Hæstiréttur íslands

Mál nr. 536/2011


Lykilorð

  • Aðildarskortur
  • Endurgreiðslukrafa


            

                                     

Fimmtudaginn 24. maí 2012.

Nr. 536/2011.

 

Flugþjónustan ehf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Isavia ohf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

 

Aðildarskortur. Endurgreiðslukrafa.

F ehf. krafði I ohf. um endurgreiðslu vegna ofgreiddra stæðisgjalda og lendingargjalda sem F ehf. hafði greitt I ohf. fyrir hönd umráðenda og eigenda loftfara sem F ehf. veitti þjónustu. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, sagði meðal annars að greiðsluskylda hefði hvílt á viðsemjendum F ehf. og að líta yrði svo á að ofgreiðsla fyrir flugvélastæðin væri frá þeim komin. Hefði F ehf. ekki sýnt fram á að hann væri réttur aðili að kröfu um endurgreiðslu gjaldanna og var I ohf. því sýknað af kröfunni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 15.848.688 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 31. ágúst 2006 til 13. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir héraðsdómi reisti áfrýjandi málatilbúnað sinn á því að hann hefði ofgreitt svonefnd stæðisgjöld og lendingargjöld, sem innheimt voru á grundvelli laga nr. 60/1998 um loftferðir. Hér fyrir dómi hefur áfrýjandi haldið því fram að ekki hafi verið um að ræða ofgreiðslu á gjöldum heldur hafi þóknun frá viðsemjendum áfrýjanda fyrir mistök verið greidd til Flugstoða ohf., en stefndi yfirtók skuldbindingar þess félags, sbr. lög nr. 153/2009 um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar. Einnig byggir áfrýjandi á því að stofnast hafi samningssamband milli hans og stefnda og á þeim grundvelli geti hann endurkrafið stefnda um það sem ofgreitt var. Fyrir Hæstarétti verður málatilbúnaðinum ekki raskað að þessu leyti og koma því ekki til álita við úrlausn málsins þessar síðbúnu málsástæður, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi fékk áfrýjandi bréf 11. nóvember 2008 frá Flugstoðum ohf. þar sem boðin var endurgreiðsla að fjárhæð 4.200.000 krónur. Sú fjárhæð var talin svara til ofgreiðslu við hækkun í ársbyrjun 2007 á gjaldskrá áfrýjanda vegna stæðisgjalda úr 3 í 5 evrur fyrir hvert byrjað tonn, en öll sú fjárhæð mun hafa runnið til Flugstoða ohf. án þess að samsvarandi hækkun hefði verið gerð á gjaldskrá félagsins. Í bréfinu var vísað til þess að þetta tilboð hefði upphaflega verið sett fram í tölvubréfi 13. september 2008. Það bréf hefur verið lagt fram í Hæstarétti, en þar segir meðal annars að félagið hafi verið reiðubúið til að koma til móts við áfrýjanda með þessu móti. Verður ekki fallist á það með áfrýjanda að greiðsluskylda hafi verið viðurkennd með þessu sáttaboði.

Samkvæmt framansögðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Flugþjónustan ehf., greiði stefnda, Isavia ohf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. maí sl. er höfðað með stefnu birtri 9. júní 2010.

Stefnandi er Flugþjónustan ehf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.

Stefndi er Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði 15.848.688 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 40.187 krónum frá 31. ágúst 2006 til 30. september 2006, af 491.901 krónu frá 30. september 2006 til 31. október 2006, af 832.007 krónum frá 31. október 2006 til 30. nóvember 2006, af 1.140.876 krónum frá 30. nóvember 2006 til 31. desember 2006, af 1.493.589 krónum frá 31. desember 2006 til 31. janúar 2007, af 1.951.457 krónum frá 31. desember 2006 til 31. janúar 2007, af 2.362.835 frá 31. janúar 2007 til 28. febrúar 2007, af 3.179.967 krónum frá 31 desember 2007 til 30. apríl 2007, af 4.110.176 krónum frá 30. apríl til 31. maí 2007, af 5.372.028 krónum frá 31. maí 2007 til 30. júní 2007, af 8.018.675 krónum frá 31. júlí 2007 til 31. ágúst 2007, af 9.438.820 krónum frá 31. ágúst 2007 til 30. september 2007, af 10.417.945 krónum frá 30. september 2007 til 31. október 2007, af 11.273.220 krónum frá 31. október 2007 til 30. nóvember 2007, af 12.585.490 krónum frá 31. desember 2007 til 31. janúar 2008, af 13.289.826 krónum frá 29. febrúar 2008 til 31. mars 2008, af 13.916.615 krónum frá 31. mars 2008 til 30. apríl 2008, af 14.679.416 krónum frá 30. apríl 2008 til 31. maí 2008, af 14.800.424 krónum frá 31. maí 2008 til 30. júní 2008, af 15.848.688 krónum frá 30. júní 2008 til 13. október 2008, og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. október 2008 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Einnig krefst stefndi málskostnaðar.

