Hæstiréttur íslands

Mál nr. 197/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. júní 2003.

Nr. 197/2003.

Hf. Eimskipafélag Íslands

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

gegn

Tryggingafélaginu Föroyar

(enginn)

 

Kærumál. Málskostnaður.

T höfðaði mál á hendur E hf., en krafðist þess að málið yrði fellt niður eftir að E hf. hafði lagt fram greinargerð í því. E hf. kærði til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara þar sem T var gert að greiða félaginu 170.000 kr. í málskostnað og krafðist þess að málskostnaður yrði ákvarðaður í samræmi við yfirlit þar um frá lögmanni félagsins. Talið var að málatilbúnaður T í héraði hafi ekki verið jafn skýr sem skyldi og því eðlilegt að umfang greinargerðar E hf. í héraði hafi verið nokkuð meira en ella. Það hafi þó ekki gefið félaginu tilefni til þess viðamikla skriflega málflutnings, sem hafi falist í greinargerð þess fyrir héraðsdómi. Þegar aðstaðan í málinu sé virt í heild sinni, umfang málsins og þeir hagsmunir, sem um hafi verið deilt, sem og það að annað samkynja mál milli aðilanna hafi verið rekið fyrir héraðsdómi á sama tíma þyki hæfilegt að T greiði E hf. 500.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2003, þar sem mál varnaraðila gegn sóknaraðila var fellt niður og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 170.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málskostnaður verði ákveðinn í samræmi við framlögð gögn um kostnað sinn af málinu, en til vara samkvæmt mati Hæstaréttar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að sóknaraðili tók að sér í september 1999 að flytja fyrir félagið Faroe Seafood Prime samtals 23.184 kg af frystum þorskflökum frá Þórshöfn í Færeyjum til Helsinki í Finnlandi, en kaupandi þeirra var félagið Finnfrost OY. Munu starfsmenn fyrrnefnda félagsins hafi séð um að koma farminum fyrir í frystigámi, sem sóknaraðili lagði til, en hinn síðarnefndi hafði gengist undir þann skilmála að hitastigi á farminum yrði haldið í 24 gráðum undir frostmarki meðan á flutningi stæði. Gámurinn var síðan settur um borð í skip sóknaraðila 24. september 1999, sem lét úr höfn í Þórshöfn sama dag. Kom skipið til Hamborgar í Þýskalandi tveimur dögum síðar þar sem gámurinn stóð í tvo sólarhringa. Eftir það var honum komið fyrir í öðru skipi, sem sigldi til Helsinki, en þangað kom það 1. október sama árs. Mun gámurinn hafa verið afhentur viðtakanda 7. sama mánaðar. Hann mun hins vegar hafa hafnað því að taka við farminum þar sem áskilið hitastig væri ekki á fiski á brettum næst dyrum gámsins, auk þess sem kælivél gámsins hafi ekki verið í gangi í tvo daga meðan á flutningum stóð. Í framhaldi af því létu sendandi vörunnar og sóknaraðili  skoða farminn, en hitastig á fiski, sem var geymdur á brettum næst dyrum gámsins reyndist vera milli 12 og 13 gráður undir frostmarki. Í desember sama árs var gámurinn sendur til baka til Færeyja þar sem farmurinn var skoðaður á nýjan leik. Varnaraðili mun hafa bætt sendanda tjónið og mun hann í framhaldi af því hafa beint endurkröfu að sóknaraðila um bætur fyrir farminn, en sá síðarnefndi hafnaði kröfunni. Höfðaði varnaraðili þá mál á hendur sóknaraðila fyrir dómstóli í Færeyjum, en málið mun síðar hafa verið fellt niður. Höfðaði varnaraðili í kjölfarið mál þetta með stefnu 4. nóvember 2001 þar sem hann krafðist þess að sóknaraðili yrði dæmdur til að greiða sér 442.048 danskar krónur með nánar tilteknum dráttarvöxtum ásamt málskostnaði. Sóknaraðili tók til varna í málinu og lagði fram greinargerð. Á dómþingi 2. maí sl. krafðist varnaraðili þess hins vegar að málið yrði fellt niður. Gerði sóknaraðili þá kröfu um að sér yrði úrskurðaður málskostnaður úr hendi varnaraðila. Gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því.

II.

Aðalkrafa sóknaraðila er reist á því að dæma beri honum málskostnað í samræmi við framlögð gögn um kostnað hans af málinu, sbr. 3. mgr. 129. gr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Hefur hann lagt fram yfirlit frá lögmanni sínum þar sem kemur fram að þóknun lögmannsins sé 1.284.840 krónur, en þar er miðað við vinnu í 86 klukkustundir og 12.000 krónur fyrir hverja klukkustund auk virðisaukaskatts. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Er aðila rétt að krefjast greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila síns eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi sem er lagður fram ekki síðar en við aðalmeðferð máls, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna.

Málatilbúnaður varnaraðila í héraði var ekki jafn skýr sem skyldi, sbr. e. og f. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og því eðlilegt að umfang greinargerðar sóknaraðila í héraði hafi verið nokkuð meira en ella. Það gaf þó ekki tilefni til þess viðamikla skriflega málflutnings, sem fólst í greinargerð hans fyrir héraðsdómi. Þegar aðstaðan í máli þessu er virt í heild sinni, umfang málsins og þeir hagsmunir, sem um var deilt, sem og það að annað samkynja mál milli aðilanna var rekið fyrir héraðsdómi á sama tíma þykir hæfilegt að varnaraðili greiði sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Varnaraðili, Tryggingafélagið Föroyar, greiði sóknaraðila, Hf. Eimskipafélagi Íslands, 500.000 krónur í málskostnað í héraði.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2003.

                Af hálfu stefnanda, Trygingafélagsins Föroyar, er krafist niðurfellingar máls­ins.

                Af hálfu stefnda, Hf. Eimskipafélags Íslands, er krafist málskostnaðar.

                Fella bera málið niður.

                Ákveðið er að stefnandi greiði stefnda 170.000 krónur í málskostnað.

Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Málið er fellt niður.

Stefnandi, Trygingafélagið Föroyar, greiði stefnda, Hf. Eimskipafélagi Íslands, 170.000 krónur í málskostnað.