Hæstiréttur íslands

Mál nr. 492/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27

           

Mánudaginn 1. október 2007.

Nr. 492/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur Ómar Hafsteinsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. október 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                                                                                   

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 27. september 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. október 2007, kl. 16.00.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar ætlaðan innflutning á stórfelldu magni fíkniefna til Íslands. Að morgni fimmtudagsins 20. september sl. lögðu A og B, skútu við bryggju á Fáskrúðsfirði og hafi þeir verið handteknir í kjölfarið af lögreglu vegna gruns um fíkniefnamisferli.  Um borð í skútunni hafi fundist mikið magn af fíkniefnum.  Með hliðsjón af efnismagni og upplýsingum sem fram hafi komið við rannsókn málsins má ætla að greind fíkniefni séu ætluð til sölu og dreifingar hér á landi.

Tæpum hálftíma eftir að skútan lagðist að bryggju ók kærði bifreiðinni [...] að bryggjunni og hafi hann verið handtekinn í kjölfarið enda hafi hann fyrir legið undir grun um að vera sakborningur í málinu.  Talið sé að kærði hafi haft það hlutverk að móttaka umrædd fíkniefni við komuna til landsins.  Við leit í bifreiðinni [...] fundust olíubrúsar og vistir til nokkurra daga.

Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 20. september sl. vegna málsins, allt til dagsins í dag kl. 16.00, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli R-450/2007.

Við yfirheyrslur af kærða hjá lögreglu þann 21. september sl. greindi hann svo frá að hann hafi verið í bíltúr og ekið frá Reykjavík til Egilsstaða og þaðan til Fáskrúðsfjarðar.  Hafi hann tekið bíl á leigu í þrjá daga og verið á þeim bíl í aðdraganda handtöku.  Kannaðist kærði við að þekkja þá aðila sem voru á skútunni en kveðst ekki hafa verið kominn til Fáskrúðsfjarðar til að hitta þá aðila.   Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 25. september sl. tjáði kærði sig ekkert um þau atriði sem hann hafi verið spurður um.

Við leit í skútunni fundust m.a. gögn sem tengja kærða við þá aðila sem um borð voru.  Þannig fannst símanúmer kærða á miða í skútunni og merking símans sem um ræðir við númerið.   Fram hafi komið við rannsóknina að þeir farsímar sem hafi verið í mestri notkun við skipulagningu málsins hafi verið auðkenndir með sérstökum hætti og kærði með einn þeirra síma í sínum fórum.  Þá liggi fyrir að þeir sem hafi verið um borð í skútunni hafi farið í land við komuna til Fáskrúðsfjarðar, fengu þar að hringja og hringdu þá í það símanúmer sem kærði hafi verið með, áður en lögregla handtók þá.

Auk framangreinds hafi lögregla upplýsingar um að kærði hafi átt þátt í því að koma peningum til aðila sem sá um millifærslu til Færeyja, til þeirra sem voru á skútunni.

Framburður kærða hafi verið afar ótrúverðugur og veruleg ástæða til að ætla að hans þáttur í málinu sé mun meiri en hann greinir sjálfur frá.

Nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi, en ljóst sé að gangi kærði laus getur hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn eða þeir geta sett sig í samband við hann eða kærði getur komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á.  Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.

Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknargögnum og því sem að framan er rakið þykir kærði vera undir rökstudd­um grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti, en ætla má að ef framangreint brot sannist, þá gæti það varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Kærði var handtekinn í bifreiðinni [...] á bryggjunni við Fáskrúðsfjörð að morgni 20. september sl., er skúta með gríðarlegu magni fíkniefna innanborðs lagðist þar að. Rannsókn málsins er ekki lokið en margt bendir til þess að kærði tengist bátsverjum á skútunni meira en í upphafi var talið og að þáttur hans í innflutningi fíkniefnanna sé stærri en hann hefur sjálfur haldið fram. Með vísan til ofanritaðs og rannsóknargagna er fallist á með lögreglu að brýnt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að varna því að hann geti torveldað rannsókn málsins.  Teljast skilyrði a. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála uppfyllt og verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og krafist er.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. október nk. kl. 16.00.