Hæstiréttur íslands

Mál nr. 9/2005


Lykilorð

  • Bifreið
  • Ölvunarakstur
  • Svipting ökuréttar
  • Dómvenja


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. apríl 2005.

Nr. 9/2005.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Guðmundi Óla Pálmasyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Bifreiðir. Ölvunarakstur. Svipting ökuréttar. Dómvenja.

G var ákærður fyrir ölvunarakstur, en vínandamagn í blóðsýni, sem var tekið úr honum, reyndist vera 1,64‰. G, sem ekki hafði áður sætt refsingu, gekkst við sakargiftum. Var honum gert að greiða 130.000 króna sekt og sviptur ökurétti í 12 mánuði. Í málinu reyndi meðal annars á hvort breytingar sem gerðar voru á 102. gr. umferðarlaga með 8. gr. laga nr. 84/2004 röskuðu dómvenju um tímalengd ökuréttarsviptingar. Vísað var til þess að breytingarnar hafi ekki falið sér nein fyrirmæli um að svipting ökuréttar samkvæmt 2. mgr. 102. gr. skyldi fara stighækkandi á bilinu frá einu ári til tveggja í samsvörun við hækkun á magni vínanda í blóði stjórnanda ökutækis á bilinu frá 1,2‰ til 2‰. Ekkert yrði heldur ráðið af lögskýringargögnum um að vakað hafi fyrir löggjafanum að nýtt ákvæði í 3. mgr. 102. gr. myndi stuðla að slíkri hliðrun á rótgróinni dómvenju, enda hefði og verið í lófa lagið að kveða beinlínis á um þá breytingu í lögum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2004 að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sviptur ökurétti í lengri tíma en ákveðinn var í hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

I.

Samkvæmt gögnum málsins veittu lögreglumenn akstri ákærða athygli að morgni laugardagsins 21. ágúst 2004, þar sem hann ók eftir Austurbergi í Reykjavík. Var honum veitt eftirför eftir nánar tilteknum götum þar í grennd og kveikti loks lögreglan neyðarljós á bifreið sinni. Stöðvaði ákærði bifreiðina á stæði við Torfufell og hljóp frá henni. Hann var handtekinn nokkru síðar og féll á hann grunur um ölvunarakstur. Tekið var sýni af blóði úr honum og reyndist vínandi í því vera 1,64‰. Lögreglustjórinn í Reykjavík gaf út ákæru á hendur ákærða 13. september 2004, þar sem hann var borinn sökum um að hafa með þessari háttsemi brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997. Þess var krafist að ákærða yrði gerð refsing, svo og að hann yrði sviptur ökurétti samkvæmt 102. gr. umferðarlaga eins og ákvæðinu hafði verið breytt með 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004.

Mál þetta var þingfest fyrir héraðsdómi 29. september 2004. Ákærði, sem ekki hafði áður sætt refsingu, sótti þing og gekkst við sakargiftum. Af hálfu ákæruvaldsins var honum boðið að ljúka málinu með því að greiða sekt að fjárhæð 130.000 krónur, sem nánar tiltekin vararefsing lægi við, sæta sviptingu ökuréttar í 18 mánuði og greiða sakarkostnað. Færði héraðsdómari þá til bókar að hann teldi sviptingu ökuréttar, sem hér um ræðir, ekki vera í samræmi við áralanga dómvenju. Eftir að málið hafði verið reifað af ákæranda og báðir aðilar lagt það í dóm var hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp, en með honum var ákærða gert að viðlagðri vararefsingu að greiða sekt með þeirri fjárhæð, sem áður var getið, ásamt sakarkostnaði, auk þess sem hann var sviptur ökurétti í 12 mánuði. Með áfrýjun dómsins leitar ríkissaksóknari eftir því að ákærði verði sviptur ökurétti í lengri tíma en hér um ræðir, en að öðru leyti er af hálfu ákæruvaldsins unað við niðurstöðu héraðsdóms.

II.

Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 23/1998, skal stjórnandi ökutækis, sem brýtur gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, sviptur ökurétti ekki skemur en eitt ár, enda hafi vínandi í blóði ekki farið fram úr 2‰ eða brot verið ítrekað. Í málinu er ekki ágreiningur um að löng dómvenja sé fyrir því að svipta mann fyrir brot sem þetta ökurétti þann lágmarkstíma, sem hér um ræðir, ef ekki hafa um leið verið brotin önnur ákvæði laga eða aðstæður að öðru leyti verið sérstaklega alvarlegar. Af hálfu ákæruvaldsins er því á hinn bóginn borið við að efni séu til að hverfa frá þessari dómvenju með því að beita í ríkari mæli heimildum umferðarlaga til sviptingar ökuréttar og hafa þannig áhrif á hegðan ökumanna til að draga úr hættu á slysum. Samkvæmt viðurlagakerfi umferðarlaga og reglugerðar nr. 575/2001 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, skuli tími ökuréttarsviptingar lengjast með hliðsjón af því magni vínanda, sem mælist í blóði ökumanns. Hafi verið skerpt á þessu með þeim breytingum, sem gerðar voru á 102. gr. umferðarlaga með 8. gr. laga nr. 84/2004.

Með dómi Hæstaréttar 30. maí 2002 í máli nr. 138/2002 var hafnað kröfu ákæruvaldsins, sem reist var á því að hverfa ætti á grundvelli nánar tiltekinna röksemda frá framangreindri dómvenju um tímalengd ökuréttarsviptingar. Að því leyti, sem samsvarandi rökum er nú teflt fram, verður ekki á þau fallist af þeim ástæðum, sem fram komu í þeim dómi. Frá því að sá dómur gekk var með áðurnefndri 8. gr. laga nr. 84/2004 bætt nýrri málsgrein, sem varð 3. mgr., í 102. gr. umferðarlaga eins og hún hljóðaði þá með áorðnum breytingum. Er mælt svo fyrir í þessu nýja ákvæði að stjórnandi ökutækis skuli sviptur ökurétti ekki skemur en tvö ár ef hann hefur brotið gegn 45. gr. umferðarlaga og vínandi í blóði verið yfir 2‰ og vínandamagn í lofti farið yfir 1,0 milligramm í lítra lofts. Í þessu felast engin fyrirmæli um að svipting ökuréttar samkvæmt 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga skuli fara stighækkandi á bilinu frá einu ári til tveggja í samsvörun við hækkun á magni vínanda í blóði stjórnanda ökutækis á bilinu frá 1,2‰ til 2‰. Verður heldur ekkert ráðið af lögskýringargögnum um að vakað hafi fyrir löggjafanum að nýja ákvæðið í 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga myndi stuðla að slíkri hliðrun á rótgróinni dómvenju, enda hefði og verið í lófa lagið að kveða beinlínis á um þá breytingu í lögum. Með því að ákærða er ekki gefið að sök að hafa brotið gegn öðrum ákvæðum laga en 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga með akstri sínum í umrætt sinn og aðstæður verða ekki að öðru leyti taldar hafa verið sérstaklega alvarlegar er svipting á ökurétti hans að þessu virtu hæfilega ákveðin samkvæmt dómvenju í hinum áfrýjaða dómi. Verður niðurstaða hans því staðfest.

Eftir þessum úrslitum málsins verður allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2004.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 13. september 2004 á hendur: ,,Guðmundi Óla Pálmasyni, [...], fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni VN-988, að morgni laugardagsins 21. ágúst 2004, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,64‰) frá Stekshólum í Reykjavík, uns akstri lauk við Torfufell 11 og ekki orðið við tilmælum lögreglu um að gefa öndunarsýni við rannsókn vegna gruns um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis.

Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 3. mgr. 47. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004.”

Ákærandinn bauð ákærða að ljúka máli þessu með viðurlagaákvörðun með greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar í 18 mánuði. Dómarinn taldi sviptingartíma ökuréttar ekki í samræmi við áralanga dómvenju er á stendur eins og í máli þessu og ríkjandi viðhorf við túlkun umferðarlaga. Af þessum sökum verður að ljúka máli þessu með dómi í stað viðurlagaákvörðunar.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákærunni greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

Ákærði hefur ekki áður hlotið refsingu. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð 130.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru skal ákærði frá sama tíma sviptur ökurétti í 12 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.

Sturla Þórðarson yfirlögfræðingur flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Guðmundur Óli Pálmason, greiði 130.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði skal frá sama tíma sviptur ökurétti í 12 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað.