Hæstiréttur íslands

Mál nr. 281/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Tilhögun gæsluvarðhalds
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


Þriðjudaginn 28

 

Þriðjudaginn 28. júní 2005.

Nr. 281/2005.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Tilhögun gæsluvarðhalds. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Vísað var frá Hæstarétti kröfu X um breytingu á tilhögun gæsluvarðhaldsvistar þar sem ekki varð séð að slík krafa hefði verið borin undir héraðsdómara.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. júní 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 30. júní 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess, þurfi hann að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, að tilhögun gæsluvarðhaldsvistar verði breytt þannig að takmörkunum samkvæmt b., c. og d. liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 verði aflétt. Einnig krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Ekki verður séð að krafa varnaraðila um breytingu á tilhögun gæsluvarðhaldsvistar hafi verið borin undir héraðsdóm samkvæmt 75. gr. laga nr. 19/1991 og verður henni því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kröfu varnaraðila, X, um breytingu á tilhögun gæsluvarðhaldsvistar er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. júní 2005.

                Sýslumaðurinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, [kt. og heimilisfang], skuli sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 30. júní nk. kl. 16:00. Um lagaheimildir er vísað til 103. gr. a liðar laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

                Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan hafi í gær, miðvikudaginn 22. júní, kl. 22:11, handtekið X eftir að hann átti fíkniefnaviðskipti við nafngreindan aðila.

Lögreglan á Selfossi kveðst hafa undanfarnar vikur rannsakað meint fíkniefnabrot X. Að fengnum úrskurði Héraðsdóms Suðurlands hinn 20. maí 2005 hafi lögregla hlustað síma X. Við hlustunina og rannsókn málsins hafi komið fram upplýsingar um umfangsmikla sölu hans á talsverðu magni fíkniefna til margra aðila. Einnig hafi hlustun lögreglu á síma X leitt til þess að aðilar tengdir honum hafi margsinnis verið handteknir með talsvert magn fíkniefna. X hafi sjálfur verið mjög varkár í sölustarfsemi sinni og við afhendingu efna.

Hlerunin hafi einnig leitt í ljós að X hafi að öllum líkindum átt samræði við barn yngra en 14 ára.

Hinn 22. júní s.l. hafi komið fram í símtali að kaupandi vildi hitta X. Lögreglan fylgdist með er kaupandinn og X hittust við Samkaup á Selfossi, þar sem afhending ætlaðra kannabisefna hafi farið fram. Lögreglan hafi síðan stöðvað kaupandann sem hafi viðurkennt að hafa keypt kannabisefni af X og gleypt efnið áður en lögreglan hafi náð að stöðva för hans. X hafi í framhaldinu verið handtekinn kl. 22:11 í gær. Hafi fundist í fórum hans tveir molar af ætluðum kannabisefnum og ætlaður skuldalisti vegna fíkniefnaviðskipta. Síðar um kvöldið hafi verið framkvæmd húsleit í herbergi X að [...], þar hafi fundist tveir molar af ætluðum kannabisefnum.

Lögreglan kveðst hafa hlerað yfir 1.900 símtöl í síma X á tímabilinu frá 20. maí og hafa upplýsingar um nöfn nokkurs fjölda kaupanda, auk stærri dreifingaraðila. Lögreglu sé nauðsynlegt að ná til þessara aðila og staðreyna upplýsingar þær er fengist hafi í áðurnefndri símhlerun. Einnig sé lögreglu nauðsynlegt að fara fram á skýrslutöku í Barnahúsi yfir ætluðum brotaþola í kynferðisbrotahluta málsins.

Lögregla kveður rökstuddan grun vera til staðar um að X hafi stundað sölu og dreifingu fíkniefna í Árnessýslu og í Reykjavík á undanförnum vikum og að hann hafi selt talsvert magn efna til margra aðila. Auk þess leiki grunur á að X hafi hinn 19. júní s.l. haft samræði við barn yngra en fjórtán ára, þannig að varðað geti við 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. X neiti alfarið sök. Nauðsynlegt sé því að krafa þessi nái fram að ganga svo unnt sé að rannsaka málið án þess að aðilar nái að tala sig saman og hugsanlega að spilla sakargögnum eða hafa áhrif á vitni.

Verið sé að rannsaka ætluð brot X á lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sem einnig kunni að varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot á 202 gr. almennra hegningarlaga. Þau sakarefni sem hér um ræði varði fangelsisrefsingu ef sök telst sönnuð. Rannsókn málsins sé viðamikil og sé á frumstigi og veruleg hætta þyki á að hinn grunaði muni torvelda rannsókn með því að skjóta undan munum, eða hafa áhrif á vitni og samseka gangi hann laus.

Gæsluvarðhalds sé krafist með vísan til alls ofanritaðs, rannsóknarhagsmuna, svo og með til vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

                Kærði er grunaður um brot gegn fíkniefnalöggjöf og um kynferðisbrot. Geta brot þessi varðað fangelsisrefsingu allt að 12 árum ef sök sannast. Hann neitar sakargiftum, neitaði alfarið að tjá sig hjá lögreglu og hefur að mestu neitað að tjá sig um sakarefnin fyrir dómi og ber því við að hann sé ekki í jafnvægi. Rannsóknargögn, sem fyrir liggja, vekja hins vegar sterkan grun um aðild hans bæði að sölu fíkniefna og meintu kynferðisbroti. Verður að telja að rökstuddur grunur sé til staðar um að hann sé sekur um þá háttsemi sem hann er grunaður um. Rannsókn málsins hefur staðið nokkurn tíma en er ólokið, yfirheyra þarf kærða frekar sem og talsverðan fjölda vitna. Verður að telja að hætta sé á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna, meðal annars með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast meintum brotum, einnig að hann gæti komið hugsanlegum sönnunargögnum undan. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og er krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, enda þykir tímalengd í hóf stillt.

                Úrskurðinn kveður upp Hjördís Hákonardóttir dómstjóri.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Kærði, X [kt.], skal sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 30. júní nk. kl. 16:00.