Hæstiréttur íslands
Mál nr. 825/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2014. |
|
Nr. 825/2014.
|
Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X (Hákon Árnason hrl.) |
Kærumál. Vitni.
X krafðist þess að tiltekið vitni, Y, yrði leitt fyrir héraðsdóm í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti, þar sem að í ljós hefði komið eftir dómsuppsögu í héraði að Y væri grunaður um refsiverð brot í öðrum málum sem til rannsóknar væru. Taldi X að mikilvægar upplýsingar hefðu ekki legið fyrir þegar héraðsdómur lagði mat á trúverðugleika Y sem vitnis í málinu. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að skýrt lægi fyrir að Y hefði haft réttarstöðu sakbornings í öðrum málum sem til rannsóknar hafði verið og því væri ekki þörf að spyrja hann um það. Sönnunarfærsla um réttarstöðu Y í öðrum sakamálum væri því bersýnilega tilgangslaus og var kröfu X hafnað. Í dómi Hæstaréttar sagði að samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væri vitni skylt að svara spurningum sem til þess væri beint um atvik málsins. Að virtri þeirri reglu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2014 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að tiltekið vitni yrði leitt fyrir héraðsdóm í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr., sbr. c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa sín verði tekin til greina.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 er vitni í sakamáli skylt að svara spurningum sem til þess er beint um atvik málsins. Að virtri þeirri reglu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2014.
Mál þetta var þingfest 5. nóvember sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 26. sama mánaðar. Sóknaraðili er X, búsettur í [...], en varnaraðili er ríkissaksóknari.
Sóknaraðili krefst þess að teknar verði skýrslur fyrir dómi af Y, búsettum í [...], í tengslum við áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-[...]/2012. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Málavextir
Með ákæru Embættis sérstaks saksóknara útgefinni 16. febrúar 2012 voru Æ, Z, X og Þ, gefin að sök brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um verðbréfaviðskipti. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum [...] 2013, í málinu nr. S-[...]/2012, voru ákærðu sakfelldir samkvæmt ákæru og dæmdir til fangelsisrefsingar. Dóminum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og mun málflutningur í málinu, sem er nr. [...]/2014 á málaskrá réttarins, fara fram [...] janúar nk. Telur sóknaraðili nauðsynlegt að beina frekari spurningum til vitnisins Y sem gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins í héraði.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að skýrsla vitnisins hafi snúið að tilteknum þáttum í tveimur ákæruliðum í III. kafla ákærunnar er vörðuðu ætlaða markaðsmisnotkun ákærðu í tengslum við kaup félagsins [...] í eigu A á hlutabréfum í [...]. Héraðsdómur hafi talið vitnið trúverðugt og hafi framburður þess verið lagður til grundvallar um það atriði málsins að sóknaraðili hafi átt að njóta hagnaðar af þeim viðskiptum sem ákært var fyrir í málinu. Málflutningur ákærðu fyrir Hæstarétti lúti m.a. að því að sönnunarmat héraðsdóms sé rangt, bæði hvað varði framagreint atriði, sem og önnur. Eftir að héraðsdómur féll í málinu hafi sóknaraðila borist upplýsingar sem máli geti skipt þegar trúverðugleiki vitnisins sé metinn. Þannig hafi komið í ljós að vitnið sé grunað um refsiverð brot í fjármálastarfsemi í öðrum málum sem sérstakur saksóknari hafi til rannsóknar. Vitnið hafi sem slíkt verið yfirheyrt í tveimur málum daginn áður en það hafi komið fyrir héraðsdóm í máli nr. S-[...]/2012. Leiði þetta til þess að mikilvægar upplýsingar hafi ekki legið fyrir þegar héraðsdómur hafi lagt mat á trúverðugleika vitnisins í málinu, sbr. 126. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili hyggist lagfæra þetta við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Til að leiða öll þessi atriði í ljós fari sóknaraðili þess á leit að skýrsla verði tekin af vitninu.
Sóknaraðili vísar til þess að vætti vitnisins muni varða réttarstöðu þess sem sakbornings í rannsóknum hjá sérstökum saksóknara, þeim yfirheyrslum sem vitnið hafi sætt daginn áður en hann gaf skýrslu fyrir dómi í fyrrnefndu máli og það hvaða hagsmuni vitnið hafi af því að verða ekki ákærður í sakamálum. Þá kunni frekari spurningum að verða beint til vitnisins um aðkomu hans að þeim viðskiptum sem ofangreint dómsmál lúti að.
Um lagarök vísar sóknaraðili til XXI. kafla laga nr. 88/2008.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að fyrir liggi að vitnið hafi verið sakborningur í öðrum málum á þeim tíma sem aðalmeðferð málsins fór fram í héraði. Því sé vart ástæða til að fram fari sérstök skýrslutaka þar sem hann verði spurður um það. Telji sóknaraðili að þessi staðreynd skipti máli um trúverðugleika vitnisins geti hann byggt á því fyrir Hæstarétti. Sama megi segja um það hvaða hagsmuni vitnið hafi af því að vera ekki ákærður í sakamálum. Augljóslega hljóti það að skipta vitnið miklu máli hvort hann sé ákærður í sakamáli og skipti í raun engu máli þótt vitnið myndi fullyrða hið gagnstæða. Vitnið hafi verið sakborningur við rannsókn þessa máls og sóknaraðila og meðákærðu hafi verið fullkunnugt um það. Þá hafi hann verið sakborningur í öðru máli þar sem ákærðu Æ, Z og Þ hafi verið meðal sakborninga og hefðu þeir fengið afhentar skýrslur af vitninu sem sakborningi í málinu. Þeim hafi því öllum verið fullkunnugt um að vitnið var sakborningur í öðru máli þegar hann gaf skýrslu við aðalmeðferðina. Þeir hafi ekki séð ástæðu til að spyrja hann sérstaklega um það. Varnaraðili telur með hliðsjón af þessu að þær spurningar, sem sóknaraðili boði að hann ætli að leggja fyrir vitnið og svör við þeim, skipti bersýnilega ekki máli og séu tilgangslaus til sönnunar í málinu og því beri að meina honum að leiða vitnið fyrir dóm að nýju, sbr. 3. mgr. 110 gr. laga nr. 88/2008.
Varnaraðili bendir enn fremur á að vitnið hafi komið fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og svarað þeim spurningum sem verjendur ákærðu og ákæruvaldið hafi beint að honum vegna málsins. Það verði ekki gert að nýju með þessum hætti.
Niðurstaða
Í 138. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem er að finna í XXI. kafla laganna, segir m.a. að óski aðili eftir að leiða vitni fyrir öðrum dómi en þar sem mál er rekið skuli hann leggja skriflega beiðni um það fyrir dómara í málinu. Þar skuli greint frá nafni vitnisins, kennitölu og heimili, svo og þeim atriðum nákvæmlega sem vætti ætti að varða. Samkvæmt 1. mgr. 140. gr. sömu laga er m.a. tekið fram að fara skuli eftir ákvæðum II. og XVIII.-XX. kafla laganna þegar vitni er leitt fyrir dóm samkvæmt fyrirmælum XXI. kafla. Loks segir í 1. mgr. 141. gr. sömu laga að eftir því sem við geti átt skuli ákvæðum 140. gr. beitt þegar sönnunargagna er aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laganna getur dómari meinað aðila sönnunarfærslu, telji hann bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um að Y verði leiddur sem vitni á því að eftir dómsuppsögu í máli nr. S-[...]/2012, þar sem að Y gaf skýrslu sem vitni, hafi komið í ljós að hann sé grunaður um refsiverð brot í öðrum málum sem sérstakur saksóknara hafi til rannsóknar. Telur sóknaraðili því að mikilvægar upplýsingar hafi ekki legið fyrir þegar héraðsdómur hafi lagt mat á trúverðugleika vitnisins í málinu og vill því spyrja vitnið spurninga varðandi réttarstöðu þess í þeim málum, þeim yfirheyrslum sem vitnið hafi sætt og um það hvaða hagsmuni vitnið hafi af því að verða ekki ákærður í sakamálum. Varnaraðili hefur staðfest að vitnið sé til rannsóknar í fleiri málum hjá embættinu. Enn fremur liggja fyrir í máli þessu svokallaðar mætingaskýrslur Y, frá 4. nóvember 2013, þar sem fram kemur að hann nýtur réttarstöðu sakbornings, við rannsókn mála sérstaks saksóknara nr. [...] og nr. [...]. Sætti hann yfirheyrslu í hinu fyrrnefnda máli frá kl. 9.33 til 11.33 f. h. en hinu síðarnefnda kl. 13.15 til 18.15 þann dag. Er sakarefni þessara mála ótengt ákæruatriðum í máli nr. S-[...]/2012. Að mati dómsins liggur því skýrt fyrir að vitnið hefur haft réttarstöðu sakbornings í málum hjá sérstökum saksóknara, öðrum en því sem síðar varð grundvöllur ákæru í framangreindu héraðsdómsmáli, og hefur sem slíkur sætt yfirheyrslu í þeim málum. Er því ekki þörf fyrir sóknaraðila að spyrja vitnið um þess staðreyndir. Telji sóknaraðili að réttarstaða vitnisins við rannsóknir nefndra mála hafi áhrif á trúverðugleika framburðar þess er honum fært að byggja á því við meðferð málsins fyrir Hæstarétti Íslands. Þá er vandséð hvaða þýðingu spurning sóknaraðila til vitnisins, um það hvaða hagsmuni það hafi af því að verða ekki ákært í sakamálum, hefur í málinu. Augljóst má vera að vitnið, líkt og allir aðrir einstaklingar, hefur verulegt óhagræði af því að sæta ákæru. Að mati dómsins er sönnunarfærsla, hvað varðar réttarstöðu vitnisins í öðrum sakamálum, því bersýnilega tilgangslaus.
Sóknaraðili vísar einnig til þess að hann kunni að beina frekari spurningum til vitnisins um aðkomu hans að þeim viðskiptum sem dómsmál nr. S-[...]/2012 laut að. Sóknaraðili hefur ekki lýst því frekar hvaða spurningar hann vilji leggja fyrir vitnið eða rökstutt af hverju hann telji þörf á þessari sönnunarfærslu, sbr. 138. gr. laga nr. 88/2008. Er þessi sönnunarfærsla því einnig bersýnilega tilgangslaus.
Samkvæmt þessu er beiðni sóknaraðila hafnað.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Beiðni sóknaraðila, X, um að tekin verði skýrsla fyrir dómi af vitninu Y, í tengslum við áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-[...]/2012 er hafnað.