Hæstiréttur íslands
Mál nr. 210/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Föstudaginn 9. apríl 2010. |
|
|
Nr. 210/2010. |
Ákæruvaldið (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til 1. júlí 2010 klukkan 16 en þó aldrei lengur en þar til dómur gengur í máli hans fyrir Hæstarétti. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að sæta farbanni þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Af hálfu sóknaraðila hefur verið vísað til hættumats greiningardeildar ríkislögreglustjóra því til stuðnings að nauðsyn sé á að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi til að verja aðra fyrir árásum hans svo sem þetta er orðað í d. lið 95. gr. laga nr. 88/2008. Í málinu liggur aðeins fyrir stuttur úrdráttur þessa hættumats. Þar kemur nafn varnaraðila ekki fyrir heldur aðeins almennar lýsingar á skipulagðri glæpastarfsemi sem menn frá Litháen eru taldir halda uppi hér á landi og fullyrðing, að meðal annars varnaraðili hafi „komið við sögu lögreglu hér á landi“ og mál sé að finna í „gagnagrunnum lögreglu“ sem sýni þetta. Ekki hafa verið lögð fram í málinu önnur gögn þessu til stuðnings en nefndur úrdráttur. Varnaraðili hefur mótmælt því að hann tengist þessari ætluðu glæpastarfsemi. Hann er fæddur 1986 og kveðst hafa verið búsettur hjá móður sinni á Íslandi í um það bil þrjú ár. Vísar hann til þess að ekki sé í gögnum málsins að finna neinar upplýsingar um ætluð refsiverð brot hans hér á landi. Kveðst hann aldrei hafa gerst sekur um ofbeldisbrot eða nokkur önnur brot ef frá sé talinn sá dómur sem nú sæti áfrýjun.
Varnaraðili er erlendur ríkisborgari. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, forsendna dóms Hæstaréttar 7. desember 2009 í máli nr. 694/2009 og fordæma Hæstaréttar við skýringu á b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður fallist á að fullnægt sé skilyrðum ákvæðisins fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi varnaraðila. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur um að varnaraðili skuli sæta áfram gæsluvarðhaldi. Meðal gagna málsins er áfrýjunarstefna útgefin af ríkissaksóknara 26. mars 2010. Í tilvikum þar sem sakborningur sætir gæsluvarðhaldi ber að hraða svo sem kostur er afgreiðslu dómsgerða og gerð málsgagna samkvæmt 202. gr. laga nr. 88/2008 sem og að hraða meðferð máls að öðru leyti. Með hliðsjón af þessu verður gæsluvarðhaldstími varnaraðila ákveðinn sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi, þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 15. júní 2010 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess f.h. ríkissaksóknara að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], [...], [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi, á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 1. júlí nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 29. desember 2009 var höfðað sakamál á hendur X og fleiri mönnum. Er þeim gefið að sök mansal gagnvart stúlkunni A, [...] ára litháískum ríkisborgara, sem beitt var ólögmætri nauðung, frelsissviptingu, og ótilhlýðilegri meðferð áður en og þegar hún var send til Íslands, sem og í meðförum þeirra hér á landi, sem tóku við stúlkunni, fluttu hana og hýstu í því skyni að notfæra sér hana kynferðislega. Er brot dómfelldu aðallega heimfært til 1. tl. 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 5. gr. laga nr. 40/2003, en til vara við sama ákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins frá 18. október sl. Lögreglustjóri vísar til hættumats greiningardeildar ríkislögreglustjóra þar sem fram kemur að vitnum í málinu, þ. á m. brotaþola, stafi hætta af ákærða. Verði því að telja að vitnunum stafi veruleg hætta af dómfellda verði hann látinn laus. Þá er vísað til þess að dómfelldi sé erlendur ríkisborgari og þyki hætta vera á því að muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málssókn. Loks vísar lögreglustjóri til dóms Héraðsdóms Reykjaness yfir dómfellda frá 8. mars sl.
Um lagarök vísar lögreglustjóri til b- og d-liða 1. mgr. 95. gr., 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 199. gr. sömu laga. Þá vísar sækjandi til fordæma Hæstaréttar í málum nr. 506/2009, 507/2009 og 577/2009.
Af hálfu dómfellda er kröfu um gæsluvarðhald mótmælt og þess krafist að henni verði hafnað eða farbanni beitt.
Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 lýkur gæsluvarðhaldi þegar héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti skv. 199. gr. stendur eða mál dómfellda er til meðferðar fyrir Hæstarétti uns dómur er þar upp kveðinn. Dómfelldi var þann 8. mars sl. dæmdur í héraðsdómi þess til að sæta fangelsi í 5 ár. Hann áfrýjaði þeim dómi þann 26. mars sl. Dómfelldi hefur áður sætt gæsluvarðhaldi sem ekki hefur verið hnekkt á grundvelli b- og d-liða 95. gr. laganna. Með tilliti til þess, og með því að skilyrði 3. mgr. 97. gr. eru uppfyllt, verður krafan um gæsluvarðhald tekin til greina eins og hún er fram sett þó þannig að það standi aldrei lengur en þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X , skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 1. júlí nk. kl. 16.00 en þó aldrei lengur en þar til dómur gengur í Hæstarétti í máli hans