Hæstiréttur íslands
Mál nr. 507/1998
Lykilorð
- Þjófnaður
- Ökuréttur
- Reynslulausn
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 1999. |
|
Nr. 507/1998. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Tryggva Rúnari Leifssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður. Ökuréttindi. Reynslulausn.
T var ákærður fyrir þjófnað og akstur án ökuréttinda. Um var að ræða ítrekuð brot og hafði T með þeim rofið skilyrði reynslulausnar. Héraðsdómur var staðfestur með vísan til forsendna hans og T dæmdur til fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Arnljótur Björnsson og Sigurður Líndal prófessor.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. nóvember 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Sakaferill ákærða er réttilega rakinn í héraðsdómi að öðru leyti en því, að brot, sem hann sætti frelsissvipingu fyrir á árunum 1975 til 1981, var gegn 218. gr., 215. gr., 164. gr., 194. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Tryggvi Rúnar Leifsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 30.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.
Héraðsdómur Reykjavíkur 29. október 1998.
Ár 1998, fimmtudaginn 29. október er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 811/1998: Ákæruvaldið gegn B, D, H og Tryggva Rúnari Leifssyni, sem tekið var til dóms 22. þ.m.
Málið er höfðað með tveim ákæruskjölum.
Með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík 15. september sl. er málið höfðað gegn ákærðu, B, D, H og Tryggva Rúnari Leifssyni, kt. 021051-2179, Grýtubakka 10, öllum til heimilis í Reykjavík,
„fyrir eftirtalin brot framin á árinu 1998:
[...]
IV.
Ákærðu H og Tryggvi Rúnar fyrir þjófnað með því að hafa í félagi að kvöldi mánudagsins 20. júlí brotist inn í geymsluhúsnæði að Vagnhöfða 6 í Reykjavík með því að brjóta gat á hurð og stolið snittvél og tveimur snitthausum, bifhjóli, leðursófasetti með 1 tveggja- og 1 þriggjasæta sófum, ísskáp, 4 jeppahjólbörðum, auk handverkfæra og rafmangshandverkfæra, alls að verðmæti um kr. 600.000. (Mál nr. 010-1998-20721)
[...]
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
VI.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. [...]
Með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík 29. september sl. er málið höfðað gegn ákærða Tryggva Rúnari Leifssyni, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni X-8273, þriðjudaginn 21. júlí 1998, sviptur ökurétti frá Grýtubakka 10 í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Sæbraut, við Sólfarið.
Þetta telst varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Málavöxtum er rétt lýst í ákærunum.
Með skýlausri játningu allra ákærðu, sem eru í fullu samræmi við önnur gögn málsins, þykir sannað að þeir hafi gerst sekir um þau brot, sem þeim eru að sök gefin í ákærunum og þar eru réttilega heimfærð til refsiákvæða.
[...]
Ákærði, Tryggvi Rúnar, hefur hlotið 23 refsidóma frá árinu 1969, þar af 9 eingöngu fyrir umferðarlagabrot, en hina fyrir ýmis hegningarlagabrot, aðallega auðgunar- og skjalafalsbrot. Brotaferill hans er nær óslitinn að undanskildum árunum 1975 til 1985, en hann afplánaði fangelsisrefsingu fyrir manndráp o.fl. frá 1975 til 1981, en þá hlaut hann reynslulausn. Frá árinu 1985 hefur hann hlotið refsingu 11 sinnum fyrir akstur án ökuréttar, síðast 5 mánaða fangelsi með dómi Hæstaréttar 18. september 1997.
Auk þessa hefur hann frá þessum tíma hlotið fjóra dóma fyrir hegningarlagabrot, þar af þrjá fyrir skjalafals; árið 1988 fangelsi í 45 daga skilorðsbundið í 3 ár, 1990 fangelsi í 2 mánuði, en með þeim dómi var 45 daga reynslulausn dæmd með, og 1994 fangelsi í 4 mánuði og loks dóm 27. september 1996, fangelsi í 8 mánuði fyrir þjófnað og umferðarlagabrot. Ákærði hlaut reynslulausn 9. desember 1997 á eftirstöðvum refsingar, 150 dögum. Samkvæmt bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins 16. þ.m. hefur hann ekki afplánað eftirstöðvarnar.
Þegar refsing ákærða er ákvörðuð ber annars vegar að líta til þess að hann hefur hreinskilnislega játað verknað sinn, en hins vegar til þess að brot hans er unnið í félagi við aðra og hins langa sakaferils hans, ekki síst er varðar umferðarlagabrot hans. Einnig ber að líta til þess að hann hefur farið í meðferð, vegna ávana- og fíkniefnaneyslu sinnar, í Hlíðardalsskóla, þar sem hann hefur dvalið frá 2. þ.m. og dvelur enn, sbr. 5. tl. 70. gr. alm. hegningarlaga. Með broti því, sem fjallað er um í dómi þessum, hefur ákærði rofið skilorð framangreindrar reynslulausnar. Ber því nú samkvæmt 1. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 16/1976 og með hliðsjón af 60. gr. sömu laga að dæma hann nú í einu lagi fyrir brot það, sem hér er fjallað um og hina 150 daga óloknu refsivist. Með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og öllu framansögðu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.
[...]
Engar skaðabótakröfur eru lagðar fram í málinu.
[...]
Ákærði, Tryggvi Rúnar, er dæmdur til að greiða skipuðum verjandum sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 35.000 krónur í þóknun.
[...]
Annan sakarkostnað skulu ákærðu allir greiða óskipt.
Dómsorð:
[...]
Ákærði, Tryggvi Rúnar Leifsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
[...]
Ákærði, Tryggvi Rúnar, greiði skipuðum verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 35.000 krónur í þóknun.
Annan sakarkostnað skulu allir ákærðu greiða óskipt.