Hæstiréttur íslands
Mál nr. 729/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Fasteign
- Afsal
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 7. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. október 2016, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi aðila við opinber skipti á dánarbúi foreldra þeirra. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að öðru leyti en því að þau krefjast þess aðallega að varakröfu varnaraðila um að honum verði lögð til landspildan J ,,verði vísað frá héraðsdómi, en til vara“ að þau verði sýknuð ,,af henni að svo stöddu.“ Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 25. október 2016. Hann krefst þess í fyrsta lagi að ákvæði hins kærða úrskurðar um að vísa frá dómi kröfum sínum vegna 14 hektara spildu úr landi K verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfurnar til efnismeðferðar. Í öðru lagi krefst varnaraðili þess aðallega að staðfest verði sú ákvörðun skiptastjóra 7. desember 2015 ,,að spilda D, 146 hektarar að stærð úr landi K, að meðtöldu J, að frádreginni stærð þeirra sumarhúsalóða, sem vísað er til í afsali frá 2. desember 2001“ tilheyri sér, en til vara að viðurkennt verði að við skipti á dánarbúinu skuli leggja sér út ,,hið svokallaða J úr spildu D í landi K.“ Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
I
Dánarbú hjónanna F og G var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms 6. september 2010, en aðilar málsins eru börn þeirra. Málsatvikum er lýst á greinargóðan hátt í hinum kærða úrskurði og eins og þar er rakið lýtur ágreiningur málsins að tvennu.
Í fyrsta lagi er ágreiningur með aðilum um hvort 14 hektara spilda úr landi jarðarinnar K sem hjónin F og G afsöluðu til einkahlutafélagsins I 13. mars 2006 tilheyri varnaraðila eða dánarbúinu. Félagið afsalaði henni til varnaraðila 12. ágúst 2014 og stendur ágreiningur um gildi afsalanna og túlkun á yfirlýsingum, gerðum í tengslum við þau. Þeim hluta málsins var vísað frá héraðsdómi án kröfu á þeirri forsendu að yrði fallist á kröfu varnaraðila um viðurkenningu á því að umrædd landspilda væri eign hans fælist í því viðurkenning á stofnun sérstakrar fasteignar með umræddri afmörkun í eigu hans án þess að gætt hafi verið fyrirmæla jarðalaga nr. 81/2004 eða annarra laga sem vísað er til í hinum kærða úrskurði.
Eins og áður greinir snýst ágreiningur aðila í þessum þætti málsins einkum um það hvort hin umdeilda landspilda tilheyri varnaraðila eða dánarbúinu. Þar sem skiptastjóri búsins beindi ágreiningsefninu til héraðsdóms á grundvelli 122. gr. laga nr. 20/1991 hafði dómurinn ótvírætt vald til að leysa úr því, sbr. og XVII. kafla laganna. Svo sem mál þetta er vaxið og án tillits til þess hvort fallist yrði á að varnaraðili hafi öðlast eignarhald á spildunni, meðal annars á grundvelli afsalsins til I 13. mars 2006 sem hann kveðst leiða rétt sinn frá, fælist samkvæmt framansögðu ekki í þeirri niðurstöðu viðurkenning á að stofnast hefði sérstök fasteign í eigu hans. Brast því skilyrði til að vísa þessum hluta málsins frá héraðsdómi og verður honum því vísað heim í hérað til efnislegrar meðferðar að nýju.
II
Í öðru lagi er ágreiningur milli aðila um hvort svonefnt J tilheyri dánarbúi F og G eða hafi verið hluti þess lands sem þau afsöluðu til varnaraðila 2. desember 2001 sem fyrirframgreiddum arfi. Með úrskurði héraðsdóms Suðurlands 18. apríl 2011, þar sem leiddur var til lykta ágreiningur um lögmæti afsalsins, var því slegið föstu að við skipti á dánarbúinu skyldi taka tillit til þess að varnaraðila hefði verið afsalað landinu ,,sem afmarkast eins og nánar greinir í afsalinu og meðfylgjandi uppdrætti“. Úrskurðurinn var ekki kærður og stendur hann því óhaggaður.
Í afsalinu 2. desember 2001 var landinu lýst sem ,,146 ha. landsspildu úr jörðinni K. Landsspilda þessi er á svokölluðum L, merkt D og afmörkuð með gulum lit á uppdrætti sem fylgir afsali þessu ... Erfðafjárskýrsla er útbúin og undirrituð vegna þessa fyrirframgreidda arfs.“ Handritað var á afsalið að frá drægjust fimm lóðir, ein sem væri 100 x 65 m og fjórar sem væru 100 x 60 m. Er fram komið í málinu að þennan texta ritaði lögmaður sá sem útbjó afsalið og er ágreiningslaust að lóðirnar, sem munu vera ætlaðar undir sumarbústaði, voru ekki hluti þess sem afsalað var. Í erfðafjárskýrslu sem undirrituð var sama dag var sú eign, sem greiddur var erfðafjárskattur af, tilgreind sem landspilda „merkt D úr jörðinni K“.
Eins og áður segir greinir aðila á um hvort J hafi verið hluti þess lands sem vísað var til í fyrrgreindu afsali og þar var nefnt L, en ekki er ágreiningur um afmörkun og legu nessins. Varnaraðili og bróðir aðila, E, báru báðir fyrir héraðsdómi að J hafi verið hluti af L, en einn sóknaraðila, D, bar á gagnstæðan veg. Vegna þessa ósamræmis hefur framburður þeirra þriggja ekki þýðingu við úrlausn um þetta atriði.
Þá eru aðilar ekki á einu máli um hvaða uppdráttur hafi fylgt afsalinu sem þar var vísað til. Halda sóknaraðilar því fram að um sé að ræða uppdrátt sem lögmaður þeirra lagði fram á skiptafundi í dánarbúinu 3. september 2015, en varnaraðili telur ósannað að sá uppdráttur hafi fylgt afsalinu. Yfirskrift umrædds uppdráttar er Landskiptakort. Var hann teiknaður í mars 1991 eftir loftmynd sem tekin var 31. ágúst 1986. Þar var gullitað svæði, merkt sem land G. Ágreiningslaut er að þar var átt við G heitinn og að J liggur utan hins litaða svæðis. Á hinn bóginn var þar ekki getið stærðar svæðisins. Fyrir héraðsdómi bar lögmaður sá er útbjó afsalið og erfðafjárskýrsluna að arflátar hafi viljað láta varnaraðila ,,fá L“. Hann kvað ekki hafa átt að undanskilja eitthvað annað frá svonefndum L en þær sumarhúsalóðir, sem ágreiningslaust er að ekki áttu að fylgja með í afsalinu. Lögmaðurinn sagði enn fremur að ef J hafi ekki verið ,,í þessum gula lit, þá tel ég að hljóti að vera mín sök ... því að það var L sem að kallaður var sem þau vildu ... afhenda E“.
Annar uppdráttur með yfirskriftinni Landskiptakort liggur frammi í málinu. Virðist þar vera um að ræða samrit fyrrgreinds uppdráttar, að því frátöldu að á þessum uppdrætti var stærð landsvæðis merkt sem D og land G sagt vera 146 hektarar. Hvorugur þessara uppdrátta var hnitasettur. Á loftljósmynd sem tekin var 8. júlí 2011 kemur fram að landsvæði sem merkt er K sé 144,5 hektarar að stærð að meðtöldu því svæði sem aðilar eru sammála um að sé J. Ljósmyndin er hnitasett og verður af henni ráðið að um sama landsvæði sé að ræða og á framangreindum uppdráttum.
Eins og að framan er rakið afsöluðu arflátar varnaraðila 146 hektara landspildu úr jörðinni K. Samkvæmt texta afsalsins, þar sem hið afsalaða var tilgreint sem landspilda D, var ekkert undanskilið nema fyrrgreindar sumarhúsalóðir. Þá bendir stærð lands þess sem afsalað var eindregið til að ekki hafi verið ætlun arfláta að undanskilja svonefnt J, en ekki mun vera ágreiningur með aðilum um legu nessins og afmörkun þess. Enn fremur rennir framburður lögmanns þess sem sá um gerð afsalsins stoðum undir að ætlun arfláta hafi ekki verið að undanskilja neitt þeim 146 hekturum sem afsalað var, nema fyrrgreindar lóðir undir sumarbústaði. Að öllu framanrituðu virtu er staðfest ákvörðun skiptastjóra dánarbúsins 7. desember 2015 um að landspilda 146 hektarar að stærð úr jörðinni K, að meðtöldu J en að frádregnum áðurnefndum sumarhúsalóðum, tilheyri varnaraðila.
Málskostnaðarákvæði hins kærða úrskurðar er staðfest, en kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar frávísun á kröfu varnaraðila, E til 14 hektara spildu úr landi K og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar.
Staðfest er ákvörðun skiptastjóra dánarbús F og G 7. desember 2015 um að landspilda 146 hektarar að stærð úr jörðinni K, að meðtöldu J en að frádregnum þeim sumarhúsalóðum sem vísað var til í afsali 2. desember 2001, tilheyri varnaraðila.
Málskostnaðarákvæði hins kærða úrskurðar er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. október 2016
Mál þetta barst dómnum 21. janúar sl., með bréfi skiptastjóra, dagsettu 20. sama mánaðar. Með því beindi skiptastjóri til dómsins ágreiningi sem risið hafði milli erfingja dánarbús G og F, þeirra A, B, C, D og E, við opinber skipti á dánarbúi foreldra þeirra. Vísaði skiptastjóri til 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991.
