vitnisburði L, talmeinafræðings, kom fram að þegar barnið byrjaði hjá vitninu í meðferð í janúar 2015 hafi það hvorki hlustað né skilið það sem sagt hafi verið við það. Vitnið, sem sinnt hefur talþjálfun barnsins vikulega síðastliðið ár, kvað málþroska barnsins vera slakan og langt á eftir miðað við aldur þó svo framfarir hafi verið stöðugar síðastliðið ár. Fram kom hjá vitninu að enn skorti þó verulega á, t.d. skilji barnið ekki mun á eintölu og fleirtölu auk þess sem mikið þurfi að vinna í hugtökum. Barnið þurfi kennslu og mikla þjálfun næstu árin enda komi slakur málskilningur fram í miklum námserfiðleikum þegar grunnskólaganga hefst. Aðspurt nánar um stöðu barnsins kom fram að betra hefði verið ef barnið hefði byrjað mun fyrr í þjálfun. Þá sé örvun frá fæðingu frá móður eða staðgengli hennar börnum mjög mikilvæg. Kvaðst vitnið hafa fengið á tilfinninguna að aldrei hafi verið talað við barnið, en vanörvun lýsi sér í því að börn hlusti ekki. Hins vegar tók vitnið fram að meðfædd sértæk málþroskaröskun lýsti sér með sama hætti. Barnið hafi þó ekki borið þess merki að vera vanrækt tilfinningalega. Vitnið svaraði því til að sú meðferð sem barnið fái nú muni hafa afgerandi áhrif á málþroska þess en nauðsynlegt sé að þeirri vinnu sé fylgt eftir heima og í leikskóla, og svo sé raunin nú. Fram kom að amma eða afi barnsins komi með barnið í tíma og fylgist með meðferðinni.
Vitnið O, leikskólakennari og deildarstjóri, sem hefur verið kennari barnsins frá haustinu 2014, kvað samskipti við stefndu ekki hafa verið mikil og stefnda oft ekki mætt á fundi á vegum skólans. Barnið hafi í upphafi lítið sem ekkert talað og fengið sínu fram með gráti. Vitnið taldi stefndu ekki hafa innsýn í þörf barnsins fyrir málörvun og barnið borið þess merki að ekki hafi verið talað við það. Undanfarið hafi barnið tekið miklum framförum bæði í félags- og málþroska. Þá hafi, eftir að barnið flutti til ömmu sinnar, virst koma regla á svefn, næringu og mætingar barnsins í leikskólann. Vitnið kvaðst hafa merkt mun verri hegðun barnsins þegar umgengni stefndu hafi tímabundið verið lengd.
Vitnið P, leikskólakennari og sérkennari, kvað samstarf við stefndu hafi verið lítið og svo virst sem stefnda hafi forðast samskipti. Þá hafi hún mætt illa á fundi á vegum skólans. Vitnið kvað stefndu hafa sýnt lítil viðbrögð þegar rætt hafi verið við hana um mikilvægi þess að örva barnið og taldi vitnið að stefnda hafi ekki alltaf skilið það sem við hana var sagt. Á árinu 2013 hafi barninu liðið mjög illa, verið með hægðatregðu og almennt vansælt og þurft á þeim tíma mikla umönnun og huggun. Barnið hafi verið illa statt í málþroska en byrjað hafi verið að vinna markvisst með þá þætti fyrri hluta ársins 2014. Fyrstu orðin, t.d. mamma, hafi barnið sagt um þriggja ára aldur. Í dag sé félagsþroski barnsins eðlilegur en hún sé á eftir í málþroska. Miklar breytingar hafi orðið á útliti barnsins eftir að vistun hófst. Fyrir þann tíma hafi barnið borið þess merki að vera annað hvort illa sofið eða vannært.
