Hæstiréttur íslands

Mál nr. 26/1999


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Fasteign
  • Líkamstjón


           

Fimmtudaginn 28. október 1999.

Nr. 26/1999.

Heilsustofnun

Náttúrulækningafélags Íslands

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Guðnýju Gunnarsdóttur

(Sigurður Jónsson hrl.)

Skaðabótamál. Fasteign. Líkamstjón.

G féll á blautu gólfi sjúkrastofnunarinnar H þegar verið var að skúra gólfið. Stefndi hún H til greiðslu bóta vegna þess tjóns, sem hún varð fyrir. Þeirri málsástæðu G að H bæri hlutlæga ábyrgð á þeim slysum sem yrðu á sjúklingum stofnunarinnar var hafnað. Þá var talið að slysið yrði rakið til gáleysis G, en ekki til saknæmrar háttsemi starfsmanna H. Var H því sýknað af kröfum G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. janúar 1999. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að skaðabætur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður fyrir báðum dómstigum.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til slyss, sem stefnda varð fyrir 25. janúar 1995, er hún hrasaði í húsakynnum áfrýjanda í Hveragerði, þar sem hún hafði dvalið vegna endurhæfingar um þriggja vikna skeið. Gekk hún í umrætt sinn eftir alllöngum gangi, sem ráða má af framlögðum ljósmyndum að sé 2-3ja metra breiður. Fór hún á þeirri leið framhjá starfsstúlku, sem vann þar við ræstingar, og kveðst hafa fallið í bleytu á gólfinu er hún var komin framhjá henni. Reisir stefnda kröfu sína um skaðabætur á því að nefndur starfsmaður áfrýjanda hafi ekki varað hana við því að gólfið væri blautt og hált, en sérstakrar varúðar sé þörf þegar verið sé að skúra gólf á sjúkra- og endurhæfingarstofnunum. Þá sé jafnframt rétt að áfrýjandi beri hlutlæga ábyrgð á öllum slysum, sem verða á sjúklingum á slíkum stofnunum vegna þeirrar auknu varúðar, sem sé þörf við meðhöndlun þeirra. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu stefndu lögð áhersla á að gólfið hafi verið rennblautt í umrætt sinn og jafnframt að hún hafi ekki fallið í gólfið fyrr en hún var komin um tuttugu metra frá starfsstúlkunni, en svo fjarri henni hafi stefnda ekki mátt búast við bleytu á gólfinu. Eru atvik málsins og afleiðingar slyssins fyrir stefndu nánar rakin í héraðsdómi.

Framkvæmdastjóri áfrýjanda skýrði svo frá fyrir dómi að við þrif á gólfum séu notaðar svokallaðar moppur, sem sé strokið vel rökum yfir gólfin. Síðan sé farið yfir þau aftur með þurrum klútum. Komist bleyta á gólfin sé hún þurrkuð upp jafnóðum. Brýnt sé fyrir öllum starfsmönnum við ræstingar að vara dvalargesti við að ganga eftir blautum gólfum. Kvaðst hann ekki hafa séð rennblaut gólf þarna, heldur verði þau einungis rök við þrif, sem eigi að leiða til þess að hætta á að menn renni til líði hjá svo fljótt, sem kostur sé.

Í skýrslu Jónu Ragúelsdóttur, sem vann við ræstingar í umrætt sinn, kom fram að hún hafi ekki verið búin að strjúka yfir gólfið með þurrum klút, er stefnda féll. Kvaðst hún áður hafa varað stefndu við að ganga yfir blaut gólf, en vildi ekki fullyrða að hún hafi gert það í þetta sinn.

II.

Stefnda styður kröfur sínar hvorki við það að gólfefni hafi verið varhugaverð né að birtuskilyrðum hafi verið áfátt á ganginum, þar sem hún fór um. Koma þessi atriði ekki til álita í málinu.

Stefnda viðurkenndi fyrir dómi að hafa séð Jónu að störfum við ræstingar. Kvaðst hún hafa haldið sínu striki framhjá henni. Þótt hún hafi gert sér grein fyrir að bleyta væri á gólfi nálægt Jónu, hafi hún ekki átt von á henni þar sem hún féll. Við úrlausn málsins verður lagt til grundvallar, að stefnda hafi verið fullfær um að meta slysahættu við þær aðstæður, sem blöstu við henni. Hún var veil í hné og hafði því sérstaka ástæðu til að sýna varfærni, svo sem með því að doka við eða biðja um stuðning yfir þann kafla gangsins, sem unnið var við. Hún hélt hins vegar hiklaust út á blautt gólfið. Hafi hún dregið úr varfærni á þeim stað, er hún féll, í þeirri trú að bleytu gætti þar ekki lengur, gerði hún það á eigin áhættu. Skiptir þá ekki máli hvort gólfið sjálft var þar blautt eða bleyta, sem hún hefur borið á skósólum sínum, hefur valdið því að hún rann til og féll. Er ekki í ljós leitt að nefndur starfsmaður hafi á nokkurn hátt sýnt gáleysi í störfum sínum og er ekki við áfrýjanda að sakast um hvernig til tókst. Skaðabótaábyrgð verður heldur ekki lögð á hann með stoð í hlutlægum bótareglum.

Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefndu. Rétt þykir að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, skal vera sýkn af kröfum stefndu, Guðnýjar Gunnarsdóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 14. desember 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. nóvember sl, er höfðað með stefnu útgefinni 2. desember 1996 af Guðnýju Gunnarsdóttur, kt. 250147-3339, Skáldabúðum, Gnúpverjahreppi, Árnessýslu á hendur Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, kt. 480269-6919, Grænumörk 10, Hveragerði.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 2.001.027 með 2% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga af kr. 1.078.707 frá slysdegi til 22.03.1996, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 2.001.027 frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist málskostnaðar að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hennar hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I.

Hinn 25. janúar 1995 datt stefnandi, sem var í endurhæfingu á Heilsustofnun N.L.F.Í. vegna hægra hnés, á gangi Heilsustofnunarinnar og slasaðist við það á hægra hné. Þegar slysið varð átti stefnandi að baki langa sjúkrasögu viðvíkjandi hægra hné sem rekja má allt til þess að hún varð fyrir áverka á hnénu í bílslysi árið 1979. Hafði hún gengið undir margar aðgerðir á hnénu og var síðasta aðgerðin fyrir slysið gerð á bæklunardeild Landspítalans 28. júlí 1994.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu að henni hafi liðið tiltölulega vel eftir aðgerðina í júlí 1994 og verið að mestu verkjalaus. Henni hafi gengið vel að ganga og hún iðkað liðkunaræfingar heima fyrir. Hinn 3. janúar 1995 hafi hún farið á Heilsustofnun N.L.F.Í. í Hveragerði til frekari styrktaræfinga og endurhæfingar. Þann 25. s.m. hafi hún orðið fyrir því að renna á hálu og blautu gólfi Heilsustofnunarinnar. Við það hafi hún slasast alvarlega, hlotið blæðingar inn á hægra hnéð og rifur á liðpoka. Þann 31. s.m. hafi hún farið í aðgerð hjá Svavari Haraldssyni lækni. Hún hafi síðan verið í áframhaldandi endurhæfingu á Heilsustofnuninni í einn mánuð með litlum árangri.

Um mánaðarmótin mars-apríl 1995 hafi hún runnið í hálku og brotið hægri ökklann. Sérsmíðuð spelka hafi haldið hnénu þannig að hún hafi ekki hlotið áverka á því. Þegar Ríkharður Sigfússon læknir hafi gert á henni aðgerð vegna ökklabrotsins hafi verið ákveðið að gera aðra aðgerð á hægra hnénu þar sem að í ljós hafi komið að áverkar á hnénu eftir slysið á Heilsustofnuninni væru meiri en séð hafði verið í fyrstu. Eftir aðgerðina, sem gerð hafi verið í byrjun júlí 1995, hafi hún verið send í þjálfun hjá sjúkraþjálfara.

Hún hafi verið að jafna sig eftir fyrri aðgerðir og verið orðin tiltölulega góð í hnénu þegar hún lenti í slysinu á Heilsustofnuninni. Þrátt fyrir þær tvær aðgerðir sem hún hafi gengist undir vegna slyssins hafi hún enn töluverð einkenni sem lýsi sér sem verkir við álag, óstöðugleiki, kuldaóþol og bólgur. Fyrir slysið hafi hún unnið öll almenn bústörf á bæ sínum. Eftir slysið geti hún hins vegar einungis unnið léttari störf innanhúss og því hafi hún orðið að selja sinn hlut í búinu. Þannig hafi slysið valdið henni miklum þjáningum og leitt til skertrar starfsorku.

Stefnandi gekkst undir örorkumat hjá Sigurjóni Sigurðssyni lækni og lá niðurstaða hans fyrir þann 11. desember 1995. Niðurstaða hans er sú að við slysið á Heilsustofnuninni hafi stefnandi orðið fyrir starfsorkuskerðingu sem metin sé þannig að:

   Rúmföst í þrjá daga og veik án þess að vera rúmliggjandi í þrjár vikur.

Tímabundið atvinnutjón

100 %

Frá 25.01.-15.10.1995

Varanlegur miski

10 %

Varanleg örorka

10 %

Með kröfubréfi dagsettu 22. mars 1996 fór stefnandi fram á það við stefnda að henni yrði bætt tjón sitt vegna slyssins. Með bréfi lögmanns stefnda dagsettu 15. apríl 1996 var öllum bótakröfum stefnanda hafnað.

Eftir höfðun máls þessa fór tryggingafélag stefnda fram á það að örorkunefnd fjallaði um varanlegt miskastig og örorku stefnanda. Samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar frá 4. ágúst 1998 er varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins frá 25. janúar 1995, metinn 10% og varanleg örorka er metin 10%.

II.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram, að orsakir slyssins megi alfarið rekja til þess að gólf á gangi Heilsustofnunarinnar var blautt og hált þegar stefnandi gekk eftir honum á leið sinni í endurhæfingu á vegum stofnunarinnar. Starfsmaður sem var að skúra gólfið hafi ekki varað stefnanda við því að gólfið væri blautt og hált. Mikillar varúðar sé þörf þegar verið sé að skúra gólf á sjúkra- og endurhæfingarstofnunum og vitað sé að sjúklingar, sem oft séu illa haldnir, eigi þar leið um. Ljóst sé að ekki sé á nokkurn hátt hægt að leggja ábyrgðina á því að stefnandi datt, á hana sjálfa. Því verði að telja að starfsmaður stefnda hafi sýnt af sér gáleysi sem stefndi eigi að bæta á grundvelli skaðabótaábyrgðar vinnuveitanda.

Þá verði einnig að telja eðlilegt að heilsu- og sjúkrastofnanir beri auka ábyrgð á sjúklingum sínum umfram það sem talið er felast í almennu skaðabótareglunni vegna ástands sjúklinganna, sem er oft með þeim hætti vegna slysa eða sjúkdóma, að aukinnar varúðar er þörf vegna meðhöndlunar þeirra. Því verði að telja eðlilegt og sanngjarnt að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á öllum slysum sem verða á sjúklingum innan og á vegum stofnunarinnar. Af þessum sökum beri stefnda að bæta tjón stefnanda að fullu.

Stefnandi byggir bótakröfu sína á örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis og útreikning á tjóni á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína svo:

1.

Varanlegt örorkutjón

kr. 629.387

2.

Tímabundið örorkutjón

kr. 579.716

3.

Þjáningabætur

kr.   19.920

4.

Varanlegur miski

kr. 429.400

5.

Verðbætur á höfuðstól varanlegrar örorku

kr.   25.845

6.

Ferðakostnaður

kr. 295.399

7.

Útlagður kostnaður

kr.   21.360

Um 1. Bætur vegna 10% varanlegrar örorku eru reiknaðar út á grundvelli 5. gr. skaðabótalaga. Miðað er við tekjur samkvæmt skattframtali 1995, samtals laun í 12 mánuði fyrir slysdag kr. 813.832, auk framlags í lífeyrissjóð kr. 25.350, samtals kr. 839.182. Sú tala er margfölduð með 7,5 og síðan fundin 10% af þeirri fjárhæð.

Um 2. Stefnandi var óvinnufær frá slysdegi í 260 daga. Miðað er við meðallaun á búi hennar 1994, samkvæmt skattframtali 1995, kr. 813.832. Meðallaun á mánuði kr. 67.819.

Um 3. Þjáningabætur eru reiknaðar á grundvelli 3. gr. skaðabótalaga. Stefnandi var rúmliggjandi í 3 daga á kr. 1.390 á dag, veik án þess að vera rúmliggjandi í 21 dag á kr. 750 á dag.

Um 4. Bætur vegna 10% varanlegs miska eru reiknaðar út á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga. 10% af 4.294.000 gera kr. 429.400.

Um 5. Verðbætur á höfðustól varanlegrar örorku skv. 15. gr. skaðabótalaga, lánskjaravísitala á slysdegi 3385 en í nóvember 1996 3524.

Um 6. Stefnandi hefur farið 11 ferðir til Reykjavíkur, 225 km hver ferð, 46 ferðir á Selfoss, 106 km hver ferð, 4 ferðir í Hveragerði, 135 km hver ferð og 3 ferðir vegna helgarleyfa, 270 km hver ferð. Samtals 8.701 km á kr. 33.95 á hvern ekinn kílómeter.

Um 7. Útlagður kostnaður vegna sjúkraþjálfunar.

Stefnandi byggir á að samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga eigi hún rétt á 2% vöxtum af liðum 1, 3 og 4 frá slysdegi til dagsetningu kröfubréfs. Stefndi eigi síðan að greiða dráttarvexti af allri stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

Varðandi kröfu um málskostnað gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða útlagðan kostnað vegna læknisvottorðs, örorkumats og skattframtals.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því, að hann eða starfsmenn hans eigi enga sök á slysi stefnanda, sem rekja megi til gáleysis hennar sjálfrar og óhappatilviljunar. Þá standi hvorki lög né dómvenja til þess að leggja hlutlæga bótaábyrgð á slysum sjúklinga á heilsustofnanir.

Sönnunarbyrðin um meinta sök stefnda eða starfsmanna hans hvíli óskipt á stefnanda samkvæmt megin sönnunarreglum skaðabótaréttarins. Ekkert sé til staðar sem sanni að stefndi eða starfsmenn hans hafi valdið óhappinu.

Ekki sé saknæmt að þvo ganga eða önnur gólf á heilsustofnunum og hættan af því ekki meiri en í heimahúsum. Gangurinn, þar sem stefnandi datt, hafi verið þveginn tvisvar í viku og þess ávallt gætt af ræstingakonum að segja dvalargestum frá blautum gólfum, þegar verið var að þvo gólfin. Þá hafi merki verið á öllum skúringafötum sem á hafi staðið "Varúð blautt gólf." Þá hafi blasað við stefnanda, er hún kom út á ganginn, að gólfið var blautt og verið var að þvo það. Þá hafi stúlkan sem var að þvo gólfið varað stefnanda við því sérstaklega að fara út á blautt gólfið, en stefnandi hafi ekki sinnt aðvörunum stúlkunnar og því hafi farið sem fór. Því sé ekki við stefnda eða starfsmenn hans að sakast um slysið. Stefnandi hafi verið komin til þess vits og ára og haft þá reynslu sem húsmóðir og bóndakona, að hún hafi mátt gera sér fulla grein fyrir áhættunni af því að skrika fótur ef hún færi út á blautt gólfið, ekki hvað síst eins og hún var á sig komin í hnénu, og óstöðug til gangs. Stefnandi hafi gerst sek um stórfellt gáleysi með því að ganga út á blautt gólfið þvert ofan í aðvaranir starfsfólks. Slysið megi rekja alfarið til þessa gáleysis stefnanda og óhappatilviljunar.

Þá skorti heimild í lögum og dómvenju til að leggja á stefnda hlutlæga bótaábyrgð á slysi stefnanda. Það sé meginregla í skaðabótarétti að hlutlæg ábyrgð verði ekki lögð á einn eða neinn án slíkrar lagaheimildar. Slíka heimild um hlutlæga bótaábyrgð sjúkra- og heilsustofnana á óhöppum sjúklinga sé hvergi að finna. Þá sé hvorki eðlilegt né sanngjarnt að sjúkrahús og aðrar heilsustofnanir beri slíka ábyrgð hvernig sem á standi og allra síst eins og hér standi á. Að framangreindu virtu ætti að vera ljóst, að enginn grundvöllur sé til þess að leggja á stefnda skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda.

Varakrafa stefnda er á því reist að skipta beri sök í málinu og leggja meginsök á slysinu á stefnanda sjálfa vegna framangreinds gáleysis hennar. Aldrei verði fram hjá því gengið, að stefnandi sýndi af sér stórfellt gáleysi með því að sinna ekki aðvörunum og fara út á blautt gólfið í stað þess að bíða eftir að þvottastúlkan þurrkaði yfir það.

Stefndi mótmælir stefnukröfum sem allt of háum. Stefndi byggir á að í reynd hafi stefnandi verið meira og minna óvinnufær fyrir slysið af völdum síendurtekinna áfalla og aðgerða á hægra hné óviðkomandi slysinu. Reiknuð laun til stefnanda á skattframtali gefi því ekki rétta mynd af vinnufærni hennar á tjónsdegi og beri að ákvarða bætur fyrir varanlega örorku með hliðsjón af því, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Einnig beri að lækka örorkubæturnar vegna aldurs skv. 9. gr. skaðabótalaga, en stefnandi var 47 ára á slysdegi.

Þá krefst stefndi þess að kröfu stefnanda um tímabundið örorkutjón verði hafnað, þar sem ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni skv. 2. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi skömmu fyrir hið umstefnda slys verið metin til 75% örorku af Tryggingastofnun ríkisins vegna heilsubrests óviðkomandi slysinu og því í reynd óvinnufær þegar slysið varð. Einnig hafi stefnanda væntanlega verið reiknuð laun á slysárinu eins og næsta ár á undan þrátt fyrir óvinnufærni hennar. Tímabundið atvinnutjón bætist ekki nema um sannað raunverulegt vinnutekjutap sé að ræða.

Stefndi andmælir kröfum stefnanda um þjáningabætur og varanlegan miska.

Þá mótmælir stefndi kröfum stefnanda um ferðakostnað sérstaklega, þar sem ekki sé um útlagðan raunkostnað stefnanda að ræða, heldur tilbúinn eða áætlaðan kostnað og ósannað að hann stafi frekar af slysinu en áföllum og heilsubresti stefnanda fyrir slysið.

Loks mótmælir stefndi kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

III.

Stefnandi skýrði frá því fyrir dóminum að þegar slysið varð hafi hún verið á  leið í sjúkraþjálfun, þar sem hún átti að vera mætt kl. 14:30. Á leið sinni hafi hún þurft að ganga eftir löngum gangi. Þegar hún hafi gengið fyrir horn og inná ganginn, hafi hún gengið framhjá stúlku sem var að skúra. Þegar hún hafi verið komin um 20 metra frá stúlkunni hafi engum togum skipt og hún runnið á blautu gólfinu og dottið. Vitnið Jóna Ragnhildur Ragúelsdóttir, sem var að skúra ganginn í umrætt sinn, greindi frá því fyrir dóminum að hún hafi ekki verið búin að þurrka yfir gólfið þegar slysið varð. Verður því að leggja til grundvallar að gólfið hafi verið blautt og við það að miða að slysið hafi orðið með þeim hætti sem stefnandi ber.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri stefnda skýrði frá því fyrir dóminum að á Heilsustofnuninni dvelji mikið af fólki sem sé að koma úr bæklunaraðgerðum og gangi ótraustum fótum. Rík skylda hvílir því á stefnda að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi dvalargesta og telja verður að viðhafa beri sérstakar öryggisráðstafanir þegar gólf Heilsustofnunarinnar eru skúruð á þeim tíma sem dvalargestir eru á ferli.

Framkvæmdastjórinn greindi frá því að framkvæmd ræstinga væri í föstum skorðum og að nærri láti að alltaf sé ræst á sama tíma. Þá sé mikil áhersla lögð á ráðstafanir til að afstýra hættu á að dvalargestir geti runnið eða dottið í bleytu. Þannig sé reynt að þrífa ganga stofnunarinnar þegar umferð um þá sé minnst, án þess að á því sé föst regla. Þá sé það brýnt fyrir starfsfólki við ræstingar að vara dvalargesti við að ganga eftir blautum gólfum. Einnig séu viðvaranir á skúringarfötum.

Jóna Ragnhildur kvað gólf gangsins, sem lagt er "vinyl" flísum, vera frekar hált þegar það er blautt og þess vegna hafi hún alltaf verið mjög stressuð þegar hún var að skúra. Var því brýn ástæða fyrir Jónu Ragnhildi, sem ekki var búin að þurrka gólfið, og í samræmi við það sem brýnt er fyrir starfsfólki, að vara stefnanda við því að gólfið væri blautt og hált. Stefnandi heldur því fram að Jóna Ragnhildur hafi ekki varað hana við og að hún hafi ekki séð varúðarmerkingar á skúringarfötunni, sem Jóna Ragnhildur heldur fram að hafi verið þar og sömuleiðis framkvæmdastjóri stefnda. Jóna Ragnhildur þorir ekki að fullyrða að hún hafi varað stefnanda við í þetta sinn, þó að hún hafi verið vön að vara fólk við. Hins vegar heldur hún því fram að hún hafi áður varað stefnanda við bleytu á gólfinu, en stefnandi ber á móti því. Verður að telja ósannað að Jóna Ragnhildur, starfsmaður stefnda, hafi gert nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slys hlytist af bleytu á gólfi gangsins. Þá þykir stefndi ekki hafa gert alveg nægar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að slys hlytist af bleytu af völdum skúringa, en það var ekki, að sögn framkvæmdastjóra stefnda, fyrr en eftir slysið að teknar voru í notkun á Heilsustofnuninni sérstakar merkingar á þrífótum þar sem varað er við blautum gólfum. Þykir stefndi því verða að bera fébótaábyrgð á tjóni stefnanda af völdum slyssins.

Stefnandi heldur því fram að hún hafi gengið fram hjá Jónu Ragnhildi, strax og hún gekk inn á ganginn og að hún hafi dottið í um 20 metra fjarlægð frá henni. Jóna Ragnhildur heldur því hins vegar fram að hún hafi verið búin að skúra hálfan ganginn þegar stefnandi datt. Ber þeim verulega í milli varðandi staðsetningu Jónu Ragnhildar og er því ekki unnt að staðsetja með neinni nákvæmni hvar á ganginum slysið varð. Stefnandi hefur viðurkennt að hún hafi gert sér grein fyrir að gólfið væri ef til vill blautt og hált í kringum Jónu Ragnhildi. Hins vegar hafi hún reiknað með að það væri þurrt þar sem slysið varð. Stefnanda bar að sýna sérstaka aðgát er hún gekk eftir ganginum sem verið var að skúra og aðgæta sérstaklega hvort gólfið væri blautt. Verður ekki fallist á að stefnandi hafi mátt treysta því að gólfið væri alveg þurrt einhversstaðar á ganginum.  Þykir stefnandi því ekki hafa sýnt af sér þá aðgát sem af henni mátti krefjast í umrætt sinn og verður því að bera tjón sitt að nokkru leyti sjálf.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hæfilegt að stefndi bæti stefnanda tvo þriðju tjónsins, en sjálf beri hún tjón sitt að einum þriðja.

Svo sem áður greinir byggir stefnandi kröfur sínar á örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis. Þá aflaði stefndi álits örorkumatsnefndar á varanlegum miska og örorku stefnda. Samkvæmt niðurstöðu örorkmatsins og og örorkumatsnefndarinnar er varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins metinn 10% og varanleg örorka metin 10%. Er ekki í málinu ágreiningur um varanlegan miska og örorku stefnanda. Hins vegar byggir stefndi á að stefnandi hafi verið meira og minna óvinnufær fyrir slysið og að reiknuð laun til stefnanda á skattframtali gefi ekki ekki rétta mynd af vinnufærni hennar á tjónsdegi.

Um 1. Ekkert liggur fyrir í málinu um að tekjur stefnanda á árinu 1994 sem eru í formi reiknaðs endurgjalds gefi ekki fullnægjandi og raunhæfa mynd af aflahæfi hennar. Verður því við þær miðað við útreikning varanlegs örorkutjóns stefnanda samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga nr. 50//1993. Bætur stefnanda fyrir varanlega 10% örorku stefnanda reiknast því kr. 629.387. Samkvæmt 9. gr. skaðabótalaganna ber að lækka bæturnar vegna aldurs tjónþola. Stefnandi var 48 ára á slysdegi og verða bætur fyrir varanlega örorku hennar samkvæmt því lækkaðar um 26% eða í kr. 465.747.

Um 2. Kröfu sína um bætur fyrir atvinnutjón frá slysdegi til 15. október 1995 byggir stefnandi á mati Sigurjóns Sigurðssonar læknis á að tímabundin örorka hennar umrætt tímabil hafi verið 100%.  Stefndi mótmælir ekki því mati en byggir á að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni. Samkvæmt skattframtali stefnanda 1996, hafði hún engar tekjur aðrar en lífeyri árið sem slysið varð. Árið fyrir slysið hafði stefnandi hins vegar launatekjur að fjárhæð samtals kr. 813.832. Hefur stefnandi samkvæmt því orðið fyrir tekjutapi. Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga skal ákveða bætur fyrir atvinnutjón fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til ekki er að vænta frekari bata. Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón, fyrir umkrafið tímabil, reiknast samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga kr. 579.716.

Um 3. Stefnandi byggir kröfu sína um þjáningabætur á því mati Sigurjóns Sigurðssonar læknis að hún hafi verið rúmliggjandi í 3 daga og veik án þess að vera rúmliggjandi í 21 dag. Hefur því mati ekki verið mótmælt. Þjáningabætur stefnanda samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga reiknast kr. 19.920.

Um 4. Bætur fyrir varanlegan 10% miska stefnanda samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga reiknast kr. 429.400.

Um 5. Verðbætur á höfuðstól varanlegrar örorku skv. 15. gr. skaðabótalaga reiknast kr. 19.125.

Um 6. Stefndi mótmælir kröfu stefnanda vegna ferðakostnaðar sem of hárri og byggir á að ósannað sé að hann stafi frekar af slysinu en heilsubresti og áföllum stefnanda fyrir slysið. Upplýst er að tvær af ferðum þeim sem krafa er gerð um greiðslu fyrir eru vegna slyss þess sem stefnandi varð fyrir um mánaðarmótin mars-apríl 1995. Ekki er leitt í ljós að aðrar ferðir séu ekki vegna slyss þess sem um er deilt í máli þessu. Kostnaður vegna aksturs stefnanda af völdum slyssins þykir hæfilega ákveðinn kr. 150.000.

Um 7. Útlagður kostnaður að fjárhæð kr. 21.360, vegna sjúkraþjálfunar hefur ekki sætt andmælum og verður tekinn til greina.

Af því, sem að framan hefur verið rakið, hefur tjón stefnanda numið samtals kr. 1.684.268 og ber stefnda að greiða tvo þriðju hluta þess  eða kr. 1.123.512.

Samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga bera liðir 1, 3 og 4 2% vexti frá slysdegi. Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti frá 22.03.1996, en með bréfi dagsettu þann dag krafði stefnandi stefnda um bætur á grundvelli örorkumats Sigurjóns Sigurðssonar læknis. Samkvæmt 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 ber skaðabótakrafa stefnanda dráttarvexti frá 22.04.1996 til greiðsludags.

Samkvæmt niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

Dóm þennan kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir, settur héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, greiði stefnanda, Guðnýju Gunnarsdóttur, 1.123.512 krónur með 2% ársvöxtum  af  kr. 610.044 frá 25. janúar 1995 til 22. apríl 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 1.123.512 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.