Málið var þingfest 2. mars sl., og tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð málsins þann 15. september sl. Málið var endurupptekið þann 12. mars sl. Að fenginni sameiginlegri bókun lögmanna aðila var málið tekið til úrskurðar að nýju.
Með vísan til kröfugerða erfingja dánarbúsins, aðila þessa máls, er ágreiningur þeirra í fyrsta lagi um eignarhald á 14 hektara spildu úr landi K, þ.e. hvort spildan tilheyri dánarbúinu eða erfingjanum E, en skiptastjóri tók þá ákvörðun, sbr. bréf hans til lögmanna aðila, dags. 7. desember 2015, að spildan teljist hluti af eignum dánarbúsins. Sóknaraðili í þessum hluta málsins er E, en varnaraðilar A, B, C og D.
Í öðru lagi er ágreiningur um hvort J teljist hluti þess lands sem E fékk afhent sem fyrirframgreiddan arf samkvæmt afsali dags. 2. desember 2001. Skiptastjóri ákvað, sbr. áðurnefnt bréf hans til lögmanna aðila, að spilda D, 146 hektarar að stærð að frádreginni tilgreindri stærð þeirra sumarhúsalóða sem vísað er til í afsalinu frá 2. desember 2011, tilheyrði E. Sóknaraðilar í þessum hlut málsins eru A, B, C og D, en varnaraðili E.
Í báðum tilvikum krefjast aðilar, sóknar- og varnarmegin, málskostnaðar úr hendi gagnaðila.
Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 6. september 2010 var bú hjónanna G, sem lést þann [...] , og eiginkonu hans, F, sem lést þann [...], tekið til opinberra skipta og Óskar Sigurðsson hrl., skipaður skiptastjóri. Erfingjar búsins eru börn þeirra hjóna, A, B, C, D, E og M. Í bréfi skiptastjóra til dómsins, dags. 20. janúar sl., kom fram að á skiptafundi 14. september 2015 hafi verið samþykkt að greiða erfingjanum M arfshluta hans í dánarbúinu og sé hann því ekki lengur aðili að dánarbúinu né skiptum þess.
Þrívegis áður hafa verið rekin mál vegna dánarbúsins fyrir dómi þessum, nú síðast í máli Héraðsdóms Suðurlands nr. Q-3/2014, þar sem leyst var úr þremur ágreiningsmálum sem skiptastjóri dánarbúsins vísaði til dómsins. Úrskurður dómsins, uppkveðinn 8. desember 2014, var kærður til Hæstaréttar Íslands. Með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 30. janúar 2015 í málinu nr. 24/2015, kom til endurskoðunar eitt af ágreiningsefnunum, þ.e. tekin var til greina krafa erfingjanna A, B, C og D um að þeim yrði sameiginlega og að óskiptu lagðar út við skipti á dánarbúinu allar efnislegar eignir búsins að undanskilinni spildu úr landi jarðarinnar K, í eigu E, og þeim eignum sem kaupréttur D tæki til samkvæmt kaupsamningi 19. apríl 1991.
Aðilarnir E og D gáfu skýrslu fyrir dómi. Einnig gáfu skýrslu vitnin N hæstaréttarlögmaður, M, bróðir málsaðila, og P, frændi málsaðila.
I. Ágreiningur um 14 hektara spildu úr landi K
Málsatvik
Af gögnum málsins má ráða að á skiptafundi 14. september 2015 hafi komið upp ágreiningur um 14 hektara spildu úr landi K sem E hafði gert tilkall til. Í máli þessu liggja frammi fimm skjöl, þrjú afsöl, uppdráttur og yfirlýsing, sem öll tengjast ágreiningi aðila um framangreinda spildu.
Í fyrsta lagi afsal, dags. 13. mars 2006, milli G annars vegar, sem F heitin undirritar einnig, og I., hins vegar, þar sem G selur og afsalar til I., „Landspildu um 14 ha úr fasteign nr. 199008. Landsspildan afmarkast af [...] í [sic] að austan, að landamerkjum við K að sunnan, að skurðum að vestan og að landamerkjum við land K að norðan. Spildan er afmörkuð og lituð á uppdrætti sem fylgir afsali þessu.“ Fram kemur að ekki hafi verið útbúið stofnskjal vegna spildunnar en N hæstaréttarlögmanni veitt umboð til þessa verks fyrir hönd afsalshafa. Þá segir: „Eignin var afhent afsalshafa þann 1. mars 2006 til afnota og hirðir hann arð eignarinnar frá þeim degi og ber af henni skatta og skyldur, en afsalsgjafi til þess dags. Við afsalsgerð þessa liggur frammi veðbókarvottorð sem sýnir að eignin er veðbandalaus. Afsalshafi hyggst reisa stöðvarhús og önnur virkjunarmannvirki á spildunni. Kaupverð hennar er að fullu greitt með því að afsalsgjafi, eða sá sem hann vísar til, fær hlutdeild í væntanlegu rekstrarfélagi virkjunnarinnar. [sic] Að öðru leyti en að ofan greinir er eigninni afsalað án kvaða eða veðbanda og lýsir afsalsgjafi afsalshafa réttan og lögmætan eiganda framangreindrar eignar.“ Fyrir liggur að afsali þessu var ekki þinglýst. Í öðru lagi liggur frammi teikning Verkfræðistofu [...], dags. 23. mars 2008, sem sýna á afmörkun spildunnar og óumdeilt er að fylgdi framangreindu afsali. Á teikningunni eru tilgreind hnit hornapunkta lóðarinnar.
Í þriðja lagi afsal, dagsett sama dag, þ.e. 13. mars 2006, milli I., og afsalsgjafa, þ.e. eigenda E, landnr. [...], þeirra D og R, eiganda K II, landnr. [...], þ.e. arfláta þessa máls og eiganda T, landnr. [...], í eigu [...]. Í afsalinu segir að afsalsgjafar lýsa því yfir að þeir afsali öllum virkjunar- og vatnsréttindum sínum í [...] til afsalshafa eins og nánar greinir í afsalinu. Jafnframt er í skjalinu afsalað rétti til nýtingar lands undir mannvirki vegna virkjunarinnar og loks rétti til umferðar um land afsalsgjafa vegna virkjunarinnar. Þá segir í afsalinu: „Afsal þetta er án allra kvaða og skilyrða af hálfu afsalshafa að öðru leyti en því að eigi síðar en þegar afsalshafi hefur lokið við byggingu virkjunar í ánni skal hann greiða afsalsgjöfum fullt verð fyrir virkjuinarréttinn.[sic] [...] Hafi afsalshafi ekki fengið leyfi til virkjunar [...] eftir 4 ár frá útgáfudegi afsals þessa fellur afsalið niður og falla vatnsréttindin þá aftur endurgjaldslaust til afsalsgjafa.“ Afsalið ber með sér að því hafi verið aflýst úr þinglýsingabók sýslumannsins á Selfossi 31. ágúst 2012 .
Í fjórða lagi er meðal gagna málsins skjal sem ber heitið „Yfirlýsing vegna afsals virkjunarréttar og landsspildu úr landi K landnr. [...]“, dags. 13. mars 2006, undirritað af arflátum í máli þessu, G og F, forsvarsmönnum I., og sóknaraðila E. Þar segir: „Með tveimur afsölum dags. í dag hefur G kt. [...] afsalað til I kt. [...], virkjunar- og vatnsréttindum í [...] og jafnframt landsspildu, um 14 ha undir stöðvarhús og virkjunarmannvirki. Ef það tekst að koma upp virkjun í [...] skal afsalsgjafi eiga val um það hvort hann óskar eftir því að fá eingreiðslu, fá greiddan árlegan arð af virkjuninni eða hvort hann vill fá hlutdeild í rekstrarfélagi virkjunarinnar. Gjalddagi endurgjaldsins vegna landsspildunnar skal vera þegar leyfi fæst til virkjunarinnar. Gjalddagi endurgjaldsins vegna virkjunar og vatnsréttindanna skal vera 3. mánuðum eftir gangsetningu virkjunar. G lýsir því yfir að hann framselur allan rétt sinn til endurgjalds, bæði vegna vatns og virkjunarréttarins og vegna landsspildunnar til E kt. [...]. Kemur E að öllu leyti í stað Ggagnvart I.“
Í fimmta lagi er afsal, dags. 12. ágúst 2014, milli I annars vegar og sóknaraðila R hins vegar þar sem hinni umdeildu 14 ha landspildu er afsalað til sóknaraðila. Þar segir: „O ehf kt [...] gerir með afsalsbréfi þessu kunnugt að félagið afsalar til E kt [...]: Landsspildu um 14 ha úr fasteign nr. [...]. [..]. Afsalsgjafi eignaðist lóðina með afsali frá G dags. 13. mars 2006 sem fylgir afsali þessu. Samkvæmt yfirlýsingu sem undirrituð var sama dag framseldi G allan rétt sinn til endurgjalds vegna spildunnar til sonar sins [sic] E kt. [...]. Þar sem ekki hefur tekist að koma upp virkjun í [...] er landsspildunni og öllum réttindum sem henni fylgja, því afsalað til E, án nokkurs endurgjalds til I Afhending er við undirritun afsals þessa. Afsalshafi greiðir skatta og skyldur af eigninni frá afhendingardegi og hirðir arð af henni frá sama tíma. Samkvæmt framansögðu lýsir I, afsalshafann, E réttan og lögmætan eiganda ofangreindrar landsspildu úr landi nr [...].“
Með bréfi skiptastjóra til lögmanna aðila þessa máls, dags. 7. desember 2015, er meðal annars gerð grein fyrir afstöðu skiptastjóra til framangreinds ágreiningsefnis. Þar kemur fram sú skoðun skiptastjóra að spildan sé hluti af landi K og því hluti af eignum dánarbúsins. Landið hafi einnig verið hluti af eignum búsins, sem S hafi metið, og síðar hinir dómkvöddu matsmenn. Þá sé óumdeilt að spildunni hafi aldrei verið skipt með formlegum hætti úr landi jarðarinnar í samræmi við áskilnað 12. og 13. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Auk þess hafi endurgjald spildunnar í upphaflegu afsali verið bundið hlutdeild í rekstarfélagi vegna virkjunar [...], sem ekki hafi orðið af innan skilgreinds tímamarks, sbr. annars vegar afsalið milli G heitins vegna K, landnr. [...] og I og hins vegar afsalsins milli G heitins, eiganda K, landnr. [...], F eiganda jarðarinnar K II, landnr. [...], og eiganda T annars vegar og I, hins vegar. Vísar skiptastjóri til þess að skuldbindingagildi skjalsins virðist hafa verið bundið fyrirvara um atvik sem ekki hafi gengið eftir og því sé gildi gerningsins niður fallið, sbr. 8. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 758/2012. Þá sé ljóst að I., hafi ekki haft heimild til framsals spildunnar eftir að dánarbú G og F hafi verið tekið til opinberra skipta. Því verði spildan talin hluti af eignum dánarbúsins við skiptin. Sóknaraðili E eða eftir atvikum I., verði að beina kröfum sínum um meint eignarréttartilkall að þeim erfingjum sem erfa fasteignir búsins.
