Hæstiréttur íslands

Mál nr. 240/2001


Lykilorð

  • Ölvunarakstur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001.

Nr. 240/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Magnúsi Elíasi Finnssyni

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

 

Ölvunarakstur.

M var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Við rannsókn og meðferð málsins báru tveir lög­reglu­menn að þeir hafi mætt bifreið ákærða sem hafi haft þokuljósin tendruð. M og sambýlis­kona hans, B, stað­hæfðu að hún hafi ekið bifreiðinni umrætt sinn og M setið í farþegasæti við hlið hennar. Eftir að hún hafi numið staðar hafi M snarast út úr bifreiðinni og gengið aftur fyrir hana, til viðræðna við lögreglumennina, og skilið farþegadyrnar eftir opnar. B hafi því stokkið út um dyrnar ökumanns megin og lokað þeim á eftir sér, hlaupið fram fyrir bif­reiðina og að farþegadyrunum, til að koma í veg fyrir að hundur þeirra slyppi út úr bif­reiðinni. Í framhaldinu hafi B sest í far­þegasætið og róað hundinn. Frásögn ákærða, M, og B var talin lítt trúverðug þegar litið væri til vættis lögreglumannanna tveggja. Á það bæri hins vegar að líta að annar þeirra hafi hvorki séð M aka bifreið­inni né stíga út úr henni um ökumannsdyr að akstri loknum. Um þessi atriði væri aðeins annar þeirra til frásagnar. Báðir hafi borið að þeir hafi séð M ganga frá hægra afturhorni bifreiðar­innar og með fram hægri hlið hennar að farþega­hurð að framan. Aftur á móti væri aðeins annars þeirra til frásagnar um að M hafi í beinu framhaldi opnað farþegadyrnar og að ökumannsdyr hafi staðið opnar. Skorti þannig nokkuð á að þeir bæru um sömu atvik. Með vísan til þessa, aðstæðna á vett­vangi og annarra atvika málsins þótti ekki loku fyrir það skotið að B hafi getað stigið úr um ökumannsdyr bifreiðarinnar án þess að lögreglumennirnir yrðu þess varir, hraðað sér fram fyrir hana í myrkrinu og sest inn í farþegasæti hennar, hægra megin að framan. Þá var ekki talið unnt að sakfella M á grundvelli ætlaðrar játningar hans áður en lögreglu­menn höfðu gert honum grein fyrir því að honum bæri ekki skylda til að tjá sig um kæru­efnið. Þótt verulegar líkur hafi verið færðar fram fyrir sekt M þótti allt að einu varhuga­vert að telja nægilega sannað að hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2001 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru, dæmdur til refsingar, sviptingar ökuréttar og greiðslu sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu af sakargiftum vegna ætlaðs ölvunaraksturs ákærða.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds að yrði ákærði sakfelldur fyrir ölvun við akstur þyrfti rétturinn einnig að taka afstöðu til þess sakarefnis í ákæru að hann hafi ekið bifreiðinni í sama skipti með þokuljós tendruð og þannig brotið gegn 6. mgr. 32. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 7. gr. laga nr. 44/1993. Þessi málflutningsyfirlýsing ákæruvalds verður ekki skilin á annan veg en þann að færi svo að ákærði yrði sýknaður af ölvun við akstur væri fallið frá sakargiftum á hendur honum vegna aksturs hans með þokuljós. Verður því samkvæmt framangreindri niðurstöðu um að ákærði sé sýkn af sakargiftum vegna ölvunar við akstur ekki tekin afstaða til þessa sakarefnis í málinu.  

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Hlöðvers Kjartanssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness, 30. apríl 2001.

                Ár 2001, mánudaginn 30. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í dóm­húsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðs­dómara kveðinn upp dómur í máli nr. S-297/2001: Ákæruvaldið gegn Magnúsi Elíasi Finnssyni, sem dómtekið var 25. sama mánaðar að loknum munnlegum mál­flutningi.

                Málið höfðaði Lögreglustjórinn í Hafnarfirði með ákæru útgefinni 16. febrúar 2001 á hendur ákærða, Magnúsi Elíasi Finnssyni, kt. 170146-4929, Holtabyggð 4, Hafnar­firði, fyrir ætlað umferðarlagabrot „með því að hafa, um miðnæturbil, laugar­daginn 2. september 2000, ekið bifreiðinni VX-129, undir áhrifum áfengis og með þoku­ljós tendruð að framan, austur eftir Fjarðargötu á Þingeyri í Ísafjarðarbæ, nánar tiltekið til móts við hús númer 56, uns lögreglan stöðvaði för hans.

Telst greind háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem og einnig 6. mgr. 32. gr. sömu laga, sbr. 7. gr. laga nr. 44/1993, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðar­laga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og nr. 23/1998.”

Hlöðver Kjartansson hæstaréttarlögmaður, skipaður verjandi ákærða, krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og sakar­kostnaður verði greiddur úr ríkis­sjóði.

