Hæstiréttur íslands

Mál nr. 484/2004


Lykilorð

  • Sératkvæði
  • Þjófnaður
  • Skilorð
  • Skilorðsrof
  • Sakarkostnaður


Miðvikudaginn 20

 

Miðvikudaginn 20. apríl 2005.

Nr. 484/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Ólafi Pétri Péturssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Skilorðsrof. Skilorð. Sakarkostnaður. Sératkvæði.

Ó var sakfelldur fyrir tvö þjófnaðarbrot. Með vísan til sakaferils Ó, þeirra brota sem hann var sakfelldur fyrir og þess að hann var að rjúfa skilorð í þriðja sinn var honum gert að sæta fangelsi í 22 mánuði. Í ljósi þess að Ó sýndist nú vera að takast á við áfengis- og vímuefnavandamál sín af fullri festu þótti rétt að fresta fullnustu 19 mánaða af refsingu hans. Þá var sakarkostnaður lækkaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann fjórum sinnum gengist undir sáttir fyrir umferðarlagabrot, tvívegis árin 1995 og 2000. Í september 1999 var ákæru frestað skilorðsbundið á hendur honum fyrir skjalafals og síðar sama ár var hann dæmdur til greiðslu sektar og ökuréttarsviptingar fyrir umferðarlagabrot. Hinn 26. júní 2000 hlaut hann þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir gripdeild, þjófnað, þjófnaðartilraun, eignaspjöll og hilmingu. Með dómi 13. október sama ár var sú refsing dæmd upp og honum gerð 12 mánaða fangelsisrefsing, fyrir innbrotsþjófnað í sumarhúsi, fjársvik og hlutdeild í fjársvikum og skjalafalsi. Refsingin var skilorðsbundin í  þrjú ár, meðal annars með vísan til þess að um var að ræða hegningarauka og þess að ákærði hafði þá gengist undir vímuefnameðferð. Þann 3. nóvember 2000 var ákærði dæmdur í 16 mánaða fangelsi fyrir innbrotsþjófnað í veitingahúsi og nytjastuld. Voru brotin framin fyrir uppsögu dómanna frá 26. júní og 13. október og honum dæmd refsing í einu lagi fyrir þau og brot samkvæmt síðarnefndum dómi. Var refsingin skilorðsbundin með vísan til sömu sjómarmiða og fram komu í þeim dómi. Ákærði rauf skilorð dómsins með þjófnaði 30. janúar 2002, sem hann var dæmdur fyrir 15. apríl sama ár, en þar sem brotið var smávægilegt var refsingin skilorðsbundin í þrjú ár. Hann var síðast dæmdur 9. september 2003 í fangelsi í 18 mánuði fyrir tvö smávægileg þjófnaðarbrot sem hann framdi 4. desember 2001 og 27. nóvember 2002. Rauf hann skilorð dómsins frá 15. apríl 2002 með síðara brotinu. Refsingin var enn á ný skilorðsbundin að teknu tilliti til andlags þjófnaðarbrotanna og þess að ákærði hafði farið í vímuefnameðferð, náð þar góðum árangri og meðferð væri ólokið.

Brot ákærða sem fjallað er um í þessu máli eru ekki stórvægileg. Hann hefur hins vegar með þeim rofið í þriðja sinn skilorð, sem honum hefur verið sett. Að því virtu og sakaferli hans og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um refsingu ákærða staðfest. Ákærði lagði fyrir Hæstarétt vottorð læknis á Sjúkrahúsinu Vogi þar sem fram kemur að hann hafi verið í meðferð á vegum SÁÁ vegna áfengis- og vímuefnafíknar rétt um 10 mánaða skeið. Auk þess sé hann í „viðhaldsmeðferð“ frá Vogi og mæti þar vikulega og að auki í læknaviðtöl á 4-6 vikna fresti. Sú meðferð sé áfram fyrirhuguð. Hafi hann staðið sig vel í meðferðinni. Þá lagði ákærði fyrir Hæstarétt vottorð forstöðumanns áfangaheimilis SÁÁ þess efnis að hann hafi verið þar til heimilis frá 28. maí 2004 og verði það áfram um óákveðinn tíma. Í ljósi þess að ákærði sýnist nú samkvæmt framansögðu takast á við áfengis- og vímuefnavandamál sín af fullri festu þykir, þrátt fyrir skilorðsrof hans, rétt að fresta fullnustu 19 mánaða af refsingu hans og falli hún niður að liðnum þremur mánuðum frá uppsögu þessa dóms haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Samkvæmt heildarreikningi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir sakarkostnað málsins í héraði nemur hann samtals 296.960 krónum, þar af 240.935 krónur vegna sakarkostnaðar „skv. yfirliti rannsóknara“ og 56.025 krónur vegna dæmdra málsvarnarlauna með virðisaukaskatti. Meðal gagna málsins er yfirlit lögreglustjórans í Reykjavík um sakarkostnað að fjárhæð 240.935 krónur vegna lögreglurannsóknar þess máls, sem fjallað er um í 2. lið ákæru, en sá kostnaður varðar rannsókn vegna ætlaðs brots þess manns, sem þar er sagður hafa verið með ákærða í innbrotinu. Samkvæmt þessu verður ákærði einvörðungu dæmdur til að greiða þann þátt sakarkostnaðar í héraði sem varðar málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