Í lok bréfs skiptastjóra til lögmanna aðila óskaði skiptastjóri eftir afstöðu erfingja eigi síðar en 11. desember 2015. Samkvæmt gögnum málsins bárust skiptastjóra svör lögmannanna með tölvupósti 15. og 17. þess mánaðar. Að þeim fengnum lá fyrir að ágreiningur var milli erfingjanna A, B, C og D annars vegar og E hins vegar um eignarhald umræddrar 14 hektara spildu úr landi K.
Kröfugerð sóknaraðila
Sóknaraðili E krefst þess aðallega að ákvörðun skiptastjóra frá 7. desember 2015, um að 14 hektara spilda úr landi K sé eign dánarbúsins, verði felld úr gildi. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að umrædd 14 hektara spilda, eins og hún er afmörkuð í afsali dags. 13. mars 2006 til I ehf., og sýnd á uppdrætti VST, dags. 23. mars 2006, sé eign sóknaraðila. Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að við opinber skipti dánarbúsins skuli leggja honum út 14 hektara spildu í land K, eins og hún er afmörkið í afsali dags. 13. mars 2006 til I., og sýnd á uppdrætti VST, dags. 23. mars 2006.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að í málinu liggi fyrir afsal frá arflátum til I., dags. 13. mars 2006, um hina umræddu 14 hektara spildu úr landi K og að gildi afsalsins hafi ekki verið dregið í efa. Í afsalinu komi fram að kaupverð spildunnar skuli greitt með því að afsalsgjafi, eða sá sem hann vísi til, fái hlutdeild í rekstrarfélagi virkjunar sem fyrirhugað var að reisa á spildunni. Í lok afsalsins sé afsalshafi lýstur eigandi án annarra skilyrða. Enginn fyrirvari komi fram í afsalinu um að það falli niður verði virkjun ekki byggð. Afsalið sé því að fullu gilt og gildi einu hvort kaupverðið hafi verið greitt eða ekki, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002, og meginreglur kauparéttar um útgáfu afsals.
Vísar sóknaraðili til þess að dánarbúið eigi ekki aðrar kröfur en arflátar né geti dánarbúið eða erfingjar byggt á öðrum sjónarmiðum en arflátar, þ.m.t. grandleysi. Það að gögnum um þetta hafi ekki verið þinglýst hafi enga þýðingu um skuldbindingagildi afsalsins. Sama gildi um það þó spildunni hafi ekki verið skipt út úr jörðinni. Því sé dánarbúið skuldbundið af afsalinu eins og arflátar. Þá hafi arflátar, með yfirlýsingu dags. 13. mars 2006, afsalað öllum rétti til endurgjalds til sóknaraðila, þ.e bæði vegna vatns- og virkjunarréttar sem og hinnar umdeildu spildu. Rétturinn til virkjunar og vatnsréttar sé fallinn niður samkvæmt ákvæði þess efnis í afsali þar um frá 13. mars 2006. Það gildi hins vegar ekki um réttinn til spildunnar sem hvorki sé skilyrt með greiðslu né að virkjun verði byggð. Það hafi enga þýðingu fyrir dánarbúið eða varnaraðila í þessum þætti málsins hvort kaupverðið hafi verið greitt eða ekki, það sé eingöngu mál sóknaraðila sem einn hafi átt rétt til greiðslu þess. Þessu til viðbótar hafi I ehf., með afsali þann 12. ágúst 2014, afsalað spildunni til sóknaraðila og rétturinn til greiðslu fyrir spilduna og eignarhald hennar því kominn á hendur sama aðila, þ.e. sóknaraðila, og hann því ótvírætt eigandi spildunnar.
Sóknaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu skiptastjóra dánarbúsins að spildan sé eign dánarbúsins. Sú fullyrðing sé röng og í andstöðu við fyrirliggjandi gögn. Þá hafi það enga þýðingu að spildan hafi verið metin sem hluti af stærri spildu. Sama gildi um þau rök skiptastjóra að spildunni hafi ekki verið skipt úr jörðinni í samræmi við fyrirmæli jarðalaga. Því síður skipti það máli um gildi afsalsins að endurgjald fyrir spilduna hafi verið bundið hlutdeild í rekstrarfélagi virkjunar eða spildunni afsalað án fyrirvara. Sama gildi um hugleiðingar skiptastjóra um að gildi gerningsins sé fallið niður með vísan til 8. gr. laga um fasteignakaup enda sé afsalið án fyrirvara. Þá mótmælir sóknaraðili órökstuddri fullyrðingu skiptastjóra um að I., hafi ekki haft heimild til að selja spilduna eftir að dánarbúið var tekið til opinberra skipta enda hafi I., verið eigandi spildunnar og hafi því getað ráðstafað henni að vildi.
Varakröfu sína byggir sóknaraðili á því að hingað til hafi hann talið að hann ætti spilduna og réttinn til greiðslu vegna hennar. Vilji arfláta sé ljós, þ.e. að hann ætti tilkall til greiðslu vegna spildunnar og því eðlilegt að hún verði lögð honum út. Auk þess sé það sanngirnismál að svo verði gert enda hafi varnaraðilar fengið sér lagðar út allar efnislegar eignir búsins aðrar en umrædda spildu og spildu D. Kröfuna byggi sóknaraðili á 36. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991.
Að öðru leyti vísar sóknaraðili til meginreglna erfða-, skipta-, eigna-, samninga- og kauparéttar, einkum fasteignakauparéttar. Þá er einnig vísað til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfugerð varnaraðila
Dómkröfur varnaraðila eru að 14 hektara landspilda úr landi K sem afmörkuð er á dskj. 9, og fylgdi afsali dags. 13. mars. 2006, og E telur sig hafa fengið afsal fyrir þann 12. ágúst 2014, teljist hluti af eignum dánarbúsins og þannig hluti þeirra efnislegu eigna dánarbúsins sem koma til útlagningar til varnaraðila.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðilar byggja á því að hin 14 hektara spilda úr landi K, sem sóknaraðili telji sig eiga, sé hluti af eignum dánarbúsins. Spildan hafi verið hluti eigna dánarbúsins, sem S verðmat í matsgerð sinni, sem og hinir dómkvöddu matsmenn í sinni matsgerð. Óumdeilt sé að spildunni hafi aldrei verið skipt með formlegum og réttum hætti úr landi jarðarinnar í samræmi við áskilnað 12. og 13. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Auk þess hafi endurgjald spildunnar í upphaflegu afsali verið bundið hlutdeild í rekstrarfélagi vegna virkjunar [...], sem ekki hafa orðið af innan tilskilins tímamarks eins og skjöl er mál þetta varða sýni. Skuldbindingagildi skjalsins hafi því virst hafa verið bundið fyrirvara um atvik sem ekki gengu eftir og því sé gildi gerningsins fallið niður, sbr. einnig 8. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 758/2012. Þrátt fyrir framangreint sé einnig ljóst að I., hafi aldrei haft heimild til framsals spildunnar eftir töku dánarbús G og F til opinberra skipta. Því verði að telja að umrædd spilda sé hluti af eignum dánarbúsins við skiptin.
Varnaraðilar mótmæla því sem sóknaraðili heldur fram, þ.e. að jafnvel þótt réttur til virkjunar- og vatnsréttinda hafi fallið niður, sé afsal á landspildunni sjálfri í fullu gildi. Í þessu sambandi verði að líta til þess hversu nátengd afsölin tvö voru, þ.e. um spilduna og virkjunar- og vatnsréttindi í [...], bæði um efni og stofnhátt. Í báðum afsölum hafi kaupverð verið það sama, þ.e. hlutdeild afsalsgjafa í væntanlegu rekstrarfélagi virkjunarinnar. Einnig verði að líta til þess að vatnsréttindi á spildunni hafi ekki verið aðskilin frá henni með þeim hætti sem lög geri kröfu um. Í því sambandi vísa varnaraðilar til þágildandi vatnalaga nr. 15/1923, en í 1. mgr. 16. gr. laganna segi að væru vatnsréttindi látin af hendi án þess að eignarréttur að landi væri jafnframt látinn af hendi færi um það eftir reglum um landakaup. Að gættri skipan mála árið 1923, þegar áðurnefnd lög voru sett, og með hliðsjón af því sem fram komi í forsendum dóms Hæstaréttar í málinu nr. 562/2008, hafi það verið vilji löggjafans að vatnsréttindi sem skilin hafi verið frá landareign skuli skrá í fasteignaskrá, sbr. dóm í máli Hæstaréttar nr. 22/2015, sem hafi fallið eftir að vatnalögum hafi verið breytt með lögum nr. 132/2011. Þá beri samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 16. gr. þágildandi laga að fylgja formreglum um þinglýsingu við afsal vatnsréttinda. Einnig feli ákvæðið í sér að um afsal vatnsréttinda skuli gilda reglur um fasteignir í öðru tilliti, eftir því sem við geti átt. Samkvæmt þessu hafi afsalshafa borið að skrá aðskilin vatnsréttindi í fasteignaskrá og láta meta til fasteignamats. Fyrir aðskilnað vatnsréttinda frá spildunni bar samkvæmt g. lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 að skrá þau í fasteignaskrá sem sérstaka eind. Því hafi áður en til framsals þeirra kom einnig borið að virða þau til fasteignamats eftir ákvæðum laganna. Þar sem það hafi ekki verið gert, verði ekki fallist á að aðskilnaður spildunnar og vatnsréttinda hafi verið með því móti sem heimilað hafi ráðstöfun þeirra sérstaklega. Í afsali vatnsréttinda segi að afsalið falli niður og vatnsréttindi flytjist endurgjaldslaust til afsalsgjafa ef afsalshafi hafi ekki fengið leyfi til virkjunar [...] eftir fjögur ár frá útgáfudegi. Óumdeilt sé að afsalið sé fallið niður, sbr. umrætt ákvæði, enda hafi gerningurinn verið bundinn fyrirvara um atvik sem ekki hafi gengið eftir. Þetta hljóti að verða að túlka sem svo að afsalið fyrir landspildunni hafi fallið niður á sama tíma.
Niðurstaða
Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að 14 hektara spilda, eins og hún er afmörkuð í afsali, dags. 13. mars 2006 til I og sýnd á uppdrætti VST, dags. 23. mars 2006, sé eign sóknaraðila. Sóknaraðili leiðir rétt sinn til spildunnar til afsals, dags. 12. ágúst 2014, þar sem I., hafi afsalað til sóknaraðila hinni umræddu spildu. Í nefndu afsali segir að afsalsgjafi, I., hafi eignast lóðina með afsali dags. 13. mars 2006, frá G, öðrum arfláta í máli þessu. Afsalinu fylgdi hnitsettur uppdráttur Verkfræðistofu [...] dags. 23. mars 2006.
Í framburði vitnisins N, hæstaréttarlögmanns og þáverandi helmingseiganda I ehf., fyrir dómi kom fram að arflátar hafi viljað að I., fengi landið undir virkjunarhús vegna fyrirhugaðrar virkjunar í [...] og hafi vatnsréttindi fylgt spildunni. Hins vegar hafi ekki orðið af virkjunarframkvæmdum þar sem þess hafi verið krafist að hin fyrirhugaða virkjun færi í umhverfismat. Vitnið kvaðst í tvígang hafa farið með afsalið og uppdráttinn til byggingarfulltrúans á [...] til skráningar í þeim tilgangi að fá landnúmer á landið en það hafi ekki tekist. Um ástæðu þess að I, hafi á árinu 2014 afsalað spildunni til sóknaraðila, vísaði vitnið til yfirlýsingar arfláta, dags. 13. mars 2006, þ.e. sama dag og arflátar hafi afsalað hinni umdeildu spildu til I ehf. Kvað vitnið yfirlýsingu G heitins þess efnis að hann framseldi allan rétt sinn til endurgjalds, bæði vegna vatns- og virkjunarréttarins og vegna landspildunnar til varnaraðila, hafa falið í sér fyrirmæli um að spildan skyldi verða eign sóknaraðila ef af virkjunarframkvæmdum yrði ekki. Því hafi I., afsalað spildunni til sóknaraðila með afsali dags. 12. ágúst 2014.
Samkvæmt framburði vitnisins N um samskipti hans við byggingarfulltrúa sveitarfélagsins og þess sem fram kemur í afsali G heitins til I., um að ekki hafi verið útbúið stofnskjal vegna spildunnar, liggur fyrir að við útskiptingu hinnar umdeildu spildu úr landi K á árinu 2006, hafi ekki verið gætt þeirra lögbundnu skilyrða og eftir atvikum aflað samþykkis viðeigandi stjórnvalda sem lög kveða á um. Vísast í því sambandi í fyrsta lagi til jarðalaga nr. 81/2004, einkum II., III. og IV. kafla laganna. Í 1. gr. jarðalaga segir að markmið laganna sé að setja reglur um réttindi og skyldur þeirra sem eiga land og nýta það og stuðla að skipulegri nýtingu lands í samræmi við landkosti, fjölbreytt hlutverk landbúnaðar og hagsmuni sveitarfélaga og íbúa þeirra, svo og að tryggja sem kostur er að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði varðveitt til slíkra nota. Í 2. mgr. 6. gr. jarðalaga er lagt bann við að breyta landnotkun á landbúnaðarsvæði sem er 5 hektarar eða stærra, nema leyfi ráðherra liggi fyrir. Þá segir í 10. gr. laganna að stofnun réttinda yfir og aðilaskipti að jörðum, öðru landi, fasteignum og fasteignaréttindum sem lögin gilda um skuli tilkynna sveitarstjórn. Í IV. kafla jarðalaga eru ákvæði um landskipti, sameiningu lands o.fl. Þar segir í 2. mgr. 12. gr. að við stofnun nýrra jarða og lóða skv. 2. mgr. skuli gæta ákvæða III. kafla laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Þá eru ákvæði í 13. gr. laganna um staðfestingu landskipta. Í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, eru einnig ákvæði um skiptingu lands og lóða og í 2. mgr. þeirrar greinar er vísað til þess að sérhver afmörkun landareignar skuli hafa vísun í a.m.k. eitt staðfang í samræmi við 12. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, og er þar vísað til ákvörðunar sveitarstjórnar varðandi staðfang fasteigna.
Óumdeilt er að ekki hefur verið farið að fyrirmælum fyrrgreindra laga hvað varðar hina umdeildu spildu. Væri fallist á kröfu sóknaraðila í þessum þætti málsins fælist í því fyrirvaralaus viðurkenning á stofnun sérstakrar fasteignar með umræddri afmörkun í eigu sóknaraðila án þess að í neinu hafi verið gætt að fyrirmælum framangreindra laga. Eins og mál þetta er lagt fyrir dóminn stendur því 2. gr. stjórnarskrárinnar í vegi fyrir því að unnt sé að óbreyttu að fella efnisdóm á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett, enda er það almennt ekki á færi dómstóla að taka ákvarðanir um málefni sem stjórnvaldi er að lögum falið að taka. Verður því að vísa kröfu sóknaraðila frá dómi án kröfu.
Af þessu leiðir að á meðan ekki liggur fyrir efnisleg niðurstaða um gildi afsals I ehf., til sóknaraðila E, er ekki unnt að svo stöddu að fallast á kröfur varnaraðila um að hin 14 hektara spilda tilheyri dánarbúinu.
II. Ágreiningur um hvort J tilheyri eignum dánarbúsins
Málsatvik
Þann 2. desember 2001 afsöluðu arflátar, hjónin G og F, 146 hektara landspildu úr jörðinni K til R sonar síns sem fyrirframgreiddum arfi. Eins og áður greinir lýtur annað ágreiningsefni máls þessa að stærð og mörkum umræddrar spildu. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. Q-1/2010, uppkveðnum 18. apríl 2011, var viðurkennt að við opinber skipti á dánarbúi G og F skuli taka tillit til þess að E hafi með áðurnefndu afsali, verið afsöluð 146 ha. landspilda úr jörðinni K, sem afmarkast eins og nánar greinir í afsalinu, sem fyrirframgreiddum arfi, eins og segir í úrskurðarorði. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar Íslands.
Af gögnum málsins má ráða að fyrsti skiptafundur eftir dóm Hæstaréttar í málinu nr. 24/2015, hafi verið haldinn 3. september 2015. Þar kemur fram að skiptastjóri hafi lagt fram að nýju upphaflegt frumvarp til úthlutunar, viðauka við frumvarpið til samþykkis erfingja og skiptayfirlýsingar sem lögmenn aðila höfðu sammælst um. Ennfremur hafi skiptastjóri lagt fram umsókn um stofnun lóðar E ásamt uppdrætti Verkfræðistofu [...]. Á fundinum gerði lögmaður sóknaraðila athugasemd við afmörkun á landi E og vísaði til uppdráttar sem lagður hafi verið fram í Héraðsdómi Suðurlands sem dómskjal nr. 39, þann 27. október 2014, þ.e. í máli dómsins nr. Q-3/2014. Töldu sóknaraðilar að til þess skjals hafi verið vísað í erfðaafsalinu til E frá 2. desember 2001. Hafi lögmaðurinn greint frá því að það hafi ekki verið fyrr en nefndan dag sem skjalið hafi fyrst verið lagt fram með gulum lit. Á uppdrættinum, þ.e. dómskjali nr. 39, sjáist að spilda sem nái frá sumarbústaðalóðum að ánni, svokallað J, hafi verið undanþegin í nefndu afsali. Þessu mótmælti lögmaður varnaraðila á fundinum og kom þar meðal annars fram að ekkert lægi fyrir um að þessi gulmerkti uppdráttur væri sá uppdráttur sem vísað hafi verið til í afsalinu.
Með bréfi skiptastjóra til lögmanna aðila þessa máls, dags. 7. desember 2015, er meðal annars gerð grein fyrir afstöðu skiptastjóra til framangreinds ágreiningsefnis. Þar kemur fram sú skoðun skiptastjóra að álitaefnið sé hvort ráða skuli tilvísun til hinnar afsöluðu spildu og stærðar hennar í afsalinu frá 2. desember 2001 eða uppdráttur sem vísað sé til í afsalinu að afmarki spilduna með gulum lit. Í afsalinu sé vísað til 146 hektara spildu og einungis undanskildar fimm lóðir meðfram skurði á J. Af skjalinu og orðalagi þess leiði því að vilji afsalgjafa virðist hafa staðið til þess að E fengi í sinn arfshluta spildu að greindri stærð og að einungis skyldi undanskilja greindar lóðir, sem liggja meðfram J, en ekki sjálft J. Tilgreind stærð hins afsalaða myndi því eingöngu breytast til samræmis við stærð hinna undanskildu sumarhúsalóða. Afsalið sé undirritað af öllum hlutaðeigandi aðilum og vottað. Uppdráttur sá sem erfingjarnir A, B, C og D telja að hafi fylgt afsalinu, sé hins vegar ekki undirritaður. Ekkert liggi fyrir um að ætlun aðila hafi verið að undanskilja sérstaklega þennan hluta af landinu, þ.e. J, enda ekkert kveðið á um það í texta hins undirritaða afsals. Þá sé óvissa um hvort hinn gulmerkti uppdráttur, sem framangreindir erfingjar vísi nú til, sé sá uppdráttur sem vísað sé til í afsalinu sjálfu. Að minnsta kosti sé ósannað að hlutaðeigandi aðilar hafi samþykkt þessa gulmerkingu og þar með að þannig hafi hið afsalaða átt að afmarkast, þvert gegn texta afsalsins sjálfs.
Í lok bréfs skiptastjóra til lögmanna aðila óskaði skiptastjóri eftir afstöðu erfingja eigi síðar en 11. desember 2015. Samkvæmt gögnum málsins bárust skiptastjóra svör lögmannanna með tölvupósti 15. og 17. sama mánaðar. Að þeim fengnum lá fyrir að ágreiningur var milli erfingjanna A, B, C og D annars vegar og Ehinsvegar um stærð og afmörkun af spildu E, svokallaðrar spildu D.
Kröfugerð sóknaraðila
Sóknaraðilar krefjast þess að „J“, u.þ.b. 11,6 hektara landspilda, norðaustan við „L“ og merkt með bleiku á dskj. 21 teljist hluti af eignum dánarbúsins, en ekki hluti þeirrar landspildu úr jörðinni K II sem arflátar, hjónin G og F, afsöluðu til E 2. desember 2001.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðilar byggja kröfu sína á eftirfarandi. Í fyrsta lagi að uppdráttur, sem fylgt hafi afsali hins fyrirframgreidda arfs til varnaraðila E 2. desember 2001, sýni að J sé ekki hluti þess lands sem afsalað hafi verið. Uppdrátturinn hafi verið lagður fram í Héraðsdómi Suðurlands 3. febrúar 2011 en eintak það sem afhent hafi verið sóknaraðilum hafi ekki verið í lit. Sóknaraðilar féllu frá framangreindri staðhæfingu í munnlegum málflutningi í máli þessu. Voru aðilar sammála um að uppdráttur með textanum „smækkað eint. í lit af skjali nr. 28 Í.P.“, handskrifaður í hægra horn skjalsins, hafi verið afhent dómara sem hliðsjónargagn lögmanns varnaraðila við aðalmeðferð málsins nr. Q-1/2010 þann 21. mars 2011. Hins vegar halda sóknaraðilar því fram að þeim hafi ekki verið afhent eintak uppdráttarins í lit. Því hafi sóknaraðilum ekki verið ljóst fyrr en síðar, þ.e. þegar uppdrátturinn var lagður fram að nýju sem dskj. nr. 39 í málinu nr. Q-3/2014, að J væri ekki hluti hins fyrirframgreidda arfs. Í öðru lagi byggja sóknaraðilar á því að J hafi ekki verið hluti þess lands sem kallað hafi verið L. Það sýni uppdráttur jarðarinnar K II frá ágúst 1986. Þá komi ekki fram á landskiptakorti frá mars 1991 að hið svokallaða J væri hluti af spildu D. Þvert á móti sé þar dregin lína milli lands sem merkt er D og J. Vísa sóknaraðilar til þess að J hafi alltaf verið aðskilið frá L með streng og þess gætt að fé kæmist ekki yfir í J. Hafi verið ætlunin að J fylgdi með í afsalinu hefði það verið tekið þar fram, þar sem engan veginn sé hægt að lesa út úr landskiptakortinu, uppdráttum sem lagðir hafi verið fram eða öðrum gögnum málsins að þessi hluti jarðarinnar hafi átt að fylgja með. Í þriðja lagi vísa sóknaraðilar til þess að sönnunarbyrði hvíli á varnaraðila E um það hver sú landspilda hafi verið sem honum hafi verið afsalað sem fyrirframgreiddur arfur á sínum tíma, enda ekki aðrir til frásagnar um hvað þar fór fram. E einn hafi undir höndum þau gögn sem deilt sé um og hafi hann ekki, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir á skiptafundum, lagt fram frumrit uppdráttarins. Þau gögn sem lögmaður hans hafi lagt fram sýni, svo ekki verði um villst, að J sé ekki hluti þess sem merkt er með gulu á uppdrættinum sem fylgdi erfðagerningum á sínum tíma. Varnaraðili hafi fyrst greint frá ráðstöfuninni á skiptafundi 22. maí 2009, átta árum eftir að gengið var frá erfðaafsalinu. Þau gögn sem sóknaraðilar hafi um málið stafi öll frá varnaraðila, líka skjal í stærðinni A4 þar sem áritað sé í hægra hornið „smækkað eint. í lit af skjali nr. 28, ÍP“, en þar sé J undanskilið. Í fjórða lagi séu tölur um stærð þess lands sem varnaraðila hafi verið afsalað svo mikið á reiki að ekki verði á þeim byggt. Í fyrsta lagi sé L sagður vera 160 hektarar á uppdrætti að K II frá árinu 1986. Í öðru lagi sé land G, þ.e. bæði L og J sagt vera 149 hektarar á uppdrætti frá 17. september 2003. Í þriðja lagi komi fram, þ.e. vélritað, á afsalið 2. desember 2001 að hið afsalaða land sé 146 hektara. Þá sé handskrifað inn á blaðið að frá dragist fimm lóðir og getið um stærð þeirra. Stærðartölu afsalsins sjálfs hafi þó ekki verið breytt. Engin leið sé að átta sig á því hvort með afsalinu séu arflátar að láta af hendi 146 hektara spildu að eigin mati eða 146 hektara spildu að frádreginni stærð þeirra fimm lóða sem getið er um, en þær lóðir séu rúmir þrír hektarar.
Með vísan til þessa verði ekki fallist á að J hafi verið hluti þess lands sem hin látnu greiddu varnaraðila sem fyrirframgreiddan arf árið 2001 og hljóti það því að teljast til eigna dánarbúsins og koma til skipta. Þar sem sóknaraðilar hafi krafist útlagningar á öllum efnislegum eignum dánarbúsins verði J hluti þess lands sem í þeirra hlut kemur við dánarbússkiptin.
Vísað er til 130. gr. laga nr. 91/1991 varðandi kröfu um málskostnað.
Kröfugerð varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að ákvörðun skiptastjóra um að spilda D, 146 hektara að stærð að meðtöldu J, að frádreginni stærð þeirra sumarhúsalóða sem vísað sé til í afsalinu frá 2. desember 2001, tilheyri varnaraðila. Verði aðalkröfu hans hafnað krefst varnaraðili þess til vara að viðurkennt verði að við opinber skipti á dánarbúinu skuli leggja honum út hið svokallaða J úr spildu D í landi K II.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili byggir á því að óumdeilt sé hvernig spilda D afmarkast samkvæmt landskiptakorti frá mars 1991 og að spildan sé 146 hektarar að stærð. Spilduna í heild hafi varnaraðili fengið sem fyrirframgreiddan arf eins og kveðið hafi verið á í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands frá 18. apríl 2011. Framangreint komi skýrt fram í afsalinu frá 2. desember 2001. Afsalið vísi til landspildu á svokölluðum L, merkt D, 146 hektarar að stærð. Í afsalinu séu eingöngu undanskildar fimm lóðir sem liggi meðfram skurði á J, en ekkert minnst á hið svonefnda J. Hafi ætlunin verið að undanskilja það hefði það verið tekið fram enda nesið órjúfanlegur hluti spildunnar og að auki mjög stór hluti hennar eða í kringum 10 hektarar. Hefði átt að undanskilja J hefði stærð hinna afsöluðu spildu einnig verið tilgreind önnur en 146 hektarar, þ.e. minnkun sem J næmi. Þá segi í erfðafjárskýrslu, dags. 2. desember 2001, „Landspilda merkt D úr jörðinni K“ og hvorki getið frádráttar á spildunni vegna lóðanna né J.
Rétt sé að í afsalinu komi fram að landspildan sé afmörkuð með gulum lit á uppdrætti sem fylgi afsalinu en sá uppdráttur hafi hins vegar ekki fundist. Í málinu liggi fyrir uppdráttur þar sem hluti spildu D er sýndur með gulum yfirstrikunarpenna, þ.e. öll spildan nema J. Á þeim uppdrætti virðast sóknaraðilar byggja allan sinn málflutning um kröfu þessa. Óumdeilt sé að umræddan uppdrátt lagði lögmaður varnaraðila fram sem málflutningsskjal í fyrsta ágreiningsmálinu sem flutt hafi verið vegna dánarbúsins. Á skjalið sé skráð að það hafi verið til skýringar á dómskjali nr. 28. Málflutningur í framgreindu máli hafi farið fram 21. mars 2011 og skjalið þá fyrst lagt fram. Ástæða þess að skjalið hafi verið lagt fram hafi verið sú að þetta hafi verið eina skjalið sem lögmaður varnaraðila fann í gögnum málsins og sýni spildu D í heild á minni uppdrætti. Enginn ágreiningur hafi verið um afmörkun spildunnar í því máli. Sami uppdráttur hafi síðan aftur verið lagður fram í síðara málinu sem rekið hafi verið um dánarbúið, þ.e. þann 27. október 2014, og þá sem dómskjal nr. 39. Ekkert liggi hins vegar fyrir um það að þetta skjal hafi verið það skjal sem fylgdi afsalinu árið 2001. Skjalið sjálft sanni því ekkert. Mótmælir varnaraðili því að áðurgreint dómskjal 28 hafi ekki verið lagt fram í lit eins og sóknaraðilar haldi fram. Ítrekar varnaraðili að sóknaraðilar og lögmaður þeirra hafi haft framangreint skjal í lit undir höndum frá árinu 2011.
Varnaraðili byggir einnig á því að athugasemdir við afmörkun spildu D komi allt of seint fram. Enginn ágreiningur hafi verið um afmörkun spildunnar fyrr en á skiptafundi 3. september 2015. Um afmörkun spildunnar hafi ekki verið deilt í dómsmálinu árið 2011, við gerð undir- og yfirmats né heldur við rekstur dómsmálsins árið 2014, og sóknaraðilar og lögmaður þeirra hafi haft umrætt skjal í lit frá 21. mars 2011. Hafi þeir ætlað að byggja á því hefði þeim borið að gera það strax. Varnaraðila verði ekki um það kennt að frumrit uppdráttar þess sem fylgdi afsalinu verði ekki lagður fram í lit, en sá uppdráttur hafi, ásamt öðrum frumritum, þ.e. frumritum erfðafjárskýrslu og afsals, verið afhentur sýslumanni við yfirferð erfðafjárskýrslu. Hins vegar mun uppdrátturinn ekki hafa fundist hjá sýslumanni.
Þá tekur varnaraðili undir rökstuðning skiptastjóra í bréfi hans, dags. 7. desember 2015. Álitaefnið sé í raun hvort ráða skuli tilvísun til hinnar afsöluðu spildu og stærðar hennar í afsali eða uppdráttur sem vísað er til í afsali að afmarki spilduna í gulum lit. Af orðalagi afsalsins megi ráða að vilji afsalsgjafa hafi staðið til þess að varnaraðili fengi í sinn hlut spildu að greindri stærð, eingöngu að undanskildum fimm sumarhúsalóðum en ekki J. Afsalið sé undirritað af öllum hlutaðeigendum en uppdráttur, sem sóknaraðilar byggja á, hins vegar ekki. Ósannað sé að arflátar hafi samþykkt umrædda gulmerkingu þannig að hið afsalaða hefði átt að afmarkast þvert gegn texta afsalsins sjálfs. Þá mótmælir varnaraðili því að uppdráttur jarðarinnar frá ágúst 1986 sýni að svokallað J sé ekki hluti L og að tölur um stærð L, sem afsalað hafi verið til varnaraðila, séu á reiki. Einnig sé því mótmælt að krafa sóknaraðila um útlagningu allra eigna búsins taki til J enda hafi ágreiningur um það ekki komið upp þegar sú krafa hafi verið sett fram.
Varakröfu sína um útlagningu J, verði komist að þeirri niðurstöðu að það tilheyri ekki varnaraðila, byggir varnaraðili á því að hingað til hafi allir erfingjar talið að varnaraðili ætti J. Út frá því hafi verið gengið við gerð matsgerða og í niðurstöðum þeirra dómsmála sem höfðuð hafa verið og við alla vinnu við dánarbúið. Verði J undanskilið spildu D muni það kalla á endurmat eigna og mögulega endurupptöku dómsmála. Því sé bæði eðlilegt og haganlegt að fallist verði á varakröfu varnaraðila til að raska ekki skiptum. Þá falli J best að öðrum hlutum spildu D, sem óumdeilt er að er eign varnaraðila, enda hafi J tilheyrt þeirri spildu þegar jörðinni hafi verið skipt upp. Þá liggi umferðarréttur sem tilheyri spildu D að J og yrði verulegt óhagræði fyrir varnaraðila að missa aðra aðkomuna að svæðinu. Auk þess sé það sanngirnismál að fallist verði á varakröfu varnaraðila enda hafi sóknaraðilar þegar fengið sér lagðar út allar aðrar eignir búsins, þ.m.t. alla aðra hluta jarðarinnar. Kröfuna byggi varnaraðili á 36. gr. laga nr. 20/1991.
Niðurstaða
Við upphaf aðalmeðferðar var gengið á vettvang og skoðuð landspilda sú sem ágreiningur aðila í þessum þætti málsins lýtur að. Spildan liggur spölkorn fyrir neðan þjóðveg nr. 37, [...], og er aðkoma að spildunni spölkorn fyrir vestan brúna á [...]. Óumdeilt er að mörkum spildunnar að austan ræður [...]. Í vettvangsgöngu voru D, einn sóknaraðila, og lögmaður allra sóknaraðila, og varnaraðilinn E og lögmaður hans, sammála um að mörk hinnar umdeildu spildu og lands D neðan vegar væri að norðan frá hnitapunkti L09 á uppdrætti Verkfræðistofu [...]., frá 12. desember 2013, sbr. dómskjal nr. 32, í hnitapunkt L10 í [...], og að mörk spildunnar að vestan væru frá hnitapunkti L09, við mörk fyrirhugaðra sumarhúsalóða, í suður að hnitapunkti L08 og þaðan í vestur að hnitapunkti L07 á áðurnefndum uppdrætti. Einnig voru aðilar sammála um að frá hnitapunkti L08 á dómskjali nr. 32, réði mörkum skurður, sem liggur frá þjóðvegi nr. 37, meðfram fyrirhuguðum sumarhúsalóðum að austan og langleiðina niður að [...], en umræddan skurð má greinilega sjá sem dökka línu á áðurnefndum uppdrætti Verkfræðistofu [...] Skurðurinn, sem upphaflega var vélgrafinn er greinilega merkjanlegur í landinu og sést hann einnig á þeim uppdráttum og loftmyndum sem liggja frammi í málinu. Þá voru aðilar sammála um að þar sem skurðurinn endar, þ.e. skammt vestan við [...], réði mörkum hinnar umdeildu spildu girðing sem liggur frá skurðenda niður í [...], en slitrur af girðingunni voru vel sýnilegar við vettvangsgöngu. Einnig staðfestu lögmenn aðila framangreind mörk hinnar umdeildu spildu, þ.e. J, með sameiginlegri bókun í þingbók þegar mál þetta var endurupptekið þann 12. október sl. Í munnlegum málflutningi þann 15. september sl., lýsti lögmaður varnaraðila því einnig yfir að spilda sú sem tilgreind er með bleikum lit á dómskjal nr. 21, og sóknaraðilar vísa til í dómkröfum sínum, afmarkaði hina umdeildu spildu með sama hætti og að framan greinir.
Í máli þessu hafa verið lagðir fram sex uppdrættir/landskiptakort er sýna hina umdeildu spildu. Fimm þeirra bera með sér að heimild sé Landmælingar Íslands, loftmynd J-3685, teiknað í mars 1991 og útgefandi Landkostir hf. Einn uppdrátturinn, dómskjal 30, er skýrastur hvað varðar markalínur spildu D, sem tilgreind er sem land G heitins 146 ha., þ.e. með merkingu sem er strik punktur strik. Þó svo uppdrátturinn sé ekki hnitamerktur er staðsetning markalínu að norðan, samhliða veglínu, að því er virðist á sama stað og hnitapunktarnir L09 og L10 á lóðablaði dagsettu 12. desember 2013, sem aðilar málsins eru sammála um að marki nyrðri hluta hinnar umdeildu spildu eins og áður greinir. Framangreind markalína er ekki eins greinileg á uppdrætti á dómskjali nr. 7, sem fylgdi með bréfi skiptastjóra til dómsins, þar sem land D er gullitað að hinum vélgrafna skurði sem lýst var hér að ofan og markar suður- og suðvestur hluta hinnar umdeildu spildu samkvæmt kröfugerð sóknaraðila. Einnig lögðu sóknaraðilar fram uppdrátt af K II, dómskjal 22. Þar kemur fram að heimild sé Landmælingar Íslands, loftmynd J-3685, teiknað í ágúst 1986 og útgefandi Landkostir hf. Samkvæmt gögnum málsins var jörðin K II í eigu arfláta árið 1986 en fyrir liggur að í apríl 1991 gerðu arflátar annars vegar og D, einn sóknaraðili þessa hluta málsins, með sér kaupsamning um kaup hins síðarnefnda á jörðinni að undanskildum nánar tilgreindum spildum. Allir sex uppdrættirnir eru óhnitsettir.
Meðal gagna málsins eru einnig tvö hnitsett lóðablöð Verkfræðistofu Suðurlands ehf., þar sem fram kemur að heimild sé yfirlitsmynd aðalskipulags. Annað lóðablaðið, dagsett 8. júlí 2011, lagði varnaraðili fram sem dómskjal nr. 31 í máli þessu. Hitt lóðablaðið, dags. 12. desember 2013, lagði varnaraðili fram sem dómskjal nr. 32. Óumdeilt er að bæði lóðablöðin stafa frá varnaraðila. Einnig bera gögn málsins með sér að við mat á fasteignum dánarbúsins, sem skiptastjóri fól löggiltum fasteignasala að framkvæma og dagsett er í janúar 2012, sem og í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, sem dagsett er í nóvember 2013, var lóðablaðið frá 8. júlí 2011 lagt til grundvallar. Samkvæmt því lóðablaði er stærð spildu D tilgreind sem 144,5 hektara að stærð. Hins vegar er stærð spildu D tilgreind sem 143,9 hektara á lóðablaðinu frá 12. desember 2013.
Ágreiningslaust er að varnaraðili hafi með afsali um fyrirframgreiddan arf, dagsettu 2. desember 2001, verið afsalað landspildu úr jörðinni K, sem afmarkast eins og nánar greinir í afsalinu, eins og segir í úrskurðarorði Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. Q-1/2010, sem kveðinn var upp þann 18. apríl 2011. Eftir stendur að aðilar deila um legu spildunnar, þ.e. hvort tiltekin spilda, svokallað J, skuli teljast hluti hinnar afsöluðu spildu og þar með eign varnaraðila, eða hvort J hafi verið undanskilið hinum fyrirframgreidda arfi til varnaraðila og falli því til dánarbúsins.
Í afsalinu segir um stærð spildunnar: „Undirrituð hjón G kt. [...] og F kt. [...], lýsum því yfir að við afsölum sem fyrirframgreidds arfs, til sonar okkar E kt. [...], 146 ha. landsspildu úr jörðinni K“. Fyrir neðan texta þennan, sem tilgreindur er hér að ofan innan tilvitnunarmerkja, er handskrifaður eftirfarandi texti: „Frá dragast 5 lóðir, 1 sem er 100x65m og 4 sem eru 100x60m“. Þá segir í afsalinu um afmörkun spildunnar: „Landsspilda þessi er á svokölluðum L, merk [sic] D og afmörkuð með gulum lit á uppdrætti sem fylgir afsali þessu.“ Fyrir neðan framangreindan texta er einnig handskrifaður eftirfarandi texti: „Spildurnar/lóðirnar sem dragast frá eru meðfram skurði á J.“
Óumdeilt er að í ágreiningsmálinu nr. Q-1/2010 lagði varnaraðili þessa máls fram sem dómskjal nr. 28, uppdrátt í svart/hvítu í stærðinni A5, unninn af Landkostum hf., dagsettan í mars 1991. Á uppdrættinum er meðal annars tilgreint land D, land G, þ.e. annars arfláta. Þá er handskrifað á uppdráttinn, „Lóðir sem dragast frá“, og teiknuð ör sem vísar á, að því er virðist, rissaðar útlínur fimm lóða. Einnig eru aðilar sammála um að með hliðsjónargögnum lögmanns varnaraðila til dómara við upphaf málflutnings í málinu nr. Q-1/2010 hafi sami uppdráttur fylgt, en þá í stærðinni A4 og í lit, með áletruninni „Smækkað eint. í lit af skjali nr. 28 Í.P.“. Þar er D, land G heitins, litað gult innan svæðis sem afmarkast frá mörkum [...] eftir línu sem dregin er milli lands D og lands sóknaraðilans D, sem merkt er nr. 3. Þá eru lóðirnar fimm, sem eins og áður greinir virðast rissaðar inn á uppdráttinn vestan við skurð þann sem lýst er hér að ofan í umfjöllun um vettvangsgönguna, einnig gullitaðar. Við handskrifaða textann „lóðir sem dragast frá“ er teiknuð ör sem vísar á lóðirnar. Loks eru mörk hinnar gullituðu spildu áfram eftir margnefndum skurði niður í [...]. Hins vegar halda sóknaraðilar því fram að þeir hafi við upphaf málflutnings í málinu nr. Q-1/2010 ekki fengið framangreindan uppdrátt afhentan í lit.
Sóknaraðilar þessa máls, sem halda því meðal annars fram að framangreindur uppdráttur í lit hafi fylgt afsalinu um hinn fyrirframgreidda arf til varnaraðila, vísa til þess að það hafi ekki verið fyrr en 27. október 2014 sem sóknaraðilar hafi fyrst séð uppdráttinn í lit, en óumdeilt er að lögmaður varnaraðila lagði fram sem dómskjal nr. 39, í ágreiningsmáli aðila nr. Q-3/2014, uppdrátt í lit af spildu D með áletruninni „Smækkað eint. í lit af skjali nr. 28 Í.P.“, þar sem spilda D, land G heitins, er gullitað. Af gögnum málsins má ráða að fyrsti skiptafundur eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í málinu nr. 24/2015 þann 30. janúar 2015, hafið verið haldinn 3. september sama ár og að á þeim fundi hafi lögmaður sóknaraðila gert athugsemdir við stofnun lóðar varnaraðila og vísað til dómskjals nr. 39, sem lagt hafi verið fram í Héraðsdómi Suðurlands þann 27. október 2014 í ágreiningsmálinu nr. Q-3/2014, eins og áður greinir. Varnaraðili heldur því fram að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin og vísaði lögmaður varnaraðila í munnlegum málflutningi í því sambandi til meginreglu laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., sem ráða megi meðal annars af 2. mgr. 22. gr. og VI. kafla laganna, sérstaklega 55. gr. Á þetta fellst dómurinn ekki, enda gerir 122. gr. laga nr. 20/1991 ráð fyrir því að ef ágreiningur rís um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laganna kveða sérstaklega á um, skuli honum beint til héraðsdóms. Sama gildi ef skiptastjóri telji þörf á úrlausn ágreiningsatriða sem upp koma við skiptin. Engin tímamörk eru tilgreind í greininni enda geta ágreiningefni risið milli erfingja eftir því sem skiptum framvindur eins og raunin hefur orðið við skipti á dánarbúi því sem mál þetta fjallar um.
