Hæstiréttur íslands

Mál nr. 298/2007


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Svipting ökuréttar
  • Kröfugerð
  • Öndunarsýni


         

Fimmtudaginn 22. nóvember 2007.

Nr. 298/2007.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson, ríkissaksóknari)

gegn

Sigvalda Einarssyni

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Svipting ökuréttar. Kröfugerð. Öndunarsýni.

 

S var sakfelldur fyrir ölvunarakstur en ekki var talið að haldbær rök væru til að vefengja niðurstöðu mælingar á magni vínanda í útöndunarlofti frá honum. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að S skyldi sæta 30 daga fangelsi vegna brotsins. Ákvæði héraðsdóms um ævilanga sviptingu ökuréttar var hins vegar fellt úr gildi þar sem í áfrýjunarstefnu hefði ekki verið vikið að kröfum ákæruvaldsins er lutu að ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu en S krafist fyrir Hæstarétti sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins.

    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. maí 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins. Endanleg krafa ákæruvalds er að staðfest verði sakfelling ákærða en þynging á refsingu og ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá 4. febrúar 2006.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

I.

          Ákærði Sigvaldi Einarsson var stöðvaður við akstur bifreiðar á Hálsabraut í Reykjavík að morgni 4. febrúar 2006 vegna gruns um að hann væri undir áhrifum áfengis. Hann var færður á lögreglustöð og látinn blása þar í mælitæki af gerðinni Intoxilyzer 5000 N til þess að mæla vínanda í útöndunarlofti. Niðurstaða þeirrar mælingar var 0,74 mg af vínanda í hverjum lítra útöndunarlofts og var hann af þeim sökum ákærður fyrir ölvun við akstur. Ákærði hefur vefengt niðurstöðu mælingarinnar og borið það fyrir sig að hann hafi drukkið áfengi kvöldið áður. Hafi vínandamettað loft úr meltingarvegi haft áhrif á mælinguna þar sem hann hafi þjáðst af vélindabakflæði. Í málinu liggur fyrir vottorð læknis sem staðfestir að ákærði sé með vélindabakflæði sem stafi af þindarsliti.

          Með lögum nr. 48/1997 um breytingu umferðarlögum nr. 50/1987 voru lögfest ákvæði um töku öndunarsýna og mælt fyrir um mörk vínandamagns í öndunarsýni ökumanna. Eftir breytinguna var svo á kveðið í 3. mgr. 45. gr. laganna að nemi vínandamagn í lofti, sem ökumaður andar frá sér, 0,6 milligrömmum í lítra lofts eða meira, teljist hann óhæfur til að stjórna ökutæki. Í ákvæðinu eru sömu mörk og fyrr varðandi magn vínanda í blóði. Samkvæmt 47. gr. laganna er lögreglumönnum heimilt að færa ökumenn til rannsóknar á öndunarsýni á sama hátt og til blóð- og þvagrannsóknar.

          Í dómum Hæstaréttar frá 18. mars 1999 í máli nr. 482/1998 og frá 21. október 1999 í máli nr. 265/1999 sem birtir eru í dómasafni þess árs á bls. 1270 og 3704 voru ekki talin viðhlítandi rök til að vefengja að almennt mætti mæla magn vínanda í lofti, sem maður andaði frá sér, með tæki af gerðinni Intoxilyzer 5000 N af nægilegri nákvæmni svo að lögfull sönnun teldist fengin um brot samkvæmt 45. gr. umferðarlaga.

          Af hálfu ákærða er því ekki haldið fram að rangt hafi verið staðið að mælingu með fyrrnefndu mælitæki sem notað var til að mæla vínanda í útöndunarlofti hans. Hann heldur því hins vegar fram að ekki sé tekið neitt tillit til þess að vélindarbakflæði geti truflað mælinguna.

          Þegar lögreglumenn stöðvuðu ákærða áður en hann var færður á lögreglustöðina á Hverfisgötu fannst áfengisþefur frá vitum hans. Ákærði viðurkenndi að hafa drukkið áfengi kvöldið áður. Hann gekkst undir öndunarpróf á vettvangi. Í lögregluskýrslu kom fram að niðurstaða öndunarprófs með S-D2 mæli hafi verið 1,5 ‰. Eins og áður segir var ákærði síðan færður á lögreglustöð þar sem honum var gert að gefa öndunarsýni í Intoxilyzer 5000 N og sýndi endanleg niðurstaða þeirrar mælingar 0,74 mg/l.

Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri á rannsóknarstofu Háskóla íslands í lyfja- og eiturefnafræði, gaf héraðsdómi skriflegt álit, sem hún staðfesti fyrir dómi, þar sem fram kom að afar ólíklegt væri að áfengi í maga truflaði mælingu af þessu tagi þegar fylgt væri vinnureglum lögreglu við hana.

Eins og greinir í héraðsdómi var í niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns, dr. med. Magnúsar Jóhannssonar prófessor við Háskóla Íslands, mæling á styrk áfengis í útöndunarlofti með tækjum af gerðinni Intoxilyzer 5000 N almennt talin vera mjög örugg. Var hætta á að áfengi bærist úr maga og upp í munn við vélindabakflæði þannig að truflaði mælinguna talin vera hverfandi. Fram kom hjá matsmanni fyrir dómi að enginn sé með áfengi í maganum í fimm til sex tíma eftir að drykkju líkur eins og miðað er við í vörn ákærða. Þetta hafi því ekki getað haft áhrif á mælinguna eins og hér stóð á.

          Af virtu öllu því, sem að framan er rakið, eru ekki komin fram haldbær rök til að vefengja niðurstöðu framangreinds mats og telst sannað að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis við akstur bifreiðar 4. febrúar 2006. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða.

          Samkvæmt sakarvottorði ákærða 22. ágúst 2007 var ákærði sviptur ökurétti í 18 mánuði 2. mars 1998 vegna ölvunaraksturs. Hann var á ný 30. maí 2001 sviptur ökurétti í þrjú ár vegna ölvunaraksturs. Þá gerði hann tvær sáttir hjá lögreglustjóra 29. apríl 2002 vegna sviptingaraksturs. Honum var 11. nóvember 2002 gerð sekt vegna aksturs sviptur ökurétti. Hann var dæmdur 10. apríl 2003 í fangelsi í einn mánuð vegna sviptingaraksturs. Loks var hann dæmdur 21. júní 2004 í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í eitt ár fyrir fjársvik.

          Í ljósi þess að ákærði ók ekki sviptur ökurétti í því tilviki sem hér um ræðir verður staðfest niðurstaða héraðsóms um refsingu hans.

II.

Í áfrýjunarstefnu var af hálfu ákæruvalds engin krafa gerð, er laut að niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um ævilanga sviptingu ökuréttar. Í greinargerð ákæruvalds fyrir Hæstarétti var á hinn bóginn gerð krafa um að ákvörðun um lengd ökuréttarsviptingar yrði staðfest. Í málflutningi var þessari kröfu breytt á þann veg að upphafstími sviptingar skyldi ekki miðaður við uppsögu héraðsdóms heldur við bráðabirgða­sviptingu ökuréttar 4. febrúar 2006.

Við meðferð opinberra mála verða ekki dæmdar aðrar kröfur á hendur ákærða en þær sem ákæruvaldið gerir. Af eðli máls leiðir, að ákæruvaldið getur fallið frá eða dregið úr kröfum í greinargerð sem áður hafa verið gerðar í áfrýjunarstefnu og verða þá ekki aðrar kröfur dæmdar en þær sem eftir standa, sbr. dóm Hæstaréttar frá 30. nóvember 2006 í máli nr. 163/2006. Á hinn bóginn verður ekki talið að ákæruvaldið geti aukið við kröfur sínar í greinargerð frá því sem greinir í áfrýjunarstefnu, svo sem gert var í máli þessu, sbr. dóm Hæstaréttar frá 31. maí 2001 í máli nr. 150/2001 sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 2207. Í ljósi þess hvernig málið er lagt fyrir verður fallist á kröfu ákærða um að ákvæði hins áfrýjaða dóms um sviptingu ökuréttar verði felld úr gildi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Sigvaldi Einarsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sviptingu ökuréttar ákærða er fellt úr gildi.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað. 

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 203.255 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur. 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2007.

Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 27. febrúar 2006 á hendur ákærða, Sigvalda Einarssyni, 020463-5119, Þverbrekku 2, Kópavogi, “fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni TK-446, að morgni laugardagsins 4. febrúar 2006, undir áhrifum áfengis (vínandamagn 0,74 mg í lítra útöndunarlofts) og án ökuréttar frá Þverbrekku 2 í Kópavogi uns lögregla stöðvaði aksturinn á Hálsabraut í Reykjavík.

Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48,1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44,1993, 2. gr. laga nr. 23,1998 og 8. gr. laga nr. 84,2004.”

Málavextir

             Fyrir liggur að ákærði ók bíl sínum, TK-446, laugardagsmorguninn 4. febrúar í fyrra, án ökuréttar frá heimili sínu í Kópavogi til Reykjavíkur þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn á Hálsabraut.  Þar sem grunur féll á hann um að vera undir áhrifum áfengis var hann færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu og fenginn til þess að blása í vínandamæli af gerðinni Intoxilyzer 5000N.  Sýndi vélin 0,74 mg af vínanda í hverjum lítra útöndunarlofts.  Hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að rangt hafi verið staðið að mælingunni. 

Við þingfestingu málsins neitaði ákærði því að hafa verið undir áhrifum áfengis.  Í því sambandi nefndi hann að hann hefði verið búinn að sofa í að minnsta kosti 5 tíma áður en hann fór af stað á bílnum.  Þá tók hann fram að hann hefði talið sig vera kominn með ökuréttindi aftur þar sem sviptingartíminn var liðinn og ekki áttað sig á því að hann þurfti að taka ökupróf aftur.  Síðar hefur ákærði borið það fyrir sig að mælingin umrædda hafi ekki gefið rétta niðurstöðu þar sem hann þjáist af svo nefndu vélindabakflæði en sá sjúkdómur geti hafa valdið því að vínandamettað loft úr maga hans hafi haft áhrif á mælinguna.  Hefur ákærði lagt fram læknisvottorð þar sem fram kemur að hann gengur með þindarslit (hiatus hernia) og þjáist af vélindabakflæði og tekur sýruminnkandi lyf þess vegna.  Þessi viðbára ákærða hefur orðið tilefni til talsverðrar rannsóknar meðan málið hefur verið til meðferðar fyrir dóminum, eins og nú skal greina.

  Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri á rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, hefur gefið skriflegt og staðfest álit á því hvort umrædd mæling kunni að vera röng af þessum sökum.  Vísar hún til tveggja erlendra rannsókna sem gerðar hafi verið á þessu, 1999 og 2001, þar sem samtímis hafi verið blóðsýni og sýni úr útöndunarlofti og borin saman.  Segir hún þessar rannsóknir hafa sýnt fram á að afar ólíklegt sé að áfengi frá maga trufli mælingu af þessu tagi, þegar fylgt er vinnureglum lögreglu við hana.

Ákærði krafðist þess að dómkvaddur yrði matsmaður til þess að svara þessu álitaefni.  Var kvaddur til verksins dr. med. Magnús Jóhannsson, prófessor við Háskóla Íslands, og beðinn um að svara þessari spurningu verjanda ákærða, sem fram kemur í bréfi hans, dagsettu 10. f.m.:

“Sýnir ölvunarmæling með útöndunarmælingu eins og þeirri sem notuð var af lögreglu í viðkomandi máli (Intoxilyzer 5000) daginn eftir drykkju sterkra drykkja sömu niðurstöðu og blóðrannsókn á sama tíma hjá Sigvalda?  Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir niðurstöðum úr hvorri rannsóknaraðferð fyrir sig.”

Ennfremur er þess óskað að þér látið á sama hátt í té álit yðar á því álitaefni hvort vínandaeimur úr meltingarvegi ákærða kunni að hafa blandast útöndunarlofti úr honum þegar hann blés í mælitækið og valdið því að vínandamagn í loftsýninu hækkaði.

Matsgerðin, sem dagsett er 7. þ.m., hljóðar svo:

“Efni: Matsgerð um áreiðanleika mætinga á vínandamagni í útöndunarlofti hjá einstaklingum með vélindabakflæði.

Settar voru fram eftirfarandi spurningar í bréfi yðar dags. 2. júní 2006: „Sýnir Ölvunarmæling með útöndunarmælingu eins og þeirri sem notuð var af lögreglu í viðkomandi máli (Intoxilyzer 5000N) daginn eftir drykkju sterkra drykkja sömu niðurstöðu og blóðrannsókn á sama tíma hjá Sigvalda? Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir niðurstöðum úr hvorri rannsóknaraðferð fyrir sig.” „Ennfremur er þess óskað að þér látið á sama hátt í té álit yðar á því álitaefni hvort vínandaeimur úr meltingarvegi ákærða kunni að hafa blandast útöndunarlofti úr honum þegar hann blés í mælitækið og valdið því að vínandamagn í loftsýninu hækkaði.”

Í eftirfarandi texta eru orðin áfengi, alkohól og etanól notuð sem samheiti.

Leitast verður við að svara þessum spurningum og er svörunum raðað niður á eftirfarandi hátt:

-áreiðanleiki mælinga í blóði

-áreiðanleiki mælinga í útöndunarlofti

-um vélindabakflæði

-um munn-alkohól

 

-hve lengi er alkohól í maga eftir að drykkju lýkur

-hvernig þarf að standa að mælingu í útöndunarlofti

-er hægt að sjá af mælingunni hvort munn-alkohól hefur truflað niðurstöðurnar

-um rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum vélindabakfæðis á mælingu alkohóls
í útöndunarlofti

-samantekt og niðurstaða

Áreiðanleikí mælinga í blóði

Mælingar á styrk áfengis í blóði með gasgreini hafa verið að þróast í nálægt 40 ár. Markmið þessarar aðferðar er að ákvarða styrk áfengis í blóðinu sem er háður heildarmagni áfengis í líkamanum. Þessi aðferð er mjög sértæk og nákvæm en það þýðir með öðrum orðum að engin önnur efni geta truflað mælinguna á etanóli og mælingaskekkja er mjög lítil. Þetta síðasta atriði má einnig skýra þannig að ef sama sýnið er tekið og mælt mörgum sinnum þá er ákaflega lítill mismunur á niðurstöðum mælinganna. Almennt er viðurkennt að þessi aðferð sé sú besta sem völ er á og þær rannsóknastofur sem mæla áfengi í blóði ökumanna og við þekkjum til nota allar þessa aðferð. Þessi aðferð er þannig sá gullstaðall sem aðrar aðferðir verða bornar saman við.

Áreiðanleiki mælinga í útöndunarlofti

Mæling á styrk áfengis í útöndunarlofti er einfaldari og mun fljótlegri aðferð en mæling á styrk í blóði með gasgreini. Slíkar aðferðir hafa verið að þróast í hartnær 30 ár. Markmið þessarar aðferðar er að ákvarða styrk áfengis í útöndunarlofti sem er háður heildarmagni áfengis í líkamanum. Hægt er að nota niðurstöður úr öndunarmæli til að reikna út ætlaðan styrk áfengis í blóði en slíkt er venjulega ekki gert vegna þess að slíkir útreikningar eru ekki nákvæmir. Þetta endurspeglast í umferðarlögum nr. 50/1987 þar sem styrkur áfengis í blóði er tilgreindur í ‰ (pro mille) en í útöndunarlofti í mg/1 (milligrömm í lítra lofts). Mæling áfengis í útöndunarlofti er almennt talin vera mjög sértæk og nákvæm þó hún jafnist ekki alveg á við mælingu í blóði með gasgreiningu að þessu leyti. Það sem einkum er talið geta truflað mælingu á styrk áfengis í útöndunarlofti er ef áfengi er í munni viðkomandi einstaklings þegar mælingin fer fram, s.k. munn-alkohól, sjá hér neðar.

Um vélindabakflæði

Vélindabakflæði er það kallað þegar hringvöðvi í efra magaopi starfar ekki eðlilega með þeim afleiðingum að magainnihald getur runnið upp í vélinda og jafnvel upp í munn og niður í barka. Óþægindi sem þessu fylgja eru einkum brjóstsviði og nábítur og auk þess súrt bragð í munni ef bakfæðið nær upp í munn og hósti og hæsi ef það nær niður í barka. Vélindabakflæði er algengur sjúkdómur og erlendar rannsóknir sýna að allt að 10% allra einstaklinga þjást af vélindabakflæði á einhverju stigi en sumir rannsakendur halda því fram að algengi sjúkdómsins sé enn hærra. Stór hluti þeirra sem hafa vélindabakflæði leita sér læknisfræðilegrar aðstoðar sem getur falist í lyfjameðferð, skurðaðgerð eða lífsstílsbreytingu.

Um munn-alkohól

Við áfengisdrykkju situr áfengi í munni og loðir við slímhúðir þar í vissan tíma eftir að drykkju lýkur. Þetta er kallað munn-alkohól. Sama gerist við vélindabakflæði ef áfengi er til staðar í maga að því tilskyldu að bakflæðið nái alla leið upp í munn, sem það gerir sjaldnast. Ef munn-alkohól er til staðar, hvort sem það er til komið vegna áfengisdrykkju eða bakflæðis, getur það hæglega mengað útöndunarloft með þeim afleiðingum að mæling í útöndunarlofti sýnir meiri styrk alkohóls en það sem svarar til styrks í blóði eða lofti í lungum. Að lokinni drykkju eða bakflæði upp í munn fellur magn munn-alkohóls hratt og er magnið hverfandi eftir 15 mínútur. Þetta hefur verið sýnt fram á með rannsóknum.  Í flestum löndum er þess vegna notuð sú vinnuregla að bíða og fylgjast með viðkomandi einstaklingi í a.m.k. 15 mínútur áður en mæling á áfengi með útöndunarmæli er framkvæmd. Einnig hefur verið bent á að meðan bakflæði á sér stað og í nokkurn tíma að því loknu muni viðkomandi einstaklingi reynast erfitt að blása í útöndunarmæli á þann hátt sem til er ætlast.

Hve lengi er alkohól í maga eftir að drykkju lýkur?

Margar rannsóknir sýna að eftir drykkju áfengis á fastandi maga frásogast áfengið hratt og berst út í blóðið. Þessum flutningi úr meltingarvegi út í blóðið er að miklu leyti lokið inna 60 mínútna frá drykkju. Ef drukkið er sterkt áfengi getur það ert slímhúð magans og valdið herpingi í neðra magaopi sem tefur fyrir frásogi. Það tefur líka fyrir frásogi ef áfengi er drukkið með mat eða eftir máltíð og þá getur einnig skipt máli hve stór máltíðin er og hver samsetning hennar er, einkum er talið að fitumagnið skipti máli. Gerðar hafa verið rannsóknir sem sýna að þegar áfengis er neytt að lokinni máltíð getur áfengi fundist í maga í margar klukkustundir við vissar aðstæður (þetta byggir aðallega á einni rannsókn á 7 einstaklingum við afbrigðilegar aðstæður). Við allar venjulegar aðstæður er áfengi þó horfið úr maga 1-2 klst. eftir að drykkju áfengis lauk að því marki að það geti truflað öndunarmælingu við bakflæði.

Hvernig þarf að standa að mælingu í útöndunarlofti

Flestir eru sammála um að ekki eigi að gera beinan samanburð á mælingum á áfengismagni í blóði og útöndunarlofti heldur líta á þetta sem tvær ólíkar aðferðir. Þetta endurspeglast í löggjöfinni (umferðarlög nr. 50/1987) þar sem gefin eru upp mörk fyrir styrk áfengis í blóði í ‰  (pro mille) og fyrir styrk áfengis í útöndunarlofti í mg/lítra lofts.

