Hæstiréttur íslands

Mál nr. 105/2003


Lykilorð

  • Höfundarréttur
  • Samningur
  • Vanefnd
  • Riftun


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. október 2003.

Nr. 105/2003.

Plötur ehf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Gunnari Erni Tynes,

Kristínu Önnu Valtýsdóttur og

Örvari Smárasyni

(Hörður F. Harðarson hrl.)

 

Höfundaréttur. Samningur. Vanefnd. Riftun.

G o.fl. kröfðust að staðfest yrði með dómi riftun plötuútgáfusamnings þeirra við P. Talið var að með gerð sérstaks samkomulags við Y hefði P brotið gegn samningsskyldum sínum við G o.fl. Vegna þessa hafi G o.fl. verið heimilt að grípa til vanefndaúrræða gegn P. Jafnframt var talið að með því að gera samkomulag við P vegna ætlaðs brots P á plötuútgáfusamningnum án þess að gera fyrirvara um að grípa til frekari vanefndaúrræða hafi G o.fl. firrt sig rétti til að krefjast riftunar síðar. Var P því sýknaður af kröfu G o.fl.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. mars 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu hafa lagt fyrir Hæstarétt myndsnældu þar sem hluti lags hljómsveitarinnar Múm  „I’m 9 Today“ er leikið undir auglýsingu um ferðatölvu frá framleiðandanum Sony. Þá hafa þau lagt fram nokkrar skýrslur um birtingu auglýsingar í sjónvarpsstöðvum í Bandaríkjunum.

I.

Mál þetta var höfðað fyrir héraðsdómi af stefndu auk Gyðu Valtýsdóttur, en þau skipuðu  hljómsveitina Múm á þeim tíma, er atvik máls þessa urðu, og gerðu 9. febrúar 2000 plötuútgáfusamning þann við áfrýjanda, sem málið snýst um. Við upphaf aðalmeðferðar málsins í héraði 3. desember 2002 skýrði lögmaður stefnenda frá því að Gyða Valtýsdóttir félli frá aðild að málinu þar sem hún væri ekki lengur í hljómsveitinni. Með hliðsjón af grunnrökum ákvæðis 3. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eru ekki efni til að vísa málinu af þessum sökum sjálfkrafa frá dómi samkvæmt 2. mgr. sömu greinar.

II.

Í máli þessu krefjast stefndu að staðfest verði með dómi riftun á framangreindum plötuútgáfusamningi. Fyrir Hæstarétti snýst ágreiningur aðila um það hvort að í samkomulagi áfrýjanda við Young & Rubicam, sem staðfest var með bréfi 4. október 2001, og eftirfarandi birtingu sjónvarpsauglýsingar frá Sony við undirleik með lagi hljómsveitarinnar á grundvelli samkomulagsins hafi falist slíkt brot á samningsskyldum áfrýjanda og sæmdarrétti stefndu að það heimili þeim síðarnefndu riftun á plötuútgáfusamningnum. Þá deila aðilar um hvort stefndu hafi með viðbrögðum sínum við ætluðum samningsbrotum áfrýjanda firrt sig þeim rétti, sem þau ella kynnu að hafa haft til að rifta samningnum.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi var áfrýjanda með plötuútgáfusamningnum veittur réttur til útgáfu á einni breiðskífu hljómsveitarinnar Múm. Fólst í samningnum einkaréttur til útgáfu og dreifingar á því efni, sem samningurinn tók til, um allan heim í fimm ár frá fyrstu útgáfu plötunnar en þó í sjö ár í Bandaríkjunum. Þá var í samningnum valkvætt ákvæði um útgáfu annarrar breiðskífu, sem ekki skiptir hér máli. Útgefanda var samkvæmt samningnum veitt nánar tilgreind heimild til að gefa út smáskífur, sem innihéldu frumútgáfu verks eða verka af breiðskífunni auk endurhljóðblandana þeirra. Skyldi útgefandi einn velja „endurútsetjara (remixara)“ í tengslum við slíka smáskífuútgáfu. Þá tók útgefandi einn að sér og hafði jafnframt „fullt ákvörðunarvald“ um hönnun umbúða, gerð auglýsinga og tónlistarmyndbanda og alla markaðssetningu og dreifingu hljómplatna og annarra forma, sem þær upptökur sem samningurinn tók til kynnu að verða seldar í. Varðandi kynningu var kveðið á um það að útgefandi skyldi taka viðeigandi tillit til mannorðs og sérkenna listamanna varðandi þau kynningarverkefni, sem þeim yrðu lögð á herðar, og „fullt samráð“ skyldi haft við þá um hönnun umbúða, gerð auglýsinga og tónlistarmyndbanda. Þá skuldbundu listamennirnir sig til að leggja ekki ósanngjarnar hindranir fyrir tilraunir útgefanda til að kynna, markaðssetja og selja verk þeirra. Útgefanda var veittur réttur til að framselja réttindi og skyldur sínar samkvæmt samningnum. Þannig gæti útgefandi veitt „þriðja aðila“ heimild til að gefa út verk listamannanna eftir að frumútgáfa hafi átt sér stað.

Með áðurnefndu bréfi Young & Rubicam 4. október 2001 var greint frá efnisatriðum samkomulags, sem félagið fyrir hönd umbjóðanda síns Sony annars vegar og áfrýjandi hins vegar, höfðu gert varðandi lagið „I’m 9 Today“, en það var á breiðskífu þeirri, sem áfrýjandi gaf út á grundvelli margnefnds útgáfusamnings. Staðfesti áfrýjandi efni samkomulagsins með undirritun sinni á bréfið. Samkvæmt því var Sony veitt heimild til að nota frumhljóðritun lagsins í 21 mánuð gegn tilteknu endurgjaldi. Skyldi notkun lagsins heimil án takmarkana í sjónvarps- og útvarpsauglýsingum, á Netinu sem og í leikhúsi og til iðnaðarþarfa. Ábyrgðist  áfrýjandi að hann hefði ótakmarkaðan útgáfurétt og rétt til eintakagerðar til að gera samninginn og ábyrgðist hvers konar kröfur og kostnað, sem af því kynni að hljótast ef svo reyndist ekki vera. Veitti hann heimild til samhæfingar, aðlögunar, útsetningar varðandi tímalend tónlistar og notkunar frumhljóðritunar af umræddu lagi í flutningi Múm. Er óumdeilt að á grundvelli þessa samkomulags var hluti umrædds lags leikinn undir sjónvarpsauglýsingu á framleiðsluvöru Sony, sem birt var í sjónvarpi í Bandaríkjunum, og að höfunda og flytjanda var ekki getið í auglýsingunni Þá er óumdeilt að umrætt samkomulag var gert án samþykkis eða vitundar stefndu.

Með framangreindum plötuútgáfusamningi var áfrýjanda veittur nánar skilgreindur einkaréttur til útgáfu á breiðaskífu með efni hljómsveitarinnar Múm og til útgáfu smáskífa með efni af breiðskífunni. Þá var honum veitt heimild til að framselja þessi réttindi. Í samningnum fólust hins vegar ekki víðtækari heimildir til birtingar eða fénýtingar á efni því, sem samningurinn tók til. Fénýting tónverkanna til auglýsinga var ekki meðal þess, sem samningurinn náði til. Verður heldur ekki fallist á að framangreind ákvæði samningsins um markaðssetningu og kynningu á efni breiðskífunnar hafi veitt áfrýjanda heimild til að fénýta efnið til að auglýsa alls óskylda framleiðsluvöru með þeim hætti, sem gert var í samkomulaginu við Young & Rubicam. Þá var ekki kveðið á í samningnum um heimild áfrýjanda til breytinga á tónverkum þeim, sem hann tók til. Var honum því óheimilt að gera slíkar breytingar eða veita öðrum rétt til þess, sbr. 1. mgr. 28. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Verður almenn heimild þess efnis ekki leidd af sérákvæði samningsins varðandi endurhljóðblöndun efnisins í tengslum við útgáfu á smáskífum. Ákvæði samkomulagsins við Young & Rubicam um þetta efni voru því brot á samningsskyldum hans við stefndu.

 Verður samkvæmt öllu framansögðu að telja að með gerð samkomulagsins við Young & Rubicam hafi áfrýjandi brotið gegn samningsskyldum sínum við stefndu. Hafði það brot valdið óafturkræfum afleiðingum að því leyti að tónverk Múm hafði verið birt í styttri mynd og tengt tilteknum framleiðsluvörum án samþykkis stefndu áður en þeim varð kunnugt um samningsbrot áfrýjanda. Var stefndu vegna þessa samningsbrots heimilt að grípa til vanefndaúrræða gegn áfrýjanda.

III.

Með bréfi bandarísks lögmanns stefndu til áfrýjanda 30. nóvember 2001 var því lýst yfir með vísan til viðræðna aðila að leyfi það, sem sá síðarnefndi hafi veitt samkvæmt framangreindu samkomulagi við Young & Rubicam til nýtingar lagsins „I’m 9 Today“, sé ógilt og að engu hafandi. Til að komast hjá lögsókn gegn félaginu vegna þessa var áfrýjandi beðinn að staðfesta að samkomulag væri um nánar tiltekin þrjú atriði: Í fyrsta lagi heimili áfrýjandi Múm að veita öll leyfi til nýtingar framangreinds lags til kynningar á vörum Sony um alla framtíð. Í öðru lagi heimili áfrýjandi Múm að hirða allar tekjur vegna leyfisveitingarinnar án skuldbindinga til að greiða áfrýjanda hluta þeirra og í þriðja lagi muni áfrýjandi ekki hafa uppi neinar kröfur á hendur Múm eða öðrum af þessu tilefni. Að beiðni lögmannsins staðfesti áfrýjandi með undirritun sinni að samkomulag væri um framangreind atriði. Kveðast stefndu í framhaldi af þessu hafa samið á ný við Sony og stytt heimilan nýtingartíma lagsins í auglýsingum fyrirtækisins úr 21 mánuði í 3 mánuði. Sá samningur hefur ekki verið lagður fram í málinu og teljast fullyrðingar stefndu um það efni ósannaðar gegn mótmælum áfrýjanda. Fjórum dögum eftir dagsetningu framangreinds bréfs hins bandaríska lögmanns stefndu ritaði lögmaður þeirra á Íslandi áfrýjanda bréf og lýsti yfir riftun útgáfusamningsins, fyrst og fremst vegna fyrrgreinds samkomulags áfrýjanda við Young & Rubicam.

Áfrýjandi heldur því fram að eftir viðræður aðila hafi orðið samkomulag um þau viðbrögð vegna ætlaðs samningsbrots áfrýjanda, sem rakin séu í fyrrgreindu bréfi hins bandaríska lögmanns. Hafi áfrýjandi gengið til þess samkomulags í þeirri trú að þar með væri fengin niðurstaða um ágreining aðila vegna samkomulagsins við Young & Rubicam varðandi auglýsingarnar fyrir Sony. Stefndu hafi með þessu samkomulagi firrt sig rétti til að gera síðar kröfur um önnur og víðtækari vanefndaúrræði vegna þessa. Stefndu halda því hins vegar fram að samkomulag aðila á grundvelli bréfs hins bandaríska lögmanns þeirra verði ekki skilið svo að í því hafi falist endir allrar þrætu vegna auglýsingasamkomulagsins. Báðum aðilum hafi verið brýn þörf á að finna lausn á þeim þætti málsins, er laut að réttindum þeim er Sony hafði verið veitt með samkomulaginu. Hafi bréf bandaríska lögmannsins því eingöngu lotið að því og þar af leiðandi aðeins varðað samkomulagið um auglýsingarnar. Útgáfusamningur aðila hafi alls ekki verið þar til umfjöllunar.

Fallast verður á það með áfrýjanda að samningsaðili, sem vill bera fyrir sig vanefnd gagnaðila á gagnkvæmum samningi, verði að gera það upp við sig til hvaða úrræða hann hyggst grípa af því tilefni og kynna það gagnaðila svo hann geti tekið afstöðu til krafa hans í heild. Með því að gera samkomulag við áfrýjanda vegna ætlaðs brots hans á samningnum án þess að gera fyrirvara um að grípa til frekari vanefndaúrræða firrtu stefndu sig rétti til að krefjast riftunar síðar. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefndu um að staðfest verði riftun á samningi aðila 9. febrúar 2000 um plötuútgáfu.

Rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Plötur ehf., er sýkn af kröfum stefndu, Gunnars Arnar Tynes, Kristínar Önnu Valtýsdóttur og Örvars Smárasonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2002.
                Mál þetta, sem dómtekið var 3. desember sl., var höfðað með stefnu með ódagsettri áritun um birtingu en þingfestri 25. júní 2002.
Stefnendur eru Gunnar Örn Tynes, kt. 050379-4349, Freyjugötu 36, Reykjavík, Gyða Valtýsdóttir, kt. 050182-5339, Rafstöðvarvegi 35, Reykjavík, Kristín Anna Valtýsdóttir, kt. 050182-5419, Rafstöðvarvegi 35, Reykjavík, og Örn Smárason, kt. 240677-4239, Mávahlíð 23, Reykjavík, vegna hljómsveitar sinnar MÚM. Við upphaf aðalmeðferðar lýsti lögmaður stefnenda því yfir að Gyða Valtýsdóttir félli frá aðild að málinu þar sem hún væri ekki lengur meðlimur hljómsveitarinnar MÚM.

Stefndi er Plötur ehf., kt. 541098-2839, Ægisgötu 7, Reykjavík.

Stefnendur gera þær dómkröfur að staðfest verði með dómi riftun á plötuúgáfusamningi stefnanda og stefnda dags. 9.2.2000. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og honum dæmdur málskostnaður óskipt úr hendi allra stefnenda.

