Hæstiréttur íslands
Mál nr. 396/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Dómkvaðning matsmanns
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2017 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómkvaddur verði hæfur og óvilhallur matsmaður til að meta forsjárhæfni sína. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila til að fá hann sviptan forsjá sonar síns, B, sem fæddur er árið [...]. Undir rekstri málsins krafðist sóknaraðili dómkvaðningar matsmanns en þeirri kröfu var hafnað með hinum kærða úrskurði.
Við meðferð málsins hjá varnaraðila var hann bundinn af reglum stjórnsýsluréttar, þar með talið rannsóknarreglunni, sbr. 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við þetta aflaði varnaraðili tveggja sálfræðilegra álitsgerða á forsjárhæfni sóknaraðila, annars vegar 14. mars 2016 og hins vegar 8. mars 2017. Sóknaraðili tók þátt í störfum þeirra sérfræðinga, sem fengnir voru til starfans, með viðtölum og með því að gangast undir sálfræðipróf. Ber að virða álitsgerðirnar í þessu ljósi þegar lagt er mat á hvort sönnunarfærsla sé tilgangslaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Um kröfu sóknaraðila um kærumálskostnað úr ríkissjóði er þess að gæta að samkvæmt 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga skal foreldri, sem aðild á að máli sem rekið er fyrir dómi eftir X. kafla laganna, njóta gjafsóknar í því í héraði og fyrir Hæstarétti. Ákvæði þetta hefur aðeins að geyma sérreglu um rétt manns til gjafsóknar, sbr. 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, sem gengur framar almennum reglum um skilyrði hennar samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar, en um gjafsóknina í tilviki sem þessu, þar á meðal veitingu hennar, gilda að öðru leyti almennar reglur XX. kafla sömu laga. Með því að sóknaraðila hefur ekki verið veitt gjafsókn samkvæmt þeim reglum verður hafnað framangreindri kröfu hans og verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2017.
Mál þetta var höfðað með stefnu útgefinni 15. maí 2017 og þingfestri 23. maí 2017 af Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík, á hendur A, [...]. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 123. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði sviptur forsjá sonar síns, B, kt. ..., sbr. a-, b- og d-liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaður úr hendi stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Í þinghaldi 30. maí 2017 lagði stefndi fram beiðni um að matsmaður yrði dómkvaddur til að skoða og leggja sálfræðilegt mat á forsjárhæfni stefnda. Stefnandi mótmælti beiðninni. Ágreiningur um þennan þátt málsins var tekinn til úrskurðar 12. júní 2017, að loknum munnlegum málflutningi.
I
Málið varðar [...] ára gamlan dreng, B, sem lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna, stefnda og C. Drengurinn á yngri bróður, D, sem fæddur er [...]. D hefur verið vistaður utan heimilis í tæpt ár með samþykki foreldra sinna.
B er greindur með einhverfu, málskilningsröskun, athyglisbrest með ofvirkni, álag í félagsumhverfi og tvítyngi. Drengurinn þarf bæði á stuðningi og þjálfun að halda, hvort sem er á heimili eða í skóla, á grundvelli viðurkenndra aðferða sem henta börnum með einhverfu, málhömlun og athyglisbrest með ofvirkni. Drengurinn er nemandi við [...] í [...]. Mál B og bróður hans hafa verið til vinnslu hjá Barnavernd Reykjavíkur frá því á vormánuðum 2015. Frá þeim tíma hafa borist á þriðja tug tilkynninga og bakvaktarskýrslna sem flestar varða áhyggjur af stefnda og drengjunum í umsjá hans.
Í nóvember 2015 var stefndi nauðungarvistaður á geðdeild í 21 dag. Samkvæmt bréfi geðlæknis 18. desember 2015 var stefndi þá metinn í maníu með geðrofseinkennum og greindur með geðhvarfaröskun og vímuefnavanda. Að nauðungarvistun lokinni var stefndi í meðferð á göngudeild Landspítalans hjá E geðlækni. Samkvæmt læknisvottorði hans, frá 26. janúar 2017, er stefndi greindur með áfengis- og vímuefnafíkn. Fram kemur þar að stefndi hafi ekki notað geðlyf frá vormánuðum 2016, hann sé í greinilegu bataferli. Þá voru engin merki um alvarlegan geðsjúkdóm í viðtölum í september og nóvember 2016. Á sama tíma hafi sjúkdómsinnsæi stefnda verið betra en nokkru sinni fyrr og færi vaxandi.
