Hæstiréttur íslands
Mál nr. 217/2001
Lykilorð
- Víxill
|
|
Fimmtudaginn 22. nóvember 2001. |
|
Nr. 217/2001. |
María K. Thoroddsen(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.) gegn Búnaðarbanka Íslands hf. (Lárus L. Blöndal hrl.) |
Víxilmál.
B hf. höfðaði mál gegn M til heimtu skuldar samkvæmt tryggingarvíxli að fjárhæð 2.500.000 kr. Varnir þær sem fluttar voru fram af hálfu M voru ekki þess eðlis að þær fengju gegn andmælum B hf. komist að í víxilmáli, sbr. 118. gr. laga nr. 91/1991, og voru kröfur B hf. því teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. júní 2001. Hún krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hún þess að vera aðeins dæmd til greiðslu 1.000.000 króna án vaxta og kostnaðar og málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms með þeirri breytingu að dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 verði reiknaðir frá 15. október 1999 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með skírskotun til raka héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en dráttarvexti og málskostnað.
Áfrýjandi skal greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, María K. Thoroddsen, greiði stefnda, Búnaðarbanka Íslands hf., 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. október 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 300.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. apríl sl., var höfðað með stefnu, birtri 30. og 31. ágúst sl.
Stefnandi er Búnaðarbanki Íslands hf., kt. 490169-1219, Austurstræti 5, Reykjavík.
Stefnda er María K. Thoroddsen, kt. 260639-3669, Grundarlandi 15, Reykjavík.
Upphaflega var málið einnig höfðað á hendur Þórði Erni Arnarsyni en áður en málið var dómtekið var fallið frá kröfum á hendur honum og lögð fram kröfulýsing í þrotabú hans, dags. 14. febrúar sl.
Dómkröfur stefnanda:
Að stefnda verði dæmd til greiðslu víxilskuldar að fjárhæð 2.500.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 15. okt. 1999 til greiðsludags. Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 15. okt. 2000, en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefndu:
Aðallega krefst stefnda sýknu af öllum kröfum stefnanda og stefndi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að mati dómsins.
Til vara krefst stefnda þess að hún verði aðeins dæmd til að greiða stefnanda 1.000.000 kr. án vaxta og kostnaðar og málskostnaður verði í því tilfelli látinn niður falla.
Málavaxtalýsing og málsástæður stefnanda
Stefnandi höfðar mál þetta til heimtu skuldar samkvæmt tryggingarvíxli að fjárhæð 2.500.000 kr. Stefnandi segir víxilinn útgefinn í Reykjavík 15. sept. 1999 af Erni Ingólfssyni, kt. 180339-3889, og framseldum eyðuframsali af sama, ábektum af stefndu, Maríu K. Thoroddsen, og samþykktum af stefnda, Þórði Erni Arnarsyni, til greiðslu í Búnaðarbanka Íslands hf., Reykjavík þann 15. okt. 1999. Víxillinn var að sögn stefnanda afhentur Búnaðarbanka Íslands hf. til tryggingar á yfirdráttarskuld stefnda, Þórðar Arnar Arnarsonar, vegna Fógetans, veitingahúss, á tékkareikningi hans nr. 24248, við Búnðaðarbanka Íslands hf. Þann 30. júní 1998 hafi stefndu og útgefandi víxilsins, Örn Ingólfsson, undirritað tryggingarvíxilinn sem hafi verið óútfylltur um útgáfudag og gjalddaga. Tryggingarvíxillinn sé með heimild til stefnanda til útfyllingar og hafi heimildin gilt til 30. júní 2000. Vegna vanskila stefnda, Þórðar Arnar, á yfirdráttarskuldinni hafi víxillinn verið fylltur út og tékkareikningnum lokað. Þann 15. okt. 1999 hafi heildarskuld á tékkareikningi nr. 24248 numið 6.004.948,91 kr.
Málið kveðst stefnandi höfða á grundvelli víxillaga nr. 93/1933 og er það rekið samkvæmt þeim lögum og 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfu um málskostnað styður stefnandi vð 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og rökstuðningur stefndu
Stefnda kveðst hafa gerst ábekingur á víxlinum sem stefnandi byggir kröfur sínar á samkvæmt einlægri bón eiginmanns síns, Arnar Ingólfssonar, föður samþykkjanda víxilsins. Örn hafi látist nokkrum dögum síðar eða 11. júlí 1998. Stefnda kveðst hafa verið metin 75% öryrki hjá Tryggingastofnun ríksins frá 27. júlí 1994 og hafi hún engar atvinnutekjur.
Stefnandi hafi aldrei kynnt stefndu greiðslumat á stefnda, Þórði E. Arnarsyni, enda viti stefnda ekki til þess að það hafi farið fram svo sem skylt hafi verið samkvæmt samkomulagi Sambands íslenskra viðskiptabanka, Sambands íslenskra sparisjóða, Kreditkorta hf., Greiðslumiðlunar hf., Neytendasamtakanna og viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra af hálfu stjórnvalda.
Samkomulag þetta, sem dagsett er 27. janúar 1998, hefur verið lagt fram sem dskj. 7.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að téð samkomulag girði fyrir að stefnandi geti byggt málsókn sína alfarið á réttarfarsákvæðum 17. kafla laga nr.91/1991 um meðferð einkamála. Stefnda geti því komið að vörnum eins langt og ákvæði samkomulagsins nái.
Sýknukrafan er reist á því að það sé andstætt góðri viðskiptavenju hjá bankastofnun að taka á móti og byggja á ábyrgðarskuldbindingu frá atvinnulausum öryrkja. Því beri að víkja samningnum til hliðar í heild, sbr. ákvæði 36., 36. gr. a og 36. gr. c., laga nr. 7/1936. Varakrafa stefndu er byggð á framangreindu samkomulagi. Krafa um málskostnað er byggð á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Stefnandi hefur lagt fram víxilinn sem hann byggir kröfur sínar á. Útgefandi víxilsins var Örn Ingólfsson, samþykkjandi Þórður Ö. Arnarson og ábekingur stefnda, María Thoroddsen. Á viðfastri víxilsvuntu segir að viðfest víxileyðublað sé afhent stefnanda til tryggingar yfirdráttarskuld samþykkjanda á tékkareikningi hans nr. 24248. Víxileyðublaðið sé útfyllt með fjárhæð 2.500.000 kr. Jafnframt segir að verði vanskil á yfirdráttarskuldinni sé stefnanda heimlt að breyta skuldinni ásamt dráttarvöxtum og kostnaði í víxilskuld með útfyllingu þessa víxileyðublaðs að því er varðar útgáfudag og gjalddaga og gera það þannig að fullgildum víxli. Útfyllingarheimild þessi var óafturkallanleg og gilti til 30. júní 2000. Undir þessa yfirlýsingu, sem dagsett er 30. júní 1998, rituðu útgefandi, samþykkjandi og ábekingur.
Þannig hafði stefnandi heimild til þess að fylla út eyðublaðið hvað varðar útgáfudag og gjalddaga. Er því um að ræða lögformlegan víxil.
Málið er höfðað og rekið sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 118. gr. laga nr. 91/1991 eru tæmandi taldar þær varnir sem fást komist að í víxilmáli. Samkomulag það sem vísað er til af hálfu stefndu og lagt hefur verið fram sem dskj. 7 breytir ekki ákvæðum laga um meðferð víxilmála.
Varnir þær sem fluttar eru fram af hálfu stefndu eru ekki þess eðlis að þær fái gegn andmælum stefnanda komist að í víxilmáli, sbr. 118. gr. laga nr. 91/1991. Ber því að taka kröfur stefnanda til greina að öllu leyti.
Stefnda greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 250.000 kr. og hefur þá verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.
Málið dæmir Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefnda, María K. Thoroddsen, greiði stefnanda, Búnaðarbanka Íslands hf., 2.500.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. okt. 1999 til greiðsludags. Heimilt er að leggja áfallna dráttarvexti við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta skipti 15. okt. 2000.
Stefnda greiði stefnanda 250.000 kr. í málskostnað.