Hæstiréttur íslands

Mál nr. 134/2004


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald
  • Farbann
  • Skaðabótamál
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004.

Nr. 134/2004.

Artan Lamaj

(Vilhjálmur Þórhallsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Gæsluvarðhald. Farbann. Skaðabótamál. Gjafsókn.

Með dómi héraðsdóms í júní 2002 var A sýknaður af ákæru um brot gegn lögum um eftirlit með útlendingum. A krafðist skaðabóta fyrir að hafa með gæsluvarðhaldi og farbanni vegna rannsóknar málsins verið sviptur frelsi að ósekju. Þegar A var handtekinn höfðu fundist í vörslum hans m.a. tvö slóvensk vegabréf og tvö ökuskírteini, með nöfnum rétthafa alls ótengdra honum, sem hann gaf fjarstæðukenndar skýringar á. Þegar farbanns yfir A var krafist lá orðið fyrir að skilríkin væru fölsuð og að fólkið, albönsk hjón, sem myndir voru þar af, var hér á landi og hafði beðið skilríkjanna. Í dómi í refsimálinu var A sýknaður með vísan til síðbúinna breytinga á framburði hjónanna, um að þau hafi vegna áritana í albönskum vegabréfum sínum ekki þurft á hinum fölsuðu slóvensku vegabréfum að halda til að dveljast hér á landi, svo sem A hafði verið gefið að sök að hafa ætlað að hjálpa þeim að gera. Var talið ótvírætt að A hafi stuðlað sjálfur að því að nauðsyn þótti bera til þeirrar skerðingar á frelsi hans sem um ræddi í málinu. Var ríkið sýknað af kröfu A.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. apríl 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 2.303.100 krónur en til vara aðra lægri fjárhæð með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2002 til 15. desember sama ár og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins komu hingað til lands 30. apríl 2002 með flugi frá Amsterdam átta manns frá Albaníu, sem farpöntun hafði verið gerð fyrir í einu lagi, og munu þau síðan hafa dvalist í tveimur herbergjum á gistiheimili í Reykjavík. Meðal þeirra var maður að nafni Sokol Nasufi, svo og hjónin Agron Llana og Violanda Llana ásamt tveimur börnum þeirra fæddum 1995 og 1999. Samferðarmenn þeirra, þrjú að tölu, héldu til Bandaríkjanna með flugi 2. maí 2002. Voru tvö þeirra stöðvuð nokkru síðar við eftirlit á landamærum Bandaríkjanna og Kanada, þar sem þau höfðu framvísað fölsuðum vegabréfum frá Slóveníu, en þau munu einnig hafa haft meðferðis sín eigin vegabréf frá Albaníu. Um þann þriðja liggur ekkert frekar fyrir í málinu. Hinn 6. maí 2002 var pantað flugfar héðan til Bandaríkjanna 10. sama mánaðar fyrir hjón að nafni Rados Banjac og Branka Banjac ásamt tveimur nafngreindum börnum þeirra. Fram er komið að áðurnefndur Sokol Nasufi hafi gert þessa farpöntun með aðstoð albansks manns að nafni Avni Suli, sem búsettur var hér á landi.

Áfrýjandi kom til landsins með flugi frá Amsterdam 8. maí 2002. Starfsmenn tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli leituðu í farangri hans og fundu þar tvö slóvensk vegabréf, sem gefin voru út á nöfn Rados Banjac og Branka Banjac, en í þeim báðum voru jafnframt nöfn fjögurra barna ásamt ljósmyndum af þeim. Einnig voru í farangrinum tvö slóvensk ökuskírteini með sömu nöfnum, ljósrit af síðu úr albönsku vegabréfi og miði, sem á var ritað íslenskt farsímanúmer, svo og fatnaður fyrir konu og börn, en með honum var handritað bréf á albönsku. Aðspurður af tollvörðum kvaðst áfrýjandi ætla að dveljast á landinu í 4 daga sem ferðamaður og sagðist engan þekkja hér. Hann kvað eigendur vegabréfanna hafa fengið far í bifreið hans í Albaníu og gleymt þeim þar, en fyrrnefnt ljósrit væri úr vegabréfi frænda hans. Sagðist hann ekkert vita um farsímanúmerið, sem skráð væri á miða í farangri hans. Fatnaðinn fyrir konu og börn hafi hann ætlað að taka með sér til Albaníu og nota til gjafa. Áfrýjandi var handtekinn af lögreglu að þessu fram komnu.

Við lögreglurannsókn, sem fór í hönd í framhaldi af framangreindu, var leitt í ljós að vegabréfunum, sem fundust í farangri áfrýjanda, hafi verið stolið í Slóveníu 3. eða 4. maí 2002 og lögreglu þar verið tilkynnt um það. Skipt hafi verið um ljósmyndir af rétthöfum vegabréfanna og bætt við myndum af tveimur börnum ásamt nöfnum þeirra, en myndir af tveimur öðrum börnum hafi verið látnar þar óhreyfðar. Ökuskírteinunum, sem áfrýjandi var með, hafi verið stolið óútfylltum, færðar í þau upplýsingar um rétthafa og falsaðar þar stimplanir. Reyndust ljósmyndir, sem settar voru í vegabréfin og ökuskírteinin, vera af Agron Llana og Violanda Llana, auk þess sem myndir af tveimur börnum þeirra höfðu verið settar í vegabréfin. Þau hjónin gáfu sig fram við lögreglu 10. maí 2002 og sóttu um hæli hér á landi. Í skýrslum þeirra kom fram að þau hafi fengið vegabréfsáritun í Albaníu til að koma inn á Schengensvæðið með heimild til dvalar þar í 3 mánuði. Þau hafi farið frá heimalandi sínu til Grikklands 15. apríl 2002 og lagt svo leið sína hingað til þess að leita atvinnu og setjast hér að, en ekki til þess eins að eiga hér viðkomu. Hafi þau póstsent vegabréf sín tilbaka til Albaníu, þar sem þau hafi talið vegabréfin ekkert mundu nýtast sér, en vegabréfum barna sinna hafi þau þó haldið eftir. Fyrir milligöngu föður Violanda hafi þau átt að fá send hingað slóvensk vegabréf ásamt fatnaði með manni, sem þau kváðust ekki vita hver væri en höfðu þó lýsingu á. Kvaðst Agron hafa farið einn síns liðs til flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli 8. maí 2002 til að hitta þennan mann, en sá hafi ekki gefið sig fram. Kannaðist Violanda við að fyrrnefnt bréf, sem fannst í farangri áfrýjanda, væri ritað af móður hennar. Þau neituðu því að ætlun þeirra hafi verið að ferðast héðan til Bandaríkjanna og könnuðust ekki við að far hafi verið pantað þangað fyrir þau. Fyrrnefndur Avni Suli kvaðst í lögregluskýrslu hafa hitt Sokol Nasufi á veitingastað í Reykjavík í byrjun maí 2002, en þeir hafi ekki þekkst áður. Sagðist hann hafa aðstoðað Sokol við áðurgreinda farpöntun 6. maí 2002 og jafnframt ekið bifreið, sem Sokol tók á leigu, til Keflavíkurflugvallar 8. sama mánaðar, en auk þeirra tveggja hafi albönsk hjón ásamt tveimur börnum verið með í för. Af ljósmyndum kannaðist hann við að um hafi verið að ræða Agron Llana, Violanda Llana og börn þeirra. Hafi ætlunin verið að sækja mann í flugstöðina, en sá hafi ekki komið og þau snúið þá aftur til Reykjavíkur. Farsímanúmerið, sem fannst í farangri áfrýjanda, reyndist ekki vera skráð. Avni Suli tjáði lögreglu að þetta gæti verið símanúmer Sokol Nasufi, en samkvæmt upplýsingum, sem aflað var hjá símafyrirtæki, höfðu símtöl farið milli þess og farsíma þess fyrrnefnda á tímabilinu 4. til 8. maí 2002 og einnig milli þess og farsíma áfrýjanda frá 3. til 7. sama mánaðar. Kannaðist áfrýjandi ekki við slík símtöl fyrir lögreglu. Í lögregluskýrslu taldi Agron Llana að ljósmynd af manni á ljósriti úr vegabréfi, sem fannst í farangri áfrýjanda, gæti verið af Sokol Nasufi. Fyrir liggur að sá síðastnefndi keypti 10. maí 2002 farmiða með flugi frá landinu til Amsterdam, sem hann nýtti sér daginn eftir. Náðist ekki til hans við þessa lögreglurannsókn.

Samkvæmt kröfu sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli var áfrýjanda gert með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2002 að sæta gæsluvarðhaldi til 14. sama mánaðar. Að því liðnu var áfrýjanda með dómsúrskurði bönnuð för úr landi, fyrst til 28. maí 2002 og síðan til 28. júní sama ár. Hann gaf skýrslur fyrir dómi þegar krafa um gæsluvarðhald var tekin fyrir, svo og þegar krafist var farbanns yfir honum í fyrra skiptið. Þá gaf hann skýrslur fyrir lögreglu 9., 13. og 17. maí 2002. Í meginatriðum voru skýringar hans í samræmi við það, sem hann greindi frá í öndverðu og áður var getið. Að lokinni lögreglurannsókn gaf sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli út ákæru á hendur áfrýjanda 29. maí 2002, þar sem honum var gefið að sök að hafa brotið gegn 5. tölulið 2. mgr., sbr. 4. mgr. 17. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr. þágildandi laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum, eins og þeim var breytt með 8. gr. laga nr. 25/2000, með því að hafa við komu til landsins 8. sama mánaðar haft meðferðis áðurgreind fölsuð vegabréf í því skyni að hjálpa Agron Llana, Violanda Llana og tveimur börnum þeirra að dveljast ólöglega hér á landi, en þau væru hér án löglegra ferðaskilríkja og dvalarheimilda á Schengensvæðinu. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 31. maí 2002 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 12. júní sama ár, þar sem meðal annarra gáfu skýrslur áfrýjandi, Agron Llana og Violanda Llana. Áður en dómur var kveðinn upp í málinu mættu tvö þau síðastnefndu aftur fyrir dóm. Kom þá fram að þau höfðu fallið frá beiðni sinni um hæli hér á landi og jafnframt að þau hafi haft albönsk vegabréf sín undir höndum allt frá komu til landsins. Hafi þau af þessum sökum haft heimild vegna áritunar í þeim vegabréfum til dvalar hér á landi, sem þau hafi þó ekki ætlað sér nema um skamman tíma, því að ráðgert hafi verið að þau myndu nota fölsuðu slóvensku vegabréfin til að komast héðan til Bandaríkjanna, enda hafi Slóvenar ekki þurft vegabréfsáritun þangað. Dómur var kveðinn upp í málinu 21. júní 2002. Var þar vísað til þess að komið hafi fram að Agron Llana og Violanda Llana hafi vegna áritana í albönsku vegabréfunum sínum ekki þurft á fölsuðu slóvensku vegabréfunum að halda til að dveljast hér á landi, svo sem áfrýjanda hafi verið gefið að sök að hafa ætlað að hjálpa þeim að gera. Var hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Dóminum var ekki áfrýjað.

II.

Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um skaðabætur fyrir það að hann hafi með gæsluvarðhaldi og banni við för úr landi, sem staðið hafi samfleytt sem að framan greinir, verið sviptur frelsi að ósekju.

Þegar áfrýjandi var handtekinn höfðu fundist í vörslum hans tvö vegabréf og tvö ökuskírteini, sem báru nöfn rétthafa alls ótengdra honum. Hafði einnig fundist í farangri hans miði með íslensku símanúmeri, svo og fatnaður fyrir aðra en hann sjálfan. Á öllu þessu gaf hann fjarstæðukenndar skýringar, sem hlutu enn frekar að fella á hann grun um ólögmæta háttsemi. Þegar fjallað var fyrir dómi um kröfu um að áfrýjandi sætti gæsluvarðhaldi kom fram að tæknileg rannsókn lögreglu á vegabréfunum benti eindregið til þess að skipt hafi verið þar um ljósmyndir af rétthöfunum og bætt við myndum af börnum og nöfnum þeirra. Hafði lögregla einnig fengið upplýsingar frá Slóveníu um að tilkynnt hafi verið um hvarf þessara vegabréfa, en formleg staðfesting á því hafði þó ekki borist. Gegn þessu hélt áfrýjandi fast við frásögn sína um hvernig vegabréfin komust í hendur hans og bar að auki fram langsótta skýringu á ástæðu þess að hann hafi haft þau meðferðis í stutta skemmtiferð hingað til lands. Þegar krafist var banns við för áfrýjanda úr landi 14. maí 2002 lá orðið fyrir að vegabréfin og ökuskírteinin væru fölsuð og að fólkið, sem myndir voru þar af, var hér á landi og hafði beðið þessara skilríkja úr hendi sendiboða, en fyrir það hefði verið pantað flugfar til Bandaríkjanna. Einnig hafði verið staðfest að fatnaður fyrir konu og börn í farangri áfrýjanda var ætlaður þessu fólki. Þrátt fyrir allt þetta hélt áfrýjandi enn fast við þær bersýnilegu rangfærslur, sem fólust í skýringum hans, og hafði þar engu breytt þegar skerðing á frelsi hans gekk um garð.

Þegar ákæra var gefin út á hendur áfrýjanda 29. maí 2002 lá ekki annað fyrir en að Agron Llana og Violanda Llana, sem þá höfðu sótt um hæli hér á landi, hefðu látið frá sér fara vegabréf sín, sem nauðsynleg voru til löglegrar dvalar, áður en áfrýjandi kom hingað. Því til samræmis var hann borinn þar sökum um að hafa með háttsemi sinni ætlað að hjálpa þessum útlendingum til að eiga ólöglega dvöl hér á landi. Slíkt athæfi, ef sannað yrði, varðaði fangelsi allt að sex mánuðum, sbr. 1. mgr. 17. gr. þágildandi laga nr. 45/1965. Fer af þessum sökum fjarri, sem áfrýjandi hefur borið við í máli þessu, að engin refsing hafi legið við þeirri háttsemi, sem honum var gefin að sök, enda stafaði sýkna hans í refsimálinu af síðbúnum breytingum á framburði áðurnefndra hjóna, sem fyrst komu fram eftir að það hafði verið dómtekið fyrra sinni.

Að virtu öllu framangreindu er ótvírætt að áfrýjandi stuðlaði sjálfur með framferði sínu að því að nauðsyn þótti bera til þeirrar skerðingar á frelsi hans, sem um ræðir í málinu. Með vísan til lokamálsliðar 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999, verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða látin standa óröskuð. Um málskostnað fyrir Hæstarétti og gjafsóknarkostnað fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Artan Lamaj, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2004.

I

             Mál þetta, sem dómtekið var hinn 23. janúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Artan Lamaj, f. 28. mars 1971, L88 RR. M. Gjollesha P. 13, Tirana, Albaníu, á hendur íslenska ríkinu með stefnu birtri hinn 20. desember 2002 og þingfestri 14. janúar 2003.

             Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði dæmd til þess að greiða sér, in solidum, 2.303.100 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. maí 2002 til 15. desember 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, en til vara lægri fjárhæð, að mati dómsins.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.

             Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að mati dómsins.  Til vara krefst stefndi þess, að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.

             Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 19. desember 2002, var stefnanda veitt gjafsókn í máli þessu.

II

             Málavextir eru þeir, að hinn 10. maí 2002 var stefnandi, með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. maí 2002.  Þann dag var hann látinn laus úr gæsluvarðhaldi, en úrskurðaður í farbann til 28. maí 2002.  Með dómi Hæstaréttar Íslands, dagsettum 17. maí 2002, var sá úrskurður Héraðsdóms Reykjaness staðfestur.  Hinn 28. maí 2002 var farbann stefnanda framlengt til 28. júní 2002, með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness.  Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 31. maí 2002.

             Mál var höfðað á hendur stefnanda með ákæru dagsettri 29. maí 2002.   Var stefnanda þar gefið að sök, að hafa brotið lög um eftirlit með útlendingum.  Með því að hafa hinn 8. maí 2002, við komu til landsins frá Amsterdam, haft meðferðis tvö fölsuð slóvönsk vegabréf, í því skyni að hjálpa hjónum með tvö börn að dvelja hér á landi.  Fólkið, sem vegabréfin voru ætluð, var allt albanskir ríkisborgarar.  Komu þau til landsins 30. apríl 2002, án löglegra ferðaskilríkja og dvalarheimildar á Schengensvæðinu.  Aðalmeðferð þessa máls fór fram í Héraðsdómi Reykjaness 11. og 12. júní 2002, en málið var síðan endurupptekið 19. júní 2002 og dómur kveðinn upp 21. júní 2002.  Með þeim dómi var stefnandi sýknaður af ákærunni. 

             Stefnandi setti fram bótakröfu sína vegna frelsissviptingarinnar hinn 15. nóvember 2002.

III

             Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hann hafi af tilefnislausu og að ósekju verið sviptur frelsi sínu, því ljóst hafi mátt vera þegar í upphafi að umrædd vegabréf hafi á engan hátt getað hjálpað Llani hjónunum að dvelja ólöglega hér á landi, en þau hafi komið hingað til lands á sínum eigin gildu vegabréfum.  Jafnljóst sé, að Llani hjónin hefðu framvísað albönskum vegabréfum sínum strax hefði stefnandi verið frjáls ferða sinna og ekki grunaður um að hjálpa þeim til þess að dveljast ólöglega hér á landi.  Stefnandi hafi með ákæru Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, dagsettri 29. maí 2002, verið ákærður fyrir að hafa haft meðferðis tvö fölsuð slóvensk vegabréf í því skyni að hjálpa Llani hjónunum og tveimur börnum þeirra að dvelja ólöglega hér á landi án löglegra ferðaskilríkja og dvalarheimildar á Schengensvæðinu.  Í forsendum dóms Héraðsdóms Reykjaness, í málinu nr. S-1033/2002: Ákæruvaldið gegn Artan Lamaj, uppkveðnum 21. júní 2002, segi m.a.: „Llanafjölskyldan dvaldi því ekki ólöglega á Íslandi þegar ákærði var handtekinn og ekkert í rannsókn málsins bendir til þess að tilgangur ákærða með því að afhenda Llanafjölskyldunni vegabréfin hafi verið sá að gera henni kleift að dveljast ólöglega á Íslandi.  Sú verknaðarlýsing sem fram kemur í ákæru fær því ekki staðist.”  Byggir stefnandi á því, að uppspuni Agrans Llana hafi einnig að ósekju leitt til gæsluvarðhalds og farbanns stefnanda, sem stefndi beri fulla skaðabótaábyrgð á.  Þá hafi lögreglunni orðið á afdrifarík mistök við rannsókn málsins, þegar Sokol komst naumlega undan armi réttvísinnar er ljóst mátti vera að hann var viðriðinn málið, jafnvel höfuðpaur þess, a.m.k. aðalvitnið.  Mikilvæg sakargögn hafi með því spillst.  Rannsókn lögreglunnar hafi og verið ómarkviss, þar sem ekki verði séð, að hún hafi gert minnstu tilraun til þess að reyna að fá botn í hina ótrúverðugu „vegabréfasögu” Agrans.  Hefði lögreglan greint stöðuna rétt í upphafi hefði ekki komið til annarar frelsissviptingar stefnanda en handtöku hans.

             Stefnandi hefur sundurliðað dómkröfur sínar með eftirfarandi hætti í stefnu:

             „Útlagður kostnaður.

             1) Gisting frá 14. maí til 20. júní 2002, morgunverður innifalinn                                  kr.           130.000

             2) Áætlaður ferðakostnaður í 36 daga kr. 1.000 á dag                                                  kr.             36.000

             3) Flugfargjald                                                                                                                    kr.             37.100

             Miskabætur

             Miðað er við 42 daga frelsisskerðingu,

             10.5.-21.6., kr. 50.000 á dag                                                                                               kr.        2.100.000

             Samtals nemi stefnukrafan því                                                                                         kr.        2.303.100

             Stefnandi kveðst hafa þurft að kaupa nýjan farseðil, þar sem sá fyrri hafi verið orðinn ógildur.  Þá kveður stefnandi fjárhæð miskabótakröfu sinnar taka mið af dómvenju.

             Varakröfu sína byggir stefnandi á því, að réttmætt hefði þótt að beita skammvinnri frelsissviptingu, en rannsókn hafi tekið alltof langan tíma.  Í því sambandi beri að líta til þess, að refsing fyrir brot af þessu tagi sé tiltölulega væg, sektir eða fangelsi, allt að 6 mánuðum, sem vart gefi tilefni til svo langrar frelsissviptingar, sem raun varð á.

             Stefnandi krefst vaxta mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs, hinn 15. nóvember 2002.

             Um lagarök vísar stefnandi til 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, með hliðsjón af sakarreglunni.

             Einnig vísar stefnandi til 1. mgr. 5. og 6. tl. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum.

             Vaxtakröfu sína byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001. 

IV

             Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að brýna nauðsyn hafi borið til að úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald og gæsluvarðahaldið hafi ekki staðið lengur en ástæða var til. 

             Eins og fram komi í gæsluvarðhaldskröfunni, sem dagsett sé 10. maí 2002, þá hafi hún verið sett fram sökum þess, að verið væri að rannsaka ætlað brot stefnanda á lögum um eftirlit með útlendingum.  Við rannsókn á vegabréfunum, sem fundist hafi í fórum stefnanda, hafi komið í ljós að þau voru fölsuð, þannig að skipt hafi verið um mynd af vegabréfshöfum.  Þá hafi verið bætt við tveimur myndum af börnum í vegabréf beggja.  Einnig hafi fundist ökuskírteini á sömu nöfn og talsvert af peningum.  Stefnandi hafi og haft meðferðis kven- og barnafatnað, sem keyptur hafi verið samkvæmt innkaupalista, sem fundist hafi í ferðatösku stefnanda.  Þá hafi stefnandi haft meðferðis íslenskt gsm-númer, en hafi upplýst að hann þekkti engan hér á landi.  Lögreglan í Wiesbaden í Þýzkalandi hafi upplýst, að stefnandi hefði sótt um hæli sem flóttamaður þann 19. desember 1991 í Karlsruhe og að hann hefði sætt kæru í Rosenheim í janúar 2000, vegna gruns um skjalafals.  Rannsókn máls stefnanda hafi verið á frumstigi og hafi hann verið grunaður um að vera viðriðinn dvöl útlendinga í landinu og ólöglegar ferðir útlendinga til landsins í hagnaðarskyni.  Nauðsyn hafi borið til að hafa samband við lögregluyfirvöld í Albaníu og Slóveníu til að kanna feril stefnanda og einnig að kanna hvort hann væri til rannsóknar hjá Interpol.  Þá hafi þurft að kanna hvaða sambönd stefnandi hefði hér á landi.

             Héraðsdómur Reykjaness hafi fallist á að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 14. maí 2002, kl. 16.00 og vísað til þess, að stefnandi væri grunaður um að vera viðriðinn ólöglega dvöl útlendinga í landinu og ólöglegar ferðir þeirra til landsins, í hagnaðarskyni.  Hafi dómurinn talið að brot stefnanda gætu varðað allt að sex mánaða fangelsi, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um eftirlit með útlendingum.  Með skírskotun til a og b liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, var stefnanda gert að sæta gæsluvarðhaldi.

             Í lögregluskýrslu, dagsettri 10. maí 2002, sama dag og gæsluvarðhaldskrafan var sett fram, kemur fram, að Rauði kross Íslands hafi tilkynnt Útlendingaeftirlitinu, að albönsk fjölskylda hefði sótt um hæli á Íslandi.  Þau hafi verið vegabréfslaus og ekki getað sýnt fram á að þau væru með löglega dvalarheimild hér á landi.  Í skýrslunni kemur m.a. fram: „Þegar nánar var gengið eftir skýringum kom fram að hann (Agron Llana) hafi átt von á „pakka” og síðar að hann hafi átt von á slóvenskum vegabréfum sem hann átti að fá send hingað til lands.  Hann hafi átt að hitta mann, svartklæddan, sem kæmi með bréfin og hafi hann farið á flugvöllinn í fyrradag til að hitta þennan mann.  Hann hafi hins vegar ekki skilað sér og hafi hann því talið að um svik væri að ræða…”  Að kvöldi hins sama dags hafi verið tekin skýrsla af Agron Llana hjá sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli.  Þar komi fram að hann hafi verið að bíða eftir tveimur nýjum vegabréfum frá Albaníu og einnig fatnaði.  Hann hefði átt að sækja þau á flugstöðina hinn 8. maí en sá sem átt hafi að koma með þau hafi ekki látið sjá sig.  Hann hafi kannast við myndirnar sem verið hafi í þeim vegabréfum sem teknar hafi verið af stefnanda að frátöldum myndum af tveimur börnum sem ekki hafi tilheyrt honum.  Síðdegis 11 maí hafi verið tekin vitnaskýrsla af eiginkonu hans, Violanda Llana, og komi þar m.a. fram, að hún hafi þekkt fötin sem stefnandi hafi verið með í farangri sínum og einnig rithönd móður sinnar á innkaupalista sem stefnandi hafi einnig verið með.  Meðan stefnandi hafi verið í gæsluvarðhaldi hafi verið teknar skýrslur af ýmsum aðilum til að upplýsa hvort eða á hvern hátt stefnandi væri viðriðinn ólöglega dvöl útlendinga í landinu og ólöglegar ferðir útlendinga til landsins í hagnaðarskyni.  Því sé haldið fram, að lögmælt skilyrði hafi verið fyrir gæsluvarðhaldi stefnanda enda úrskurðað um það af Héraðsdómi Reykjaness hinn 10. maí 2002.  Um hafi verið að ræða gæsluvarðhald frá föstudagi til þriðjudags, sem sé í raun stutt miðað við umfang málsins, en skýrslutökur hafi tekið langan tíma vegna tungumálaerfiðleika.

             Daginn sem gæsluvarðhald stefnanda hafi runnið út hafi sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli farið fram á að stefnandi sætti farbanni til 28. maí 2002, kl. 16.00.  Í forsendum úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness segir, að frásögn stefnanda af því hvernig vegabréfin hafi lent í hans fórum þyki einkar ótrúverðug og komið hafi í ljós að vegabréfin hafi verið tilkynnt glötuð.  Fallist var á það með sýslumanni, að skilyrðum b-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, væri fullnægt og var stefnanda bönnuð för úr landi meðan mál hans var í rannsókn, en þó ekki lengur en til 28. maí 2002.  Úrskurður þessi var kærður til Hæstaréttar Íslands og í forsendum dómsins segir að stefnandi liggi undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 5. og 6. tl. 2. mgr. 17. gr. laga um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965.  Stefnandi sé erlendur ríkisborgari, stundi ekki vinnu hér á landi og hafi engin tengsl við landið.  Fallist var á nauðsyn þess að tryggja nærveru hans til að ljúka rannsókn málsins og var farbannið staðfest til 28. maí 2002, kl. 16.

             Á þessum hálfa mánuði, sem stefnandi sætti farbanni, náðist ekki að klára rannsókn málsins eða gefa út ákæru.  Var því óskað eftir framlengingu farbannsins til 28. júní 2002.  Sýslumaður upplýsti við kröfugerðina að rannsókn væri að mestu lokið og ákæra gefin út daginn eftir.  Rannsókn sýslumannsins hefði leitt í ljós að undirbúningur og skipulag ætlaðs brots stefnanda væri þess eðlis að um skipulagða brotastarfsemi stefnanda væri að ræða og taldi sýslumaður nauðsynlegt að hann yrði hér á landi svo unnt væri að ljúka málinu fyrir dómi.  Héraðsdómur féllst á kröfuna svo og Hæstiréttur Íslands, sbr. dóm réttarins frá 31. maí 2002.

             Af hálfu stefnda er því haldið fram að farbann stefnanda hafi verið fyllilega lögmætt.  Nauðsyn hafi borið til að stefnandi yrði hér á landi meðan málssókn á hendur honum stæði yfir.  Þá gefi auga leið að hefði stefnandi ekki verið úrskurðaður í farbann hefði hann farið af landi brott.

             Þá bendir stefndi á það, að þegar Llana hjónin hafi sótt um pólitískt hæli hér á landi hinn 10. maí 2002 þá höfðu þau ekki vegabréf.  Þau hafi upplýst að þau hefðu sent vegabréfin sín aftur til Albaníu og væru að bíða eftir nýjum vegabréfum sem þau hafi átt að fá afhent 8. maí, en það hafi brugðist.  Við aðalmeðferð málsins á hendur stefnanda hinn 11. júní 2002 hafi hjónin komið fyrir dóminn sem vitni og hafi Argon Llana verið spurður hvers vegna þau hjónin hefðu ekki framvísað albönsku vegabréfum sínum þegar þau hafi sótt um hæli hér á landi.  Aragon hafi svarað því til, að þau hefðu sent þau aftur til tengdaföður hans í Albaníu, sem hafi ætlað að senda þeim ný.  Eftir að málið var dómtekið hinn 12. júní hafi það verið endurupptekið hinn 19. júní vegna nýrra gagna og upplýsinga.  Tekin hafi verið skýrsla af Llana hjónunum aftur, þar sem þau hafi þá borið, að þau hefðu allan tímann haft vegabréfin í fórum sínum og aldrei sent þau úr landi.  Af þessu sé ljóst, að þegar stefnandi hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald og í kjölfarið látinn sæta farbanni, þá hafi Llana hjónin upplýst að þau hefðu engin ferðaskilríki og hefðu því dvalið ólöglega hér á landi og jafnframt beðið eftir að fá fölsuðu vegabréfin til að geta haldið áfram leið sinni til Bandaríkjanna.  Meðal annars af þessari ástæðu sé augljóst að gæsluvarðhald stefnanda og farbann hans hafi verið lögmætt.

             Þá beri að líta til þess, sem segi í forsendum sýknudóms Héraðsdóms Reykjaness, að skýringar stefnanda fyrst fyrir tollayfirvöldum síðan lögreglu og svo fyrir dómi hafi verið misvísandi, mótsagnakenndar og í hróplegu ósamræmi við aðrar upplýsingar sem fyrir hafi legið í málinu.  Síðan telji dómurinn að skýringar stefnanda á munum þeim sem hann hafi haft í vörslum sínum hafi verið fjarstæðukenndar.

             Af hálfu stefnda er því haldið fram að bótaskilyrðum 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé ekki fullnægt og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.  Í bótaákvæðinu séu tæmandi talin þau tilvik sem geti orðið grundvöllur bóta, en þar sé mælt fyrir um heimild en ekki skyldu.

             Til vara krefst stefndi þess, ef fallist verði á bótaskyldu, að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.  Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu um útlagðan kostnað og miskabætur, en krafa stefnanda sé ekki í samræmi við dómvenju.  Þá mótmælir stefndi sérstaklega upphafstíma dráttarvaxtakröfu og telur hana ekki vera í samræmi við 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

             Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

             Stefndi bendir og á, að dómsmálaráðherra sé ranglega stefnt í málinu, en það sé utanríkisráðherra, sem fari með málefni sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli.

V

             Stefnandi krefur í máli þessu íslenska ríkið um bætur vegna setu sinnar í gæsluvarðhaldi frá 10. maí 2002 til 14. maí 2002 og farbanns, sem hann sætti í framhaldi þess til 28. júní 2002.  Hefur verið tekið til varna af hálfu íslenska ríkisins í málinu, þó svo með stefnu sé dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra stefnt f.h. íslenska ríkisins.  Þar sem þessum aðilum er að ófyrirsynju stefnt til þess að fara með fyrirsvar fyrir íslenska ríkið, og þar sem tekið hefur verið til varna fyrir hönd íslenska ríkisins, sem er sú lögpersóna, sem stefnandi beinir kröfum sínum að, varðar það ekki frávísun málsins.

             Í XXI. kafla laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er sakborningi veittur réttur til skaðabóta. 

Í 175. gr. laganna segir svo: „1.  Kröfu um bætur samkvæmt þessum kafla má taka til greina ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi sem sakborningur var borinn hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana, eða sakborningur hefur verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu.  Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.

2.  Bæta skal fjártjón og miska, ef því er að skipta.”

Í 176. gr. laganna segir, að dæma megi „bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða sem hafa frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi, sbr. 177. gr.:

a.        ef lögmælt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða

b.       ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.”

             Eins og áður greinir hófust afskipti lögregluyfirvalda af stefnanda, sem er albanskur ríkisborgari, við komu hans til landsins frá Amsterdam, síðdegis hinn 8. maí sl.  Óumdeilt er að þá fundust í fórum hans tvö albönsk vegabréf, ásamt ljósriti af því þriðja svo og tvö ökuskírteini.  Einnig fundust í tösku hans kven- og barnafatnaður, ásamt blaði með skilaboðum á albönsku.  Þá fannst við leit á stefnanda miði með íslenska farsímanúmerinu 6973273.  Þetta númer reyndist óskráð og ekki unnt að afla upplýsinga um rétthafa þess.  Við rannsókn lögreglu kom í ljós að umrædd vegabréf höfðu verið tilkynnt glötuð í Slóveníu og að vegabréfin höfðu verið fölsuð þannig að nýjar myndir höfðu verið settar í þau.  Einnig hafði verið bætt í vegabréfin myndum af tveimur börnum.  Við rannsókn kom í ljós að hinar nýju myndir í vegabréfunum voru af hjónunum Agron Llana og Violanda Llana og tveimur börnum þeirra.  Fjölskylda þessi, sem hefur albanskan ríkisborgararétt, hafði komið til landsins 30. apríl 2002 ásamt nokkrum öðrum albönskum ríkisborgurum.  Ökuskírteini, sem fannst á stefnanda, reyndist og vera falsað og voru myndir af sömu hjónum í þeim.  Stefnandi hefur hvorki þá né síðar getað gefið trúverðuga skýringu á því af hverju hann hafði þessi fölsuðu skilríki undir höndum við komu sína til landsins.  Þetta framferði stefnanda var til þess fallið að lögregluyfirvöldum bar nauðsyn til að rannsaka hvort verið væri að brjóta gegn ákvæðum laga um eftirlit með útlendingum.  Í því skyni var stefnandi hnepptur í gæsluvarðhald, sem eins og á stóð var eðlileg og lögmæt leið.  Við rannsókn málsins kom og í ljós, að myndir í hinum fölsuðu vegabréfum, sem stefnandi kom með til landsins, voru af albönskum ríkisborgurum, sem komið höfðu til landsins ásamt börnum sínum skömmu áður en stefnandi kom til landsins, og sótt um pólitískt hæli hér á landi.  Verður ekki talið í ljósi þeirra atvika málsins, sem greint hefur verið frá, að sá tími sem stefnandi sat í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á máli hans hafi verið óeðlilega eða óþarflega langur, en stefnandi sat í gæsluvarðhaldi frá föstudegi til þriðjudags, eða í fjóra sólarhringa. 

             Eins og áður greinir var stefnandi sóttur til saka í framhaldi af rannsókn málsins, eða með ákæru útgefinni 29. maí 2002.  Er háttsemi stefnanda lýst þannig í ákæru, að hann hafi við komuna til landsins haft meðferðis tvö slóvönsk vegabréf og að hann hafi haft umrædd vegabréf meðferðis í því skyni að hjálpa Agron og Violanda Llana að dvelja ólöglega hér á landi ásamt börnum þeirra, án löglegra ferðaskilríkja og dvalarheimilda á Schengensvæðinu.  Er verknaðarlýsing þessi heimfærð undir 5. tl. 2. mgr., sbr. 4. mgr., sbr. 1. mgr. 17. gr. þágildandi laga um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965, sbr. lög nr. 25/2000.  Í 5. tl. 2. mgr., sbr. 1. mgr. 17. gr. nefndra laga kemur fram að sá skuli sæta refsingu samkvæmt lögum sem hjálpar útlendingi að dvelja ólöglega hér á landi.  Ein af meginstoðum ákæruvaldsins undir þá fullyrðingu, að ákærði hafi ætlað sér að aðstoða Llana fjölskylduna við að dvelja ólöglega á Íslandi, var framburður þeirra hjóna, um að þau hefðu sent albönsk vegabréf með pósti til Albaníu og að þau dveldu því hér án löglegra ferðaskilríkja.  Væri því forsenda fyrir dvöl þeirra hér á landi sú, að þau fengju í hendur fölsuðu slóvensku vegabréfin, sem stefnandi hafði undir höndum.  Þá hafi hjónin þurft að sýna hin fölsuðu vegabréf við brottför úr landi.  Hjón þessi breyttu síðan framburði sínum, við endurupptöku ákærumálsins á hendur stefnanda, eða hinn 19. júní 2002, og framvísuðu þá vegabréfum sínum með vegabréfsáritun inn á Schengensvæðið, sem enn var í gildi.  Með því var orðið ljóst, að Llanafjölskyldan dvaldi ekki ólöglega hér á landi er stefnandi var handtekinn.  Verknaðarlýsing í ákæru átti því ekki lengur við, þar sem atbeina stefnanda hafði aldrei þurft til þess, að Llanahjónin dveldu löglega hér á landi.  Þó svo stefnandi hafi verið sýknaður, er þetta lá fyrir, verður að líta til þess, að stefnandi hafði undir höndum fölsuð skilríki og framburður hans og þeirra hjóna, sem skilríkin bentu til að tilheyrðu, því marki brennd, að hann var ekki talinn standast.  Er öll atvik málsins eru virt í heild verður að telja að lögmæt skilyrði og fullt tilefni hafi legið til þess að stefnandi var úrskurðaður í gæsluvarðhald og í framhaldi af því settur í farbann meðan mál hans var til lykta leitt.  Að því virtu þykir stefnandi hafa með framferði sínu stuðlað að aðgerðum gegn sér í skilningi niðurlagsákvæðis 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.  Er þáttur hans svo stórvægilegur að ekki eru lagaskilyrði til þess að dæma honum bætur vegna frelsisskerðingar, sem hann var úrskurðaður til að sæta, þar til endanlegur dómur gekk í í máli hans.  Voru úrskurðir þar að lútandi fyllilega lögmætir og í samræmi við lög, sbr. 176. gr. laga nr. 19/1991.  Verður því stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.

             Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 407.400 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar af málflutningsþóknun lögmanns hans, Vilhjálms Þórhallssonar, héraðsdómslögmanns, 390.000 krónur.

             Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

             Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Artan Lamaj.

             Málskostnaður milli aðila fellur niður.

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 407.400 krónur, þar af málflutningsþóknun lögmanns hans, Vilhjálms Þórhallssonar, héraðsdómslögmanns, 390.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.