Málsatvik

Í máli þessu krefst stefnandi endurgreiðslu á hluta af gjöldum sem hann greiddi stefnda, en hann telur sig hafa greitt of mikið.

Stefndi, Isavia ohf., varð til 29. apríl 2010 við samruna tveggja opinberra hlutafélaga, Keflavíkurflugvallar og Flugstoða, sbr. lög nr. 253/2009.

Stefnandi telur að hann hafi ofgreitt svokölluð stæðis- og lendingargjöld, sbr. 71. gr. og 71. gr. a, laga nr. 60/1998. Samkvæmt gjaldskrá sem Flugmálastjórn setti var gjald fyrir hverja lendingu loftfars í millilandaflugi 8,15 Bandaríkjadalir fyrir hver byrjuð 1000 kg af hámarksflugtaksmassa, en 10 Bandaríkjadalir fyrir lendingu í Reykjavík. Þá kemur fram að stæðisgjald sé ekkert fyrstu 6 klukkustundirnar, en 1,40 Bandaríkjadalir fyrir hver byrjuð 1000 kg fyrir næstu 24 klukkustundir eða brot þar af.

Stefnandi starfar við flugþjónustu og í verkahring hans er meðal annars afgreiðsla flugvéla, svo sem að ferma þær og afferma. Stefnandi er því í samningssambandi við umráðendur margra loftfara sem lenda á Keflavíkurflugvelli. Skylda til að greiða stæðis- og lendingargjöld hvílir á umráðendum og eigendum loftfaranna. Stefnandi hefur hins vegar greitt gjöldin til stefnda, og miðast gjaldskrá stefnanda, og þau gjöld sem viðsemjendur stefnanda greiða honum, við þetta. 

Skylda til greiðslu stæðisgjalda, sbr. 71. gr. laga nr. 60/1998, hvíldi á skráðum umráðendum íslenskra loftfara og eigendum erlendra loftfara. Á tímabilinu 2006-2008 sendi stefnandi fyrst Flugmálastjórn og síðar Flugstoðum ohf. skilagreinar vegna gjaldanna. Í byrjun árs 2007 hækkaði stefnandi þjónustugjaldskrá að því er varðaði stæðisgjöld, úr þremur evrum á byrjað tonn, í fimm evrur. Stefnandi segir að mismunurinn hafi átt að vera þóknun hans, en gjaldskrá stefnda var óbreytt. Fyrir mistök hafi stefnandi hins vegar greitt stefnda hærri stæðisgjöld.

Lendingargjöld voru greidd af umráðendum loftfara fyrir afnot af flugvöllum með flugupplýsingaþjónustu, sbr. 71. gr. a, laga nr. 60/1998. Stefnandi innheimti gjöldin. Greiddi hann stefnda þau í evrum, en gengi evru styrktist gagnvart Bandaríkjadal, með þeim afleiðingum að stefnandi borgaði of mikið. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi segir að á árunum 2006 til 2008 hafi hann ofgreitt stefnda fyrir mistök.

Stefnandi hafi í fyrsta lagi greitt 9.669.966 krónum of mikið í stæðisgjöld, en ofgreiðslan sundurliðist þannig:

Hinn 31.7.2006 greiddi stefnandi 324.023 kr. en átti að greiða 253.841 kr.

Hinn 31.8.2006 greiddi stefnandi 446.501 kr. en átti að greiða 157.954 kr.

Hinn 30.9.2006 greiddi stefnandi 376.739 kr. en átti að greiða 134.267 kr.

Hinn 31.10.2006 greiddi stefnandi 358.760 kr. en átti að greiða 127.233 kr.

Hinn 30.11.2006 greiddi stefnandi 299.842 kr. en átti að greiða 106.697 kr.

Hinn 31.12.2006 greiddi stefnandi 407.794 kr. en átti að greiða 152.397 kr.