I.

Aðfaranótt laugardagsins 2. september 2000 kl. 00:00 óku lögreglumennirnir Unnar Már Ástþórsson og Halldór Guðni Guðlaugsson vestur Fjarðargötu á Þingeyri.  Á sama tíma var fólksbifreiðinni VX-129, af gerðinni Daewoo Nubira, ekið austur Fjarðar­götu, á móts við húsið nr. 56, með þokuljós tendruð.  Lögreglumennirnir gáfu því öku­manni merki um að stöðva og kveiktu í því skyni á bláum aðvörunarljósum lögreglu­bifreiðar­innar.  Eftir að bifreiðarnar mættust sneri Unnar Már lögreglubifreiðinni við og ók á eftir bifreiðinni VX-129, sem numið hafði staðar við vegarbrún skammt frá. 

Í frumskýrslu, sem gerð var vegna málsins, er akstursskilyrðum á vettvangi meðal annars svo lýst: „Birta: myrkur.  Lýsing: lítil.  Færð: þurrt.  Í skýrslunni segir að þegar lögreglumennirnir hafi komið að bifreiðinni hafi dyr ökumanns megin staðið opnar og hafi ökumaður, ákærði í málinu, verið að ganga aftur fyrir bifreiðina og hann gengið að farþegahurð, hægra megin að framan.  Þegar lögreglumennirnir hafi stigið út úr lögreglubifreiðinni hafi farþegi í bif­reið­inni VX-129, Bergljót Davíðsdóttir, stigið út úr henni hægra megin.  Ákærða og Bergljótu hafi verið kynnt ástæðan fyrir afskiptum lögreglumannanna, þ.e. óheimil notkun þokuljósa innan þéttbýlis, og hafi þau þá sagst hafa verið að koma úr heimsókn hjá vinafólki sínu í Haukadal í Dýrafirði og því hefðu þokuljósin verið tendruð.  Ákærða hafi verið gert að gefa öndunarpróf í svokallaðan SD-2 mæli og hafi hann sýnt 0,6 prómill.  Segir um það í frumskýrslunni að ákærða hafi gengið illa að blása í mælinn þar sem hann hafi verið afar stressaður.  Hann hafi sagt: „strákar ætlið þið virkilega að taka af mér skírteinið, ég trúi því ekki, ætlið þið virkilega að taka það af mér“ „en ég var farþegi í bifreiðinni“ „strákar þið gerið mig stressaðan á að blása í þennan mæli“.  Þá segir í skýrslunni að ákærði hafi svarað því aðspurður að hann hefði drukkið einn bjór hjá vini sínum í Haukadal.  Einnig hafi hann sagst hafa ekið bifreiðinni þar sem Bergljótu væri afar illa við að aka í myrkri og á malarvegum. 

Því næst segir orðrétt í skýrslunni: „Magnúsi [þ.e. ákærða] var kynnt að hann væri hand­tekinn vegna gruns um ölvun við akstur og að hann þyrfti ekki að tjá sig um meint sakaefni (sic) en ef hann vildi tjá sig um það skildi hann skýra satt og rétt frá.  Einnig var honum kynnt að hann ætti rétt á verjanda.  Magnús kvaðst ekki ætla að tjá sig um sakarefnið.“ 

Þá segir í sömu skýrslu að á meðan ákærði hafi verið að blása í öndunar­mæli hafi Bergljót komið og sagst ekki skilja þessi vinnu­brögð lögreglu þar sem hún hefði verið ökumaður bifreiðarinnar og ákærði verið farþegi.  Einnig hafi hún sagt að hún hefði ekki þorað að aka bifreiðinni til Ísafjarðar og svo væri einnig vegavinna á Gemlufallsheiði.  Í framhaldi hafi henni verið gert að gefa öndunarpróf, sem sýnt hefði 0,0 prómill.  Hún hafi óskað eftir því að lögregla myndi aka bifreiðinni VX-129 til Ísafjarðar þar sem henni fyndist afar vont að aka við þær aðstæður sem framundan væru.  Loks segir í frumskýrslunni að í viðræðum við Bergljótu hafi hún sagt: „mér brá svo svaka­lega þegar ég sá bláu ljósin að ég stökk yfir í farþegasætið.“  Hún hafi og sagt að hún gæti ekki gefið skýringu á því af hverju ákærði hefði verið fyrir utan bifreiðina þegar hún hefði farið yfir í farþegasætið.

Í niðurlagi frumskýrslunnar kemur fram að ritun hennar hafi lokið 20. september.  Skýrslan ber með sér að hafa verið staðfest samdægurs af Halldóri Guðna Guðlaugssyni héraðslögreglumanni og Unnari Má Ástþórssyni, sem skráði hana, en Unnar Már er nú við nám í Lögregluskóla ríkisins.

 Ákærði var færður fyrir Bjarka Rúnar Skarphéðinsson lögregluvarðstjóra á Ísa­firði aðfaranótt 2. september vegna gruns um ölvun við akstur.  Í varðstjóraskýrslu, sem tekin var kl. 00:52, segir að ákærði hafi verið greinargóður í framburði og málfar hans verið skýrt.  Í skýrslunni eru eftirfarandi, staðlaðar spurningar og svör ákærða við þeim: 1) Varst þú að aka bifreið? Nei. 2) Varst þú að drekka áfengi? Já. 3) Drykkja hófst? Um kl. 23:30. 4) Fannst þú til áfengisáhrifa við aksturinn? Engin áhrif. 5) Hvaðan varst þú að koma? Úr Haukadal í Dýrafirði. 6) Hvaða leið ókst þú? Frá Haukadal í Dýrafirði til Þingeyrar. 7) Hvenær lagðir þú af stað? Rétt fyrir kl. 00:00. 8) Hvert ætlaðir þú? Til Ísafjarðar.

Umræddri skýrslugjöf lauk kl. 01:01, en í lok hennar staðfestu ákærði og Bjarki Rúnar skýrsluna með nafnritun sinni og vottaði Gylfi Þór Gíslason lögreglumaður undir­ritun hennar.

Í þágu rannsóknar málsins var ákærða tekið blóðsýni kl. 01:15, en að því búnu var hann frjáls ferða sinna.  Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar á umræddu blóðsýni reyndist alkóhól­magn í blóði ákærða vera 0,86 o/oo.  Er ekki ágreiningur um þá niður­stöðu.

Að beiðni Bergljótar Davíðsdóttur var tekin af henni skýrsla vitnis kl. 01:24 sömu nótt og kvaðst hún sem fyrr hafa verið ökumaður bifreiðarinnar VX-129.  Fram kom í skýrslu Bergljótar að hún hefði stokkið út úr bifreiðinni, hlaupið fram fyrir hana og að farþegahurð þeim megin sem ákærði hefði setið, í því skyni að koma í veg fyrir að hundur þeirra slyppi út úr bifreiðinni og hlypi út í náttmyrkrið.  Hundurinn hefði setið í fangi ákærða þegar hún hefði stöðvað bifreiðina, en ákærði hefði stigið út úr bifreiðinni í sama mund og hún og sennilega gengið aftur fyrir bifreiðina.

Unnar Már Ástþórsson lögreglumaður gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu 6. desember síðastliðinn.  Aðspurður kvaðst hann telja að ákærði hefði verið ökumaður bifreiðarinnar VX-129 greint sinn og studdi þá ályktun þeim rökum að þegar hann hefði stöðvað lögreglu­bifreiðina fyrir aftan nefnda bifreið hefði ákærði verið nýstiginn út úr henni og hefðu dyr ökumanns megin staðið opnar.  Ákærði hefði verið staddur við hægra aftur­horn bif­reiðar­innar og hefði hann gengið fram með hægri hlið hennar og opnað farþega­dyr þeim megin.  Hefði ákærði síðan virst ræða við farþega, sem þar hefði setið.  Þegar lögreglumennirnir hefðu stigið út úr lögreglubifreiðinni og gengið áleiðis að bifreið ákærða hefði hann komið gangandi á móti þeim.  Nokkru síðar hefði far­þeginn, Bergljót Davíðsdóttir, stigið út úr bifreiðinni hægra megin.  Fram kom í skýrslu Unnars Más að Bjarki Rúnar Skarphéðinsson lögregluvarðstjóri á Ísafirði hefði tjáð vitninu á lögreglu­stöð sömu nótt að ákærði hefði í fyrstu viðurkennt fyrir Bjarka Rúnari að hafa ekið nefndri bifreið þegar lögregla hefði haft afskipti af honum, en síðan hefði ákærði breytt framburði sínum þegar komið hefði að gerð varðstjóraskýrslu og hann þá neitað að hafa ekið bifreiðinni. 

Halldór Guðni Guðlaugsson héraðslögreglumaður gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu 21. sama mánaðar.  Aðspurður kvaðst hann geta fullyrt að ákærði hefði ekið bifreiðinni VX-129 umrædda nótt þar sem hann hefði séð karlmann við stýrið þegar bifreiðarnar tvær hefðu mæst á Fjarðargötu.  Konan hefði setið í farþegasæti við hlið ökumanns og verið íklædd appelsínugulri yfirhöfn, sem hefði verið afar áberandi.  Þegar Unnar Már hefði verið að snúa lögreglubifreiðinni við hefði vitnið og séð karlmanninn stíga út úr bifreiðinni gegnum ökumannsdyr og ganga að farþegadyrum hægra megin bifreiðarinnar þar sem konan hefði setið.  Lögreglumennirnir hefðu í framhaldi stigið út úr bifreið sinni og haft tal af ákærða og konunni.  Ákærði hefði þá staðið við hægri hlið bifreiðarinnar og verið að ræða við konuna, sem hefði setið í farþegasætinu og haldið á hundi.  Fram kom í skýrslu Halldórs Guðna að á meðan Unnar Þór hefði rætt við ákærða hefði vitnið gengið hring í kringum bifreiðina VX-129 og komið auga á opna bjórdós sem staðið hefði milli framsæta, við gírstöng bifreiðarinnar.  Hann hefði sagt Unnari Má frá þessu og stungið upp á því að ákærði yrði látinn blása í öndunarmæli.

