Hæstiréttur íslands

Mál nr. 773/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


                                     

Miðvikudaginn 25. nóvember 2015.

Nr. 773/2015.

A

(Guðrún Björg Birgisdóttir hrl.)

gegn

Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. nóvember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2015, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 6. sama mánaðar um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld niður og þóknun skipaðs talsmanns hans vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti greidd úr ríkissjóði.

Varnaraðili, sem á aðild að málinu á grundvelli 20. gr., sbr. d. lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga, krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2015.

Með kröfu, sem dagsett er 8. þ.m. og þingfest var í dag, hefur A, kt. [...], til lögheimilis í [...], Reykjavík, en dveljandi á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, Reykjavík, krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 6. þ.m. um það hann skuli vistast á sjúkrahúsi.

Kröfunni er mótmælt af hálfu varnaraðila, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Um aðild vísast til 20. gr., sbr. a-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.

Fyrir liggur í málinu álit tveggja lækna á geðdeild Landspítala, þeirra B og C þess efnis að sóknaraðili sé haldinn geðhvarfasýki og að hann sé nú um stundir í maníu og mikið skorti á innsæi hans í sjúkdóminn. Sé nauðsynlegt að vista hann á sjúkrahúsi til þess að hann fái viðeigandi læknismeðferð við þessu meini sem hann ella nái sér ekki af og geti orðið sjálfum sér hættulegur.

Dómurinn álítur að það sé nægilega í ljós leitt með áliti geðlæknanna tveggja að brýna nauðsyn beri til þess að sóknaraðili dvelji um sinn á sjúkrahúsi og fái þar nauðsynlega læknishjálp við geðsjúkdóminum.  Ber því, með vísan til 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga, að ákveða að synja kröfu sóknaraðila.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hrl., 100.000 krónur.  Þóknun talsmannsins er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Synjað er kröfu sóknaraðila, A, kt. [...], til lögheimilis í [...], Reykjavík, en dveljandi á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, Reykjavík, að felld verði úr gildi sú ákvörðun innanríkisráðuneytisins 6. þ.m. að hann skuli vistast á sjúkrahúsi.

Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hrl., 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.