Stefndi kom lítið að umönnun drengsins árið 2015 vegna andlegrar vanheilsu og erfiðleika. Drengurinn, sem á lögheimili hjá stefnda, dvaldi með samþykki foreldra á Vistheimili barna frá 10. maí til 10. júlí 2016. Stefnandi úrskurðaði 6. júlí 2016 að drengurinn skyldi fara á heimili móður að lokinni dvöl á vistheimilinu.
Stefndi hefur verið með reglulega umgengni við drenginn frá því í september 2016, en þá hafði stefndi lokið afeitrun á Sjúkrahúsinu Vogi. Eftir að stefndi lauk þar meðferð hefur ekki leikið grunur á að hann hafi verið í vímuefnaneyslu. Stefndi hefur verið með umgengni við drenginn á heimili stefnda aðra hverja helgi frá enda janúar 2017 og hefur stuðningsúrræðið YLFA verið á heimilinu þegar umgengni hefur átt sér stað. Á meðal gagna málsins er greinargerð F þroskaþjálfa og G, þroskaþjálfa og sérkennara, báðar starfandi hjá YLFU vegna tímabilsins 14. janúar 2017 til 25. febrúar 2017, þar sem fram kemur að faðir sé ekki jákvæður gagnvart ráðgjöf þeirra og hafi oftast gefið lítið fyrir þá ráðgjöf sem veitt var.
Meðal gagna sem stefnandi lagði fram við þingfestingu var forsjárhæfnimat H, sálfræðings hjá Barnavernd Reykjavíkur, frá 14. mars 2016. Matið var unnið að beiðni Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og er það á meðal gagna málsins. Óskað var eftir því að greindarfarsleg og heilsufarsleg staða stefnda yrði athuguð, meðal annars með tilliti til geðræns hags stefnda. Þá var óskað mats á tengslum stefnda við drengina, styrkleika stefnda og veikleika í uppeldislegu tilliti sem og hæfni stefnda til að nýta sér meðferð og frekari stuðningsúrræði og þá hvaða. Jafnframt var óskað eftir mati á því hvort velferð og þroski drengjanna væru tryggð við þau uppeldisskilyrði sem stefndi gæti veitt og að endingu hvort stefndi byggi yfir nauðsynlegri og nægjanlegri hæfni til að veita drengjum sínum fullnægjandi uppeldisskilyrði í framtíðinni. MMPI-2 persónuleikapróf var lagt fyrir stefnda í matsvinnunni og voru niðurstöður þess að einkenni stefnda gætu endurspeglað geðræn ferli eða mjög sterk og varanleg skapgerðareinkenni. Í matsgerðinni kemur fram að batahorfur einstaklinga með þessi einkenni séu taldar litlar þar sem þeir hafi ekki áhuga á því að taka breytingum. Þá náðu niðurstöður DIP-Q persónuleikaprófs sem lagt var fyrir stefnda ekki viðmiðum persónuleikaröskunar en hækkanir voru á kvörðum um ofsóknarkennd. Í matsgerðinni kom fram að geðrænt heilsufar stefnda einkennist af geðhvarfasýki og telur sálfræðingurinn hugmyndir stefnda um lífið og tilveruna vera varanleg einkenni í skapgerð hans og þannig óháð örlyndishegðun hans. Því sé ekki unnt að vænta þess að það dragi úr tilvitnuðum hugmyndum stefnda jafnvel þótt það drægi úr örlyndi hjá stefnda. Í matsgerðinni kemur einnig fram að stefndi hafi ekki innsæi í geðrænt ástand sitt og að hann telji sig ekki þurfa á meðferð að halda vegna vanda síns. Því telur sálfræðingurinn ólíklegt að frekari meðferð eða stuðningsúrræði muni nýtast stefnda. Þó að ætla mætti að stefndi geti annast almennar þarfir drengsins og bróður hans þegar heilsa stefnda sé í lagi þá sé óvíst hversu góð heldni hans er í bata. Niðurstaða sálfræðingsins er sú að óvissa um stöðugleika geðrænnar heilsu stefnda og innsæisleysi hans dragi verulega úr forsjárhæfni stefnda.