Styrkur í blóði er alltaf miðaður við bláæðablóð en styrkur í útöndunarlofti ákvarðast aðallega af slagæðablóði. Þarna getur einnig munað nokkru, einkum þegar styrkur alkohóls í blóði er að breytast hratt. Rannsóknir hafa sýnt að þegar styrkurinn er vaxandi í blóði, sýnir útöndunarmæling oft nokkru hærra gildi og öfugt þegar styrkur í blóði er fallandi. Þetta getur þurft að hafa í huga. Mikilvægt er að þegar styrkur áfengis er mældur í útöndunarlofti sé fylgt nákvæmlega, og í einu og öllu, fyrirfram settum verklagsreglum. Þær reglur sem snúa að því máli sem hér er til umfjöllunar eru mikilvægastar að fylgst sé með viðkomandi einstaklingi í a.m.k. 20 mín. áður en mæling fer fram og að gerðar séu tvær mælingar með um 2 mín. millibili.

Er hægt að sjá af mætingunni hvort munn-alkohól hefur truflað niðurstöðurnar

Ef munn-alkohól er til staðar þegar áfengi er mælt með öndunarmæli verður ferillinn sem tækið sýnir brattari en annars og oftast bylgjóttur. Innbyggður er í hugbúnað tækisins skynjari sem nemur þennan halla (e. slope-detector) og gefur til kynna að eitthvað sé athugavert við mælinguna ef þessi halli eða breytileiki í halla fer yfir viss mörk.  Í slíkum tilvikum þarf að endurtaka mælinguna. Einnig þarf að fylgjast með mismun á þeim tveimur mælingum sem eru gerðar og endurtaka mælinguna ef þessi munur fer yfir viss mörk. Þessar verklagsreglur, sem eru eins konar gæðaeftirlit, draga verulega úr hættunni á að munn-alkohól trufli mælingu en þær geta aldrei algerlega komið í veg fyrir að slíkt gerist.

Um rannsóknir sem gerðar hafa verið á hugsanlegum áhrifum vélindabakfæðis á mælingu alkohóls í útöndunarlofti

Einungis hafa verið gerðar tvær rannsóknir á öryggi mælinga á alkohóli í útöndunarlofti hjá einstaklingum með vélindabakflæði. Fyrri rannsóknin var gerð í Svíþjóð á 10 einstaklingum (S. Kechagias et al., J Forensic Sci, 1999, 44, 814-18) og sú síðari í Bandaríkjunum á einum einstaklingi (R.G. Gullberg, J Forensic Sci, 2001, 46, 1498-03). Báðar þessar rannsóknir eru vandaðar. Sænska rannsóknin var gerð á 10 einstaklingum sem voru allir með mikið vélindabakflæði og biðu eftir skurðaðgerð við því. Þátttakendur neyttu áfengis og að því loknu voru tekin blóðsýni og gerð öndunarmæling til að ákvarða styrk áfengis í blóði og útöndunarlofti á 5 mín. fresti í 2 klst. og síðan á 10 mín. fresti í aðrar 2 klst. Þetta var gert tvisvar og í síðara skiptið var reynt að framkvæma vélindabakfæði með þrýstingi á kviðarhol. Fjórir þessara einstaklinga fengu greinileg einkenni um vélindabakflæði. Ekki sáust í neinu tilviki greinileg merki um að vélindabakflæði með tilheyrandi munn-alkohóli hefði truflað mælingu í útöndunarlofti og hæstu mæligildin voru raunar aðeins lægri að meðaltali í þeim hluta rannsóknarinnar þar sem reynt var að framkalla bakflæði. Höfundar drógu þá ályktun að afar ólíklegt (e. highly improbable) verði að teljast að munn-alkohól vegna vélindabakflæðis geti truflað áfengismælingu í útöndunarlofti.