Vitnið K, sálfræðingur, gerði forsjárhæfnismat á stefndu að frumkvæði stefnanda um áramótin 2014 og 2015 og staðfesti vitnið matið. Vitnið kvaðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að forsjárhæfni stefndu væri verulega skert. Frá unga aldri barnsins hafi verið um að ræða líkamlega vanrækslu og við 4 ára aldur hafi málþroski barnsins verið mjög slakur. Á þeim tíma sem vitnið vann að matsgerðinni hafi legið fyrir að stuðningur barnaverndar skilað ekki árangri og stefnda haft litla getu til að nýta sér þá þjónustu sem í boði var. Aðspurt taldi vitnið að frekari tilboð um stuðning væru ekki líkleg til að skila árangri og vísað vitnið í því sambandi til persónuleika stefndu en í prófum hafi komið fram að meðferðarheldni stefndu væri slök. Kvað vitnið það hafa verið niðurstöðu sína að sambland af þáttum sem varði greindarfarslega stöðu stefndu og persónuleika geri það að verkum að ekki væri líklegt að framangreint myndi breytast. Þrátt fyrir góðan orðaforða sé almennur skilningur og dómgreind stefndu mjög slök. Þá eigi hún mjög erfitt með að skilja orsök og afleiðingu og taldi vitnið ólíklegt að það breytist. Vitnið tók fram að slök greind ein og sér komi ekki í veg fyrir að hægt sé að veita stuðning. Hins vegar hafi komið fram í persónugerð stefndu að hún sé jákvæð gagnvart breytingum og aðstoð, en hún vilji velja sjálf hvaða aðstoð hún þiggi. Í góðu lagi sé að þiggja innkaupakort en ef hún þurfi að leggja eitthvað á sig sé staðan önnur. Stefnda sé mjög sinnulaus gagnvart heimilinu og sjálfri sér. Að mati vitnisins hefði það komið í ljós, eftir þá vinnu sem í gangi hafi verið þegar matið fór fram, ef hægt hefði verið að auka líkamlega virkni og vísaði stefnda í því sambandi til endurhæfingar og vinnu tilsjónarmanns á heimilinu.
Varðandi tengsl stefndu og barnsins sagði vitnið þau vera ástrík en hins vegar hafi stefnda sagt að barnið væri besta vinkona sín. Að mati vitnisins greini stefnda ekki milli þess að vera móðir, sem setji mörk, og vinkona. Hún hafi því ekki verið í foreldrahlutverki þrátt fyrir að hafa verið góð og hlý við barnið.
Faðir stefndu, R, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvað stefndu hafa staðið sig vel sem móðir, hún örvi barnið og sýni því hlýju. Nú sé staða stefndu betri, bæði fjárhagslega og heilsufarslega. Aðspurt kvað vitnið rétt fyrir stefndu, óski hún þess, að þiggja aðstoð barnaverndar. Móðir stefndu, S, bar með sama hætti um betri stöðu stefndu og um samband þeirra mæðgna. Taldi vitnið að stefnda hefði á tímabili, þegar hún var langt niðri, þurft aðstoð barnaverndar, nánar tiltekið fjárhagsaðstoð og e.t.v. smá aðstoð með þetta daglega. Hins vegar hafi stefnda ekki þurft aðstoð við uppeldi barnsins. Aðspurt hvort vitnið myndi ráðleggja stefndu að vera í samvinnu og þiggja stuðning frá barnaverndaryfirvöldum svaraði vitnið því játandi, ef þörf væri á, en þó ekki með sama hætti og verið hafi. Þó svo vitnið teldi stefndu ekki þurfa aðstoð kvaðst vitnið ætla að hvetja stefndu til að þiggja aðstoð, ef það væri nauðsynlegt að mati barnaverndar, en vitnið tók fram að stefnda þurfi ekki að fara á uppeldisnámskeið. Vinur stefndu, D, bar með sama hætti um samband stefndu og barnsins. Þá kvaðst hann myndi hvetja stefndu til að skoða stuðning sem barnavernd kynni að bjóða henni. Vitnið T, amma D, lýsti sambandi stefndu og barnsins með sama hætti og foreldrar stefndu. Vitnið hafi kynnst stefndu fyrir ári síðan og hitti hana nú daglega og stundum með barnið. Mikil breyting hafi orðið á stefndu á þessum tíma. Hún sé ekki lengur til baka og leiti nú ráða hjá vitninu, sem er leikskólakennari að mennt, varðandi uppeldismál.