Hinn 31.1.2007 greiddi stefnandi 308.419 kr. en átti að greiða 105.018 kr.

Hinn 28.2.2007 greiddi stefnandi 273.504 kr. en átti að greiða 68.836 kr.

Hinn 31.3.2007 greiddi stefnandi 687.026 kr. en átti að greiða 143.641 kr.

Hinn 30.4.2007 greiddi stefnandi 726.214 kr. en átti að greiða 130.787 kr.

Hinn 31.5.2007 greiddi stefnandi 1.023.623 kr. en átti að greiða 207.122 kr.

Hinn 30.6.2007 greiddi stefnandi 1.052.300 kr. en átti að greiða 213.203 kr.

Hinn 31.7.2007 greiddi stefnandi 1.097.031 kr. en átti að greiða 253.841 kr.

Hinn 31.8.2007 greiddi stefnandi 1.221.703 kr. en átti að greiða 194.163 kr.

Hinn 30.9.2007 greiddi stefnandi 729.639 kr. en átti að greiða 144.150 kr.

Hinn 31.10.2007 greiddi stefnandi 646.213 kr. en átti að greiða 119.798 kr.

Hinn 31.11.2007 greiddi stefnandi 331.851 kr. en átti að greiða 63.437 kr.

Hinn 31.12.2007 greiddi stefnandi 415.642 kr. en átti að greiða 77.624 kr.

Hinn 31.1.2008 greiddi stefnandi 427.672 kr. en átti að greiða 75.237 kr.

Hinn 29.2.2008 greiddi stefnandi 45.734 kr. en átti ekkert að greiða.

Hinn 31.3.2008 greiddi stefnandi 358.853 kr. en átti að greiða 65.302 kr.

Hinn 30.4.2008 greiddi stefnandi 444.255 kr. en átti að greiða 83.137 kr.

Hinn 31.5.2008 greiddi stefnandi 23.962 kr. en átti ekkert að greiða.

Hinn 30.6.2008 greiddi stefnandi 583.861 kr. en átti að greiða 95.514 kr.

Stefnandi segir að í byrjun árs 2007 hafi hann hækkað þjónustugjaldskrá sína að því er varðaði þjónustu sem samsvari stæðisgjaldi í gjaldskrá stefnda úr 3 evrum á hvert byrjað tonn í 5 evrur á hvert byrjað tonn. Gjaldskrá stefnda hafi hins vegar verið óbreytt, enda hafi mismunurinn átt að vera þóknun stefnanda fyrir þjónustu hans. Fyrir mistök hafi stefnandi hins vegar staðið stefnda skil á mun hærri stæðisgjöldum og þar með rýrt eigin þjónustuþóknun.

Í annan stað hafi stefnandi ofgreitt vegna lendingargjalda, en ofgreiðslan nemi 6.178.722 krónum. Stefnandi sundurliðar kröfu um endurgreiðslu lendingargjalda þannig:

Hinn 31.7.2006 greiddi stefnandi 1.049.937 kr. en átti að greiða 1.523.338 kr.

Hinn 31.8.2006 greiddi stefnandi 1.087.099 kr. en átti að greiða 932.240 kr.

Hinn 30.9.2006 greiddi stefnandi 1.334.104 kr. en átti að greiða 1.124.863 kr.

Hinn 31.10.2006 greiddi stefnandi 1.068.411 kr. en átti að greiða 959.831 kr.

Hinn 30.11.2006 greiddi stefnandi 738.343 kr. en átti að greiða 622.619 kr.

Hinn 31.12.2006 greiddi stefnandi 915.633 kr. en átti að greiða 818.318 kr.

Hinn 31.1.2007 greiddi stefnandi 843.318 kr. en átti að greiða 588.845 kr.

Hinn 28.2.2007 greiddi stefnandi 874.544 kr. en átti að greiða 667.833 kr.

Hinn 31.3.2007 greiddi stefnandi 1.099.595 kr. en átti að greiða 825.849 kr.

Hinn 30.4.2007 greiddi stefnandi 1.249.702 kr. en átti að greiða 914.920 kr.

Hinn 31.5.2007 greiddi stefnandi 1.732.221 kr. en átti að greiða 1.286.870 kr.

Hinn 30.6.2007 greiddi stefnandi 1.732.403 kr. en átti að greiða 1.282.048 kr.

Hinn 31.7.2007 greiddi stefnandi 1.778.696 kr. en átti að greiða 1.297.063 kr.

