Hæstiréttur íslands
Mál nr. 426/2014
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 18.
desember 2014. |
|
Nr. 426/2014. |
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) |
Ölvunarakstur. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
X
var gefið að sök að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Hún játaði fyrir
dómi að hafa gangsett bifreiðina, en hélt því fram að það hefði ekki verið í
þeim tilgangi að aka bifreiðinni heldur til að halda á sér hita. Bifreiðin
hefði hins vegar runnið aftur á bak þegar hún gangsetti hana. Samkvæmt
niðurstöðu alkóhólrannsóknar mældist 1,79 í blóði X. Í dómi héraðsdóms var vísað til
framburðar X og lögreglumanna, sem komið hefðu á vettvang, og tekið fram að af
þeim yrði ekki ráðið af hvaða orsök bifreið X hefði færst til. Þar sem ósannað
væri að X hefði haft ásetning til að aka bifreiðinni undir áhrifum áfengis yrði
ekki hjá því komist að sýkna hana af kröfum ákæruvaldsins. Í dómi Hæstaréttar
kom fram að tveir lögreglumenn, sem handtóku X, hefðu borið fyrir dómi að hún
hefði ekið bifreiðinni um einn metra áður en lögregla stöðvaði aksturinn. Sá
framburður fengi ennfremur stoð í framburði tveggja lögreglumanna sem komið
hefðu á vettvang greint sinn. Að virtum framburði X og vætti fyrrnefndra
lögreglumanna var talið að líkur væru á að mat héraðsdómara á sönnunargildi
munnlegs framburðar fyrir dómi væri rangt svo máli skipti þannig að
óhjákvæmilegt væri að ómerkja hinn áfrýjaða dóm með vísan til 3. mgr. 208. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar
og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál
þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún
Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2014. Af hálfu
ákæruvaldsins er þess krafist að ákærða verði sakfelld samkvæmt ákæru og dæmd
til refsingar. Þá er þess krafist að hún verði svipt ökurétti.
Ákærða krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Eins og greinir í héraðsdómi voru tildrög máls þessa þau að lögreglu barst
aðfaranótt 18. maí 2013 tilkynning frá starfsfólki Vínbarsins við Kirkjutorg í
Reykjavík um að ölvuð kona sæti í bifreið fyrir utan veitingastaðinn og gerði
sig líklega til að aka af stað. Sagði í frumskýrslu lögreglu að bifreiðin hafi
verið sett í bakkgír „svo að hvít bakkljós“ loguðu. Síðan hafi henni verið ekið
afturábak tæpan metra eða þar til hún var stöðvuð skyndilega þegar
lögreglubifreið var komin aftan við hana. Í skýrslunni kom fram að bifreiðin
væri af tegundinni [...].
Ákærða játaði fyrir dómi að hafa gangsett bifreiðina, sem væri sjálfskipt,
en ekki í þeim tilgangi að aka henni, heldur til þess að halda á sér hita. Við
gangsetninguna hafi bifreiðin rykkst til og ákærða skellt henni í „park“. Ákærða var ekki viss um hvort bifreiðin hefði rykkst
til um leið og hún var sett í gang eða hvort það hefði gerst við það að ákærða
rak sig í gírstöngina.
Fyrir dómi báru fjórir lögreglumenn vitni um atvik málsins.
A, sem ritaði fyrrnefnda lögregluskýrslu, kvaðst hafa verið í
lögreglubifreið á vakt í miðbænum þegar tilkynningin barst. Hafi verið ekið
fram hjá Alþingishúsinu og umrædd bifreið þá sést og jafnframt að henni var
„bakkað aðeins út.“ Hafi önnur lögreglubifreið þá verið komin fyrir aftan
bifreiðina og blá ljós kveikt á hinni fyrrnefndu. Við það hafi ökumaðurinn
stöðvað aksturinn. Vitnið kvað bifreiðinni hafa verið ekið um einn metra.
B kvaðst hafa séð áðurnefndri bifreið ekið afturábak og hafi hann séð
bakkljós. Hafi bifreiðinni verið ekið um einn metra. Hann kvaðst ekki hafa
upplifað atvikið á þann hátt að bifreiðin hefði rykkst til. Hafi hann séð
„bremsuljós, bakkljós, bremsuljós aftur þegar að hún stoppar þegar það er ekið
aftan að henni“. Ákærða hafi í upphafi sagt að hún hefði ekki hreyft
bifreiðina. Vitnið hafi þá sagt við hana að það hafi horft á hana bakka og hafi
ákærða þá sagt að hún hefði hugsanlega „rekist í“.