I.

                Með plötuútgáfusamningi, dags. 9.2.2000, gerðu stefndi, í samningnum nefndur Thule Musik ehf., og hljómsveitin MÚM, sem stefnendur skipuðu, með sér samning sem um útgáfu á einni breiðskífu, auk réttar stefnda til útgáfu annarrar breiðskífu og til útgáfu á smáskífum. Samningurinn veitti stefnda einkarétt til útgáfu og dreifingar á því efni stefnenda sem samningurinn tók til. Tók rétturinn til alls heimsins og gilti til fimm ára frá fyrstu útgáfu fyrir önnur svæði en Bandaríkin, þar sem rétturinn gilti til sjö ára. Skuldbundu stefnendur sig til að hljóðrita ekki fyrir aðra plötuútgefendur það efni sem hljóðritað væri samkvæmt samningnum fyrr en að liðnum ofangreindum tímabilum á hverju svæði fyrir sig.

                Í 13. gr. samningsins er fjallað um fyrirkomulag á kynningu á hljóðritum. Samkvæmt a-lið greinarinnar undirgengust stefnendur ákveðnar skyldur vegna markaðssetningar á útgáfum samkvæmt samningnum. Samkvæmt b-lið greinarinnar skuldbatt stefndi sig til þess að taka viðeigandi tillit til mannorðs og sérkenna stefnenda í sambandi við slík kynningarverkefni. Þannig skyldi hafa fullt samráð við stefnendur um hönnun umbúða og gerð auglýsinga og tónlistarmyndbanda. Samkvæmt c-lið greinarinnar skuldbundu stefnendur sig til að að leggja ekki ósanngjarnar hindranir í veg fyrir tilraunir stefnda til að kynna, markaðssetja og selja verk stefnenda sem og almennt að fylgja eðlilegum viðskiptaháttum á þessu sviði.

Í 14. gr. samningsins er tekið fram að stefndi hafi ótímabundinn rétt til að nota nöfn stefnenda og hljómsveitarnafnið í auglýsingaskyni í auglýsingum sem ætlaðar eru til að koma á framfæri þeim hljóðritunum sem samningurinn nær til.

Í 21. gr. samningsins er kveðið á um að vanefni annar hvor samningsaðila verulega skyldur sínar samkvæmt samningnum sé gagnaðilanum heimilt að krefjast þess af þeim samningsaðila sem hefur vanefnt samninginn að hann láti af vanefnd og geri allt sem í hans valdi standi til að koma í veg fyrir eða bæta fyrir tjón og óþægindi af vanefndinni. Jafnframt er í greininni kveðið á um hvernig og hvenær slíka kröfu skuli gera og að gagnaðila sé heimil að rifta samningnum og/eða krefjast skaðabóta verði samningsaðili ekki við slíkri kröfu innan 14 daga eða geri sitt ítrasta til að verða við henni.

                Með samningi stefnda og bandarísku auglýsingastofunnar Young & Rubicam sem staðfestur er með bréfi Young & Rubicam til stefnda, dags. 4. október 2001, er Sony veitt heimild til að nota verk stefnenda "I'am 9 today" m.a. í auglýsingar í hvers kyns miðlum sem til auglýsinga má nota í alls 21 mánuð. Þá felst í samningnum heimild til breytinga á verkinu. Jafnframt ábyrgist stefndi að hann eigi m.a. svokallaðan forlagsrétt að verkinu.

Stefnendur kveðast hafa frétt af notkun lagsins "I'm 9 today" í sjónvarpsauglýsingu fyrir Sony í Bandaríkjunum frá aðila sem hafði séð auglýsinguna og þekkti lagið. Þeir hafi ekki getað fellt sig við notkun lagsins í auglýsingunni og látið það spyrjast til Young & Rubicam að þau teldu samning stefnda við Young & Rubicam vera utan heimilda stefnda. Þá kveðast stefnendur ítrekað áður hafa komið því á framfæri við stefnda að þau væru ekki fús til þess að heimila not af tónlist sinni í auglýsingaskyni umfram það sem væri beinlínis í þeim tilgangi að koma hljómsveitinni og tónlistinni sjálfri á framfæri

Stefndi kveðst hins vegar hafa staðið í þeirri trú að samningur um afnotarétt af einu verka stefnenda gæti einungis orðið þeim til framdráttar við markaðssetningu í Bandaríkjunum enda hafi hann verið í samræmi við það kynningarstarf sem stefnda var rétt og skylt að inna af hendi á grundvelli 13. gr. útgáfusamningsins.

Stefnendur kveðast í því skyni að höggva á þann hnút sem vanheimild stefnda gagnvart viðsemjendum hans var hafa fengið yfirlýsingu hans dags. 30. nóvember 2001 um að hann heimilaði þeim að veita svokallaðan master right til notkunar verksins í auglýsingum í ljósvakamiðlum og þiggja greiðslur sem fyrir kæmu. Gegn þessu hafi stefnendur fallist á að krefja stefnda ekki um skaðabætur vegna vanefndar hans. Stefnendur hafi síðan bætt úr vanheimildinni með því að veita réttinn sjálf beint til viðsemjenda stefnda. Það hafi þau gert að fengnum breytingum á samningnum sem takmörkuðu not viðsemjendanna frá því sem stefndi hafði samið um.

Stefndi kveður það fyrst hafa verið eftir að samningurinn var gerður við Young & Rubicam að stefnendur tjáðu honum að þeir hefðu ekki hug á því framvegis að tónlist þeirra væri notuð við auglýsingar. Vegna þess og með hliðsjón af almennri tillitsskyldu samkvæmt útgáfusamningi aðila, kveðst stefndi hafa gert samkomulagið, dags. 30. nóvember 2001, þar sem stefnendum var veittur fullur réttur ("to issue all master licenses") vegna lagsins "I'm 9 today" í tengslum við notkun þess í auglýsingum Sony. Jafnframt hafi stefnendum verið framseldur allur réttur til að innheimta allar tekjur vegna notkunar lagsins í auglýsingum, án þess að stefndi fengi þar nokkurn hlut. Samkomulag þetta hafi verið gert í samræmi við þær óskir sem stefnendur komu á framfæri við stefnda og í því skyni að tryggja gott samstarf aðila framvegis.

Lögmaður stefnenda ritaði stefnda bréf dags. 4. desember 2001. Í bréfinu er í fyrsta lagi fjallað um alvarleg vanskil stefnda og skorað á hann samkvæmt 21. gr. útgáfusamningsins að gera tafarlaust úrbætur. Þá er í bréfi lögmannsins ennfremur gerð grein fyrir því að stefnendur hafi nýverið komist að því að stefndi hafi selt auglýsingastofunni Young & Rubicam, f.h. Sony "rétt" til lagsins "I'm 9 today". Lýsti lögmaðurinn yfir riftun á plötuútgáfusamningi aðila vegna þeirrar verulegu vanefndar sem samningurinn við Young & Rubicam fól í sér.

Með bréfi stefnda frá 6. desember 2001 eru vanskil þau sem stefndi var krafinn um með bréfi stefnenda frá 4. desember 2001 gerð upp og grein gerð fyrir ástæðum þess að frágangur uppgjörs hafði dregist.

Þá kemur fram í bréfinu að því sé ekki mótmælt að stefndi hafi gert mistök þegar samningur var gerður um sölu á réttindum til birtingar lagsins "I'm 9 today". Þá er tekið fram að ekki þurfi að fjölyrða um að þessi mistök séu hörmuð. Þá útskýrir stefndi að hann hafi talið sig vera í góðri trú um að hann hafi haft fullt leyfi til að nota lögin á plötunni til að kynna hana á Bandaríkjamarkaði. Loks kveðst stefndi ekki geta fallist á riftun þar sem hann telji sig í góðri trú um að málið hafi verið leyst með samningnum 30. nóvember 2001. Sú afstaða stefnda var síðan ítrekuð með bréfi lögmanns hans 28. s.m.

II.

Stefnendur byggja á að stefndi hafi með samningi sínum við Young & Rubicam farið gróflega út fyrir efni plötuútgáfusamningsins. Réttur til notkunar tónverka í auglýsingaskyni séu sjálfstæð réttindi sem stefnendur hafi ekki framselt stefnda og þau því tilheyrt þeim. Þá hafi stefndi ábyrgst gagnvart viðsemjendum sínum að hann væri eigandi forlagsréttinda án heimildar í útgáfusamningnum eða samráðs við stefnendur.

Heimildarlaus samningsgerð stefnda hafi leitt til þess að tónlist stefnenda hafi verið notuð sem undirspil við sjónvarpsauglýsingu sem hafi verið þeim algerlega á móti skapi. Þá hafi stefndi heimilað viðsemjanda sínum að eiga við verk stefnenda í því skyni að laga það að auglýsingunni. Stórfelld vanefnd stefnda hafi því ekki aðeins falist í vanheimildinni heldur einnig í brýnu broti á sæmdarrétti stefnenda.

Ekki hafi verið um að ræða kynningu á tónlistinni skv. ákvæðum útgáfusamningsins, enda engin nafngreining í auglýsingunni, sem einnig sé sjálfstætt brot á sæmdarrétti stefnenda, sbr. 2. mgr. 4. gr. höfundarlaga nr. 73/1972.

Sjónvarpsauglýsinguna hafi verið búið að sýna um einhverja hríð áður en stefnendur vissu af tilvist hennar og óheimilli notkun verksins. Vanefndin sé því þess eðlis að ekki hafi verið unnt að bæta úr henni.

Stefnendur hafi leitast við að takmarka tjón sitt og ekki síður stefnda. Samkomulagið við viðsemjendur stefnda hafi fyrst og fremst verið gert af tillitssemi við stefnda, enda ljóst að hann hefði ella átt yfir höfði sér bótamál frá viðsemjendum sínum á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar (warrant). Þá hafi stefnendur verið ófúsir til þess að dragst inn í dómsmál í Bandaríkjunum. Samkomulagið hafi ekki verið nein viðurkenning á rétti stefnda umfram það sem leitt verði af útgáfusamningnum, né brottfall frá öðrum vanefndaúrræðum gagnvart stefnda en kröfu um skaðabætur. Samþykki stefnenda við áframhaldandi birtingu auglýsingarinnar verði einnig að skoða í ljósi þess að það var gert til þess að fyrirbyggja frekara tjón. Með samkomulaginu hafi notkunarrétturinn verið styttur úr 21 mánuði í 3 mánuði og af þeim voru 2 mánuðir þegar liðnir er stefnendur veittu samþykki sitt.

Auk framangreindra vanefnda hafi uppgjör og greiðslur þeirra vegna aldrei skilað sér á réttum tíma frá stefnda.

Telja stefnendur ljóst að vanefndir stefnda séu svo stórfelldar og þess eðlis að þeim hafi verið heimil tafarlaus riftun. Enn fremur vísa stefnendur til þess að framkvæmd stefnda á útgáfusamningnum hafi orðið til þess að forsendur áframhaldandi samstarfs hafi brostið og riftun því verið óumflýjanleg.

Um riftunarheimild vísa stefnendur til 21. gr. útgáfus

amningsins og almennra sjónarmiða og lagareglna um riftun. Þá vísa stefnendur til ákvæða höfundarlaga nr. 73/1972 um sæmdarrétt, sérstaklega 4. gr.

III.

                Stefndi byggir á að stefnendum hafi verið óheimilt að rifta útgáfusamningi þeirra við stefnda þar sem skilyrði riftunar hafi ekki verið fyrir hendi. Stefndi hafi ekki farið gróflega út fyrir efni plötuútgáfusamningsins. Í a-lið 13. gr. samningsins sé gert ráð fyrir að stefndi hafi með höndum kynningu á verkum stefnenda, ýmist með eða án þeirra liðsinnis. Jafnframt hafi stefnendur samkvæmt c- lið greinarinar skuldbundið sig til að leggja ekki ósanngjarnar hindranir í veg fyrir tilraunir stefnda til að kynna, markaðssetja og selja verk stefnenda, sem og almennt til að fylgja eðlilegum viðskiptaháttum á þessu sviði. Þá megi ráða af öðrum ákvæðum samningsins að stefnda hafi borið sjálfstæð skylda til að gæta hagsmuna stefnenda að ýmsu leyti, sbr. m.a. 16. gr. samningsins.

                Þá hafi stefndi notið fullrar heimildar samkvæmt útgáfusamningnum til að ganga til samningsins við Young & Rubicam.  Stefndi hafi samkvæmt a-lið 7. gr. samningsins haft fullt ákvörðunarvald um alla markaðssetningu, dreifingu og sölu vínil- eða geislaplatna og annarra forma sem upptökurnar kunna að verða seldar í. Þá hafi stefndi samkvæmt 17. gr. samningsins heimild til að framselja öll réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum til þriðja aðila. Stefndi hafi því eðli máls samkvæmt talið sér heimilt að gera það sem minna var, þ.e. að veita þriðja aðila skilyrta og afmarkaða heimild til að nota eitt verka stefnenda, til kynningar á hljómsveit þeirra. Þá vísar stefndi einnig til 35. gr. höfundarlaga nr. 73/1972.

                Stefndi byggir á að ummæli hans í bréfi, dags. 6. desember 2001, feli einungis í sér skírskotun til samkomulagsins sem stefndi gerði við lögmann stefnenda í Bandaríkjunum, dags. 30. nóvember 2001, og feli því ekki annað og meira í sér en að stefndi hafi harmað að stefnendur teldu sér misboðið.    

Stefndi mótmælir því að stefnendur hafi nokkurn tíma áður en stefndi gerði samninginn við Young  & Rubicam látið í veðri vaka að það væri þeim á móti skapi að tónlist þeirra væri notuð í auglýsingar til kynningar á hljómsveitinni. Ef svo hefði verið hefði stefnendum verið í lófa lagi að takmarka það víðtæka umboð sem stefnda var veitt til kynningarstarfs og notkunar á tónlist þeirra  í útgáfusamningnum.

                Þá vekji spurningu um raunverulega afstöðu stefnenda að þeir hafi heimilað notkun lagsins í auglýsingum Sony eftir samkomulagið 30. nóvember 2001. Þá verði ekki annað ráðið af framlögðu tölvubréfi stefnanda Örvars að stefnendur hafi verið afar áhugasamir um slíka kynningu.

                Stefndi mótmælir skýringum stefnenda á ástæðum þess að þau hafi gengið til samkomulagsins við stefnda 30. nóvember 2001 sem alröngum. Aldrei hefði getað komið til málaferla milli aðila, nema e.t.v. ef stefnendur hefðu sjálfir talið sig eiga einhverja kröfu á hendur stefnda.

                Stefndi byggir á að samkomulagið á milli aðila, dags. 30. nóvember 2001, sýni að stefndi hafði fullan rétt samkvæmt útgáfusamningi aðila til að nota lagið "I'm 9 today" og til að veita heimild fyrir notkun þess í auglýsingum. Ella hefði samkomulagið verið algjörlega þýðingarlaust en það gangi út á að veita stefnendum aftur þann rétt til lagsins sem stefndi naut samkvæmt samningnum, þ.á m. allan rétt tengdan notkun þess í auglýsingum Sony og tekjum af þeirri notkun. Samkomulagið feli þannig í sér viðurkenningu stefnenda á því að stefndi hafi notið þess réttar.

                Stefndi byggir á að með samkomulagi aðila frá 30. nóvember 2001 hafi óánægja stefnenda verið til lykta leidd með samþykki beggja aðila, sbr. 23. gr. útgáfusamningsins sem kveði á um að rísi ágreiningur skuli aðilar reyna eftir fremsta megni að jafna hann. Stefnendur geti ekki byggt á óánægju sinni sem riftunarástæðu eftir gerð samkomulagsins. Stefnendur hefðu þurft að tilkynna stefnda um fyrirhugaða riftun við gerð samkomulagsins enda hafi hann gengið til þess á þeirri forsendu að með því væri endanlega samið um lausn málsins.

                Þá byggir stefndi á að samkvæmt 21. gr. útgáfusamningsins verði honum ekki rift nema að undangenginni skriflegri kvörtun um úrbætur. Það eigi við um allar vanefndir á samningnum. Hafi stefndi litið á riftunarbréf stefnenda sem slíka kröfu um úrbætur. Þeim úrbótum hafi verið sinnt án tafar, og hafði raunar verið sinnt áður en riftunaryfirlýsingin var send, og njóta stefnendur því ekki riftunarréttar, jafnvel þótt svo langt yrði gengið að telja að stefndi hefði vanefnt útgáfusamninginn.

Stefni mótmælir sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum stefnenda um að hann hafi brotið sæmdarrétt stefnenda. Ekkert liggi fyrir í málatilbúnaði stefnenda um hvort, hvenær eða hvernig lag þeirra var birt í auglýsingu á vegum Sony. Þá liggi fyrir að stefnendur heimiluðu sjálfir notkun lagsins í auglýsingum Sony eftir að samkomulag náðist um að þeir fengju sjálfir greiðslur vegna afnotanna.

Þá byggir stefndi á að fullyrðing stefnenda um að notkun á laginu sé, auk þess að vera brot á útgáfusamningnum, sjálfstætt brot á sæmdarrétti stefnenda, sbr. 1. mgr. 4. gr. höfundarlaga, sé röng og ósönnuð, og í besta falli ósanngjörn þar sem óhægt sé um vik að birta nöfn flytjenda tónlistar í slíkum auglýsingum og því ekki skylt að geta nafns höfundar samkvæmt ákvæðinu.

Loks byggir stefndi á að stefnendur geti ekki byggt á því til stuðnings riftunarkröfum sínum að uppgjör og greiðslur hafi ekki borist þeim á réttum tíma þar sem fram komi í bréfi lögmanns þeirra að einungis skuli líta á kvörtun þeirra sem áskorun um úrbætur samkvæmt 21. gr. útgáfusamningsins.

Með vísan til alls framangreinds telur stefndi að riftunaryfirlýsing stefnenda styðjist hvorki við lögmætan grundvöll, hvorki í ákvæðum útgáfusamningsins sjálfs né almennum reglum kröfuréttar um riftun samninga. Útgáfusamningur aðila sé því enn í fullu gildi.