Bandaríska rannsóknin var gerð á einum einstaklingi með staðfest vélinda­bakflæði sem hafði mælst yfir leyfilegum mörkum við öndunarmælingu og féllst á að taka þátt í rannsókn gegn vægari refsingu. Gerðar voru viðamiklar rannsóknir á þessum einstaklingi og ekki sáust nein merki þess að vélindabakflæði hefði áhrif á ákvörðun áfengis í útöndunarlofti.

Þó að þessar tvær rannsóknir séu vandaðar í alla staði eru þær mjög takmark­aðar hvað varðar fjölda þátttakenda. Í báðum ritgerðunum er bent á þörf fyrir frekari rannsóknir með þátttöku fleiri einstaklinga með vélindabakflæði.

Samantekt og niðurstaða

Rannsóknir á hugsanlegum áhrifum vélindabakflæðis á ákvörðun áfengis í útöndunarlofti hafa verið gerðar en eru takmarkaðar.  Í þessum rannsóknum komu ekki fram nein merki um slík áhrif en ekki er þó hægt að útiloka að það geti gerst við mjög sérstakar aðstæður.

Mæling á styrk áfengis í útöndunarlofti með tækjum af gerðinni Intoxilyzer 5000N er almennt talin vera mjög örugg og hætta á að áfengi berist úr maga og upp í munn við vélindabakflæði og trufli mælinguna eru hverfandi.”

Prófessorinn hefur komið fyrir dóminn og staðfest matsgerð sína.  Segir hann að hægt sé að slá því föstu að vínandi úr meltingarvegi ákærða hafi, eins og á stóð, ekki getað truflað mælinguna, þótt almennt séð sé ekki hægt að útiloka að slíkt gerist.  Í tilfelli ákærða sé þetta útilokað vegna þess hve langt hafi liðið frá því hann neytti áfengis og þar til mælingin var gerð.  Hljóti allur vínandi að hafa þá verið horfinn úr maganum.

Ásmundur Jónsson lögreglumaður, sem hafði afskipti af ákærða hefur skýrt frá því að hann hafi fundið áfengisþef af ákærða þegar hann settist inn í lögreglubílinn í umrætt sinn.  Ekki kveðst hann hafa merkt önnur ölvunareinkenni á honum. 

Þorsteinn Jóhann Þorsteinsson lögreglumaður, sem einnig hafði afskipti af ákærða í umrætt sinn hefur skýrt frá því að hann muni ekki eftir því hvernig ákærði var á sig kominn þegar hann var tekinn í akstri.

Sveinn Erlendsson lögregluvarðstjóri, sem framkvæmdi mælinguna sem um ræðir, hefur skýrt frá því að áfengisþefur hafi verið af ákærða.  Ekki kveðst hann hafa merkt önnur ölvunareinkenni á honum. 

Niðurstaða

Ekkert hefur fram komið í málinu um það að ekki hafi verið rétt staðið að vínandamælingunni af hálfu lögreglunnar.  Þá hefur Magnús prófessor Jóhannsson, dómkvaddur matsmaður sagt að útilokað sé í tilfelli ákærða að vínandi úr meltingar­vegi hans hafi truflað mælinguna.  Ber að leggja mælinguna til grundvallar í málinu og telja sannað að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn í þeim mæli sem mælingin gaf til kynna.  Þá er sannað að hann hafði ekki gild ökuréttindi þegar þetta gerðist.  Hefur hann brotið gegn þeim ákvæðum umferðarlaga sem tilfærð eru í ákærunni.

Viðurlög og sakarkostnaður

Brot ákærða er ítrekað öðru sinni.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. 

Dæma ber ákærða til þess að vera sviptur ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja.

Dæma ber ákærða til þess að greiða 200.000 krónur í málsvarnarlaun til Helga Jóhannessonar hrl., og dæmast þau með virðisaukaskatti, og 138.440 krónur í annan sakarkostnað.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Sigvaldi Einarsson, sæti fangelsi í 30 daga. 

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja.

Ákærði greiði 200.000 krónur í málsvarnarlaun til Helga Jóhannessonar hrl., og 138.440 krónur í annan sakarkostnað.