Hæstiréttur íslands
Mál nr. 7/2012
Lykilorð
- Sakarskipting
- Skaðabætur
- Fasteign
- Líkamstjón
Reifun
Skaðabætur. Fasteign. Líkamstjón. Sakarskipting.
A varð fyrir líkamstjóni er hann stökk yfir steinvegg við Fylkisheimilið og niður á steinsteypta stétt. Í viðurkenndi bótaskyldu og hafði greitt A skaðabætur sem námu ¾ hlutum af tjóni hans en taldi að A ætti sjálfur að bera ¼ hluta tjónsins vegna eigin sakar. Ljóst þótti að A hefði umrætt sinn verið undir áhrifum áfengis. Taldi Hæstiréttur að A hefði sýnt af sér verulegt gáleysi er hann tók þá hvatvísu ákvörðun að hlaupa í áttina að húsinu og stökkva yfir vegginn án þess að aðgæta hvernig aðstæður væru handan veggjarins. Þótti rétt að hann yrði látinn bera fjórðung tjóns síns sjálfur. Ekki voru talin efni til að beita lækkunarheimild í 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var Í því sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. janúar 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í málinu er ekki deilt um skaðabótaábyrgð áfrýjanda og hefur hann greitt stefnda skaðabætur sem nema ¾ af tjóni hans. Telur áfrýjandi að stefndi eigi sjálfur að bera ¼ hluta tjónsins vegna eigin sakar. Snýst meginágreiningur aðila um ætlaða eigin sök stefnda.
Atvik málsins eru að mestu óumdeild og eru þau rakin í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram slasaðist stefndi er hann stökk yfir steinvegg sem frá honum séð var 72 cm hár. Hinum megin reyndist veggurinn vera 3,82 m niður á steinsteypta stétt og féll stefndi þar niður. Ástæðu þess að hann stökk yfir vegginn kveður stefndi hafa verið þá að hann hafi ætlað að stytta sér leið.
Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla 25. september 2005 sem gerð var í kjölfar slyssins. Þar er haft eftir þremur nafngreindum vitnum að stefndi hafi slegist í för með þeim á leið þeirra á dansleik í Fylkisheimilinu. Hafi stefndi spurt þá hvort þeir vissu hvar Fylkisheimilið væri og þeir sagst vera á leið þangað. Hafi þeir boðið stefnda að að ganga með sér þangað. Þegar þeir hafi séð húsið og stutt hafi verið eftir af leiðinni hafi þeir horft á eftir stefnda þar sem hann hafi tekið á rás, hlaupið að aðalinnganginum og stokkið upp á umræddan vegg og þeir séð á eftir honum niður. Vitnin komu ekki fyrir dóm en stefndi lagði lögregluskýrsluna fram við þingfestingu málsins í héraði og hefur því sem haft var eftir vitnunum ekki verið andmælt. Verður því við það að miða að aðdragandi slyssins hafi verið sá sem vitnin lýstu.
Í lögregluskýrslu af stefnda, sem tekin var 6. október sama ár, kvaðst hann vita að hann hafi verið talsvert ölvaður en ekki gera sér grein fyrir hversu mikið hann hefði drukkið um kvöldið. Fyrir dómi sagði hann aðspurður um hvort hann hafi verið ölvaður þetta kvöld: „Já ég var búinn að fá mér eitthvað í glas.“ Af þessu þykir ljóst að stefndi var umrætt sinn undir áhrifum áfengis.
Þegar myndir þær sem teknar voru á slysstað eru skoðaðar sést að húsið, sem er á tveimur hæðum, stendur í halla og blasir við að veggurinn sem er áfastur við húsið er mun hærri en sá hluti hans sem sneri að stefnda. Stefndi, sem var ókunnugur aðstæðum, tók þá hvatvísu ákvörðun að hlaupa í áttina að húsinu og stökkva yfir vegginn án þess að aðgæta hvernig aðstæður voru handan veggjarins. Verður að telja að stefndi hafi með þessu sýnt af sér verulegt gáleysi. Verður hann því látinn bera fjórðung tjóns síns sjálfur. Ekki eru efni til að beita lækkunarheimild í 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í málinu.