Ákærða var boðið að ljúka málinu með sektargerð lögreglustjóra 24. janúar 2001, en hann mun hafa hafnað slíkum mála­­lyktum 12. febrúar síðastliðinn.

II.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði greint sinn verið farþegi í bifreið­inni VX-129 á leið frá Haukadal í Dýrafirði, um Þingeyri, til Ísafjarðar.  Bergljót Davíðs­dóttir sambýliskona hans hefði ekið bifreiðinni og verið á leið út úr þorpinu þegar þau hefðu mætt lög­reglu­bifreið, sem gefið hefði þeim merki um að stöðva.  Ákærði sagði að sér hefði brugðið við aðvörunarljós lögreglubifreiðarinnar og hefði Bergljót ekið út í vegar­­­­­­­kant.  Hann hefði stigið út úr bifreiðinni á undan Bergljótu, gengið aftur fyrir bifreiðina, að hægra afturhorni og beðið þess að lögreglumennirnir kæmu út úr sinni bifreið.  Þegar annar þeirra hefði stigið út hefði ákærði gengið til móts við hann.  Sá lögreglu­maður hefði vakið máls á því að þoku­ljós bifreiðarinnar VX-129 hefðu verið tendruð í akstri.  Ákærði hefði því gengið með þeim lögreglumanni með fram vinstri hlið bifreiðarinnar og þeir staðreynt að þoku­ljósin væru tendruð.  Aðspurður um ummæli innan gæsalappa í frum­skýrslu lögreglu­mannanna tveggja, sem bera með sér að hafa verið höfð eftir ákærða á vettvangi, kvaðst hann mótmæla þeim sem röngum og sagðist aldrei hafa viðurkennt akstur bifreiðarinnar.  Hann kannaðist hins vegar við að hafa verið búinn að drekka einn til tvo áfenga bjóra á meðan hann hefði verið að horfa á fót­bolta­leik á sveitabæ í Haukadal og sagðist hafa haft seinni bjórinn með sér í bifreiðinni þegar farið hefði verið frá bænum.  Ákærði kvaðst ekki muna eftir klæðaburði Bergljótar umrætt sinn, en kvaðst viss um að hún ætti ekki appelsínugula yfirhöfn.

Bergljót Davíðsdóttir bar fyrir dómi að hún hefði greint sinn verið á leið frá Hauka­dal til Ísafjarðar og ekið gegnum Þingeyri, eftir Fjarðargötu.  Með henni hefði verið ákærði, sem setið hefði í farþegasæti við hlið hennar með hund í fanginu.  Að sögn Bergljótar hefði hún skyndilega séð blá aðvörunarljós lög­reglu­bifreiðar fyrir framan sig og því ekið að vegarbrún og stöðvað bifreiðina.  Ákærði hefði strax stigið út úr bifreið­inni og skilið farþegadyrnar eftir opnar.  Hún hefði því stokkið út um dyrnar ökumanns megin, skellt hurðinni á eftir sér, hlaupið fram fyrir bifreiðina og að farþegadyrunum, til að koma í veg fyrir að hundurinn slyppti úr úr bifreiðinni.  Á meðan hefði ákærði gengið aftur fyrir bifreiðina og mætt lögreglumönnunum um miðja vegu milli bifreiðanna tveggja.  Bergljót kvaðst ekki vera viss hvort hún hefði verið sest til hálfs í farþegasætið, og verið að róa hundinn, þegar lögreglumennirnir komu að eða hvort hún hefði staðið við dyrnar, en sagði lög­reglumennina hafa talað við ákærða einhverja stund áður en þeir hefðu allir gengið að bifreiðinni.  Því gæti vel verið að hún hefði setið til hálfs í farþega­sætinu þegar þeir hefðu komið að hægri hlið bifreiðarinnar.  Hún hefði síðan verið sest inn í bifreiðina og verið tilbúin að fara af stað og ákærði verið að þurrka óhreinindi af ljósum bifreiðarinnar þegar lögreglumennirnir hefðu komið aftur að máli við hann.  Ákærði hefði síðan kallað til hennar að þeir ætluðu að láta hann blása í öndunarmæli.  Hún hefði þá staðið upp og sagt: „Hvað er í gangi, eruð þið að verða vitlausir.  Látið mig blása.  Ef einhver á að blása þá er það ég.  Eruð þið að láta farþega, er það algengt að far­þegar séu látnir blása.“  Í framhaldi hefði hún einnig gefið öndunar­próf.  Bergljót kvaðst ekki muna hvernig hún hefði verið klædd um nóttina, en sagðist aðspurð ekki eiga appelsínu­gula yfirhöfn.  Í lok vitnisburðar síns fyrir dómi stað­festi Bergljót framburðar­skýrslu sína hjá lögreglu.

Unnar Már Ástþórsson bar fyrir dómi að hann og Halldór Guðni Guðlaugsson héraðslögreglumaður hefðu greint sinn mætt bifreiðinni VX-129 í akstri eftir Fjarðargötu á Þingeyri og ákveðið að hafa afskipti af ökumanni vegna þess að þokuljós bifreiðarinnar hefðu verið tendruð innan þéttbýlismarka.  Hann hefði því snúið lögreglubifreiðinni við á nálægu plani og ekið að nefndri bifreið, sem numið hefði staðar við vegarbrún skammt frá.  Aðspurður kvaðst hann hafa fylgst með bifreiðinni allan tímann í baksýnisspegli lög­­reglu­bifreiðarinnar og aðeins hafa misst sjónar á henni í örfáar sekúndur á meðan hann hefði snúið við á umræddu plani.  Þegar hann hefði ekið að bifreiðinni hefði karlmaður, ákærði í málinu, staðið fyrir utan bifreiðina, við hægra afturhorn hennar.  Þaðan hefði ákærði gengið að farþegahurð, hægra megin að framan og opnað dyrnar.  Kvaðst Unnar Már þá hafa séð í hönd farþega, sem setið hefði í farþegasæti og haldið í innanverða hurðina.  Á sama tíma hefðu ökumannsdyr staðið opnar.  Að sögn Unnars Más hefði hann síðan stöðvað lögreglubifreiðina um einn og hálfan metra aftan við nefnda bifreið og þá ekki lengur séð hægri hlið hennar, nema rétt hægra afturhornið.  Hann kvaðst því ekki geta sagt til um hvort farþegadyrnar hefðu verið opnar eða lokaðar þegar lögreglubifreiðin hefði staðnæmst.  Lögreglumennirnir hefðu stigið samtímis út og rætt við ákærða; fyrst fyrir aftan bifreið hans og síðan fyrir framan hana og hefðu þeir gert honum grein fyrir ástæðu afskiptanna, þ.e. rangri notkun þokuljósa í þéttbýli.  Umræddur farþegi, kona, hefði fljótlega stigið út úr bifreiðinni og fylgst með því sem fram hefði farið eftir það.  Að sögn Unnars Þórs hefði ákærði verið kurteis og framkoma hans góð í alla staði, en vakið hefði athygli að hann hefði virst stressaður þrátt fyrir að tilefni afskipta lögreglumannanna hefði verið smávægilegt í upphafi.  Vegna þessa og þar sem ákærði hefði reynt að halda ákveðinni fjarlægð frá lögreglumönnunum hefði verið ákveðið að biðja hann um öndunarpróf.  Þó hefði ekki fundist áfengislykt af honum á vettvangi.  Viðbrögð ákærða við þeirri beiðni hefðu einkennst af miklu stressi og hefði hann þá látið ummæli falla fyrir utan lögreglubifreiðina, sem skráð væru orðrétt eða nánast orðrétt innan gæsalappa í áðurnefndri frum­skýrslu.  Hann hefði þá strax haldið því fram að hann hefði ekki ekið bifreiðinni, en áður hefði hann verið búinn að kannast við akstur hennar.  Konan, sem búin hefði verið að spyrja hvað væri í gangi og hver væri ástæða afskipta lögreglumannanna, hefði strax sagt að hún hefði verið ökumaður bif­reiðar­innar og hefði henni brugðið svo mikið þegar hún hefði séð aðvörunarljós lög­reglu­bif­reiðar­innar að hún hefði stokkið yfir í farþegasætið við hliðina.  Einnig hefði komið fram hjá henni á vettvangi að hún hefði stokkið yfir í farþegasætið vegna hunds, en Unnar Már kvaðst hafa séð umræddan hund í afturglugga bifreiðarinnar eftir að hann hefði stigið út úr lögreglubifreiðinni.  Hann kvað ákærða aftur hafa gengist við akstri bifreiðar­innar á leiðinni til Ísafjarðar og enn aftur fyrir framan varð­stjóra eftir að komið hefði verið á lögreglustöð.  Í lok vitnisburðar síns fyrir dómi stað­festi Unnar Már fram­burðar­skýrslu sína hjá lögreglu, vettvangsuppdrátt sinn og frum­skýrslu þá sem hann gerði vegna málsins.  Aðspurður kvaðst hann hafa ritað þá skýrslu í lok vaktar sömu nótt, en síðan hefði hann leiðrétt stafsetningarvillur 20. sama mánaðar og því væru skýrslu­­lok skráð þann dag í frumskýrslunni.

