Hæstiréttur íslands

Mál nr. 50/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Aðfinnslur


Mánudaginn 22

Mánudaginn 22. febrúar 1999.

Nr. 50/1999.

Ís-Mat ehf.

(Magnús B. Brynjólfsson hdl.)

gegn

Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

tollstjóranum í Reykjavík

(Gunnar Ármannsson hdl.)

Kópavogskaupstað og

Verksmiðjunni Sámi ehf.

Kærumál. Nauðungarsala. Máli vísað frá héraðsdómi. Aðfinnslur.

Í kærði úrskurð héraðsdómara þar sem hafnað var kröfu Í um ógildingu nauðungarsölu. Talið var að tilkynning Í til héraðsdómara, þar sem krafist hafði verið úrlausnar um gildi nauðungarsölunnar, hefði ekki fullnægt skilyrðum 81. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og hefði héraðsdómara borið að vísa málinu þegar frá dómi. Þar sem ekki hafði verið bætt úr þessum annmörkum í héraði eða fyrir Hæstarétti var málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. Meðferð málsins í héraði var átalin.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. janúar 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um ógildingu á nauðungarsölu á eigninni Vesturvör 11b í Kópavogi, sem fram fór 6. nóvember 1998. Kæruheimild er í 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar að nýju, en til vara að framangreind nauðungarsala verði ógilt. Einnig krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn tollstjórinn í Reykjavík krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Sóknaraðili reisir kröfu sína um ómerkingu í fyrsta lagi á því að héraðsdómari hafi látið undir höfðuð leggjast að taka fyrir kröfu sóknaraðila um að því yrði frestað með úrskurði að Verksmiðjan Sámur ehf., sem keypti fasteignina að Vesturvör 11b við fyrrnefnda nauðungarsölu, tæki við umráðum hennar. Í öðru lagi telur sóknaraðili að ómerkja eigi úrskurð héraðsdómara, þar sem útivist hafi orðið í héraði af hálfu Verksmiðjunnar Sáms ehf.  Hafi héraðsdómari átt að gæta ákvæða 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og úrskurða samkvæmt kröfum sóknaraðila á hendur félaginu. Að síðustu telur sóknaraðili að tollstjórinn í Reykjavík hafi ekki verið aðili að nauðungarsölumálinu og lögmanni tollstjóra hafi verið óheimilt að mæta fyrir hönd annarra varnaraðila í héraðsdómi og flytja málið fyrir þeirra hönd. Því beri að ómerkja úrskurð héraðsdómara.

Varakröfu sína um ógildingu nauðungarsölu reisir sóknaraðili í fyrsta lagi á því að auglýsingar sýslumannsins í Kópavogi um fyrirtöku hennar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 90/1991. Í annan stað hafi fulltrúi sýslumanns mætt við fyrirtöku nauðungarsölunnar fyrir hönd tollstjóra, en slíkt hafi verið ólögmætt samkvæmt vanhæfisreglum stjórnsýsluréttar og réttarfars og meginreglum um aðskilnað dóms- og framkvæmdarvalds. Í þriðja lagi hafi færslum sýslumanns í gerðabók verið áfátt. Að síðustu hafi tollstjórinn í Reykjavík ekki verið aðili að nauðungarsölumálinu, þar sem hans sé ekki getið í gerðabók við fyrirtöku málsins hjá sýslumanni 14. október 1998, en hans hafi þrátt fyrir þetta verið getið sem gerðarbeiðanda í auglýsingu um nauðungarsöluna. Því eigi að ógilda nauðungarsöluna í heild sinni.

II.

Samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 skulu með tilkynningu til héraðsdómara, þar sem krafist er úrlausnar um gildi nauðungarsölu, að jafnaði fylgja staðfest eftirrit gagna, sem lögð hafa verið fram við nauðungarsöluna, og endurrit úr gerðabók sýslumanns. Hafi þessi gögn ekki verið til reiðu í tæka tíð skulu þau send héraðsdómara svo fljótt sem verða má eftir að tilkynning berst honum.

Sóknaraðili krafðist 2. desember 1998 að héraðsdómur ógilti framangreinda nauðungarsölu. Með kröfu um ógildingu fylgdi ljósrit úr Lögbirtingablaði, ljósrit úr gerðabók sýslumanns og tilkynning hans um nauðungarsölu. Samkvæmt framangreindu skorti mjög á að málatilbúnaður sóknaraðila fullnægði fyrrnefndu skilyrði 2. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991, svo sem að kröfu sóknaraðila fylgdu endurrit nauðungarsölubeiðna og tilkynninga til sóknaraðila um fyrirtöku hennar. Bar héraðsdómara því að vísa málinu þegar frá dómi án þess að kveðja aðila til eða taka málið að öðru leyti fyrir á dómþingi, sbr. 82. gr. laganna. Átti þetta því frekar við ,að málsástæður sóknaraðila lutu að atriðum, sem ekki varð gengið úr skugga um án þess að þau gögn varðandi nauðungarsölu lægju fyrir.

Sóknaraðili hefur ekki bætt úr framangreindum annmörkum á málatilbúnaði sínum í héraði eða fyrir Hæstarétti. Verður máli þessu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Samkvæmt þessum úrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðilanum tollstjóranum í Reykjavík kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Samkvæmt þeim takmörkuðu gögnum, sem lágu fyrir héraðsdómara í upphafi máls þessa 2. desember 1998, virðist kaupandi Vesturvarar 11b hafa átt að taka við umráðum fasteignarinnar 18. desember sama árs. Þá liggur fyrir í gögnum málsins bréf sóknaraðila til héraðsdómara 15. sama mánaðar, þar sem þess var krafist að umráðatöku kaupanda yrði frestað. Þrátt fyrir þetta tók héraðsdómari málið ekki fyrir fyrr en í þinghaldi 12. janúar 1999. Héraðsdómari tók aldrei afstöðu til kröfu sóknaraðila um að fresta umráðatöku. Var þessi meðferð héraðsdómara á kröfunni til þess fallin að valda sóknaraðila réttarspjöllum. Ber að átelja þetta.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Sóknaraðili, Ís-Mat ehf., greiði varnaraðilanum tollstjóranum í Reykjavík 40.000 krónur í kærumálskostnað.