Með vísan til þess sem hér var rakið verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda, en rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Íþróttafélagið Fylkir, skal vera sýkn af kröfu stefnda, A, í málinu.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2011.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 19. október sl., er höfðað af A, […], Reykjavík, með stefnu birtri 1. mars sl. á hendur Íþróttafélaginu Fylki, […] og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.158.554 krónur með 4,5% vöxtum af 281.680 krónum frá 25. september 2005 til 25. mars 2006 en af 1.158.554 krónum frá þeim degi til 23. ágúst 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að dómkröfur verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Málavextir
Hinn 25. september 2005 var stefnandi á leið á dansleik í félagsheimili íþróttafélagsins Fylkis í Árbæ. Hafði hann áður verið í samkvæmi í heimahúsi í Árbænum og fór gangandi þaðan á dansleikinn. Er stefnandi nálgaðist félagsheimilið virðist sem hann hafi ætlaði að stytta sér leið með því að stökkva yfir steinvegg, sem séð frá honum var 72 cm á hæð. Hinum megin við vegginn reyndust hins vegar vera 3,82 metrar niður á steinsteypta stétt og féll stefnandi þar niður. Er sjúkrabifreið kom á staðinn var stefnandi í hjartastoppi og andaði ekki. Hófust þá lífgunartilraunir og við komu á slysadeild var hann farinn að anda á ný. Við rannsókn reyndist hann óbrotinn en talsvert marinn á lungum. Í matsgerð tveggja lækna um afleiðingar slyssins var tímabundið atvinnutjón stefnanda talið 100% í sex vikur og þjáningatímabil tvær vikur rúmliggjandi en fjórar vikur án rúmlegu. Varanlegur miski var metinn til 12 stiga og varanleg örorka 5%. Stefnandi krafðist bóta úr ábyrgðartryggingu íþróttafélagsins Fylkis hjá stefnda og tók hann á móti bótum frá félaginu sem innborgun með fyrirvara um frekari bótakröfur vegna launaviðmiðs vegna bóta fyrir varanlega örorku, sem og vegna sakarskiptingar, en félagið taldi að stefnandi bæri ¼ hluta tjónsins sjálfur. Undir rekstri málsins náðist sátt um launaviðmið en eftir stendur ágreiningur um sakarskiptingu.
Fyrir dóminum gáfu skýrslu stefnandi og B framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Fylkis.
III
Málsástæður stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að hann beri enga sök á tjóni sínu heldur sé slys hans eingöngu að rekja til vanbúnaðar í nánasta umhverfi Fylkisheimilisins. Veggur sá er stefnandi hafi stokkið yfir hafi einungis verið 72 cm hár og því ekki fullnægjandi til að hindra að tjón yrði af fyrir gangandi vegfarendur. Hafi þeir mátt telja hæðina handan hans mun minni en hún raunverulega var. Hafi það verið óforsvaranlegt af rekstraraðilum Fylkisheimilisins að hafa ekki gert ráðstafanir til að varna því að slys verði, þ.e. að hækka vegginn eða koma fyrir grindverki til að verja fólk falli. Hafi þessar aðstæður verið slysagildra, sérstaklega í ljósi þess að hér er um að ræða íþróttahús þar sem er mikil umferð gangandi vegfarenda, einkum barna.
Stefnandi vísar til þess að í umfjöllun fréttastöðvar Stöðvar 2 um málið eftir atburðinn hafi komið fram í viðtali við framkvæmdastjóra íþróttafélagsins Fylkis að lengi hafi staðið til að lagfæra vegginn en ástæðan fyrir því að það hafði ekki verið gert væri sú að iðnaðarmaður sá er fenginn hafði verið til þess hefði ekki komist í verkið vegna anna.
Stefnandi bendir á að samkvæmt dómafordæmum hvíli ríkar skyldur á fasteignaeigendum og rekstraraðilum fasteigna til að rækja viðhald og umhirðu með fasteignum til að koma í veg fyrir að þeir sem erindi eigi í fasteignina og jafnvel þeir sem eigi leið hjá verði fyrir tjóni. Verði fasteignareigendur að haga aðgengi og öryggisráðstöfunum með tilliti til þess hvaða starfsemi sé rekin í fasteigninni. Á ljósmyndum af vettvangi sjáist að veggurinn hafi verið hækkaður í löglega hæð og beri slíkt vott um að félagið hafi vitað að aðstæðurnar voru ófullnægjandi. Verði á hinn bóginn talið að stefnandi hafi sýnt af sér eigin sök er í því tilliti vísað til ákvæðis 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um að líta megi að nokkru eða öllu leyti fram hjá því ef tjónþoli er meðvaldur að tjóni.
Málsástæður stefnda
Til stuðnings aðalkröfu sinni um sýknu vísar stefndi til þess að dómafordæmi sem vísað sé til í máli stefnanda hafi litla þýðingu varðandi það álitaefni sem hér sé til úrlausnar enda eigi dómarnir það allir sammerkt að hinn slasaði hafi athafnað sig með eðlilegum hætti. Því fari hins vegar víðs fjarri að svo hafi verið í tilviki stefnanda. Í fyrsta lagi hafi stefnandi verið ölvaður á ferð í svartamyrkri og algjörlega ókunnugur umhverfinu þegar hann hafi án fyrirvara tekið á rás frá samferðamönnum sínum. Í öðru lagi hafi hann stokkið yfir vegginn sem sé við inngang á efri hæð hússins án þess að huga nokkuð að því hvað væri handan hans. Í þriðja lagi mótmælir stefndi harðlega staðhæfingum stefnanda um að tjón hans verði eingöngu rakið til aðstæðna á slysstað. Þrátt fyrir að búið hefði verið að hækka vegginn um 40 cm, eins og til stóð, liggi ekkert fyrir um að það hefði breytt ákvörðun stefnanda um að stökkva yfir hann. Í fjórða lagi hafnar stefndi því alfarið að svo hafi virst sem gras væri handan við vegginn og ekki hátt fall. Loks telur stefnandi sýnt að beint orsakasamband hafi verið milli ölvunar stefnanda umrætt sinn og þeirrar hvatvísu ákvörðunar hans að stökkva yfir vegginn án þess að huga hið minnsta að umhverfinu og þeirri augljósu staðreynd að hann var staddur á stæði við aðra hæð hússins. Háttsemi stefnanda hafi því bæði verið ófyrirsjáanleg og óeðlileg vegna ölvunar hans og á engan hátt í samræmi við þær kröfur sem gera mátti til hans við umræddar aðstæður. Í ljósi framangreinds telur stefndi ljóst að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt gáleysi umrætt sinn og því ótækt annað en að hann beri fjórðung tjóns síns sjálfur.
Stefndi hafnar því alfarið að skilyrði beitingar 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt í máli þessu.
Til stuðnings varakröfu sinni um sakarskiptingu vísar stefndi til ofangreindra raka þ.e. að háttsemi stefnanda hafi ekki verið í samræmi við vinnureglur, leiðbeiningar, reynslu hans og þekkingu, almenna og sértæka.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og reglunnar um meðábyrgð tjónþola. Þá vísar hann til skaðabótalaga nr. 50/1993 og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra ólögfestra reglna íslensks réttar um skaðabætur. Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um hvort stefnandi skuli bera meðábyrgð á tjóni sem hann varð fyrir er hann stökk yfir steinvegg við félagsheimili íþróttafélagsins Fylkis í Árbæ og féll tæpa fjóra metra til jarðar. Hefur stefndi þegar viðurkennt að bera ábyrgð á ¾ hlutum tjónsins en telur að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt gáleysi umrætt sinn og rétt sé að hann beri fjórðung tjóns síns sjálfur.
Umrætt félagsheimili er á tveimur hæðum og stendur í halla. Þeim megin sem stefnandi kom gangandi að húsinu, að austanverðu, er gengið beint inn á aðra hæð þess. Steinveggurinn sem stefnandi stökk yfir er 72 cm hár, séð þeim megin frá sem hann fór yfir hann, frá jörðu að kanti. Veggurinn heldur hins vegar áfram niður hinum megin og er þar samtals 3,82 metrar á hæð, frá jörðu (steinstétt) að sama kanti. Stefnandi kveðst ekkert muna eftir slysinu en telur að hann hafi verið að stytta sér leið. Eftir slysið var járngrindverk sett ofan á vegginn. Fyrir framan vegginn er um 40 cm breitt blómabeð en það er ekki í rækt. Samkvæmt framburði framkvæmdastjóra stefnanda, B, átti blómabeðið að hindra að fólk færi upp að veggnum en það var troðið niður. Einn leigutaka hússins hafi m.a. sett reiðhjólagrind ofan á beðið. Í framburði hans kom jafnframt fram að til hefði staðið að hækka vegginn, með því að setja grindverk ofan á hann, en því verki var ekki lokið er slysið varð þar sem töf var á því að járnsmiðurinn kæmist í verkið.
Dómurinn fór á vettvang og skoðaði aðstæður. Að mati dómsins er erfitt fyrir þann sem er ókunnugur staðháttum að átta sig á að handan veggsins sé svo hátt fall sem raunin er. Ef staðið er í nokkurri fjarlægð frá veggnum virðist þannig vera gras hinum megin við hann en steinstéttin, sem stefnandi lenti á, er aðeins að hluta til undir veggnum. Að öðru leyti er svæðið handan veggsins þakið grasi sem hallar töluvert í áttina frá gangstétt á tvo vegu. Veggurinn sjálfur er áfastur félagsheimilinu öðrum megin. Þarf nánast að ganga alveg upp að veggnum til að sjá að handan hans sé steinstétt þó að dagsbirta sé eins og þegar dómurinn skoðaði aðstæður.
Við sakarmat verður að horfa til þess að fjöldi manns leggur leið sína í félagsheimilið. Nokkrum sinnum á ári eru haldnir þar dansleikir þar sem vín er haft um hönd. Máttu forsvarsmenn stefnda því búast við því að fólk undir áhrifum áfengis, sem sýndi ekki af sér fyllstu varkárni, væri á ferð við fasteign hans. Þá verður að horfa til framangreinds framburðar framkvæmdastjóra stefnda þess efnis að til hefði staðið að hækka vegginn en því verkið hefði ekki verið lokið er slysið varð. Verður það ekki skilið öðruvísi en svo að forsvarsmenn stefnda hafi talið að fólki hafi verið sérstök hætta búin á þeim stað sem stefnandi slasaðist. Með vísan til þessa er með öllu ófullnægjandi af þeirra hálfu að hafa ekki gert frekari ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu á því að fólk slasaðist á þessum stað við félagsheimilið. Verður það metið þeim til gáleysis. Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum um að stefnandi hafi ekki sýnt nægilega varúð í umrætt sinn og eigi að hluta sjálfur sök á slysinu. Að mati dómsins verður í þessu samhengi að horfa til þess að stefnandi var alls ókunnugur umhverfinu og að ekki er unnt að sjá fyrr en komið er alveg að veggnum að hann sé svo hár sem raunin er og að steinstétt sé handan hans. Þótt stefnandi hafi ekki farið þá leið sem ætlast var til heldur stokkið yfir vegginn, að því sem virðist til að stytta sér leið, verður með hliðsjón af öllum kringumstæðum ekki talið að hann hafi sýnt af sér slíkt gáleysi að hann eigi að bera meðábyrgð á tjóni sínu. Er því fallist á að stefndi verði dæmdur til að greiða honum fullar skaðabætur.
Af hálfu stefnda eru ekki gerðar tölulegar athugasemdir við kröfu stefnanda en fram kom af hálfu stefnda í málflutningi að upphaf dráttarvaxta ætti að miðast við síðara tímamark. Fyrir liggur að stefnandi sendi tryggingafélaginu bótakröfu með bréfi dagsettu 23. júlí 2010. Að mati dómsins lagði stefnandi þá fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta og ber því með hliðsjón af 9. gr. laga nr. 38/2001, laga um vexti og verðtryggingu, að dæma honum dráttarvexti af bótafjárhæðinni frá 23. ágúst 2010 eins og krafist er. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 1.158.554 krónur með 4,5% vöxtum af 281.680 krónum frá 25. september 2005 til 25. mars 2006 en þá af 1.158.554 frá þeim degi til 23. ágúst 2010, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 650.000 þar með talinn virðisaukaskattur.
Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Íþróttafélagið Fylkir, greiði stefnanda, A, 1.158.554 krónur með 4,5% vöxtum af 281.680 krónum frá 25. september 2005 til 25. mars 2006 en af 1.158.554 krónum frá þeim degi til 23. ágúst 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 650.000 krónur í málskostnað.