Vitnið og matsmaðurinn N, sálfræðingur, staðfesti matsgerð sína fyrir dómi. Fram kom að matsmaður hafi hitt stefndu þrisvar meðan á matsferlinu stóð. Að mati vitnisins hafi stefnda hvorki ráðið við daglega umönnun barnsins, þroskaþjálfun þess né nauðsynleg viðbrögð við slökum málþroska. Fram kom að tengsl þeirra mæðgna séu hlý og ástrík. Hins vegar séu geðtengsl stefndu og barnsins án efa flókin þar sem stefnda ali á kvíða barnsins. Kvað vitnið það verulega athugunarvert hvernig stefnda hafi alið á óánægju barnsins með fóstrið, það hafi myndbandsskeið af viðræðum stefndu við barnið sýnt. Þá séu umræður stefndu við barnið um fyrirhugaða Danmerkurferð þeirra mæðgna ábyrgðarleysi og sýni að stefnda hafi engan skilning á stöðu málsins. Aðspurt um samskipti stefndu og barnsins kvaðst vitnið hafa veitt því athygli að barnið hafi leitað mikið til vitnisins meðan á heimsókn vitnisins á heimilið stóð. Aðspurt hvort vitnið sjái skerta forsjárhæfni stefndu koma niður á barninu vísaði vitnið til gagna sem sýna fram á að miklar framfarir hafi orðið í þroska barnsins eftir að það fór í fóstur. Sama gildi um betra útlit barnsins sem bendi til að það hafi ekki fengið viðeigandi næringu og nægjanlega hvíld meðan barnið var í umsjá stefndu. Þá hefði bil milli þroska barnsins og jafnaldra aukist enn frekar ef ekki hefði verið gripið inn í af hálfu barnaverndar.
Aðspurt um ástæður þess að stefnda fari ekki eftir leiðbeiningum kom fram hjá vitninu að það mætti bæði rekja til greindarfarslegrar stöðu stefndu og persónuleikagerðar. Vegna greindarfarslegrar stöðu eigi stefnda erfitt með að skilja leiðbeiningar og þá sé það einkenni í persónuleika stefndu að hún hafni ráðum og leiðbeiningum. Stefnda sé þess fullviss að hún sé góður uppalandi, treysti á eigið innsæi og að hún finni á barninu hvað gera skuli. Þetta hafi komið fram í viðtölum vitnisins við stefndu og á persónuleikaprófi þar sem stefnda hafi skorað yfir mörk hvað varðar þrjár greiningar. Stefnda lýsi því að illa hafi verið komið fram við hana, hún hafi ekki verið metin að verðleikum og fái ekki stuðning. Þessi viðhorf standi í vegi fyrir að stefnda geti farið eftir leiðbeiningum og þegið ráðgjöf. Taldi vitnið frekar ólíklegt að breyting yrði að þessu leyti. Stefnda kenni öðrum um það sem aflaga hafi farið í lífi hennar en líti aldrei í eigin barm. Því sé mjög erfitt að aðstoða hana og hjálpa. Þessi skortur á innsæi hafi komið fram á prófi sem matsmaður lagði fyrir stefndu, en þessa prófs sé ekki getið í matsgerð, þ.e. á þann veg að ekkert hafi verið að barninu fyrr en það fór í fóstur þar sem því líði illa. Vitnið kvað stefndu ekki bera skynbragð á þarfir barnsins. Aðspurt um málþroska barnsins kvaðst vitnið ekki hafa séð að stefnda ynni markvisst að málörvun barnsins meðan á heimsókn vitnisins stóð. Skýring stefndu á stöðu barnsins að þessu leyti sé sú að erfiðleikar séu í málþroska í föðurætt barnsins.
Vitnið taldi stuðningsnet stefndu hvorki öflugt né traust. Aðspurt um hvort reynt hafi verið til þrautar að veita stefndu stuðning taldi vitnið ástæðu þess að málið væri í þeim farvegi sem það nú er, vera höfnun stefndu á allri samvinnu. Aðspurt hvort áframhaldandi stuðningur myndi skila framförum að þessu leyti vísaði vitnið aftur til greindarfarslegrar stöðu stefndu, sem sé tornæm, og persónuleikagerðar. Vitnið kvaðst hafa reiknað með að stefnda lýsti því yfir þegar þær hittust að hún væri tilbúin til samvinnu og þiggja stuðning í ljósi stöðu málsins og þess að barnið sé nú búið að vera í vistun í um ár. Hins vegar hafi stefnda í viðtölum við vitnið verið gallhörð á því að þiggja enga aðstoð, eins og vitnið orðaði það. Stefnda hafi lýst yfir vilja til að fara á matreiðslu- eða hugleiðslunámskeið en ekki vilja uppeldisráðgjöf. Í viðræðum þeirra hafi komið fram að stefnda ætlaði ekki að taka á móti neinu frá þeim sem hafi rústað lífi hennar og hafi þar átt við barnavernd, vera tilbúna til að gera það sem hún hafi áhuga á. Forsjárhæfni mín er glæsileg, ég ætla ekki að þiggja neitt frá barnavernd hafi stefnda sagt við vitnið. Við slíkar aðstæður sé erfitt að sjá hvernig þetta eigi að ganga eða hvað gera hefði átt frekar til stuðnings stefndu. Aðspurt hvort auðveldara gæti verið fyrir stefndu að sinna þörfum barnsins með hækkandi aldri taldi vitnið svo ekki vera. Vegna takmarkana stefndu geti krefjandi verkefni við uppeldi barns með mikil frávik, og að því er virðist með ADHD einkenni, orðið mjög erfið með hækkandi aldri barnsins. Þá taldi vitnið úrræði stefndu við ögun barnsins engan veginn í lagi.
Vitnið ítrekaði að stefnda hafi ekki innsæi, taki ekki leiðbeiningum og barnið sé í hættu ef þroskafrávikum þess verði ekki sinnt. Gögn málsins sýni að stefnda hafi ekki viljað mæta með barnið í leikskóla, þroskamat og talkennslu og þess vegna sé þroski barns í hættu í umsjá stefndu. Samvinna til að auka forsjárhæfni eftir að dómur Hæstaréttar gekk, hafi ekki gengið. Var það mat hins sérfróða vitnis, í ljósi áðurnefndrar stöðu stefndu, að aðstoð við stefndu við uppeldi barnsins hafi verið fullreynd.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2008, eiga börn rétt á vernd og umönnun í samræmi við aldur sinn og þroska. Þá ber foreldrum að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín sem best hentar hag og þörfum þeirra. Ber foreldrum að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Samkvæmt 12. gr. barnaverndarlaga er það meðal annars hlutverk barnaverndarnefnda að hafa eftirlit með aðbúnaði, hátterni og uppeldisskilyrðum barna og meta sem fyrst þarfir þeirra barna sem ætla má að búi við óviðunandi uppeldisaðstæður. Þá er barnaverndarnefndum skylt að aðstoða foreldra við að gegna forsjárskyldum sínum, sem og að grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt lögunum ef nauðsyn ber til.
Meginregla barnaverndarlaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, er að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Í því felst að aðrir hagsmunir, svo sem hagsmunir foreldra, verða þar af leiðandi að víkja ef þeir stangast á við hagsmuni barnsins. Í 7. mgr. 4. gr. laganna segir að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þá skulu barnaverndaryfirvöld jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga skal því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða að slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.
Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefnda verði svipt forsjár dóttur sinnar sem er rúmlega fimm ára gömul. Kröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi til a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dómnum ber því í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort fyrirliggjandi gögn, skýrslur og framburður vitna fyrir dómi í máli þessu sýni fram á að daglegri umönnun og uppeldi B, eða samskiptum stefndu og barnsins, sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri barnsins og þroska, sbr. a- lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Einnig ber dómnum að taka afstöðu til þess hvort fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu barnsins eða þroska hennar sé hætta búin sökum þess að stefnda sé augljóslega vanhæf til að fara með forsjá, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni stefndu sé líkleg til að valda barninu alvarlegum skaða, sbr. d-lið áðurnefndrar lagagreinar.
Stefnda hefur tvisvar á skömmum tíma gengist undir forsjárhæfnismat. Hið fyrra vann K sálfræðingur að frumkvæði stefnanda á tímabilinu frá byrjun nóvember 2014 til janúarloka 2015 og komst K að þeirri niðurstöðu að forsjárhæfni stefndu væri verulega skert. K gaf skýrslu fyrir dómi í máli þessu og gerði grein fyrir mati sínu á stöðu stefndu á þeim tíma sem hún vann matið. Síðara matið vann hinn dómkvaddi matsmaður, N sálfræðingur, í mars og aprílmánuði á þessu ári. Komst N að þeirri niðurstöðu að forsjárhæfni stefndu væri alvarlega skert. Í málavaxtalýsingu hér að framan er ítarlega gerð grein fyrir niðurstöðu framangreindra mata.
