Hæstiréttur íslands
Mál nr. 566/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
- Laun
|
|
Fimmtudaginn 3. nóvember 2011. |
|
Nr. 566/2011. |
Sigmund Ellingbø (Eyvindur Sveinn Sólnes hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Herdís Hallmarsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Laun.
S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem krafa hans vegna umsaminnar greiðslu að fjárhæð 21.246.500 krónur var viðurkennd við slit L hf. sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en hafnað að skipa kröfunni sem forgangskröfu í réttindaröð við slit bankans samkvæmt 112. gr. sömu laga. Í málinu hélt S því fram að áðurgreind krafa væri launakrafa í skilningi 112. gr. laga nr. 21/1991, en L hf. hafnaði því að slík kaupaukagreiðsla félli undir launahugtak ákvæðisins, enda væri hún ekki endurgjald fyrir vinnu í þjónustu L hf. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, segir meðal annars að L hf. hefði greitt S umsamin föst grunnlaun, sem tengd voru vinnuframlagi hans. Þar sem greiðsla kaupaukans hefði verið því óháð að S innti af hendi frekari vinnu en samið var um í ráðningarsamningi, þætti ekki unnt að líta svo á að krafa hans um greiðslu kaupaukans félli undir laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. október 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2011, þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 21.246.500 krónur var viðurkennd við slit varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans aðallega að fjárhæð 1.100.000 norskar krónur en til vara 888.980 norskar krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sigmund Ellingbø, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2011.
I.
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., slitastjórn 29. apríl 2009. Slitastjórn gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Sóknaraðili, Sigmund Ellingbö, Heggeliveien 32A, Oslo, Noregi, fyrrverandi starfsmaður í útibúi Landsbanka Íslands hf. í Osló, lýsti kröfu á hendur varnaraðila vegna vangoldins kaupauka fyrir árið 2008, að fjárhæð 1.100.000 norskar krónur, auk vaxta og kostnaðar. Höfuðstól kröfunnar var lýst sem forgangskröfu, og var í því efni sérstaklega vísað til 2. töluliðar 112. gr. laga nr. 21/1991, en um vexti og kostnað vísaði kröfuhafi til 114. gr. sömu laga. Krafan var færð á kröfuskrá og merkt nr. 1473. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni í upphafi sem vanreifaðri, en féllst síðar á að höfuðstóll kröfunnar nyti stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málið þingfest 22. september 2010.
Samkvæmt greinargerð sóknaraðila til dómsins gerir hann kröfu um að krafa hans að fjárhæð 1.100.000 norskar krónur verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Varnaraðili krefst þess hins vegar að staðfest verði afstaða slitastjórnar þess efnis að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 1.100.000 norskar krónur, sem umreiknist í kröfuskrá í 21.246.500 íslenskar krónur. Einnig krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Að loknum munnlegum málflutningi var málið tekið til úrskurðar 13. september sl.
II.
Málavextir eru þeir helstir að með ráðningarsamningi 16. apríl 2008 var sóknaraðili ráðinn til starfa sem forstöðumaður á fjármálasviði hjá útibúi Landsbanka Íslands hf. í Osló og hóf hann störf 5. maí sama ár. Samkvæmt ráðningarsamningnum, sem ritaður er bæði á norsku og ensku, var svo um samið að föst laun sóknaraðila skyldu vera 1.100.000 norskar krónur á ári. Í 5. gr. samningsins er fjallað um kaupauka („bonus“). Þar segir m.a. svo í íslenskri þýðingu úr norska hluta samningsins:
„Starfsmaðurinn á rétt til þátttöku í deildartengdum kaupaukasamningi sem miðast við hagnað norsku starfsdeildarinnar og einstaklingsbundinn árangur. Viðmið vegna kaupaukahluta hjá öllu fyrirtækjasviðsteyminu í Noregi er allt að 45% af rekstrarhagnaði (EBIT). Með rekstrarhagnaði er átt við hagnað sem myndast hefur, að frádregnum föstum launum og öðrum beinum og óbeinum kostnaði tengdum deildinni. Hlutanum verður deilt á milli fyrritækjasviðsteymisins í samræmi við sérstakan samning þar að lútandi. Kaupaukasamningurinn verður endurmetinn eftir þrjú ár.