Stefndi vísar til almennra reglna samningaréttar og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og þeirra skilyrða sem sett eru við beitingu riftunar sem vanefndaúrræðis. Þá vísar stefndi til höfundarlaga nr. 731972.

IV.

                Aðilar máls þessa gerðu með sér plötuútgáfusamning, dags. 9.2.2000, eins og grein er gerð fyrir hér að framan.

Með samningi, dagsettum 4. október 2001, gerði stefndi síðan, án vitundar stefnenda, samning við bandarísku auglýsingastofuna Young & Rubicam f.h. Sony um víðtæka notkun á lagi stefnenda "I'm 9 today", en samningurinn heimilaði m.a. breytingar á laginu.

Leggja verður til grundvallar staðhæfingar stefnenda um að á grundvelli samningsins hafi lag þeirra "I'm 9 today" verið notað breytt í sjónvarpsauglýsingu fyrir Sony í Bandaríkjunum og án þess að listamannanna væri getið en stefndi hefur ekki hnekkt þeirri staðhæfingu.

Þar sem listamannanna var ekki getið í sjónvarpsauglýsingunni, frekar en venja er, kemur ekki til álita að flutningur lagsins hafi verið liður í kynningu á verkum stefnanda samkvæmt plötuútgáfusamningnum.

Samkvæmt 3. gr. höfundarlaga nr. 73/1972 hefur höfundur verks m.a. einkarétt á því að breyta verki sínu, en í því felst að öðrum aðilum er óheimil hvers kyns breyting þess nema með samþykki hans.

Þegar um er að ræða not á tónlist í auglýsingum, eins og í máli þessu, kemur jafnframt svokallaður sæmdarréttur til sögunnar en hann varðar fyrst og fremst álit höfundar og heiður, og verður almennt ekki framseldur.

Meginákvæði höfundarlaga nr. 73/1972 um sæmdarrétt er í 4. gr. laganna, en í  2. mgr. greinarinnar er kveðið á um að óheimilt sé að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. Meðferð verks sem er höfundi til vansæmdar eða er til þess fallin að skerða höfundarsérkenni er því óheimil.

Það varðar höfundarheiður höfundar að hafa ákvörðunarrétt um það að tónlist hans sé ekki notuð til að auglýsa vöru eða hvaða vöru sem er og höfundarsérkenni að henni sé ekki breytt. Tónlist verður því ekki notuð í auglýsingum og ekki breytt nema með samþykki eiganda flutningsréttar. Þar sem ekki lá fyrir samþykki stefnenda á notkun lagsins "I'm 9 today" í auglýsingu Sony og heldur ekki fyrir breytingu á því var notkunin skýrt brot á sæmdarrétti þeirra.

Með samningi stefnda við auglýsingastofuna Young & Rubicam fór stefndi verulega út fyrir efni plötuútgáfusamnings aðila og af samningnum leiddi brot gegn mikilvægum réttindum stefnenda sem listamanna.

Með samkomulaginu sem stefnendur gerðu við stefnda í kjölfar þess að þeim varð kunnugt um notkun lagsins "I'm 9 today" í auglýsingu Sony fyrrtu stefnendur sig ekki rétti til riftunar á plötuútgáfusamningnum. 

Þá er ekki skylt, heldur einungis heimilt, samkvæmt ákvæði 21. gr. plötuútgáfusamningsins að gefa þeim sem vanefnt hefur tækifæri til að láta af vanefnd og gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg eða bæta fyrir tjón innan tilskilins frests áður en rift er. Ákvæðið stendur því eigi í vegi fyrirvaralausrar riftunar þegar á stendur eins og í máli þessu.

                Vanefnd stefnda var veruleg eins og að framan er gerð grein fyrir og var stefnendum því heimil riftun plötuútgáfusamningsins. Riftun stefnenda á plötuútgáfusamningi stefnenda og stefnda, dags 9.2.2000, er því staðfest.

                Eftir niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnendunum, Gunnari Erni Tynes, Kristínu Önnu Valtýsdóttur og Erni Smárasyni, 300.000 krónur í málskostnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Staðfest er riftun á plötuúgáfusamningi stefnenda, Gunnars Arnar Tynes, Gyðu Valtýsdóttur, Kristínar Önnu Valtýsdóttur og Arnar Smárasonar vegna hljómsveitarinnar MÚM og stefnda, Platna ehf., dags. 9.2.2000.

Stefndi greiði stefnendunum, Gunnari Erni Tynes, Kristínu Önnu Valtýsdóttur og Erni Smárasyni 300.000 krónur í málskostnað.