Hæstiréttur íslands

Mál nr. 167/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Schengen-samningurinn


Mánudaginn 25

 

Mánudaginn 25. apríl 2005.

Nr. 167/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Gunnlaugsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann. Schengen-samningur.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2005, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 18. maí 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að kærði, X [...], litháískum ríkisborgara, verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi farbanni þar til máli hans er lokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 18. maí 2005, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að við venjubundið Schengen eftirlit með komu farþega og áhafnar til Seyðisfjarðar með farþegaferjunni m/s Norrænu þann 7. mars sl. hafi lögreglan orðið áskynja um að einn farþegi ferjunnar, kærði, væri skráður eftirlýstur af þýskum dómsmálayfirvöldum skv. 95. gr. Schengen samningsins á Schengen svæðinu.  Skráning þýskra yfirvalda í Schengen upplýsingakerfið skv. 95. gr. Schengen-samningsins, jafngildir beiðni um handtöku og gæslu í skilningi 16. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna frá 13. september 1957, sbr. 64. gr. Schengen-samningsins.

Þann 29. mars sl. hafi dómsmálaráðuneytinu borist framsalsbeiðni þýskra dómsmálayfirvalda vegna málsins, dags sama dag, alþjóðleg handtökuskipun, dags. 16. apríl 2003 og endurrit úr þingbók héraðsdóms Baden-Baden, dags. 16. mars sl.  Í hinum þýsku gögnum komi fram að kærði sé talinn tengjast skipulagðri glæpastarfsemi í Litháen og Þýskalandi.  Muni hið meinta sakarefni varða innflutning fíkniefna og falsaðra peninga til Þýskalands auk innbrota og þjófnaða.  Fangelsisrefsing muni vera við hinum meintu brotum. Dómsmálaráðuneytið hafi vísað framsalsbeiðninni til meðferðar hjá ríkissaksóknara skv. 2. mgr. 13. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984. Þann 6. apríl sl. hafi lögreglustjóranum í Reykjavík borist erindi ríkissaksóknara, dags. 4. s.m., þar sem embættinu hafi verið falið að kynna kærða framsalsbeiðnina og þau gögn sem henni fylgdu, leita eftir afstöðu hans til málsins o.fl.  Við skýrslutöku af kærða hafi komið fram að hann mótmælti framsalskröfunni og taldi hana ekki á rökum reista og sé nánar vísað til framburðarskýrslu hans, dags. 14. þ.m. 

Skv. framangreindu sé framsalsmálið nú til meðferðar hjá dómsmála­ráðuneytinu en áður skal embætti ríkissaksóknara skila ráðuneytinu umsögn um hvort uppfyllt séu skilyrði framsals skv. I. kafla laga nr. 13/1984 og muni vera unnið að gerð slíkrar umsagnar.

Kærði hafi sætt farbanni frá 8. mars sl., sbr. dómar Hæstaréttar Íslands frá 14. mars og 1. apríl sl., sbr. mál réttarins nr. 109/2005 og 128/2005. Fyrir liggi að kærði sé litháískur ríkisborgari með búsetu í Litháen og hann hafi engin tengsl við Ísland svo vitað sé. Að mati lögreglu sé þannig ástæða til að ætla að án takmarkana á ferðafrelsi muni hann reyna að fara af landi brott og þar með koma sér hjá framsali og fyrirhugaðri rannsókn og saksókn þýskra yfirvalda. Áframhaldandi farbann þykir þannig vera nauðsynlegt til að tryggja nærveru kærða hér á landi meðan máli hans sé ólokið.

Meint sakarefni skv. íslenskum refsilögum kunni að varða fangelsisrefsingu skv. 150. gr. og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um lagaheimild fyrir farbanni sé vísað til 19. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Með vísun til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og hér að framan var rakin og 1. mgr. 19. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna, sbr. og 110. gr. og b.-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áframhaldandi farbanni þar til máli hans er lokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 18. maí 2005, kl. 16:00.