Hæstiréttur íslands

Mál nr. 255/1998


Lykilorð

  • Biðlaun
  • Sératkvæði


                                                   

Fimmtudaginn 11. mars 1999.

Nr. 255/1998.

Íslenska ríkið

(Jón G. Tómasson hrl.)

gegn

Teiti Gunnarssyni

(Gunnar Jónsson hrl.)

og gagnsök

Biðlaun. Sératkvæði.

T starfaði hjá Áburðarverksmiðju ríkisins og naut réttinda og bar skyldur samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með lögum nr. 89/1994 var ríkisfyrirtækið lagt niður og rekstur þess falinn hlutafélagi. Í lögunum var ákvæði þess efnis að starfsmönnum Áburðarverksmiðju ríkisins skyldi boðið sambærilegt starf hjá hlutafélaginu og þeir gegndu áður hjá ríkisfyrirtækinu. T tók við starfi hjá hlutafélaginu en stefndi ríkinu til greiðslu biðlauna á þeim grundvelli, að staða hans hjá ríkinu hefði verið lögð niður. Talið var, að skýr dómafordæmi leiddu til þeirrar niðurstöðu að nýja staðan yrði ekki talin sambærileg hinni fyrri, þar sem T hefði ekki notið hinna sérstöku réttinda starfsmanna ríkisins í hinu nýja starfi sínu, svo sem biðlaunaréttar. Ekki var fallist á að lengdur uppsagnarfrestur hjá hlutafélaginu gæti komið í stað biðlaunaréttarins. Þar sem ósannað var, að T hefði með samningum við hlutafélagið fallið frá biðlaunarétti sínum á hendur ríkinu var ríkið dæmt til að greiða T fjárhæð biðlauna í sex mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 1998. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann verulegrar lækkunar stefnukröfunnar.

Málinu var gagnáfrýjað 19. nóvember 1998. Af hálfu gagnáfrýjanda er þess aðallega krafist, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða honum biðlaun að fjárhæð 1.605.149 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga             nr. 25/1987, eins og greinir í héraðsdómi, frá 15. júlí 1994 til greiðsludags. Til vara er krafist skaðabóta sömu fjárhæðar og með sömu dráttarvöxtum. Í báðum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Í héraðsdómi kemur fram, að staða gagnáfrýjanda hjá Áburðarverksmiðju ríkisins var lögð niður á árinu 1994, þegar stofnað var hlutafélag um rekstur fyrirtækisins, sbr. lög nr. 89/1994 um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins. Tók gagnáfrýjandi boði um starf hjá hlutafélaginu, Áburðarverksmiðjunni hf., frá og með 1. júlí 1994.

Hæstiréttur hefur um það dæmt allt frá árinu 1964, að 14. gr. þágildandi laga   nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins yrði túlkuð svo, að biðlaunaréttur væri fyrir hendi við niðurlagningu stöðu, þótt sá starfi, sem stöðunni fylgdi, yrði áfram ræktur á vegum annars aðila en ríkisins, sbr. H.1964.936. Í dómum réttarins  24. október og 7. nóvember 1996, sbr. H.1996.3169 og 3417, og fimm samhljóða dómum 5. nóvember 1998 kemur og fram, að ný staða verði ekki talin sambærileg hinni fyrri, ef henni fylgja ekki hin sérstöku réttindi, sem starfsmaður naut áður samkvæmt lögum nr. 38/1954.

Óumdeilt er, að gagnáfrýjandi naut í stöðu sinni hjá Áburðarverksmiðju ríkisins réttinda ríkisstarfsmanns samkvæmt ofangreindum lögum, þar á meðal biðlaunaréttar. Sá réttur fylgdi ekki starfi því, er hann tók við hjá Áburðarverksmiðjunni hf. Uppsagnarfrestur af hálfu vinnuveitanda var hins vegar lengdur úr þremur mánuðum í sex mánuði, þegar gagnáfrýjandi hóf störf hjá hlutafélaginu. Ósannað er, að með samningi gagnáfrýjanda við félagið um uppsagnarfrest hafi hann gagnvart aðaláfrýjanda afsalað sér biðlaunarétti samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954. Verður heldur ekki á það fallist, að hinn lengdi uppsagnarfrestur geti komið í stað biðlaunaréttarins, enda er í eðli sínu ólíku saman að jafna, þegar litið er til stöðu ríkisins annars vegar og hlutafélags hins vegar. Starf gagnáfrýjanda hjá Áburðarverksmiðjunni hf. telst því ekki sambærilegt hinni niðurlögðu stöðu og skiptir frekari samanburður á kjörum gagnáfrýjanda hjá þessum tveimur vinnuveitendum hér ekki máli.

Samkvæmt framansögðu verður krafa gagnáfrýjanda um sex mánaða biðlaun tekin til greina, en í málinu er ekki tölulegur ágreiningur. Gagnáfrýjandi krefst dráttarvaxta frá gjalddögum launanna samkvæmt 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga og skýrir drátt á kröfugerð á hendur aðaláfrýjanda með því, að beðið hafi verið dóms í sambærilegu máli starfsmanns Síldarverksmiðja ríkisins gegn íslenska ríkinu, en hann var kveðinn upp 7. nóvember 1996. Með hliðsjón af 6. gr. laga nr. 89/1994 og þeim ágreiningi, sem uppi var um túlkun samsvarandi ákvæðis í 7. gr. laga nr. 20/1993 um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins, verður þó að telja, að gagnáfrýjanda hafi borið að kynna aðaláfrýjanda fyrirhugaða kröfugerð sína í beinu framhaldi þess, að fyrri staða hans var lögð niður og hann tók við nýju starfi hjá hlutafélaginu. Verða dráttarvextir því reiknaðir frá 27. mars 1997, er mánuður var liðinn frá kröfubréfi gagnáfrýjanda til fjármálaráðuneytisins 27. febrúar 1997. Niðurstaða héraðsdóms verður þá staðfest.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Teiti Gunnarssyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                           


                                               Sératkvæði

                                hæstaréttardómaranna

                                                    Garðars Gíslasonar og

                                                    Hrafns Bragasonar

                                                    í hæstaréttarmálinu nr. 255/1998:

                                                    Íslenska ríkið

                                                    gegn

                                                    Teiti Gunnarssyni

                                                    og gagnsök

Í héraðsdómi kemur fram, að staða gagnáfrýjanda hjá Áburðarverksmiðju ríkisins var lögð niður með lögum nr. 89/1994 um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins. Öll hlutabréfin áttu við stofnun félagsins að vera áfram í eigu ríkisins. Í 6. gr. laganna var mælt fyrir um að starfsmönnum fyrirtækisins skyldi boðið sambærilegt starf hjá hinu nýja hlutafélagi og þeir gegndu áður. Síðan sagði í ákvæðinu: „Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins á því ekki við um þá starfsmenn“.

Gagnáfrýjandi starfaði hjá Áburðarverksmiðju ríkisins og naut réttinda samkvæmt lögum nr. 38/1954. Honum var boðið starf hjá hlutafélaginu og tók því. Í máli því sem hér er til meðferðar telur hann að með því að staða hans var lögð niður hafi stofnast til handa honum réttur til biðlauna samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954. Ágreiningslaust er að gagnáfrýjandi átti rétt til þessara biðlauna frá aðaláfrýjanda ef hann hefði ekki þegið hið nýja starf. Ágreiningurinn í málinu lýtur hins vegar að því hvort hann eigi rétt á biðlaunum þótt hann hafi tekið við nýja starfinu.

Gagnáfrýjandi gerir kröfu til fastra launa í 6 mánuði, en til þeirra telur hann dagvinnulaun, laun fyrir fasta yfirvinnu svo og svokallaða desemberuppbót. Bendir hann á að Hæstiréttur hafi í svipuðum tilvikum viðurkennt að biðlaunaréttur væri fyrir hendi, ef hin nýja staða væri ekki sambærileg, það er að henni fylgdu ekki hin sérstöku réttindi sem starfsmaður naut áður samkvæmt lögum nr. 38/1954. Byggir gagnáfrýjandi á því að ráðningarkjör hans hjá hlutafélaginu hafi ekki orðið sambærileg. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti benti hann sérstaklega á ákvæði ráðningarsamnings síns hjá hlutafélaginu um samkeppnishömlur og um lífeyrissjóði svo og að samkvæmt honum nyti hann ekki biðlauna.

Af hálfu aðaláfrýjanda er þessu mótmælt og því haldið fram að ráðningarkjör hans hafi í alla staði verið sambærileg, að minnsta kosti ekki lakari. Hefur aðaláfrýjandi lagt fram útreikning á lífeyrisréttindum gagnáfrýjanda. Kemur þar fram að réttindin séu sambærileg eftir breytingu fyrirtækisins í hlutafélag við það sem áður var. Gagnáfrýjandi hélt áfram að vera í Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna og voru iðgjöld áfram greidd af dagvinnulaunum hans til sjóðsins. Auk þess skyldi eftir breytinguna greiða iðgjöld af öðrum launum til frjáls lífeyrissjóðs. Að því er varðar ákvæði ráðningarsamningsins um samkeppnishömlur og um lífeyrissjóð er þar að mestu leyti mælt fyrir um sömu atriði og gilda um öll fyrirtæki samkvæmt 2. mgr. 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 eða giltu um ríkisfyrirtæki almennt, sbr. 2. og 3. mgr. 34. gr. laga nr. 38/1954.

Gagnáfrýjandi hafði fyrir breytingu fyrirtækisins í hlutafélag 3 mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest. Eftir breytinguna var uppsagnarfrestur hans sá sami og fyrr, en fyrirtækið varð hins vegar að segja honum upp með 6 mánaða uppsagnarfresti.  Samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 átti hann fyrir breytinguna rétt á launum í 6 mánuði yrði staða hans lögð niður. Samkvæmt greinargerð er fylgdi frumvarpi með þeim lögum voru launin við það miðuð að maður ætti rétt á biðlaunum sem svöruðu til ríflegs uppsagnarfrests. Er ekki annað fram komið en hann njóti uppsagnarfrests sem jafna má til biðlauna.

Af því er að framan hefur verið rakið verður ekki annað ráðið en að ráðningarkjör gagnáfrýjanda eftir breytingu fyrirtækisins í hlutafélag metin í heild, hafi verið svo sambærileg við það er hann áður hafði, að hann eigi ekki, sbr. 6. gr. laga nr. 89/1994, rétt á biðlaunum. Ber því að sýkna aðaláfrýjanda af öllum kröfum gagnáfrýjanda í máli þessu.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 1998.

Ár 1998, föstudaginn 29. maí er Héraðsdómur Reykjavíkur settur í Dómhúsinu við Lækjartorg og haldinn af Skúla J. Pálmasyni héraðsdómara.

Fyrir er tekið héraðsdómsmálið nr. E-5894/1997: Teitur Gunnarsson gegn ríkissjóði Íslands, og kveðinn upp svohljóðandi dómur:

Mál þetta er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu af ríkislögmanni 15. desember 1997, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. sama mánaðar.

Það var dómtekið að afloknum munnlegum málflutningi, sem fram fór 12. maí sl.

Stefnandi málsins er Teitur Gunnarsson, kt. 300354-4679, Dalhúsum 81, Reykjavík, en stefndi er ríkissjóður Íslands, kt. 550169-2829, Arnarhváli, Reykjavík.

Dómkröfur.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum biðlaun að fjárhæð kr. 1.605.149 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 246.946 frá 15. júlí 1994 til 15. ágúst s.á., en af kr. 493.892 frá þeim degi til 15. september s.á., en af kr. 740.838 frá þeim degi til 15. október s.á., en af kr. 987.784 frá þeim degi til 15. nóvember s.á., en af kr. 1.234.730 frá þeim degi til 15. desember s.á., en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara er krafist skaðabóta sömu fjárhæðar og með sömu dráttarvöxtum og greinir í aðalkröfu.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum máls­kostnaðarreikningi.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, en til vara, krefst stefndi verulegrar lækkunar á stefnukröfunni og að málskostnaður verði felldur niður í því tilviki.

Málavextir, málsástæður og lagarök.

Málavextir, málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo, að hann hafi verið ráðinn til starfa hjá Áburðarverksmiðju ríkisins ótímabundið 1. september 1981 og starfað þar óslitið í fullu starfi, þar til Áburðarverksmiðjan hf. tók við rekstri verksmiðjunnar þann 1. júlí 1994. Hafi hann starfað við framleiðslueftirlit, fyrst sem undirmaður framleiðslustjóra en sem framleiðslustjóri frá og með 1. janúar 1988. Ekki hafi verið gerður við hann formlegur ráðningarsamningur, er hann hóf störf, en samið við hann sérstaklega með skriflegum hætti um laun og um starfslýsingu og hafi hann átt aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Stefnandi hafi verið einn þeirra fastráðnu starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins, sem boðið var starf í samræmi við 6 gr. laga nr. 89/1994. Hafi hann því verið ríkisstarfsmaður í skilningi þágildandi laga nr. 38/1954, meðan hann starfaði hjá Áburðarverksmiðju ríkisins.

Með lögum nr. 89/1994 hafi ríkisstjórninni verið falið að beita sér fyrir stofnun hlutafélagsins Áburðarverksmiðjunnar hf., sem taka átti við rekstri Áburðarverksmiðju ríkisins. Á grundvelli laganna hafi hlutafélag verið stofnað, sem tekið hafi við rekstri Áburðar­verksmiðju ríkisins 1. júlí 1994.

Stefnanda hafi verið boðið starf í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 89/1994, sem hann hafi þegið. Honum hafi þó ekki verið greidd biðlaun samkvæmt lögum nr. 38/1954, sem hann telur sig eiga tilkall til. Verði litið svo á að réttindamissir biðlauna felist í 6. gr. laga nr. 89/1994. telur stefnandi sig eiga rétt á bótum vegna sviptingar áunninna réttinda, sem ákvæðið hefði í för með sér.

Stefnandi hafi ritað stefnda kröfubréf, dags. 27. febrúar 1997 og krafðist biðlauna samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954. Hafi þar sérstaklega verið vísað til dóms Hæstaréttar, sem kveðinn var upp þann 7. nóvember 1996 í máli nr. 90/1996, íslenska ríkisins gegn Guðnýju Árnadóttur, í algerlega hliðstæðu máli.

Stefndi hafi ekki viljað fallast á ofangreinda afstöðu stefnanda, eins og fram kemur í svarbréfi hans. Þar sé einkum vísað til þess, að tilgangur hins tilvitnaða lagaákvæðis hafi verið að koma í veg fyrir, að starfsmenn, sem tækju boði um sama eða sambærilegt starf hjá hlutafélaginu með eigi lakari kjörum, en þeir höfðu áður haft, ættu jafnframt rétt til biðlauna skv. 14. gr. laga nr. 38/1954. Því til stuðnings sé bent á, að framkvæmdastjóri Áburðarverksmiðju ríkisins hafi átt þátt í samningu frumvarps um stofnun Áburðarverksmiðjunnar hf. Þá hafi stefnandi ásamt öðrum starfsmönnum haft tækifæri til að fylgjast með lagasetningunni, aðdraganda að stofnun hlutafélagsins og breyttu rekstrarumhverfi og að framkvæmdastjóra þess hafi verið falið að gera ráðningarsamninga m.a. við stefnanda með sambærilegum kjörum og hann hafði haft. Neitun stefnda á greiðslu biðlaunanna sé ástæða málsóknar þessarar.

Stefnandi byggir málsókn sína á því, að hann hafi verið ríkisstarfsmaður á þeim tíma, sem hann starfaði hjá Áburðarverksmiðju ríkisins. Lög nr. 38/1954 hafi gilt um starfskjör hans og réttindi, er Áburðarverksmiðjan hf. yfirtók rekstur Áburðarverksmiðju ríkisins. Aðalkrafa stefnanda sé reist á 14. gr. laganna, sem tryggi honum rétt til biðlauna í sex mánuði frá því að starf hans var lagt niður. Enginn vafi leiki á því, að starf stefnanda sem ríkisstarfsmanns hafi verið lagt niður, þegar Áburðarverksmiðjan hf. yfirtók rekstur Áburðarverksmiðju ríkisins, sbr. áður til­vitnaðrar 6. gr. laga nr. 89/1994 og umfjöllunar í greinargerð þar um. Þá vísist til fjölda dómafordæma Hæstaréttar í hliðstæðum málum.

Réttur hans til biðlauna hans hafi orðið virkur við niðurlagningu stöðunnar, enda hafi honum ekki verið boðin sambærileg staða með samsvarandi réttindum og hann hafði notið samkvæmt lögum nr. 38/1954, þar á meðal biðlaunaréttindum. Fjölda dómafordæma megi tilgreina þessu til stuðnings, nú síðast dóm Hæstaréttar frá 7. nóvember 1996 í máli íslenska ríkisins gegn Guðnýju Árnadóttur. Ákvæði 6. gr. laga nr. 89/1994 breyti þar engu um.

Stefnandi telur mega ráða af texta 6. gr. laga nr. 89/1994 og greinargerð með frumvarpi að lögunum, að forsenda ákvæðisins hafi verið, sú að stefnanda og öðrum fastráðnum starfsmönnum yrðu tryggð sambærileg störf hjá Áburðarverksmiðjunni hf. og þeir höfðu hjá Áburðarverksmiðju ríkisins. Fyrir því sé hins vegar ómöguleiki, þar sem starf hjá hlutafélagi geti aldrei orðið sambærilegt starfi hjá ríkisfyrirtæki með þeirri vernd sem lög nr. 38/1954 veiti. Hlutafélag geti ekki veitt stefnanda þá vernd, sem hann njóti sem ríkisstarfsmaður, en þeir njóti t.d. réttar til aðildar að Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, sérstakra réttinda í veikinda- og slysatilvikum, sérstakra réttinda í fæðingarorlofi, meira starfsöryggis en almennt gerist vegna varanleika ríkisins og skráðra sem óskráðra reglna um uppsögn ríkisstarfsmanna, og það sem einna mikilvægast sé, njóti þeir réttar til biðlauna, sé staða þeirra lögð niður.  Stefnandi telur að 6. gr. laga nr. 89/1994 sé byggð á röngum forsendum og geti ekki svipt hann þeim rétti, sem 14. gr. laga nr. 38/1954 veiti honum.

Þá byggir stefnandi á því, að ráðningarkjör hans hjá hlutafélaginu séu ekki sam­bærileg við þau sem hann áður hafði, sbr. framlagaðan ráðningarsamnings hans. Þar sé ekkert biðlaunaákvæði að finna, auk þess sem þar sé verulega íþyngjandi samkeppnishömluákvæði, sem hafi ekki verið hluti af fyrri kjörum hans. Enda þótt hann eigi áframhaldandi rétt til að greiða iðgjöld í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, munu réttindi hans verða „fryst“, þ.e. hann muni ekki öðlast þau réttindi í framtíðinni, sem hann annars mundi hafa áunnið sér með auknum starfsaldri, auk þess sem hann eigi þess ekki kost að velja sér deild í sjóðnum, eins og ríkisstarfsmenn almennt hafi getað.

Stefnandi bendir jafnframt á, að verði hann sviptur biðlaunarétti á grundvelli áðurnefndrar 6. gr. opni það leið til þess að fara í kringum biðlaunaréttinn, með því að stofna hlutafélag um starfsemi sem leggja eigi niður, áður en til niðurlagningarinnar kemur. Margrómað starfsöryggi ríkisstarfsmanna færi þá fyrir lítið, en fyrir það hafi ríkisstarfsmenn, að mati stefnanda, í gegnum tíðina greitt fyrir með lægri launum en almennt tíðkist um sambærileg störf á hinum almenna vinnumarkaði.

Stefnandi telur, að ákvæði 2. ml. 6. gr. laga nr. 89/1994 brjóti í bága við þá jafnræðisreglu, sem víða sé byggt á í Stjórnarskrá Íslands, og nú hafi verið lögfest í 65. gr. hennar, sbr. l. nr. 97/1995, og alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, ef talið verði, að réttindaskerðing felist í tilgreindu lagaákvæði. Stefnandi vísar sérstaklega til 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 2. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi í þessu sambandi.

Samkvæmt framangreindu hafi stefnandi átt rétt til biðlauna við niðurlagningu stöðu hans, þó svo að honum hefði verið boðin staða hjá Áburðarverksmiðjunni hf., sem hann hafi þegið. Stefnandi byggir á því, að ekki fái staðist gagnvart stjórnarskránni og tilvitnuðum alþjóðasáttmálum, að þröngur afmarkaður hópur fastráðinna starfsmanna hjá Áburðarverksmiðju ríkisins, þar á meðal stefnandi, sé tekinn úr hópi ríkisstarfsmanna, sem njóti verndar 14. gr. l. nr. 38/1954, og afnuminn sé biðlaunaréttur þeirra þá er hann varð virkur.

Stefnandi hafnar þeirri skoðun stefnda, að það eigi að hafa áhrif á rétt hans til biðlauna, að framkvæmdastjóri Áburðarverksmiðju ríkisins og síðar Áburðarverk­smiðjunnar hf. hafi tekið þátt í samningu laga nr. 89/1994. Þá sé haldlítil sú mótbára stefnda, að stefnandi eigi að missa lögbundinn biðlaunarétt sinn við það eitt að hann og aðrir fyrrverandi starfsmenn Áburðarverksmiðju ríkisins hafi átt þess kost, að fylgjast með lagasetningunni, án þess að gera nokkurn fyrirvara þar að lútandi. Þessar staðhæfingar stefnda séu rangar og þótt réttar reyndust, verði ekki séð, að það geti leitt til þess, að stefnandi missi lögbundin og áunnin réttindi. Lagasetningarvaldið sé hjá Alþingi og fráleitt sé, að meintar skoðanir stefnanda á rétti sínum til biðlauna eða afstaða einhverra þriðju aðila geti talist fela í sér afsal áunninna réttinda. Í þessu sambandi megi geta þess, að álit stéttarfélags stefnanda, Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, hafi legið fyrir Alþingi, þess efnis, að tíðrædd 6. gr. gæti ekki útrýmt biðlaunaréttindum starfsmanna verksmiðjunnar.

Varakrafa stefnanda byggist á því, að ótvírætt sé, að staða sú, sem hann gegndi hjá Áburðarverksmiðju ríkisins, hafi verið lögð niður og að þar með hafi stofnast réttur stefnanda og samsvarandi skylda stefnda til greiðslu biðlauna skv. 14. gr. l. nr. 38/1954. Svipting biðlaunaréttar stefnanda með sérlagaákvæði eins og 6. gr. l. nr. 89/1994 var sérstök aðgerð en ekki almenn. Hún fái ekki staðist gagnvart 72. gr. stjórnarskrárinnar (áður 67. gr.) nema fullar bætur komi fyrir. Biðlaunaréttinn telur stefnandi tvímælalaust njóta verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar að skylda til greiðslu hans hafi stofnast, er starf hans var lagt niður, þ.e. með sömu lögum og biðlaunarétturinn var afnuminn. Stefnandi telur fullar bætur vera sömu fjárhæðar og biðlaun hefðu orðið og byggir varakröfu sína sömu sjónarmiðum, sem fram komi í rökstuðningi fyrir aðalkröfu, þ.e.a.s að um brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og alþjóðasáttmála sem Ísland eigi aðild að sé að ræða.

Stefnandi byggir aðal- og varakröfu sína á launum sínum síðustu 12 mánuði fyrir niðurlagningu stöðu hans, sbr. framlagða launaseðla fyrir þetta tímabil. Til fastra launa í skilningi 14. gr. l. nr. 38/1954 teljist föst dagvinnulaun, föst yfirvinna og desemberuppbót. Biðlaunin gjaldfalli á sama hátt og ef hann hefði haldið starfi sínu óbreyttu. Því sé gerð krafa um hver mánaðarlaun frá þeim tíma er þau hefðu átt að koma til útborgunar og dráttarvaxta krafist af þeim frá sama tíma.

Málsástæður og lagrök stefnda.

Stefndi lýsir tilurð laganna nr. 89 frá 24. maí 1994 um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins með þeim hætti, að nauðsynlegt hafi þótt að skjóta styrkari stoðum undir rekstur hennar með hliðsjón af því, að einkaréttur hennar til sölu á tilbúnum áburði hafi átt að falla niður 1. janúar 1995, sbr. bókun 8 um ríkiseinkarétt í EES-samningi.

Við flutning frumvarps til laga um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins á árinu 1993 hafi veruleg óvissa ríkt um framtíð fyrirtækisins með óbreyttu rekstrarformi, eins og fram komi í greinargerð með frumvarpinu, svo og vegna væntanlegra reglna á vettvangi GATT, sem kynnu að leiða til samdráttar í framleiðslu búvöru hér á landi og þar með draga úr notkun tilbúins áburðar og því samsvarandi sam­dráttar í framleiðslu verksmiðjunnar. Með óbreyttu rekstrarformi hafi þótt sýnt, að ókleift myndi reynast að ná viðunandi rekstrarhagkvæmni miðað við áætlað framleiðslu­magn. Hlutafélagaformið hafi þótt best henta til að skapa verksmiðjunni nauðsynlegan sveigjanleika, aðlögunarhæfni og viðbragðsflýti í því skyni að tryggja framtíðarrekstur hennar. Þetta sé allt rakið í athugasemdum með frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins, svo og í framsöguræðum landbúnaðarráðherra um frumvarpið.

Landbúnaðarráðherra hafi á árinu 1992 falið Ólafi Ísleifssyni, hagfræðingi og Hákoni Björnssyni, þáverandi forstjóra Áburðarverksmiðju ríkisins, að undirbúa nauð­synlegar breytingar á lögum um Áburðarverksmiðju ríkisins í samræmi við ráðgerð markmið. Þeir hafi með bréfi til landbúnaðarráðherra, dagsettu 4. september 1992 skilað drögum að lagafrumvarpi ásamt ítarlegri greinargerð. Í bréfinu sé tekið fram, að við samningu frumvarpsins hafi verið leitað til lögmanns Áburðarverksmiðju ríkisins um ráðgjöf um lagaleg efni.

Greinargerð þeirra Ólafs og Hákons, bæði við lagafrumvarpið og einstakar greinar þess, hafi einnig fylgt orðrétt sem athugasemdir með lagafrumvarpinu, þegar það var lagt fram á Alþingi. Það hafi síðan verið lögfest óbreytt með lögum nr. 89/1994 með þeirri einu breytingu, að bætt var við ákvæði um stjórn hlutafélagsins.

Í athugasemdum frumvarpshöfunda um 6. gr. segi m.a., að þar sem ákvæðinu sé ætlað að tryggja fastráðnum starfsmönnum Áburðarverksmiðju rétt til sömu starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og þeir áður hafi gegnt, þyki ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 ekki eiga við.

Stefnandi hafi verið starfsmaður Áburðarverksmiðju ríkisins frá árinu 1981 og hafi hann verið ráðinn til hins nýja hlutafélags frá 1. júlí 1994 í sama starf og hann áður hafi gegnt og engar athugasemdir gert. Það hafi ekki gerst fyrr en með bréfi lögmanns hans frá 27. febrúar 1997. Þá hafi komið fram sú skoðun, að starf það, sem stefnandi gegni nú, sé ekki sambærilegt fyrra starfi hans hjá ríkisfyrirtækinu.

Hin breytta starfs- og samkeppnisaðstaða verksmiðjunnar hafi verið skýrð á fundi 30 júní 1994 og jafnframt hafi þar komið fram, að tilgangur lagabreytingarinnar hafi verið sá, að tryggja áframhaldandi starfsöryggi starfsmanna verksmiðjunnar. Þennan fund hafi Hákon Björnsson, forstjóri verksmiðjunnar, sótt, allir framkvæmda­stjórar og fyrirsvarsmenn einstakra rekstrarþátta, þar á meðal stefnandi, auk Sveins Snorrasonar, hrl. og Geirs Gunnarssonar, fyrrv. alþm., sem báðir hafi síðan tekið sæti í stjórn hlutafélagsins. Enginn viðstaddra hafi borið því við, að þau störf, sem stóðu þeim til boða hjá hlutafélaginu, væru ekki hin sömu eða sambærileg þeim, sem viðkomandi hafði gegnt hjá ríkisfyrirtækinu og enginn þeirra gerði fyrirvara um það, þegar skriflegur ráðningarsamningur var gerður. Enginn viðstaddra hafi kosið að hætta og þiggja biðlaun, að undanskildum verksmiðjustjóranum, sem áður hafði tekið ákvörðun um að láta af störfum, enda skammt til eftirlaunaaldurs hans.

Í öllum ferli undirbúningsins að hlutafélagsstofnuninni, hafi enginn þeirra starfs­manna, sem nú geri kröfu um biðlaun, gert nokkrar athugasemdir eða fyrirvara af nokkru tagi. Þessum starfsmönnum hafi þó öllum verið ljóst, að gengið hafi verið út frá því við ráðningu þeirra hjá hlutafélaginu, að verið væri að mati viðsemjenda að bjóða þeim sambærilegt starf. Þeim hafi þá átt að vera í lófa lagið að hafa uppi andmæli eða tjá sig með öðrum hætti, ef þeir kysu fara fram á biðlaun.

Stefndi byggir á því og kveðst leggja ríka áherslu á það, að 6. gr. laga nr. 89/1994 veiti starfsmönnum ekki hvoru tveggja rétt til forgangs til starfs og rétt til biðlauna.

Stefndi hafnar þeim sjónarmiðum stefnanda, að 6. gr. laga nr. 89/1994 brjóti í bága við almenna jafnræðisreglu, þar sem um sé að ræða skerðingu á lögbundnum réttindum, sem einungis hafi beinst að þröngum hópi manna. Þvert á móti sé á því byggt, að 6. gr. laga nr. 89/1994 skerði ekki biðlaunarétt, samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954. Tilgangur lagareglunnar hafi verið sá að veita starfsmönnum Áburðar­verksmiðju ríkisins forgangsrétt til starfa hjá hlutafélaginu við stofnun þess. Starfsmenn hafi átt val um það, hvort þeir nýttu sér þann forgang og hafi því hlotið að hafa litið svo á, að starfið hjá félaginu væri sambærilegt því starfi, sem þeir áður gegndu hjá Áburðarverksmiðju ríkisins, eða ella hafna boðinu um starfann og fara á biðlaun. Þegar af þeirri ástæðu fái sú málsástæða stefnanda ekki staðist, að jafnræðisreglan hafi verið brotin á starfsmönnum Áburðarverksmiðju ríkisins.

Staða stefnanda hefði orðið önnur og verri hefði hann valið þann kostinn að hafna starfi og fara á biðlaun. Framtíðarstarf hans hafi verið í húfi og hafi hann því valið betri kostinn og haldið áfram starfi sínu hjá hlutafélaginu á síst lakari kjörum, ef ekki betri en hann áður hafði.

Stefnandi hafi kosið að greiða áfram í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en nú sé munurinn sá, að sé greitt til sjóðsins af föstum launum en af öðrum launum hans sé greitt til frjáls lífeyrissjóðs, hvort tveggja að ósk stefnanda. Áður hafi eingöngu verið greitt af föstum launum stefnanda. Þá hafi verið leitast við að gera launakjör stefnanda og önnur starfskjör hans sem líkust því, sem hann hafi áður notið. Fjárhæð fastra mánaðarlauna og fjöldi fastra yfirvinnutíma á mánuði hafi verið óbreytt frá því sem verið hafði. Sama gildi um greiðsludag launa. Stefnandi hafi notið sömu hlunninda, svo sem greiðslu fyrir afnot af eigin bifreið og óbreyttra orlofsréttinda. Veikindaréttur hans taki mið af veikindarétti opinberra starfsmanna hverju sinni. Auk þess njóti hann nú lengri uppsagnarfrests en gildir um ríkisstarfsmenn, þ.e. 6 mánaða fyrirvara, en sjálfur geti hann sagt upp með 3ja mánaða uppsagnarfresti. Andist stefnandi í starfi fær ekkja hans eða börn 3ja mánaða sérstaka eftirlaunagreiðslu, sem sé rýmri regla en gilt hafi samkvæmt starfsmannalögum nr. 38/1954. Loks sé í ráðingarsamningi stefnanda við hlutafélagið ákvæði um gerðardóm, sem ekki tíðkist hjá ríkisstarfsmönnum. Mótmælt sé þeirri fullyrðingu stefnanda, að íþyngjandi samkeppnishömluákvæði sé í ráðningarsamningi hans við hlutafélagið, sem ekki sé í samræmi við fyrri starfskjör hans að þessu leyti. Samsvarandi ákvæði sé í 32. og 34. gr. laga nr. 38/1954. Skýra beri 32.gr. starfsmannalaganna á þann hátt, að stefnanda hefði verið óheimilt sem ríkisstarfsmanni að ráða sig til starfa hjá samkeppnisaðila við Áburðarverksmiðju ríkisins við starfslok þar. Því sé í reynd ekki um marktækan mun að ræða, en ákvæði ráðningarsamningsins setji þó tímamörk. Verði hins vegar talið, að umrætt ákvæði sé íþyngjandi fyrir stefnanda, beri að líta til þess, að á móti komi lenging uppsagnarfrests af hálfu vinnuveitanda og þar með biðlaunatími, svo og það starfsöryggi, sem starf hans hjá hlutafélaginu veitti honum umfram fyrra starfi hans hjá ríkisverksmiðjunni að óbreyttu rekstrarformi.

Stefndi hafnar ennfremur sem rangri og ósannaðri þeirri staðhæfingu stefnanda, að hann hafi fengið lægri laun en tíðkast hafi um sambærileg störf meðan hann var ríkisstarfsmaður. Stefndi heldur því fram með hliðsjón af framanrituðu, að öll skilyrði, er felist í 6. gr. laga nr. 89/1994, hefi verið uppfyllt, þannig að biðlaunaréttur 14. gr. laga nr. 38/1954 geti ekki átt við gagnvart stefnanda.

Varakröfu sína kveður stefndi setta fram, fallist dómurinn ekki á aðalkröfu hans. Stefndi styður varakröfuna þeim rökum að líta verði til þess, að atvinnuöryggi stefnanda hafi verið tryggt með 6. gr. laga nr. 89/1994 og honum hafi þannig verið að mestu bættir þeir fjárhagslegu hagsmunir, er felist í 14. gr. laga nr. 38/1954. Einnig verði í þessu tilliti að hafa hliðsjón af hinum langa uppsagnarfresti stefnanda hjá hlutafélaginu. Beita verði tilvitnaðri 14. gr. í þessu sambandi á sama hátt og væri um að ræða verr launað starf á vegum ríkisins á biðlaunatíma, eins og lagagreinin mæli fyrir um.

Þegar allt sé virt, virðist raunar erfitt að rökstyðja, að stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningur málsaðila felst í því álitaefni, hvort biðlaunaréttur stefnanda hafi fallið niður við ráðningu hans til hlutafélagsins Áburðarverksmiðjunnar hf. hinn 1. júlí 1994 með vísan til ákvæðis 6. gr. laga nr. 89/1994.

Óumdeilt er, að stefnandi naut í starfi sínu hjá Áburðarverksmiðju ríkisins réttar­stöðu opinberra starfsmanna samkvæmt lögum nr. 38/1954.

Þau lagaákvæði, sem hér reynir einkum á, er annars vegar áðurnefnd 6. gr. laga nr. 89/1994 og hins vegar 14. gr. nr. 38/1954.

Tilvitnuð 6. gr. hljóðar svo: „Fastráðnum starfsmönnum Áburðarverksmiðju ríkisins skal boðið sambærilegt starf hjá hinu nýja hlutafélagi og þeir gegndu áður hjá Áburðarverksmiðju ríkisins. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn“. Lagaákvæði þetta á sér hliðstæðu í ýmsum lögum, þar sem ríkisfyrirtækjum hefur verið breytt í hlutafélag, s.s. í 3. gr. laga nr. 45/1989 um stofnun hlutafélags um ríkisprentsmiðjunar Gutenberg, 4. gr. laga nr. 28/1993 um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins, 7. gr. laga nr. 20/1993 um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðju ríkisins, 3. gr. laga nr. 75/1994 um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins.

Ákvæði 1. mgr. 14. gr. gr. starfsmannalaga nr. 38/1954, sem hér kemur til álita, er svohljóðandi: „Nú er staða lögð niður, og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en í 12 mánuði, eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum ríkisins.“

Við breytingu á rekstrarformi Áburðarverksmiðju ríkisins í hlutafélag hinn 1. júlí 1994 á grundvelli laga nr. 89/1994 var staða stefnanda lögð niður í skilningi 14. gr. starfsmannalaganna. Við ráðningu til hlutafélagsins naut stefnandi því ekki lengur þeirra réttinda, sem starfsmannalögin veittu, né heldur bar hann skyldur samkvæmt þeim.

Því verður að taka afstöðu til þess, hvort 6. gr. laga nr. 89/1994 sé þess valdandi, að biðlaunaréttur stefnanda falli niður, eins og stefndi byggir á.

Þegar frumvarp til laga nr. 89/1994 var til meðferðar í landbúnaðarnefnd Alþingis, sendi stjórn starfsmannafélags Áburðarverksmiðju ríkisins (S.F.Á.) nefndinni bréf. Í bréfinu segir m.a. svo varðandi 6. gr. frumvarpsins: „Stjórnin leggur áherslu á að tryggt sé að með ákvæði 6. greinar frumvarpsins sé ekki verið að brjóta á lögbundnum og áunnum réttindum starfsmanna. ............Stjórn S.F.Á. fær ekki annað séð en að önnur málsgrein 6. greinar frumvarpsins skerði áunnin réttindi ákveðins hóps starfsmanna og því beri að fella hana niður.“

Fyrir liggur að stefnandi var kvaddur á fund landbúnaðarnefndar Alþingis sem fulltrúi starfsmanna verksmiðjunnar, ásamt Hákoni Björnssyni og fleirum til umræðu um umrædda 6. gr. Í framburði sínum hér fyrir dómi kváðu þeir, að nefndarmönnum hafi verið gert það ljóst að verið væri að reyna að afnema biðlaunaréttindi ákveðins hóps starfsmanna og þeirri skoðun komið á framfæri við nefndarmenn, að hæpið væri að mati ýmissa lögfræðinga, sem leitað hafi verið til, að 6. gr. frumvarpsins fengi staðist. Hákon gegndi áður forstjórastöðu hjá ríkisverksmiðjunni, en réðst til starfa hjá hlutafélaginu í hliðstætt starf. Hann hefur einnig höfðað mál á hendur stefnda til greiðslu biðlauna.

Stefnandi bar það fyrir dómi, að á fundi 30. júní 1994, þegar breytingarnar á rekstrarformi verksmiðjunnar voru kynntar, hafi komið fram fyrirspurn til Sveins Snorrasonar stjórnarformanns hlutafélagsins um biðlaunaréttinn og hafi hann gefið þau svör, að þar væri við fyrri rekstraraðila að eiga, en ekki hlutafélagið sjálft. Framburður þeirra Hákonar Björnssonar og Páls A. Höskuldssonar, sem einnig sækir mál á hendur stefnda til greiðslu biðlauna, var samhljóða framburði stefnanda að þessu leyti. Sveinn Snorrason minntist þess ekki í skýrslu sinni fyrir dóminum, að þetta atriði hafi borið að með þessum hætti, heldur taldi hann sig hafa verið að svara fyrirspurn um það, hvaða úrræði þeir ættu, sem veldu þann kostinn að ráða sig ekki til hlutafélagsins. Þeir myndu verða að sækja rétt sinn til ríkisins.

Stefnandi greindi réttinum frá því, að biðlaunaréttur hans hafi ekki komið til umræðu, þegar hann gerði ráðningarsamning sinn við hlutafélagið og því síður að því hafi verið hreyft, að lenging uppsagnarfrests úr 3 mánuðum í fyrri starfskjörum hans í 6 mánuði í ráðningarsamningnum tengdist á nokkurn hátt brottfalli biðlaunaréttar. Hann kvaðst engan fyrirvara hafa gert í sambandi við meintan biðlaunarétt sinn við gerð ráðningarsamningsins. Hákon Björnsson forstjóri, hlutafélagsins, sem annaðist gerð ráðningarsamningsins við stefnanda, staðfesti fyrir dóminum, að þessi tilgreinda breyting á ráðningarkjörum stefnanda hafi að hans mati ekki staðið í neinu sambandi við brottfall biðlaunaréttar. Stefnandi bar það ennfremur, að hvergi hafi komið fram, að hann ætti val um það að taka við nýja starfinu eða fara á biðlaun ella, hvorki í lögunum um hlutafélagið, öðrum gögnum eða í viðræðum við stjórnarformann hlutafélagsins. Hann kvað starfskjör sín hafa versnað við ráðningu hans til hlutafélagsins, að því leyti að í ráðningarsamningi hans sé ákvæði um samkeppnishömlur, sem ekki hafi verið áður. Ákvæðið sé svo víðtækt, að hann geti ekki ráðið sig til starfa hjá öðrum í Evrópu á þessu sviði, þann tíma sem tiltekið sé í ráðningarsamningnum. Einnig hafi orlofsréttur hans skerts við ráðningu hans til hlutafélagsins.

Sé litið til launakjara stefnanda hjá hlutafélaginu með hliðsjón af ákvæði umræddrar 6. gr. laga nr. 89/1994 er óumdeilt, að hann naut sömu launa hjá hluta­félaginu og hann áður fékk sem starfsmaður Áburðarverksmiðju ríkisins og flest önnur starfskjör hans voru sambærileg í hinni nýju stöðu og jafnvel betri í ýmsu tilliti. Eitt er það kjaraatriði í ráðningarsamningi hans við hlutafélagið, sem telja verður að feli í sér verulega skerðingu. Um er að ræða ákvæði í 9. gr. ráðningarsamningsins sem varðar samkeppnishömlur. Ákvæðið er svohljóðandi: „Eins lengi og forstöðumaður rannsóknastofu er í starfi hjá félaginu og allt að tveimur árum eftir að hann hefur hætt starfi hjá félaginu gilda eftirfarandi samkeppnishömlur. a) Forstöðumanni rannsóknastofu er óheimilt, án skriflegs samþykkis frá stjórn félagsins, að hafa beint eða óbeint fjárhagslega hagsmuni í nokkru félagi eða fyrirtæki sem að einhverju leyti er í samkeppni við fyrirtækið eins og það er rekið á þeim tíma. b) Einnig er forstöðumanni rannsóknastofu óheimilt að ráða sig hjá eða að vinna fyrir slíkt félag, sem stjórnarmaður, starfsmaður eða ráðgjafi.“

Stefndi byggir á því, að þetta samningsákvæði hafi í raun ekki falið í sér breytingu á kjörum stefnanda frá fyrra réttarsambandi með vísan til 32. og 34. gr. laga nr. 38/1954 Hann hafi verið bundinn þagnarskyldu samkvæmt 32. gr. laga nr. 38/1954 og sú skylda sé óbreytt, þótt starfsmaður láti af starfi, sbr. niðurlagsákvæði tilvitnaðrar lagagreinar. Ennfremur bendir stefndi á 34. gr. sömu laga, sem feli í sér samsvarandi takmörkun á athafnafrelsi ríkisstarfmanna í atvinnulegu tilliti og mælt sé fyrir um í 9. gr. ráðningarsamningsins.

Ljóst þykir, að umrætt ákvæði sé mun víðtækara og feli í sér mun meiri skerðingu fyrir stefnanda, en sú lagaskylda, sem 32. gr. og 34. gr. starfsmannalaga mæla fyrir um, og setji atvinnumöguleikum hans hérlendis þröngar skorður, kjósi hann að hverfa til annarra starfa.

Þá byggir stefndi á því, að stefnanda hafi verið bætt að fullu brottfall biðlaunaréttar með því að uppsagnarfrestur hans hafi verið lengdur til samræmis við þann biðlaunarétt sem hann naut í fyrra starfi.

Að mati dómsins er biðlaunaréttur annars eðlis en uppsagnarréttur og því sé ekki hægt að leggja þessi tvö kjaraatriði að jöfnu. Komi þetta skýrast fram í því, að hluta­félag geti orðið gjaldþrota og þá sé lengdur uppsagnarfrestur harla lítils virði, sbr. 5. gr. laga nr. 53/1993. Íslenska ríkið og fyrirtæki eða stofnanir á þess vegum sé varanlegri og traustari vinnuveitandi og vandséð er að þar geti komið til gjaldþrota.

Þegar allt það er virt sem að framan er rakið, þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á það með óyggjandi hætti, að starf stefnanda hjá Áburðarverksmiðjunni hf. sé sambærilegt fyrra starf hans og stefnandi njóti jafngóðra starfskjara og annarra réttinda sem í fyrra starfi hans hjá Áburðarverksmiðju ríkisins. Þvert á móti virðast starfskjör stefnanda hafa skerts í mörgu tilliti.

Því verður að telja að 6. gr. laga nr. 89/1994 verði ekki beitt gagnvart stefnanda.

Ekki verður heldur litið svo á, að stefnandi hafi svipt sig rétti til biðlauna með því að láta hjá líða að gera fyrirvara um biðlaun sín, þegar hann réði sig til starfa hjá hlutafélaginu og undirritaði ráðningarsamning sinn, eins og stefndi heldur fram.

Mál af þessu tagi hafa komið til kasta dómstóla og hefur Hæstiréttur felld dóm um álitaefnið, sbr. Hæstaréttardóm 1996, bls. 3417 og einnig til hliðsjónar Hæstaréttardóm 1996 bls. 3169. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar var deilt um gildi 7. gr. laga nr. 20/1993 en þau varða breytingu Síldarverksmiðju ríkisins í hlutafélag. Í niðurlagsorðum Hæstaréttar segir m.a. svo: „Dómstólar hafa túlkað 14. gr. laga nr. 38/1954 svo, að biðlaunaréttur sé fyrir hendi við niðurlagningu stöðu, þótt sá starfi sem stöðunni fylgdi, verði áfram ræktur á vegum annars aðila en ríkisins, sbr til dæmis H.1964.936 og H 1990.452. Þótt laun og viðfangsefni í hinni nýju stöðu séu þau sömu og í hinni eldri, verður nýja staðan ekki talin sambærileg hinn fyrri, ef hin sérstöku réttindi samkvæmt lögum nr. 38/1954 eru ekki fyrir hendi í nýju stöðunni.“

Þau sérstöku réttindi, sem vísað er til í dómi Hæstaréttar eru m.a. biðlaunaréttindi þau, sem deilt er um í máli þessu og 14. gr. laga nr. 38/1954 fjallar um. Stefnandi hefur ekki fallið frá þessum rétti með beinum eða óbeinum hætti né heldur verður talið, að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum að þessu leyti með því að láta hjá líða að gera fyrirvara um biðlaunarétt sinn við gerð ráðningarsamnings síns.

Ekki verður önnur ályktun dregin af dómafordæmum Hæstaréttar, en að sú stefna hafi þar verið mörkuð, að fastir starfsmenn ríkisins verði ekki sviptir áunnum réttindum sínum með sérlögum, sem beinast að þröngum hópi ríkisstarfsmanna. Verður ekki annað séð, en jafnréttissjónarmið hafi þar verið ráðandi og einnig sé á því byggt, að viðkomandi starfsmenn hafi öðlast stjórnarskrárvarinn rétt samkvæmt 72. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944 með síðari breytingum, til þeirra starfskjara, sem þeir nutu sem ríkisstarfsmenn. Í lögum þeim, sem Alþingi hefur sett á undanförnum árum og fjalla um breytingu ríkisstofnunar í hlutafélag, hefur komið skýrt fram sá vilji löggjafans, að ríkisstarfsmenn skuli sviptir rétti til biðlauna, ráði þeir sig til sambærilegra starfa hjá viðkomandi hlutafélagi. Þessum viðhorfum hefur Hæstiréttur hafnað, samanber niðurlagsorð réttarins í dómi 1996, bls. 3417, sem áður er vísað til.

Niðurstaða dómsins er því sú, að fallist er á kröfur stefnanda á hendur stefnda, enda hefur stefndi ekki mótmælt kröfu stefnanda tölulega.

Ákvörðun dómsins um dráttarvaxtakröfu stefnanda er eftirfarandi. Stefnandi tók við starfi hjá Áburðarverksmiðjunni hf. hinn 1. júlí 1994, án þess að gera fyrirvara um rétt sinn til biðlauna eða gera stefnda á annan hátt viðvart um það, að hann hygðist halda þeim biðlaunarétti sínum til laga. Stefndi hafði því réttmæta ástæðu til að ætla með hliðsjón af 6. gr. laga nr. 89/1994, að stefnandi hefði fallið frá rétti sínum til biðlauna.

Með bréfi til fjármálaráðuneytisins, dags. 27. febrúar 1997, krefur Gunnar Jónsson hrl. stefnda um biðlaun fyrir hönd stefnanda og fleiri starfsmanna Áburðarverksmiðju ríkisins, sem eins var háttað um. Með hliðsjón af þessu aðgerðarleysi stefnanda og með vísan til 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, þykir rétt, að dráttarvextir reiknist af tildæmdri fjárhæð frá 27. mars 1997 til greiðsludags.

Samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst kr. 350.000, þar með talinn virðisaukaskattur.

Skúli J. Pálmason kvað upp þennan dóm.

Dómsorð:

Stefndi, ríkissjóður Íslands, greiði stefnanda, Teiti Gunnarssyni, kr. 1.605.149, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. mars 1997 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda kr. 350.000 í málskostnað.