Hinn 31.8.2007 greiddi stefnandi 1.468.309 kr. en átti að greiða 1.075.704 kr.

Hinn 30.9.2007 greiddi stefnandi 1.324.293 kr. en átti að greiða 930.658 kr.

Hinn 31.10.2007 greiddi stefnandi 1.048.340 kr. en átti að greiða 719.480 kr.

Hinn 31.11.2007 greiddi stefnandi 1.151.844 kr. en átti að greiða 784.400 kr.

Hinn 31.12.2007 greiddi stefnandi 1.054.310 kr. en átti að greiða 715.915 kr.

Hinn 31.1.2008 greiddi stefnandi 855.537 kr. en átti að greiða 635.897 kr.

Hinn 29.2.2008 greiddi stefnandi 86.886 kr. en átti ekkert að greiða.

Hinn 31.3.2008 greiddi stefnandi 975.395 kr. en átti að greiða 642.156 kr.

Hinn 30.4.2008 greiddi stefnandi 1.247.222 kr. en átti að greiða 845.539 kr.

Hinn 31.5.2008 greiddi stefnandi 97.046 kr. en átti ekkert að greiða.

Hinn 30.6.2008 greiddi stefnandi 1.564.456 kr. en átti að greiða 1.004.538 kr.

Stefnandi kveður þjónustugjaldskrá sína vera í evrum en lendingargjald hafi skv. gjaldskrá stefnda verið í Bandaríkjadölum. Til þess að þurfa ekki að hafa þjónustugjaldskrána í mörgum myntum hafi stefnandi greitt stefnda gjaldið í evrum.

Á tímabilinu frá 2006 til 2008 hafi gengi þessara tveggja gjaldmiðla þróast þannig að gengi evru styrktist gagnvart dollar. Engu að síður hélt stefnandi fyrir mistök áfram að greiða stefnda lendingargjöldin í evrum, án þess að fjöldi evra gagnvart hverjum Bandaríkjadal breyttist í útreikningi stefnanda. Þetta hafi leitt til þess að það gjald sem stefnandi greiddi stefnda varð í raun miklu hærra en lendingargjöldin voru samkvæmt lögbundinni gjaldskrá stefnda. Stefnandi hafi því ofgreitt stefnanda lendingargjöld svo sem lýst hefur verið.

Stefnandi kveðst hafa krafið stefnda um endurgreiðslu þegar honum varð ofgreiðslan ljós, en bréf til stefnda sé dagsett 13. október 2008. Hafi hann ítrekað kröfuna með bréfi dagsettu 23. sama mánaðar. Kröfu stefnanda hafi verið hafnað af hálfu stefnda með bréfi 11. nóvember sama ár, en boðin hafi verið endurgreiðsla að fjárhæð 4.200.000 krónur. Þetta boð hafi leitt til nokkurra viðræðna milli aðila um sættir. Þar sem stefndi var ekki tilbúinn að koma til móts við sanngjarnar kröfur stefnanda, hafi reynst nauðsynlegt að höfða málið.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að jafnt lendingargjöld sem stæðisgjöld séu þjónustugjöld og stefnda sé óheimilt að innheimta hærri gjöld en sem nemur verðskrá hans hverju sinni. Sú verðskrá sé lögbundin.

Fyrir liggi að stefnandi innti greiðslur af hendi til stefnda fyrir mistök. Jafnframt hafi stefndi engan rétt átt til þeirra greiðslna. Þvert á móti hafi féð sem ofgreitt var, átt að vera þóknun til stefnanda frá viðskiptavinum. Stefnda hafi enn fremur verið ofgreiðslan ljós eða mátt vera hún ljós. Byggir stefnandi á því að almennar ólögfestar meginreglur fjármunaréttar um endurgreiðslu ofborgaðs fjár leiði til þess að stefnda beri að endurgreiða stefnanda það fé sem greitt var fyrir mistök, en upphæðin sé óumdeild.

Stefnandi telur að í bréfi stefnda 11. nóvember 2008 felist viðurkenning á greiðsluskyldu vegna ofgreiddra stæðisgjalda. Sú fjárhæð sem þar sé boðin til greiðslu nemi hins vegar ekki heildarfjárhæð ofgreiddra gjalda eins og sjáist á sundurliðuninni hér að framan. Með synjun sinni um að endurgreiða stefnanda að fullu framangreindar fjárhæðir auðgist stefndi sem hlutafélag í eigu hins opinbera umfram lagaheimildir sínar á kostnað einkahlutafélags í atvinnurekstri. Stefndi geti ekki átt tilkall til hærri greiðslu en sem nemi lögbundinni gjaldskrá. Er því ofangreind auðgun hvorki í samræmi við lög né réttmæta viðskiptahætti.

Það sjónarmið við innheimtu gjalds, að ofgreitt þjónustugjald óháð kostnaði við að veita þjónustuna, sé tapað fé, eins og stefndi virðist byggja á, eigi sér enga stoð í lögum nr. 60/1998. Skorti stefnda því lagaheimild til að halda því fé sem stefnandi ofgreiddi. Sé gjaldtakan, eða innheimtan, sem slík, þegar af þessari ástæðu ólögmæt og brjóti í bága við 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

Um greiðsluskyldu stefnda vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, almennra ólögfestra meginreglna fjármunaréttar um endurgreiðslu ofborgaðs fjár og almennra reglna um óréttmæta auðgun, auk almennra sjónarmiða um þjónustugjöld. Þá vísar hann til stjórnarskrárinnar, einkum 40. gr. og 77. gr., sbr. 15. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

Kröfu um vexti styður stefnandi við 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en dráttarvaxtakröfu við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa er byggð á 3. mgr. 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi krefst í fyrsta lagi sýknu af kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra stæðisgjalda. Stefndi kveðst byggja kröfu sína á því meðal annars að stefnandi sé ekki réttur aðili að málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem stefnandi eigi ekki kröfuna um hin ofgreiddu stæðisgjöld.

Skylda til að greiða stæðisgjöld skv. gjaldskrá stefnda hvíli annars vegar á skráðum umráðendum íslenskra loftfara skv. loftfaraskrá, og hins vegar á eigendum erlendra loftfara, sbr. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir. Hún hvíli hins vegar ekki á stefnanda. Hafi umrædd gjöld þannig verið greidd stefnda umfram gjaldskrá eigi aðeins sá sem gjaldskyldan hvílir á, þ.e. skráðir umráðendur íslenskra loftfara skv. loftfaraskrá, og eigendur erlendra loftfara, sbr. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 60/1998, kröfu um endurgreiðslu. Stefnandi sé ekki rétthafi umkrafinna fjármuna og ekki liggi fyrir neitt samningssamband sem geti orðið grundvöllur kröfunnar á hendur stefnda. Í þessu sambandi telur stefndi einnig rétt að vekja athygli á því að svo virðist sem stefnandi hyggist ekki skila ofgreiðslunni til framangreindra aðila, heldur virðist stefnandi líta svo á að ofgreiðslan tilheyri honum. Á það geti stefndi ekki fallist enda í öllu falli óeðlilegt að innheimta einhvers konar þjónustugjald í búningi lögboðinna gjalda.

Þá krefst stefndi sýknu af kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra lendingargjalda. Skylda til greiðslu lendingargjalda skv. gjaldskrá stefnda hvíli á umráðendum loftfara skv. loftfaraskrá, sbr. 1. mgr. 71. gr. a. laga nr. 60/1998. Stefnandi sé því ekki réttur aðili málsins heldur eigi aðeins sá sem gjaldskyldan hvílir á lögum samkvæmt kröfu um endurgreiðslu. Krefst stefndi því sýknu meðal annars með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi sé hvorki að lögum rétthafi umkrafinna fjármuna né liggi fyrir neitt samningssamband sem geti orðið grundvöllur kröfunnar á hendur stefnda. Stefnandi hafi innheimt umrædd gjöld af skráðum umráðendum íslenskra loftfara skv. loftfaraskrá, sem og af eigendum erlendra loftfara, í formi stæðis- og lendingargjalda.  Hafi umræddir aðilar sannanlega ofgreitt þau gjöld eigi þeir kröfu um endurgreiðslu þeirra en ekki stefnandi. Framangreint taki einnig til þess mismunar sem kunni að myndast vegna gengisbreytinga.

Stefndi hafnar því alfarið að hann ætli sér að „auðgast umfram lagaheimildir sínar á kostnað einkahlutafélags í atvinnurekstri“, eins og stefnandi byggir á í stefnu sinni. Stefndi telur að stefnandi hafi ætlað að taka til sín sérstök þjónustugjöld í búningi lögboðinna gjalda sem umráðendum loftfara er gert að greiða, án þess að geta þess við umráðendur og eigendur loftfara. Hinir gjaldskyldu aðilar hafi því greitt stefnda það sem þeir töldu vera lögboðin stæðis- og lendingargjöld með milligöngu stefnanda. Þeir einir eigi rétt á endurgreiðslu hafi gjöldin verið ofgreidd. Stefndi muni fallast á endurkröfu slíkra aðila ef þær byggja á lögmætum grunni.

Stefndi mótmælir því jafnframt að kröfur stefnanda fái stoð í meginreglum kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Stefnandi beri alfarið ábyrgð á ætlaðri ofgreiðslu en ekki stefndi, þá hafi greiðslur stefnanda verið inntar af hendi án fyrirvara. Stefndi kveðst einnig hafna öllum vaxta- og dráttarvaxtakröfum stefnanda, þ. á m. lagagrundvelli og upphafstíma. Að lögum gildi heldur engar sérreglur um tilkall til vaxta af ofgreiddu fé þegar um annað er að ræða en skatta eða önnur opinber gjöld en stefnandi styðji ekki endurgreiðslukröfu sína við lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Stefndi segist enn fremur hafna því að í bréfi er stefndi sendi stefnanda felist viðurkenning á greiðsluskyldu. Ekki sé um það deilt að ofgreiðsla átti sér stað.  Stefndi byggir hins vegar á því, eins og að framan er rakið, að stefnandi eigi ekki rétt til þeirrar endurgreiðslu.

Stefndi vísar til laga um loftferðir nr. 60/1998, sérstaklega ákvæða 71. gr. og 71. gr. a. Þá vísar hann til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 16. gr.  Um málskostnaðar­kröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 3. mgr. 130. gr. og a-liðar 1. mgr. 131. gr. laganna.

NIÐURSTAÐA

Í 71. gr. laga nr. 60/1998 er að finna heimild til að innheimta gjöld fyrir not af flugvelli, sbr. 3. gr. þágildandi gjaldskrár fyrir vopnaleit og afnot flugvalla, þar sem mælt var fyrir um stæðisgjöld. Samkvæmt 4. mgr. 71. gr., eins og hún hljómaði áður en greininni var breytt með 11. gr. laga nr. 15/2009, hvíldi gjaldskylda á skráðum umráðendum íslenskra loftfara og á eigendum erlendra loftfara. Greiðsluskyldan hvíldi því ekki á stefnanda. Hann greiddi hins vegar stefnda gjöldin og gerði ráð fyrir þeim í þjónustugjaldskrá sinni. Í stefnu segir að stefnandi hafi hækkað gjaldskrána í byrjun árs 2007, „að því er varðaði þjónustu sem samsvarar stæðisgjaldi“, úr þremur í fimm evrur á hvert byrjað tonn. Eftir að hann hækkaði gjaldskrána greiddi stefnandi stefnda einnig of háa fjárhæð. Gjaldskrá stefnanda er ekki meðal gagna málsins, en nægjanlega er fram komið að hluti þeirra gjalda sem stefnandi innheimti var vegna stæðisgjalda sem voru liður í gjaldskrá hans.

Greiðsluskylda hvíldi því á viðsemjendum stefnanda, og líta verður svo á að ofgreiðsla fyrir flugvélastæði sé frá þeim komin. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann sé réttur aðili að kröfu um endurgreiðslu þessara gjalda. Verður því með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um endurgreiðslu ofgreiddra stæðisgjalda.  

Reglur um lendingargjöld var að finna í þágildandi 71. gr. a laga nr. 60/1998, en skv. 1. mgr. skyldu umráðendur loftfara greiða þau. Stefnandi kveðst hafa greitt stefnda gjöldin í evrum en eigendur og umráðendur flugvéla greiði honum í evrum. Ekki kemur fram hvernig lendingargjöldin voru tilgreind í þjónustugjaldskrá stefnanda og hún liggur ekki frammi, sem áður segir. Gildir hið sama hér og um stæðisgjöldin að greiðsluskylda hvíldi á viðsemjendum stefnanda og hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann sé réttur aðili að kröfu um endurgreiðslu þessara gjalda. Verður því með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um endurgreiðslu ofgreiddra lendingargjalda.  

Eftir úrslitum málsins verður stefnandi, Flugþjónustan ehf., dæmdur til að greiða stefnda, Isavia ohf., 450.000 krónur í málskostnað.

Við dómsuppsögu var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

DÓMSORÐ

Stefndi, Isavia ohf., er sýkn af kröfu stefnanda Flugþjónustunnar ehf.

Stefnandi greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað.