Hæstiréttur íslands
Mál nr. 130/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Miðvikudaginn 13. mars 2013. |
|
Nr. 130/2013.
|
Annco ehf. (Sævar Þór Jónsson hdl.) gegn Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Í hf. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að óumdeilt væri að krafa Í hf. á hendur A ehf. á grundvelli lánssamnings væri í vanskilum án tillits til þess hvort um hefði verið að ræða lán í erlendum myntum eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Ekki var talið skipta máli þótt A ehf. hefði leitað endurupptöku árangurslausrar fjárnámsgerðar sem var grundvöllur kröfu Í hf. um að A ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. A ehf. var ekki talið hafa sýnt fram á að félagið væri fært um að standa full skil á skuldbindingum sínum sbr. upphafsorð 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. febrúar 2013, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.
Varnaraðili reisir kröfu sína um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila á því að hann eigi kröfu á hendur honum samkvæmt skuldabréfi 15. september 2006 útgefnu til forvera varnaraðila, en skilmálum þess og breytingum á þeim er nánar lýst í hinum kærða úrskurði. Með aðilum er ágreiningur um hvort um sé að ræða skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum eða hvort lánið hafi verið í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Hvað sem því líður er óumdeilt að skuldabréfið er í vanskilum, enda hefur sóknaraðili ekki staðið skil á greiðslum miðað við þann skilning á bréfinu sem hann heldur fram í málinu.
Hinn 16. október 2012 fór að kröfu varnaraðila fram árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila að honum fjarstöddum og er krafa um gjaldþrotaskipti studd við þá gerð, sbr. 1. töluliður 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Engu breytir um heimild til að krefjast gjaldþrotaskipta á grundvelli þeirrar gerðar þótt sóknaraðili hafi eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar leitað endurupptöku gerðarinnar með bréfi til sýslumanns 20. febrúar 2013 þar sem sóknaraðili telji sig nú geta bent á eignir til fjárnáms. Aftur á móti getur sóknaraðili varist kröfu um gjaldþrotaskipti á grundvelli gerðarinnar með því að sýna fram á að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma, sbr. upphafsorð 2. mgr. 65. gr. laganna. Í þeim efnum er alls ófullnægjandi fyrir sóknaraðila að benda á tilteknar fasteignir án þess að upplýsa um verðmæti þeirra eða þær skuldbindingar sem á þeim hvíla. Jafnframt hefur sóknaraðili í engu greint frá tekjum sínum eða hvernig honum sé kleift að efna skuldbindingar sínar. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki leitt í ljós gjaldfærni sína og því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Annco ehf., greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. febrúar 2013.
I.
Með beiðni, dags. 13. nóvember 2012, sem barst dóminum 15. sama mánaðar, krafðist sóknaraðili, Íslandsbanki hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Annco ehf., kt. 571194-2449, Ægisgötu 44, Vogum, yrði tekið til gjaldþrotaskipta með vísan til 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar 29. nóvember 2012 var sótt þing af hálfu beggja aðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 14. janúar sl.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila, um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
II.
Málavextir eru þeir að hinn 16. október 2012 var að beiðni sóknaraðila gert fjárnám varnaraðila, sem lauk án árangurs. Á grundvelli þess lagði sóknaraðili fram beiðni um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Krafa sóknaraðila byggir á skuldabréfi, útgefnu af varnaraðila til Glitnis banka hf., nú sóknaraðila, hinn 15. september 2006. Ber skuldabréfið yfirskriftina „Skuldabréf í erlendum myntum/mynteiningum. Í skuldabréfinu viðurkennir varnaraðili að skulda Glitni banka hf. eftirfarandi erlendar fjárhæðir eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum, sem birtar séu í almenntri gengistölu Glitnis banka hf., eða í íslenskum krónum, þ.e. 23.012, bandaríska dollara, 6.105 bresk pund, 21.517 svissneska franka, 2.031.832, japönsk jen og 36.211 evrur. Vextir af láninu skyldu vera Euribor-vextir fyrir þann hluta höfuðstóls sem var í evrum, en Libor-vextir fyrir aðrar myntir, auk 2,5% vaxtaálags.
