Hæstiréttur íslands
Mál nr. 459/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 12. júlí 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fæðingardagur [...] frá [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 12. júlí 2016 kl. 16:00.
Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að hinn 1. júní sl. hafi kærði verið handtekinn við dvalarstað sinn að [...] í Hafnarfirði og hafi þá haldið á kassa sem innihélt þýfi sem kærði ætlaði að senda úr landi. Hinn 2. júní s.l. hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og þann 9. júní s.l. var gæsluvarðhaldið framlengt á grundvelli rannsóknarhagsmuna til dagsins í dag.
Lögreglan hafi til rannsóknar þjófnaðar- og hylmingarbrot kærða.
Við leit lögreglu á dvalarstað kærða og meðkærða, Y, hafi fundist mjög mikið magn af ætluðu þýfi. Mikið af snyrtivörum og ónotuðum fatnaði, sem og talsvert af rakvélum og rakvélablöðum, auk tveggja kvittana fyrir tveimur póstsendingum erlendis. Þá hafi Póstinum tekist að finna 3 aðrar sendingar, samtals 72 kg., sem þeir höfðu sent úr landi. Hefur lögreglan fengið þær upplýsingar að ein af sendingunum innihaldi 15 kg af rakvélablöðum og hleypur því andvirðið af þeirri sendingu á milljónum íslenskra króna. Kærði hafi játað fyrir lögreglu að hafa stolið hér á landi og sent þýfið erlendis en enn á eftir að finna hvaðan megnið af þýfinu er og hvenær brotin voru framin.
Þá sé talið að kærði hafi hylmt yfir með þjófnaðarbrotum meðkærða, Y, sem hann hafi játað en kærði og meðkærði hafi farið saman á pósthús að senda pakka úr landi sem innihéldu þýfi, sem og mikið magn þýfis fannst að dvalarstað þeirra að [...]. Þá hafi þær upplýsingar fengist frá Póstinum að kærði hafi verið skráður fyrir öllum 5 sendingunum. Enn sé verið að bíða eftir sendingunum til baka, en skartgripir úr málum sem meðkærði játar að hafa verið að verki hafa enn ekki fundist og er talið að þeir leynist í sendingunum.
Vegna mikils magns ætlaðs þýfis og skipulagningar við bæði þjófnaði og undankomu þýfisins úr landi telur lögreglan að kærði hafi komið hér til landsins gagngert í þeim tilgangi að brjóta af sér. Rannsókn lögreglu sé komin vel á veg en enn sé verið að bíða eftir sendingum sem kærði og meðkærði sendu úr landi.
Þá mun lögreglan gefa út ákæru svo fljótt sem auðið er.
Í ljósi ofangreindra mála og fjölda brota kærða eftir komu til landsins þyki að mati lögreglu ljóst að kærði hefur einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans, enda talið að um skipulagða starfsemi hans og meðkærða, Y, sé að ræða. Með vísan til framangreinds telur lögregla yfirgnæfandi líkur á því að hann muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæta dómsmeðferð.
Sakarefni málsins sé talið varða við 244. gr. og/eða 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 6 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Samkvæmt framburði kærða hjá lögreglu kom hann til landsins í maí sl. Síðan þá hefur kærði framið fjölda þjófnaða auk þess sem hann er grunaður um að hafa framið aðra. Hann er því undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Þegar virtur er ferill hans hér á landi þennan stutta tíma er fallist á með lögreglu að ætla megi að hann haldi áfram brotum hafi hann fullt frelsi. Það er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði enda er fullnægt skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, fæðingardagur [...] frá [...] skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 12. júlí 2016 kl. 16:00.