          Ákærði, Ólafur Pétur Pétursson, sæti fangelsi í 22 mánuði. Fullnustu 19 mánaða af þeirri refsingu skal frestað og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

          Ákærði greiði 56.025 krónur í sakarkostnað í héraði og allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

 

Sératkvæði

Ingibjargar Benediktsdóttur

Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta dómenda um refsingu ákærða að öðru leyti en því að hana skuli skilorðsbinda. Ákærði hefur nú með brotum sínum sem fjallað er um í málinu rofið skilorð í þriðja sinn. Við ákvörðun skilorðsbindingar refsingar hans hefur fjórum sinnum áður verið vísað til þess að hann hafi gengist undir meðferð vegna áfengis- og vímuefnanotkunar og sé að vinna bug á þeim vanda, fyrst í dómi frá 13. október 2000, þá 3. nóvember sama ár, næst 15. apríl 2002 og loks 9. september 2003. Fallist er á að brot ákærða sem fjallað er um í málinu séu ekki stórvægileg, en til þess er þó að líta að með öðru þeirra braust hann inn í tvær geymslur í íbúðarhúsi í félagi við annan mann og stal þar þó nokkrum verðmætum. Þegar litið er til þessa brots ákærða, sakaferils hans og endurtekinna skilorðsrofa þykir mér ekki koma til álita að skilorðsbinda refsingu hans, sem nú nemur 22 mánaða fangelsi, að hluta eða öllu leyti. Ég tel því að staðfesta eigi hinn áfrýjaða dóm um refsingu ákærða, og er sammála meiri hluta dómenda um sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2004.

Mál þetta var höfðað með ákærum lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettum 17. ágúst sl. og 12. október sl., á hendur  Ólafi Pétri Péturssyni, kt. [...], Geitlandi 8, Reykjavík.

Ákæra dags. 17. ágúst 2004:

 „Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 31. mars 2004 í húsnæði Mæðrastyrksnefndar að Sólvallagötu 48 í Reykjavík, stolið seðlaveski að óvissu verðmæti.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1040.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Ákæra dags. 12. október 2004:

 „Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 2. apríl 2004 í félagi við A, brotist inn í 2 geymslur að Hraunbæ [...] í Reykjavík með því að spenna upp hurðir og stolið töskum, tölvu, tölvuskjá, örbylgjuofni, samlokugrilli, brauðrist, 2 ljósmyndum í römmum og myndbandsspólum, samtals að verðmæti um kr. 54.500.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1040.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Verjandi ákærða krafðist vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

Ákærði hefur játað brot sín fyrir dóminum. Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín, en þau eru í ákæru réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Refsiákvörðun.

Ákærði er fæddur í mars 1978. Hann á að baki nokkurn sakarferil. Hann hlaut tvær sáttir á árinu 1995 fyrir umferðarlagabrot og ákærufrestun á árinu 1999 vegna auðgunarbrots. Þá hlaut hann dóm á árinu 1999 fyrir umferðarlagabrot. Á árinu 2000 hlaut hann tvær sáttir vegna umferðarlagabrota. Þá hlaut hann þrjá refsidóma það árið fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar, tilraun til fjársvika, gripdeild, eignaspjöll og hilmingu. Voru tveir síðari dómarnir báðir hegningaraukar og í báðum tilvikum voru tveir fyrri dómarnir dæmdir upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir öll brotin. Ákærði hlaut refsidóm 15. apríl árið 2002 fyrir þjófnað og var þá refsing ákveðin 17 mánaða fangelsi. Um skilorðsrof var að ræða, en að teknu tilliti til smávægilegs andlags þjófnaðarins og persónulegara aðstæðna var refsing hans skilorðsbundin.

Ákærði hlaut síðast 18 mánaða fangelsisdóm, 9. september 2003, fyrir þjófnað samkvæmt tveimur ákærum. Refsing var þá ákveðin sem hegningarauki vegna annarrar ákærunnar, en með broti því sem sakfellt var fyrir í hinni ákærunni rauf ákærði skilorð dómsins frá 15. apríl 2002. Dómurinn var því dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi og var hún skilorðsbundin í 3 ár.

Við ákvörðun refsingar verður litið til greiðlegrar játningar ákærða og þess að fyrirliggjandi gögn frá Sjúkrahúsinu Vogi sýna að hann hefur reynt að vinna bug á vímuefnavanda sínum. Til refsiþyngingar horfir hins vegar að ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir tvö þjófnaðarbrot, annað framið með því að brjótast inn í geymslur er tilheyrðu íbúðarhúsnæði og framdi ákærði það brot í félagi við annan mann. Horfir þetta til refsiþyngingar. Þá hefur ákærði margítrekað verið dæmdur fyrir auðgunarbrot.

Með brotum þeim sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 9. september 2003. Ber að dæma skilorðsdóminn upp og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 22 mánuði.

Þegar litið er til þess að ákærði hefur ítrekað hlotið skilorðsdóma og ítrekað rofið skilorð þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu að neinu leyti.

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Ólafur Pétur Pétursson sæti fangelsi í 22 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda hans, Arnar Clausen, hæstaréttarlögmanns, 45.000 krónur.