Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-213
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Leigusamningur
- Aðild
- Uppsögn
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 20. júní 2019 leitar Landhelgisgæsla Íslands eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. maí sama ár í málinu nr. 659/2018: Landhelgisgæsla Íslands gegn Ómari Antonssyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ómar Antonsson leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um árlega greiðslu að fjárhæð 5.078.873 krónur fyrir leigu á svæði úr landi jarðarinnar Horns sem íslenska ríkið tók upphaflega á leigu árið 1953 undir ratsjárstöð bandaríska hersins á Stokksnesi. Gagnaðili er eigandi jarðarinnar. Með bréfi í febrúar 2016 tilkynnti leyfisbeiðandi gagnaðila að hann segði upp leigu á hluta af því landsvæði sem leigusamningurinn tók til og yrðu greiðslur hans framvegis skertar hlutfallslega því til samræmis. Þessu vildi gagnaðili ekki una og höfðaði hann málið í janúar 2017 til heimtu óskertrar leigu fyrir landið. Deila aðilarnir um hvort kröfu gagnaðila sé beint að réttum aðila, hvort leyfisbeiðanda hafi verið heimilt að segja upp samningnum að hluta og lækka þannig fjárhæð leigunnar og hvort gagnaðili hafi með athöfnum sínum eða athafnaleysi samþykkt slíka breytingu á samningnum. Héraðsdómur tók kröfu gagnaðila til greina meðal annars með vísan til þess að leyfisbeiðanda hafi skort heimild til að segja samningnum upp að hluta og ákveða fjárhæð leigugjalds einhliða. Þá var talið að gagnaðila hafi verið heimilt að beina kröfu sinni að leyfisbeiðanda einum. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með framangreindum dómi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu þar sem dómur Hæstaréttar myndi hafa fordæmisgildi bæði um álitaefni um leigu á jörðum og aðild íslenska ríkisins að dómsmálum. Telur leyfisbeiðandi mikilvægt að skýrt verði kveðið á um hvort hagnýting leigusala á leigðu landi í andstöðu við vilja leigutaka geti heimilað þeim síðarnefnda að skila því landi sem leigusalinn nýtir. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur enda hafi ekki með fullnægjandi hætti verið leyst úr þeirri málsástæðu hans að hagnýting gagnaðila á því landi sem leyfisbeiðandi telur sig hafa skilað feli í sér samþykki á fyrrnefndri ráðstöfun. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að málið hafi verulega almenna þýðingu þar sem hvorki leyfisbeiðandi né íslenska ríkið hafi aðrar leiðir til að gæta þeirra mikilvægu hagsmuna sinna sem felist í því að þurfa ekki að greiða leigu fyrir land sem leigusali hagnýtir en leigutaki ekki.
Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.