Hæstiréttur íslands

Mál nr. 262/2007


Lykilorð

  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Dómari
  • Lífeyrisréttindi


         

Fimmtudaginn 24. janúar 2008.

Nr. 262/2007.

Logi Guðbrandsson

(Logi Guðbrandsson hrl.)

gegn

Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Lífeyrisréttindi. Dómarar. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.

 

L gegndi starfi framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala frá 1977 til ársloka 1995 en þá var sjúkrahúsið sameinað Borgarspítalanum og fékk þá nafnið Sjúkrahús Reykjavíkur. Frá þeim tíma starfaði hann sem aðstoðarforstjóri Sjúkrahúss Reykjavíkur en var skipaður héraðsdómari í september 1997. Í janúar 2004 var L veitt lausn frá embætti að eigin ósk. Ágreiningur reis í kjölfarið um lífeyrisrétt hans í B-deild LSR. Óumdeilt var að við ákvörðun lífeyris til hans ætti að fara eftir 6. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997. Aðila greindi hins vegar á um við hvaða starf ætti að miða réttindi hans og krafðist L þess að tekið yrði mið af launakjörum forstjóra Landspítala eins og samningar hefðu kveðið á um. Í dómi Hæstaréttar var þeirri kröfu hafnað enda hefði verið mikill munur á störfum framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala og forstjóra Landspítala. L krafðist einnig viðurkenningar á því að hlutfall lífeyris af viðmiðunarlaunum L „skyldi við það miðað að hann hefði haldið áfram störfum til 70 ára aldurs.“ Reisti hann kröfuna á 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 og því að ekki væri efni til að gera greinarmun á því hvort dómari óskaði sjálfur lausnar eftir að hann næði 65 ára aldri eða ekki. Í ákvæðinu segir að heimilt sé að veita dómara lausn frá embætti án óskar hans ef hann er orðinn 65 ára en að hann skuli þá upp frá því taka eftirlaun svo sem hann hefði gegnt embættinu til 70 ára aldurs nema hann njóti ríkari réttar samkvæmt stjórnskipunarlögum. Ekki var fallist á að þau rök sem lægju að baki reglunni ættu einnig við þegar dómari fengi lausn að eigin ósk. Væri ekki unnt að leiða af jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar að fallast bæri á kröfu L og var LSR því sýknað. Þessari kröfu var einnig beint gegn Í. Talið var að ef fallist yrði á hana leiddi það til óskýrrar réttarstöðu Í. Þótti krafan að þessu leyti ódómhæf og var vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.                                                             

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Stefán Már Stefánsson, Garðar Garðarsson og Viðar Már Matthíasson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. maí 2007. Hann krefst viðurkenningar á því að stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, beri frá og með 1. maí 2004 að greiða lífeyri til áfrýjanda sem miðist við launakjör forstjóra ríkisspítala, „nú Landspítala-háskólasjúkrahúss, sbr. 30. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu,“ í samræmi við ákvæði 6. mgr. 24. gr., sbr. 35. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, að frádregnum þeim lífeyri sem hinn stefndi lífeyrissjóður hefur þegar greitt áfrýjanda frá 1. maí 2004 til uppgjörsdags. Þá gerir áfrýjandi þá kröfu á hendur báðum stefndu að viðurkennt verði „að hlutfall lífeyris af viðmiðunarlaunum áfrýjanda frá stefnda skuli við það miðað að hann hefði haldið áfram störfum til 70 ára aldurs, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998.“ Áfrýjandi krefst ennfremur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, krefst staðfestingar héraðsdóms hvað sig varðar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi, íslenska ríkið, krefst staðfestingar héraðsdóms hvað sig varðar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi var ráðinn framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala, Landakoti, 1. febrúar 1977 og gegndi því starfi til 31. desember 1995. Með samningi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Reykjavíkurborgar og yfirstjórnar St. Jósefsspítala 24. nóvember 1994 var ákveðið að sameina Borgarspítalann og St. Jósefsspítala undir heitinu Sjúkrahús Reykjavíkur. Sameiningin skyldi taka að fullu gildi eigi síðar en 1. janúar 1996. Í bréfi Sjúkrahúss Reykjavíkur til áfrýjanda 10. janúar 1996 kemur fram að stjórn sjúkrahússins hafi ráðið hann til starfa sem aðstoðarforstjóra þess frá 1. janúar 1996. Hann gegndi því starfi til 31. mars sama ár. Áfrýjandi var skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Austurlands 15. september 1997 og tók við því embætti 1. október sama ár. Hann varð dómstjóri við sama dómstól frá 1. júlí 1998 til 1. október 2002 er hann tók við starfi dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Með bréfi 29. janúar 2004 óskaði hann lausnar frá embætti frá og með 1. maí það ár. Með bréfi dómsmálaráðherra 30. janúar 2004 var fallist lausnarbeiðni hans og tekið fram í bréfinu að lausn frá embættinu væri að ósk áfrýjanda sjálfs.

Áfrýjandi heldur því fram að við ráðningu hans í starf framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala þann 1. febrúar 1977 hafi verið gerður samningur við hann þar sem tiltekið hafi verið að fyrir þetta starf skyldi hann fá laun sem tækju mið af launum forstjóra ríkisspítala eins og þau væru á hverjum tíma. Samningur þessi hefur hins vegar ekki fundist og liggur því ekki fyrir í málinu og hefur efni hans verið mótmælt af hálfu stefnda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hins vegar var gerður starfslokasamningur við áfrýjanda 15. mars 1996 er samið var um að hann léti af störfum sem aðstoðarforstjóri Sjúkrahúss Reykjavíkur 31. mars sama ár. Samkvæmt starfslokasamningnum bar við launaákvörðun til áfrýjanda að taka mið af launum forstjóra ríkisspítala. Í samningnum voru laun til hans tiltekin þau sömu og laun forstjóra ríkisspítala en þau höfðu þá nýlega verið ákveðin af kjaranefnd. Í samningnum var enn fremur gert ráð fyrir að áfrýjanda skyldu greidd laun til 30. júní 1998, meðal annars í formi biðlauna og námsleyfis.

II.

Ágreiningslaust er í málinu að lífeyri áfrýjanda skuli, samkvæmt ósk hans, ákveða í samræmi við 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997. Í því felst að miða skuli lífeyri áfrýjanda við hærra launað starf sem hann hefur gegnt í meira en 10 ár, þ.e. starf framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala, sbr. 6. mgr. 24. gr. sömu laga, en ekki við starf héraðsdómara sem hann síðast gegndi.

Ágreiningur um kröfu áfrýjanda á hendur Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins snýst um við hvaða starfslaun eigi að miða þegar reglu 6. mgr. 24. gr., sbr. 1. mgr. 35. gr., laga nr. 1/1997 er beitt við ákvörðun viðmiðunarlauna áfrýjanda vegna starfa hans sem framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala, sem nú er ekki lengur til. Reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn á því, að miða beri lífeyrinn við laun forstjóra ríkisspítala eins og samningur við hann hafi í upphafi verið miðaður við og síðar hlotið staðfestingu í fyrrgreindum starfslokasamningi. Starfsemi Sjúkrahúss Reykjavíkur og ríkisspítala hafi síðar verið sameinuð undir nafninu Landspítali-háskólasjúkrahús  en nefnist nú Landspítali, sbr. lög nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Því beri að taka mið af launum forstjóra Landspítala við ákvörðun lífeyris til handa áfrýjanda. Stefndi Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins telur hins vegar það starf ekki tækt til viðmiðunar þar sem umræddir samningsskilmálar séu ósannaðir auk þess sem það starf sem áfrýjandi miði við sé í verulegum atriðum annars eðlis en starf það sem hann innti af hendi og því ekki tækt til viðmiðunar. Þá er því einnig haldið fram af stefnda Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, að gögn málsins sýni að launagreiðslur til áfrýjanda á meðan hann gegndi starfi framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala hafi verið verulega lægri en launagreiðslur til forstjóra ríkisspítalanna.

Við úrlausn máls þessa ber að hafa í huga ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 1/1997, sem kveður á um að hlutverk sjóðsins sé að tryggja sjóðfélögum lífeyri samkvæmt ákvæðum laganna. Iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóðsins miðast við ákveðið hlutfall af föstum launum viðkomandi sjóðfélaga fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót. Þegar reglu 6. mgr. 24. gr., sbr. 1. mgr.  35. gr., laga nr. 1/1997 er beitt ber því að miða við starf sem er sambærilegt að eðli, umfangi og ábyrgð við starf það sem áfrýjandi gegndi og kaus að hafa til viðmiðunar. Sú niðurstaða er best til þess fallin að þau markmið náist sem lögin keppa að. Í því sambandi hefur ekki úrslitaáhrif við hvaða störf laun áfrýjanda sem framkvæmdastjóra miðuðust við í upphaflegum ráðningarsamningi hans heldur aðeins að það viðmið um störf og laun sem samið var um í þeim samningi sé samanburðarhæft við það viðmið sem áfrýjandi kýs að halda sig við.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um laun áfrýjanda annars vegar og forstjóra ríkisspítala hins vegar á tímabilinu 1981-1995. Í þeim kemur fram að laun forstjóra ríkisspítala hafa verið verulega hærri en laun áfrýjanda mestan hluta þessa tímabils. Enn fremur liggur fyrir í málinu samanburður á umfangi starfsemi St. Jósefsspítala, Borgarspítalans og ríkisspítalanna samkvæmt ársreikningum 1995 annars vegar svo og gagnvart Landspítala-háskólasjúkrahúsi samkvæmt ársskýrslum 2004 á verðlagi hvers árs. Fram kemur þar að starfsemi ríkisspítalanna var rúmlega 7 sinnum umfangsmeiri en St. Jósefsspítala miðað við rekstrartekjur og rekstrargjöld. Sé miðað við  Landspítala-háskólasjúkrahús var þessi munur rúmlega 25 faldur en þó með fyrirvara um verðlag sem áður greinir. Önnur gögn málsins styðja einnig þann mikla mun sem var á starfsemi umræddra sjúkrastofnana. Því verður ekki talið að áfrýjandi hafi leitt nægar líkur að því að starf framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala hafi verið sambærilegt við starf forstjóra ríkisspítala sem hann miðar við.

Af framangreindu leiðir að áfrýjandi hefur ekki fært rök að því að hann eigi að njóta þeirra lífeyrisréttinda sem hann gerir kröfu til. Ekki verður heldur séð að ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar standi fyrrgreindri niðurstöðu í vegi enda er ljóst að áfrýjandi hefur ekki greitt lífeyrisiðgjald af þeim launum sem hann vill miða rétt sinn við. Ber því að hafna fyrsta kröfulið áfrýjanda á hendur stefnda Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

III.

Áfrýjandi hefur í annan stað gert þá kröfu á hendur stefnda Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að viðurkennt verði með dómi að hlutfall lífeyris hans af viðmiðunarlaunum skuli miðað við að hann hefði haldið áfram störfum til 70 ára aldurs. Byggir áfrýjandi þessa dómkröfu á því, að dómurum sé mismunað með því að niðurlag 61. gr. stjórnarskrárinnar tryggi hæstaréttar­dómurum full laun þó þeim sé veitt lausn er þeir hafa náð 65 ára aldri. Sama gildi um dómara sem vikið er frá án óskar á grundvelli 4. tl. 31. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.  Telur áfrýjandi að sömu reglur eigi að gilda um dómara sem óska sjálfir lausnar á grundvelli 2. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 og gildir samkvæmt framansögðum ákvæðum. Áfrýjandi telur að með þessu sé dómurum mismunað þar sem máli skipti um lífeyrisréttindi þeirra hvort dómara er veitt lausn að eigin ósk eða án óskar og sé slíkt í andstöðu við jafnræðisreglu 65. greinar stjórnarskrárinnar. Þessi þáttur kröfugerðar áfrýjanda er þó ekki svo skýr sem skyldi m.a. vegna þess að áfrýjandi hefur ætlast til að kröfugerð hans verði skilin þannig að hann skuli njóta eftirlauna en ekki lífeyris með fyrrgreindum hætti. Í munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi þó haldið sig við fyrrgreint orðalag kröfugerðarinnar og verður við það miðað hér. 

Í 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 segir að heimilt sé að veita dómara lausn frá embætti án óskar hans, ef hann er orðinn 65 ára, en hann skuli þá upp frá því taka eftirlaun svo sem hann hefði gegnt embættinu til 70 ára aldurs, nema hann njóti ríkari réttar samkvæmt stjórnskipunarlögum. Um heimild til að veita dómara lausn frá embætti án þess að hann óski þess er mælt í 61. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir að veita megi þeim dómara, sem orðinn er fullra 65 ára gamall, lausn frá embætti, en hæstaréttardómarar skuli eigi missa neins í af launum sínum.

Fyrrgreindu ákvæði 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 er ætlað að tryggja sjálfstæði dómstólanna gagnvart framkvæmdarvaldinu einkum þannig að ekki sé unnt að veita þeim lausn frá störfum við 65 ára aldur nema það hafi umræddar lögfylgjur og tryggi þannig réttarstöðu viðkomandi dómara. Þau rök eiga hins vegar ekki við ef dómari fær lausn frá störfum að eigin ósk eins og við á í máli þessu. Ekki verður heldur séð að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar geti hér átt við enda eru þau tilvik sem áfrýjandi ber saman og reisir rétt sinn á ekki samanburðarhæf. Þegar af þessum ástæðum verður að sýkna stefnda Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins af umræddri kröfu. Sú málsástæða áfrýjanda að eignarréttur honum til handa hafi stofnast að þeim réttindum sem veitt eru dómendum sem fá lausn frá embætti eftir 65 ára aldur á grundvelli 72. gr. stjórnarskrárinnar er of seint fram komin og kemur því hér ekki til álita, sbr. 2. mgr. 163. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Loks hefur áfrýjandi gert sömu kröfu á hendur íslenska ríkinu og gerð er á hendur Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og rædd er í kafla III. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili, sem hefur lögvarða hagsmuni af því, fengið skorið úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands með viðurkenningardómi en fullnægja verður þó réttarfarsskilyrðum að öðru leyti. Væri umrædd krafa áfrýjanda tekin til greina myndi hún leiða til óskýrrar réttarstöðu stefnda íslenska ríkisins, m.a. vegna lífeyrisskuldbindinga Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins við áfrýjanda. Þetta gildir jafnvel þótt krafa hans væri skýrð með þeim hætti sem hann kýs að gera. Dómkrafan telst því ódómhæf í þeim búningi sem hún hefur verið sett fram. Ber því að vísa henni sjálfkrafa frá héraðsdómi. 

Áfrýjandi skal greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins skal vera sýkn af kröfum áfrýjanda í máli þessu.

Kröfu áfrýjanda á hendur íslenska ríkinu er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi greiði stefnda Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins 400.000 krónur og stefnda íslenska ríkinu 200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2007.

  Mál þetta, sem dómtekið var 19. janúar 2007, er höfðað 22. september 2005 af stefnanda, Loga Guðbrandssyni, kt. 290937-7799, Aratúni 5, Garðabæ, gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild, kt. 430269-6669, Bankastræti 7, Reykjavík og íslenska ríkinu.

  Stefnandi gerir þær dómkröfur á hendur stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild, hér eftir nefndur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri frá og með 1. maí 2004 að greiða lífeyri til stefnanda sem miðist við launakjör forstjóra ríkisspítala, nú Landspítala – háskólasjúkrahúss, sbr. 30. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, í samræmi við ákvæði 6. mgr. 24. gr., sbr. 35. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, að frádregnum þeim lífeyri er stefndi hefur þegar greitt stefnanda frá 1. maí 2004 til uppgjörsdags. Þá gerir stefnandi þær dómkröfur á hendur Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og íslenska ríkinu að viðurkennt verði með dómi að hlutfall lífeyris af viðmiðunarlaunum stefnanda frá stefnda skuli við það miðaður að hann hefði haldið áfram störfum til 70 ára aldurs, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Þá krefst stefnandi enn­fremur málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt mati dómsins eða framlögðum máls­kostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

  Stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, krefst sýknu af öllum kröfum stefn­anda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skað­lausu samkvæmt mati dómsins.

  Stefndi, íslenska ríkið, krefst sýknu af kröfum stefnanda og að honum verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

  Í greinargerð krafðist stefndi, íslenska ríkið, þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en frávís­unar­kröfunni var hafnað með úrskurði dómsins 14. nóvember sl.

  Skúla Magnússyni héraðsdómara var úthlutað máli þessu 1. janúar 2006 en hann fór í fæðingarorlof 1. febrúar 2006. Söndru Baldvinsdóttur, settum héraðs­dómara, var úthlutað málinu 1. mars 2006. Hún vék sæti í málinu með úrskurði, dags. 10. maí 2006. Með úrskurði uppkveðnum 15. maí 2006 viku allir dómarar við Hér­aðsdóm Reykja­víkur  sæti í málinu, með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einka­mála, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Með bréfi dóms- og kirkjumála­ráðu­neytis, dags. 7. júní 2006,  var Þórður S. Gunnarsson, forseti laga­deildar Háskólans í Reykjavík, með vísan til 3. ml. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 15/1998, skipaður setudómari í málinu.

 

                                                                                  Málsatvik.

  Stefnandi var ráðinn framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala, Landakoti, 1. febrúar 1977 og gegndi hann því starfi samfellt til 31. desember 1995 er hann tók við starfi aðstoðarforstjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur, í framhaldi af sameiningu á starfsemi St. Jósefspítala og Borgarspítala þann 1. janúar 1996 undir nafni Sjúkrahúss Reykjavíkur. Hann lét af því starfi 31. mars 1996. Stefnandi tók við starfi héraðsdómara við Héraðsdóm Austurlands 1. október 1997. Hann var dómstjóri við sama dómstól frá 1. júlí 1998 til 1. október 2002 er hann tók við starfi héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Stefnandi gegndi því starfi til 1. maí 2004 er hann lét  af störfum að eigin ósk.

  Skriflegur ráðningarsamningur mun hafa verið gerður milli stefnanda og sjálfseignarstofnunar St. Jósefsspítala, Landakoti um ráðningu stefnanda sem fram­kvæmdastjóra sjúkrahússins og í honum verið m.a. ákvæði um laun og önnur starfs­kjör stefnanda. Ekki hefur reynst unnt að leggja fram skriflegt eintak af samningnum en af hálfu stefnanda er því haldið fram í málinu að samkvæmt samningnum hafi laun hans og önnur starfskjör hjá St. Jósefsspítala átt að vera þau sömu eða taka mið af launakjörum forstjóra ríkisspítala, eins og þau voru á hverjum tíma.

  Með reglugerð nr. 127/2000 um sameiningu heilbrigðisstofnana var starfsemi Sjúkrahúss Reykjavíkur og ríkisspítala sameinuð undir nafninu Landspítali háskóla­sjúkrahús. 

  Stefnandi hóf greiðslu iðgjalda til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á árinu 1978 og mun hafa greitt þangað iðgjöld þar til hann hóf töku lífeyris úr sjóðnum 1. maí 2004.

  Þann 14. apríl 2003 ritaði stefnandi bréf til stjórnar stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, og óskaði upplýsinga um hver lífeyrisréttindi hans væru og við hvaða laun þau yrðu miðuð. Með bréfi stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, til stefnanda, dags. 16. júní 2003, var stefnanda tjáð að um lífeyri hans myndi annað hvort fara eftir launum fyrir síðasta starf hans þ.e. starf héraðsdómara eða samkvæmt launum fyrir starf sem væri hærra launað og stefnandi hefði gegnt í 10 ár eða lengur, í þessu tilviki starf framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala. Í bréfinu segir enn fremur að í ljósi þess að starf framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala hafi verið lagt niður muni starfsnefnd lífeyrissjóðsins, sem hafi það hlutverk að túlka svonefnda eftirmannsreglu og finna launaviðmið fyrir störf sem ekki séu lengur til, fjalla um málið. 

  Í bréfi stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, til stefnanda, dags. 16. apríl 2004, gerir sjóðurinn frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi lífeyrisréttindi stefnanda. Í bréfinu segir m.a.:

„Meginreglan um viðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris úr B-deild LSR er í 2. mgr. 24. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997. Þar segir að upphæð ellilífeyris sé hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast. Samkvæmt þessari reglu átt þú rétt til þess að lífeyrir þinn taki mið af síðasta starfi þínu sem héraðsdómari. Í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997 eru tvær reglur sem kunna að veita þér betri rétt en ofangreind meginregla. Er þar fyrst að nefna reglu er viðkemur frestun á töku lífeyris og sjóðfélagi tekur jafnframt við öðru starfi hjá stofnun er veitir aðgang að sjóðnum sem er lægra launað, sbr. 1. mgr. 28. gr. laganna. Samkvæmt þessari reglu bæri að líta til starfs dómstjóra en laun fyrir það starf eru nú kr. 453.099. Í 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 er ákvæði er varðar þá sjóðfélaga er gegnt hafa hærra launuðu starfi í 10 ár eða lengur en þar segir:

Hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í meira en 10 ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins skal miða lífeyrinn við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því í að minnsta kosti tíu ár, ella skal miða (við) það hærra launaða starf sem hann að viðbættum enn hærra launuðum störfum gegndi í að minnsta kosti tíu ár. Samkvæmt þessari reglu ber að líta til starfs þíns sem framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala, Landakoti en samkvæmt upplýsingum frá Landspítala háskólasjúkrahúsi gegndir þú því starfi frá 1. febrúar 1977 til 31. desember 1995 eða þar til starfið var lagt niður. Af framangreindu má ætla að þegar til töku lífeyris kemur sé það haganlegast fyrir þig að velja þér viðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris við starf þitt sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala. Varðandi breytingar á lífeyrisgreiðslum eftir að lífeyristaka er hafin þá er um tvær reglur að ræða, annars vegar hina svonefndu eftirmannsreglu og hins vegar meðaltalsreglu sem kom inn í lög sjóðsins með lögum nr. 141/1996. Í 3. mgr. 24. gr.  er kveðið á um meðal­talsregluna sem er meginreglan en þar segir:

Eftir að taka lífeyris hefst skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 2. mgr., og skal Hagstofa Íslands reikna þær mánaðarlega.

“Eftirmannsreglan” er enn við líði í ákveðnum tilvikum og er kveðið á um hana í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997. Ákvæðið er svohljóðandi:

Sjóðfélagar, sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi og þeir sem fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við gildistöku laga þessara, geta, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 14/1996, valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 24. gr. og 1. eða 2. mgr. 28. gr. laganna, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna. Setja skal nánari ákvæði í samþykktir sjóðsins um með hvaða hætti vali sjóðfélaga samkvæmt þessu verði háttað og innan hvaða tímamarka þeir skuli tilkynna sjóðnum um þessa ákvörðun.

Af framansögðu má vænta þess að þú veljir að lífeyrir þinn taki mið af fyrrum starfi þínu sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala, Landakoti, sbr. 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Samkvæmt meðaltalsreglunni þarf að finna því starfi viðmið við árslok 1996 en frá þeim tíma tækju viðmiðunarlaunin samkvæmt meginreglu breytingum eftir meðaltalsreglunni, sbr. nánar 3. og 4. mgr. 28. gr. laga nr. 1/1997. Laun þín síðasta mánuð í starfi voru kr. 241.898 en þau laun voru sótt í úrskurð kjaranefndar sem var óbreyttur við árslok 1996. Þegar reiknuð hefur verið hækkun á þau laun skv. vísitölu launa opinberra starfsmanna miðað við apríl 2004 eru viðmiðunarlaunin kr. 500.489. Ofangreint tekur mið af því að lífeyrir þinn taki breytingum skv. meðaltalsreglu þar sem starfið var lagt niður, sbr. nánar neðangreint ákvæði í 80. gr. samþykkta LSR. Ákvæðið er svohljóðandi:

Sé starf sjóðfélaga lagt niður í beinu framhaldi af starfslokum hans eða sé starf það sem verið hefur til viðmiðunar fyrir breytingar á lífeyri sbr. 76. gr. lagt niður skulu breytingar á lífeyri þeirra fara eftir 74. gr. Stjórnin skal þó ákveða önnur viðmiðunarlaun sé eftir því óskað. Sama regla gildir hafi sjóðfélagi rétt á að lífeyrir hans taki mið af hærra launuðu starfi en lokastarfi skv. grein 57.a.

Á grundvelli þessa ákvæðis átt þú rétt til að þér sé fundið annað launaviðmið en reglan er byggð á fyrrgreindri eftirmannsreglu í 35. gr. laganna. Stjórn sjóðsins ber að finna þér viðmiðunarlaun komi fram beiðni þess efnis. Fyrrum samskipti þín við sjóðinn voru metin með þeim hætti að málið var lagt fyrir starfsnefnd sjóðsins sem hefur meðal annars það hlutverk að finna viðmiðunarlaun sé uppi vafi í þeim efnum. Í samþykktum LSR er kveðið á um nefndina í 7. gr.

Mál þitt var tekið til umræðu á fundi starfsnefndar þar sem glökkt kom í ljós að afgreiðsla málsins byggist á erfiðu mati því sameining sjúkrastofnana hefur farið fram þar sem fyrrum St. Jósefsspítali - Landakot, Borgarspítali og Ríkisspítalar eru frá febrúar 2001 allir komnir undir eina stjórn Landspítala Háskólasjúkrahúss. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna  hefur starfsnefndin í hyggju að ákvarða þér viðmiðunarlaun sem tækju mið af starfi forstjóra Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem nú er um kr. 517.433. Við þá tillögugerð var litið til  fjölda sjúkrarúma, eðli starfseminnar og þeirra fjárveitinga sem stofnanirnar hafa fengið til reksturs. Starfsnefndin taldi ekki grundvöll til að miða við starf forstjóra LSH þar sem LSH er mun stærra sjúkrahús en St. Jósefsspítali – Landakot eftir fyrrgreinda sameiningu. Áður en málið fær endanlega afgreiðslu í starfsnefnd er þér bent á rétt þinn til að koma að frekari sjónarmiðum eða gögnum sem berast þurfa í tíma fyrir næsta fund starfsnefndar sem haldinn verður þann 14. maí n.k.“

  Stefnandi ritaði stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, bréf, dags. 12. maí 2004, þar sem forsendum sjóðsins fyrir vali á viðmiðunarlaunum vegna greiðslu lífeyris til stefnanda var mótmælt. Leggur stefnandi áherslu á að beinast liggi við að nota starf forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss til viðmiðunar við ákvörðun á lífeyri stefnanda. Í bréfinu segir m.a.:

„Fram kom í bréfi yðar, að þér hefðuð í hyggju að ákvarða viðmiðunarlaun, sem tækju mið af starfi forstjóra Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Við þá ákvörðun hafi verið litið til fjölda sjúkrarúma, eðlis starfseminnar og þeirra fjárveitinga sem stofnanirnar hafi fengið. Þessari viðmiðun er alfarið hafnað. Laun forstjóra eða framkvæmdastjóra sjúkrahúsanna hafa aldrei farið eftir sjúkrarúmafjölda eða fjárveitingum. Verð ég enn að minna á, sem ég hef áður gert, að við ráðningu mína í starf framkvæmdastjóra  St. Jósefsspítala voru laun mín miðuð við laun forstjóra stærstu sjúkrastofnunar landsins, hvor ofangreindra mælikvarða sem notaður væri. Á þessum tíma var Borgar­spítalinn með fleiri sjúkrarúm og verulega hærri rekstrarkostnað en St. Jósefsspítali, en að sama skapi allt miklu minna en ríkisspítalar. Miðað við það sjónarmið, sem fram kemur hér að ofan og í bréfi yðar, hefði verið nærtækast við ráðninguna að miða við Borgarspítalann, sem var ekki gert.“

  Með bréfi stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, til stefnanda, dags. 1. júlí 2004,  var stefnanda tilkynnt að stjórn sjóðsins hefði fallist á þá tillögu starfsnefndar að launaviðmið vegna lífeyris til hans skyldi vera starf framkvæmdastjóra Fjórðungs­sjúkrahússins á Akureyri.

  Stefnandi hóf, eins og áður greinir, töku lífeyris þann 1. maí 2004 og hefur hann fengið greiddan lífeyri samkvæmt framangreindri ákvörðun stefnda.

  Lögmaður stefnanda ritaði stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins bréf, dags. 6. desember 2004, þar sem óskað var endurskoðunar á fyrri afstöðu sjóðsins. Sjóðurinn ritaði lögmanni stefnanda bréf, dags. 17. janúar 2005, þar sem tilkynnt var að fyrri ákvörðun sjóðsins varðandi viðmið eftirlauna stefnanda skyldi standa óbreytt.

 

                                                      Málsástæður og lagarök stefnanda.

  Stefnandi byggir dómkröfur sínar á hendur stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, á því að starf hans sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala hafi aldrei verið formlega lagt niður heldur hafi nýr aðili yfirtekið réttindi og skyldur spítalans gagnvart stefnanda.  Beri stefnanda þannig réttur til lífeyris samkvæmt viðmiði við starf framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala, sbr. ákvæði 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, þ.e. að lífeyrir hans taki mið af hærra launuðu starfi sem hann hafi gegnt lengur en tíu ár. 

  Stefnandi byggir á því að launaviðmiðið, sem leggja skuli til grundvallar greiðslu lífeyris til hans, séu laun forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss. Starf forstjóra ríkisspítala, nú Landspítala – háskólasjúkrahúss, sé í eðli sínu sama starf og hann hafi haft með höndum sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala, Landakoti.  Báðar þessar stofnanir hafi með höndum sjúkrahúsrekstur og starfsemi þeirra beggja hafi jafnframt fallið undir ákvæði laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu. Þær stofnanir, sem myndað hafi Landspítala – háskólasjúkrahús, hafi verið sameinaðar með reglugerð nr. 127/2000, um sameiningu heilbrigðisstofnana.  Þannig hafi forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss nú með höndum þau störf sem stefnandi sinnti áður og því skuli um lífeyri hans fara samkvæmt þeim viðmiðunarlaunum, sbr. 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, sbr. enn fremur ákvæði 35. gr. sömu laga.

  Þá byggir stefnandi dómkröfur sínar á því að í launum og starfskjörum hans hafi falist loforð um sambærileg kjör og forstjóri ríkisspítala nyti á hverjum tíma, þ.m.t.  lífeyrisréttindi.  Í því sambandi beri að hafa í huga að eins og ávinnslu lífeyrisréttinda sé háttað í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild, sé lífeyrir afleidd stærð dagvinnulauna sem fylgi starfi.  Ákvæði ráðningarsamnings stefnanda og St. Jósefsspítala, Landakoti hafi m.a. falið í sér loforð um lífeyrisréttindi sem tækju mið af dagvinnulaunum forstjóra ríkisspítala, nú Landspítala – háskólasjúkrahúss, á hverjum tíma.  Framangreindar skuldbindingar hafi verið yfirteknar af Sjúkrahúsi Reykja­víkur við sameiningu Borgarspítala og St. Jósefsspítala, Landakoti, þann 1. janúar 1996 og aftur við yfirtöku ríkisins á  Sjúkrahúsi Reykjavíkur í árslok 1998.  Vísar stefnandi um það til ákvæða laga nr. 77/1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti, sem þá voru í gildi. Auk framangreinds hafi legið fyrir yfirlýsing fjármálaráðuneytis, varðandi ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum. 

  Stefnandi telur ákvörðun stefnda um val á viðmiði lífeyris, svo og allan rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun, með öllu ófullnægjandi og ólögmætan.  Ákvörðun stefnda miði að því að svipta stefnanda rétti til lífeyris, sem taki mið af launum forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss.  Af hálfu stefnanda er á því byggt að við mat á viðmiði lífeyris beri að líta til þess hvað orðið hafi um þá starfsemi sem talist hafi grundvöllur starfa hans og um leið lífeyris.  Í því tilviki, sem hér um ræði, þykir sýnt, að Landspítali – háskólasjúkrahús hafi þá starfsemi með höndum.  Við mat á viðmiði beri því að leggja til grundvallar sambærilegt starf hjá þeirri stofnun sem verði að teljast starf forstjóra.  Í öðru lagi bendir stefnandi á að rökstuðningur stefnda fyrir vali á viðmiði eftirlauna standist engan vegin skoðun og sé bæði ómálefnalegur og ólögmætur.  Sú ákvörðun starfsnefndar að miða við laun framkvæmdastjóra Fjórðungs­sjúkrahússins á Akureyri styðjist hvorki við gild lagaleg rök né efnisleg auk þess sem þau viðmið, sem ákvörðun byggi á séu bæði ónothæf og röng.  Í þriðja lagi bendir stefnandi á  að það viðmið sem talist geti málefnalegt og lögmætt felist í skoðun á því hver hafi þau störf með höndum, sem séu grundvöllur réttinda hans.  Verði ekki á það fallist telur stefnandi að fara skuli fram skoðun og samanburður á tilteknum störfum og ábyrgð sem þeim fylgi en fráleitt sé að beita þeim viðmiðum sem stefndi tilgreini þ.e. fjölda sjúkrarúma, fjárveitingum o.þ.h.  Slík viðmið segi í reynd lítið um starfsemi sjúkrahússins eða störf framkvæmdastjóra og hafi í reynd ekki ráðið ákvörðun launa til hans.  Í fjórða lagi bendir stefnandi á að ráðningar­samningur hans sem framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala vísi um laun og önnur starfskjör til þess sem forstjóri ríkisspítala hafi á hverjum tíma.  Í ljósi þess að stefndi hafi tekið um það ákvörðun sjálfur að miða lífeyri stefnanda við starf hans sem framkvæmdastjóra sjúkrahúss sé viðmið við laun forstjóra Landspítala – háskóla­sjúkrahúss í reynd sjálfgefið.

  Stefnandi byggir á að lífeyrisréttindi njóti verndar eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Slík eignarréttindi megi hvorki fella niður eða skerða nema til komi fullar bætur.  Stefnandi bendir á að hann hafi lokið störfum og hætt greiðslu iðgjalda, sem voru grundvöllur lífeyrisréttinda hans, þann 30. júní 1998. Stefnandi byggir á því að síðar til komin breyting á ákvæðum laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. ákvæði 6. mgr. 23. gr. og  2. mgr. 35. gr. laganna, eins og þeim var breytt með lögum 43/2002, sbr. 2. gr. og  6. gr. þeirra laga, hafi, eins og þau séu hagnýtt af hálfu stefnda, falið í sér skerðingar á eignarréttindum stefnanda sem fari gegn ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá brjóti ákvæðin, eins og þau séu hagnýtt af stefnda enn fremur gegn jafnræðisreglum, sbr. ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Stefnandi hafði áunnið sér lífeyrisréttindi sem og lífeyrisviðmið fyrir gildistöku laga nr. 43/2002, sbr. 2. gr. og 6. gr.  Svo víðtækri heimild sem stjórn stefnda hafi verið veitt með setningu þeirra laga verði ekki beitt með þeim hætti sem stefndi hafi nú gert varðandi lífeyrisréttindi sem þegar hafi verið til orðin sem og lífeyrisviðmið sem eins hátti til um.  Þá verði ákvæðum fyrrgreindra laga, eins og á stendur, ekki beitt með afturvirkum hætti.

  Stefnandi byggir dómkröfur sínar enn­ fremur á því að fjöldi lífeyrisþega, sem sé í sambærilegri stöðu og hann, þ.e. gegndu starfi á St. Jósefsspítala, Landakoti, Borgarspítala, Sjúkrahúsi Reykjavíkur eða ríkisspítölum, hafi við ákvörðun á viðmiði lífeyris notið viðmiðs launa þeirra starfsmanna sem nú gegni hlutaðeigandi störfum eða störfum sambærilegum þeim hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi.  Eigi framan­greint t.d. við um deildarstjóra, hjúkrunarframkvæmdastjóra og hjúkrunar­forstjóra.  Sönnunarfærsla vegna þessa sé örðug þar sem stefndi hafi synjað stefnanda um aðgang að upplýsingum sjóðsins, þ.e. bæði Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, B-deild og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga en stefnandi hafi starfsemi síðastnefnda sjóðsins með höndum.  Stefnandi telur framangreinda ráðstöfun fela í sér brot á jafnræðis­reglum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. 

  Krafa stefnanda á hendur stefndu, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og íslenska ríkinu, um viðurkenningu á því að hlutfall lífeyris af viðmiðunarlaunum skuli við það miðað að hann hefði haldið áfram störfum til 70 ára aldurs, er á því byggð að mismunun á hlutfalli lífeyris, sem rekja megi til þess af hvaða ástæðum dómari lætur af störfum, sé ólögmæt.  Stefnandi hafi sjálfur óskað lausnar frá starfi héraðsdómara og  dómsmálaráðherra veitt þá lausn, sbr. 31. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.  Stefnandi telur að sú mismunun, sem felist í ákvæði 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998, þ.e. að hlutfall lífeyris skuli ráðast af því hvort dómara hafi verið veitt lausn án óskar eða hann sjálfur óskað lausnar, feli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr..

  Stefnandi byggir umrædda dómkröfu enn fremur á því að skipan dómsvalds sé ákveðin í stjórnarskrá Íslands, sbr. ákvæði V. kafla laga nr. 33/1944, með síðari breytingum.  Samkvæmt 59. gr. stjórnarskrárinnar verði skipun dómsvalds eigi ákveðin nema með lögum.  Af ákvæði 61. gr. stjórnarskrárinnar verði ráðið að veita megi dómara, sem orðinn sé fullra 65 ára, lausn frá embætti en þó sé áskilið að hæstaréttardómarar skuli eigi missa neins í af launum sínum.  Stefnandi byggir á því að af ákvæðum stjórnarskrárinnar svo og lögum nr. 15/1998 um dómstóla leiði, að tryggt skuli að dómarar séu sjálfstæðir og óháðir í störfum sínum og njóti þar verndar.  Sérhver íhlutun löggjafans í málefni dómara, sem og ákvæði sem feli í sér mismunun þeim til handa, gangi gegn markmiðum og tilgangi framangreindra laga. Eigi það einkum við í þeim tilvikum þegar ákvörðun um mismunun sé á hendi framkvæmda­valdshafa. 

  Stefnandi byggir enn fremur á því að sjónarmið að baki þeirri mismunun, sem felist í ákvæði 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998, séu ómálefnaleg og því ólögmæt enda réttlæti hvorki lagaleg né efnisleg rök slíka mismunun.  Stefnandi telur umrædd ákvæði ganga gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. ákvæði 65. gr., sem og meginreglum  laga nr. 15/1998 um dómstóla. 

  Um aðild og fyrirsvar í málinu vísar stefnandi m.a. til ákvæða 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Stefnandi byggir fyrirsvar dómsmálaráðherra á því að hann fari með fyrirsvar og/eða ákvörðunarvald um málefni dómstóla samkvæmt lögum nr. 15/1998.  Samhliða fari dómsmálaráðherra með ákvörðunarvald um þau málefni sem lúti að lausn dómara frá embætti sem feli í sér mismunun þá sem um sé deilt í máli þessu. Sé  báðum aðilum stefnt í máli þessu, sbr. m.a. ákvæði 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sé stefnt til að þola dóm að því er báðar dómkröfur varðar enda fari sá stefndi með fyrirsvar að því er lífeyrisréttindi varðar samkvæmt lögum nr. 1/1997 og að því er síðari dómkröfu varðar þyki sýnt að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verði gert að greiða stefnanda lífeyri í samræmi við þá dómkröfu, nái hún fram að ganga.

  Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun kveður stefnandi reista á  lögum nr. 50/1988 en nauðsynlegt sé að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar, þar sem stefnanda sé skylt að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþjónustu. Sé stefnanda því nauðsyn að fá dóm fyrir virðisaukaskatti úr hendi stefndu. Um málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður og lagarök stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

  Stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, byggir á því að óumdeilt sé að stefnandi eigi rétt á að lífeyrir hans taki mið af starfi stefnanda sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala, Landakoti á grundvelli 6. mgr. 24. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997. Þegar til töku lífeyris komi séu tvær reglur um það með hvaða hætti lífeyrir taki breytingum eftir að lífeyristaka sé hafin. Meginreglan sé að lífeyrir hækki samkvæmt meðalbreytingum sem verði á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Hins vegar sé regla í 35. gr. laganna sem veiti þeim sjóðfélögum sem hefji töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi val um að lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verði á launum er á hverjum tíma séu greidd fyrir það starf sem sé til viðmiðunar á lífeyri. Stefnandi hafi valið að lífeyrir úr stefnda taki breytingum samkvæmt þessari reglu.

  Stefndi byggir á því að starf stefnanda, sem sé til viðmiðunar á greiddum lífeyri þ.e. starf framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala, Landakoti, sé ekki lengur til eftir að sameining hafi farið fram á nokkrum sjúkrahúsum. St. Jósefsspítali, Landakoti hafi sameinast Borgarspítala sem orðið hafi að Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Síðar hafi komið til sameiningar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur við ríkisspítala. Nýtt sameinað sjúkrahús sé Landspítali háskólasjúkrahús. Starf stefnanda sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala, Landakoti sé ekki til eftir umræddar sameiningar. Starf það sem stefnandi haldi fram að hafi verið haft til viðmiðunar á launum hans sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala hafi verið starf forstjóra ríkisspítala. Það starf sé ekki heldur til eftir að fyrrgreind sameining á sjúkrahúsunum hafi átt sér stað.

  Stefndi byggir á því að í þeim tilvikum sem viðmiðunarstarf til greiðslu lífeyris sé ekki til, s.s. vegna þess að starf hafi verið lagt niður eða tekið miklum breytingum, sé eigi að síður leitast við að sjóðfélagar tapi ekki rétti sínum til að velja milli þess að lífeyrir breytist samkvæmt meðaltalsbreytingum, sbr. 3. mgr. 24. gr., eða samkvæmt launum á hverjum tíma fyrir viðmiðunarstarf, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997. Á þessum grunni sé ákvæði í samþykktum stefnda er kveði á um að í þeim tilvikum sem störf hafi verið lögð niður skuli lífeyrir taka breytingum samkvæmt meðaltalshækkunum, sem verði á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, en sjóðfélagi geti eigi að síður óskað eftir því að stjórn stefnda ákveði önnur viðmiðunarlaun. Ákvæði þetta sé nú í 78. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en hafi áður verið í 80. gr. samþykkta sjóðsins. Hjá stefnda sé starfandi starfsnefnd sem m.a. hafi það hlutverk að gera tillögur til stjórnar stefnda um viðmiðunarlaun, þegar reyni á beitingu 78. gr. samþykkta sjóðsins, sbr. 7. gr. samþykktanna. Þar sem viðmiðunarstarf stefnanda til greiðslu lífeyris hafi ekki lengur verið til hafi mál hans verið lagt fyrir starfsnefndina. Stefnanda hafi verið tilkynnt um þessa málsmeðferð með bréfi, dags. 16. júní 2003, og bent á rétt sinn til að leggja fram frekari upplýsingar. Stefnandi hafi ritað stefnda bréf, dags. 24. ágúst 2003, þar sem fram hafi komið sú afstaða stefnanda að hann teldi sig eiga rétt til launaviðmiðs við starf forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss, þar sem laun hans sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala, Landakoti hafi tekið mið af launum forstjóra ríkisspítala.

  Mál stefnanda hafi verið tekið fyrir á fundi starfsnefndar þann 12. september 2003 en á þeim fundi hafi komið fram að nefndarmönnum hafi þótti rétt að borin yrðu saman iðgjaldaskil forstjóra ríkisspítala og stefnanda áður en málið yrði endanlega afgreitt. Við þá athugun hafi komið í ljós að iðgjaldaskil forstjóra ríkisspítala hafi verið önnur og talsvert hærri en iðgjaldaskil stefnanda meðan hann gegndi starfi framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala, Landakoti. Stefnanda hafi verið tilkynnt um þetta atriði með tölvupósti og kannað hvort hann vildi koma að einhverjum viðbótarupplýsingum. Stefnandi hafi ritað stefnda bréf, dags. 25. nóvember 2003, þar sem fram komi m.a. að ráðningarsamningur stefnanda finnist ekki. Mál stefnanda hafi verið til umræðu á fundum starfsnefndar og hafi nefndar­menn verið sammála um að rétt væri að rita stefnanda bréf þar sem málið væri rakið og stefnandi upplýstur um þá tillögu sem fram hefði komið um að ákveða viðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris til stefnanda  við starf forstjóra Fjórðungs­sjúkrahússins á Akureyri. Stefnandi hafi brugðist við ætlun starfsnefndar með bréfi dags. 12. maí 2004. Starfsnefndin hafi síðan afgreitt málið á fundi sínum þann 14. maí 2004 þar sem hún hafi lagt til að launaviðmið stefnanda yrði við starf forstjóra Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, sbr. 78. gr. samþykkta lífeyrissjóðsins. Nefndin hafi talið rétt að stjórn stefnda fjallaði sérstaklega um þau sjónarmið sem fram hafi komið í bréfi stefnanda til stefnda. Stjórn stefnda hafi afgreitt mál stefnanda á fundi þann 16. júní 2004, þar sem samþykkt hafi verið afstaða starfsnefndar um að ekki væri unnt að verða við beiðni stefnanda um launaviðmið við starf forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss, þar sem fyrir lægi að Landspítali háskólasjúkrahús hafi verið sameinaður úr þremur sjúkrastofnunum. Stjórnin hafi jafnframt fallist á tillögu starfsnefndar um launaviðmið við starf framkvæmdastjóra Fjórðungs­sjúkra­hússins á Akureyri. Lögmaður stefnanda hafi ritað stefnda bréf, dags. 6. desember 2004, þar sem óskað hafi verið eftir að stjórn stefnda endurskoðaði fyrri ákvörðun um viðmiðunarlaun. Stjórnin hafi tekið málið til umræðu á fundi þann 14. janúar 2005 þar sem niðurstaðan hafi orðið að fyrri ákvörðun stæði óbreytt.

  Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að staðhæfing stefnanda um samning stefnanda og St. Jósefsspítala þess efnis að launakjör stefnanda skyldu vera þau sömu eða taka mið af launakjörum forstjóra ríkisspítala sé ósönnuð. Fyrir liggi að iðgjaldaskil til stefnda, í samanburði við iðgjaldaskil forstjóra ríkisspítala, hafi ekki verið af sömu launum. Samkvæmt upplýsingum sem aflað hafi verið frá Landspítala háskólasjúkrahúsi, hafi laun stefnanda ekki verið þau sömu og laun forstjóra ríkisspítala. Stefnandi kveðst þó þeirrar skoðunar að atriði þetta eigi ekki að skipta máli við úrlausn málsins, þar sem samningur um launakjör meðan á starfi standi eigi ekki að hafa þýðingu við beitingu á 35. gr. laga nr. 1/1997 enda segi í ákvæðinu að „lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma séu greidd fyrir það starf“. Hvernig starfið hafi verið launað meðan sjóðfélagi gegndi því skipti ekki máli við beitingu ákvæðisins.

  Þá telur stefndi að líta beri til þess að starf það sem stefnandi kveði laun sín hafi tekið mið af, þ.e. starf forstjóra ríkisspítala, sé ekki lengur til. Sameining fyrrgreindra sjúkrahúsa hafi leitt það af sér að hvorki sé til það starf sem stefnandi gegndi sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala, Landakoti né það starf sem stefnandi kveði laun sín hafa tekið mið af þ.e. starf forstjóra ríkisspítala.

  Stefndi byggir á því að þar sem stefndi starfi samkvæmt ákvæðum laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem nú séu nr. 1/1997, geti sérstakir samningar sem feli í sér loforð um greiðslu á lífeyri sem ekki rúmist innan laga um stefnda,  ekki verið skuldbindandi gangvart stefnda. Við beitingu á ákvæðum stefnda sé litið til þess hvernig viðmiðunarstarf sé greitt á hverjum tíma. Ef St. Jósefsspítali, Landakoti, væri enn til í óbreyttri mynd, yrði litið til starfs framkvæmdastjóra við beitingu á 35. gr. laga nr. 1/1997. Samningur stefnanda meðan hann hafi verið í starfi um að laun hans tækju mið af launum fyrir annað starf veiti ekki rétt til viðmiðs þegar til töku lífeyris komi samkvæmt ákvæði 35. gr. laga nr. 1/1997. Ef gengið væri út frá því að stefnandi hefði haft samning um laun, sem væru þau sömu og laun forstjóra ríkisspítala, gæfi það ekki rétt til viðmiðs við þau laun, þegar til töku lífeyris kæmi. Litið yrði til launa fyrir starfið á hverjum tíma og þau laun notuð sem viðmiðunarlaun, svo fremi að þau laun væru tæk til viðmiðunar á lífeyri úr sjóðnum, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997. Ef laun fyrir viðmiðunarstarf væru lægri en sjóðfélagi hafði þegar hann gegndi starfi sé ákjósanlegra fyrir lífeyrisþega að velja megin­regluna um að lífeyrir breytist samkvæmt meðalhækkunum sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Sú regla tryggi sjóðfélögum lífeyrisviðmið við þau laun sem þeir höfðu er þeir gegndu störfum og eftir það hækkun samkvæmt meðalhækkunum á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Samningur lífeyrisþega um ákveðin laun meðan hann gegndi starfi sé ekki lagður til grundvallar við beitingu á 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997.

  Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að Landspítali háskóla­sjúkrahús gegni viðameira hlutverki en það sjúkrahús sem stefnandi hafi verið framkvæmdastjóri fyrir. Þótt forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss gegni því starfi sem stefnandi gegndi sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala, Landakoti, þá sé starf forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss mun umfangsmeira. Eftir fyrrgreindar sameiningar gegni Landspítali háskólasjúkrahús mun viðameira hlutverki en St. Jósefsspítali, Landakoti hafi gert. Til að varpa ljósi á þann mun sem sé milli þess sjúkrahúss sem stefnandi hafi verið framkvæmdarstjóri fyrir og þess sjúkrahúss sem stefnandi geri kröfu um að sé viðmið til töku lífeyris samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997, hafi verið aflað upplýsinga frá Landspítala háskóla­sjúkrahúsi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fengist hafi frá Landspítala háskóla­sjúkrahúsi sé mikill stærðar­munur á sjúkrahúsunum, hvort sem litið sé til stöðugilda eða rekstrar­upplýsinga. Fyrir liggi að beiting á ákvæði 35. gr. laga nr. 1/1997 sé oft vandasöm í framkvæmd og ekki hvað síst í þeim tilvikum sem viðmiðunarstarf sé ekki til en þá reyni á beitingu 78. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Eigi að síður sé reynt að finna viðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris fyrir þá sjóðfélaga sem ekki vilji að lífeyrir taki breytingum samkvæmt meðalhækkunum sem verði á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Í máli stefnda hafi verið litið til annarra sjúkrahúsa á landinu og þar litið til stærsta sjúkrahúss landsins að frátöldu því sjúkrahúsi sem stefndi gerir kröfu um að fá viðmiðun við. Ákveðið hafi verið að stefndi fengi viðmiðun við Fjórðungs­sjúkrahúsið á Akureyri en það sjúkrahús hafi verið og sé enn talsvert stærra sjúkrahús en það sjúkrahús sem stefndi hafi verið framkvæmdastjóri fyrir. Í tilefni af máli þessu hafi verið aflað nánari upplýsinga um umfang Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Samanburður á St. Jósefsspítala – Landakoti og Fjórðungssjúkrahúsi Akur­eyrar sýni að Fjórðungs­sjúkrahúsið á Akureyri sé með umfangsmeiri starfssemi en starfsemi St. Jósefs­spítala, Landakoti hafi verið. Í því ljósi sé ákvörðun stefnda ívilnandi við beitingu á 78. gr. samþykkta lífeyrissjóðsins.

  Stefndi byggir á að krafa stefnanda um viðmið við starf forstjóra Landspítala háskólasjúkrahús feli í sér viðmið við starf sem sé viðameira að eðli, umfangi og ábyrgð en það starf sem stefnandi gegndi sem framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala, Landakoti. Viðmið við starf forstjóra Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sé nær því að vera sambærilegt starf að eðli, umfangi og ábyrgð við það starf sem stefnandi eigi rétt til að fá viðmiðun við á grundvelli 35. gr. laga nr. 1/1997. Á þessum grunni beri að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.

  Sýknukrafa stefnda á kröfu þeirri sem stefnandi beinir sameiginlega að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og íslenska ríkinu byggir í fyrsta lagi á aðildarskorti. Stefndi hafi ekki heimild til að greiða eftirlaun en samkvæmt þeim lögum sem stefndi starfi samkvæmt beri honum að greiða lífeyri. Lífeyrir sé aðeins greiddur samkvæmt þeim réttindum sem sjóðfélagar hafi áunnið sér samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem nú séu nr. 1/1997. Í þeim tilvikum sem sérlög kveði á um rétt til eftirlauna, svo sem í því ákvæði sem stefnandi byggi kröfu sína á, eða þegar kveðið sé á um slíkan rétt í ákvæðum stjórnarskrárinnar, sbr. 3. mgr. 20. gr. eða 61. gr., séu slíkar greiðslur alls óviðkomandi stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, þ.e. ef frá séu talin þau iðgjöld sem skilað kunni að vera til stefnda af slíkum eftirlaunagreiðslum. Stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, krefjist því sýknu af greiðslu lífeyris sem byggður sé á 4. mgr. 31. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998. Í þessu sambandi sé sérstaklega tekið fram að í þeim tilvikum sem eftirlaun kunni að hafa verið greidd á grundvelli 3. mgr. 20. gr. eða 61. gr. stjórnarskrárinnar hafi stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, ekki greitt slík eftirlaun. Greiðslur úr stefnda komi ekki til fyrr en launagreiðslum sé lokið en þá fyrst geti lífeyristaka hafist samkvæmt ákvæðum laga nr. 1/1997. Kröfum sem byggðar séu á 4. mgr. 31. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 sé því ranglega beint að stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Stefnda sé ekki kunnugt um að dómarar hafi fengið lausn samkvæmt ákvæði 4. mgr. 31. gr. en í þeim tilvikum sem á ákvæðið kynni að reyna kæmi ekki til greiðslu lífeyris úr stefnda fyrr en eftir að eftirlaunagreiðslum væri lokið. Stefndi hafi þegar hafið töku lífeyris úr stefnda en það að hefja töku lífeyris sé ósamþýðanlegt við kröfu um eftirlaun með vísan í 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998. Sjóðfélagar sem taki eftirlaun geti ekki samhliða tekið lífeyri úr stefnda, sbr. 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Þá byggir stefndi á því að verði dómurinn ekki við sýknukröfu á ofangreindum forsendum sé krafist sýknu á þeim grundvelli að stefnandi geti ekki átt rétt á grundvelli 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998, þar sem stefnandi hafi ekki fengið lausn frá embætti án óskar. Lausn stefnanda frá embætti hafi verið veitt að beiðni hans sjálfs.

  Krafa stefnda um sýknu sé í þriðja lagi byggð á því að 4. mgr. 31. gr. sé ætlað að tryggja sjálfstæði dómstólanna gagnvart öðrum handhöfum ríkisvaldsins en slíkt þyki nauðsynlegt til að tryggja réttindi almennings. Krafa stefnanda um réttindi til lífeyris eins og  hann hefði haldið áfram störfum til 70 ára aldurs með vísan í 4. mgr. 31. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 samrýmist ekki tilgangi ákvæðisins. Ákvæði 61. gr. stjórnarskrárinnar og lögum nr. 15/1998 um dómstóla, sé ætlað að tryggja sjálfstæði dómara og að þeir séu óháðir í störfum sínum en slíkt sé nauðsynlegt til að vernda hagsmuni þeirra sem beri mál sín undir dómstóla.  Ákvæði 61. gr. stjórnarkrárinnar og 4. mgr. 31. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 sé ekki ætlað að veita dómurum betri réttindi til eftirlauna en gildi um aðra starfsmenn ríkisins. Sérreglurnar hafa þótt nauðsynlegar til að tryggja sjálfstæði dómstólanna til hagsbóta fyrir almenning. Ákvæði 4. mgr. 31. gr. feli ekki í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr. laga nr. 33/1944, þar sem ákvæðið nái til allra þeirra sem eins sé ástatt um. Löggjafanum hafi þótt ástæða til að gefa veitingarvaldshafa heimild til að veita dómara lausn frá embætti án óskar undir lok starfsaldurs enda gert ráð fyrir þeirri heimild í 61. gr. stjórnarskrár. Ákvæðið í 4. mgr. 31. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 sé sérregla sem ekki verði beitt yfir önnur tilvik en þau sem hún nái yfir samkvæmt orðanna hljóðan.

  Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til ákvæða laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sérstaklega 24. gr. og 35. gr. laganna. Jafnframt vísar hann til samþykkta stefnda frá árinu 2005, sérstaklega 78. gr. og eldri samþykkta, sérstaklega 80. gr. Þá vísar stefndi til stjórnarskrárinnar, sbr. einkum 20. gr. og 61. gr. Varðandi málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins.

  Stefndi, íslenska ríkið, byggir sýknukröfu sína á því að skilyrði fyrir beitingu 4. mgr. 31. gr. dómstólalaga hafi ekki verið uppfyllt í tilviki stefnanda. Í fyrsta lagi taki ákvæðið samkvæmt skýru orðalagi sínu til þess ef dómara sé veitt lausn frá embætti án óskar. Í tilviki stefnanda hafi hann verið leystur frá embætti samkvæmt eigin ósk. Í öðru lagi sé aðeins um heimildarákvæði að ræða. Beri að öðru leyti að skýra ákvæðið þröngt enda um undantekningarreglu að ræða.

  Stefndi bendir á að ekki muni vera dæmi þess að héraðsdómara hafi verið veitt lausn án óskar þannig að reynt hafi á ákvæði 4. mgr. 31. gr. dómstólalaga. Hvað sem því líði sé engri mis­munun til að dreifa, enda um ólík tilvik að ræða. Rök þau sem búi að baki ákvæðinu geti ekki átt við um þá sem sjálfir óska eftir lausn frá embætti dómara. Stefndi mótmæli því að um sé að ræða brot gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar en stefnandi virðist telja slíkt misræmi felast í ákvæðinu sjálfu. Ákvæðið byggi á málefnalegum grundvelli og feli enga mismunun í sér. Þá sé sjálfstæði dómstólanna í engu raskað þótt eftirlaunaréttur samkvæmt ákvæðinu eigi ekki við um þá héraðsdómara sem óski sjálfir lausnar frá störfum.

  Þá byggir stefndi sýknukröfu sína enn fremur á þeim rökum, sem fram hafi verið færð fyrir frávísunarkörfu í málinu, þ.e. að þær kröfur sem stefnandi geri í málinu geti tæpast verið samrýmanlegar þar sem í öðru tilvikinu sé miðað við eftirmannsreglu vegna starfa hjá St. Jósefsspítala en í hinu miðað við eftir­launaákvæði dómara á grundvelli 4. mgr. 31. gr. dómstólalaga nr. 15/1998. Þannig sé hætt við, ef 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 yrði beitt um stefnanda til 70 ára aldurs, eins og krafan sé orðuð, að stefnandi myndi ekki eiga rétt til lífeyris samkvæmt fyrri kröfulið stefnanda, sbr. 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Þá sé einnig óljóst hvernig orðalag kröfunnar „að hann hefði haldið áfram störfum til 70 ára aldurs“ geti samrýmst efni 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998. Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á aðildarskorti stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, þar sem dómkrafan virðist einvörðungu lúta að réttarsambandi stefnanda og meðstefnda og hvernig fari um hlutfall lífeyris af viðmiðunarlaunum stefnanda frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þá sé ljóst að fyrirsvar íslenska ríkisins, að því er eftir­launakröfur varðar, liggi hjá fjármálaráðherra en ekki dómsmálaráðherra en stefnandi hafi stefnt dómsmálaráðherra f.h. íslenska ríkisins til að þola dóm í málinu. 

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísar stefndi í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Forsendur og niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins á hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins, rétt á lífeyri frá næstu mánaðarmótum eftir að hann verður 65 ára, enda hafi hann þá látið af því starfi eða þeim störfum sem veitt hafa honum aðild að sjóðnum. Skv. 2. mgr. sömu lagagreinar er upphæð lífeyris hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, samkvæmt kjarasamningum, sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast. Sú undantekning er í 6. mgr. 24. gr. laganna gerð frá meginreglunni um að lífeyrir skuli reiknaður af launum fyrir það starf sem sjóðfélagi gegndi við starfslok að hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum skuli miða lífeyrinn við hæst launaða starfið. Óumdeilt er í máli þessu að stefnandi á rétt á því að lífeyrir hans frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sé miðaður við laun framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala, Landakoti, á grundvelli 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997.

  Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 skulu breytingar á lífeyris­greiðslum, eftir að taka lífeyris hefst, ákveðnar til samræmis við meðal­breytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Í 1. mgr. 35. gr. laganna er mælt svo fyrir að sjóðfélagar, sem hefji töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi geti, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna, valið, hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra  breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma séu greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 24. gr. eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna. Þá segir í ákvæðinu að setja skuli nánari ákvæði í samþykktir sjóðsins um með hvaða hætti vali sjóðfélaga samkvæmt ákvæðinu verði háttað og innan hvaða tímamarka þeir skuli tilkynna sjóðnum um slíka ákvörðun. Framangreind regla um að lífeyrir fylgi breytingum á launum fyrir síðasta starf eða eftir atvikum hærra launað starf hefur almennt verið nefnd „eftirmannsregla“. Í 2. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997 er mælt svo fyrir að kjósi sjóðfélagi að lífeyrir taki breytingum samkvæmt eftirmanns-reglunni og laun fyrir það starf séu ekki tæk til viðmiðunar skuli stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem greiðslur lífeyris taki mið af og skuli þau ákveðin með hliðsjón af þeim launaákvörðunum sem gildi um ríkisstarfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um kjararáð. Fyrir liggur og er óumdeilt í málinu að stefnandi valdi að lífeyris­greiðslur til hans tækju  breytingum skv. eftirmannsreglunni í 35. gr. laga nr. 1/1997.

  Eins og áður hefur verið rakið var starfsemi St. Jósefsspítala, Landakoti, sameinuð starfsemi Borgarspítala þann 1. janúar 1996 undir nafni Sjúkrahúss Reykjavíkur og lét stefnandi þá af starfi framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala en tók frá sama tíma við starfi aðstoðarforstjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur. Hann lét af því starfi 31. mars 1996. Starfsemi Sjúkrahúss Reykjavíkur og ríkisspítala var síðar sameinuð undir nafninu Landspítali­-háskólasjúkrahús, sbr. reglugerð nr. 127/2000. Laun fyrir starf framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala voru samkvæmt framangreindu ekki tæk til viðmiðunar í skilningi 2. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997, þegar stefnandi hóf  töku lífeyris úr stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, þann 1. maí 2004. 

  Í 78. gr. samþykkta stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem er óbreytt að efni frá 80. gr. samþykktanna sem í gildi var 16. júní 2004, þegar stjórn sjóðsins tók ákvörðun um lífeyrisviðmið stefnanda, er mælt svo fyrir að sé starf sjóðfélaga lagt niður í beinu framhaldi af starfslokum hans eða sé starf það sem verið hafi til viðmiðunar fyrir breytingar á lífeyri lagt niður, skuli breytingar á lífeyri fara eftir áðurgreindri meginreglu í 3. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um meðalbreytingar á föstum launum fyrir dagvinnu, sbr. 72. gr. samþykktanna, nema sjóðfélagi óski þess að stjórnin ákveði önnur viðmiðunar-laun. Sama regla gildir eigi sjóðfélagi rétt á því að lífeyrir hans taki mið af hærra launuðu starfi en lokastarfi. Samkvæmt 7. gr. samþykktanna skipar stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins svonefnda starfsnefnd, sem á hennar vegum fjallar um álitamál sem upp kunna að koma varðandi viðmiðunarlaun fyrir lífeyri. Þá er einnig mælt svo fyrir í ákvæðinu að beri stjórninni að ákveða viðmiðunarlaun samkvæmt 78. gr. samþykktanna geti hún falið starfs­nefndinni að gera tillögur til stjórnarinnar um viðmiðunarlaun.

  Af hálfu stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, er á því byggt í málinu að stefnandi hafi óskað eftir ákvörðun stjórnar sjóðsins á viðmiðunarlaunum í samræmi við 78. gr. samþykkta sjóðsins, sbr. í þessu efni bréf sjóðsins til stefnanda frá 16. apríl 2004 en efni þess er ítarlega rakið í lýsingu málsatvika hér að framan. Stefnandi hefur ekki mótmælt þessum skilningi stefnda, lífeyrissjóðsins.

  Ekki verður fallist á það með stefnanda að ákvæði í ráðningarsamningi hans við St. Jósefsspítala, Landakoti, þess efnis að laun hans og önnur starfskjör skyldu vera þau sömu eða taka mið af launakjörum forstjóra ríkisspítala, eins og þau væru á hverjum tíma, skipti máli fyrir niðurstöðu máls þessa í þeim skilningi að stjórn lífeyrissjóðsins hafi  við ákvörðun viðmiðunarlauna verið bundin af slíku samnings­ákvæði. Tilgangur eftirmannsreglunnar svonefndu í 35. gr. laga nr. 1/1997 er að verðtryggja lífeyri í samræmi við breytingar á launum fyrir það starf sem lífeyrisþegi hafði síðast með höndum eða hærra launað starf eða störf sjóðfélaga samkvæmt áðurgreindri undantekningarreglu í 6. mgr. 24. gr. laganna. Sé starf samkvæmt framangreindu ekki lengur til staðar, hvort sem það hefur verið lagt niður eða verulegar breytingar verið á því gerðar, ber við ákvörðun viðmiðunarlauna að leggja til grundvallar starf sem telja verður sambærilegt að eðli, umfangi og ábyrgð, samanber dóm Hæstaréttar í málinu nr. 344/2003: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins gegn Sigurði E. Guðmundssyni og þau laun sem greidd eru fyrir það starf á hverjum tíma. Framangreindur skilningur á sér stoð í ótvíræðu orðalagi 2. mgr. 35. gr. laga nr. 1/1997, tilgangi ákvæðisins og eðli máls.

  Ákvörðun stjórnar stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, þess efnis að launa­við­mið stefnanda við töku lífeyris skyldi vera starf framkvæmdastjóra Fjórðungs­sjúkrahúss Akureyrar var tilkynnt stefnanda með bréfi dags. 1. júlí 2004. Sú ákvörðun var tekin að undangenginni tillögu starfsnefndar sjóðsins og var í samræmi við hana. Fyrir liggur að stefnanda var gefinn kostur á að koma athuga­semdum á framfæri við starfsnefndina meðan mál stefnanda var þar til athugunar og meðferðar og við stjórnina áður en endanleg ákvörðun var tekin. Stefnandi nýtti sé rétt sinn í þessum efnum eins og nánar er rakið í lýsingu málsatvika hér að framan.

  Stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, bar við ákvörðun um viðmiðunar­starf vegna breytinga á lífeyri stefnanda samkvæmt svonefndri eftirmannsreglu skv. 35. gr. laga nr. 1/1997, að leggja til grundvallar heildstætt, hlutlægt og málefnalegt mat þannig að tryggt væri, eftir því sem unnt er, að viðmiðunarstarfið væri sambærilegt starfi stefnanda sem framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala að eðli, umfangi og ábyrgð, sbr. áður tilvitnaðan dóm Hæstaréttar í málinu 344/2003. Fyrir liggur að stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, lagði til grundvallar ákvörðun sinni um viðmiðunarlaun stefnanda, samanburð milli Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar og St. Jósefsspítala á fjölda sjúkrarúma, eðli starf­semi og fjárveitingar til hennar. Sá samanburður er takmarkaður miðað við gögn málsins en gefur þó ótvíræðar vísbendingar um að Fjórðungssjúkrahús Akureyrar hafi á árinu 1995 verið, að því er meginstærðir í rekstri varðar, stærra sjúkrahús en St. Jósefsspítali og eðli starfseminnar sambærilegt. Þá benda gögn málsins til þess að St. Jósefsspítali hafi á árinu 1995 haft mun umfangsminni rekstur með höndum en bæði Borgarspítali og ríkisspítalar. Fjórðungssjúkrahús Akureyrar er í dag næst stærsta sjúkrahús landsins, næst á eftir Landspítala-háskólasjúkrahúsi, en eins og áður er rakið varð Landspítali háskólasjúkrahús til við sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og ríkisspítala og er í dag langstærsta sjúkrahús landsins. Ekki verður hjá því komist að telja að starf forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss sé í dag mun umfangsmeira og því fylgi verulega meiri ábyrgð en staða framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala, Landakoti, þegar stefnandi lét þar af störfum í árslok 1995. Að leggja starf framkvæmdastjóra Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar til grundvallar breytingum á lífeyri til stefnanda verður samkvæmt framangreindu að teljast reist á málefnalegum rökum og frekar ívilnandi en íþyngjandi í garð stefnanda. Engin haldbær rök hafa verið færð fram fyrir því af hálfu stefnanda að framangreind ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi brotið gegn réttindum hans samkvæmt 72. gr. stjórnar­skrárinnar. Ber því samkvæmt öllu framangreindu að sýkna stefnda, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, af þeim þætti kröfugerðar stefnanda sem beinist eingöngu að lífeyrissjóðnum.

  Stefnandi beinir þeirri kröfu á hendur dómsmálaráðherra f.h. íslenska ríkisins og meðstefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, að viðurkennt verði með dómi að hlutfall lífeyris af viðmiðunarlaunum stefnanda, frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, skuli við það miðað að hann hefði haldið áfram störfum til 70 ára aldurs, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Af gögnum málsins kemur fram að stefnandi lét að eigin ósk af störfum héraðsdómara þann 1. maí 2004, þá 66 ára að aldri.

  Samkvæmt 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 myndi dómari, sem veitt væri lausn án eigin óskar, eignast rétt til eftirlauna til fullnaðs 70 ára aldurs. Krafa til slíkra eftirlauna myndi ekki stofnast á hendur Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins enda er hlutverk sjóðsins að greiða lífeyri en ekki eftirlaun eins og skýrt kemur fram í ýmsum ákvæðum laga nr. 1/1997 t.d. 1. mgr. 1. gr. Hin sameiginlega kröfugerð stefnanda í málinu á hendur íslenska ríkinu og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verður ekki skilin á annan veg en þann að stefnandi telji sig eiga rétt til eftirlauna skv. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 frá 1. maí 2004 til fullnaðs 70 ára aldurs. Samkvæmt framangreindu ber að sýkna stefnda, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, af umræddri kröfu sökum aðilaskorts.

  Í  4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla segir að heimilt sé að veita dómara lausn frá embætti án óskar hans, ef hann er orðinn 65 ára, en hann skuli þá upp frá því taka eftirlaun svo sem hann hefði gegnt embættinu til 70 ára aldurs, nema hann njóti ríkari réttar samkvæmt stjórnskipunarlögum. Um heimild til að veita dómara lausn frá embætti án þess að dómari óski þess er mælt í 3. ml. 61. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæði 4. mgr. 31. gr. laga nr. 15/1998 er ásamt ýmsum öðrum ákvæðum laganna ætlað að tryggja sjálfstæði dómstóla einkum gagnvart handhöfum framkvæmdavaldsins. Að baki reglunni liggja þannig veigamikil grunnrök sem ekki eiga við þegar dómari lætur af störfum að eigin ósk eins og í því tilviki sem hér er til umfjöllunar. Ekki verður með neinu móti séð að framangreind regla feli í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, eins og stefnandi heldur fram, enda nær reglan efni sínu samkvæmt til allra þeirra sem eins er ástatt um. Verður umrædd krafa stefnanda því ekki reist á þeim rökum.

  Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefndu, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og íslenska ríkið, af öllum kröfum stefnanda.  Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur til stefnda, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, og 150.000 krónur til stefnda, íslenska ríkisins.

  Mál þetta dæmdi Þórður S. Gunnarsson setudómari.

Dómsorð:

  Stefndu, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og íslenska ríkið skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Loga Guðbrandssonar. Stefnandi greiði stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, 250.000 krónur í málskostnað og stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað.