Hæstiréttur íslands

Mál nr. 4/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Þriðjudaginn 17. janúar 2012.

Nr. 4/2012.

Frjálsi fjárfestingarbankinn hf.

(Kristján Baldursson hdl.)

gegn

Kistuhlíð ehf.

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

Kærumál. Nauðungarsala. Frávísun frá héraðsdómi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu beggja aðila, F hf. og K ehf., um að fá að ljúka máli um nauðungarsölu á fasteigninni að Kistumel 18 í Reykjavík með dómsátt. Málsatvik voru þau að við uppboð á áðurgreindi fasteign, að beiðni F hf. sem leitað hafði eftir nauðungarsölu á fasteignum K ehf., ákvað sýslumaður að stöðva gerðina, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. F hf. og K ehf. felldu sig ekki við þá ákvörðun og með bréfi 3. október 2011 til héraðsdóms leitaði F hf. úrlausnar um hana. Hæstiréttur vísaði málinu frá héraðsdómi án kröfu þar sem málið hefði ekki verið réttilega lagt fyrir héraðsdóm með bréfi F hf. 3. október 2011, heldur hefði borið að lýsa þeirri fyrirætlan, að leita úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns, við fyrirtöku nauðungarsölunnar, sbr. 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 21. desember 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 2012. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2011, þar sem hafnað var kröfu beggja aðila um að fá að ljúka máli um nauðungarsölu á fasteigninni að Kistumel 18 í Reykjavík með dómsátt. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að „ljúka málinu með áritun framlagðrar dómsáttar.“

Varnaraðili gerir sömu kröfu og sóknaraðili, en krefst að auki málskostnaðar.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði leitaði sóknaraðili nauðungarsölu á fasteignum varnaraðila að Kistumel 14, 16 og 18 með beiðnum til sýslumannsins í Reykjavík 18. janúar 2011, en heimild til nauðungarsölunnar reisti sóknaraðili á skuldabréfi útgefnu af varnaraðila 22. febrúar 2010, sem var upphaflega að fjárhæð 63.898.465 krónur og tryggt með 1. veðrétti í fasteignunum. Ákveðið mun hafa verið að fasteignunum yrði komið í verð á uppboði. Við framhald uppboðs 14. september 2011 lá fyrir að krafa sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu væri alls að fjárhæð 79.732.370 krónur. Við uppboð á fasteigninni að Kistumel 14 varð sóknaraðili hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 40.000.000 krónur og varð hann jafnframt hæstbjóðandi við uppboð á Kistumel 16 með því að bjóða 70.000.000 krónur í þá fasteign. Þegar nauðungarsala á Kistumel 18 var tekin fyrir í kjölfarið ákvað sýslumaður að stöðva gerðina á grundvelli 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/1991, enda næmi söluverð hinna fasteignanna tveggja hærri fjárhæð en kröfu sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu frá 22. febrúar 2010 og væri hann eini gerðarbeiðandinn. Hvorugur málsaðila felldi sig við þá ákvörðun og leitaði sóknaraðili úrlausnar um hana með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2011. Mál þetta var þingfest af því tilefni 4. nóvember 2011, en í þinghaldi 18. sama mánaðar óskuðu aðilarnir eftir því að ljúka málinu með dómsátt, þar sem því var lýst að þeir væru sammála um að uppboði á fasteigninni að Kistumel 18 yrði fram haldið. Með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómur kröfu beggja aðila um að málinu yrði lokið á þennan hátt.

Sóknaraðila var heimilt sem gerðarbeiðanda við nauðungarsölu á fasteigninni að Kistumel 18 að leita úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns um að stöðva gerðina, sbr. 3. og 6. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991, en með mál, sem kemur til á þennan hátt, verður farið samkvæmt ákvæðum XIII. kafla sömu laga. Eftir upphafsorðum 2. mgr. 73. gr. laganna ber þeim, sem vill leita úrlausnar héraðsdóms samkvæmt þessari heimild og staddur er við fyrirtöku nauðungarsölu, þar sem ákvörðun sýslumanns kemur fram, að lýsa því yfir þegar í stað við þá fyrirtöku. Fyrir liggur í málinu að mætt var af hálfu beggja aðila við framhald uppboðs á Kistumel 18, þar sem sýslumaður tók ákvörðun um að stöðva nauðungarsöluna. Báðir aðilar mótmæltu þar ákvörðuninni og kröfðust þess að uppboðið færi fram, en samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumanns lýsti hvorugur því yfir að leitað væri úrlausnar héraðsdóms um ákvörðunina. Málið var því ekki réttilega lagt fyrir héraðsdóm með áðurnefndu bréfi sóknaraðila 3. október 2011. Ber því að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Það athugast að mál þetta hefur verið lagt fyrir dómstóla að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2011.

Þetta mál, sem barst dóminum 4. október sl., var tekið til úrskurðar 18. nóvem­ber 2011, um þá kröfu málsaðila að fá að leggja fram sátt í málinu. Það er höfðað af Frjálsa fjárfestingabankanum hf., kt. 691282-0829, Lágmúla 6, Reykjavík.

 Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu telst sá sem er gerðar­þoli nauðungarsölugerðar varnaraðili dómsmáls sem höfðað er vegna ágreinings sem rís við gerðina. Af þeim sökum er eigandi þeirrar fasteignar sem sóknaraðili krafðist nauðungarsölu á, Kistufell ehf., varnaraðili þessa máls.

 Sýslumaðurinn í Reykjavík nýtti sér heimild, sem honum er veitt í 6. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991, til að senda héraðsdómara athugasemdir sínar varðandi álitaefni þessa máls með bréfi, dags. 9. nóvember 2011.

Málsatvik

Með beiðni um nauðungarsölu, 18. janúar 2011, krafðist Frjálsi fjár­fest­inga­bank­­inn hf. þess að eignirnar að Kistumel 14, 16 og 18, Reykjavík, yrði seldar nauð­ung­ar­sölu. Uppboðsheimild sóknaraðila var veðskuldabréf að nafnverði 63.898.465 kr., útgefið 22. febrúar 2010, áhvílandi á 1. veðrétti í hverri fasteign um sig. Sóknar­aðili krafðist nauðungarsölu á þessum fasteignum til lúkningar á skuld við hann samkvæmt skuldabréfinu með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991.

Við byrjun uppboðs kom hæsta boð í hverja eign um sig frá sóknaraðila, 150.000 kr. Hinn 14. september hélt sýslumaðurinn í Reykjavík áfram uppboði á nánar tilgreindum eignarhlutum í fasteignunum að Kistumel 14, 16 og 18 á grundvelli upp­­boðs­beiðna Frjálsa fjárfestingabankans.

Við framhald uppboðsins lagði sóknaraðili fram kröfulýsingar þar sem kemur fram að krafa hans í söluandvirði fasteignanna samkvæmt framangreindu skulda­bréfi nemi samtals 79.732.370 krónum á söludegi. Sóknaraðili lýsti kröfu að fjár­hæð 15.000.000 króna í Kistumel 14, 30.000.000 króna í Kistumel 16 og 34.732.370 krónur í Kistumel 18, eða samtals 79.732.370 krónur. Aðrir lýstu ekki kröfum í sölu­and­virði fasteignanna.

 Sóknaraðili var hæstbjóðandi við framhald uppboðs á Kistumel 14 og 16 en hann bauð 40.000.000 í Kistumel 14 og 70.000.000 í Kistumel 16. Þar sem samanlagt sölu­and­virði eignanna, 110.000.000 kr., nægði til þess að hann fengi fullnustu kröfu sinnar að fjárhæð 79.732.370 kr., sem hvíldi á Kistumel 14, 16 og 18, ákvað sýslu­maður að stöðva uppboðið með vísan til 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/1991.

 Lögmaður sóknaraðila mótmælti ákvörðun sýslumanns og mótmælti því jafn­framt að trygging fyrir boðum í Kistumel 14 og 16 skyldi ekki lögð fram á staðnum eins og krafist var. Taldi hann nauðungarsöluna komna í þessa stöðu af því að sá sem bauð gegn honum og keyrði þannig verðið upp hefði ekki þurft að leggja fram trygg­ingu á staðnum fyrir boðum sínum í eignirnar að Kistumel 14 og 16.

 Lögmaður varnaraðila, Kistuhlíðar ehf., krafðist þess einnig að uppboð færi fram á eigninni að Kistumel 18.

 Sýslumaður ákvað að taka mótmælin ekki til greina og vísaði til 3. mgr. 30. gr. og 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 4. gr. laga nr. 60/2010.

 Sóknaraðili sætti sig ekki við þessa ákvörðun sýslumanns og skaut henni til úrlausnar héraðsdóms með vísan til XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

 Krafa sóknaraðila var þingfest 4. nóvember og var þá ákveðið að fá athuga­semdir sýslumanns samkvæmt 6. mgr. 73. gr. laga um nauðungarsölu áður en sóknar­aðili legði fram greinargerð sína til sóknar samkvæmt 4. mgr. 75. gr. laganna.

 Á dómþingi 18. nóvember, þegar athugasemdir sýslumanns voru lagðar fram, kröfðust málsaðilar þess að fá að leggja fram sátt þar sem þeir væru sammála um það að nauðungarsalan skyldi halda áfram.

 Dómari hafnaði því að málsaðilar gætu gert sátt í málinu. Þeir kröfðust þess þá að dómari kvæði upp úrskurð samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Lögmenn vísuðu til þess að máls­aðilar hefðu forræði á sakarefninu, enda sýslumaðurinn í Reykjavík ekki aðili að mál­inu, og því teldu þeir ekki nein rök standa til annars en að þeir gætu náð sátt um það að nauðungarsölunni skyldi fram haldið.

Athugasemdir sýslumanns

 Í athugasemdum sínum til héraðsdóms vísaði sýslumaður til þess að samanlagt sölu­andvirði Kistumels 14 og 16, 110.000.000 króna, nægði til þess að gerðar­beið­andi gæti fengið fullnustu kröfu sinnar að fjárhæð 79.732.370 krónur. Af þeim sökum hafi sýslumaður ákveðið að stöðva uppboðið á Kistumel 18 með vísan til 3. mgr. 30. gr. og 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 4. gr. laga nr. 60/2010.

 Í 3. mgr. 30. laganna komi fram að eigi að bjóða upp fleiri en eina eign og boða sé leitað í hverja eign fyrir sig þá verði aðeins ráðstafað þeim fjölda eigna sem þurfi til að veita gerðarbeiðendum fullnustu. Í þessu tilviki hafi ekki verið þörf á að bjóða upp fasteignina að Kistumel 18 þar sem söluandvirði fasteignanna að Kistumel 14 og 16 hafi nægt til að gerðarbeiðandi fengi kröfu sína greidda að fullu.

 Jafnvel þótt úthlutun söluandvirðis fasteignanna að Kistumel 14 og 16 yrði eins og gerðarbeiðandi óskaði eftir, það er einungis 15.000.000 króna vegna Kistu­mels 14 og 30.000.000 króna vegna Kistumels 16, þá þurfi að gæta að ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991, sbr. 4. gr. laga nr. 60/2010, sem hljóði svo:

Nú hefur sá sem notið hefur réttinda yfir eigninni ekki fengið þeim fullnægt með öllu af söluverðinu og getur hann þá aðeins krafið gerðarþola eða annan um greiðslu þess sem eftir stendur af skuldbindingunni að því leyti sem hann sýnir fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfunnar.

 Með vísan til þessa var það mat sýslumanns að ekki væru skilyrði til að halda uppboði áfram á Kistumel 18 á grundvelli uppboðsbeiðni gerðarbeiðanda þar sem gerð­ar­beiðandi hefði þegar fengið fullnustu kröfu sinnar út úr söluandvirði fast­eign­anna að Kistumel 14 og 16.

Niðurstaða

 Við framhald nauðungarsölu á þremur fasteignum ákvað sýslu­maður að stöðva uppboð á þriðju fasteigninni með vísan til 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/1991. Bæði gerð­ar­beiðandi og gerðarþoli kröfðust þess að uppboðið héldi áfram á þeirri eign gerðar­þola sem var óseld. Sýslu­maður hafnaði kröfu þeirra og lýsti sóknaraðili því þá yfir að hann myndi vísa ágrein­ing­num til héraðsdóms.

 Sóknaraðili og varnaraðili í þessu dómsmáli, sem eru gerðarbeiðandi og gerð­ar­þoli við nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Reykjavík, krefjast þess að fá að leggja fram í ágreiningsmálinu sátt þar sem lagt er fyrir sýslumann að halda áfram með nauð­ungar­sölu á þriðju eign gerðarþola. Þar sem dómari hafnaði því að þeir gætu lagt slíka sátt fram í ágreinings­málinu kröfðust þeir úrskurðar samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991.

 Með 1. gr. laga nr. 92/1989 um framkvæmdarvald ríkisins í héraði er lögfest að sýslumenn fari, hver í sínu umdæmi, með stjórnsýslu ríkisins, eftir því sem lög og reglu­­gerðir mæla fyrir um. Verk þeirra við nauð­ung­arsölu eru því stjórnsýsluverkefni sem byggjast á heimildum í lögum um nauðungarsölu og þeir taka ákvarðanir í skjóli þess stjórnsýsluvalds sem þau lög veita þeim.

 Hafi stjórnvöld, svo sem sýslumenn eða starfsmenn þeirra, ekki heimild í lögum til að taka tiltekna ákvörðun geta málsaðilar ekki gert með sér samning sem leggur skyldu á stjórnvaldið, til dæmis samið um að það skuli taka ákvörðunina.

 Sýslumaður ákvað að stöðva sölu eignar á nauðungaruppboði þar sem hann taldi lög ekki heimila honum að halda sölunni áfram vegna þess að gerðarbeiðandi hafði fengið fullnustu kröfu sinnar við nauðungarsölu á öðrum eignum gerðarþola. Þegar svo stendur á er það ekki á forræði gerðar­beið­anda og gerðarþola að ákveða með samn­ingi sín í milli að sýslumaður skuli selja nauðungarsölu þá eign gerðarþola sem er óseld.

 Að mati dómsins er því uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, að ómögulegt sé að fá efnda sátt þess efnis sem málsaðilar vilja leggja fram. Því verður að hafna kröfu þeirra.

 Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

 Hafnað er þeirri kröfu sóknaraðila, Frjálsa fjárfestingabankans, og varnaraðila, Kistumels ehf., að fá að leggja fram dómsátt þar sem þeir krefjast þess að nauð­ungar­sölu á fasteigninni að Kistumel 18, Reykjavík, verði fram haldið.