Vitnið N hæstaréttarlögmaður bar fyrir dómi að hafa samið afsalið um hinn fyrirframgreidda arf til varnaraðila að beiðni arfláta. Staðfesti vitnið að hafa ritað eigin hendi eftirfarandi texta á afsalið. Í fyrsta lagi textann: „Frá dragast 5 lóðir, 1 sem er 100x65m og 4 sem eru 100x60m.“ Og í öðru lagi textann: „Spildurnar/lóðirnar sem dragast frá eru meðfram skurði á J.“ Vitnið kvaðst hafa útbúið drög eftir fyrirmælum arfláta, en mundi ekki hvort arflátar hafi gefið upplýsingar símleiðis eða komið til vitnisins. Hins vegar kvaðst vitnið hafa komið á heimili arfláta og setið hjá þeim nokkra stund. Kvaðst vitnið ekki hafa þekkt til staðhátta og taldi að J hafi ekki komið til umræðu í umrætt sinn. Vitnið kvaðst hafa spjallað við arfláta um gerninginn og í framhaldinu hafi verið gengið frá pappírunum endanlega. Þegar vitninu var sýndur uppdráttur Landkosta hf., frá mars 1991 í lit með áletruninni „Smækkað eint. í lit af skjali nr. 28 Í.P.“ kannaðist vitnið við uppdráttinn og kvað hann hafa verið hluta af þessu, „[...]tengist þessari erfðafjárskýrslu og þessum fyrirframgreidda arfi [...]“, eins og vitnið orðaði það. Staðfesti vitnið að hafa ritað eigin hendi inn á uppdráttinn „lóðir sem dragast frá“, og sýndist vitninu að hann hafi teiknað lóðirnar inn á uppdráttinn og hafi það verið “svona slump teiknað þarna inná“, eins og vitnið orðaði það. Kom fram hjá vitninu að það hafi verið L, sem kallaður var, sem arflátar hafi viljað afhenda varnaraðila. Kvað vitnið uppdráttinn hafa verið þannig gerðan að „ég teiknaði þetta inn á uppdrátt eftir því sem ég svona skildi að þetta væri [...] en ég afmarkaði sko þetta sennilega með einhverjum lit á borðinu hjá mér þetta svæði sem þann L sem stóð til að E fengi og útbjó yfirlýsingu vegna fyrirframgreidds arfs sem að fylgdi þessu.“ Sérstaklega aðspurt kvaðst vitnið hafa merkt gula litinn inn á uppdráttinn og þrátt fyrir að lóðirnar fimm hafi átt að dragast frá hafi hann litað þær gular. Vitnið kvaðst ekki hafa átt að undanskilja neitt af L annað en umræddar lóðir. Aðspurt hvort umrædd gul afmörkun á uppdrættinum hafi verið gerð í samráði við arfláta eða hvort vitnið hafi gert hana óstuddur svaraði vitnið. „Ég man það ekki nákvæmlega en ég veit alveg að tæknin auðvitað var mín af því að þau voru orðin svo gömul. [...] Þó vissu þau vel hvað þau voru að gera því að sko hvort þessi lína er nákvæmlega rétt dregin, þau sáu þetta.“
Í máli þessu er ágreiningslaust að fjórar af þeim fimm sumarhúsalóðum sem N hæstaréttarlögmaður teiknaði fríhendis inn á uppdrátt Landkosta frá mars 1991 eiga ekki að teljast hluti þeirri spildu sem varnaraðila var afsalað sem fyrirframgreiddum arfi með afsalinu frá 2. desember 2012.
Sönnunarbyrði um afmörkun hinnar umdeildu spildu sem varnaraðili fékk sem fyrirframgreiddan arf hvílir á varnaraðila. Varnaraðili heldur því fram að ekkert liggi fyrir um að hinn gullitaði uppdráttur sé það skjal sem fylgt hafi afsalinu árið 2001 og vísar til þess að skjalið sjálft sanni því ekki neitt. Varnaraðili hefur hins vegar í tvígang framvísað uppdrætti Landkosta hf., frá mars 1991, í lit í stærðinni A4, þ.e. í þeim tveimur ágreiningsmálum sem rekin hafa verið fyrir dómnum vegna dánarbúsins eins og áður hefur verið rakið. Þykir það eindregið benda til þess að um hafi verið að ræða uppdrátt þann sem lýst er í afsalinu um hinn fyrirframgreidda arf að afmarki spilduna. Verður varnaraðili því að bera hallann af því hafi svo ekki verið.
Þá styður framburður vitnisins N hæstaréttarlögmanns það sem sóknaraðilar halda fram í máli þessu, þ.e. að framangreindur uppdráttur í lit hafi fylgt afsali hins fyrirframgreidda arfs til varnaraðila. Þykir þar engu breyta þó svo lögmaðurinn hafi litað lóðirnar fimm með gulum lit enda ágreiningslaust í máli þessu að þær áttu að vera undanskildar. Þá þykir orðalag afsalsins um að „landsspilda þessi er á svokölluðum L“, benda til þess að ekki hafi staðið til að afsala til varnaraðila öllu því landi sem afmarkað er með línu sem sýnd er sem strik, punktur, strik á dómskjali 30, en umræddur uppdráttur er einna skýrasti uppdráttur af landi G heitins neðan þjóðvegar. Þá er tvennt sem styður fullyrðingu sóknaraðila um að hin umdeilda spilda tilheyri svokölluðu J. Í fyrsta lagi kort Landkosta hf., af K, teiknað í ágúst 1986 Á framangreindu korti kemur fram að heimildir séu meðal annars munnlegar upplýsingar ábúenda, en á þeim tíma voru arflátar ábúendur jarðarinnar. Á kortinu eru „tún“ skilgreind með rómverskum tölum og heiti túna. Þá eru „sérmæld svæði“ skilgreind með bókstöfum og heiti svæða. Á umræddu korti kemur fram að sérmælda svæðið G, sem tilgreint er 160 ha., heiti L. Einnig kemur fram að sérmælda svæðið H, 15,3 sem tilgreint er 15,3 ha, heiti J. Verður ekki annað séð en að mörk milli svæða G og H liggi eftir samsvarandi línu og önnur kort og uppdrættir sem lögð hafa verið fram í máli þessu. Þá þykir framangreindur uppdráttur renna stoðum undir það sem sóknaraðilar halda fram, þ.e. að örnefnið J, sem óumdeilt er að dregur nafn sitt af nesi í [...], nái yfir hina umdeildu spildu. Í öðru lagi þykir orðalagið „Spildurnar/lóðirnar sem dragast frá eru meðfram skurði á J“, sem fram kemur í afsalinu um hinn fyrirframgreidda arf, gefa til kynna að öll hin umdeilda spilda hafi tilheyrt J. Þá er ekki fallist á þau rök varnaraðila að í máli þessu ráði það úrslitum að uppdrátturinn sé ekki undirritaður af afsalsgjafa og afsalsþega, enda algengt að uppdrættir sem vísað er til í kaupsamningum eða afsölum séu ekki undirritaðir sérstaklega. Þá þykja fyrirmæli II., III. og IV. kafla jarðalaga nr. 81/2004, 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og III. kafla laga nr. 6/2001, ekki standa í vegi fyrir framangreindri niðurstöðu, enda liggur fyrir að eftir uppkvaðningu úrskurðar Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. Q-1/2010, þann 18. apríl 2011, hefur skiptastjóri dánarbúsins hafið vinnu við umsókn um stofnun lóðar E eins og fram kemur í fundargerð skiptafundar dánarbúsins 3. september 2015.
Af öllu framansögðu virtu er fallist á dómkröfur sóknaraðila í þessum þætti málsins á þann veg að J teljist hluti af eignum dánarbúsins, en ekki hluti þeirra landspildu úr jörðinni K II sem arflátar afsöluðu til varnaraðila R sem fyrirframgreiddum arfi þann 2. desember 2001.
Varakrafa varnaraðila
Varnaraðili krefst þess, verði aðalkröfu hans hafnað, að viðurkennt verði að við opinber skipti á dánarbúinu skuli leggja honum út hið svokallaða J úr spildu D í landi K II. Kröfunni til stuðnings vísar varnaraðili til 36. gr. laga nr. 20/1991. Varnaraðili vísar til þess að eðlilegast og haganlegast sé að leggja varnaraðila spilduna út. Slíkt myndi ekki raska skiptum þar sem gert hafi verið ráð fyrir því að J tilheyrði spildu D við gerð matsgerða. Þá falli spildan vel að öðrum hlutum spildu D, meðal annars sé önnur tveggja aðkomuleiða að spildunni um J. Sóknaraðilar hafa ekki fært fram rök gegn málsástæðum varnaraðila að þessu leyti.
Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 20/1991 segir meðal annars: Að því leyti sem maki þess látna neytir ekki réttar samkvæmt 35. gr., getur hver erfingi um sig krafist þess að fá útlagðar eignir búsins eftir matsverði til greiðslu arfs, enda hafi sá látni ekki ráðstafað eignunum sérstaklega með erfðaskrá. Þá segir í 2. málslið 2. mgr. 36. gr. Verði talið að eignin hafi sérstakt gildi fyrir tiltekinn erfingja öðrum fremur skal hann þó ganga fyrir um útlagningu, en eigi það við um fleiri erfingja en einn skal hlutkesti milli þeirra ráða.
Þó svo margnefndur skurður afmarki J frá L er nesið að sjá landfræðilegt framhald L. Þá er stærð L ásamt J samkvæmt mælingu Verkfræðistofu [...]., dags. 12. desember 2013, 143,9 hektarar, og því nánast sá hektarafjöldi sem afsal arfláta til varnaraðila kvað á um. Með vísan til þess og atvika máls þessa að öðru leyti þykir uppfyllt skilyrði áðurnefnt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 20/1991, um að J hafi sérstakt gildi fyrir varnaraðila. Varakrafa hans er því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Að virtum ágreiningi málsaðila og atvikum máls, þykir rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, að láta hvern málsaðila bera sinn kostnað af málinu.
Af hálfu erfingjanna A, B, C og D flutti Lára V. Júlíusdóttir hrl., mál þetta. Af hálfu erfingjans E, flutti Ívar Pálsson hrl., mál þetta.
Ragnheiður Thorlacius settur dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá dómi kröfum E er varða 14 hektara spildu úr landi K, sbr. afsal, dags. 13. mars 2006, og uppdrátt VST, dags. 23. mars 2006.
Kröfum A, B, C og D er varða framangreinda spildu er hafnað að svo stöddu.
Fallist er á kröfu A, B, C og D, þess efnis að J, eins og það er merkt með bleikum lit á dómskjali nr. 21, teljist hluti af eignum dánarbús G og F.
Tekin er til greina varakrafa E um að við opinber skipti á dánarbúi G og F skuli leggja E út J.
Málskostnaður fellur niður.