Í málinu liggur einnig fyrir matsgerð dr. I sálfræðings frá 8. mars 2017. Barnavernd Reykjavíkur var þar matsbeiðandi og var óskað eftir því að forsjárhæfni stefnda, gagnvart syni hans, B, yrði metin út frá andlegri heilsu hans, helstu persónueinkennum, hæfni til tengsla og greindarfarslegri stöðu hans. Þá var óskað eftir mati á styrkleikum hans og veikleikum í uppeldislegu tilliti og hæfni til að annast og hafa innsýn í þarfir drengsins og hvort velferð hans og þroski væru tryggð við þau uppeldisskilyrði sem stefndi gæti veitt honum. Jafnframt var óskað eftir mati á hæfni stefnda til að nýta sér meðferð og stuðningsúrræði og þá hvaða úrræði gætu nýst honum best. Lagður var fyrir stefnda spurningalisti fyrir fullorðna ASR/18-59 og tekið var við hann geðgreiningarviðtal af tegundinni MINI-5. Í niðurstöðum matsgerðarinnar kemur fram að helstu persónueinkenni stefnda séu mikið stíflyndi, nær alger afneitun á eigin vanda, bæði í fortíð og nútíð, sem mætti líklega rekja til alvarlegs skorts stefnda á innsæi í eigin tilfinningar og líðan, og rík tilhneiging til að kenna öðrum um það sem miður fer. Tilvitnuð persónueinkenni stefnda hafi ótvíræð neikvæð áhrif á forsjárhæfni hans. Þá hafi stefndi ofsóknarkenndar hugmyndir sem væru alvarlegar og rótgrónar. Enn fremur er því slegið föstu að hugmyndir stefnda um orsakir einhverfu og aðferðir til að lækna einhverfu séu á skjön við vísindalega þekkingu og viðurkenndar meðferðarleiðir til að hafa jákvæð áhrif á uppeldi og umönnun barna með einhverfu. Innsýn stefnda í vanda drengsins væri því ekki aðeins takmörkuð heldur byggðist hún á röngum forsendum. Helstu niðurstöður matsgerðarinnar eru þær að ósveigjanleg viðhorf stefnda til fötlunar drengsins og skortur á innsæi í eigin erfiðleika dragi verulega úr hæfni hans til að annast drenginn og veita honum þá aðstoð sem hann þarfnist mjög, bæði í nútíð og framtíð. Þá er talið að velferð og þroski drengsins séu ekki tryggð við þau uppeldisskilyrði sem stefndi geti veitt honum. Þau persónueinkenni sem stefndi sýni bendi til þess að hann eigi mjög erfitt með að nýta sér meðferðar- og stuðningsúrræði, sem stefndi þó þarfnist, og telur sálfræðingurinn ólíklegt að stefndi sé fær um og vilji nýta sér þau.
II
Stefndi krefst þess nú að dómkvaddur verði einn óvilhallur matsmaður til að meta forsjárhæfni stefnda. Matsbeiðnin er lögð fram með vísan til 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 53. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Stefndi byggir á því að matsgerðin sem stefnandi aflaði árið 2016 gefi ekki skýra mynd af hæfi stefnda þar sem matsgerðinni hafi verið ætlað að meta sérstaklega forsjárhæfni stefnda með tilliti til beggja sona hans, B og D, sem gefi ekki algerlega rétta mynd af hæfninni þar sem D þurfi á mun meiri stuðningi að halda en B. Þá hafi margt breyst í högum stefnda frá þeim tíma sem matsgerðin hafi verið unnin og sýni gögn að hæfni hans til forsjár hafi aukist mikið frá þeim tíma. Þá sé matsgerðin frá mars 2017 háð þeim annmörkum að hún byggi að miklu leyti á matsgerðinni frá árinu 2016 sem skekki myndina. Þá sé matsgerðanna einhliða aflað af hálfu stefnanda og sé það skýlaus réttur stefnda að fá dómkvaddan óvilhallan matsmann sbr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Hafa verði í huga að verulega miklir hagsmunir séu í húfi fyrir bæði drenginn og stefnda. Nauðsynlegt sé að ótvíræð sönnun liggi fyrir við ákvarðanatöku í jafn miklu inngripi og forsjársvipting sé, einkum í ljósi þess að drengurinn kjósi að búa hjá föður sínum. Sé því nauðsynlegt að matsmaður verði dómkvaddur í málinu til að tryggja óyggjandi sönnun.
