Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/2002


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur
  • Ákæra


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. janúar 2003.

Nr. 359/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur. Ákæra.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn mágkonu sinni um tveggja til þriggja ára skeið og dóttur sinni í framhaldi af því á næstu tveimur árum þegar þær voru á aldrinum níu til tólf ára. Tekið var fram að hvert brot um sig sætti sjálfstæðu mati og yrði sakfelling af einu ekki notuð til sönnunar um sök af öðru, þótt hún kynni að geta gefið ákveðna vísbendingu um hvatir ákærða. Var sakarmat héraðsdóms staðfest að öðru leyti svo og heimfærsla brota ákærða til 1. mgr. 200. gr. og fyrri málsliðs 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tekið var fram að við ákvörðun refsingar yrði að líta til þess, að brot ákærða voru ítrekuð og alvarleg og stóðu yfir um árabil, gegn annarri stúlkunni í átta tilvikum en hinni tvisvar sinnum. Stúlkurnar voru á barnsaldri og misnotaði ákærði sér aðstöðu sína og trúnaðartraust þeirra, en hann hafði ýmist uppeldis- eða umsjárskyldum að gegna gagnvart þeim á heimili sínu. Var atferli hans til þess fallið að valda þeim sálarháska og tjóni og átti hann sér engar málsbætur. Þótti refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Var niðurstaða héraðsdóms um skaðabætur staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og ákvörðun skaðabóta auk þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins og verði skaðabótakröfu vísað frá dómi, en til vara er krafist ómerkingar og heimvísunar. Til þrautavara krefst ákærði þess, að refsing verði milduð og skilorðsbundin auk þess sem fjárhæð dæmdra bóta verði lækkuð.

Ákæruvaldið krefst þess, að ákærði verði sakfelldur fyrir mörg tilvik sama efnis samkvæmt 1. tl. II. kafla ákæru, og sé það í samræmi við framburð brotaþola fyrir héraðsdómi. Krafa þessa efnis hafi verið sett fram við munnlegan málflutning í héraði með skírskotun til 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en um það hafi ekkert verið bókað. Í niðurstöðu héraðsdóms skorti á umfjöllun um það, hvort ákærði er sakfelldur fyrir eitt tilvik eða fleiri samkvæmt þessum ákærulið.

Af c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 er ljóst, að í ákæru verður að greina nákvæmlega það brot, sem talið er hafa verið framið, og stað þess og stund eins skýrt og kostur er. Samkvæmt því verður ótvírætt að koma fram í ákæru, hvort um eitt eða fleiri brot sömu tegundar er talið vera að ræða. Ákæra þessa máls verður ekki skilin á annan veg en þann, að í 1. tl. II. kafla sé einungis saksótt vegna eins brots á tilteknum stað á árinu 1990. Í 1. mgr. 117. gr. laga um meðferð opinberra mála segir, að hvorki megi dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá, sem í ákæru greinir, né aðrar kröfur á hendur honum. Að fullnægðum ákveðnum skilyrðum má þó dæma áfall á hendur ákærða, þótt minniháttar atriði séu ekki réttilega greind í ákæru, en þó aldrei aðrar kröfur en þar koma fram. Þetta lagaákvæði veitir dómstólum ekki heimild til þess að dæma ákærða fyrir fleiri brot en skýrlega eru greind í ákæru og breytir framburður brotaþola fyrir dómi engu þar um, enda verður ákæruvaldið að axla ábyrgð á því, hvernig að saksókninni var staðið. Kemur því ekki til álita og úrlausnar í málinu, hvort ákærði kunni að hafa gerst sekur um fleiri brot en greinir í framangreindum ákærulið.

Ákærði er í máli þessu borinn sökum um kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum á aldrinum níu til tólf ára, mágkonu sinni um tveggja til þriggja ára skeið og dóttur sinni í framhaldi af því á næstu tveimur árum. Hvert brot um sig sætir sjálfstæðu mati og verður sakfelling af einu ekki notuð til sönnunar um sök af öðru, þótt hún kunni að geta gefið ákveðna vísbendingu um hvatir ákærða.

Með þessum athugasemdum verður sakarmat héraðsdóms staðfest með vísun til forsendna hans að öðru leyti svo og heimfærsla brota ákærða til refsiákvæða.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður að líta til þess, að brot hans voru ítrekuð og alvarleg og stóðu yfir um árabil, gegn annarri stúlkunni í átta tilvikum en hinni tvisvar sinnum. Stúlkurnar voru á barnsaldri og misnotaði ákærði sér aðstöðu sína og trúnaðartraust þeirra, en hann hafði ýmist uppeldis- eða umsjárskyldum að gegna gagnvart þeim á heimili sínu. Atferli ákærða var til þess fallið að valda þeim sálarháska og tjóni og á hann sér engar málsbætur. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af röksemdum héraðsdóms að öðru leyti þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um skaðabætur staðfest, enda er miskabótakröfum brotaþola í hóf stillt.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur  og sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns beggja brotaþola, Þorbjargar I. Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 29. maí 2002.

I.

   Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 16. apríl sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru útgefinni 15. janúar 2002 á hendur X ,,fyrir kynferðisbrot eins og hér greinir:

I

Gegn mágkonu sinni, Z, fæddri 1977, með því að hafa:

1.  Sumarið 1986 eða 1987, í svefnherbergi íbúðarhússins [...] , látið stúlkuna fróa sér.

2.  Snemma árs 1987, [...], strokið yfir og sett fingur inn í kynfæri stúlkunnar.

3.  Árið 1988, á baðherbergi [...], í tvígang látið stúlkuna fróa sér og að hafa í eitt skipti nuddað lim sínum við kynfæri stúlkunnar og sett liminn inn í kynfæri hennar.

4.  Vorið 1988, [...], sleikt kynfæri stúlkunnar, stungið fingri inn í kynfærin og stungið kerti inn í leggöng hennar.

5.  Vorið 1989, í dráttarvél á leiðinni [...], látið stúlkuna fróa sér og að hafa, þegar komið var að [...], látið stúlkuna sjúga á sér liminn í svefnherbergi íbúðarhússins.

   Telst þetta varða við fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sbr. 10. gr. laga nr. 40, 1992, sbr. áður 1. mgr. 200. gr og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II

Gegn dóttur sinni, Y, fæddri 1981, með því að hafa:

1.  Árið 1990 [...], káfað á og stungið fingri inn í kynfæri stúlkunnar.

2.  Í nóvember 1992, [...] káfað á og stungið fingri inn í kynfæri stúlkunnar, látið hana fróa sér og sleikt kynfæri stúlkunnar.

   Telst þetta varða við 1. mgr. 200. gr. og fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 8. gr. og 10. gr. laga nr. 40, 1992, sbr. áður 1. mgr. 200. gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

   Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Z krefst bóta að fjárhæð kr. 774.700 auk dráttarvaxta frá 17. nóvember 2000 til greiðsludags.

Y krefst bóta að fjárhæð kr. 774.700 auk dráttarvaxta frá 15. nóvember 2000 til greiðsludags."

   Verjandi ákærða, krafðist fyrir hans hönd aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfum yrði þá vísað frá dómi.  Til vara krafðist hann vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá krafðist hann þess að allur sakarkostnaður, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun, yrði greiddur úr ríkissjóði.

II.

   Málavextir.

1.  Samkvæmt framburði ákærða og vitna hófu ákærði og Þ, sambúð á árinu 1980 og bjuggu þau fyrst í stað [...].  Þau fluttu [...] árið 1983 eftir að hafa búið um nokkurra mánaða skeið á heimili foreldra Þ.

Að [...] bjuggu þau [...] allt til ársins 1989, en fluttu þá til [...] og héldu heimili á [...] fram til ársins 1992.  Þann [...] 1992 fluttu þau að núverandi heimili sínu [...].

   Ákærði og sambýliskona hans eiga saman fjögur börn, vitnið Y, fædda 1981, Æ fædda 1988 og tvíbura [...]. 

Allnokkur samgangur var milli fjölskyldu ákærða og móðurfólks Þ fram til hausts 1998. Fór vitnið Z mikið til systur sinnar og mágs [...], einkum eftir að hún fór að geta ferðast þangað ein síns liðs upp úr 1985.  Meðal annars dvaldi hún þar í nokkrar vikur í byrjun árs 1987[...].  Hún hjálpaði til á heimilinu eins og aldur hennar og atgervi gaf tilefni til.  Af framburði ákærða og sambýliskonu hans verður þó ekki annað ráðið en að þeim hafi þótt erfitt að hafa Z á heimilinu.  Þá lýstu ákærði og Þ því að mikið ósamkomulag hafi verið á milli Z og Ö bróður hennar, en hann hafi einnig fengið að dvelja hjá þeim.  Vegna þessa hafi verið nánast ómögulegt að hafa þau samtímis á heimilinu. Framburður þeirra um ósamkomulag þetta er í ósamræmi við framburð Z, foreldra hennar og bróður. Þá bar vitnið Y að samkomulag hennar og Z hafi verið ágætt og að Z hafi verið eins og stóra systir hennar. 

Y, dóttir ákærða, ólst upp á heimili foreldra sinna og bjó þar allt til ársins 1998.  Skólaganga reyndist henni erfið frá fyrstu tíð en henni leið illa í skóla og var lögð í einelti. Hún lauk stúdentsprófi [...] um síðustu áramót.

Um sumarið 1998 fékk Þ fyrst vitneskju um ásakanir Z og Y í garð ákærða. Y sagði foreldrum sínum síðar á því ári að ásakanir hennar væru ekki réttar en svo fór að hún lagði fram kæru á hendur föður sínum í janúar 2000. Eftir að ásakanir Z og Y í garð ákærða komu fram leitaði hann að sjálfsdáðum til Brynjólfs Ingvarssonar geðlæknis og fór framhaldi af því í viðtalsmeðferð hjá honum. Jafnframt var hann lagður inn á [...] í 4 daga vegna þessa.  Þá mun Brynjólfur hafa átt allnokkur viðtöl við Þ og einnig eitt símtal við Z og í eitt sinn kom Y með móður sinni að hitta lækninn.  Í lok árs 1998 gerði Kristján M. Magnússon sálfræðingur greiningarskýrslu um ákærða. Þar kemur fram að hann telji ákærða ekki líklegan til að misnota börn.

Sami sálfræðingur annaðist athugun á hegðunarerfiðleikum Æ, yngri dóttur ákærða sem fædd er 1988.  Í kjölfar þeirrar athugunar sendi barnaverndarnefnd [...] beiðni til lögreglustjórans [...] dagsetta 20. janúar 2000 um lögreglurannsókn á meintu kynferðisbroti ákærða í garð stúlkunnar. Fór fram skýrslutaka fyrir dómi í Barnahúsi daginn eftir.  Það mál var síðar fellt niður af hálfu ákæruvalds.

2. Miðvikudaginn 15. nóvember 2000 kom Y á lögreglustöðina [...] og lagði fram kæru á hendur ákærða.  Í skýrslu lögreglu er haft eftir henni að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega frá því að hún var 9 ára og allt þar til hún varð 13 eða 14 ára.  Lýsir hún þar sömu háttsemi og greinir í ákæruliðum í II. kafla ákæru.  Hún kvað ástæðu þess að hún legði fram kæru nú vera þá að hún hefði í byrjun árs 2000 verið kölluð til yfirheyrslu um meinta kynferðislega áreitni föður hennar í garð yngri systur hennar. Hún kvað sér þykja svo vænt um systkini sín að hún vildi ekki að það sama henti þau og henti hana.

3. Föstudaginn 17. nóvember 2000 kom Z á lögreglustöðina [...] og lagði fram kæru á hendur ákærða.  Í lögregluskýrslu sem tekin var af henni við þetta tækifæri kemur fram að ákærði hafi áreitt hana reglulega frá því að hún var 8 eða 9 ára og þar til hún var á 15. ári.  Lýsir hún þar sömu háttsemi og greinir í I. kafla ákæru. Ástæðu þess að hún legði fram kæru kvað Z vera þá að hún vissi að ákærði hafi áreitt Y dóttur sína og að tilkynnt hafi verið að hann hafi hugsanlega einnig áreitt yngri systur hennar, Æ.  Fleiri börn séu á heimilinu og kvað hún ákærða ekki hafa leyfi til að eyðileggja líf þeirra. 

   Um leið og vitnið gaf sína fyrstu lögregluskýrslu afhenti hún lögreglu yfirlýsingar frá fimm aðilum sem hún kvaðst hafa sagt frá háttsemi ákærða í hennar garð á undanförnum árum.  Þessir aðilar komu allir fyrir dóminn.

III.

Hér á eftir verður rakinn framburður ákærða og vitna sem gefinn var við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. 

Ákærði neitaði alfarið öllum sakargiftum.  Hann kvaðst hafa leitað til Brynjólfs Ingvarssonar geðlæknis nokkru eftir að ásakanir Z og Y hafi komið fram.  Ástæða þess að hann leitaði til Brynjólfs hafi verið sú að hann hafi verið farinn að halda að áburður Z væri réttur og hann hefði fallið úr minni hans. Ásakanirnar hafi verið alvarlegar og hann hefði ekki fundið neina skýringu á þeim.

   Ákærði kvað ,,sóðakjaft" hafa verið á þeim sem komu [...] og hafi Z ekki verið nein undantekning þar á. Slíkt orðbragð hafi verið landlægt í [...]. Hann sjálfur hafi verið klámfenginn fyrr á árum en orðið fágaðri með tímanum.  Á hans heimili hafi í gleðskap verið sagðir tvíræðir brandarar en varla meira.  Á meðan þau bjuggu [...] hafi þau Þ keypt tímaritið Bleikt og blátt en þegar það breyttist í hálfgert klámblað hafi þau hætt að kaupa það.  Ákærði kvaðst hafa sýnt Y, dóttur sinni blaðið í þeim tilgangi að svara kynferðislegum spurningum hennar.  Að auki hafi hann sýnt henni Kvennafræðarann.

   Vitnið Z bar að í upphafi hefði áreitni ákærða falist í því að hann talaði um kynlíf, útlit, breytingar á líkama með aldri, tíðir o.þ.h.  Ákærði hafi haft frumkvæði að þessu tali, en hún muni fyrst eftir því þegar hún var 8-9 ára.  Meðal annars hafi hann sagt henni að þau og Þ svæfu saman, sýnt henni myndir í klámblöðum, t.d. í Bleiku og bláu og sagt að í blöðunum væru sætar stelpur. Síðar hafi ákærði farið að strjúka henni um líkamann. Hún muni ekki hvort fyrsta skiptið hafi verið innan eða utan klæða, en hvoru tveggja hafi átt sér stað. 

   I. kafli ákæru.

Varðandi þá háttsemi sem greinir í ákærulið I.1 kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa verið einn í svefnherbergi með Z [...].

Z lýsti  því að í þetta sinn hafi Þ ekki verið heima en hún viti ekki hvar Y hafi verið.  Hún kvaðst ekki muna hver aðdragandinn að því var að hún fór inn í svefnherbergi hússins en hún muni að þetta tilvik byrjaði með því að ákærði talaði við hana á kynferðislegum nótum.  Hann hafi beðið hana um að setjast á rúmið hjá sér, lagst útaf og tekið í höndina á henni og sett hana í klofið á sér.  Hann hafi verið í buxum og peysu en rennt niður buxnaklauf sinni og látið hana fróa sér.  Hún kvaðst ekki hafa vitað hvað var að gerast og dregið að sér höndina en ákærði hafi verið rólegur og látið höndina aftur á kynfærin á sér.  Hann hefði haldið utan um hendi hennar og í raun gert þetta sjálfur en hún muni ekki hvort honum varð sáðlát.

Varðandi háttsemi þá er greinir í ákærulið I.2 kvaðst ákærði stundum  hafa verið einn [...] með Z.  Hún hafi sótt í að vera með honum í [...] en þar sem erfitt hafi verið að hafa hana með sökum athyglissýki hennar hafi hann reynt að komast hjá því.  Þá bar hann að ekki hafi verið hægt að sjá til íbúðarhússins út um gluggann [...] þar sem í glugganum hafi verið matt byggingarplast. Auk þess hafi ekki verið hægt að sjá til íbúðarhússins nema með því að vera alveg út við gluggann.

Vitnið Z bar að atvik þetta hefði átt sér stað [...]. Það hafi byrjað með því að ákærði hefði talað við hana á kynferðislegum nótum, en það hefði hann oft gert einkum ef þau voru einhversstaðar ein.  Hún hafi að beiðni ákærða farið úr buxum og nærbuxum, en henni hafi liðið illa og verið kalt.  Ákærði hafi látið hana setjast á hrúgu af pokum, strigapokum og fleiru, hann hafi sest hjá henni, strokið henni um læri og kynfæri og sett puttana inn í leggöngin.  Hún kvaðst vera alveg viss um að hann setti a.m.k. einn fingur eða fleiri inn í kynfæri hennar.  Hún hafi ekki fylgst með höndum hans heldur horft út um gluggann og upp í loft.  Hún kvaðst muna  til þess að hafa sagt ákærða að sér væri kalt og reynt að fá hann til að hætta með því að segja að einhver gæti komið eða séð til þeirra eða eitthvað þess háttar.  Hún kvaðst ekki geta sagt til um hversu lengi þetta stóð yfir en í minningunni væri þetta langur tími.  Hún taldi atvikið hafa átt sér stað um vetur því að [...] og það hafi verið einhverskonar hrím á byggingarplastinu fyrir gluggunum.  Þá kvað hún þetta hafa gerst á þeim tíma sem móðir hennar var á spítala, en hún sjálf hafi þá verið í skóla [...].