Fyrir liggur að upphaf afskipta barnaverndaryfirvalda má rekja til tilkynningar sem barst barnavernd stefnanda þegar barnið var fjögurra mánaða gamalt eða í júlímánuði 2011. Þann 9. júlí 2014 undirritaði stefnda fyrstu áætlun um meðferð máls. Í framhaldinu var unnið markvisst að stuðningi við stefndu í foreldrahlutverkinu af hálfu stefnanda. Þeir sem að málum stefndu hafa komið eru allir sammála um að stefnda sýndi barninu ást og umhyggju. Á sömu lund voru umsagnir frá leikskóla barnsins. Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns segir að tengsl stefndu og barnsins séu hlý og ástrík og að barnið leitaði til stefndu eftir nánd og aðstoð. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir sem nokkru nemur varðandi klæðnað barnsins en upphaflegar tilkynningar snérust að einhverju leyti um að þrifnaði barnsins væri ábótavant. Þá býr stefnda við öryggi í húsnæðismálum og þar er aðstaða fyrir barnið góð. Þá liggur ekki annað fyrir en að eftir að barnið fæddist hafi stefnda verið reglusöm á vín, hafi ekki neytt fíkniefna, en hún mun reykja.
Hins vegar má ráða af framlögðum skýrslum starfsmanna stefnanda og framburði þeirra fyrir dómi, að þrifum hafi verið ábótavant á heimili stefndu auk þess sem reglufesta og utanumhald varðandi daglegt líf barnsins hafi verið verulega ábótavant, svo sem varðandi mataræði og svefntíma. Einnig þótti skorta á að stefnda veitti barninu það öryggi sem nauðsynlegt var miðað við aldur barnsins. Alvarlegar athugasemdir voru einnig gerðar af hálfu starfsmanna ung- og smávarnaverndar varðandi næringu barnsins og að stefnda hafi ítrekað ekki mætt á réttum tíma með barnið til reglubundinna skoðana. Til að mynda hafi stefnda komið ári of seint með barnið í 2½ árs skoðun. Var það sérstaklega alvarlegt þar sem barnið hafði frá þriggja mánaða aldri vikið frá þyngdarkúrfu og vísbendingar voru um veruleg þroskafrávik. Þá voru vanhöld á mætingum barnsins í leikskóla þrátt fyrir að stefndu mátti bæði vera ljós hin alvarlegu málþroskafrávik barnsins og mikilvægi sérkennslu og örvun sem barnið fékk í leikskóla. Allt eru þetta atriði sem N, dómkvaddur matsmaður, rekur ítarlega í matsgerð sinni, dagsettri 20. apríl sl.
E, M og I, starfsmenn barnaverndar, sem allar unnu að máli þessu og gáfu skýrslu fyrir dómi, bar saman um að mikið hafi skort upp á að stefnda hafi farið eftir þeim áætlunum um meðferð máls sem hún hafi samþykkt og einnig hafi mikið skort á að stefnda hafi almennt sýnt vilja til samstarfs við barnaverndaryfirvöld. Þá lýstu framangreindir starfsmenn og hinn dómkvaddi matsmaður skorti stefndu á innsæi í þarfir barnsins. Bar þeim saman um að stefnda hafi átt erfitt með að skilja leiðbeiningar og ráðgjöf, jafnvel þó svo sérstaklega hafi verið leitast við að einfalda framsetningu. Þá verður ekki annað ráðið af framlögðum gögnum og skýrslum vitnanna fyrir dómi en að verulegrar andstöðu hafi einnig gætt hjá stefndu varðandi þau úrræði og leiðbeiningar sem frá stefnanda komu. Þetta staðfesti N sálfræðingur og dómkvaddur matsmaður í skýrslu sinni fyrir dómi. Vitnið kvað stefndu ekki taka leiðbeiningum og taldi vitnið barnið í hættu ef ekki væri markvisst unnið að því að sinna þroskafrávikum þess. Jafnframt var það skoðun vitnisins að erfitt yrði fyrir stefndu að sjá um uppeldi barnsins með hækkandi aldri þess vegna þroskafrávika barnsins, auk þess sem margt bendi til ADHD einkenna hjá barninu. Á svipaðan veg bar K sálfræðingur fyrir dómi varðandi þann tíma sem hún kom að máli þessu.