C og D báru á sama veg og kváðust hafa séð bakkljósin á bifreiðinni, sem
ekið hafi verið um einn metra afturábak.
Þegar metinn er í heild framburður ákærðu og vætti lögreglumannanna
fjögurra verður ekki dregin önnur ályktun af framburðinum en að líkur séu á að
mat héraðsdómara á sönnunargildi hans sé rangt svo að máli skipti um
málsúrslit. Að því virtu verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn áfrýjaða
dóm og vísa málinu heim í hérað, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála, til þess að aðalmeðferð geti farið fram á ný og dómur verði
aftur felldur á það.
Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms í málinu.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun
verjanda ákærðu, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í
dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til
aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin
málsvarnarlaun verjanda ákærðu, Erlends Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns,
251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms
Reykjavíkur 9. apríl 2014.
Mál þetta, sem
dómtekið var mánudaginn 7. apríl
2014, er höfðað með ákæru, útgefinni
af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 11. mars 2014,
á hendur X, kt. [
],[
],[
], fyrir
umferðarlagabrot í Reykjavík með
því að hafa,
laugardaginn 18. maí 2013, ekið bifreiðinni [
] undir áhrifum áfengis (í blóði mældist vínandamagn
1,79) á bifreiðastæði við Kirkjutorg í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn.
Telst þetta varða við
1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr.
1. mgr. 100. gr. umferðarlaga
nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að
ákærða verði dæmd til refsingar,
til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu
ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr.
umferðarlaga.
Verjandi krefst þess aðallega
að ákærða verði sýknuð af kröfum ákæruvalds, en til vara að hún
verði dæmd til vægustu refsingar
er lög leyfa.
Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna, sem
greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
Samkvæmt skýrslu lögreglu barst tilkynning frá starfsfólki Vínbarsins við Kirkjutorg aðfaranótt laugardagsins 18. maí 2013, klukkan
2:36, um að ölvuð kona sæti í bifreið
sinni, [
], og gerði sig líklega til að aka af
stað. Kemur fram að er
lögreglumenn á lögreglubifreiðinni
07-275 bar á vettvang hefði
bifreiðin verið í bakkgír og
hafi hvít bakkljós logað. Hafi bifreiðinni því næst verið
ekið tæpan metra aftur á bak,
en akstur hennar skyndilega verið stöðvaður er önnur
lögreglubifreið, nr. 07-140, kom
á vettvang og
stöðvaði aftan við hana. Ákærða
reyndist sitja undir stýri bifreiðarinnar
og kemur
fram að hún
hafi verið mjög ölvuð. Var
hún handtekin og færð
á lögreglustöð þar sem tekið var
úr henni blóðsýni klukkan 3:16. Samkvæmt vottorði Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndist sýnið innihalda 1,79 alkóhóls. Haft er eftir ákærðu í frumskýrslu lögreglu að hún hafi
sest inn í bifreiðina og ætlað
að hringja, en bifreiðin hafi runnið til. Við
skýrslutöku hjá lögreglu 22. maí
2013 kvaðst hún ekki skilja hvernig
það vildi til að bifreiðin
rann aftur á bak, en telja sennilegt
að hún hefði
óvart „rekið hann í gír“. Hún
hefði áttað sig á að bifreiðin hreyfðist
og óðara
rekið bifreiðina „í parkið“.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærða ekki rengja
niðurstöðu rannsóknar á áfengismagni í blóðsýni, sem að framan greinir. Hún kvað það
hins vegar ekki hafa verið
ásetning sinn að aka bifreiðinni umrætt sinn. Ákærða
kvaðst hafa lagt bifreiðinni í bifreiðastæði við Vínbarinn fyrr um kvöldið og
hefði hún neytt áfengis eftir
það. Eftir að hún yfirgaf
staðinn hefði hún reynt að
ná símasambandi við leigubifreiðarstjóra sem hún þekkti, til að
biðja hann um að aka sér heim.
