Hæstiréttur íslands

Mál nr. 456/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003.

Nr. 456/2003.

Sýslumaðurinn á Seyðisfirði

(enginn)

gegn

X

(Hilmar Gunnlaugsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. nóvember 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 25. nóvember 2003, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Austur-Héraði, Norður-Héraði, Fellahreppi og Fljótsdalshreppi, allt til föstudagsins 28. nóvember 2003 kl. 15.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði bönnuð för frá Íslandi. Þá krefst hann málsvarnarlauna fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 25. nóvember 2003.

                Lögreglustjórinn á Seyðisfirði hefur með beiðni dagsettri 25. nóvember 2003 krafist þess að Héraðsdómur Austurlands banni X för frá Austur-Héraði, Norður-Héraði, Fellahreppi eða Fljótsdalshreppi uns máli hans er lokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 28. nóvember 2003, kl. 15:00. 

[...]

                Verið er að rannsaka ætlað brot kærða gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sunnudaginn 23. nóvember s.l. Kærði hefur neitað að tjá sig um kæruefnið en unnið er að rannsókn málsins. Kærði er portúgalskur að þjóðerni og hefur ekki önnur tengsl við Ísland en að hann starfar hér tímabundið. Fulltrúi lögreglustjóra heldur því fram að yfirmenn kærða hafi lýst því yfir að honum verði sagt upp störfum og hann sendur úr landi. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir staðfestar upplýsingar um að til standi að senda kærða úr landi þykir mega fallast á það með fulltrúa lögreglustjóra að vegna þess hvernig tengslum kærða við Íslands er háttað sé verulegur vafi á því að hægt verði að tryggja nauðsynlega nærveru hans til að ljúka megi rannsókn málsins og taka ákvörðun um saksókn og meðferð þess fyrir héraðsdómi verði honum ekki meinuð för þann tíma sem krafist er frá Austur-Héraði, Norður-Héraði, Fellahreppi og Fljótsdalshreppi. Með vísan til 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála er fallist á kröfu lögreglunnar á Seyðisfirði um að kærða, X, sé bönnuð för frá Austur-Héraði, Norður-Héraði, Fellahreppi eða Fljótsdalshreppi, allt til föstudagsins 28. nóvember 2003 kl. 15:00.

Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kveður upp úrskurðinn.   

Úrskurðarorð:

                Kærða, X, er bönnuð för frá Austur-Héraði, Norður-Héraði, Fellahreppi og Fljótsdalshreppi, allt til föstudagsins 28. nóvember 2003 kl. 15:00.