Varðandi háttsemi þá sem greinir í ákærulið I.3. bar ákærði að baðherbergið [...] sé svo lítið og þröngt að fullorðnir geti ekki athafnað sig þar eins og lýst er í ákæru.  Hann kvaðst ,,hafa álpast inn á Z þar sem hún var í baði” en hann hafi þá bara farið út og lokað.  Z hafi hins vegar sífellt verið að koma að honum í baði og sjálf farið í bað þegar hann þurfti að nota baðið. 

Z kvað fáa daga hafa liðið milli fyrstu tveggja atvikanna sem lýst er í þessum ákærulið og þau atvik séu mjög lík.  Ákærði hafi komið inn til hennar þar sem hún var að baða sig, sest á klósettsetuna, talað við hana, sett hönd hennar í klofið á sér og látið hana fróa sér með því að halda utan um hönd hennar.  Síðan hafi hún átt að halda áfram án hans aðstoðar.  Hún taldi að ákærða hefði ekki orðið sáðlát.  Hvað varðar þriðja tilvikið sem lýst er undir þessum ákærulið hafi ákærði komið inn í baðherbergið en hún hafi staðið á fætur og ætlað að fara.  Ákærði hafi þá lokað hurðinni og látið hana leggjast bera á gólfið, lagst ofan á hana og kysst.  Ákærði hafi nuddað sér fram og til baka ofan á henni og sett liminn í leggöng hennar svo sem lýst er í ákæru. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hversu langt limurinn fór inn í leggöngin, en ákærði hefði sagt að hann kæmist ekki alla leið.  Á meðan á þessu stóð hafi ákærði talað um að hann þyrfti að gæta sín því það yrði mikið ,,uppistand ef hann gerði hana ófríska." Vitnið kvaðst ekki hafa verið byrjuð að hafa blæðingar á þessum tíma og ekki farin að fá brjóst.  Z sagði að baðherbergið hafi ekki verið stórt og taldi hún að gólfið hafi verið það lítið að erfitt hefði verið fyrir fullorðinn mann að liggja þar.

Varðandi þá háttsemi sem lýst er í ákærulið I.4 bar ákærði af sér allar sakir, en kvað Z stundum hafa komið blauta fram úr baði og lítt klædda.  Alltaf hafi gengið illa að fá hana til að klæða sig og kostað fortölur.

Vitnið Z lýsti þessu tilviki þannig að enginn hafi verið heima þegar það átti sér stað.  Ákærði hafi náð í stól og stillt honum upp fyrir framan sjónvarpið.  Hann hafi látið hana setjast á stólinn með fæturna í sundur, síðan sett fingur í leggöng hennar og sleikt á henni kynfærin.  Þá hafi hann náð í kerti úr kertastjaka á borði í stofunni, sett kertið í plastpoka og stungið því inn í hana og hreyft það fram og til baka.  Vitnið mundi ekki hvort ákærði klæddi hana úr eða hvort hann sagði henni að afklæðast.  Vitnið kvaðst hafa gert ákærða grein fyrir því að henni þætti þetta athæfi vont.  Meðan á þessu stóð hafi verið bankað á dyrnar og ákærði hafi þá sagt henni að klæða sig, sett kertið á sinn stað, stungið pokanum í vasann og farið til dyra.  Hún hafi farið inn í herbergi og klætt sig þar.  Við meðferð málsins nafngreindi vitnið komumann en hann kom ekki fyrir dóm. 

Varðandi háttsemi þá sem greinir í ákærulið I.5 bar ákærði að Z hafi ekki farið með honum í dráttarvél á þessum tíma þar sem vélin hafi verið [...] fram á haust. Þá hefði Z aldrei lagt það á sig að fara um 140 km í dráttarvél, er taki nokkra klukkustundir.  Hann hafi hins vegar farið þessa leið á dráttarvél sjálfur en á þessum tíma hafi hann [...]. Ákærði kvaðst hafa átt hvíta dráttarvél með rauðu húsi.

Z bar að dráttarvélin sem þau fóru á hafi verið með húsi, rauð og hvít að lit.  Inni í húsinu vinstra megin aftan og ofan við ökumannssætið hafi verið lítið sæti með handfangi.  Hún kvaðst einu sinni hafa farið með ákærða í dráttarvélina frá [...] og hafi ferðin tekið nokkrar klukkustundir. Ákærði hafi setið í ökumannssætinu með buxnaklaufina opna og beðið hana að fróa sér.  Ákærði hafi tekið í hönd hennar og lagt hana í klofið á sér.  Hún hafi haldið í handfangið og hallað sér fram en kvaðst ekki geta lýst þessu tilviki nákvæmlega.  Vitnið bar að ákærða hafi ekki orðið sáðfall.  Hún kvaðst muna eftir því að í [...] hafi þau mætt bifreið og hafi þá ákærði sagt henni að hætta meðan bifreiðin fór hjá, en síðan hafi hún átt að halda áfram.  Hún kvaðst ekki geta sagt til um hvort hún gerði þetta oft á leiðinni eða hvort þetta gerðist bara einu sinni.  Z kvað förina örugglega hafa verið tengda [...] og kvaðst muna að þau hafi lagfært girðingar í þessari ferð.  Vitnið ætlaði að þessi atburður hafi gerst vorið 1989.  Hún taldi að Þ hafi verið heima með lítið barn, þó ekki kornabarn, en Æ sé fædd í maí 1988.  Vitnið kvaðst ekki hafa sagt Þ frá atvikinu í dráttarvélinni með öðrum hætti en hér er lýst.  Hún kvað þó að sig gæti misminnt varðandi dagsetningu, en atvik hafi verið með þessum hætti. Þegar komið var [...] hafi ákærði farið með hana inn í herbergi. Ákærði hafi lagst í svefnbekk sem þar var og sagt henni að setjast og sleikja á honum liminn, en það hafi ekki verið í fyrsta sinn sem hún hafi gert það. Hún kvað ákærða hafa haldið fyrir aftan höfuð hennar og ýtt því niður og hafi þetta gengið nokkra stund án þess að ákærða yrði sáðfall.

Vitnið, Þ, bar fyrir dómi að hún hafi haldið dagbækur og samkvæmt þeim hafi dráttarvélin ekki farið að [...] á vordögum 1989. Ákærði hafi hins vegar farið þangað einsamall á dráttarvélinni þann 23. júní sama ár en hún og stelpurnar hafi farið þangað á bifreið daginn eftir. Vitnið treysti sér til að fullyrða að Z hafi ekki farið þessa leið í dráttarvél og vísaði til þess að hliðarsætið hafi verið hart og afar óþægilegt.

Vitnið, G, móðir Sigríðar og tengdamóðir ákærða, bar að hún hafi haldið dagbók á því árabili sem ákæran tekur til og þaðan hafi Z upplýsingar um ferðir sínar að [...]. Vitnið bar að Z hafi stundum sagt að það væri leiðinlegt [...], en hún hafi þó ekki neitað að fara þangað. Á árinu 1997 hafi Z fyrst sagt henni frá brotum ákærða gagnvart sér. Z hafi tjáð henni að ákærði hefði leitað á hana kynferðislega og sagt í grófum dráttum frá því hvað hann hefði gert henni. Hún hafi þannig sagt að ákærði hefði notað á hana kerti og einnig að hann hefði einhvern tímann látið hana fróa sér í dráttarvél. Þá hafi hún tjáð sér að ákærði hefði reynt að hafa við hana kynmök, en hún muni ekki hvenær það hafi átt að eiga sér stað. Þó gæti það hafa verið á stofugólfi eða baðherbergisgólfi [...]. Vitnið kvað Z hafa liðið illa er hún sagði frá þessu, en virtist þó létta við frásögnina. Kvaðst vitnið ekki hafa ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi frásagnar Z. Vitnið kvaðst ekki hafa þrýst á Z að leggja fram kæru, en bar að Z hefði verið hrædd um að börn ákærða lentu í því sama og hún.

Vitnið, Ö, dvaldist einnig á heimili ákærða og systur sinnar [...].  Hann kvaðst fyrst hafa frétt af ásökunum Z í júlí 1995, en þá hafi B, kærasti hennar, komið til hans og sagt að Z vildi tala við hann. Hún hafi þá legið grátandi uppi í rúmi og sagt honum að ákærði hefði misnotað hana. Ekki hefði verið neinn vafi á því við hvað Z hafi átt, en hún hafi þó ekki lýst einstökum tilvikum. Vitnið kvað samkomulag sitt og ákærða hafa verið gott og ekkert í fari ákærða hafi bent til hegðunar eins og ákært er fyrir. Hann hafi t.d. aldrei séð klámblöð eða klámmyndbönd á heimilinu.

   Vitnið, A, kvaðst vera góð vinkona Z. Vitnið kvaðst muna eftir því að árið áður en þær fermdust hafi þær verið að gæta barna  [...].  Þær hafi verið búnar að hátta sig og koma sér fyrir á gólfinu á dýnum og verið að horfa á myndband þegar ákærði kom heim.  Hann hafi sett klámmynd í myndbandstækið og lagst á milli þeirra.  Ákærði hafi strokið á henni fæturna í nokkra stund en þegar hann var að fara með höndina upp í klof hennar hafi hún staðið á fætur og farið inn á baðherbergi. Áreitni ákærða hafi staðið yfir í nokkrar mínútur og kvað hún útilokað að hann hafi gert þetta í einhverju ógáti. Z hafi komið á eftir henni og þá hafi hún sagt henni hvað ákærði hefði gert.  Vegna þessa athæfis hefði hún viljað fara heim en Z þá sagt að ákærði hefði líka gert þetta við hana og beðið hana um að fara ekki.  Jafnframt hefði Z lofað að tala við ákærða sem hún hefði og gert. Þær hefðu farið inn í stofu og eftir það hefði ákærði farið að sofa.  Hún kvaðst aldrei hafa komið inn á heimili ákærða eftir þetta atvik.  Að mati vitnisins var ákærði ekki mikið ölvaður þegar þetta atvik átti sér stað. Vitnið bar að á árunum 1995-1998 hafi Z greint henni nánar frá kynferðisbrotum ákærða, þar á meðal að hann hafi sett kerti upp í leggöngin á henni, látið hana sjúga á honum liminn og að hann hefði einu sinni haft við hana samfarir.  Vitnið kvað Z hafa verið með samviskubit vegna dætra ákærða sem búa heima hjá honum. Vitnið kvaðst hafa þekkt Z frá því að hún var 11 ára og dró hún ekki í efa að Z væri að segja satt. Vitnið sagði Z vera frekar lokaða en það hefði mátti sjá þegar þær ræddu þessi mál að henni leið illa.  Þegar vitnið vildi segja öðrum frá athæfi ákærða hafi Z alltaf sagt að hún vildi ekki gera systur sinni það.

Vitnið, C, kvaðst hafa kynnst Z þegar Z var 10 ára gömul.  Vitnið bar að Z hafi á árinu 1993 sagt að hún hafi verið misnotuð sem barn og hún hafi fundið að gerandinn var nákominn Z.  Á þessum tíma hafi hún ekki lýst því í hverju brot ákærða voru fólgin.  Á árinu 1996 hafi hún nefnt ákærða sem geranda og lýst því í hverju brot hans voru fólgin, m.a. hafi hún lýst því að ákærði hafi notað kerti á kynfæri hennar, leitað á hana og sýnt henni spólur.  Í gegnum tíðina hafi Z opnað sig smátt og smátt og þær rætt þessi mál mikið.  Vitnið bar að Z hafi sagt að ákærði hafi meðal annars sleikt kynfæri Z en hún hafi ekki kært sig um nákvæmar lýsingar.  Að mati vitnisins væri Z ekki manneskja sem fari með fleipur. Hún kvað hana lokaða sem persónu og frekar stífa.  Þær hafi rætt ýmsa hluti varðandi hennar sambönd og ætlaði vitnið að verknaður ákærða hefði haft áhrif á Z í samböndum hennar við karlmenn.  Vitnið kvað Z ekki einungis hafa verið að hugsa um eigið skinn í þessu máli heldur einnig um börn systur hennar en hún hafi verið hrædd um þau.  Vitnið kvaðst hafa lagt að Z að kæra.

   Vitnið, C kvaðst hafa verið í sambúð með Z á árunum 1993 til 1995 og þau einkum búið hjá foreldrum hennar en líka leigt saman.  Vitnið kvað Z oftast hafa viljað vera heima. Hún hafi líka oft verið veik og tekið þunglyndisköst og liðið illa.  Hann kvaðst oft hafa spurt Z hvað væri að en hún hafi ekki viljað segja hvað amaði að henni fyrr en tæpu ári eftir að þau byrjuðu að vera saman.  Hún hafi þá sagt að ákærði hefði misnotað hana en ekki sagt strax í hverju brot hans voru fólgin.  Það hafi hún gert nokkru seinna.  Hún hafi m. a. lýst kynferðislegu athæfi ákærða í traktor á leið frá [...] og tilraunum ákærða til kynmaka í [...].  Z hafi greint frá því að tilvikin væru mörg og að ákærði hafi oft látið hana fróa sér.  Var það mat vitnisins að áðurgreind vanlíðan Z hafi tengst athæfi ákærða og haft áhrif á samband þeirra.  Z hafi tjáð honum, áður en hún lagði fram kæru á hendur ákærða, að hún hefði áhyggjur af yngri börnum ákærða.  Vitnið kvaðst ekki hafa reynt Z að ósannindum og telur ekki ástæðu til að draga í efa að hún sé að segja satt.

Vitnið, D, bjó með Z á árunum 1996 til 1999. Vitnið bar að vegna erfiðleika í sambandi þeirra, m. a. varðandi kynlíf hafi hann hvatt Z að segja sér frá því hvað amaði að.  Vitnið bar að Z hafi þá sagt honum frá brotum ákærða.  Z hafi meðal annars sagt frá ferð í dráttarvél [...] þar sem ákærði hafi látið hana hafa við sig munnmök og viðhaft káf en þegar þau hafi mætt bifreið hafi hann látið hana hætta. Þá hefði ákærði bannað henni að læsa baðherberginu er hún fór í bað en einhverju sinni hafi hann komið þar inn og misnotað hana.  Vitnið kvað Z og hafa lýst því að ákærði hafi reynt að hafa við hana kynmök en Z hafi sagt að það hafi ekki gengið.  Þá hafi ákærði við sama tækifæri haft á orði við Z að hann væri að kenna henni og síðar þegar hún næði sér í mann myndi hann þakka honum þetta.  Einnig hafi hún skýrt frá atviki þar sem Z var að gæta barna heima hjá ákærða ásamt vinkonu sinni en þá hafi ákærði áreitt vinkonuna líka. Þá hafi hún lýst atviki þar sem ákærði setti kerti í plastpoka og setti það inn í hana.  Vitnið kvað að þau hafi reynt að tala ekki mikið um smáatriði enda hafi þau ekki skipt öllu máli í þeirra sambandi og hann hafi heldur ekki viljað hlusta á þau. Vitnið bar að það hafi tekið tíma fyrir hann að fá Z til að skýra frá því hvað hefði komið fyrir hana en þetta hafi fengið mjög á hana og örugglega haft áhrif á að uppúr sambandi þeirra slitnaði.  Vitnið greindi frá því að hann hafi verið viðstaddur þegar Z ræddi í síma við Þ systur sína á árinu 1998. Vitnið bar að Z hafi lýst ýmsu fyrir Þ og tjáð henni að hún hefði áhyggjur af börnunum hennar. Vitnið bar, að símtal þetta hafi verið tilfinninga-þrungið, Z hafi grátið en hann hafi reynt að hlusta ekki á hvað hún sagði.  Eftir símtalið hafi Z sagt honum að Þ hafi sagt hana ljúga. Þá hafi Z sagt honum að hún hefði áhyggjur og sektarkennd vegna yngri barna systur sinnar.  Vitnið kvaðst hafa reynt að fá Z til að segja frá ,,enda sé ljóst að svona hegðun sé ekki stundarbrjálæði." Vitnið kvað Z vera trausta og heiðarlega en mislynda og hann hafi ekki reynt hana að ósannsögli.

   Vitnið, D, kvaðst hafa þekkt Z frá árinu 1989 og bar að Z hafi verið 14 eða 15 ára er hún sagði henni fyrst frá brotum ákærða.  Vitnið bar að þær hafi setið við eldhúsborðið heima hjá henni og skyndilega hafi Z farið að gráta en það sé í eina skiptið sem hún hafi séð hana gráta.  Z hafi sagt henni að mágur hennar hafi misnotað hana kynferðislega en ekki skýrt nákvæmlega frá því í hverju brotin hafi falist.  Þó hafi Z sagt henni að ákærði hafi ,,gengið alla leið þegar hún var 11 ára" og að ákærði hafi haft á orði að hún þyrfti að ,,læra þetta" eða eitthvað í þeim dúr.  Hún kvað Z hafa verið hrædda um að ákærði viðhefði sama athæfi gagnvart Æ og yngri systur hennar. 