Henni hefði verið kalt og hún því
sest inn í bifreiðina og gangsett hana
til að hita
sér. Þá hefði
bifreiðin skyndilega rykkst aftur á bak. Hún kvaðst
hafa sett bifreiðina í
„park“, en í sömu mund hefði lögreglumenn borið að og hún verið
handtekin. Ákærða kvaðst ekki vera viss um það hvort bifreiðin
hefði rykkst til um leið og
hún gangsetti hana, eða hvort
hún hefði rekist í gírstöngina, en um væri að ræða
sjálfskipta bifreið af [
] gerð. Hún
kvaðst telja stórlega ýkt að
bifreiðin hefði færst til um tæpan
metra, eins og kemur
fram í lögregluskýrslu. Þá kvaðst hún
ekki hafa séð lögreglubifreiðina aftan við bifreið
sína fyrr en eftir að lögreglumenn
höfðu afskipti af henni
í bifreiðinni.
Lögreglumennirnir A og B, sem
komu á vettvang umrætt sinn, kváðust
hafa verið í lögreglubifreið við Alþingishúsið þegar þeir urðu varir
við bifreið ákærðu. A sagðist hafa séð bifreiðinni
ekið um metra aftur á bak uns
hún stöðvaði, en þá hefði önnur
lögreglubifreið stöðvað aftan við hana
og sett ljósin
á. Vitnið kvaðst telja útilokað að bifreiðin hefði
rykkst til. B kvaðst hafa séð
bakkljós á bifreiðinni og hefði
hún færst rúmlega metra aftur
á bak. Hann kvaðst ekki hafa
upplifað þetta þannig að bifreiðin
hefði rykkst til. Þá kvaðst
vitnið minna að hann hefði
séð bremsuljós áður en bifreiðin fór af stað og síðan
aftur þegar hún stöðvaði.
Vitnin C og D voru í lögreglubifreiðinni sem stöðvaði aftan við bifreið ákærðu.
C kvaðst hafa séð að bakkljós
voru kveikt á bifreiðinni og
hefði henni verið ekið um metra
aftur á bak. Hann kvaðst ekki
geta lýst því nákvæmlega hvernig bifreiðin hreyfðist og
ekki muna hvort hún rykktist
til. D kvaðst einnig hafa séð
bifreiðinni ekið um einn metra aftur
á bak. Hann kvaðst hafa séð
bremsuljós og
síðan bakkljós þegar bifreiðinni var ekið af
stað og hefði
verið augljóst að um akstur var
að ræða.
Niðurstaða
Ákærða
kannast við að hafa verið
undir áhrifum áfengis þegar hún
gangsetti bifreið sína, sem
mun vera sjálfskipt af [
] gerð, á bifreiðastæðinu umrætt sinn. Hún
ber hins vegar að ásetningur
hennar hafi ekki staðið til
þess að aka bifreiðinni, heldur hafi hún gangsett
hana til að halda á sér
hita á meðan hún hringdi símtal
til að útvega
sér far heim. Sem að framan er rakið
bar ákærða strax við yfirheyrslu hjá lögreglu að
bifreiðin hefði runnið aftur á bak þegar hún
gangsetti hana og að hún
teldi sennilegt að hún hefði
rekið sig í gírstöngina, með þeim afleiðingum
að hrokkið hefði í bakkgír og bifreiðin færst
til. Við rannsókn málsins fór engin athugun
fram á bifreiðinni með það fyrir
augum að sannreyna hvort frásögn ákærðu að þessu leyti
gæti staðist. Þá verður ekki
ráðið af
framburði lögreglumannanna fjögurra, sem komu
á vettvang, af hvaða orsök bifreiðin
færðist til eftir að hún
var gangsett. Vafa þar um ber
að skýra ákærðu í hag, sbr. 108. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Með vísan til þess
telst ósannað að ákærða hafi
haft ásetning til að aka bifreiðinni undir áhrifum áfengis,
eins og
henni er gefið að sök
í ákæru. Verður hún því sýknuð
af kröfum
ákæruvalds í málinu.
Samkvæmt 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærðu, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl., 188.250 krónur að meðtöldum
virðisaukaskatti.
Af hálfu
ákæruvaldsins flutti málið María Káradóttir,
fulltrúi lögreglustjórans á
höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærða,
X, er sýkn af kröfum
ákæruvaldsins.
Málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærðu, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl., 188.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði.