Hæstiréttur íslands

Mál nr. 631/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur
  • Frestdagur
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 9. desember 2011.

Nr. 631/2011.

Kristrún Grétarsdóttir

(Sigurður Gizurarson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Kærumál. Frestur. Frestun. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti.

K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem Í var veittur frestur til 25. nóvember 2011 til að skila greinargerð í máli K á hendur Í og T. Í dómi Hæstaréttar sagði að kæra og kærumálsgögn hefðu borist réttinum 28. nóvember 2011. Hefði þá verið liðinn sá frestur, sem Í hefði verið veittur og um væri deilt í málinu. K hefði því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að úrskurðurinn kæmi til endurskoðunar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti án kröfu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2011, þar sem varnaraðila, sakaukastefnda í héraði, var veittur frestur til að skila greinargerð til föstudagsins 25. sama mánaðar, þegar málið yrði næst tekið fyrir. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði synjað um frest til að skila greinargerð í málinu, en til vara að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og „héraðsdómara gert að kveða upp annan úrskurð í því horfi sem lög mæla fyrir um og út frá þeirri atvikalýsingu og lagaákvæðum sem liggja að baki mótmælum kæranda gegn því að kærða ríkinu verði veittur frestur til að skila greinargerð í málinu“. Í báðum tilvikum er aðallega krafist kærumálskostnaðar en til vara að hann falli niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málið var upphaflega höfðað af sóknaraðila gegn Tryggingastofnun ríkisins og varnaraðila og verður lagt til grundvallar að við þingfestingu þess 11. janúar 2011 hafi verið mætt af hálfu þeirra beggja. Í þinghaldi 8. mars 2011 lagði Tryggingastofnun ríkisins fram greinargerð og ýmis önnur skjöl. Var málinu í því þinghaldi vikið til úthlutunar dómstjóra. Í þinghaldi 9. maí 2011 krafðist sóknaraðili þess að málið yrði dómtekið gagnvart varnaraðila þar sem útivist hafi orðið af hans hálfu í þinghaldinu 8. mars 2011. Um þetta reis ágreiningur sem héraðsdómari tók til úrskurðar í þinghaldi 23. maí sama ár. Sama dag kvað hann upp úrskurð þar sem fallist var á með sóknaraðila að útivist hafi orðið af hálfu varnaraðila en málinu á hinn bóginn vísað frá dómi að því er varðaði kröfur á hendur ,,stefndu heilbrigðisráðuneytinu, félags- og tryggingamálaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, íslenska ríkinu og ríkissjóði.“ Þessi úrskurður var kærður til Hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu hans með dómi 29. júlí 2011 í máli nr. 370/2011.

Næst þegar málið var tekið fyrir 18. október 2011, eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir, lagði sóknaraðili fram óbirta sakaukastefnu á hendur velferðarráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins og ríkissjóðs. Í sakaukastefnunni, sem er mikil að vöxtum, eru kröfur í átta töluliðum. Þar kemur einnig fram að þess sé krafist að málið sé ,,aftur dómtekið“. Varnaraðili óskaði eftir fresti til þess að skila greinargerð en sóknaraðili andmælti því að slíkur frestur yrði veittur. Málinu var frestað til að úrskurða um þann ágreining. Málið var næst tekið fyrir 11. nóvember 2011 og var þá hinn kærði úrskurður kveðinn upp en með honum var varnaraðila veittur frestur til 25. nóvember 2011 til að skila greinargerð.

Þess er áður getið að kæra sóknaraðila og kærumálsgögn hafi borist Hæstarétti 28. nóvember 2011. Var þá liðinn sá frestur, sem varnaraðila hafði verið veittur og um er deilt í málinu. Sóknaraðili hefur þess vegna ekki lengur lögvarða hagsmuni af að úrskurðurinn komi til endurskoðunar og verður málinu því vísað frá Hæstarétti án kröfu.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Kristrún Grétarsdóttir, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2011.

Við fyrirtöku í máli þessu 18. október 2011 lagði lögmaður stefnanda fram sem  dómskjal nr. 58, sakaukastefnu á hendur íslenska ríkinu. Jafnframt afhenti hann  lögmanni stefndu, Tryggingastofnunar ríkisins, samrit sakaukastefnunnar. Í þinghaldinu óskaði lögmaður stefndu, Tryggingastofnunar ríkisins, eftir fresti til að skila greinargerð. Lögmaður stefnanda mótmælti því að frestur yrði veittur og krafðist þess að málið yrði dómtekið á hendur íslenska ríkinu.

Krafa lögmanns stefndu í þinghaldinu 18. október um frest til greinargerðar, í framhaldi móttöku samrits óbirtrar sakaukastefnu á hendur íslenska ríkinu, verður að skilja á þann veg að lögmaðurinn hafi mætt á dómþinginu f.h. sakaukastefnda, íslenska ríkisins, án undanfarandi stefnubirtingar, sbr. 4. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sakaukastefndi, íslenska ríkið, á rétt á hæfilegum fresti til að taka afstöðu til þeirra krafna sem sakaukastefnandi gerir í sakaukastefnu og eftir atvikum að leggja fram greinargerð í málinu, sbr. 1. og 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991. Telst sá frestur hæfilegur tvær vikur frá uppkvaðningu úrskurðar þessa. Kröfu um dómtöku málsins á hendur sakaukastefnda er hafnað með vísan til framanritaðs.

Þórður S. Gunnarsson settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist sökum embættisanna dómarans.

Úrskurðarorð

Sakaukastefndi, íslenska ríkið, fær frest til greinargerðar til föstudagsins 25. nóvember n.k., þegar mál þetta verður næst tekið fyrir í dómsal 302 kl. 10.20 f.h..