Halldór Guðni Guðlaugsson bar fyrir dómi að hann og Unnar Már Ástþórsson lögreglumaður hefðu greint sinn verið á leið inn á Þingeyri er þeir hefðu mætt bifreiðinni VX-129, sem hefði verið með þokuljós tendruð.  Halldór Guðni kvaðst hafa séð að öku­maður bifreiðarinnar væri karlmaður og að við hlið hans hefði setið kona í appelsínu­gulri yfirhöfn.  Unnar Már hefði viljað hafa afskipti af ökumanni og því tendrað aðvörunar­ljós lögreglubifreiðarinnar og því næst snúið henni við.  Halldór Guðni kvaðst hafa snúið sér við í sæti sínu á meðan og fylgst með nefndri bifreið.  Hann hefði því ekki misst sjónar á henni nema ef til vill örskamma stund á meðan þeir hefðu ekið framhjá henni og Unnar Már snúið lögreglubifreiðinni við.  Hann kvaðst hafa séð karl­manninn stíga út úr bifreið­inni öku­manns megin, í um 40-50 metra fjarlægð frá lögreglubifreið­inni, sem þá hefði verið að snúa við.  Maðurinn hefði gengið aftur fyrir bifreiðina og að far­þega­dyrum hægra megin.  Að sögn Halldórs Guðna hefði honum fundist hálfskrýtið hve maðurinn væri snöggur út.  Unnar Már hefði síðan stöðvað fyrir aftan bifreiðina og farið út til að tala við manninn, ákærða í málinu, um þokuljósin, en ákærði hefði þá staðið við farþega­dyrnar og konan setið í far­þega­sætinu með hund í fanginu.  Hún hefði haft á orði að hundurinn hefði orðið hræddur þegar lögreglumennirnir hefðu kveikt á aðvörunar­ljósunum.  Á meðan Unnar Már hefði rætt við ákærða hefði Halldór Guðni gengið með fram bifreiðinni ökumanns megin og séð bjórdós við gír­stöng hennar.  Í ljósi þessa og þar sem ákærði hefði verið mjög tauga­strekktur hefði Halldór Guðni farið að lög­reglu­bifreiðinni og sótt öndunar­mæli og því næst nefnt það við Unnar Má hvort ekki væri rétt að fá hjá ákærða öndunar­próf.  Unnar Már hefði ekki verið reiðu­búinn til þess í fyrstu, en síðan hefði hann ákveðið að láta ákærða gefa slíkt próf.  Konan hefði þá verið komin út úr bifreiðinni.  Hún hefði sagst vera ökumaður hennar og spurt af hverju ákærði ætti að blása í öndunar­mæli.  Ákærði hefði verið mjög óstyrkur við prófið og hefði þurft að blása þrisvar eða fjórum sinnum áður en niðurstaða hefði fengist.  Halldór Guðni kvaðst ekki muna hvort ákærði hefði á vett­vangi viðurkennt akstur bifreiðar­innar, en sagði hann að minnsta kosti ekki hafa þrætt fyrir akstur hennar fyrr en komið hefði verið á lögreglu­stöðina á Ísafirði.  Í lok vitnis­burðar síns fyrir dómi stað­festi Halldór Guðni framburðar­skýrslu sína hjá lögreglu og margumrædda frum­skýrslu, þar á meðal varðandi réttmæti ætlaðra ummæla ákærða, sem höfð væru eftir honum innan gæsalappa.  Aðspurður kvaðst hann hafa undirritað frum­skýrsluna til stað­­festingar eftir að Unnar Már hefði lokið ritun hennar 20. september 2000.  Nánar aðspurður kvaðst hann ekki muna hvenær sú undirritun hefði farið fram, en sagði að hringt hefði verið til sín og hann beðinn um að mæta á lögreglustöðina á Ísafirði til að staðfesta skýrsluna.

Bjarki Rúnar Skarphéðinsson gaf skýrslu vitnis fyrir dómi.  Hann kvaðst muna eftir þegar komið hefði verið með ákærða á lögreglustöðina á Ísafirði.  Hann hefði tekið af ákærða hefðbundna varðstjóraskýrslu og í framhaldi gert ráðstafanir til að honum yrði tekið blóðsýni.  Bjarki Rúnar kvaðst ekki minnast þess að ákærði hefði viðurkennt akstur bifreiðarinnar í sín eyru.

III.

Meðal gagna í málinu er áðurnefndur vettvangsuppdráttur Unnars Más Ástþórs­sonar frá 20. febrúar 2001, sem hann gerði að eigin sögn eftir minni, en ekki eftir mælingum á vett­vangi.  Samkvæmt uppdrættinum stöðvaði ökumaður bifreiðarinnar VX-129 hana við brún akvegar í um það bil 50 metra fjarlægð frá plani við Fjarðargötu 54 á Þingeyri, sem Unnar Már kvaðst hafa notað til að snúa lögreglubifreiðinni við.  Þá ber uppdrátturinn með sér að bifreiðarnar hafi mæst við vegamót Fjarðargötu og þjóð­vegar, sem liggur frá Þingeyri yfir í Vestur-Ísafjarðarsýslu, en þjóðvegurinn liggur á milli húsa nr. 54 og 56 við Fjarðargötu.  Frá ætluðum mætingarstað eru samkvæmt upp­drættinum um 20 metrar að áðurnefndu plani.  Af honum verður ráðið að Unnar Már hafi ekið lögreglubifreiðinni um 10 metra inn á planið, snúið þar við og ekið út af planinu, um 10 metra spöl, áður en hann hafi ekið í átt að bifreiðinni VX-129.  Samkvæmt þessu hafa lögreglu­mennirnir ekið um 90 metra leið frá því að bifreiðarnar mættust og þar til lögreglubifreiðin stað­næmdist fyrir aftan bifriðina VX-129.  Uppdrátturinn ber ekki með sér hvernig stað­hættir voru á vettvangi að öðru leyti eða hvernig landslagi er háttað. 

IV.

Ákærða er gefið að sök að hafa, um miðnæturbil laugardaginn 2. september síðast­liðinn, ekið bifreiðinni VX-129, með þoku­ljós tendruð og undir áhrifum áfengis, eftir Fjarðargötu á Þingeyri, á móts við húsið nr. 56.  Fyrir liggur að úti var myrkur og að lýsing var lítil á vettvangi. 

Vitnið Halldór Guðni Guðlaugsson bar við rannsókn og meðferð málsins að hann hefði séð karlmann við stýri bifreiðarinnar, þegar lögreglu­mennirnir hefðu mætt henni á móts við framangreint hús, og konu í farþegasæti við hlið hans, klædda appelsínu­­gulri yfirhöfn.  Vitnið Unnar Már Ástþórsson, sem ók lögreglu­bifreiðinni, kvaðst ekki hafa veitt því athygli hver hefði ekið bifreiðinni á greindum tíma.  Vitnið bar ekki um fatnað konunnar, Bergljótar Davíðsdóttur, en hún kvaðst fyrir dómi ekki eiga appelsínugula yfirhöfn.  Vitnið Halldór Guðni bar enn fremur við rannsókn og meðferð málsins að hann hefði séð karlmann stíga út um ökumannsdyr nefndrar bifreiðar, ganga aftur fyrir hana og að farþegadyrum hægra megin að framan, þar sem konan hefði setið í far­­þega­sæti.  Vitnið hefði þá verið statt í lögreglu­bifreiðinni á plani við Fjarðargötu 54.  Eftir að lögreglumennirnir hefðu stigið út úr bifreið sinni hefði maðurinn, ákærði í málinu, staðið við sömu far­þega­­dyr og konan setið í farþegasætinu með hund í fanginu.  Vitnið kvaðst fyrir dómi ekki hafa tekið eftir því hvort ökumannsdyr hefðu staðið opnar.  Vitnið Unnar Már bar við rannsókn og meðferð málsins að hann hefði fyrst séð karl­manninn, ákærða í málinu, þegar vitnið hefði verið að aka lögreglubifreiðinni að bifreið­inni VX-129.  Ökumannsdyr hefðu verið opnar og ákærði staðið við hægra aftur­horn bifreiðarinnar, en þaðan hefði hann gengið að farþegahurð, hægra megin að framan og opnað þær dyr.  Konan hefði þá setið fyrir innan dyrnar.  Í skýrslu vitnisins hjá lögreglu, sem hann las yfir og staðfesti fyrir dómi, kom ótvírætt fram að þegar lögreglumennirnir hefðu stigið út úr lögreglu­bifreið­inni og gengið áleiðis að nefndri bifreið hefði ákærði komið gangandi á móti þeim.  

Framangreindur vitnisburður lögreglu­mannanna stangast í veigamiklum atriðum á við framburð ákærða og vitnisburð sambýliskonu hans, Bergljótar Davíðsdóttur, sem staðhæfðu fyrir dómi að Bergljót hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn og ákærði setið í far­þega­sæti við hlið hennar.  Eftir að Bergljót hefði numið staðar hefði ákærði snarast út úr bifreiðinni og gengið aftur fyrir hana, til viðræðna við lögreglumennina.  Samkvæmt vætti Bergljótar hefði ákærði skilið farþegadyrnar eftir opnar.  Hún hefði því stokkið út um dyrnar öku­manns megin og lokað þeim á eftir sér, hlaupið fram fyrir bifreiðina og að farþegadyrunum, til að koma í veg fyrir að hundur þeirra slyppi út úr bifreiðinni.  Vitnis­burður Bergljótar sam­rýmist að þessu leyti frásögn hennar við skýrslugjöf hjá lögreglu. Bergljót bar enn fremur fyrir dómi að hún hefði í framhaldi sest í farþegasætið og róað hundinn.

Frásögn ákærða og Bergljótar fyrir dómi er lítt trúverðug þegar litið er til vættis lögreglumannanna tveggja.  Á það ber hins vegar að líta að vitnið Unnar Már sá hvorki ákærða aka nefndri bifreið né stíga út úr henni um ökumannsdyr að akstri loknum.  Um þessi atriði er vitnið Halldór Guðni einn til frásagnar.  Vitnin báru hins vegar bæði að þau hefðu séð ákærða ganga frá hægra afturhorni bifreiðarinnar og með fram hægri hlið hennar að farþegahurð að framan.  Vitnið Unnar Már er hins vegar einn til frásagnar um að ákærði hafi í beinu framhaldi opnað farþegadyrnar.  Einnig er hann einn til frásagnar um að ökumannsdyr hafi staðið opnar.  Skortir þannig nokkuð á að vitnin beri um sömu atvik, sem þau hafi bæði skynjað af eigin raun og skipta verulegu máli við sönnunarmat í málinu.  Þegar þetta er virt og litið er til þess að myrkur var á vettvangi, þess að lýsing var lítil og ekkert liggur fyrir um það hvernig henni hafi verið háttað, þess að lögreglu­mennirnir sneru bifreið sinni við á plani í um það bil 50 metra fjarlægð frá þeim stað sem bifreiðin VX-129 hafði staðnæmst á og óku samkvæmt eigin vætti með undir 50 kíló­metra hraða miðað við klukkustund þá leið sem farin var, þess að ónógra gagna nýtur um nánari stað­hætti og hvernig landslagi sé háttað á vettvangi, með tilliti til yfirsýnar frá umræddu plani að þeim vegarkafla sem bifreiðin stóð á, og loks þess að annar og jafnvel báðir lögreglumennirnir báru fyrir dómi að þeir hefðu misst sjónar á bifreiðinni í örskamma stund, þykir ekki loku skotið fyrir það að Bergljót hafi getað stigið út um öku­manns­dyr bifreiðarinnar án þess að lögreglumennirnir yrðu þess varir, hraðað sér fram fyrir hana í myrkrinu og sest inn í farþegasæti, hægra megin að framan.  Er þó eins og áður segir ólíkindablær á þeirri frásögn hennar.

 Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi.  Með hliðsjón af þeirri meginreglu verður sakfelling ákærða ekki reist á ummælum sem eiga að hafa verið höfð eftir honum á vettvangi og skráð eru í frumskýrslu lögreglumannanna tveggja, nema önnur atriði styðji þá frásögn í verulegum atriðum.  Breytir þá engu þótt lögreglumennirnir hafi fyrir dómi skýrt frá samtölum sínum við ákærða með sama hætti.  Þar sem ákærði hefur fyrir dómi eindregið mótmælt því að hafa látið umrædd orð falla, þar á meðal þess efnis að hann hefði á einhverjum tímapunkti gengist við akstri nefndrar bifreiðar, og til þess er litið að í frumskýrslunni er einnig haft eftir ákærða að hann hafi verið farþegi í bifreiðinni og þess að ummæli, sem gætu falið í sér vísbendingu um játningu ákærða, voru samkvæmt frumskýrslunni öll viðhöfð áður en lögreglumennirnir kynntu fyrir ákærða að honum bæri ekki skylda til að tjá sig um kæruefnið og að ef hann vildi tjá sig þá bæri honum að skýra satt og rétt frá, þykir ekki unnt að byggja á þeim vitnisburði lögreglumannanna.  Með sömu röksemdum verður sakfelling ákærða ekki reist á ætlaðri játningu hans í lögreglubifreiðinni á leið til Ísafjarðar, sem vitnið Unnar Már bar einn um, eða skráðum svörum ákærða í staðlaðri varðstjóraskýrslu Bjarka Rúnars Skarphéðinssonar, en þar kemur glöggt fram í upphafi skýrslutökunnar að ákærði neitaði akstri bifreiðarinnar. 

Samkvæmt framansögðu liggja ekki fyrir í málinu óyggjandi gögn um að ákærði hafi ekið bifreiðinni VX-129 umrædda nótt.  Þótt verulegar líkur hafi verið færðar fram fyrir sekt hans þykir allt að einu varhugavert með vísan til 45., 46. og 47. gr. laga um með­ferð opinberra mála að telja nægilega sannað að hann hafi verið ökumaður bifreiðar­innar.  Skal ákærði því sýkn af þeirri háttsemi sem hann er borinn í ákæru.

Í ljósi greindra málsúrslita ber samkvæmt 1. mgr. 166. gr. sömu laga að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð.  Eru þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, sem þykja hæfilega ákveðin krónur 80.000, að viðbættum lögmæltum virðisaukaskatti.

DÓMSORÐ:

                Ákærði, Magnús Elías Finnsson, er sýkn af kröfum ákæruvalds í málinu.

                Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 80.000 króna málsvarnar­laun skipaðs verjanda, Hlöðvers Kjartanssonar hæstaréttarlögmanns.