Samkvæmt gögnum málsins var skilmálum skuldabréfsins breytt tvívegis, fyrst 3. nóvember 2008 og síðar þann 14. maí 2009. Í báðum tilvikum var tiltekið í skjölunum um skilmálabreytingarnar hverjar eftirstöðvar lánsins væru í hverri mynt fyrir sig, þ.e. sömu myntum og getið er um í skuldabréfinu sjálfu.
Sóknaraðili kveður skuldabréfið vera í vanskilum. Samkvæmt gjaldþrotaskiptabeiðninni nema eftirstöðvar lánsins með dráttarvöxtum og kostnaði samtals. 22.063.819 krónum.
III.
Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta á því að uppfyllt séu skilyrði 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá varnaraðila 16. febrúar 2012 að kröfu sóknaraðila og sýslumannsins í Keflavík. Krafa sóknaraðila byggi á skuld samkvæmt skuldabréfi í erlendum myntum. Skuldabréfið sé í vanskilum og varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær komi í gjalddaga, eða verði það innan skamms. Sóknaraðili telji því að skilyrði gjaldþrotalaga séu uppfyllt og taka eigi bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.
Sóknaraðili kveður varnaraðila byggja kröfu sína um að gjaldþrotaskiptabeiðninni verði hafnað á því að krafan sé byggð á ólöglegu gengisláni og vísi í dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 máli sínu til stuðnings, sem og til 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Sóknaraðili kveðst hafna þessum röksemdum varnaraðila. Um sé að ræða löglegt lán í erlendum myntum. Skuldabréfið beri yfirskriftina „Skuldabréf í erlendum myntum/mynteiningum“ og þá sé fjárhæð lánsins tilgreind í erlendum myntum, ekki íslenskum krónum. Þetta sé síðan ítrekað í tveimur skilmálabreytingum, þ.e. í nóvember 2008 og maí 2009. Skipti engu máli í þessu samhengi þótt andvirði lánsins hafi verið greitt inn á tékkareikning varnaraðila í íslenskum krónum. Sóknaraðili kveðst telja að um sé að ræða löglegt lán í erlendum myntum og 13. og 14. gr. vaxtalaga eigi því ekki við í þessu máli. Lánveiting í erlendum myntum fari ekki gegn ákvæðum vaxtalaga, samanber dóm Hæstaréttar 3. nóvember 2011 í máli nr. 520/2011.
Dómar þeir, sem varnaraðili vísa til, fjalli ekki um lán sambærileg því sem hér sé deilt um. Í báðum tilvikum hafi komið skýrt fram í viðkomandi lánsskjölum að um væri að ræða lán í íslenskum krónum, gengistryggt.
Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu í nokkrum málum síðan að lán sambærileg láni því sem hér er deilt um séu lögleg lán í erlendum myntum. Megi þar nefna dóm Hæstaréttar 27. september 2012 í máli nr. 50/2012.
Um sé að ræða löglegt lán, sem sé í vanskilum og hafi fjárnámi verið lokið hjá varnaraðila, án árangurs, bæði að kröfu sóknaraðila og sýslumannsins í Keflavík. Varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann sé engu að síður gjaldfær. Sóknaraðili telji því að uppfyllt séu skilyrði 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti og að taka beri bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.
Sóknaraðili kveðst vísa til 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, einkum 1. tl. 2. mgr. Hann kveður kröfu um málskostnað byggja á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og að krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Varnaraðili kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og því beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi sóknaraðila.
IV.
Varnaraðili kveðst byggja kröfu sína um að beiðni sóknaraðila, um gjaldþrotaskipti á búi hans, verði hafnað á því að krafa gerðarbeiðanda sé ekki rétt þar sem hún byggi á ólöglegu gengisláni.
Varnaraðili kveðst hafa tekið lán hjá Íslandsbanka hf., áður Glitni hf., í erlendum myntum eins og það sé orðað í skuldabréfinu. Lánið hafi verið til 25 ára lánstíma og hafi borið að endurgreiða það með 300 mánaðarlegum afborgunum. Fyrsti gjalddagi lánsins hafi verið 1. nóvember 2006. Ljóst sé að um hefðbundin lánaviðskipti hafi verið að ræða. Kveðst varnaraðili hafa notað andvirði lánsins til kaupa á fasteignum í Reykjanesbæ.
Varnaraðili heldur því fram að aldrei hafi staðið til að varnaraðili fengi lánið greitt út í erlendum myntum, heldur hafi það verið greitt út í íslenskum krónum. Hafi lánsfjárhæðinni verið ráðstafað inn á reikning nr. 542-26-2449, sem sé innlendur tékkareikningur.
Ljóst sé að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008 hafi sóknaraðili tekið við réttindum og skyldum sem ofangreindu skuldabréfi fylgi af Glitni hf.
Umrædd skuld sé í íslenskum krónum en afborganir og höfuðstóll taki breytingum eftir gengi myntkörfunnar, sem sé samsett er úr japönskum yenum, bandarískum dollurum, breskum pundum, evru og svissneskum frönkum. Vextir af láninu hafi verið libor- og euribor-vextir að viðbættu álagi.
Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa haldið uppi kröfum á hendur sér vegna skuldarinnar samkvæmt bréfinu og reiknað kröfur sínar upp miðað við tilvísaða gjaldmiðla bréfsins. Þannig hafi hann talið kröfu sína hinn 13. nóvember 2012 nema 22.063.819 krónum. Hinn 16. október sl. hafi Sýslumaðurinn í Keflavík gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila, en ekki hafi verið mætt af hálfu varnaraðila við gerðina þar sem hann hafi talið hana ólöglega á grundvelli þess að verið væri að gera fjárnám vegna ólöglegs gengisláns.
Varnaraðili kveðst byggja kröfu sína í málinu á því að veiting lána í íslenskum krónum, sem bundin sé gengi erlendra mynta, sé ólögmæt. Þegar litið sé til 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 sé ljóst að óheimilt hafi verið að binda hið íslenska krónulán öðrum verðbreytingaviðmiðum en vísitölu neysluverðs.
Af ummælum í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um vexti og verðtryggingu megi ljóst vera að löggjafinn hafi með tæmandi talningu ákveðið að eingöngu megi binda lán í íslenskum krónum við vístölu neysluverðs. Í athugasemdum við 13. og 14. gr. laganna í frumvarpinu segi að lagt sé til að „heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, verði felldar niður“. Ennfremur komi fram að „samkvæmt 13. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins, verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“ Sú gengistrygging sem tilgreind sé í umræddu skuldabréfi sé því ekki í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um verðtryggingu hér á landi.
Telja verði óumdeilanlegt að í máli þessu sé um að ræða lán í íslenskum krónum í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt fyrrgreindum rökum hafi því verið ólöglegt að binda verðbreytingaviðmið lánsins við erlenda myntkörfu. Skuldabréfið sé því í raun óverðtryggt og allar greiðslur gerðarþola vegna skuldarinnar byggðar á óheimiluðum uppreikningi lánsins á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar og hafi þær verið ranglega af honum hafðar, sbr. ákvæði 18. gr. fyrrgreindra laga. Ættu ákvæði bréfsins um gengisviðmiðin því að vera ógild enda séu nefnd ákvæði vaxtalaga ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. laganna. Ekki verði samið um grundvöll verðtryggingar sem eigi sér ekki stoð í lögum. Varnaraðili kveðst meðal annars telja að Hæstiréttur hafi staðfest þennan skilning hans með dómum sínum í málum nr. 92 og 153/2010. Það hafi sóknaraðili ekki samþykkt.
Með vísan til ákvæða vaxtalaga hafi sóknaraðila átt að vera það ljóst frá upphafi að umrædd gengistrygging væri ólögmæt og verði hann því að bera hallann af því að það komi í ljós. Varnaraðili hafi verið í góðri trú um að skilmálar samningsins væru í samræmi við lög og góða viðskiptahætti. Ljóst sé að óskýra og íþyngjandi skilmála staðlaðra samninga beri að túlka þeim aðila í óhag, sem hafi samið þá eða látið semja þá. Ljóst megi vera að samningsstaða aðila hafi verið ójöfn enda um sérhæft fjármálafyrirtæki að ræða og skyldur þess enn ríkari en ella að misnota ekki þá aðstöðu sína til þess að ná óeðlilega hagstæðum kjörum fyrir sig gagnvart neytendum.
Samkvæmt öllu framansögðu telji varnaraðili að hafna beri kröfu um gjaldþrot á búi hans.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og samningalaga nr. 7/1936, einkum til 36. gr. og 36. gr. a.-d., auk til almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar. Jafnframt vísar varnaraðili til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi málskostnað vísar gerðarþoli til 129. og 130 gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Málsaðilar deila um hvort varnaraðili hafi með lánssamningi 15. september 2006 gengist undir skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum eða hvort lánið hafi verið í íslenskum krónum og fjárhæð þess bundin við gengi þeirra gjaldmiðla sem greindir voru í samningnum. Heldur sóknaraðili því fram að um sé að ræða erlent lán og því falli það ekki undir 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, samanber dóma Hæstaréttar 3. nóvember 2011 í máli nr. 520/2011 og 27. september 2012 í máli nr. 50/2012. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að lánið sé í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla, en slík skuldbinding fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur áðurgreindra lagagreina, samanber dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92 og 153/2010.
Ekki verður fallist á það með varnaraðila að skuldabréf það, sem um er fjallað í máli þessu, sé sambærilegt skuldabréfum þeim sem um ræðir í tilvitnuðum dómum frá 16. júní 2010. Í umræddum lánssamningi frá 15. september 2006, sem ber yfirskriftina „Skuldabréf í erlendum myntum/mynteiningum“, kemur skýrt fram að skuldbindingar samkvæmt bréfinu séu í erlendum gjaldmiðlum þar sem fjárhæð skuldar er greind, en hvergi í samningnum er getið um fjárhæð skuldarinnar í íslenskum krónum. Þetta er síðan ítrekað í tveimur skilmálabreytingum frá nóvember 2008 og maí 2009. Þá segir í 5. tölulið skuldabréfsins að skuldari geti óskað eftir breytingu á myntsamsetningu skuldarinnar, þannig að eftirstöðvar hennar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðra erlenda mynt eða mynteiningar, en skuldari hafi hins vegar ekki heimild til fá skuldinni eða hluta hennar breytt úr erlendri mynt eða mynteiningu yfir í íslenskar krónur. Svo sem greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010, samanber og dóma réttarins 3. nóvember 2011 í máli nr. 520/2011 og 27. september 2012 í máli nr. 50/2012, fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn nefndum ákvæðum laga nr. 38/2001. Breytir þá engu þótt andvirði lánsins hafi verið greitt út í íslenskum krónum eða greitt hafi verið af láninu í íslenskum krónum, samanber til hliðsjónar síðastgreinda dóma.
Að framangreindu virtu verður fallist á það með sóknaraðila að um sé að ræða erlent lán en ekki lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla.
Málsástæða varnaraðila um að hann eigi eignir umfram skuldir og að krafa sóknaraðila sé því nægjanlega tryggð, kom fyrst fram við munnlegan málflutning. Gegn mótmælum sóknaraðila telst hún of seint fram komin og kemur því ekki til umfjöllunar í máli þessu.
Með vísan til alls framangreinds ber að fallast á kröfur sóknaraðila og taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.
Í ljósi niðurstöðu málsins er varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Að kröfu sóknaraðila, Íslandsbanka hf., er bú varnaraðila, Anno ehf., kt. 571194-2449, Ægisgötu 44, Vogum, tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.