Gögn málsins benda til þess að mataræði barnsins hafi á tímabili ekki verið viðunandi með þeim afleiðingum að vöxtur barnsins var hægur og barnið glímdi á tímabili við mikil hægðavandamál. Þá er óumdeilt að B býr við alvarlega málþroskaskerðingu. Hins vegar hefur hún tekið talsverðum framförum að þessu leyti síðastliðið ár, þó svo enn sé langt í land að hún nái jafnöldum sínum að þessu leyti. Kom það skýrt fram í skýrslu L talmeinafræðings fyrir dómi. Kvað vitnið stöðu barnsins hafa verið mjög slæma við upphaf meðferðar í janúar 2015 og hafi barnið hvorki hlustað né skilið það sem sagt hafi verið við það. Nú, rúmu ári síðar, sé málþroski barnsins slakur og langt á eftir miðað við aldur þó svo framfarir hafi verið stöðugar síðastliðið ár. Að mati vitnisins þurfi barnið mikla þjálfun og kennslu næstu árin. Lagði vitnið áherslu á að vikulegir tímar hjá talmeinafræðingi, eins og barnið sæki nú, séu barninu mjög mikilvægir ef þeirri vinnu væri fylgt eftir heima og í leikskóla.
Að mati dómsins liggur fyrir í máli þessu að daglegri umönnun og uppeldi B hafi verið alvarlega ábótavant í höndum stefndu. Mikið vanti einnig á að stefnda hafi innsýn í þroska barnsins, hin alvarlegu málþroskafrávik sem barnið býr við og sérþarfir barnsins að þessu leyti. Jafnframt benda gögn málsins og framburður sérfræðinga fyrir dómi til þess að mikið vanti á að stefnda geri sér grein fyrir mikilvægi þess að barnið fái markvissan stuðning og örvun á því sviði. Í tvígang með tiltölulega stuttu millibili hefur stefnda gengist undir mat á forsjárhæfni og er niðurstaða þeirra svo til samhljóða eins og ítarlega hefur verið rakið hér að framan. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, gagna málsins, niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns og framburða sérfræðinga og starfsmanna stefnanda fyrir dómi, er það mat dómsins að hæfni stefndu til að fara með forsjá B sé alvarlega skert. Þá þykir fyllilega sýnt fram á það í máli þessu að þrátt fyrir markvissan og þéttan stuðning við stefndu í uppeldishlutverkinu hafi stefnda ekki reynst fær um að sinn brýnum þörfum barnsins sem fyrir liggur að eru margvíslegar og þess eðlis að miklu skiptir fyrir framtíðarþroska og uppvöxt barnsins að sé sinnt sem best. Að mati dómsins ræður þar mestu um sinnuleysi stefndu gagnvart ábendingum, ráðum og leiðbeiningum sérfræðinga, sérstaklega hvað snertir hin alvarlegu þroskafrávik barnsins, sem og skortur á innsæi varðandi þarfir barnsins, svo sem mikilvægi örvunar, næringu, öryggi og almenna staðfestu og stöðugleika í daglegri umönnun barnsins. Þykja því uppfyllt skilyrði a- og d- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga í máli þessu.
Í öðru lagi ber dómnum að taka afstöðu til þess hvort unnt hefði verið að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta í máli þessu eða hvort þau úrræði laga og aðgerðir sem stefnandi hefur gripið til hafi verið reyndar án viðunandi árangurs, en stefnda byggir sýknukröfu sína meðal annars á því að krafa stefnanda brjóti í bága við meginreglu um meðalhólf stjórnsýsluréttar, sbr. ákvæði 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísar stefnda til þess að önnur og vægari úrræði en forsjársvipting hafi ekki verið fullreynd, svo sem að óska eftir framlengingu á tímabundinni vistun barnsins utan heimilis, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga. Segir í greinargerð stefndu að á fundi 2. febrúar sl., hafi stefnandi kynnt að það kynni að koma að gagni að stefnda gengist undir tiltekin stuðningsúrræði á meðan barn hennar væri vistað utan heimils í allt að eitt ár til viðbótar. Þetta hafi verið afstaða stefnanda þátt fyrir allt sem á undan hafi gengið og stefnandi tefli fram í máli þessu. Stefnda hafi verið reiðubúin að gangast undir stuðningsúrræði, meðal annars að fara á uppeldisnámskeið, sem hún hafi ekki talið þörf fyrir áður. Hins vegar hafi stefnda ekki verið tilbúin til að samþykkja lengri en mánaðarvistun barnsins utan heimils.