III
Stefnandi mótmælir fram kominni matsbeiðni stefnda og krefst þess að dómkvaðningu matsmanns verði hafnað. Um mótmæli sín vísar stefnandi til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um sé að ræða þarflausa sönnunarfærslu, enda liggi fyrir í málinu tvær matsgerðir um forsjárhæfni stefnda. Önnur þeirra sé afar nýleg eða frá 8. mars 2017 og unnin af dr. I sálfræðingi. Forsjárhæfnimat hans sé vandað og vel rökstutt, en við matsvinnuna hafi öll hefðbundin og viðeigandi sálfræðipróf verið lögð fyrir stefnda, s.s. greindarpróf, spurninga- og matslistar fyrir fullorðna, auk þess sem stefndi hafi farið í geðgreiningarviðtöl. Þá hafi stefndi engar athugasemdir gert við matsmanninn né við matsvinnuna á þeim tíma sem hún fór fram. Í ljósi þess að gögn málsins sýni að ekkert hafi breyst í aðstæðum stefnda frá því að tilvitnað forsjárhæfnimat fór fram og niðurstaða þess hafi legið fyrir, telur stefnandi engar málefnalegar ástæður eða þörf vera fyrir öflun nýs forsjárhæfnimats.
IV
Því hefur margsinnis verið slegið föstu í dómaframkvæmd að aðilar eigi, samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála, rétt á því að afla þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Almennt sé það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann. Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari hins vegar meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Sé svo ekki ástatt sem greinir í ákvæðinu er ekki girt fyrir að til viðbótar eldri matsgerðum, skýrslum eða greinargerðum sérfræðinga sé aflað nýrrar matsgerðar sem taki til annarra atriða en þeirra sem fyrir liggja í málinu.
Í matsbeiðni stefnda fyrir dómi er með almennum hætti óskað mats á forsjárhæfni stefnda. Eins og rakið hefur verið liggja hins vegar fyrir tvær matsgerðir sálfræðinga um forsjárhæfni stefnda, sem stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins, önnur frá því í mars 2016 og hin frá því í mars 2017. Matsgerðirnar eiga það sameiginlegt að fela í sér ítarleg svör við margþættum matsspurningum meðal annars um forsjárhæfni stefnda gagnvart drengnum. Matsgerðirnar fjalla auk þess báðar um geðræna hagi stefnda sem og vilja hans og færni til að sinna drengnum sem hefur sérþarfir, meðal annars með því að og nýta stuðningsúrræði sem honum standa til boða. Engin ástæða er til þess að draga í efa hæfi matsmanna og að réttilega hafi verið staðið að matsvinnu við báðar matsgerðirnar, svo sem stefndi byggir á, en til þess ber að líta að til grundvallar niðurstöðu þeirra liggja ýmis sálfræðipróf og rannsóknir á heilsu stefnda, stöðu hans og högum. Þá liggur ekkert fyrir um það í málinu að hagir stefnda hafi breyst frá því sem greinir í matsgerðunum, sér í lagi frá því að hin nýrri matsgerð var unnin.
Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 123. gr. laga nr. 91/1991 og þá liggur fyrir að samkvæmt 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga skal kveðja sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi við meðferð málsins. Þá er ljóst að líta verður til ákvæða einkamálalaga um heimild til skýrslutaka fyrir dómi, auk annarra úrræða til upplýsingar máls.
Með vísan til þess sem að framan greinir er beiðni stefnda, um dómkvaðningu matsmanns til að skoða og leggja sálfræðilegt mat á forsjárhæfni hans, hafnað.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Beiðni stefnda, A, um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.