Kaupauki fyrir 2008 skal að lágmarki jafngilda 12 mánaða föstum launum. Ef ráðningarsamningi lýkur á reynslutímabilinu, óháð ástæðum, skal kaupaukinn lækkaður hlutfallslega.
Ákvörðun um kaupaukagreiðslu verður tekin af deildarstjóranum í Noregi, yfirmanni fyrirtækjasviðs í Landsbankanum, yfirmanni Landsbankans í Noregi og mannauðsstjóra Landsbankans. Orlofsgreiðslur samkvæmt norskum lögum eru ekki reiknaðar af kaupaukagreiðslum.“
Í 20. gr. samningsins er tekið fram að um hann gildi norsk lög.
Í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi Landsbanka Íslands hf. og skipaði honum skilanefnd var tekin ákvörðun um að hætta starfsemi bankans í Noregi. Í framhaldi af því var gerður starfslokasamningur (e. Termination Agreement) við sóknaraðila 23. október 2008, en samkvæmt honum var ráðningarsamningi rift frá og með 31. janúar 2009. Jafnframt var sóknaraðili leystur undan starfsskyldum sínum frá 30. október 2008, en greiða skyldi umsamin grunnlaun til 31. janúar 2009. Í 6. gr. þessa samnings er fjallað um rétt sóknaraðila til kaupauka. Þar segir svo í íslenskri þýðingu:
„Ef starfsmaðurinn á rétt á kaupauka samkvæmt ráðningarsamningi sínum/kaupaukasamningi, nær þessi samningur ekki til neins mögulegs réttar á kaupauka. Starfsmaðurinn hefur ekki afsalað sér neinum lagalegum rétti sem hann kann að hafa í þessu efni með því að gera þennan samning. Landsbankinn mun viðurkenna rétt starfsmannsins til að fá kaupauka fyrir 2008 í samræmi við ráðningarsamning/kaupaukasamning starfsmannsins.“
Í greinargerð varnaraðila er tekið fram að ekki sé deilt um málsatvik eða fjárhæð kröfunnar. Þá féll varnaraðili frá þeirri málsástæðu við munnlegan flutning málsins að þar sem krafa sóknaraðila styddist ekki við 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 kæmist ekki að í málinu málsástæða sem byggði á því ákvæði. Samkvæmt því snýst ágreiningur aðila nú einungis um það hvort viðurkenna skuli kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Eins og fram er komið féllst slitastjórn varnaraðila á að krafan nyti stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Við upphaf aðalmeðferðar gaf sóknaraðili skýrslu gegnum síma. Þykir ekki ástæða til að rekja framburð hans fyrir dóminum.
III.
Sóknaraðili tekur í upphafi fram að ekki verði annað ráðið af framlögðum skjölum varnaraðila en að ágreiningslaust sé að umrædd krafa sé um laun sóknaraðila. Því til stuðnings bendir hann á bréf varnaraðila til dómsins 6. maí 2010, þar sem óskað er úrlausnar á ágreiningi aðila, fundargerð kröfuhafafundar 4. maí sama ár, svo og umfjöllun um kröfuna í afstöðuskýrslu slitastjórnar varnaraðila frá 24. febrúar 2010. Telur sóknaraðili að engin rök standi til annars en að taka eigi kröfu hans til greina sem forgangskröfu í skilningi 112. gr. laga nr. 21/1991, enda eigi krafan rætur að rekja til vinnu hans.
Í fyrsta lagi kveðst sóknaraðili byggja kröfu sína á því að um ráðningarsamning hans og varnaraðila gildi norsk lög, eins og skýrlega sé þar tekið fram. Bendir hann á að í 10. gr. Evróputilskipunar um endurskipulagningu og slit lánastofnana nr. 2001/24/EB segi að lánastofnun skuli slitið í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð sem gildi í heimaaðildarríkinu, nema kveðið sé á um annað í tilskipuninni. Í 20. gr. sömu tilskipunar komi fram að við túlkun ráðningarsamninga skuli beita lögum þess lands sem samningsaðilar hafi valið berum orðum. Samkvæmt norskum rétti teljist kaupauki hluti launa, enda sé kaupaukinn í beinum tengslum við vinnuna. Þar sem óumdeilt sé að kaupauki sóknaraðila hafi verið í beinum tengslum við starf hans hjá varnaraðila og að meta eigi kaupaukagreiðslur sem hluta endurgjalds fyrir vinnu samkvæmt norskum rétti, beri að túlka áðurnefndan ráðningarsamning með hliðsjón af því. Krafa hans teljist því laun í skilningi 112. gr. gjaldþrotalaga.