Í kjölfar tilkynningar um slæman aðbúnað B í janúarmánuði 2014 greip stefnandi til markvissra ráðstafana samkvæmt barnaverndarlögum. Í kjölfarið fylgdi hver áætlunin á fætur annarri eins og ítarlega er rakið í málavaxtalýsingu hér að framan, upplýsingaöflun um stöðu barnsins frá leikskóla, ung- og smábarnavernd, auk þess sem barnið gekkst undir rannsókn sálfræðings og talmeinafræðings þar sem fram kom að barnið bjó við veruleg þroskafrávik sérstaklega hvað málþroska varðaði. Í ljósi upplýsinga um slæma stöðu barnsins bæði hvað varðaði líkamlegan þroska og málþroska og skort á reglufestu og daglegri umönnun barnsins var brugðist við því af hálfu stefnanda. Var það gert með því að auka sérkennslu í leikskóla barnsins auk þess sem barnið fékk vikulega tíma hjá talmeinafræðingi. Stefnda skyldi mæta í viðtalstíma hjá félagsráðgjöfum stefnanda sem aðstoðuðu stefndu meðal annars með fjármál og við að ná tökum á eigin lífi auk þess sem stefndu var veittur fjárhagslegur stuðningur til að ná tökum á andlegri og líkamlegri heilsu sinni. Þá var sett inn tilsjón á heimilið í formi ráðgjafar og leiðbeininga til stefndu varðandi uppeldi og aðbúnað barnsins og til að auka virkni stefndu. Varðandi þennan þátt var í upphafi gert ráð fyrir komu tilsjónarmanns inn á heimilið þrjá daga í viku en fljótlega þegar í ljós kom að stefnda var í þörf fyrir mikla aðstoð voru heimsóknir starfsmannsins inn á heimilið fjölgað í heimsóknir fimm sinnum í viku, klukkustund í senn eða eftir þörfum. Þá bar starfsmaðurinn, M, fyrir dómi að hún hafi sinnt starfinu á öllum tímum dags, jafnt kvöld sem morgna auk þess sem stefndu var heimilt að hringja í starfsmanninn ef hún þurfti á að halda. Vitnið M lýsti því fyrir dómi hvernig hún hafi einfaldað sem mest allar leiðbeiningar til stefndu, allt niður í smæstu einingar í þeim tilgangi að koma til móts við stefndu sem hafi átt erfitt með að skilja t.d. leiðbeiningar lækna og hjúkrunarfólks. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að á tímabilinu 11. september 2014 til 21. janúar 2015 hafi ekki náðst sú samfella í tilsjón með heimilinu sem stefnandi hafi stefnt að þar sem stefnda hafi ekki verið til staðar nema í u.þ.b. helmingi þeirra heimsókna sem til stóð að tilsjónarmaður sinnti.
Þar sem framangreind úrræði skiluðu ekki árangri að mati stefnanda var K falið að gera forsjárhæfnismat á stefndu eins og rakið hefur verið hér að framan. Var það niðurstaða K að framangreind úrræði stefnanda væru ekki líkleg til að skila frekari árangri, meðferðarheldni stefndu væri slök og þá gæfu niðurstöður greindarmats, mats á persónuleika stefndu og klínískt mat sérfræðingsins ekki tilefni til að álykta að breyting yrði þar á. Á fundi félagsmálanefndar stefnanda þann 24. febrúar 2015 samþykkti stefnda áætlun um meðferð máls með gildistíma til 21. apríl sama ár, en þar kom fram að tilgangur með áætluninni væri að fullreyna stuðning barnaverndar við stefndu. Samkvæmt gögnum málsins mun lítil breyting hafa orðið á samstarfsvilja stefndu í kjölfarið og mun hún ítrekað ekki hafa sinnt móttöku tilsjónarmanns inn á heimilið. Í kjölfarið, eða þegar þrjár vikur voru liðnar af gildistíma framangreindrar áætlunar var stefnda boðuð á fund félagsmálanefndar stefnanda og í kjölfarið, eða þann 27. febrúar 2015 var gripið til þess að vista barnið utan heimilis samkvæmt 27. gr. barnaverndarlaga í þeim tilgangi að hægt væri að veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu með vísan til b-liðar 1. mgr. 27. gr. laganna. Eins og rakið hefur verið var vistunartími barnsins framlengdur með dómi Hæstaréttar í júní mánuði það ár.
Starfsmenn stefnanda sem gáfu skýrslu fyrir dómi voru þeirra skoðunar að vegna andstöðu stefndu hafi úrræði þau og stuðningur sem stefndu stóð til boða og hún samþykkti, ekki skilað viðunandi árangri. Var það mat vitnanna og félagsráðgjafanna E og M að á þeim tíma sem barnið hafi verið vistað utan heimilis hafi forsjárhæfni stefndu ekki aukist. Stefnda hafi ekki verið til samvinnu og fyrir liggur að hún neitaði ítrekað á þessum tíma að undirrita áætlun um meðferð máls sem öllum var það sameiginlegt að fá stefndu til að vinna markvisst að því að auka forsjárhæfni sína með aðstoð frá stefnanda. Eins og rakið er í kaflanum um skýrslutöku fyrir dómi hér að framan lýsti hinn dómkvaddi matsmaður, N, því í skýrslu sinni að þegar vitnið ræddi við stefndu í mars- og aprílmánuði síðastliðnum hafi stefnda verið gallhörð í því að þiggja enga aðstoð frá stefnanda, eins og vitnið orðaði það. Var það niðurstaða matsmannsins að stefndu skorti innsæi í þroska og þroskafrávik barnsins, stefnda tæki ekki leiðbeiningum og væri eingöngu tilbúin til að gera það sem hún sjálf hefði áhuga á. Að mati hins dómkvadda matsmanns megi rekja ástæður þessa til slæmrar greindarfarslegrar stöðu stefndu og frávika í persónuleikagerð. Var niðurstaða matsmannsins að þessu leyti í samræmi við niðurstöðu K sálfræðings sem einnig mat forsjárhæfni stefndu. Var það mat hins dómkvadda matsmanns að í ljósi alls þessa hafi stuðningur við stefndu í uppeldishlutverkinu verið fullreyndur. Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns, skýrslu hans fyrir dómi og framlögðum greinargerðum starfsmanna stefnanda kemur víða fram skortur stefndu á innsæi bæði á eigin getu sem uppalanda og þarfir barnsins. Þá kom fram hjá hinum dómkvadda matsmanni, sem ræddi við stefndu stuttu fyrir aðalmeðferð máls þessa, að jafnvel eftir allt sem á undan hafi gengið í máli þessu og vistun barnsins utan heimilis frá því í febrúar á síðasta ári, hafi stefnda í samtölum við matsmanninn með afgerandi hætti hafnað allri samvinnu við barnaverndaryfirvöld.
Þó svo gögn málsins beri með sér að úrræði, stuðningur og ráðstafanir stefnanda í þeim tilgangi að styrkja stefndu í foreldrahlutverkinu hafi ekki staðið yfir í langan tíma var um að ræða markvissa og þétta vinnu starfsmanna barnaverndar stefnanda, þ.e. allt frá því stefnda undirritaði í fyrsta sinn áætlun um meðferð máls í júlí 2014 þar til gripið var til aðgerðar samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga í lok febrúar 2015. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, framlagðra gagna málsins og í ljósi andstöðu stefndu sjálfar við að þiggja stuðning og leiðbeiningar barnaverndaryfirvalda, er það mat dómsins að í máli þessu hafi verið sýnt fram á að fullreynd hafi verið önnur og vægari úrræði barnaverndarlaga án viðunandi árangurs áður en til málshöfðunar þessar kom.
B, sem er ung að aldri, er í brýnni þörf fyrir stöðugleika í umhverfi sínu, öruggar uppeldisaðstæður og örvun og utanumhald vegna sérþarfa sinna. Að mati dómsins skortir verulega á innsæi stefndu á framangreindar þarfir barnsins og telur dómurinn að þessum þörfum barnsins geti stefnda ekki sinnt án mikils eftirlits og stuðnings barnaverndaryfirvalda, en fyrir liggur að stefnda hefur ítrekað hafnað afskiptum barnaverndar. Að öllu þessu virtu er það því mat dómsins að það samræmist best hagsmunum B að stefnda verði svipt forsjá barnsins. Verður krafa stefnanda í máli þessu því tekin til greina.
Stefnandi krefst ekki málskostnaðar. Stefnda nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi, dagsettu 18. apríl sl., vegna máls þessa. Greiðist því allur málskostnaður stefndu úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar, Oddgeirs Einarssonar hrl., sem eru hæfilega ákveðin 1.400.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari og dómsformaður kveður upp dóm þennan ásamt sérfróðu meðdómsmönnunum og sálfræðingunum Rögnu Ólafsdóttur og Þorgeiri Magnússyni.
D ó m s o r ð
Stefnda, A , er svipt forsjár dóttur sinnar, B.
Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Oddgeirs Einarssonar hrl., 1.400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.