Vitnið, H, kvaðst hafa aðstoðað ákærða [...] skömmu áður en fjölskyldan flutti þangað og á sama tíma hafi Z verið þar. Hann hafi oftast sofið í sérherbergi en í eitt skipti hafi þau öll þrjú verið í sama herberginu.  Vitnið kvaðst ekki hafa vitneskju um hvar ákærði og Z sváfu, en þó muni hann að ákærði svaf í stóru herbergi.  Hann kvaðst ekki muna til þess að hafa séð Z koma að morgni út úr herbergi ákærða og þá ekki heldur að Z hafi neitað að sofa ein.  Að sögn vitnisins hafi þau bæði verið kát og hress og samskipti þeirra hafi virst góð. 

II. kafli ákæru.

Ákærði neitaði alfarið sök undir þessum kafla ákæru.  Aðspurður um þá háttsemi sem greinir undir ákærulið II.1 kvað ákærði að Y hefði liðið illa í skóla. Eftir að Z hafi komið fram með sínar ásakanir hafi Y fylgt í kjölfarið, en síðar hafi hún dregið þær til baka.

Vitnið, Y, kvaðst fyrst muna eftir áreitni föður síns er hún hafi spurt hann hvað það væri að fróa sér. Ákærði hafi þá látið hana hafa blað með grein um þetta efni en hún hafi á þessum tíma verið 9 ára.  Ákærði hafi líka sýnt henni myndir sem voru í blaðinu Bleikt og blátt.  Hann hafi rætt myndirnar sem voru af beru fólki og haft uppi athugsemdir um líkamshluta fólksins.  Síðar hafi ákærði farið að káfa á henni en það hafi sennilega verið sama kvöld og hann lét hana hafa blaðið.  Ákærði hafi káfað á kynfærum hennar innan klæða og strokið henni um brjóst.  Vitnið bar að ákærði hafi einhverju sinni látið hana fara úr buxum og setjast á stól og draga hnén upp að öxlum.  Þá hafi hann stungið fingri inn í leggöngin.  Hún hafi meitt sig við athafnir ákærða og kvaðst viss um að ákærði hafi sett fingur inn í leggöngin.  Hún hafi ekkert sagt við ákærða en hann hafi sagt eitthvað við hana en hún hafi reynt að hlusta ekki.  Vitnið bar að ákærði hafi sagt að hann væri að kenna henni.  Vitnið bar að ákærði hafi oft stungið fingri inn í leggöng hennar og káfað á henni og einnig sýnt henni klámmyndir. Atvik sem þessi hafi oft gerst á meðan þau bjuggu [...] en hún muni ekki eftir einstökum tilvikum heldur bara broti og broti og geti því ekki sagt til um hversu mörg tilvikin voru en þau hafi öll átt sér stað í stofunni.  Skiptunum hafi fækkað þegar móðir hennar gerðist dagmamma árið 1991.

Vitnið Z kvað Y hafa fyrst á árinu 1998 lýst kynferðislegu athæfi ákærða. Y hafi sagt að ákærði hefði strokið henni, látið hana fróa honum, sett fingur inn í leggöng hennar og talað um kynlíf við hana.  Vitnið kvaðst hafa spurt Y að því hvort þetta hefði gerst oft og hún hafi svarað því játandi.  Vitnið kvað Y hafa tjáð sér að hún hefði orðið fyrir áreitni af hálfu frænda síns þegar hún var lítil.  Vitnið hafi þá spurt Y að því hvort eitthvað fleira í þeim dúr hafi komið fyrir hana og þá hafi hún skýrt sér frá framangreindu athæfi ákærða.

Aðspurð um háttsemi þá sem greinir í ákærulið II.2 kvaðst ákærði ekki hafa haft í frammi við Y kynferðislegt tal en hún hafi sjálfsagt orðið vitni að slíku á heimili þeirra í [...] þegar gestir komu.  Hann hafi t.d. orðið að vísa fólki af heimilinu vegna ,,klámkjafts" en húsið [...] sé þannig byggt að þar sé mjög hljóðbært. 

   Ákærði kvaðst hafa velt framangreindum sakargiftum fyrir sér allt frá því að mál þetta kom upp en ekki fundið neina skynsamlega skýringu.  Ákærði nefndi þó helst að dóttir hans Y hafi orðið fyrir óæskilegum áhrifum og verið beitt þrýstingi af hálfu ömmu sinnar og mágkonu, vitninu Z.

   Vitnið, Y, bar að í nóvember 1992 hafi móðir hennar verið [...] í heilan mánuð þegar hún var að eiga tvíburana en á þeim tíma hafi hún gist [...].  Tveimur dögum áður en móðir hennar kom heim hafi hún farið [...] og ætlað að forðast ákærða með því að læsa sig inni í herbergi sínu.  Þar hafi verið svo mikið dót að hún hafi ekki getað verið þar og því ætlað að vera í herbergi systur sinnar.  Vitnið kvað ákærða hafa beðið sig um að ræða við sig en hann hafi fljótlega farið að tala um kynlíf og slíka hluti.  Hann hafi fengið hana til að sofa í rúmi hjá sér og þar hafi hann látið hana hátta.  Þá hafi ákærði káfað á henni og viljað að hún fróaði honum.  Hann hafi síðan farið í nærbuxur sínar og haft á orði að hann væri ekki viss um að geta haft stjórn á sér en hafi svo sleikt á henni kynfærin.  Hún hafi sagt að hún þyrfti að fara á salerni og þegar þangað kom hafi hún læst að sér. Vitnið staðhæfði að þetta atvik hafi gerst í nóvembermánuði 1992 en svipuð atvik ekki gerst eftir það. Ákærði hefði þó talað mikið um kynlíf við hana og hvatt hana til að fróa sér.  Vitnið kvað ákærða þannig hafa talað um kynlíf sitt og móður hennar og m.a. tjáð henni að móðirin hefði haft sveppasýkingu í fyrsta skipti sem þau voru saman.  Þá hefði hann sagt að hann væri vanur að rífa utan af henni nærbuxurnar. Einnig hafi hann talað mjög kynferðislega um vitnið Z og m.a. lýst skapahárum hennar sem dúnmjúkum og sagt að Z og vitnið A hafi verið að fróa sér með kerti er fjölskyldan bjó [...].  Vitnið bar að ákærði hefði a.m.k. einu sinni sýnt henni klámmyndband að heimili þeirra [...] og þá hafi I og J verið viðstaddar. 

Að sögn vitnisins var hún alltaf hrædd við föður sinn vegna þess að hann hafi alltaf orðið svo reiður við hana hversu lítilvægt það var sem hún gerði af sér.   Vitnið kvaðst hafa reynt að segja móður sinni frá háttsemi ákærða, en hún hafi brugðist reið við.  Vitnið sagðist oft hafa hugsað um sjálfsmorð þegar hún var 12 til 14 ára og það hafi tengst þessari háttsemi ákærða.  Henni hafi gengið illa í skóla og það einnig tengst þessari reynslu. Þá hafi hún alltaf verið óörugg hjá ákærða og síðar hjá öðru fólki. 

   Vitnið skýrði svo frá að hún hafi verið að vinna [...] sumarið 1998. Hún kvaðst ekki geta skýrt hvers vegna hún dró ásakanir í garð föður síns til baka en bar að ákærði hefði eitt sinn sótt hana [...] og á leiðinni heim hafi hann rætt hvaða afleiðingar ásakanir þeirra Z hefðu. Hann hafi m.a. sagt að hann myndi fyrirfara sér og þá yrðu börnin föðurlaus. Hún kvað foreldra hennar hafa rætt við hana og móðir hennar hafi viljað vita nákvæmlega hvað hefði gerst en hún hafi ekki getað tjáð sig. Vitnið vísaði til þess að þegar þetta gerðist hafi hún þegar verið búin að greina móður sinni, ömmu og Z frá athæfi ákærða.

Í janúar 2000 hafi hún verið boðuð í skýrslutöku hjá lögreglu vegna meintrar misnotkunar ákærða á yngri systur hennar, Æ.  Hún hafi því haft mikinn tíma til að hugsa sig um og ákveðið að kæra í nóvember 2000. Hún kvaðst hafa farið til Georgíu sálfræðings í [...] vegna þess að hún var farin að mæta illa í skólann.  Hún hafi ekki rætt við hana um þau atvik sem ákæra lýtur að.  Einnig hafi hún farið til Ragnheiðar Indriðadóttur og við hana hafi hún getað rætt þessi mál.  Hún kvaðst halda sambandi í dag við ömmu og afa í föðurætt svo og systur föður síns auk móðurfólksins.  Hún kvað ekkert samband vera við ákærða og móður eða yngri systkin og lýsti hún yfir áhyggjum af þeim yngri. Vitnið kvað framangreinda háttsemi hafa haft áhrif á samband hennar við stráka og taldi sig þurfa mikla aðstoð til að vinna í sínum málum.

   Vitnið, Þ, bar að í júlí 1998 hafi móðir hennar, G hringt til hennar og sagt frá ætluðum brotum ákærða.  Eftir að hafa talað við hana hafi hún rætt við Z, en síðan gengið á ákærða, sem hafi alfarið neitað öllu. 

Vitnið bar að Y hafi eitt sinn hringt til hennar þegar Y var við vinnu [...] sumarið 1998 og spurt hvort hún mætti fara suður í fríinu sínu.  Hún hafi svarað því til að betra væri að hún kæmi heim því það væru einhver leiðindamál í gangi á heimili ömmu hennar. Þá hafi Y farið að ,,væla" í símann og sagt ,,hann gerði þetta við mig líka." Vitnið bar að í þessu símtali hafi Y ekki sagt í hverju áreitni ákærði hafi falist.  Y hafi komið heim í fríum eftir þetta samtal.  Y hafi lýst því einhverju sinni fyrir sér að brot ákærða hafi átt sér stað [...], en hún hafi aldrei lýst athæfi ákærða nákvæmlega. Vitnið bar að hún hefði beðið Y um að koma með sér til [...] til viðtals hjá Brynjólfi Ingvarssyni geðlækni og það hafi gengið eftir.  Þar hafi hún ekki getað tjáð sig en ,,grátið, skælt, ekki þó hágrátið og átt erfitt með að koma þessu upp úr sér".  Læknirinn hafi lítið tjáð sig en hún hafi jánkað því að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega. Hún hafi sagt að ákærði hafi káfað á henni en ekki að hann hafi haft við hana kynferðismök.  Vitnið bar að Y hafi aðallega sagt já og jú í þessu viðtali og frásögn hennar hafi verið mjög slitrótt og hún hafi þurft að beita hana þrýstingi til að tjá sig. 

   Vitnið kvað Y hafa sagt sér frá því að þegar vitnið var að eiga tvíburana hafi Y þurft að vera í sama rúmi og ákærði og skilist að hún hafi þá þurft að fróa ákærða. Vitnið minntist þess ekki að Y hafi  sagt að ákærði hefði sett fingur inn í leggöng hennar.

Fyrir dómi greindi vitnið frá því að hún hefði ekki lagt trúnað á frásögn Y er hún hringdi frá [...] og af þeim sökum viljað fá fyllri upplýsingar. En eftir að Y lagði fram kæru á hendur föður sínum hafi hún tekið þá ákvörðun að slíta öll tengsl við dóttur sína.  Vitnið skýrði frá því að hún hefði aldrei orðið vör við hneigðir ákærða til að beita börn kynferðislegu ofbeldi og fordæmdi hann slíkt. Hún kvað tímaritið Bleikt og blátt hafa verið keypt á heimili þeirra um tíma, en ekki klámblöð og klámspólur. Hún kvað klámspólu þó hafa verið á heimilinu um tíma, vegna þess að nágranni hefði gleymt henni þar.

Vitnið, G, amma Y, kvað hana hafa sagt frá því á árinu 1998 að ákærði hefði ekki verið góður við hana og í framhaldi af því hefði hún tjáð sér að ákærði hefði áreitt sig kynferðislega.  Þegar þetta gerðist hafi Y verið að vinna [...] en stundum komið í fríum á heimili hennar [...]og þá haft orð á að sig langaði ekki heim.  Vitnið kvað Y hafa tjáð sér að hún hafi reynt að segja mömmu sinni frá athæfi ákærða en þær orðræður ávallt endað með því að hún segði bara það sem hún hélt að foreldrar hennar vildu heyra.  Vitnið kvaðst hafa haft vitneskju um að Y dró ásakanir sínar á hendur ákærða til baka til baka við foreldra sína. Vitnið bar að Y hafi sagt sér að ákærði hafi haft á orði að hann ætlaði að fyrirfara sér vegna þessara ásakana. 

   Vitnið kvað Y hafa lýst því að ákærði hafi látið hana fróa honum og sett fingur í kynfæri hennar. Hún hafi sagt sína sögu smátt og smátt.  Vitnið bar að á þessum tíma hafi andleg líðan Y verið afar slæm og hafi hún t.d. ekki getað farið ein í banka og einnig haft miklar martraðir.  Að mati vitnisins hefur líðan stúlkunnar batnað mikið frá því sem var. 

Vitnið kvaðst aldrei hafa hvatt þær frænkur Y og Z til að leggja fram kæru í máli þessu en Y hafi sagt að hún vildi ekki að það sama henti önnur börn og það sem henti þær. Vitnið bar að Y hafi orðið fyrir miklu áfalli þegar hún var boðuð til skýrslutöku hjá lögreglu vegna ætlaðrar kynferðislegra háttsemi ákærða gagnvart yngri systur sinni, Æ.

   Vitnið, I, frænka Y var [...] 12 ára gömul sumarið 1993.  Hún kvaðst ekki muna eftir klámfengnu tali á heimilinu en hún muni eftir að hafa horft á grófa klámmynd þar, með ákærða, Y og J. Vitnið bar að Þ hafi ekki verið heima þegar þetta gerðist. Hún kvaðst ekki hafa orðið vitni að kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða þann tíma sem hún dvaldi á heimili hans.  Vitnið kvaðst stundum hafa séð um þvotta á heimilinu og þá tekið eftir því að óvenjumikil útferð hafi verið í nærbuxum Y.

Vitnið, J, kvaðst hafa verið [...] sumarið 1993 er hún var á 17. ári og hafi hún hjálpað til með börnin og heimilishaldið.  Hún sagði að mikið hefði verið klæmst þarna en ákærði ekkert meira en aðrir. Vitnið fullyrti að hún hefði aldrei séð klámmyndir eða klámspólur á heimili ákærða. Vitnið bar að samskipti hennar og ákærða hafi verið ágæt og ætti hún erfitt með að trúa ásökunum á hendur honum en hún kvaðst einnig eiga erfitt með að trúa því að Y segði ósatt.  Vitnið bar að Z hafi rætt ásakanir á hendur ákærða við hana og lýst áhyggjum sínum af börnum ákærða á heimili hans.  Vitnið bar að Z hafi lýst undrun sinni á því að vitnið skyldi ekki vita neitt um þessi mál og mikil heift hefði verið í Z. 

Vitnið, Georgía Magnea Kristmundsdóttir sálfræðingur, bar að Y hafi verið vísað til hennar af [...] vegna vanlíðanar hennar en hún hefði verið lögð í einelti alla sína skólagöngu.  Starf hennar hefði fyrst og fremst falist í því að byggja upp sjálfstraust, ákveðni og félagsfærni hjá stúlkunni.  Vitnið bar að þann 3. febrúar 1999 hafi Y sagt í viðtali að Z frænka hennar hafi innt hana eftir því hvort ákærði hefði áreitt hana kynferðislega.  Vitnið bar að Y hafi svarað spurningu Z játandi til að fá frið fyrir frekari spurningum Z.  Vitnið bar að í annað sinn hafi Y skýrt frá því að móðir hennar hefði lagt að henni að greina ömmu sinni og afa frá því að hún hafi ranglega játað spurningum Z um kynferðislega áreitni ákærða í sinn garð. Vitnið kvaðst þekkja til einkenna þolenda kynferðisbrota og hafi Z borið slík einkenni. Vitnið upplýsti að hún hefði einungis hitt Y fimm sinnum og því hafi kynni þeirra ekki verið djúp en framfarir hafi orðið hjá Y.

Vitnið, Ragnheiður Indriðadóttir sálfræðingur, bar að Y hafi komið til hennar snemma hausts 2001 og þær hafi átt 10 viðtöl. Vitnið kvað andlega líðan Y hafa verið slæma. Hún hafi átt erfitt með svefn, verið haldin miklum kvíða, öryggisleysi, verið grátgjörn og með lélega sjálfsmynd.  Y hafi rakið líðan sína til kynferðisbrota föður sem hún hafi lýst.  Brotin hafi byrjað þegar hún var 8 ára og staðið allt þar til [...] 14 ára.  Hún hafi lýst því að ákærði hefði þuklað á brjóstum hennar, sett fingur inn í leggöng, sýnt henni klámblöð og spólur og haft á orði að hann væri að kenna henni.  Þetta athæfi hafi ákærði viðhaft margsinnis. Vitnið kvað sjálfsmynd Y hafa molnað smátt og smátt.  Það var álit vitnisins að áðurnefnd einkenni Y samræmdust því að hún hefði orðið fyrir kynferðisbrotum.  Vegna þessa hafi hún og legið vel við einelti og látið það yfir sig ganga.  Henni hafi fundist hún vera skítug, hún njóti ekki kynlífs og sambönd hennar við karlmenn hafi verið stutt og losaraleg. Að mati vitnisins hafði Y góð raunveruleikatengsl og kvað hana tengja orsök og afleiðingu. Hún hafi lokið stúdentsprófi og sjái nú fyrir sér framtíð.  Vitnið sagði að hennar starf hafi verið að styrkja og styðja Y í hennar erfiðleikum.  Vitnið bar að Y hafi alla tíð verið stöðug í sínum framburði en borið að kæra hennar hjá lögreglu hafi fyrst og fremst verið lögð fram vegna þess að hún hefði áhyggjur af systrum sínum.  Vitnið kannaðist ekki við að Y hefði dregið ásakanir sínar til baka. Það var mat vitnisins að Y  hafi átt góð samskipti við móðurfjölskyldu [...] og hún hafi haft mikinn styrk af Z frænku sinni. Vitnið bar að Y hafi náð miklum bata á síðasta ári, en hún þarfnist þó mikillar aðstoðar í framtíðinni.

Vitnið, Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir, bar að ákærði hefði fyrst komið í viðtal 14. júlí 1998. Hann hafi haft alvarlegar sjálfsvígshugleiðingar og legið af þeim sökum á sjúkrahúsi frá 26. til 30. júlí 1998.  Þar fyrir utan hafi hann komið í fjölda viðtala. Vitnið bar að ákærði hafi farið í sálfræðirannsókn hjá Kristjáni Má Magnússyni sálfræðingi og við hana hafi vitnið stuðst í umsögn sinni til lögreglunnar í [...]. Þar komi fram að ákærði hafi tjáð sig um öll sakarefnin og lýst sig saklausan af þeim. Þá bar vitnið að það hafi verið niðurstaða prófana Kristjáns Más Magnússonar sálfræðings að ákærði sé meðvitaður gerða sinna og við ágæta andlega heilsu. Ekkert komi fram í persónuleikaprófum er benti til þess að ákærði sé líklegur til að misnota börn eða hann hafi getað gleymt, bælt eða útilokað minningar um kynferðislegt ofbeldi gagnvart dóttur sinni og mágkonu. Vitnið kvaðst sammála niðurstöðu Kristjáns Más og frá upphafi hafi hann verið nánast sannfærður um sakleysi ákærða.

   Vitnið, Kristján Már Magnússon sálfræðingur, kvaðst hafa lagt persónuleika-próf fyrir ákærða en niðurstaða þeirra prófa hafi ekki bent til þess að ákærði væri líklegur til að misnota börn kynferðislega. Í niðurstöðu greiningarskýrslu vitnisins sem dagsett er 28. desember 1998 og vitnið staðfesti fyrir dóminum, kemur fram að ekkert benti til þess að ákærði hafi getað gleymt, útilokað eða bælt minningar um að hann hafi beitt dóttur sína og mágkonu kynferðislegu ofbeldi.  Þá hafi ekkert í framburði eða persónugerð ákærða stutt að þetta hafi nokkurn tíma gerst. Vitnið kvað slík sálfræðipróf ekki óyggjandi sönnun þess að ákærði hefði ekki gerst sekur um kynferðislega misnotkun gagnvart börnum.  Þá kvaðst vitnið hafa farið að efast um að niðurstaða prófsins væri rétt þegar ákall kom frá [...] vegna breyttrar hegðunar yngri dóttur ákærða Æ.  Vitnið kvaðst hafa hitt Æ 19. febrúar 1999. Í greinargerð hans dagsettri 19. janúar 2000 um telpuna sem hann staðfesti fyrir dómi kemur fram að í samtölum við stúlkuna hafi komið fram að hún hafi haft óvenju nákvæma vitneskju um kynlíf miðað svo ungt barn. Vitnið bar fyrir dómi að stúlkan hefði greinilega orðið vitni að kynlífi og skoðað klámefni með ákærða í tölvu. Hún hafi lýst hluta af þessu efni nákvæmlega, m.a. sagt frá mynd þar sem karlmaður hafði samfarir við telpu sem ekki hafði nein brjóst.  Vitnið kvaðst hafa vísað málinu til barnaverndarnefndar vegna þess hversu greinargóð lýsing stúlkunnar hafi verið. 

IV.

Niðurstaða.

Ákærði hefur staðfastlega við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi neitað allri sök í málinu.  Þá bar hann fyrir dómi að hann hafi aldrei sýnt vitnunum Z, Y, I eða A klámefni en framburður þeirra er á annan veg um það efni.  Ákærði skýrði hins vegar frá því fyrir dómi að hann hefði svarað fyrirspurn dóttur sinnar Y um kynferðisleg málefni með því að sýna henni m.a. tímaritið Bleikt og blátt. Varðandi samskipti sín við Z hefur ákærði haldið því fram, í staðfestri lögregluskýrslu frá 7. desember 2000, að hann hefði um áramótin 1991 til 1992 orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu Z, sem þá var 14 ára.  Þá bar hann að á heimili hans hafi ekki verið til annað klámefni en tímaritið Bleikt og blátt en um tíma hafi þó verið klámmyndband í eigu annars aðila á heimilinu.  Þá hafnaði hann alfarið frásögn vitnisins A um að hann hafi haft í frammi við hana kynferðislega tilburði. Sá framburður ákærða er í andstöðu við það sem vitnin A og Z báru fyrir dóminum.

Í málinu liggur fyrir að ákærði fór að undirlagi Brynjólfs Ingvarssonar geðlæknis, í greiningarviðtöl til Kristjáns Más Magnússonar sálfræðings haustið 1998.  Fyrir dómi bar Brynjólfur að hann væri sammála niðurstöðu Kristjáns Más að ekki væri líklegt að ákærði væri haldinn barnagirnd.  Kristján Már bar hins vegar fyrir dómi að eftir athugun sína í febrúar 1999 á Æ, yngri dóttur ákærða, hafi hann farið að efast um að niðurstöður prófana hans væru réttar.  Stúlkan var þá 11 ára gömul. 

I. kafli ákæru.

Vitnið, Z, lýsti ítarlega  brotum ákærða í hennar garð.  Þannig lýsti hún af nákvæmni aðdraganda, umhverfi og aðferð sem ákærði viðhafði er hann lét hana fróa sér í [...] um tilvik sem greinir í 2. tölulið þessa kafla ákæru. Þá lýsti hún árstíma, aðstæðum [...] í smáatriðum og líðan sinni meðan á athöfnum ákærða stóð. Um tilvik þau sem greinir í 3. tölulið þessa kafla ákæru lýsti Z lýsti því að skammur tími hefði liðið á milli þeirra tilvika er ákærði lét hana fróa sér [...]. Hún lýsti háttsemi ákærða og afstöðu þeirra til hvors annars [...] meðan á háttseminni stóð af nokkurri nákvæmni. Z lýsti því að baðherbergið [...] hefði verið lítið og erfitt fyrir fullorðinn mann að athafna sig þar eins og lýst er í ákæru og er sá framburður í samræmi við framburð ákærða.  Hún lýsti því að ákærði hefði lagst ofan á hana á baðherbergisgólfinu og viðhaft þá háttsemi sem lýst er í 3. tölulið I. kafla ákærunnar.  Einnig lýsti hún orðum ákærða meðan á þessu stóð en ákærði hafi m.a. sagt að hann ,,kæmist ekki alla leið".  Á sama hátt var lýsing vitnisins á því tilviki sem lýst er undir 4. tölulið þessa kafla ákæru ítarleg og nákvæm.  Hún lýsti m.a. líðan sinni meðan á athöfnum ákærða stóð og því að nafngreindur maður hefði knúið dyra.  Atviki því sem lýst er í 5. tölulið þessa kafla ákæru kvaðst hún ekki geta lýst nákvæmlega.  Hún kvaðst þó muna eftir því að hafa farið þessa löngu leið í dráttarvélinni, og því að þau hafi mætt bifreið sem orðið hafi til þess að ákærði lét hana hætta um stund.  Hún kvaðst tengja þennan atburð [...] og aðstæðum systur sinnar er þá hafi verið með ungabarn.  Þá er frásögn hennar af því sem gerðist að [...] í þessari greinargóð. 

Vitnið Z lagði fram kæru á hendur ákærða vegna framangreindrar háttsemi í nóvember 2000, en þá voru liðin tæp 15 ár frá því að fyrsta brotið átti sér stað.  Á hinn bóginn er upplýst að Z hafði þegar á árinu 1991 skýrt að nokkru leyti frá því að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega.  Þannig sagði hún A vinkonu sinni á árinu 1991 að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega.  Tilefnið var kynferðisleg háttsemi ákærða í garð þeirra vinkvenna. Með trúverðugum framburði vitnanna, B, C, Ö, G, D, E, Þ og Y er upplýst að hún sagði þeim einnig á mismunandi tímum frá háttsemi ákærða. Þá er á meðal gagna málsins skýrsla Helgu Hannesdóttur geðlæknis þar sem fram kemur að Z hafi tjáð henni í desember 1995 að hún hafi verið ,,misnotuð kynferðislega á aldrinum 9-13 ára af ættingja".  Í framburði flestra vitnanna kom fram að Z hafi haft áhyggjur af því að ákærði áreitti önnur börn á heimili sínu.  Fyrir liggur að vitnið lagði fram framangreinda kæru eftir að hún hafði verið kölluð til skýrslugjafar hjá lögreglu vegna meintrar kynferðislegrar misnotkunar ákærða gagnvart 11 ára gamalli dóttur sinni. 

Z hefur í frásögn sinni verið sjálfri sér samkvæm um háttsemi ákærða. Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn frá atburðum þeim sem í ákæru greinir er framburður hennar að mati dómsins heilsteyptur og trúverðugur. 

Þegar framangreint er virt í heild og horft til greinargóðrar lýsingar Z hjá lögreglu og fyrir dómi sem og þess hversu mörgum aðilum hún sagði sögu sína á mismunandi tímum, þykir fram komin lögfull sönnun um atvik þau sem greinir í þessum kafla ákæru. Framburður ákærða var hins vegar í andstöðu við frásögn vitna m.a. um atriði sem ekki tengjast sakarefninu. Í framburði hans gætti einnig mikillar vanvirðingar í garð Z og er framburður hans í heildina litið ótrúverðugur. 

Með framangreindri háttsemi hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 200. gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en með breytingu á XXII. kafla laganna varðar háttsemin við fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, en þó þannig að refsing verði ekki þyngri en orðið hefði eftir eldra ákvæði 202. gr. laganna sbr. meginreglu 2. gr. sömu laga. 

   II. kafli ákæru.

   Ákærði hefur við alla meðferð málsins þverneitað háttsemi þeirri sem lýst er í þessum kafla ákæruskjals. Eins og að framan er rakið kvaðst hann fyrir dómi eingöngu hafa sýnt Y tímaritið Bleikt og blátt svo og Kvennafræðarann er hún spurði hann um kynferðisleg málefni.  Stúlkan var þá 9 ára. 

   Y bar að áreitni ákærða í hennar garð hafi byrjað er hún hafi spurt hann að því hvað væri að fróa sér og hann þá sýnt henni tímarit með grein um þetta efni, líkt og ákærði hefur borið. Þá lýsti vitnið háttsemi ákærða ítarlega og í samræmi við 1. tölulið þessa kafla ákærunnar.  Hún bar m.a. að hún hafi kennt sársauka við athafnir ákærða, ákærði hafi rætt við hana á meðan á athæfinu stóð en hún hafi reynt að hlusta ekki.  Þá bar vitnið einnig að ákærði hafi sagst vera að kenna henni.

Þeirri háttsemi sem greinir í 2. tölulið þessa kafla ákæru lýsti vitnið á greinargóðan hátt, þar á meðal aðdraganda hennar. Vitnið bar að ákærði hefði oft talað um kynlíf við sig og lýst skapahárum Z frænku sinnar. Einnig hafi hann lýst samlífi hans og móður hennar og að auki kynferðislegum athöfnum vitnanna Z og A.

Í málinu liggur fyrir að vitnið greindi móður sinni og ömmu frá kynferðislegum athöfnum ákærða í hennar garð sumarið 1998. Áður hefði Z frænka hennar spurt hana um hvort hún hafi mátt þola slíkt af hálfu ákærða og hún játað því. Upplýst er að vitnið dró ásakanir sínar í garð föður síns til baka nokkru eftir að þær komu fram, fyrst í samtali við foreldra sína og síðar í viðtali hjá Georgíu Magneu sálfræðingi.  Í ljósi þess að ákærði hafði lýst því að hann myndi fyrirfara sér vegna ásakana hennar og Z er það mat dómsins að þetta rýri ekki trúverðugleika framburðar hennar. 

Vitnið, Ragnheiður Indriðadóttir sálfræðingur, bar að Y hafi tjáð henni að ákærði hefði misnotað hana líkt og greinir í ákæru frá því að hún var 8 ára og allt til 14 ára aldurs. Að sögn vitnisins samræmdist andleg líðan Y og léleg sjálfsmynd hennar því að hún hefði verið misnotuð kynferðislega.  Hefur þetta mat vitnisins einnig stoð í framburði vitnisins Georgíu Magneu. Vitnið Y bar að hún hafi hugsað sig vel um áður en hún lagði fram kæru á hendur föður sínum en hún hafi með kærunni viljað koma í veg fyrir brot ákærða gegn yngri systrum sínum. 

Þegar allt framangreint er virt er það mat dómsins að framburður vitnisins sé trúverðugur og borinn fram af einlægni og staðfestu.  Með hliðsjón af þessu og því að ákærði hefur orðið sannur að athæfi sömu tegundar gagnvart Z mágkonu sinni, vitnisburði Kristjáns Más Magnússonar sálfræðings um yngri dóttur ákærða og vitnisburði A um kynferðislegt athæfi ákærða í sinn garð, þykir ekki varhugavert að telja, þrátt fyrir neitun ákærða, að næg sönnun sé fram komin fyrir sekt hans samkvæmt þessum kafla ákæru. 

Með framangreindri háttsemi hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 200. gr. og 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en með breytingu á XXII. kafla laganna varðar háttsemin við 1. mgr. 200. gr. og fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 8. gr. og 10. gr. laga nr. 40/1992, en þó þannig að refsing verði ekki þyngri en orðið hefði eftir eldra ákvæði 202. gr. hegningarlaga, sbr. meginreglu 2. gr. sömu laga.

   Brot ákærða voru ítrekuð um árabil og eru alvarlegs eðlis. Með háttsemi sinni gerðist hann sekur um kynferðislegt ofbeldi gagnvart mágkonu sinni og dóttur, misnotaði sér aðstöðu sína og brást trúnaðartrausti þeirra. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu og þykir refsing hans með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. töluliðs 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga eftir atvikum hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. 

   Í málinu krafðist réttargæslumaður beggja brotaþola, Þorbjörg I. Jónsdóttir héraðsdómslögmaður, skaðabóta að fjárhæð 774.700 krónur til handa hvorri þeirra um sig.  Bótakröfu sína sundurliðaði hún þannig:  Miskabætur 500.000 krónur, áætlaður kostnaður vegna sálfræðimeðferðar 200.000 krónur og lögfræðikostnaður að meðtöldum virðisaukaskatti 74.700 krónur. Auk þessa krafðist hún vaxta.  Bótakröfurnar voru birtar ákærða 25. september 2001.

Lögmaðurinn rökstuddi kröfu sína við aðalmeðferð málsins. 

Ákærði andmælti bótakröfunni fyrir dómi. 

Bótakrefjendur eiga rétt á miskabótum, auk vaxta eins og í dómsorði greinir, úr hendi ákærða vegna þeirrar háttsemi sem hann hefur verið sakfelldur fyrir sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sbr. áður 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að mati dómsins hafa kærendur átt í verulegum sálrænum erfiðleikum vegna verknaðar ákærða. Verður hann því dæmdur til að greiða miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur til hvorrar um sig auk lögfræðikostnaðar.  Kröfu um áætlaðan kostnað vegna sálfræðimeðferðar ber hins vegar að vísa frá dómi. 

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin 300.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Stefáns Ólafssonar héraðsdómslögmanns, svo og 150.000 króna þóknun Þorbjargar I. Jónsdóttur héraðsdómslögmanns, réttargæslumanns beggja brotaþola.  Við ákvörðun þóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til þess tíma sem fór í ferðalag hans vegna meðferðar málsins. 

   Halldór Halldórsson dómstjóri, sem dómsformaður ásamt Ingveldi Einarsdóttur og Ólafi Ólafssyni, héraðsdómurum kveða upp dóm þennan.  Dómsuppsaga hefur dregist vegna umfangs málsins og mikilla anna dómsformanns. 

DÓMSORÐ.

   Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár.

   Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin 300.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Stefáns Ólafssonar héraðsdómslögmanns, svo og 150.000 króna þóknun Þorbjargar I. Jónsdóttur héraðsdómslögmanns, réttargæslumanns beggja brotaþola.

   Ákærði greiði Z 574.700 krónur með vöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. október 2001 til greiðsludags.

   Ákærði greiði Y 574.700 krónur með vöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. október 2001 til greiðsludags.