Fallist dómurinn ekki á að sóknaraðili hafi skýrt eða sannað efni þeirra erlendu réttarreglna sem hann telur hér eiga við og leiða eigi til framangreindrar niðurstöðu, byggir sóknaraðili í öðru lagi á því að íslenskar réttarreglur gildi um úrlausn málsins. Leiði það einnig til þess að krafa hans teljist forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Um leið mótmælir sóknaraðili því að túlka eigi launahugtakið eins þröngt og varnaraðili haldi fram. Þess í stað leggur hann áherslu á að með orðinu „laun“ í tilvitnaðri 112. gr. sé fyrst og fremst átt við samningsbundin laun, eins og þau séu skilgreind í kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Í ráðningarsamningi sóknaraðila sé kveðið á um launakjör hans, annars vegar föst laun, en hins vegar fastan kaupauka er jafngildi 12 mánaða föstum launum. Kaupaukinn hafi hvorki verið bundinn við tiltekinn árangur eða afkomu bankans né hafi hann verið háður mati eða ákvörðun varnaraðila. Þvert á móti hafi þar verið samið um tiltekna upphæð sem sóknaraðili ætti rétt á, að frádregnum opinberum gjöldum. Jafnframt hafi þar verið tekið fram að orlofsgreiðslur samkvæmt norskum lögum væru ekki reiknaðar af kaupaukagreiðslum. Með vísan til framanritaðs byggir sóknaraðili á því að krafa hans teljist laun í skilningi 112. gr. laga nr. 21/1991, enda eigi krafan rætur að rekja til vinnu hans í þágu varnaraðila.
Um lagarök vísar sóknaraðili einkum til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., meginreglna gjaldþrotaréttar, vinnu- samninga- og kröfuréttar, svo og Evróputilskipunar um slit fjármálafyrirtækja nr. 2001/24/EB. Krafa hans um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Í þinghaldi 13. janúar 2011 mótmælti sóknaraðili, sem of seint fram kominni, þeirri málsástæðu varnaraðila að hafna ætti kröfu hans á þeirri forsendu að umþrætt eingreiðsla gæti ekki talist laun í skilningi norskra laga.
IV.
Krafa varnaraðila er einkum á því reist að launahugtak gjaldþrotaréttar, og þar með forgangsréttur, sé bundið við að gagngjald í formi vinnu hafi verið innt af hendi og að launagreiðslur séu í beinum tengslum við slíkt gagngjald. Krafa á grundvelli kaupauka, eins og hér hátti til, uppfylli ekki slíkt skilyrði þar sem ekki sé krafist vinnuframlags af hálfu launþega. Þar sem sóknaraðili hafi ekki innt af hendi vinnu, telur varnaraðili að krafa sóknaraðila um endurgjald í formi kaupaukans geti ekki fallið undir ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig er á því byggt að skýra beri hugtakið „laun“ og/eða „annað endurgjald“ í umræddu ákvæði þröngri lögskýringu, enda sé með því vissum kröfum skipað framar öðrum í réttindaröð og þannig vikið frá meginreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Þá telur varnaraðili að orðalag í 5. gr. ráðningarsamnings sóknaraðila, þar sem tekið sé fram að ekki skuli reikna orlofsgreiðslur af kaupaukagreiðslum, renni stoðum undir þá túlkun hans að ekki sé um laun að ræða í skilningi gjaldþrotalaga.
Varnaraðili tekur fram að óumdeilt sé að um efni og inntak ráðningarsamnings sóknaraðila gildi norsk lög, sbr. 20. gr. Evróputilskipunar um endurskipulagningu og slit lánastofnana nr. 2001/24/EB. Sóknaraðili hafi þó ekki fært sönnur á að eingreiðsla í formi kaupauka geti talist laun í skilningi norskra laga, en samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 beri honum að færa sönnur á efni og tilvist slíkrar réttarreglu, ætli hann að byggja á henni. Og þótt slík sönnun tækist telur varnaraðili það engu breyta um rétthæð kröfunnar, þar sem rétthæð hennar ráðist alltaf af reglum íslensks gjaldþrotaréttar, þ. á m. af þeim viðbótarskilyrðum sem þurfi að vera uppfyllt.
Við munnlegan flutning málsins kvaðst varnaraðili einnig byggja á því að krafa sóknaraðila gæti ekki notið forgangs samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, þar eð gjalddagi hennar hafi verið eftir frestdag, 15. nóvember 2008. Krafa sóknaraðila sé um kaupauka fyrir árið 2008 og því hafi gjalddagi hennar í fyrsta lagi verið 1. janúar 2009. Sóknaraðili mótmælti þessari málsástæðu varnaraðila og taldi hana of seint fram komna.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, og Evróputilskipunar um slit fjármálafyrirtækja nr. 2001/24/EB. Jafnframt er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga, skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi. Málskostnaðarkrafan byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V.
Í 177. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., er mælt fyrir um framlagningu gagna við meðferð ágreiningsmála samkvæmt þeim lögum. Fram kemur þar að héraðsdómari skuli gefa aðilum kost á að skila greinargerð af sinni hálfu, þar sem fram komi kröfur þeirra og á hverju þær séu byggðar, ásamt gögnum sem þeir hyggjast styðja málstað sinn við. Sóknaraðili skilaði héraðsdómi greinargerð sinni 23. nóvember 2010, en varnaraðili 21. desember sama ár. Í greinargerð varnaraðila var m.a. á því byggt að sóknaraðili hefði ekki fært sönnur á að eingreiðsla í formi kaupauka gæti talist laun í skilningi norskra laga. Samkvæmt því eiga mótmæli sóknaraðila í þinghaldi 13. janúar sl., þess efnis að sú málsástæða sé of seint fram komin, ekki við rök að styðjast.
Í máli þessu deila aðilar um hvar skipa skuli kröfu sóknaraðila í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila. Byggir sóknaraðili á því að krafan, sem er um greiðslu kaupauka að fjárhæð 1.100.000 norskar krónur, og á sér stoð í 5. gr. ráðningarsamnings aðila, sé launakrafa í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, og eigi því að njóta forgangsréttar við slit varnaraðila. Varnaraðili hafnar því hins vegar að kaupaukagreiðsla falli undir launahugtak ákvæðisins, enda sé kaupaukinn ekki endurgjald fyrir vinnu í þjónustu varnaraðila. Þess í stað hefur varnaraðili viðurkennt kröfuna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Eins og áður er rakið var svo um samið í umræddum ráðningarsamningi frá 16. apríl 2008 að föst laun sóknaraðila hjá Landsbanka Íslands hf. skyldu vera 1.100.000 norskar krónur á ári. Voru launin greidd eftir á, 20. hvers mánaðar. Í 5. gr. samningsins, sem bar yfirskriftina „bonus“, var fjallað um rétt sóknaraðila til kaupauka, sem miðast átti við hagnað norsku starfsdeildarinnar og einstaklingsbundinn árangur, og hvernig staðið skyldi að ákvörðun um greiðslu hans. Jafnframt sagði þar að kaupauki fyrir 2008 skyldi að lágmarki jafngilda 12 mánaða föstum launum. Tekið var fram að lyki ráðningarsamningi á reynslutímabilinu, óháð ástæðum, skyldi kaupaukinn lækkaður hlutfallslega. Þá sagði þar að samkvæmt norskum lögum væru orlofsgreiðslur ekki reiknaðar af kaupaukagreiðslum.
Í kjölfar þess að ákveðið var að hætta starfsemi Landsbanka Íslands hf. í Noregi var starfslokasamningur gerður við sóknaraðila 23. október 2008 og honum greidd umsamin grunnlaun til 31. janúar 2009. Tekið var þar fram að starfslokasamningurinn tæki ekki til neins mögulegs réttar starfsmannsins á kaupauka, en að engum slíkum rétti væri afsalað með gerð samningsins. Jafnframt sagði þar að Landsbankinn myndi „viðurkenna rétt starfsmannsins til að fá kaupauka fyrir 2008 í samræmi við ráðningarsamning/kaupaukasamning starfsmannsins“.
Ekki er um það deilt að við túlkun umrædds ráðningarsamnings skuli beita norskum lögum, enda er mælt svo fyrir berum orðum í 20. gr. hans. Er sú skipan og í samræmi við 20. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana, sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 130/2004, um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skal sá sem ber fyrir sig venju eða erlenda réttarreglu leiða tilvist og efni hennar í ljós. Í þessu skyni vísar sóknaraðili til ákvæða norskra gjaldþrotalaga og orlofslaga, en hefur einnig lagt fram önnur gögn, m.a. tillögu norska Gjaldþrotaráðsins frá mars 1998, um meðferð launakrafna við gjaldþrot. Telur hann gögn þessi sýna að krafa hans falli undir launahugtak norsks gjaldþrotaréttar og eigi af þeim sökum að njóta forgangsréttar við slitameðferð varnaraðila. Að áliti dómsins þykir þó nokkuð skorta á að umrædd gögn feli í sér sönnun um efni og tilvist þeirrar norsku réttarreglu, sem sóknaraðili heldur fram að leiða eigi til þeirrar niðurstöðu að krafa hans njóti forgangsréttar. Er þá bæði til þess horft að gögnin eru lögð fram einhliða af sóknaraðila, en einnig til þess að þeim fylgja ekki upplýsingar sem staðfesta álit sóknaraðila um túlkun á því ákvæði norskra gjaldþrotalaga, sem hann telur hér eiga við. Verður því lagt til grundvallar að íslenskar réttarreglur gildi um úrlausn ágreiningsins.
Í XVII. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., er fjallað um rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. þeirra laga njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Ákvæði þetta skipar vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð og víkur með því frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti. Verður ákvæðið því ekki skýrt á rýmri veg en leiðir af orðanna hljóðan. Jafnframt þykir orðalag ákvæðisins ótvírætt benda til þess að réttur til launa og annars endurgjalds þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu.
Ljóst er af orðalagi 5. gr. margnefnds ráðningarsamnings sóknaraðila að umsamin kaupaukagreiðsla fyrir árið 2008 var hvorki tengd árangri af starfsemi bankans né árangri sóknaraðila sjálfs í starfi. Um samningsbundna greiðslu var að ræða sem sóknaraðili átti rétt á, án áskilnaðar um vinnuframlag. Hins vegar voru umsamin föst grunnlaun hans, 1.100.000 norskar krónur á ári, tengd vinnuframlagi hans, og hefur varnaraðili þegar greitt honum laun til 31. janúar 2009. Þar sem greiðsla kaupaukans var því óháð að sóknaraðili innti af hendi frekari vinnu en samið var um í ráðningarsamningi, þykir ekki unnt að líta svo á að krafa hans um greiðslu kaupaukans falli undir laun eða endurgjald fyrir vinnu, í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Vísast hér einnig til dóma Hæstaréttar í málum réttarins nr. 326/2003 og 286/2011, sem þykja fordæmi við úrlausn málsins. Nýtur krafan því ekki forgangs við slitameðferð varnaraðila, en verður þess í stað viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Að þeirri niðurstöðu fenginni þykir ekki ástæða til að fjalla um þá málsástæðu varnaraðila að krafan njóti ekki forgangs þar sem gjalddagi hennar hafi verið eftir frestdag. Tilvitnuð yfirlýsing í áðurnefndum starfslokasamningi, um viðurkenningu á rétti sóknaraðila til kaupauka fyrir árið 2008, breytir heldur engu um niðurstöðu málsins, enda segir þar ekkert um rétthæð kröfunnar.
Enginn ágreiningur er um fjárhæð kröfu sóknaraðila eða jafnvirði hennar í íslenskum krónum. Sóknaraðili hefur ekki krafist vaxta af kröfunni og koma þeir því ekki til skoðunar. Niðurstaða málsins er því sú að hafna beri kröfu sóknaraðila, en fallast á með varnaraðila að krafan njóti rétthæðar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., að fjárhæð 1.100.000 norskar krónur, sem umreiknast í 21.246.500 íslenskar krónur.
Samkvæmt úrslitum málsins og með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, og þykir hann hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Sigmund Ellingbö, um að krafa hans að fjárhæð 1.100.000 norskar krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila, Landsbanka Íslands hf.
Krafa sóknaraðila er samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 1.100.000 norskar krónur, sem umreiknast í 21.246.500 íslenskar krónur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.